Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-174
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Slysatrygging ökumanns
- Líkamstjón
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. desember 2024 leita TM tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. nóvember sama ár í máli nr. 397/2023: TM tryggingar hf. gegn A og gagnsök. Gagnaðili er ekkja A og fékk leyfi til setu í óskiptu búi 13. febrúar 2025. Hún leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns vegna atviks 25. febrúar 2019. Þá varð A fyrir alvarlegu líkamstjóni við affermingu á vöruflutningabifreið. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort umrætt tjónsatvik skuli heimfært undir notkunarhugtak 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem voru í gildi þegar slysið varð.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um bótaskyldu úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns. Landsréttur lagði til grundvallar að bifreiðin hefði verið í hefðbundinni notkun þegar slysið bar að höndum og kyrrstæð. Mætti slysið rekja til þess að festingarbúnaður hurðar á tengivagni hennar hefði ekki virkað sem skyldi við þær veðuraðstæður sem voru uppi. Að því virtu taldi Landsréttur að slysið hefði mátt rekja til sérstaks búnaðar bifreiðarinnar og eiginleika ökutækisins sem flutningabifreiðar. Var því fallist á að leyfisbeiðandi bæri bótaábyrgð á tjóninu samkvæmt 92. gr., sbr. 88. gr. þágildandi laga nr. 50/1987. Landsréttur féllst hins vegar ekki á málsástæður leyfisbeiðanda um að fella skyldi niður rétt til bóta eða skipta sök, sbr. 2. mgr. 88. gr. sömu laga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Feli niðurstaða Landsréttar í sér frávik frá langri dómaframkvæmd Hæstaréttar um notkunarhugtak þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. nú 4. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019, auk þess sem hún grundvallist á rangri túlkun á dómaframkvæmd. Hefðbundin túlkun hafi verið á þá leið að notkunarhugtakið eigi við þegar tjón verði vegna ökutækis í akstri eða vegna sérstaks búnaðar eða eiginleika bifreiðar sem ökutækis vegna hraða, vélarafls eða þyngdar hennar. Landsréttur hafi hins vegar talið að festingarbúnaður, sem í raun sé aðeins sveif eða armur á tengivagni sem festur hafi verið við flutningabifreið í umrætt sinn, teljist sérstakur búnaður ökutækis og hafi falið í sér eiginleika bifreiðarinnar sem ökutækis, þrátt fyrir enga tengingu við vélarafl eða rafbúnað hennar. Í niðurstöðu héraðsdóms hafi verið vísað til réttarþróunar sem hafi falið í sér rýmkun á notkunarhugtakinu þó hennar virðist hvergi gæta í dómum Hæstaréttar og af niðurstöðu dómsins megi ráða að Landsréttur hafi staðið í sömu trú. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar kunna að leiða til þess að fleiri tjón en áður verði talin falla undir hlutlæga ábyrgð lögboðinna ökutækjatrygginga. Þá byggir leyfisbeiðandi á að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, einkum um túlkun á dómafordæmum Hæstaréttar og afstöðu til matsgerðar. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að slysið hafi orðið vegna utanaðkomandi afls í formi vindhviðu og án tengingar við notkun bifreiðarinnar.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.