Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2010


Lykilorð

  • Útlendingur
  • Stjórnsýsla
  • Fyrirsvar
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 14. október 2010.

Nr. 28/2010.

B og

A

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Útlendingar. Stjórnsýsla. Fyrirsvar. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta. Gjafsókn.

B sótti um dvalarleyfi fyrir stúlkuna A hjá útlendingastofnun í maí 2006, en í umsókn sinni kvaðst hún vera móðir barnsins. B er fædd á Filippseyjum, en flutti hingað til lands, gekk í hjúskap 1995 og öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt. Útlendingastofnun veitti barninu tímabundið dvalarleyfi á íslandi frá 30. október 2006 til 1. september 2007. Í skýrslugjöf hjá lögreglu 6. mars 2007 viðurkenndi B að hún væri ekki móðir A. Í kjölfar þess var dvalarleyfi barnsins afturkallað með ákvörðun útlendingastofnunar í ágúst 2007, sem í janúar 2009 var staðfest af dómsmálaráðherra. B, persónulega og fyrir hönd A, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður ráðuneytisins. Í héraðsdómi var íslenska ríkið sýknað af kröfu hennar. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að í maí 2009 hafi fjölskyldunefnd Y ákveðið að taka forsjá A í sínar hendur og í júní sama ár hafi barninu verið komið á fósturheimili. Í byrjun ágúst 2010 hafi útlendingastofnun veitt stúlkunni dvalarleyfi til eins árs á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Ekki lægi fyrir annað en að forsjá A væri enn í höndum nefndarinnar, en gögn málsins bæru ekki með sér að barninu hafi verið skipaður lögráðamaður samkvæmt 32. gr. barnaverndarlaga. Fram kemur að samkvæmt áfrýjunarstefnu hafi það ekki verið fjölskyldunefnd Y sem hafi tekið ákvörðun um að áfrýja héraðsdómi í þágu barnsins og við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti hafi verið staðfest að svo hafi ekki verið. Taldi Hæstiréttur því að heimild skorti til áfrýjunar fyrir hönd áfrýjandans A og var málinu þegar af þeim sökum vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti að því er hana  varðaði. Hvað varðaði áfrýjandann B segir í dóminum að samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir réttinn hafi verið staðreynt með greiningu lífssýna að tiltekin kona á Filippseyjum væri kynmóðir A.  Á engan hátt hafi verið sýnt fram á að B hafi ættleitt A og hafi heldur ekki verið leitast við að skýra á hvaða lagalega grunni B gæti hafa farið með málefni barnsins. Í málinu hafi B því ekki sjálf lögvarinna hagsmuna að gæta af því að afla úrlausnar dómstóla um gildi þeirra stjórnsýsluákvarðana sem hún krafðist endurskoðunar á. Þegar af þeirri ástæðu var málinu vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum að því er B varðaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2010. Þær krefjast þess að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðherra 26. janúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun útlendingastofnunar 29. ágúst 2007 um að afturkalla dvalarleyfi áfrýjandans A hér á landi. Þá krefjast þær málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur aðilanna að lögmæti ákvörðunar útlendingastofnunar 29. ágúst 2007, sem dómsmálaráðherra staðfesti 26. janúar 2009, um að afturkalla leyfi áfrýjandans A, sem mun vera fædd Filippseyjum 27. nóvember 1999, til dvalar hér á landi. Þetta leyfi var gefið út 30. október 2006 og skyldi gilda til 1. september 2007.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, voru málefni áfrýjandans A tekin fyrir á fundi fjölskyldunefndar Y 5. maí 2009, sem ákvað að taka forsjá barnsins í sínar hendur samkvæmt 2. mgr. 32. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Einnig var ákveðið samkvæmt c. lið 1. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki mætti fara með barnið úr landi, svo og að barnið dveldist áfram á heimili áfrýjandans B og K undir eftirliti barnaverndarnefndar. Fjölskyldunefndin mun síðan 9. júní sama ár hafa látið færa barnið af heimilinu og komið því á annað fósturheimili, þar sem það mun enn dveljast, en útlendingastofnun veitti stúlkunni 3. ágúst 2010 dvalarleyfi til eins árs á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Ekki liggur annað fyrir en að forsjá áfrýjandans A sé enn í höndum fjölskyldunefndar Y og bera gögn málsins ekki með sér að barninu hafi verið skipaður lögráðamaður samkvæmt 32. gr. barnaverndarlaga. Af áfrýjunarstefnu verður ekki séð að fjölskyldunefnd Y hafi í þágu barnsins tekið ákvörðun um að áfrýja héraðsdómi og var staðfest af hendi áfrýjenda við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að svo hafi ekki verið. Heimild skorti því til áfrýjunar fyrir hönd áfrýjandans A og ber þegar af þeim sökum að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti að því er hana varðar.

II

Samkvæmt gögnum málsins mun áfrýjandinn B vera fædd 1968 á Filippseyjum, en hafa flust hingað til lands, gengið hér í hjúskap og fengið íslenskan ríkisborgararétt. Hún sótti um dvalarleyfi fyrir barnið A til útlendingastofnunar 2. maí 2006 og kvaðst vera móðir hennar. Stofnunin veitti barninu sem áður segir tímabundið dvalarleyfi á Íslandi frá 30. október 2006 til 1. september 2007. Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi komu fram efasemdir um að áfrýjandinn B væri í raun móðir barnsins og fór svo að hún viðurkenndi við skýrslugjöf hjá lögreglu 6. mars 2007 að svo væri ekki. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, hefur nú verið staðreynt með greiningu lífssýna að tiltekin kona á Filippseyjum sé kynmóðir A og staðhæfir áfrýjandinn B að nafngreindur bróðir sinn sé kynfaðir barnsins, en þessu bar hún þegar við í fyrrgreindri skýrslugjöf hjá lögreglu. Á engan hátt hefur verið sýnt fram á að þessi áfrýjandi hafi ættleitt barnið og hefur heldur ekki verið leitast við að skýra á hvaða lagalega grunni áfrýjandinn geti hafa farið með málefni barnsins. Þrátt fyrir þetta allt tók dóms- og kirkjumálaráðuneytið við kæru áfrýjandans B á ákvörðun útlendingastofnunar frá 29. ágúst 2007 og nefndi hana að auki í úrskurði 26. janúar 2009 kæranda í stað hins ólögráða barns. Þessi málsmeðferð ráðuneytisins getur hvað sem öðru líður engu breytt um það að áfrýjandinn B hefur ekki sjálf lögvarinna hagsmuna að gæta af því að afla úrlausnar dómstóla um gildi þessara stjórnsýsluákvarðana. Þegar af þessari ástæðu verður að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi að því er þennan áfrýjanda varðar.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða látin standa óröskuð. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétt falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar áfrýjandann A.

Málinu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar áfrýjandann B.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 300.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2009

         Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 4. desember sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 21. apríl sl. Sætir málið flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

         Stefnendur eru B, [...], [...], persónulega og vegna A, til heimilis á sama stað.

         Stefndu eru Útlendingastofnun, Skógarhlíð 6, Reykjavík og íslenska ríkið. Fyrir hönd íslenska ríkisins er dómsmálaráðherra stefnt í málinu.

         Endanleg krafa stefnenda er að ógiltur verði með dómi úrskurður dómsmálaráðherra 26. janúar 2009 þar sem  staðfest var sú ákvörðun stefndu, Útlendingastofnunar, dagsett 29. ágúst 2007, að afturkalla dvalarleyfi stefnanda, A, kt. [...], hér á landi. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, in solidum, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

         Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda, auk málskostnaðar.

Málavextir  

Aðila greinir á um málavexti, en samkvæmt gögnum málsins eru þeir eftirfarandi:

Stefnandi, B, er fædd og uppalin á Filippseyjum og á þar fjölskyldu. Hún fluttist hingað til lands fyrir mörgum árum, gekk í hjónaband árið 1995 og er nú íslenskur ríkisborgari. Með umsókn til Útlendingastofnunar 2. maí 2006 sótti B um dvalarleyfi á Íslandi fyrir barnið A. Í umsókn kemur fram að telpan sé filippseyskur ríkisborgari, fædd [...] og að umsækjandi, B, sé móðir hennar. Nafn föður er ekki skráð í viðeigandi reit á eyðublaðinu, en skráð er að tilgangur dvalarinnar sé að barnið búi hjá móður sinni. Fram kemur í rituðum texta á umsóknareyðublaðinu að umsækjandi lýsi því yfir við undirritun að allar upplýsingar séu sannar og réttar og ekkert undanskilið. Á sama stað er bent á að rangar upplýsingar geti varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi, auk brottvísunar úr landi samkvæmt 20. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Útlendingastofnun óskaði eftir því að B skilaði staðfestu frumriti af fæðingarvottorði barnsins og vottorði um að hún færi ein með forræði þess. Í framhaldi af því bárust Útlendingastofnun ýmis skjöl frá Filippseyjum, sem ætlað var að staðfesta að umsækjandi væri móðir barnsins og að hún hefði forsjá þess. Skjölin eru öll rituð á ensku, en hafa undir rekstri málsins verið þýdd á íslensku. Þau skjöl, sem hér skipta máli eru eftirfarandi:

1. Fæðingarvottorð (Certificate of live Birth). Vottorðið er gefið út af Skráningarskrifstofu Filippseyja 26. nóvember 2004, en áletrað um að skráningin sé síðbúin („Late registration“). Samkvæmt því er barnið A fætt í [...], [...], [...], Filippseyjum, og er móðir þess skráð C. Barnið er skráð fyrsta barn móðurinnar, sem sögð er [...] ára gömul við fæðingu þess. Ekkert er skráð um föður barnsins, aðeins að hann sé óþekktur. Að sama skapi er ekkert skráð um hjúskap foreldra barnsins. Vottur að skráningunni er D, sem skráður er sem móðurbróðir barnsins (uncle).

Með fæðingarvottorðinu fylgir yfirlýsing vegna síðbúinnar skráningar á fæðingu barnsins. Þar lýsir D því m.a. yfir að hann sé umsækjandi um síðbúna skráningu á fæðingu A, að barnið sé fætt [...] og að síðbúin skráning fæðingarinnar sé vegna vanrækslu. Ritar hann undir skjalið sem móðurbróðir barnsins, ásamt embættismanni og opinberum skrásetjara í [...], [...] á Filippseyjum.

2. Yfirlýsing (Affidavit of Custody) E, móður B, þess efnis að dóttir hennar, B, sé móðir A og að barnið hafi verið í hennar umsjá frá fæðingu, þar eð móðirin hafi starfað á Íslandi. Yfirlýsingin er undirrituð af útgefanda 1. apríl 2006, en einnig sögð undirrituð í viðurvist lögmanns í [...] á Filippseyjum 3. apríl 2006.

3. Yfirlýsing B um framfærslu (Afiddavit of Support). Þar lýsir B því yfir að hún sé móðir A, sem nú dvelji hjá móður hennar á Filippseyjum, að hún hyggist fá telpuna „hingað“ til Íslands og að hún muni hafa forræði yfir henni og annast hana á heimili sínu „hér“ á Íslandi. Þá lýsir útgefandi því yfir að hún muni styðja barnið fjárhagslega og ábyrgjast öryggi þess, og að hún hafi lagt fé til hliðar í því skyni að hún geti veitt dóttur sinni allt sem hún þarfnist. Skjalið er undirritað af B 22. dag ótilgreinds mánaðar 2006, en stimplað og undirritað 16. júní 2006 af lögbókanda á Filippseyjum.

4. Yfirlýsing um forræði (Legal Custody), dagsett 26. júní 2006. Þar lýsir B því yfir að hún sé lögmæt móðir A og að hún hafi haft forræði yfir barninu frá fæðingu þess. Yfirlýsingin er undirrituð í viðurvist lögbókanda í [...] 26. júlí 2006.

5. Sameiginleg yfirlýsing tveggja óvilhallra einstaklinga (Joint Affidavit og two disinterested Persons). Samkvæmt skjalinu lýsa F og G, bæði filippseyskir ríkisborgarar og nágrannar og vinir [...] fjölskyldnanna, því yfir að þau þekki persónulega og vel B, sem fengið hafi íslenskt ríkisfang og sé nú starfandi á Íslandi. Þeim sé kunnugt um að hún hafi fætt barn utan hjónabands 27. nóvember 1999 og hafi barninu verið gefið nafnið A. Segjast þau vita fyrir víst að B sé einstæð kynmóðir A og móðir hennar samkvæmt lögum. Enn fremur að A hafi verið í umsjá frænku sinnar, H, sem farið hafi með forræði hennar eftir að B flutti frá Filippseyjum. Þá segja þau að A hafi ekki verið ættleidd af nokkurri annarri fjölskyldu á þeim tíma sem B hefur dvalið á Íslandi. Yfirlýsingin er undirrituð af F og G í viðurvist lögbókanda í [...] 27. júlí 2006.

6. Forræðisvottorð frá Félagsþjónustudeild [...] (Custody Document). Vottað er að C sé móðir og lögforeldri A, sem fæðst hafi utan hjónabands [...], og fari hún með fullt forræði barnsins. Einnig vottast að A hafi aldrei verið ættleidd af annarri fjölskyldu á þeim tíma sem B hafi dvalið á Íslandi. Vottorðið er gefið út 3. ágúst 2006 og undirritað af I deildarstjóra.

Á grundvelli framlagðra skjala taldi Útlendingastofnun að barnið, A, væri líffræðileg dóttir B, og var henni veitt tímabundið dvalarleyfi á Íslandi frá 30. október 2006, með gildistíma til 1. september 2007.

Hjúskap B og eiginmanns hennar, K, lauk með lögskilnaði í nóvember 2006. Í desember sama ár hafði námsráðgjafi í [...]skóla í Ysamband við Útlendingastofnun vegna misvísandi upplýsinga um móðerni og forræði yfir A, en barnið gekk þar í skóla. Ákvað Útlendingastofnun þá að hefja könnun á málinu og taka til ítarlegrar skoðunar þau gögn sem lögð höfðu verið fram með umsókn um dvalarleyfi til handa barninu. Samhliða var ákveðið að óska aðstoðar lögreglu, og eftir atvikum rannsókn að hætti laga nr. 19/1991.

K, fyrrverandi eiginmaður B, sagði lögreglunni í fyrstu að eiginkona sín hefði orðið barnshafandi árið 1999 og fætt dóttur á Filippseyjum sama ár.  Barnið hefði orðið eftir í umsjá móður B, en þau hjónin hefðu sent fé utan til framfærslu þess. Tveimur dögum síðar komu B og K á fund lögreglunnar og greindu þá frá því að B hefði orðið barnshafandi árið 1999, en misst fóstrið þegar hún var stödd á Filippseyjum. Nokkrum vikum síðar hefði bróðir B eignast stúlkubarn og hefði orðið að samkomulagi að þau hjónin ættleiddu barnið. Það barn væri A. Viðurkenndu þau að gögn, sem lögð hefðu verið fram með umsókn um dvalarleyfi fyrir barnið, væru efnislega röng, þar sem B væri ekki móðir A. Hins vegar ítrekuðu þau að þau hefðu ættleitt barnið, að ættleiðingin væri lögleg og að á Filippseyjum tíðkaðist að börn væru gefin ættingjum sínum. Þennan framburð staðfesti B í formlegri yfirheyrslu hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í mars 2007, og staðhæfði jafnframt að A væri dóttir L, sem þá var í sambúð með bróður hennar, D. Við sama tækifæri var B spurð út í þau gögn sem lögð voru fyrir Útlendingastofnun við umsókn hennar um dvalarleyfi fyrir A. Fram kom í máli hennar að samkvæmt fæðingarvottorði A sé hún skráð móðir barnsins. Fyrir mistök hafi hún verið skráð [...] ára við fæðingu barnsins, en þar eigi að standa [...] árs. Spurð um ástæðu fyrir síðbúinni skráningu á fæðingu barnsins sagði hún að bæði hún og D hefðu ekki fyrr vitað að barnið hefði aldrei verið skráð í þjóðskrá, enda hefði ljósmóðirin ekki skilað gögnum um fæðinguna. Áðurnefndur D, sem ritað hefði undir skjalið, væri bróðir hennar og faðir A. Aðspurð sagði B að sameiginleg yfirlýsing F og G  væri röng að því leyti sem þar væri fullyrt að B hefði fætt barnið A og að hún væri líffræðileg móðir þess. Þá sagði hún að það væri einnig rangt að H hefði haft barnið í umsjá sinni frá því hún fór frá Filippseyjum. Ítrekað kom fram við yfirheyrsluna að B taldi sig móður A, þótt hún viðurkenndi að hún væri ekki líffræðileg móðir telpunnar. Þá neitaði B því að nokkurt umræddra skjala væri falsað.

Við eftirgrennslan Útlendingastofnunar kom í ljós að dómsmálaráðuneytið hefur ekki veitt stefnanda, B, leyfi til ættleiðingar.

Fram kemur í gögnum málsins að B hafi í janúar 2007 komið til Íslands með gögn frá Filippseyjum, sem ætlað var að staðfesta formlega forsjárbreytingu yfir barninu A. Gögnin hefðu þó reynst ófullnægjandi, enda hefðu yfirvöld á Filippseyjum ekki viljað staðfesta ættleiðinguna nema barnið kæmi þangað svo unnt væri að taka úr því blóðsýni til að sannreyna ætterni þess. Meðal gagna málsins er einnig beiðni Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Ríkislögreglustjóra, þar sem óskað er aðstoðar við að afla upplýsinga og gagna frá Filippseyjum um líffræðilega foreldra A, svo og þann eða þá einstaklinga sem hugsanlega hafi tekið barnið að sér með einhvers konar samningum, svo sem ættleiðingu. Um leið er þar óskað eftir upplýsingum um notkun og gildi þeirra skjala sem framvísað hafði verið hér á landi og reyndust í einhverjum tilvikum röng, eða jafnvel fölsuð. Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra framsendi beiðni þessa til Interpol á Filippseyjum í júní 2007. Í greinargerð stefndu segir að Útlendingastofnun hafi ekki vitneskju um að svar hafi borist við beiðninni. Í gögnum málsins er þó að finna símbréf frá rannsóknardeild Ríkislögreglustjórans á Filippseyjum, dagsett 16. júlí 2007, sem virðist vera svar við fyrirspurn íslenskra lögregluyfirvalda um móðerni A. Bréfið er ritað á ensku og hefur texti þess að nokkru leyti máðst af bréfinu. Engu að síður má þar greina að filippseysk lögregluyfirvöld hafi gengið úr skugga um að framlagt fæðingarvottorð
A sé ljósrit af upprunalegu fæðingarvottorði hennar, sem gefið hafi verið út af Skráningarskrifstofu Filippseyja. Hins vegar segjast lögregluyfirvöld ekki geta staðfest áreiðanleika framlagðra yfirlýsinga B og móður hennar, E, þar sem þær hafi verið gerðar í [...].

Með bréfi Útlendingastofnunar 30. apríl 2007 var stefnanda, B, tilkynnt að til athugunar væri að afturkalla dvalarleyfi til handa A vegna ósamræmis í þeim  gögnum sem hún hefði lagt fyrir stofnunina með umsókn um dvalarleyfi til handa telpunni. Einnig var þar tekið fram að B hefði við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkennt að hún væri ekki líffræðileg móðir telpunnar, þrátt fyrir að framlögð gögn bæru slíkt með sér. Með vísan til 24. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var B veittur frestur til 16. maí til að tjá sig um erindið áður en stofnunin tæki ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis telpunnar. Um heimild Útlendingastofnunar til afturköllunar dvalarleyfis var vísað til 16. gr. útlendingalaga. Að ósk lögmanns B var frestur til umsagnar framlengdur til 15. júní 2007.

Í umsögn lögmannsins um hugsanlega afturköllun dvalarleyfis A er því hafnað að uppfyllt séu skilyrði 16. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 til þess að afturkalla dvalarleyfið. Lögð er áhersla á að umrætt ákvæði sé heimildarákvæði og verði að meta hverju sinni, í ljósi aðstæðna, hvort heimildinni verði beitt. Beri þá sérstaklega að gæta meðalhófs. Í lok umsagnarinnar er áskilnaður um að koma á framfæri frekari athugasemdum, ef Útlendingastofnun hafi í hyggju að grundvalla niðurstöðu sína á öðrum málsástæðum en meintri rangri upplýsingagjöf við umsókn um dvalarleyfi, eða afla nýrra gagna í málinu.

Sjá má af gögnum málsins að lögmaður stefnenda óskaði eftir því við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu í lok júní 2007 að hann fengi afrit af lögregluskýrslum vegna yfirheyrslna yfir B og K. Einnig óskaði hann eftir því að Ríkislögreglustjóri léti honum í té afrit af rannsóknarbeiðni, sem send hafði verið til filippseyskra lögregluyfirvalda. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu varð við beiðni lögmannsins 23. júlí 2007.

Á grundvelli 1. mgr. 16. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi A 29. ágúst 2007. Í bréfi stofnunarinnar til lögmanns B, sem dagsett er sama dag, er ákvörðun stofnunarinnar m.a. rökstudd þannig:

„Ákvæði 16. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 er svohljóðandi: Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og búsetuleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

Það liggur í orðanna hljóðan að Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi þó einungis eitt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis sé ekki lengur uppfyllt. Frá því að umbjóðandi yðar lagði inn umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar fyrir A hafa stofnuninni borist misvísandi upplýsingar um uppruna barnsins. Ekkert opinbert skjal hefur fengist frá filippseyskum stjórnvölum þar sem sjá má að barnið hafi verið ættleitt formlega. Vegna alls þess ósamræmis sem fram kemur í framlögðum gögnum vegna dvalarleyfisumsóknar til handa A og framburði umbjóðanda yðar og fyrrverandi eiginmanns hans, en A hefur búið hjá honum, hefur farið fram lögreglurannsókn í málinu hér á landi. Þá hefur Útlendingastofnun borist upplýsingar um að málið sé jafnframt í rannsókn hjá þar til bærum yfirvöldum á Filippseyjum.

Með tilliti til alls þess sem að ofan er rakið er það niðurstaða Útlendingastofnunar að rétt sé vegna eðli málsins að afturkalla dvalarleyfi til handa A. Skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis er ekki lengur fullnægt enda fer nú eins og áður segir fram lögreglurannsókn þar sem uppruni barnsins er rannsakaður, en dvalarleyfi var veitt á þeim grundvelli að umbjóðandi yðar væri móðir barnsins lögum samkvæmt. Verður umsókn til handa A sem lögð var inn til Útlendingastofnunar þann 31.07.2007 ekki tekin til afgreiðslu fyrr en niðurstaða liggur fyrir í málinu.“   

Stefnandi, B, kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til dómsmálaráðherra 10. september 2007. Með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 26. janúar 2009 var hin kærða ákvörðun staðfest. Með bréfi Útlendingastofnunar 3. mars sl. var B tilkynnt að A væri í ólögmætri dvöl hér á landi og var barninu veittur frestur til 24. mars til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Fram kemur í greinargerð stefndu að barnið dvelji nú á heimili B og K, og hafi barninu verið skipaður talsmaður, Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. Samkvæmt fjölskylduvottorði hafa B og K verið skráð í óvígðri sambúð frá 17. nóvember 2008 og búa að [...] í Y „ásamt dóttur B, A, kt. [...]“, eins og þar segir.

Upphaflegar dómkröfur stefnenda voru, auk þeirrar kröfu sem að framan greinir, að ógiltur yrði úrskurður dómsmálaráðherra og ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn A um framlengingu dvalarleyfis ekki til afgreiðslu, og að viðurkennt yrði að A ætti rétt til dvalarleyfis hér á landi. Með úrskurði dómsins 18. júní sl. var þeim kröfum vísað frá dómi. Við sama tækifæri var leyst úr ágreiningi aðila um aðild og fyrirsvar stefnanda, B, vegna A, en stefndu höfðu krafist frávísunar málsins, m.a. af þeim sökum. Í úrskurði dómsins segir svo um þessa málsástæðu stefndu:

„Eins og áður greinir var hin umdeilda ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis að stofni til á því reist að stefnandi, B, hefði í umsókn um dvalarleyfi fyrir A veitt Útlendingastofnun rangar upplýsingar um móðerni og forsjá barnsins, og að þær upplýsingar hefðu leitt til þess að dvalarleyfi var veitt á röngum forsendum. Ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun dvalarleyfis var beint til stefnanda, B, enda hafði hún komið fram sem umsækjandi um dvalarleyfið fyrir hönd A, og raunar einnig sem móðir barnsins og forsjáraðili, þótt síðar kæmi í ljós að hún væri hvorki líffræðileg móðir þess né að fyrir lægju óyggjandi upplýsingar um að hún færi með forsjá þess. Stefnandi, B, átti lögmætra hagsmuna að gæta varðandi ákvörðun stofnunarinnar og var því ótvírætt aðili að stjórnsýslumálinu, bæði fyrir Útlendingastofnun og síðar sem kærandi á ákvörðun stofnunarinnar til dómsmálaráðherra. Ekki er að sjá að stjórnvöld hafi efast um rétta aðild B að stjórnsýslumálinu, enda skipaði Útlendingastofnun henni talsmann á grundvelli 2. mgr. 34. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, vegna kæru hennar á ákvörðun stofnunarinnar til dómsmálaráðherra og í úrskurðarorðum dómsmálaráðuneytisins er beinlínis talað um mál B.

Samkvæmt meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 nýtur sá, sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi, almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Af þessum sökum, en einnig þegar haft er í huga að enginn annar en B hefur gætt hagsmuna A í máli þessu, né hefur verið til þess bær, verður fallist á að ákvæði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, standi því ekki í vegi að B komi fram í dómsmáli þessu sem fyrirsvarsmaður barnsins. Skipun talsmanns fyrir barnið breytir hér engu um, enda verður ekki séð að sá talsmaður hafi verið skipaður fyrr en nokkru eftir uppkvaðningu úrskurðar dómsmálaráðherra, og þá á grundvelli barnaverndarlaga. Verður því hafnað kröfu stefndu um frávísun málsins á þeim grundvelli að vafi leiki á að B sé bær til að fara með mál þetta fyrir hönd A. …“

Í máli þessu er því aðeins til úrlausnar krafa stefnenda um ógildingu á úrskurði dómsmálaráðherra og ákvörðun Útlendingastofnunar um að afturkalla dvalarleyfi stefnanda, A, hér á landi.

Málsástæður stefnenda og lagarök

Stefnendur byggja kröfu sína á því að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður dómsmálaráðherra hafi bæði verið haldin formlegum og efnislegum ágöllum, sem leiða eigi til ógildingar úrskurðar ráðherra.

A. Formlegir ágallar

Í fyrsta lagi telja stefnendur að stefndu hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa ekki nægilega upplýst málið áður en ákvörðun var tekin. Í því efni vísa þeir sérstaklega til þess að á sama tíma og málið hafi verið til úrlausnar hjá stefndu hafi þeir ekkert aðhafst til þess að ganga úr skugga um uppruna stefnanda, A, hvorki með því að afla upplýsinga um gang lögreglurannsóknar sem staðið hafi yfir til þess að sannreyna uppruna hennar, né hafi þeir orðið við ósk B um að hún og bróðir hennar, líffræðilegur faðir A, gengjust undir erfðafræðilega rannsókn og próf til að sýna fram á uppruna barnsins. Telja stefnendur einkar mikilvægt að rannsaka málið til hlítar, enda snúist það um grundvallarmannréttindi stefnenda, um leið og ljóst sé að afturköllun dvalarleyfis A geti haft í för með sér gríðarlega röskun á stöðu hennar og högum. Við mat á framangreindu telja stefnendur að hafa verði í huga að Útlendingastofnun sé í lögum nr. 96/2002 veitt sérstök heimild til að fara fram á það, við ákvörðun um veitingu dvalarleyfis, að umsækjandi eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis, í því skyni að staðfesta skyldleika. Víðtækar rannsóknarheimildir Útlendingastofnunar samkvæmt 29. gr. laga nr. 96/2002 séu til marks um það hversu rík rannsóknarskylda hvíli á stefndu í málum sem þessum.

Stefnendur geta þess að stefndu hafi m.a. byggt á því að á Filippseyjum sé venjan að tilteknar upplýsingar komi fram í skjali sem nefnist „Legal Custody“ (Yfirlýsing um forræði), en þær upplýsingar sé ekki að finna í skjali með því heiti, sem fyrir liggi í málinu. Veki það furðu stefnenda að Útlendingastofnun, sem hafi verið í samskiptum við filippseysk stjórnvöld, hafi þó aldrei spurst fyrir um hvers vegna þær upplýsingar vanti á umrætt skjal, né hvers vegna ekkert hafi verið aðhafst í þeim efnum af hálfu stjórnvalda á Filippseyjum, hafi það á annað borð skipt máli. Stefndu hafi heldur ekkert gert til að rannsaka hvort um filippseyska stjórnsýsluvenju sé að ræða og þá hvers efnis hún sé. Sérstök ástæða hafi þó verið til þess, þar sem stefnandi, B, hefði gert grein fyrir því að nokkur losarabragur væri á opinberri skráningu og frágangi skjala á Filippseyjum. Í ljósi þess að fyrir lá að taka ákvörðun, sem hafði veruleg áhrif á mikilsverð mannréttindi ungrar stúlku, hafi stefndu borið að sannreyna hvers eðlis umrædd stjórnsýsluvenja væri, af hve mikilli festu henni væri fylgt og hvort hún væri eftir atvikum staðbundin eða landlæg á Filippseyjum.

Í öðru lagi byggja stefnendur á því að gróflega hafi verið brotið gegn andmælarétti stefnenda við meðferð málsins fyrir Útlendingastofnun, og að slíkt hefði með réttu átt að leiða til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Stefnandi, B, hafi aðeins fengið hluta gagna málsins, en aldrei lista yfir öll gögn sem fyrir hafi legið. Fyrst 14. janúar 2008 hafi henni verið send gögn málsins í heild frá dómsmálaráðherra. Hafi þá komið í ljós að B hafði ekki fengið afrit af 18 af þeim 52 skjölum sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun. Telja stefnendur að ekki verði annað ráðið en að Útlendinga­stofnun hafi af ásettu ráði haldið mikilvægum gögnum frá þeim. Því hafi stefnendum ekki gefist færi á að gera athugasemdir við umrædd gögn, og eftir atvikum mótmæla eða leiðrétta misskilning um efni þeirra. Virðist stefnendum sem Útlendingastofnun hafi þegar markað málinu ákveðinn farveg, sem ekki átti að gefa þeim færi á að breyta. Í öllu falli hafi háttsemin falið í sér augljóst brot á andmælarétti stefnenda, enda sé aðgangur að gögnum stjórnsýslumáls grundvallarforsenda þess að aðili máls geti nýtt sér andmælarétt sinn. Þessu til viðbótar vekja stefnendur athygli á því Útlendingastofnun virðist hafa aflað sér munnlegra upplýsinga við meðferð málsins, án þess að nokkuð hafi verið skráð þar um eða stefnendum tilkynnt um þær, né gefið þeim færi á að koma að andmælum sínum.

Að mati stefnenda er ótæk sú niðurstaða í úrskurði stefnda, dómsmálaráðherra, að tiltekinn hluti gagna hafi fallið undir 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þau hafi einnig verið rannsóknargögn lögreglu, og því hafi verið réttlætanlegt að gögnin hafi ekki verið afhent stefnendum. Ekki verði fram hjá því litið að umrædd gögn hafi verið hluti málsgagna í stjórnsýslumáli, sem stefnendur voru aðilar að, og því hafi ekki verið unnt að undanskilja gögnin upplýsingarétti. Þá verði ekki séð að neinum rannsóknarhagsmunum hefði verið spillt með afhend­ingu gagnanna. Vakin er athygli á að lögreglurannsóknin hafi beinst að stefnanda, B, og átti hún því sem sakborningur rétt á að kynna sér umrædd gögn, sbr. m.a. 43. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. nú 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af hálfu stefnenda er einnig á því byggt að stefnandi, B, hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um þá málsástæðu sem Útlendingastofnun lagði til grundvallar ákvörðun sinni. Í bréfi, sem stofnunin hafi sent  B 30. apríl 2007 hafi þess aðeins verið farið á leit að hún setti fram athugasemdir sínar við meinta ranga upplýsingagjöf, sem kynni að leiða til afturköllunar dvalarleyfis. Í umsögn B til Útlendingastofnunar hafi verið tekið fram að efni umsagnarinnar væri afmarkað við þann grundvöll sem lagður hefði verið í nefndu bréfi stofnunarinnar. Enn fremur hafi þar sérstaklega verið áréttað að B óskaði eftir því að nýta andmælarétt sinn, ef Útlendingastofnun aflaði frekari gagna í málinu, eða hefði í hyggju að grundvalla niðurstöðu málsins á öðrum málsástæðum. Ákvörðun Útlendingastofnunar hafi hins vegar verið sú að afturkalla dvalarleyfið „með tilliti til eðlis málsins“. Stefnendur geti því ekki fallist á þá niðurstöðu dómsmálaráðherra að ákvörðunin hafi verið reist á þeim grundvelli sem málinu hefði upphaflega verið markaður. Að dómi stefnenda bar Útlendingastofnun að veita þeim kost á að koma að andmælum sínum að nýju, þegar ljóst var að stofnunin hygðist breyta grundvelli umrædds stjórnsýslumáls.

Með vísan til ofanritaðs telja stefnendur ljóst að þeir hafi ekki notið andmælaréttar um verulegan og þýðingarmikinn hluta málsins. Að þeirra dómi hafa stefndu brotið í bága við ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 5. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um Mannréttindasáttmála Evrópu, og beri því að ógilda úrskurð dómsmálaráðherra.

Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því til stuðnings er á það bent að stefndu hefðu hæglega getað óskað eftir erfðafræðirannsókn á stefnanda, A, og sögðum líffræðilegum foreldrum hennar á Filippseyjum, og beðið með ákvarðanatöku um afturköllun dvalarleyfis þar til niðurstaða slíkrar rannsóknar lægi fyrir. Enn fremur hefði verið rétt að bíða niðurstöðu lögreglurannsóknar. Þá átelja stefnendur þau vinnubrögð stjórnvalda að ekki hafi verið aflað neinna upplýsinga um afstöðu filippseyskra yfirvalda til óformlegra ættleiðinga, eins og hér er haldið fram að átt hafi sér stað. Þar sem til hafi staðið af afturkalla dvalarleyfi barnungrar stúlku á grundvelli matskenndrar heimildar stjórnvalda, árétta stefnendur mikilvægi þess að stjórnvöld upplýstu málið að fullu, og að ekki yrði gengið lengra við ákvarðanatöku en brýna nauðsyn bar til.  

B. Efnislegir ágallar

Stefnendur halda því fram að ákvörðun stefndu hafi verið byggð á sjónarmiðum sem stefnendum var ekki veittur andmælaréttur um. Því hafi ákvörðunin verið reist á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum, en einnig á sjónarmiðum sem ekki hafi verið rannsökuð til hlítar, og geti því ekki verið grundvöllur stjórnvaldsákvörðunar. Í þessu sambandi minna stefnendur á að Útlendingastofnun hafi markað málinu þann farveg að dvalarleyfi stefnanda, A, skyldi afturkalla á grundvelli rangrar upplýsingagjafar. Stefndu hafi þó ekki sýnt fram á ranga upplýsingagjöf af hálfu stefnanda, B. Minniháttar ósamræmi eða misræmi hafi hins vegar verið í gögnum, sem eðlilegar skýringar hafi verið gefnar á, og hafna stefnendur því að um ranga upplýsingagjöf hafi verið að ræða. Verði hér að hafa í huga að mörg skjala málsins eigi uppruna sinn hjá ættmennum stefnenda í þeim hluta Filippseyja þar sem venjur og málsmeðferð, m.a. um útgáfu og efni fæðingar- og ættleiðingarvottorða, virðist vera með allt öðrum hætti en hér á landi. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að í skjölum málsins sé greint frá því að B sé móðir A. Að áliti stefnenda voru því hvorki efnislegar forsendur né heimildir að lögum til að afturkalla dvalarleyfi A á grundvelli rangrar upplýsingagjafar.

Stefnendur byggja einnig á því að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi litast af ótengdu stjórnsýslumáli, en í gögnum málsins hafi verið vísað til annars stjórnsýslumáls stefnanda, B, án þess að séð verði að tilefni hafi verið til þess, enda tengist það ekki því máli sem hér sé til úrlausnar. Verði því ekki annað séð en að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu málsins, eða a.m.k. haft verulega þýðingu fyrir hana. Af þessum sökum beri að ógilda úrskurð stefnda, dómsmálaráðherra.

Af hálfu stefnenda er loks á því byggt að velferð og öryggi stefnanda, A, sé best tryggt hér á landi. Barnið hafi verið búsett hér um árabil, gangi í skóla og hafi eignast góða vini. Henni sé búið gott atlæti á heimili sínu, þar sem aðbúnaður hennar og aðstæður allar séu mun betri en hjá líffræðilegum foreldrum hennar á Filippseyjum, sem búi við mikla fátækt og ómegð. Vilji barnsins standi og til þess að dvelja hér á landi og hafi efasemdir þar að lútandi, í tengslum við mál þetta, valdið barninu miklu hugarangri. Í þessu sambandi vísa stefnendur til 71. gr. og meginreglu 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, svo og meginreglu 1. mgr. 43. barnalaga nr. 76/2003. Jafnframt er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992, einkum 1. og 2. mgr. 3. gr., 12. og 13. gr. og 3. mgr. 20. gr., svo og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 8. gr., sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt er vísað til alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Telja stefnendur því að ógilda verði úrskurð stefnda, dómsmálaráðherra, af þessum ástæðum.

Kröfum sínum til stuðnings vísa stefnendur að öðru leyti til útlendingalaga nr. 96/2002, einkum 9.-11. gr., 11. gr. f., 13.-14. gr., 1. mgr. 23. gr., 24.-25. gr. og 8. mgr. 29. gr. Jafnframt er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 7. gr., 10.-13. gr. og 15. gr., sem og til meginreglna stjórnsýsluréttar, m.a. um vandaða stjórnsýsluhætti og að málefnaleg sjónarmið verði að liggja til grundvallar stjórnvaldsákvörðun. Enn fremur er vísað til 71. gr. og meginreglu 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, svo og meginreglu 1. mgr. 43. barnalaga nr. 76/2003. Jafnframt vísa stefnendur til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992, einkum 1. og 2. mgr. 3. gr., 12. og 13. gr. og 3. mgr. 20. gr., svo og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 8. gr., sbr. lög nr. 62/1994. Þá er vísað til alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísa stefnendur til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður stefndu og lagarök

Sýknukrafa stefndu er á því reist að umræddar stjórnvaldsákvarðanir, bæði ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður dómsmálaráðuneytisins, hafi verið lögmætar og að ekkert verði fundið að stjórnsýslu stefndu, hvorki að formi né efni til.

Stefndu hafna því að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt tilgreindu ákvæði sé ábyrgð á rannsókn máls lögð á það stjórnvald sem taka muni ákvörðun í stjórnsýslumáli. Gagnaöflun miðist því við að upplýsa málið þannig að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun. Í tilviki stefnenda hafi engin efni verið til þess að fresta málsmeðferð á meðan beðið væri niðurstöðu ákæruvalds um það hvort rannsókn lögreglu á meintu skjalafalsi leiddi til ákæru á hendur B, öðrum stefnenda. Við úrlausn málsins hafi engu að síður, bæði af hálfu Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins, m.a. verið stuðst við framburð B hjá lögreglu, en þar hafi B greint frá því að hún hafi ekki eignast barnið A og væri því ekki móðir þess. Við sama tækifæri hefði B sagt að kynforeldrar barnsins hefðu gefið henni barnið við fæðingu þess, og að frá því hefði verið gengið með óformlegu samkomulagi þeirra sem í hlut áttu. Minna stefndu einnig á að í  greinargerð lögmanns stefnenda til Útlendingastofnunar segi svo orðrétt um tengsl stefnenda málsins: „Umbjóðandi minn leggur áherslu á að hún ber því hvergi við að hún sé kynmóðir stúlkunnar, aðeins móðir hennar eins og raunin er.“

Vegna tilvísunar stefnenda til 8. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, og þá ríku rannsóknarskyldu sem stefnendur telja að ákvæðið mæli fyrir um, benda stefndu á að í umræddu ákvæði felist aðeins heimild fyrir Útlendingastofnun til að fara fram á að umsækjandi um dvalarleyfi eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni  og töku lífsýnis í því skyni að staðfesta skyldleika. Í 2. mgr. 13. gr. sömu laga sé að finna skilgreiningu á því hverjir teljist vera nánustu aðstandendur. Tilgangur mannerfðafræðilegrar rannsóknar sé því að leiða í ljós hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna um skyldleika, eða eins og hér hátti til hvort útlendingur, sem óskar eftir dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. laganna, sé barn íslensks ríkisborgara. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til umræddra laga komi fram að stjórnvald hafi þetta úrræði til að ganga úr skugga um að ákvæði 13. gr. verði ekki misnotað. 

Stefndu byggja jafnframt á því að í 2. mgr. 13. gr. tilvitnaðra laga séu einnig sett þau skilyrði að barn íslensks ríkisborgara sé yngra en 18 ára, á hans framfæri og í hans forsjá. Hvergi í tilvitnuðum lögum sé að finna heimild fyrir stjórnvöld til að veita útlendingi dvalarleyfi á þeim grundvelli að viðkomandi sé systkinabarn, fósturbarn eða tökubarn. Ekki hafi það heldur neina þýðingu við úrlausn málsins hver afstaða „foreldris“ sé til „barnsins“, þ.e. hvort umsækjandi líti á viðkomandi útlending sem sitt eigið barn eða að barnið hafi verið alið upp í þeirri trú. Í ljósi þess að stefnandi, B, hafi ítrekað lýst því yfir undir rekstri málsins, m.a. tvívegis fyrir lögreglu, að hún væri ekki líffræðileg móðir barnsins A, hafi það verið mat ráðuneytisins að ekki væri ástæða til þess að fara þess á leit við stefnendur að þær gengjust undir mannerfðafræðilega rannsókn til að leiða í ljós hvort um foreldri og barn væri að ræða í skilningi 2. mgr. 13. gr. útlendingalaga. Vísa stefndu hér einnig til yfirlýsingar kynforeldra A, þar sem þau staðfesta að vera foreldrar barnsins. Á þessum forsendum mótmæla stefndu því að rannsóknarskylda hafi verið brotin á stefnendum, eða að það hafi haft þýðingu fyrir úrlausn málsins að stefnandi, B, og kynfaðir barnsins hafi boðist til að gangast undir DNA rannsókn í því skyni að leiða í ljós uppruna A eða skyldleika hennar við stefnanda, B. Telja stefndu að þessi framsetning stefnenda sé aðeins hártogun og til þess eins að bægja sjónum frá því fortakslausa skilyrði sem kveðið sé á um í 1. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. útlendingalaga, þ.e. að viðkomandi einstaklingur verði að vera barn eða kjörbarn íslensks ríkisborgara til þess að öðlast dvalarleyfi hér á landi.

Stefndu taka fram að þegar fyrir hafi legið að stúlkubarnið A var ekki barn stefnenda, B, hafi verið athugað hvort B hefði ættleitt barnið. Í ljós hefði komið að svo var ekki. Að þeim upplýsingum fengnum hefði legið fyrir að allt frá öndverðu hefðu ekki verið skilyrði til að veita A tímabundið dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. útlendingalaga, sem barni íslensks ríkisborgara. Þar með hefði ekki verið talin ástæða til að rannsaka sérstaklega hvort staðhæfingar B, um að henni hefði verið falin umsjá eða forsjá barnsins af kynforeldrum þess, ættu við rök að styðjast. Hins vegar mótmæla stefndu því algerlega að ráðstöfun barns milli ættingja á Filippseyjum verði lögð að jöfnu við þau réttaráhrif sem leiða af lögmætu ættleiðingarferli á grundvelli laga um ættleiðingar og alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir. Staðhæfingar stefnanda, B, um að hún hafi ættleitt barnið A á Filippseyjum með slíkum réttaráhrifum, fari einfaldlega í bága við ákvæði íslenskra ættleiðingarlaga, og séu því að engu hafandi. Upplýsingar frá filippseyskum stjórnvöldum, um ástæður þess að tilteknar upplýsingar vanti í skjal sem gefið hafi verið út af þeim, breyti engu um þessa staðreynd, og hafi stefndu því talið óþarft að afla þeirra. Hins vegar sé ekki um það deilt að á Filippseyjum geti dregist verulega að tilkynna um barnsfæðingar.

Samkvæmt framansögðu telja stefndu engan vafa leika á að rannsóknarskyldu hafi verið fullnægt og allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga aflað í því skyni að efnislega rétt ákvörðun yrði tekin. Mótmæla stefndu öllum sjónarmiðum stefnenda, sem ætlað er að sýna fram á hið gagnstæða.

Stefndu mótmæla einnig þeirri málsástæðu stefnenda að stjórnvöld hafi við meðferð málsins gróflega brotið gegn andmælarétti þeirra og upplýsingarétti, með því að afhenda þeim ekki í upphafi öll gögn málsins og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þau. Benda stefndu á að í forsendum hins kærða úrskurðar sé skilmerkilega farið yfir hvaða gögn sé þar um að ræða, um leið og skýrð er sú afstaða ráðuneytisins að ekki hafi þótt tilefni til að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar, þótt stefnendum hafi ekki gefist færi á að tjá sig um þau gögn. Telja stefndu að þessi gögn hafi enga þýðingu haft fyrir úrlausn málsins. Um leið benda þeir á að ráðuneytið hafi veitt lögmanni stefnenda aðgang að öllum gögnum málsins, án þess að séð verði að stefnendur hafi sérstaklega fjallað um þau, eða talið þau skipta máli.

Stefndu mótmæla jafnframt þeirri málsástæðu stefnenda að Útlendingastofnun hafi afturkallað dvalarleyfi stefnenda, A, „með tilliti til eðlis málsins“, og þar með á öðrum grundvelli en málinu var í upphafi markaður. Þvert á móti staðhæfa stefndu að málsmeðferð stjórnvalda hafi frá öndverðu verið reist á 16. gr. útlendingalaga og hafi stefnendur nýtt sér rétti sinn til að vísa ákvörðun Útlendingastofnunar til endurskoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu. Með því gátu stefnendur komið sjónarmiðum sínum á framfæri og hafi sérstaklega verið fjallað um rétt stefnenda til aðgangs að gögnum málsins í forsendum úrskurðar ráðuneytisins.

Með vísan til ofanritaðs árétta stefndu að þau hafi í engu brotið gegn andmæla- og upplýsingarétti stefnenda í málinu, og hafna því enn fremur að málsmeðferðin hafi brotið í bága við ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 5. töluliður 1. mgr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um Mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefndu mótmæla sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu stefnenda að við afgreiðslu á máli stefnenda hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Um leið og þeir vísa til þess sem áður er rakið um rannsókn málsins og aðgang aðila að gögnum, benda þeir á að gögn málsins taki af allan vafa um að hið útgefna dvalarleyfi til A hafi verið reist á röngum lagagrundvelli. Upphafleg ákvörðun Útlendingastofnunar hafi því verið ólögmæt, og með réttu afturkallanleg, enda geri lögmætisregla stjórnsýsluréttar þá kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir þeirra séu í samræmi við lög og reistar á viðhlítandi lagagrundvelli. Fullyrða stefndu að engin úrræði hafi heldur verið tæk til þess að koma til móts við óskir stefnenda. Í þessu ljósi hafi ákvörðun stjórnvalda um afturköllun dvalarleyfisins verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, enda hafi grundvöllur fyrir lögmætri dvöl A hér á landi algerlega verið brostinn.

Stefndu hafna enn fremur þeim sjónarmiðum  stefnenda að B hafi verið í góðri trú er hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi fyrir A. Benda þeir á að B sé íslenskur ríkisborgari og hafi verið búsett hér á landi á annan áratug. Hafi hún því öðlast góða þekkingu á íslensku þjóðfélagi og fari því fjarri að hún geti borið fyrir sig lögvillu eða menningartengdan misskilning. Tilgangur umsóknar hennar hafi verið að afla systkinabarni sínu dvalarleyfis á Íslandi á þeirri forsendu að um væri að ræða hennar eigið barn. Þá telja stefndu að sjónarmið stefnenda um lágt menntunarstig almennings á Filippseyjum, litla þekkingu á formlegum málsmeðferðarreglum og að A hafi verið talin trú um að B væri móðir hennar, hafi hér ekkert vægi.

Af hálfu stefndu er á því byggt að lögleg ættleiðing A hafi ekki farið fram, hvorki að íslenskum né filippseyskum lögum. Því til stuðnings vísa stefndu til þess að ekki hafi verið aflað forsamþykkis sýslumanns fyrir ættleiðingu, eins og skylt sé samkvæmt 29. gr. ættleiðingarlaga nr. 130/1999. Ættleiðingarleyfi samkvæmt 1. gr. eldri ættleiðingarlaga nr. 15/1978 hafi heldur ekki verið gefið út. Þá vísa stefndu til þess að samkvæmt lögum Filippseyja fari ættleiðing barns þar í landi fram fyrir dómstóli, sem að lokinni könnun máls og aðstæðum, úrskurði um ættleiðinguna. Engum slíkum gögnum sé hér að dreifa. Einhliða yfirlýsing D og L um yfirfærslu forræðis A til B og K breyti engu um þessa staðreynd. Leggja stefndu einnig áherslu á að barnið A sé filippseyskur ríkisborgari, filippseysk að uppruna og þjóðerni, alin upp í filippseyskri menningu og búi líffræðilegir foreldrar hennar á Filippseyjum. Á grundvelli 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins telja stefndu að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að þjóðarrétti að veita barninu aðstoð og vernd til þess að bæta úr því tengslarofi sem orðið hafi milli barnsins annars vegar og fjölskyldu þess og menningaruppruna hins vegar. Vísa stefndu hér einnig til 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með þetta í huga byggja stefndu á því að afturköllun á dvalarleyfi A hafi verið ætlað að stuðla að því lögmæta markmiði að tryggja að barnið yrði flutt aftur til heimalands síns og fjölskyldu, og að ekki hafi verið farið strangar í sakirnar en nauðsynlegt hafi verið.

Stefndu mótmæla staðhæfingum stefnenda, þess efnis að slíkir ágallar hafi verið á umræddum stjórnvaldsákvörðunum, að ekki verði hjá því komist að ógilda úrskurð ráðherra. Þvert á móti byggja þeir á því að ákvarðanir þeirra hafi byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Hins vegar telja þeir að stefnendur hafi leitast við að afvegaleiða málefnalega og lögmæta úrlausn málsins. Er því mótmælt að ákvarðanir stefndu hafi byggst á atvikum óskylds máls.

Loks telja stefndu ástæðu til að mótmæla sem rangri þeirri fullyrðingu stefnenda að alvanalegt sé á Filippseyjum að ættleiða börn óformlega innan fjölskyldu við fæðingu, og að einnig sé það alvanalegt að ættleiðandi, þ.e. viðtakandi barnsins, sé þá skráð móðir barnsins á fæðingarvottorði. Í því efni vísa stefndu til filippseyskra ættleiðingarlaga, þar sem sjá megi að slík framkvæmd sé andstæð lögum og refsiverð.

Að öðru leyti en að ofan greinir vísa stefndu til laga nr. 96/2002, um útlendinga, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eldri og yngri ættleiðingarlaga og til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Eins og fram er komið afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi stefnanda, A, hér á landi með ákvörðun 29. ágúst 2007. Stefnendur kærðu ákvörðun stofnunarinnar til dómsmálaráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði 26. janúar 2009. Gera stefnendur kröfu um að ógiltur verði með dómi úrskurður dómsmálaráðherra og byggja á því að umræddar stjórnvaldsákvarðanir, bæði ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður dómsmálaráðherra, hafi verið haldnar formlegum og efnislegum ágöllum.

Hér að framan hafa verið rakin þau gögn sem stefnandi, B, lagði fyrir Útlendingastofnun í tilefni af umsókn hennar um dvalarleyfi fyrir barnið A, en á grundvelli þeirra gagna var barninu veitt dvalarleyfi hér landi frá 30. október 2006 til 1. september 2007. Einnig hefur verið lýst aðdraganda þess að Útlendingastofnun ákvað að taka gögnin til frekari skoðunar og leita aðstoðar lögreglu til að kanna áreiðanleika þeirra. Greint hefur verið frá niðurstöðum þeirrar rannsóknar, að svo miklu leyti sem þær liggja fyrir, og er þá einkum stuðst við framburð B og fyrrverandi eiginmanns hennar hjá lögreglu. Fyrir liggur einnig að íslensk lögregluyfirvöld óskuðu upplýsinga og gagna frá filippseyskum lögregluyfirvöldum um líffræðilega foreldra telpunnar og ættleiðingu hennar, ef komið hefði til slíks, en einnig um notkun og gildi þeirra skjala sem framvísað hafði verið hér á landi og stöfuðu frá einstaklingum og stofnunum á Filippseyjum. Þótt rúm tvö ár séu nú liðin frá því lögreglan óskaði aðstoðar verður ekki séð að erindið hafi borið tilætlaðan árangur.

Öll skjöl sem tilgreind eru hér að framan, og lögð voru fram með umsókn stefnanda, B, um dvalarleyfi fyrir A, þ.á m. sjálf umsóknin, eru efnislega röng, að því leyti sem þar er fullyrt að B sé móðir barnsins A. Nokkur skjalanna vekja einnig efasemdir um áreiðanleika þeirra og uppruna, ekki síst í ljósi þess að fullyrðingar þessa efnis eru settar fram af fólki sem hlaut að vita hið sanna um uppruna barnsins og hverjir væru kynforeldrar þess. Þeirra er þó með öllu látið ógetið. Sérstaka athygli vekur fæðingarvottorð barnsins, en það verður ekki skilið öðruvísi en svo að B hafi fætt umrætt barn. Ekki vekur þar síður athygli að umsækjandi um síðbúna skráningu á fæðingu barnsins er bróðir B, D, sem síðar kvaðst vera kynfaðir barnsins. Honum hlaut því að vera fullkunnugt um kynmóður þess, L. Hennar er þó í engu getið í fæðingarvottorðinu, en faðir sagður óþekktur. Önnur atriði, sem skráð eru í fæðingarvottorðið, vekja einnig efasemdir um gildi þess, svo sem nafnritun B og aldur hennar og hjúskaparstaða. Sameiginleg yfirlýsing nágranna og vinafólks [...]-fjölskyldnanna þykir einnig tortryggileg, en þar staðhæfa útgefendur að stefnandi, B, þá einstæð móðir, hafi fætt barn [...], og hafi barninu verið gefið nafnið A. Hafi barnið verið í umsjá frænku þess, H, eftir að B flutti frá Filippseyjum.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi stefnandi, B, að umrædd gögn væru efnislega röng, þar sem hún væri ekki kynmóðir A. Við sama tækifæri upplýsti hún að barnið væri dóttir L og D, bróður B. Þegar af þeirri ástæðu verður að taka undir það með stefndu að ekki hafi verið lagaskilyrði til þess að veita barninu dvalarleyfi hér á landi, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga. Af sömu ástæðu verður ekki séð að mannerfðafræðileg rannsókn, í því skyni að staðfesta skyldleika stefnenda og kynforeldra barnsins, hafi þjónað neinum tilgangi, né að ástæða hafi verið til að bíða niðurstöðu rannsóknar filippseyskra lögregluyfirvalda á uppruna barnsins eða upplýsinga um notkun og gildi þeirra skjala sem lögð voru fram með umsókn um dvalarleyfið.

Stefnandi, B, hefur haldið því fram að hún hafi, ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum, ættleitt A strax við fæðingu hennar árið 1999. Fullyrðir hún að ættleiðingin sé lögleg og tíðkist á Filippseyjum að börn séu gefin ættingjum sínum. Vert er að halda því til haga að B hélt þessu fyrst fram við yfirheyrslu lögreglunnar, þegar áðurnefnd skjöl voru þar til rannsóknar, en þar er þess þó hvergi getið að barnið hafi verið ættleitt. Engin opinber gögn styðja fullyrðingu stefnanda, B, um framkvæmd ættleiðingar á Filippseyjum. Undir rekstri málsins hafa hins vegar verið lagðar fram einhliða yfirlýsingar D og K um ættleiðingu barnsins til B, ásamt vottorði félagsráðgjafa héraðsdóms [...] á Filippseyjum. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þessara skjala. Þau vekja hins vegar óneitanlega upp spurningar um trúverðugleika og gildi þeirra, þar sem víða gætir misræmis milli þeirra. Má þar nefna mismunandi fæðingarstað barnsins, fullyrðingar um sambúð útgefenda og brotthvarf móður A, svo og mismunandi heimilisfang útgefenda. Þá virðist undirskrift L ekki sú sama á öllum skjölunum. Sérstaka athygli vekur þó yfirlýsing D, frá 18. júlí 2009, en þar segir m.a. svo í íslenskri þýðingu: „Að samþykki móður barnsins fékkst ekki né var von á því þar sem hún yfirgaf barnið þremur vikum eftir fæðingu þess og mér hefur ekki verið kunnugt um dvalarstað hennar frá árinu 1999 allt fram til þessa dags.“ Yfirlýsingin stangast algerlega á við sameiginlegar yfirlýsingar D og L frá 8. júní 2007 og 23. febrúar 2009. Breyta þessi gögn þó engu um þá staðreynd að í málinu liggur ekki fyrir opinbert skjal þar til bærra filippseyskra yfirvalda um ættleiðingu A til B. Í því ljósi verður ekki séð að sérstök ástæða hafi verið fyrir stjórnvöld til þess að reyna frekar að afla upplýsinga um ástæður þess að tilteknar upplýsingar skorti í eitt þeirra skjala sem á sínum tíma voru lögð fram með umsókn um dvalarleyfi A. Minnt er á að í rannsóknarbeiðni íslenskra lögregluyfirvalda til lögreglunnar á Filippseyjum var óskað upplýsinga um notkun og gildi þeirra skjala, án þess að séð verði að þeirri beiðni hafi verið sinnt.

Ekki er um það deilt að A hefur ekki verið ættleidd að íslenskum lögum, sbr. lög um ættleiðingar nr. 130/1999, og hefur heldur ekki verið aflað samþykkis til þess, sbr. 29. gr. þeirra laga.

Af hálfu stefnenda er því haldið fram að brotið hafi verið á andmælarétti þeirra við meðferð málsins fyrir Útlendingastofnun, þar sem þeim hafi ekki verið veittur aðgangur að öllum gögnum málsins áður en ákvörðun var tekin í málinu.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. janúar 2008 voru lögmanni stefnenda send afrit af öllum gögnum sem ráðuneytið hafði undir höndum í máli stefnenda vegna afturköllunar á dvalarleyfi A. Samtals eru gögnin 60 að tölu og halda stefnendur því fram að 18 þeirra hafi verið haldið frá þeim. Því hafi þeim ekki verið unnt að fjalla um þau skjöl og gera athugasemdir við þau, áður en Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu.

Í forsendum úrskurðar ráðuneytisins frá 26. janúar 2009 er ítarlega fjallað um þau gögn sem stefnendur höfðu ekki undir höndum við meðferð Útlendingastofnunar á máli þeirra. Að nokkru leyti er þar tekið undir gagnrýni stefnenda, þess efnis að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um sum gagnanna. Að öðru leyti telur ráðuneytið að hluti gagnanna hafi fallið undir undantekningarákvæði 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en að nokkur þeirra hafi enga þýðingu haft fyrir úrlausn málsins. Niðurstaða ráðuneytisins er, að þrátt fyrir að finna megi að málsmeðferð Útlendingastofnunar, séu ágallar ekki slíkir að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda hafi andmælaréttur verið virtur í hvívetna um þau atriði sem verulegt vægi hafi haft við úrlausn málsins.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur aðili kært stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds í því skyni að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt. Í máli þessu kusu stefnendur að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til dómsmálaráðherra til þess að fá hana fellda úr gildi. Við meðferð slíks kærumáls ber æðra stjórnvaldi að fylgja almennum reglum stjórnsýslulaganna, sbr. 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Í því felst að bæði rannsóknarreglan og andmælareglan gildir um meðferð kærumála. Stefnendur áttu þess kost að koma að nýjum kröfum, gögnum og sjónarmiðum við úrlausn málsins fyrir æðra stjórnvaldi, í þessu tilviki dómsmálaráðuneytinu, hafi þeir talið að þau gögn málsins, sem þeim var í upphafi ekki veittur aðgangur að, hafi að einhverju leyti ráðið úrslitum málsins eða fellt það í annan farveg en í upphafi var markaður. Í athugasemdum lögmanns stefnenda til dómsmálaráðuneytisins frá 25. febrúar 2008 verður ekki séð að stefnendur hafi talið umrædd gögn þess eðlis að þau fengju nokkru breytt um ákvörðun Útlendingastofnunar, a.m.k. þótti þeim ekki ástæða til að fjalla þar sérstaklega um efni þeirra.

Með vísan til ofanritaðs, og gagna málsins að öðru leyti, verður hvorki á það fallist að stefndu hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína áður en ákvörðun var tekin í málinu, né að brotið hafi verið svo gegn andmælarétti stefnenda við meðferð þess, að ástæða þyki til að ógilda ákvarðanir stefndu. Þá fær dómurinn ekki séð að orðalagið í forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar fyrir afturköllun dvalarleyfis A, þ.e. „með tilliti til eðlis málsins“, verði skýrt á þann hátt að með því hafi stofnunin afturkallað dvalarleyfið á öðrum forsendum en í upphafi hafi verið lagt af stað með. Þvert á móti verður ekki annað ráðið en að dvalarleyfið hafi verið afturkallað á grundvelli 16. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, þar sem rangar upplýsingar hafi leitt til þess að leyfið var gefið út, og án þess að lagaskilyrðum til þess væri fullnægt. Hafnað er einnig þeirri málsástæðu stefnenda að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi litast af ótengdu stjórnsýslumáli, og því hafi ómálefnaleg sjónarmið ráðið niðurstöðu málsins, enda verður þess hvergi fundinn staður að ákvarðanir stefndu hafi verið reistar á slíkum sjónarmiðum.

Stefnendur byggja einnig á því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt þeirri reglu skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Þessum sjónarmiðum til stuðnings vísa stefnendur einkum til þeirra atriða sem reifuð eru hér að framan, þ.e. að stefndu hafi við meðferð málsins brotið gegn rannsóknarskyldu sinni og andmælarétti stefnenda. Þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þau sjónarmið, en látið nægja að vísa til þess sem þar greinir. Einnig vísa stefnendur til þess að um matskennda heimild sé að ræða, þegar tekin er ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis, og árétta mikilvægi þess að ekki sé þá gengið lengra en nauðsyn beri til.

Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi, B, er ekki kynmóðir barnsins A, og byggðist ákvörðun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi til handa barninu því á röngum upplýsingum sem lagðar voru fyrir stofnunina með umsókn um dvalarleyfi þess hér á landi. Fæðingarvottorð barnsins veitir engin svör við því hverjir eru kynforeldrar þess, en fullyrt er að þeir séu D, bróðir B, og sambúðarkona hans, L, og liggja fyrir í málinu yfirlýsingar þeirra um að svo sé, ásamt yfirlýsingum annarra einstaklinga. Gögn þessi verða þó ekki talin óyggjandi sönnun fyrir uppruna barnsins. Ekki verður heldur talið að áðurnefndar einhliða yfirlýsingar um ættleiðingu barnsins til B jafngildi ættleiðingu að filippseyskum lögum, enda liggja engin opinber gögn því til staðfestingar, og því síður staðfesting þarlendra yfirvalda um að barnið hafi verið ættleitt með lögformlegum hætti. Raunar eru fyrirliggjandi gögn D og L um ættleiðingu barnsins svo misvísandi að ekki þykir unnt að líta til þeirra við úrlausn málsins. Loks liggur fyrir að barnið hefur ekki verið ættleitt samkvæmt íslenskum lögum.

Bæði Ísland og Filippseyjar eru aðilar að alþjóðasamningi um vernd barna og samvinnu  varðandi ættleiðingu milli landa, sem gerður var í Haag 1993 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2000. Samkvæmt þeim samningi hafa ríkin skuldbundið sig til þess að virða þær reglur sem þar er mælt fyrir um, m.a. um skilyrði fyrir ættleiðingu milli landa, sbr. II. kafli samningsins. Verður ekki séð að þeim fyrirmælum hafi verið fylgt í máli þessu við meinta ættleiðingu A. Bæði ríkin eru einnig aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en samningurinn öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 27. nóvember 1992. Með honum hafa þjóðirnar m.a. skuldbundið sig til þess að veita börnum víðtæka vernd og aðstoð, virða rétt þeirra til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra, svo sem unnt er, og viðhalda því sem auðkennir þau sem einstaklinga, þar með talið ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum. Sömu sjónarmið endurspeglast víða í íslenskri löggjöf, m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, með síðari breytingum, og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að stjórnvöldum hafi borið að afturkalla dvalarleyfi A hér á landi og að engin lögmæt úrræði hafi verið tæk til þess að koma til móts við sjónarmið stefnenda. Ekki hefur heldur verið leitt í ljós að þeir ágallar hafi verið á meðferð málsins fyrir stjórnvöldum að valda eigi ógildingu úrskurðar dómsmálaráðherra frá 26. janúar 2009. Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnenda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Stefnendur njóta gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi 6. júlí 2009, og takmarkast gjafsóknin við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður, þ.e. þóknun lögmanns þeirra, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst hæfileg 1.100.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 156.775 krónur, eða samtals 1.256.775 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Dóminn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Útlendingastofnun og íslenska ríkið, eru sýkn af kröfum stefnenda, B, persónulega og vegna A.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, alls 1.256.775 krónur, greiðist úr ríkissjóði.