Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/1998


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Ölvunarakstur
  • Áhættutaka


Fimmtudaginn 4

Fimmtudaginn 4. mars 1999.

Nr. 235/1998.

Steinar Arnarson

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Helgu Rán Sigurðardóttur

(Helgi Birgisson hrl.)

og

Helga Rán Sigurðardóttir

gegn

Steinari Arnarsyni

Tryggingamiðstöðinni hf. og

(Guðmundur Pétursson hrl.)

Huga Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Skaðabætur. Bifreiðir. Líkamstjón. Ölvunarakstur. Áhættutaka.

H slasaðist í umferðarslysi er S, ökumaður bifreiðar sem hún var farþegi í, missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún rann til og endastakkst eftir veginum. H hafði, ásamt vinkonu sinni, ekið um með S og J, í bifreið J, allt kvöldið og hafði áfengi verið haft um hönd. H krafði ökumann bifreiðarinnar, eiganda hennar og vátryggjanda um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku auk þjáningarbóta. Talið var sannað að H hefði vitað að S var ölvaður við aksturinn. Var niðurstaða héraðsdóms um að H hefði firrt sig rétti til bóta staðfest. Með hliðsjón af málsatvikum var ekki talið að efni væru til að beita heimild 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga til að dæma H bætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 1998. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara að kröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti upphaflega 5. júní 1998, en ekki varð af þingfestingu málsins fyrir Hæstarétti. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði gagnáfrýjandi öðru sinni 25. ágúst 1998. Krefst hún þess að gagnaðilar verði óskipt dæmdir til að greiða sér 2.753.855 krónur með 2% ársvöxtum frá 2. október 1994 til 3. maí 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar óskipt úr hendi gagnaðila í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnstefndi Tryggingamiðstöðin hf. krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er sig varðar, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Gagnstefndi Hugi Jónsson krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og gagnáfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Í héraðsdómi er lýst atvikum þegar gagnáfrýjandi slasaðist í umferðarslysi snemma morguns 2. október 1994. Eins og þar kemur fram höfðu hún og Hulda Símonardóttir verið í félagsskap aðaláfrýjanda og gagnstefnda Huga Jónssonar kvöldið áður og um nóttina, en með þeim öllum var nokkur kunningsskapur. Höfðu þau farið um í bifreið Huga frá því um kl. 21.30, meðal annars frá Tálknafirði til Patreksfjarðar og síðan til Arnarfjarðar, þar sem þau fóru um nóttina í sundlaug í Reykjarfirði. Er skammt hafði verið farið þaðan missti aðaláfrýjandi stjórn á bifreiðinni. Kom lögregla á slysstað kl. 5.35 um morguninn.

Í lögregluskýrslum og skýrslum fyrir dómi bar öðrum en gagnáfrýjanda saman um að henni hafi verið fullkunnugt um að aðaláfrýjandi, sem ók bifreiðinni, hafi tekið þátt í áfengisdrykkju með þeim hinum í ökuferðinni og í sundlauginni um kvöldið og nóttina. Bar Hulda jafnframt, að aðaláfrýjandi og Hugi hafi strax er þær settust inn í bifreiðina gert þeim ljósa áfengisdrykkju sína og að þeir hygðust halda henni áfram. Gat Hulda þess einnig, að skömmu eftir að lagt var af stað um nóttina frá sundlauginni hafi hún krafist þess að aðaláfrýjandi stöðvaði bifreiðina. Þá frásögn hefur gagnáfrýjandi staðfest og taldi ástæðuna þá að Huldu hafi fundist aðaláfrýjandi aka of hratt. Fór Hulda úr bifreiðinni og kveðst hafa hvatt gagnáfrýjanda til hins sama, en án árangurs. Kom Hulda skömmu síðar gangandi að bifreiðinni eftir slysið. Er fram komið að gagnáfrýjandi var ekki með öryggisbelti spennt er slysið varð.

II.

Með dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1996, bls. 3120, var skorið úr ágreiningi varðandi áhættutöku við þær aðstæður að farþegi slasast í bifreið, sem stjórnað var af ölvuðum ökumanni. Í ljósi þessa fordæmis og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ekki komist hjá að staðfesta þá niðurstöðu hans að gagnáfrýjandi hafi með áhættutöku firrt sig rétti til bóta úr hendi aðaláfrýjanda og gagnstefndu. Þegar litið er til allra málsatvika verður heldur ekki fallist á að efni séu til að beita heimild 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma gagnáfrýjanda bætur úr hendi einhvers eða allra gagnaðila málsins. Samkvæmt því verður sýknukrafa þeirra tekin til greina.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest, en gjafsóknarkostnaður hennar fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Steinar Arnarson, og gagnstefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Hugi Jónsson, eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda, Helgu Ránar Sigurðardóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

                                               

Héraðsdómur Reykjavíkur 5. mars 1998.

                Mál þetta sem dómtekið var þann 9. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað af Helgu Rán Sigurðardóttur, kt. 090879-3169, Blesugróf 20, Reykjavík, á hendur Tryggingamið­stöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, Huga Jónssyni, kt. 030575-4669, Miðtúni 16, Tálknafirði, og Steinari Arnarsyni, kt. 300473-4159, Móatúni 14, Tálknafirði, með stefnu birtri 21. og 22. ágúst og 2. september 1997.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða henni skaða­bætur að fjárhæð 2.753.855 krónur með 2% vöxtum og vaxtavöxtum frá 2. október 1994 til 3. maí 1996 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða henni málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðherra 21. apríl 1997.

                Af hálfu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Til vara er krafist lækkunar og að málskostnaður falli niður.

                Af hálfu stefndu Huga Jónssonar og Steinars Arnarsonar er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur á hendur þeim verði lækkaðar. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað að skaðlausu.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni.

                Málsatvik eru þau að aðfaranótt sunnudagsins 2. október 1994 ók stefndi Steinar Arnarson bifreiðinni KE-819 eftir þjóðveginum milli Reykjarfjarðar og Bíldudals. Þar missti hann stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún rann til, lenti í vatnsrás og endastakkst þar eftir veginum.  Óumdeilt er að stefndi Steinar var undir áhrifum áfengis við aksturinn.

                Stefnandi var farþegi í bifreiðinni þegar umrætt slys varð. Hlaut hún við það alvarlega áverka eins og fram kemur í örokumati Atla Þórs Ólasonar læknis, dags. 20. mars 1996. Þar kemur m.a. fram að stefnandi hafi hlotið mölbrot og fjölbrot á mjaðmagrind sem gróið hafi með verulegri skekkju. Varanlegur vefjaskaði sé verulega skekkt mjaðmagrind með skökku álagi á spjaldliði og mjaðmagrind í heild og þrengingu á mjaðmagrindaropi sem hindri náttúrulega fæðingu. Gert er ráð fyrir vaxandi verkjavandamáli og minnkandi starfsgetu í framtíðinni, erfiðleikum við barnsburð og þvagvanda­málum. Varnaleg örorka stefnanda og varanlegur miski vegna slyssins voru samkvæmt örorkumatinu metin 25%. 

                Bifreiðin var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. en eigandi bifreiðarinnar var stefndi Hugi Jónsson.  

                Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða þann 16. febrúar 1996 og dómi Hæstaréttar frá 6. júní sama ár (Hrd. 1996 bls. 2059) var stefndi Steinar sakfelldur í máli er ákæruvaldið höfðaði gegn honum fyrir að hafa í umræddu tilfelli ekið bifreiðinni of hratt og ógætilega undir áhrifum áfengis og fyrir að hafa misst stjórn á henni með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist alvarlega en brotin eru færð til til­greindra ákvæða umferðarlaga og til 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Magn alkohóls í blóði hans mældist 1.61‰ samkvæmt dómi héraðsdóms. 

                Stefnandi hefur höfðað mál þetta til greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu vegna tjónsins sem hún varð fyrir í slysi þessu. Krafa hennar kom áður fram með bréfi lögmanns hennar til stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. dags. 3. apríl 1996. Krafan á hendur félaginu er byggð á 95. gr. um­ferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 97. gr. s.l., en á hendur stefnda Huga á 88. gr., sbr. 90. gr. laganna.  Krafan á hendur stefnda Stein­ari er byggð á almennu skaðabótareglunni.   

                Í málinu er deilt um bótaskyldu stefndu. Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til bóta úr þeirra hendi þar sem henni hafi verið kunnugt um ölvunarástand stefnda Steinars. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að henni hafi verið um það kunnugt. Því er einnig haldið fram af hennar hálfu að jafnvel þótt talið yrði að svo hafi verið eigi hún engu að síður rétt á bótum og er í því sambandi vísað til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki er deilt um örorkumat og engar at­hugasemdir hafa komið fram af hálfu stefndu varðandi útreikninga á tjóni stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir málsóknina á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar vegna slyssins. Stefndi Hugi hafi verið eigandi bifreiðarinnar en hún hafi verið tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Kröfur stefnanda á hendur Tryggingamiðstöðinni hf. og Huga séu sóttar á grundvelli umferðarlaga en á hendur stefnda Steinari á grundvelli almennu skaðabótareglunnar þar sem hann hafi valdið slysinu með gáleysislegu aksturslagi. 

                Stefnandi heldur því fram að hún hafi ekki haft vitneskju um áfengisdrykkju eða ölvun öku­mannsins stefnda Steinars. Hún hafi talið að stefndi Steinar annaðist aksturinn fyrir eiganda bif­reiðarinnar, stefnda Huga, þar sem sá síðarnefndi hafi verið undir áhrifum áfengis.

                Í málinu hafi komið fram að stefnandi hafi verið við sjoppuna á Tálknafirði ásamt Huldu Símonardóttur þann 1. október 1994. Um kl. 21:30 hafi stefndu Steinar og Hugi komið til þeirra á bif­reiðinni KE-819 en Steinar hafi verið ökumaður. Stefndu hafi boðið þeim Huldu far með sér sem þær hafi þegið. Í bílnum hafi þeir boðið stúlkunum vín að drekka sem þær hafi þegið. Í lögregluskýrslu sem stefnandi hafi gefið þann 4. september 1995 komi fram að hún hafi aldrei orðið vör við að Steinar drykki áfengi. Hún hafi heldur aldrei orðið vör við að Steinar væri undir áhrifum áfengis enda hafi hún ekki séð hann drekka þessa nótt. Stefndi Hugi og Hulda hafi yfirgefið bifreiðina skömmu áður en slysið varð.

                Í lögregluskýrslum sem teknar hafi verið fyrst eftir atburðinn benti ekkert til þess að stefnandi hafi haft vitneskju um ölvun ökumannsins. Að beiðni stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., hafi haustið 1996 verið teknar skýrslur af stefndu Steinari og Huga og farþeganum Huldu og hafi þau borið að stefnanda hafi verið kunnugt um áfengisdrykkju ökumannsins. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að framburður stefnda Steinars og Huga verði lagður til grundvallar varðandi það atriði og er í því sambandi vísað til 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  

                Með bréfi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dags. 9. desember 1996, hafi bótaskyldu félagsins verið hafnað með þeim rökum að stefnandi hafi „tekið sér far með bifreiðinni af fúsum og frjálsum vilja vitandi að ökumaður bifreiðarinnar var ölvaður”. Tryggingafélagið telji, með vísun í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að stefnandi hafi af fyrrgreindum ástæðum fyrirgert bótarétti sínum. Af hálfu stefnanda er staðhæfingum stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um vitneskju stefnanda mótmælt.

                Af hálfu stefnanda er jafnframt byggt á því að þótt talið yrði sannað að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um ölvun ökumannsins girði það ekki fyrir bótarétt hennar. Stefnandi hafi aðeins verið nýorðin 15 ára þegar slysið gerðist. Hún hafi verið á gangi með jafnöldru sinni þegar tveir fullorðnir menn, 19 og 21 árs gamlir, tóku þær með í ökuferð og veittu þeim áfengi. Ekki sé hægt að gera sömu kröfur til barna eða unglinga og gerðar eru til fullorðins fólks hvað áhættutöku varði og hljóti bótaréttur þeirra fyrrnefndu að vera ríkari.

                Í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé almenn lækkunarheimild, þ.e. heimild til þess að skerða eða fella niður skaðabótarétt ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Eftir 2. mgr. 24. gr. megi, að fullnægðum skilyrðum 1. mgr., líta alveg eða nokkuð framhjá því að tjónþoli hafi verið meðvaldur að tjóni. Í athugsemdum með 24. gr. segi að dómari geti á grundvelli 2. mgr. ákveðið að lækka ekki bætur eftir þeim reglum sem ella giltu um eigin sök tjónþola. Tjónþoli geti þannig annað hvort fengið fullar bætur eða stærri hluta bóta en hann hefði fengið eftir almennum reglum um eigin sök. Einnig segi í athugasemdunum að orðið meðvaldur taki ekki aðeins til eigin sakar í þrengstu merkingu heldur einnig til tilvika þar sem maður fyrirgeri skaðabótarétti með áhættutöku, þ.e. með því að taka þátt í háttsemi sem hafi mjög mikla hættu í för með sér.

                Af framansögðu sé ljóst að samkvæmt núgildandi lögum geti farþegi átt rétt á skaðabótum þótt slys sé að rekja til áfengisneyslu ökumanns og farþeganum hafi verið eða mátt vera um hana kunnugt. Af hálfu stefnanda er þó ítrekað að hún hafi verið grandlaus um ölvun stefnda Steinars.

                Kröfur stefnanda eru þannig sundurliðaðar :

Þjáningabætur:

Rúmliggjandi 76 dagar x 1370

kr. 104.120

Batnandi með fótaferð 14 dagar x 740

kr. 10.360

Varanlegur miski 25% af 4.223.000

kr. 1.055.750

Varanleg örorka 25% af 6.334.500

kr. 1.583.625

Samtals

kr. 2.753.855

                Kröfur stefnanda eru byggðar á því að stefndi Hugi beri hlutlæga skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt 88., sbr. 90. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Um ábyrgð stefndu Tryggingamið­stöðvarinnar hf. er af hálfu stefnanda vísað til 95. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 97. gr. laganna.

                Byggt er á almennu skaðabótareglunni gagnvart stefnda Steinari sem hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið tjóni stefnanda. 

                Um óskipta ábyrgð stefndu er af hálfu stefnanda vísað til almennra reglna skaðabótaréttar.

                Um fjárhæðir er byggt á skaða­bóta­lögum nr. 50/1993 og er vísað til 3. gr. um þjáninga­bætur, til 4. gr. um varanlegan miska og til 5. gr., sbr. 8. gr. um varanlega örorku.

                Krafan um vexti kveðst stefnandi byggja á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

                Krafan um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

                Af hálfu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er því hafnað að stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni því er stefnandi hlaut í umræddu slysi, stefndu Tryggingamiðstöðin hf. og Hugi Jónsson á grundvelli bótareglna umferðarlaga en stefndi Steinar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar með vísan til þess að hann hafi valdið slysinu með gáleysislegu aksturslagi.     

                Þegar slysið varð hafi stefnandi verið farþegi í umræddri bifreið í nokkrar klukkustundir og hafi hún neytt þar áfengis ásamt öðrum sem í bifreiðinni voru, þ.e.a.s. ökumanninum stefnda Steinari, eiganda bifreiðarinnar stefnda Huga, og vinkonu stefnanda, Huldu Símonardóttur. Þær vinkonur hefðu þegið far með bifreiðinni laugardagskvöldið 1. október 1994 en þær hafi verið staddar við sjoppuna á Tálknafirði þegar stefndu Steinar og Hugi hafi boðið þeim far. Síðan hafi þau rúntað um nágrennið í nokkurn tíma, m.a. frá Tálknafirði til Patreksfjarðar og frá Patreksfirði til Reykjarfjarðar í Arnarfirði með viðkomu í Tálknafirði en í Reykjarfirði hafi þau farið í sundlaug. Þegar þau hafi verið að aka frá Reykjarfirði inn í Fossfjörð hafi slysið orðið en það hafi verið tilkynnt lögreglu um kl. 05:35 aðfaranótt sunnudagsins 2. október 1994. Stefnandi hefði því verið í bifreiðinni með þeim sem þar voru í nokkrar klukkustundir þegar slysið varð.

                Í skýrslu sem stefnandi hafi gefið hjá lögreglunni í Reykjavík mánudaginn 4. september 1995 hafi málavextir þeir sem raktir hafi verið hér að framan verið staðfestir, a.m.k. í öllum aðalatriðum. Stefnandi fullyrði hins vegar að henni hafi ekki verið kunnugt um að stefndi Steinar hafi neytt áfengis meðan á akstrinum stóð og hafi hún því ekki gert sér grein fyrir ölvunarástandi hans í umrætt sinn. Þessi fullyrðing stefnanda geti ekki talist trúverðug og hljóti hún að vera borin fram gegn betri vitund. Stefnandi hafi verið í bifreiðinni og með því fólki er hér komi við sögu þegar áfengisneysla þess hafi farið fram. Hafi hún tekið þátt í henni og beri þeim öllum saman um að stefnandi hafi vitað um áfengisneyslu stefnda Steinars. Það geti því ekki farið á milli mála að stefnandi hafi verið meðábyrg fyrir tjóni sínu af völdum slyssins, þar sem hún hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið sér far með bifreiðinni og ekki yfirgefið hana þrátt fyrir að hafa haft nokkur tækifæri til þess og augljósa vitneskju um ástand ökumanns. Hafi hún þannig sýnt af sér háttsemi sem teljist stórkostlegt gáleysi. Að svo vöxnu máli sé að mati stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. vafalaust að stefnandi eigi engan bótarétt á hendur félaginu vegna þess tjóns er hún kunni að hafa orðið fyrir af völdum slyssins. Er í því sambandi vísað til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, enda sé hér um dæmigert tilvik að ræða sem falli undir það ákvæði. Bent er á Hæstaréttardóm 1996 bls. 3120 varðandi það atriði og aðra Hæstaréttardóma sem þar er vísað til.

                Verði ekki fallist á fullyrðingar stefnanda um að henni hafi verið ókunnugt um áfengisneyslu stefnda Steinars er því mótmælt af hálfu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að aldur stefnanda á slysdegi, 15 ár, geti skipt sköpum um bótarétt hennar. Á sama hátt og börn og unglingar geti orðið skaðabótaskyld vegna athafna sinna eigi það einnig við um áhættutöku eins og hér sé raunin. Ekki sé nokkur vafi á því að stefnanda hafi verið fullkunnugt um að áfengisneysla og akstur bifreiða fari ekki saman enda komi það fram í auglýsingum og miklum áróðri í fjölmiðlum. Ferðalag stefnanda hina örlagaríku nótt verði því ekki afsakað með æsku hennar.

                Hvað varðar tilvísun stefnanda í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er því haldið fram af hálfu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. að sú lagagrein eigi ekki við í þessu tilviki enda sé henni sniðinn þröngur stakkur. Geti einungis komið til álita að beita henni við mjög óvenjulegar aðstæður, sbr. orðalag greinarinnar sjálfrar. Eins og mál þetta sé vaxið sé þetta skilyrði ekki uppfyllt.

                Leiði framanritað ekki til sýknu er til vara krafist lækkunar á stefnukröfum með vísan til sömu raka og að málskostnaður falli niður.

Málsástæður og lagarök stefndu Huga og Steinars.

                Af hálfu stefndu Huga og Steinars er bótaskyldu þeirra í máli þessu hafnað. Vísa þeir til þess að stefnanda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að stefndi Steinar hafi verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðarinnar í umrætt skipti. Niðurstaða rannsóknar á blóðsýni sanni það ótvírætt að hann hafi verið óhæfur til að stjórna ökutæki, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                Skýrsla stefnanda hjá lögreglu þess efnis að henni hafi ekki verið kunnugt um að stefndi Steinar hafi neytt áfengis á meðan á akstrinum stóð og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir ölvunarástandi hans sé algjörlega í ósamræmi við framburð annarra sem í bifreiðinni hafi verið. Telja stefndu þvert á móti að ölvunarástand stefnda Steinars hafi öllum í bifreiðinni verið ljóst eða mátt vera ljóst. 

                Samkvæmt þessu verði að telja að stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið þá áhættu að taka sér far með bifreiðinni við þær aðstæður að ökumaður hennar teljist samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga óhæfur til að stjórna ökutæki. Þrátt fyrir vitneskju sína um ölvun ökumannsins hafi stefnandi heldur ekki reynt að yfirgefa bifreiðina þótt hún hafi haft til þess næg tækifæri.

                Með vísan til framangreinds krefjast stefndu Hugi og Steinar þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og byggja það á 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem bótaréttur tjónþola fyrir líkamstjón geti fallið niður ef hann er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Í þessu tilviki hafi stefnandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Af þeirra hálfu er byggt á sömu sjónarmiðum og fram koma af hálfu stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. varðandi túlkun á 24. gr. laga nr. 50/1993 en þeir halda því fram að þeirri lagagrein verði ekki beitt við úrlausn á sakarefni því sem hér sé til umfjöllunar.

                Hvað varðar varakröfu stefndu Huga og Steinars er vísað til 2. mgr. 24. og 25. gr. laga nr. 50/1993, en einnig til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                Máls­kostnaðarkrafa stefndu er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sér í lagi 129. gr. og 130. gr. laganna.

Niðurstöður.

                Í málinu hefur komið fram að stefnandi og Hulda Símonardóttir fóru upp í bifreið stefnda Huga á Tálknafirði um klukkan 21:30 þann 1. október 1994 og óku með honum og stefnda Steinari í bifreiðinni fram eftir kvöldi og nóttu. Um nóttina fóru þau öll í sund í Reykjarfirði. Eftir sundið varð stefndi Hugi eftir en Hulda fór úr bifreiðinni nokkru síðar þar sem hún varð hrædd vegna þess hve hratt og ógætilega stefndi Steinar ók. Þá hefur einnig komið fram í málinu að þau neyttu öll áfengis í bifreiðinni og í sundlauginni en þau drukku úr sömu flösku sem gekk á milli þeirra. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 1996 bls. 2059 ók stefndi Steinar bifreiðinni undir áhrifum áfengis í umræddu tilviki. Framburður stefndu Huga og Steinars um að stefnanda hafi verið kunnugt um ölvun og áfengisneyslu stefnda Steinars er studdur vitnisburði Huldu Símonardóttur. Stefnandi var samvistum við stefnda Steinar frá klukkan 21:30 kvöldið 1. október 1994 og samfellt þar til slysið varð eftir klukkan 5 að morgni 2. október, ýmist í bifreiðinni sem stefndi Steinar ók eða í sundlauginni sem þau fóru öll í um nóttina. Með vísan til alls þessa hlaut stefnanda að vera ljóst að stefndi Steinar ók bif­reiðinni undir áhrifum áfengis. Þrátt fyrir það tók hún sjálf þá áhættu að taka þátt í ökuferðinni sem verður að teljast stórkostlegt gáleysi af hennar hálfu en aldur hennar og eigin áfengisneysla þykja ekki hafa áhrif á þá niðurstöðu. Með dómi Hæstaréttar 1996 bls. 3120 er staðfest sú dómvenja að bætur falli alveg niður þegar tjónþoli hefur sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um að bætur fyrir líkamstjón megi lækka eða fella niður ef sá sem hefur orðið fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Þykir stefnandi því hafa með eigin áhættutöku fyrirgert bótarétti sínum á hendur stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. og Huga sem hún byggir á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987.

                Kröfur á hendur stefnda Steinari eru byggðar á sakarreglunni. Sömu sjónarmið eiga þar við varðandi áhættutöku stefnanda. Hins vegar þykir rétt við úrlausn um bótaábyrgð stefnda Steinars að beita reglunni í 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, um að horfa megi að nokkru fram hjá eigin sök eða áhættutöku í sérstökum undantekningartilvikum. Rökin fyrir því eru þau að stefndi Steinar hefur valdið stefnanda alvarlegu líkamstjóni sem augljóst þykir að verði henni enn þungbærara að bera falli bótaréttur hennar niður að öllu leyti vegna eigin áhættutöku. Eins og áður er komið fram var stefnandi aðeins 15 ára gömul þegar slysið varð. Stefndu Hugi og Steinar sem þá voru 19 og 21 árs gamlir höfðu kvöldið áður og um nóttina veitt stefnanda áfengi sem er refsivert samkvæmt 3. mgr. 16. gr. áfengislaga nr. 82/1969, sbr. 1. mgr. 33. gr. s.l., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 52/1978 og samkvæmt 65. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 er refsivert að hvetja ungmenni til áfengisneyslu. Við mat á því hvort skilyrði 2. mgr., sbr. 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga séu fyrir hendi verður hvorki fram hjá þessu litið né því að brot stefnda Steinars gagnvart stefnanda eru að öðru leyti stórfelld. Þótt stefnandi hafi samkvæmt því sem að framan segir fyrirgert skaðabótarétti með eigin áhættutöku þykir rétt með vísan til lagaákvæðisins að horfa að nokkru fram hjá því við mat á bótaábyrgð stefnda Steinars. Þykir rétt að hann bæti stefnanda tjón hennar að hálfu.    

                Þessi rök þykja hins vegar ekki eiga við um ábyrgð stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Huga. Eru því ekki skilyrði til að beita framangreindu lagaákvæði hvað varðar bótaábyrgð þeirra gagnvart stefnanda. Samkvæmt því ber að sýkna þessa stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

                 Ekki er ágreiningur um fjárhæð bótakröfu stefnanda og vaxtakröfum hennar er ómótmælt. Samkvæmt því sem að framan greinir ber að dæma stefnda Steinar til að greiða stefnanda 1.376.927 krónur með 2% vöxtum og vaxtavöxtum frá 2. október 1994 til 3. maí 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig þykir rétt að hann greiði málskostnað stefnanda að hluta sem er ákveðinn 200.000 krónur sem greiðast í ríkissjóð.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði sem er þóknun talsmanns hennar, Helga Birgissonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Rétt þykir, með vísan til þess að málið snýst um veruleg vafaatriði varðandi bótaskyldu stefndu, að málskostnaður falli að öðru leyti niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Hugi Jónsson, skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Helgu Ránar Sigurðardóttur, í máli þessu.

                Stefndi, Steinar Arnarson, greiði stefnanda 1.376.927 krónur með 2% vöxtum og vaxtavöxtum frá 2. október 1994 til 3. maí 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað sem greiðast í ríkissjóð.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði sem er þóknun talsmanns hennar, Helga Birgissonar hrl., 400.000 krónur. 

                Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.