Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2009


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Verðbréfaviðskipti
  • Galli
  • Riftun
  • Aðild


Fimmtudaginn 29. apríl 2010.

Nr. 407/2009.

Þrotabú Insolidum ehf.

Dögg Pálsdóttir og

Páll Ágúst Ólafsson

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kaupsamningur. Verðbréfaviðskipti. Galli. Riftun. Aðild.

I og S gerðu með sér samning 20. júlí 2007 um kaup I af S á 47.500.000 stofnfjárbréfum í SPRON. S fjármagnaði kaupin og var lánssamningur undirritaður 3. ágúst sama ár. Til tryggingar skuldinni var S settur að handveði nánar tilgreindur fjöldi stofnfjárhluta í SPRON og fleiri sparisjóðum, svo og allir hlutir í I. Samhliða lánssamningnum voru gerðir átta handveðssamningar til að veita þessar tryggingar. Í október 2007 kallaði S eftir frekari tryggingum, þar sem bréfin í SPRON hefðu lækkað í virði. Þegar ekki var brugðist við af hálfu I tilkynnti S 8. nóvember 2007 um gjaldfellingu skuldarinnar. Sama dag lýstu I, P og D yfir riftum á kaupum á stofnfjárhlutunum, hluta lánssamningsins og handveðssamningunum, en S mótmælti. I var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2008. Þrotabú I, D og P höfðuðu síðar mál og kröfðust viðurkenningar á riftun þeirra 8. nóvember 2007. Var krafan einkum reist á því að stofnfjárbréfin hefðu í reynd ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið og S hefði verið það ljóst. Vegna tengsla S við fyrrverandi eiganda stofnfjárhlutanna hefði hann búið yfir innherjaupplýsingum um verðmæti hlutanna og hagnýtt sér þær með ólögmætum hætti. Framangreindri kröfu um riftun lánssamnings 3. ágúst 2007 og handveðssamninganna átta var vísað frá héraðsdómi. Að því er varðaði samning aðila um kaup á stofnfjárbréfunum var litið var til þess að eigendur I hefðu átt frumkvæði að því að óska eftir liðsinni S, bæði um fjármögnun fjárfestinga félagsins og kaup á stofnfjárbréfum sparisjóða. Þá bæru samskipti aðila þess einnig vitni að eigendur I hefðu haft bæði mikla þekkingu á viðskiptum á verðbréfamarkaði og reynslu af viðskiptum með stofnfjárbréf sparisjóða. Ennfremur hefði það ekki verið fyrr en S hafði ítrekað kröfu sína um frekari tryggingar að I, P og D töldu að þau hefðu verið blekkt í viðskiptum. Loks var talið að innherjaákvæði IX. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hefðu ekki gilt í viðskiptum aðila. Ekki þóttu skilyrði til þess að verða við kröfu um riftun, enda enga þá galla að finna á hinu selda eða í söluferlinu, sem metið yrði til verulegra vanefnda af hálfu S. Var S því sýkn af kröfu þrotabús I, D og P. Var þrotabúi I hins vegar gert að greiða S eftirstöðvar lánssamnings félagsins við S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 29. maí 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 15. júlí 2009 og var áfrýjað öðru sinni 17. sama mánaðar. Áfrýjendur krefjast þess að viðurkennd verði riftun þeirra 8. nóvember 2007 á kaupsamningi við stefnda 20. júlí sama ár um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi höfðuðu Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson mál þetta á hendur stefnda 7. febrúar 2008. Þau kröfðust þess að viðurkennd yrði riftun þeirra 8. nóvember 2007 á kaupsamningi Insolidum ehf. við stefnda 20. júlí sama ár um 47.500.000 stofnbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, hluta lánssamnings Insolidum ehf. við stefnda 3. ágúst 2007 að því er varðaði töku láns hjá honum að fjárhæð 571.575.890 krónur og átta handveðssamningum frá sama degi, þar af fimm milli Insolidum ehf. og stefnda, tveimur milli áfrýjandans Daggar og stefnda, en einum milli áfrýjandans Páls Ágústs og stefnda. Insolidum ehf. var í eigu þessara tveggja áfrýjenda og skipuðu þau stjórn félagsins. Stefndi höfðaði gagnsök í málinu 11. mars 2008 og krafðist þess að Insolidum ehf. yrði gert að greiða sér 298.282.616 krónur með nánar tilteknum vöxtum. Samkvæmt kröfu stefnda var bú Insolidum ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2008. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar. Við fyrirtöku málsins í héraðsdómi 19. maí 2008 var lögð fram orðsending frá skiptastjóra í þrotabúi félagsins þar sem fram kom að hann gerði ekki að svo stöddu athugasemdir við að fyrirsvarsmenn þess héldu áfram rekstri málsins, en frekari ákvarðanir yrðu teknar eftir að fyrir lægi niðurstaða vegna kæru úrskurðarins um gjaldþrotaskipti. Í sama þinghaldi var lögð fram yfirlýsing áfrýjendanna Daggar og Páls Ágústs um að þau tækju að sér að halda uppi hagsmunum þrotabús félagsins í málinu í eigin nafni til hagsbóta búinu. Úrskurður héraðsdóms um að bú Insolidum ehf. væri tekið til gjaldþrotaskipta var staðfestur með dómi Hæstaréttar 16. júní 2008 í máli nr. 282/2008. Við fyrirtöku máls þessa í héraðsdómi 27. júní 2008 var lagt fram bréf skiptastjóra frá deginum áður til áfrýjendanna Daggar og Páls Ágústs, þar sem fram kom að þau hafi bæði lýst kröfum í búið og skiptastjóri móttekið yfirlýsingu þeirra um ábyrgð á greiðslu alls kostnaðar vegna dómsmálsins og væri þeim veitt heimild til að halda uppi hagsmunum búsins í eigin nafni til hagsbóta því á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með úrskurði 23. september 2008 var framangreindum kröfum um viðurkenningu á riftun hluta lánssamnings 3. ágúst 2007 og átta handveðssamninga vísað frá dómi. Að svo komnu var staðan sú að einungis var til úrlausnar í málinu ágreiningur sem laut að réttindum þrotabús Insolidum ehf., sem skiptastjóri hafði ákveðið að halda ekki uppi, en áfrýjendurnir Dögg og Páll Ágúst tóku að sér á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 að halda fram í eigin nafni til hagsbóta búinu. Því til samræmis hefði þrotabú Insolidum ehf. eftir þetta með réttu ekki átt að teljast aðili að málinu. Þar sem stefndi hefur ekki haft uppi dómkröfur fyrir Hæstarétti, sem varða aðild að málinu, getur þessi annmarki á því engu breytt um niðurstöðu þess. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendunum Dögg og Páli Ágústi verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

        Héraðsdómur skal vera óraskaður.

        Áfrýjendur Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson greiði óskipt stefnda, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 25. febrúar sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 7. febrúar 2008.

Stefnendur í aðalsök eru Insolidum ehf., Bergstaðastræti 86, Dögg Pálsdóttir, Laugarnesvegi 89 og Páll Ágúst Ólafsson, Bergstaðastræti 86, öll í Reykjavík, en stefndi er Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., Hafnarstræti 53, Akureyri.

Endanleg krafa stefnenda er að viðurkennd verði riftun 8. nóvember 2007 á kaupsamningi við stefnda, sem gerður var 20. júlí 2007, um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þá krefjast þeir málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda, auk málskostnaðar úr þeirra hendi, in solidum, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Með gagnstefnu, sem þingfest var 11. mars 2008, höfðaði stefndi gagnsök á hendur Insolidum ehf. og gerir þær kröfur að félagið verði dæmt til að greiða gagnstefnanda 298.282.616 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. nóvember 2007 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu.

Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda, auk málskostnaðar að skaðlausu.  

Málsatvik og ágreiningsefni

Með samkomulagi framkvæmdastjóra Insolidum ehf., Páls Ágústs Ólafssonar, og forstjóra aðalstefnda, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., 20. júlí 2007, var svo um samið að Insolidum ehf. keypti af aðalstefnda stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur á genginu 11,797232. Kaupverðið nam því 560.368.520 krónum. Ekki er að sjá að skriflegur kaupsamningur hafi verið gerður um viðskiptin, en ekki er um það deilt að samningur komst á með aðilum umræddan dag og að viðsemjandi gagnvart aðalstefnda og kaupandi stofnfjárbréfanna var Insolidum ehf. Um leið var fastmælum bundið að aðalstefndi fjármagnaði viðskiptin með láni til Insolidum ehf.

Nauðsynlegt þykir að gera nokkra grein fyrir aðdraganda þess að stefnendur í aðalsök, hér nefndir aðalstefnendur, áttu viðskipti við Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., hér nefnt aðalstefndi, um kaup á umræddum stofnfjárbréfum, en þar greinir aðila á um þátt hvors þeirra. Af gögnum málsins má þó ráða að eigendur Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson, leituðu til aðalstefnda 8. júní 2007 um fjármögnun á fjárfestingum Insolidum ehf. Í minnisblaði Daggar og Páls Ágústs til framkvæmdastjóra útlánasviðs Saga Capital kemur fram að leitað sé eftir fjármögnun vegna kaupa félagsins í SPRON, Sparisjóðnum Byr og hugsanlega fleiri sparisjóðum. Þar segir einnig að eigendur hafi í gegnum Insolidum ehf. staðið í nokkrum fjárfestingum, aðallega í SPRON og Sparisjóðnum Byr og hafi þeir trú á fjárfestingum í stofnfjárbréfum sparisjóða. Því vilji þeir auka stofnfjáreign sína í þessum sparisjóðum, og hugsanlega fleiri sparisjóðum, sem hægt sé að kaupa stofnfjárbréf í. Bréfritarar taka loks fram að vegna frekari kaupa á stofnfjárbréfum vilji þeir taka kúlulán í íslenskum krónum til a.m.k. fimm ára,  með vaxtaafborgun einu sinni á ári, sem tímalega félli saman við arðgreiðslu (byrjun maí ár hvert). Ef þörf væri frekari trygginga en handveðs í bréfunum sjálfum, benda bréfritarar á hlutabréf þeirra í Insolidum ehf. sem tryggingu.

Gögn málsins bera með sér að aðilar hafi eftir þetta átt samskipti sín í milli. Í tölvupósti frá 21. júní 2007 til Daggar og Páls Ágústs kemur fram að aðalstefndi sé að skoða erindi þeirra, en vafi sé í hans huga um tryggingar í Insolidum ehf. Sama dag svarar Dögg á þá leið að þau telji veð í bréfum Insolidum ehf. mjög góða tryggingu og að verðmæti félagsins sé langt umfram skuldir. Framkvæmdastjóri útlánasviðs aðalstefnda svaraði síðan málaleitan þeirra með þessum orðum: „Við getum ekki sætt okkur við veð í Insolidum þrátt fyrir að það sé mjög öflugt félag. Við gerum kröfu um tryggingaþekju sem við getum ekki vikið frá (stofnfjárbréf, skráð verðbréf).“

Á vefsíðu SPRON 17. júlí 2007 birtist svohljóðandi fréttatilkynning: „SPRON fyrirhugar breytingu í hlutafélag og óskar eftir skráningu í kauphöll.“ Jafnframt sagði þar: „Stjórn SPRON samþykkti þann 17. júlí að undirbúa breytingu sparisjóðsins í hlutafélag og óska eftir skráningu félagsins í OMX Norrænu kauphöllina Íslandi. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er breyting sparisjóðsins í hlutafélag háð samþykki stofnfjáreigenda og Fjármálaeftirlitsins. Boðað verður til fundar stofnfjáreigenda seinnihluta ágúst.“ Í tilkynningunni er enn fremur greint frá því að ráðgjafarfyrirtækið Capacent hafi unnið mat á áætluðu markaðsvirði SPRON og gagngjaldi fyrir stofnfjárhluti, miðað við 31. mars 2007, og muni breyting á rekstrarformi miðast við þá dagsetningu. Niðurstaða Capacent sé að eignarhlutur stofnfjáreigenda nemi 85% af hlutafé, en eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar verði 15%. Einnig kemur þar fram að markaði fyrir viðskipti með stofnfjárhluti verði lokað 7. ágúst 2007, og því muni stjórnin ekki samþykkja sölu eða annað framsal stofnfjárhluta eftir þann tíma.

Daginn eftir, 18. júlí, var í fjölmiðlum fjallað um fréttatilkynninguna. Kom þar m.a. fram að Capacent hefði metið heildarverðmæti SPRON á 60 milljarða króna og hlutur stofnfjáreigenda því 51 milljarður króna. 

Að morgni 20. júlí 2007 sendi Páll Ágúst Ólafsson framkvæmdastjóra útlánasviðs aðalstefnda tölvupóst, þar sem m.a. sagði svo: „Insolidum hefur hug á að bæta verulega við sig í Spron – ekki sýst í ljósi þeirra tíðinda að félagið verður skráð á markað, að öllu óbreyttu, í sept nk. Um er að ræða fjármögnun á allt að 750 mkr (50-80 m. hlutir) Ég á hreinar 100 mkr. óveðsettar í spron og Byr bréfum sem hægt væri að láta að veði. Að auki yrði keypt bréf lögð að veði.[...] Þætti vænt um að heyra frá þér sem fyrst vegna þessa hvort þú sjáir þetta ganga saman.“  

Framkvæmdastjóri útlánasviðs svaraði Páli Ágústi um hæl með því að spyrja í hvaða síma hægt væri að ná í hann, og gaf Páll Ágúst honum upp símanúmer sitt. Óumdeilt er að forstjóri aðalstefnda hringdi skömmu síðar í Pál Ágúst, en aðila greinir á um efni þess samtals og annarra samtala þeirra sama dag. Í stefnu er því haldið fram að forstjórinn hafi að fyrra bragði boðið Páli Ágústi að kaupa allan þann fjölda stofnfjárbréfa í SPRON, sem aðalstefnendur kærðu sig um, svo og lán fyrir öllum bréfunum, ásamt lántökukostnaði. Samtölum þeirra lauk með því að Insolidum ehf. keypti 0,5% stofnfjárbréfa í SPRON. Fram kemur einnig í stefnu að forstjóri aðalstefnda hefði ekki upplýst Pál Ágúst um hver væri seljandi bréfanna, þótt hann hefði sérstaklega innt forstjórann eftir því. Forstjórinn hefði hins vegar svarað því til að um væri að ræða stóran stofnfjáreiganda, sem vildi dreifa áhættu sinni. Jafnframt segir þar að forstjórinn hefði gefið Páli Ágústi til kynna að hann ætti í viðræðum við seljanda bréfanna um endanlegt kaupverð þeirra, en hefði að lokum fullyrt að ekki væri frekar hægt að semja um verðið, þar eð seljandinn vildi ekki selja á lægra verði.

Í greinargerð aðalstefnda er samtölum forstjórans og Páls Ágústs lýst á annan veg. Þar segir að sá síðarnefndi hafi haft áform um að kaupa stofnfjárbréf á genginu 5,9, eða þar um bil, en það verð mun hafa verið gangverð stofnfjárbréfa í SPRON þennan dag. Forstjóra aðalstefnda hefði þótt það heldur hátt og því upplýst Pál Ágúst um að bankinn hefði skuldbundið sig til að kaupa umtalsvert magn bréfa af stórum stofnfjáreiganda, en ætti eftir að fá staðfest endanlegt verð. Gengi það eftir gæti hann boðið Insolidum ehf. bréf á mun lægra gengi, nær 5,4. Ekkert hefði þó verið ákveðið í þessu samtali. Síðar sama dag hefðu þeir aftur ræðst við og náð samkomulagi um að Insolidum ehf. keypti alls 47.500.000 hluti á genginu 5,35. Páll Ágúst hefði þá verið búinn að kynna sér að hagstæðara verð fengist ekki annars staðar. Fullyrðir aðalstefndi að í samtölum þeirra hafi komið fram að aðalstefndi væri að kaupa stabba af bréfum af stórum stofnfjáreiganda og að bankinn hygðist selja hluta af þeim til Insolidum ehf. Í greinargerð aðalstefnda er því hins vegar mótmælt að forstjóri aðalstefnda hafi boðið Insolidum ehf. að kaupa allt það magn bréfa sem félagið kærði sig um, svo og lán fyrir kaupunum, enda megi sjá af gögnum málsins að framkvæmdastjóri Insolidum ehf. hafði áform um að kaupa miklu fleiri stofnfjárhluti en viðskipti tókust um.

Eins og áður er fram komið fjármagnaði aðalstefndi kaup Insolidum ehf. á umræddum stofnfjárbréfum. Var lánssamningur undirritaður 3. ágúst 2007, merktur sem lánssamningur nr. 131. Samkvæmt honum lánar aðalstefndi Insolidum ehf. 582.000.000 króna, og er tekið fram að tilgangur lánsins sé að fjármagna kaup lántaka á stofnfjárhlutum að nafnvirði 48.435.430 krónur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, og skuldbindi lántaki sig til að ráðstafa fénu til þeirra kaupa. Einnig er þar kveðið á um endurgreiðslu lánsins, vexti, framlengingu þess, tryggingar, skilyrði fyrir útborgun, vanefndir og fleiri atriði. Til tryggingar skuldinni var lánveitanda settur að handveði nánar tilgreindur fjöldi stofnfjárhluta í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóði og Sparisjóði Keflavíkur, svo og allir hlutir í lántaka. Samhliða lánssamningnum voru gerðir átta handveðsamningar til að veita þessar tryggingar. Samkvæmt fimm þeirra er Insolidum ehf. eigandi veðsettra stofnfjárhluta, Dögg Pálsdóttir er eigandi stofnfjárhluta samkvæmt einum handveðsamningi, en Dögg og Páll Ágúst eiga að jöfnu allt veðsett hlutafé í Insolidum ehf.

Auk þess sem að ofan greinir, kemur fram í lánssamningnum að lánveitandi meti verðmæti trygginga hverju sinni, eftir því sem þar er nánar ákveðið. Þá er tekið fram að ef lánveitandi telji verðmæti trygginga fara niður fyrir 150% af eftirstöðvum láns samkvæmt lánssamningnum, sé lánveitanda heimilt að krefjast þess að lántaki setji viðbótartryggingu sem lánveitandi meti fullnægjandi, innan 14 daga. Þó sé lánveitanda heimilt að ákveða skemmri frest ef áhrifamiklar breytingar á markaðsaðstæðum krefjist þess. Í samningnum er og sett skilyrði um að verðmæti uppreiknaðs eigin fjár lántaka skuli ávallt nema 50% umfram heildarskuldbindingar hans samkvæmt lánssamningnum, og skuldbindur lántaki sig til að láta lánveitanda í té gögn til að staðreyna það.

Í 9. kafla lánssamningsins er fjallað um vanefndatilvik og vanefndaúrræði. Kemur þar m.a. fram að það teljist vanefnd ef lántaki brýtur gegn áðurnefndu skilyrði um eigið fé umfram heildarskuldbindingar, fjárhagsstaða hans breytist verulega eða ef hann vanrækir að leggja fram viðbótartryggingar innan settra tímamarka.

Meðal málsskjala er yfirlit um ráðstöfun láns nr. 131. Kemur þar fram að af lánsfénu, 582.000.000 króna, er 5.820.000 krónum ráðstafað til greiðslu lántökugjalds, 10.148.343 krónum er ráðstafað til uppgreiðslu á láni nr. 69 og 565.972.205 krónum varið til verðbréfaviðskipta. Mismunur, 59.452 krónur, eru greiddar til lántaka. Þá liggur einnig fyrir kaupnóta til lántaka vegna kaupa hans á 47.500.000 stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir 560.368.520 krónur og greiðslu þóknunar að fjárhæð 5.603.685 krónur, samtals að fjárhæð 565.972.205 krónur. Kaupnótan er dagsett 25. júlí 2007, eftir að kaupin höfðu verið samþykkt á stjórnarfundi í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis daginn áður. Á kaupnótu kemur fram að gengið í viðskiptunum sé 11,797232, en samkvæmt greinargerð aðalstefnda hefur það þá verið margfaldað með uppreiknistuðlinum 2,205. Ekki kemur fram hver sé seljandi stofnfjárbréfanna.

Í tengslum við viðskipti aðila undirrituðu Páll Ágúst Ólafsson og Dögg Pálsdóttir, f.h. Insolidum ehf., önnur skjöl, sem einnig eru meðal gagna málsins. Þau eru eyðublað vegna laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, almennir skilmálar fyrir viðskiptavini Saga Capital og yfirlýsing vegna viðskipta á Saga Market. Í tveimur síðastgreindu skjölunum kemur fram að Saga Capital veiti eingöngu fagfjárfestum þjónustu, og að með undirritun sinni lýsi viðskiptavinur því yfir að honum sé ljóst að þau viðskipti sem hann kunni að eiga á grundvelli skilmálanna geti verið sérlega áhættusöm.

Fundur stofnfjáreigenda í SPRON var haldinn 21. ágúst 2007, og var þar samþykkt tillaga stjórnar um að breyta SPRON í hlutafélag. Var hlutafélagið SPRON skráð í Kauphöll Íslands 23. október 2007. Daginn eftir, 24. október, sendi aðalstefndi tölvubréf til Páls Ágústs og Daggar, þar sem segir svo: „Eins og þið hafið orðið var við hafa Spronbréfin lækkað mikið í virði og nú er svo komið að við þurfum að kalla eftir auknum tryggingum að upphæð 320.000.000.“ Að undangengnum frekari orðsendingum milli aðila tilkynnti aðalstefndi í bréfi til lögmanns aðalstefnenda 8. nóvember 2007 um gjaldfellingu skuldar samkvæmt lánssamningi 3. ágúst sama ár. Í bréfinu kom fram að fjárhæð skuldarinnar, að vöxtum meðtöldum, næmi 611.242.322 krónum, hlutfall tryggingaþekju væri metið 108%, eigið fé Insolidum ehf. væri áætlað 96.606.439 krónur, eða sem svaraði tæplega 16% af fjárhæð skuldarinnar, og að liðnir væru 15 dagar frá því að kallað hefði verið eftir frekari tryggingum, án þess að brugðist hefði verið við. Um heimild til gjaldfellingar var vísað til ákvæða lánssamnings aðila um vanefndir af hálfu lántaka. Sama dag lýstu aðalstefnendur yfir riftun á kaupum á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur, hluta lánssamnings frá 3. ágúst 2007 og átta handveðssamningum frá sama degi. Í riftunaryfirlýsingu kemur fram að riftun sé einkum á því reist að verðmæti stofnfjárhluta hafi í reynd aðeins verið um 60% af því verði sem greitt hefði verið fyrir þá, og hefði aðalstefndi haft vitneskju um þann galla. Riftunaryfirlýsingu var bæði beint að aðalstefnda og Sundagörðum ehf., þar eð óvissa var talin ríkja um hver hefði verið raunverulegur seljandi þeirra. Í stefnu kemur fram að eigendur Insolidum ehf. hefðu komist að því að seljandi stofnfjárbréfanna hefði verið Sundagarðar hf. Hins vegar hefði lögmaður aðalstefnda upplýst í bréfi 7. nóvember 2007 að aðalstefndi hefði sjálfur verið eigandi þeirra. 

Með bréfi 12. nóvember 2007 til lögmanns aðalstefnenda mótmælti aðalstefndi riftun á kaupsamningi aðila og vísaði því á bug að skilyrði riftunar væru fyrir hendi samkvæmt lögum nr. 50/2000, enda yrði ekki séð að stofnfjárbréfin í SPRON hafi verið haldin verulegum göllum í viðskiptum aðila. Um leið tilkynnti aðalstefndi að hann hygðist næsta dag hefja fullnustu á kröfu sinni samkvæmt lánssamningi aðila með því að ráðstafa verðmætum, sem honum hefðu verið sett að handveði, ef ekki yrði orðið við áskorun um að greiða kröfuna. Aðalstefndi fylgdi þessu eftir 14. sama mánaðar með því að leysa til sín hlutabréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., sem komið höfðu í stað stofnfjárhluta sem hann hafði að handveði frá Insolidum ehf. og Dögg Pálsdóttur, fyrir 317.631.941 krónu. Á kaupnótu kemur fram að dagsetning uppgjörs sé 19. nóvember 2007. Jafnframt er þar vakin á því athygli að Saga Capital sé mótaðili viðskiptanna.

Aðalstefndi höfðaði gagnsök í málinu á hendur Insolidum ehf., og gerir þar kröfu um að félagið verði dæmt til að greiða honum 298.282.616 krónur, ásamt nánar tilteknum vöxtum, auk málskostnaðar. Í gagnstefnu er fjárhæðin sögð eftirstöðvar kröfu gagnstefnanda á hendur gagnstefnda vegna gjaldfellingar lánssamnings aðila frá 3. ágúst 2007, þegar frá hefur verið dregin  innborgun að fjárhæð 317.631.941 króna.  

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2008 var bú Insolidum ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Er mál þetta rekið með heimild þrotabúsins og því til hagsbóta, en á kostnað Páls Ágústs Ólafssonar og Daggar Pálsdóttur, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og dóm Hæstaréttar 16. júní 2008 í málinu nr. 310/2008.

Með úrskurði dómsins frá 23. september 2008 var hluta upphaflegrar kröfugerðar stefnenda í aðalsök vísað frá dómi, en krafa þeirra var þá tvíþætt. Annars vegar var krafist viðurkenningar á riftun á kaupsamningi við aðalstefnda um kaup á 47.500.000 stofnfjárhlutum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 20. júlí 2007. Hins vegar var krafist viðurkenningar á riftun á hluta lánssamnings frá 3. ágúst sama ár milli sömu aðila um fjármögnun viðskiptanna og átta handveðsamningum, sem gefnir voru út af Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttur og Páli Ágústi Ólafssyni, samhliða lánssamningnum og honum til tryggingar. Sem rökstuðningi fyrir samlagsaðild upphaflegra stefnenda var á því byggt að öllum samningunum hefði verið rift á grundvelli sömu málsástæðna og því nauðsynlegt að allir aðilar samninganna sæktu málið í félagi, enda ættu kröfurnar rætur að rekja til sama löggernings. Tekið var fram að Insolidum ehf. væri aðili að kaupsamningi, lánssamningi og fimm handveðssamningum, Dögg aðili að tveimur handveðssamningum, en Páll Ágúst aðili að einum handveðssamningi. Við frávísun síðari liðar upphaflegrar kröfugerðar stefnenda í aðalsök verður að líta svo á að heimild Daggar og Páls Ágústs til samlagsaðildar að máli þessu sé ekki lengur fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðild þeirra að málinu, við hlið Insolidum ehf., byggist hins vegar á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 310/2008. 

Málsástæður og lagarök stefnenda í aðalsök

Aðalstefnendur byggja á því að aðalstefndi, Saga Capital, hafi brotið gegn lögum, reglum og verklagsreglum sem gildi um verðbréfaviðskipti, með því að leyna þá mikilvægum upplýsingum um stofnfjárbréfin. Feli brotið í sér verulega vanefnd á samningsskyldum hans gagnvart þeim, og því hafi verið heimilt að rifta samningi við aðalstefnda frá 20. júlí 2007 um kaup Insolidum ehf. á 47.500.000 stofnfjárhlutum í SPRON.

Í fyrsta lagi byggja aðalstefnendur á því að í viðskiptum aðila hafi innherjaupplýsingar verið nýttar með ólögmætum hætti. Á því beri aðalstefndi ábyrgð og réttlæti það riftun á viðskiptunum. Í því sambandi benda aðalstefnendur á að á stjórnarfundi í SPRON 17. júlí 2007 hafi verið tekin ákvörðun um að óska eftir skráningu félagsins í kauphöll. Eftir þann tíma hafi ákvæði IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, um innherjaviðskipti, átt við um stjórnarmenn félagsins, sbr. 1. tl. 1. mgr. 56. gr. laganna. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 60. gr. sömu laga sé innherja óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum, búi hann yfir innherjaupplýsingum, en í 1. mgr. 61. gr. laganna segi að fjármálafyrirtæki sé óheimilt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti, hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að viðskiptin brjóti í bága við ákvæði um innherjaviðskipti.

Aðalstefnendur benda einnig á að á sama stjórnarfundi hafi verið lagt fram ítarlegt verðmat á SPRON, unnið af ráðgjafarfyrirtækinu Capacent. Þá hafi stjórnin undirritað samrunaáætlun vegna breytinga á félaginu í hlutafélag, þar sem fram kom að markaðsvirði félagsins væri um 59,4 milljarðar króna. Af þeim verðmætum áttu 85% að koma í hlut stofnfjáreigenda í formi hlutabréfa, en afgangurinn, 15%, skyldi afhentur sjálfseignarstofnun. Verðmæti hlutabréfa stofnfjáreigenda var því um 48,5 milljarðar króna. Þremur dögum síðar hefði aðalstefndi selt Insolidum ehf., 0,5% stofnfjárhlut í SPRON á rúmlega 560 milljónir króna, og fullyrt að verðið væri hagstætt. Með því hefði aðalstefndi gefið til kynna að verð á stofnfjárbréfum, sem endurspeglaði heildarverðmæti sparisjóðsins upp á rúmlega 110 milljarða króna, væri hagstætt verð. Þá verði að hafa í huga að Sundagarðar hf. fari með virkan eignarhlut í Saga Capital, sbr. 18. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og því náin tengsl milli félagsins og bankans.

Aðalstefnendur byggja einnig á því að forstjóri Sundagarða hf., Gunnar Þór Gíslason, hafi sökum stjórnarsetu sinnar í SPRON búið yfir mikilvægum innherjaupplýsingum um verðmæti bréfanna, byggðar á þeim verðmötum sem lögð hafi verið fyrir stjórnina 17. júlí 2007. Stjórn SPRON hafi til hins ýtrasta dregið að veita aðalstefnendum aðgang að verðmati Capacent, þar sem það væri trúnaðarmál. Því hafi aðalstefnendur mátt álykta að skjalið hafi falið sér innherjaupplýsingar. Þá byggja þeir á því að eftirfarandi atriði leiði til þess að aðalstefndi verði sjálfur talinn hafa búið yfir sömu upplýsingum 20. júlí 2007, eða að um samverknað hafi verið að ræða milli hans og Sundagarða hf.:

1.        Veruleg tengsl séu milli Saga Capital og Sundagarða hf.

2.        Í símtölum forstjóra Saga Capital og forsvarsmanns Insolidum ehf., Páls Ágústs, í aðdraganda viðskiptanna hafi ítrekað komið fram að aðalstefndi væri miðlari. Þannig hafi ýmsum blekkingum verið beitt til að koma viðskiptunum á, m.a. hefði Páli Ágústi verið tjáð að seljandinn væri stór stofnfjáreigandi í SPRON, að aðalstefndi hygðist sjálfur fjárfesta í bréfum frá sama aðila og að verð bréfanna væri gott. Þá hefði forstjóri aðalstefnda látið Pál Ágúst halda að hann væri að bera ýmis boð á milli aðila í aðdraganda viðskiptanna, þótt síðar hefði komið í ljós að Saga Capital væri sjálft eigandi bréfanna. Hefðu blekkingarnar haft þann eina tilgang að koma viðskiptum á, þrátt fyrir að aðalstefndi væri seljandi bréfanna. Telja aðalstefnendur að af þessu megi ráða að aðalstefndi hafi á þessum tíma haft sömu upplýsingar um verðmæti bréfanna og forstjóri Sundagarða hf.

3.        Lögmaður aðalstefnda hafi fyrst 7. nóvember 2007 upplýst að aðalstefndi væri eigandi stofnfjárbréfanna. Allt fram til þess tíma hefði hann komið fram sem umboðsmaður seljanda gagnvart aðalstefnendum. Draga aðalstefnendur þá ályktun að aðalstefndi hafi þá talið vígstöðu sína betri, kæmi bankinn fram sem seljandi en ekki umboðsmaður. Sé sú raunin, auki það enn líkur þess að aðalstefndi og Sundagarðar hf. hafi haft sömu upplýsingar um verðmæti bréfanna, og að ákvarðanir í málinu hafi frá upphafi verið teknar sameiginlega af forsvarsmönnum beggja félaganna.

4.        Aðalstefndi hafi í engu orðið við áskorunum aðalstefnenda um að leggja fram gögn um aðdraganda viðskiptanna 20. júlí 2007, svo sem samninga við Sundagarða hf. um kaup eða sölu bréfanna, eða þær heimildir sem Saga Capital  reki eignarheimild sína á bréfunum til. Þá halda aðalstefnendur því að fram að þar sem aðalstefndi hafi ekkert aðhafst gagnvart Sundagörðum hf. vegna þeirra 0,53% stofnfjár sem bankinn keypti sjálfur af því félagi á sama tíma, sé það sterk vísbending um að aðalstefndi hafi búið yfir sömu upplýsingum og forstjóri Sundagarða hf. um verðmæti bréfanna. Á meðan aðalstefndi hafi ekki lagt fram gögn er sýni að viðskipti bankans og Sundagarða hf. hafi verið á almennum markaðskjörum milli ótengdra aðila, verði aðalstefndi að bera sömu ábyrgð á viðskiptunum og Sundagarðar hf. hefðu gert sem seljandi bréfanna.        

Af framansögðu telja aðalstefnendur ljóst að aðalstefndi hafi brotið gegn ákvæðum IX. kafla laga nr. 33/2003, um innherjaupplýsingar, þegar viðskiptin fóru fram 20. júlí 2007. Einnig telja þeir að hafið sé yfir vafa að aðalstefndi hafi brotið gegn 61. gr. sömu laga, enda mátti hann vita að forstjóri Sundagarða hf. byggi yfir innherjaupplýsingum á þessum tíma. 

Auk ofanritaðs byggja aðalstefnendur á því að sala innherja á verðbréfum séu tilkynningaskyldar innherjaupplýsingar, og vísa í þeim efnum til reglna í 63. og 64. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Reglurnar séu settar til að upplýsa um viðskipti innherja, aðallega stjórnenda, enda feli viðskipti slíkra aðila í sér innherjaupplýsingar. Jafnframt benda þeir á að í handbók Fjármálaeftirlitsins (FME) um reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 987/2007, komi fram að sala fruminnherja á verulegum eignarhlut geti haft áhrif á fjárfestingarákvarðanir annarra fjárfesta, og þar með fallið undir skilgreiningu á innherjaupplýsingum.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 33/2003, og þar sem stjórnarmaður í SPRON tilkynnti aldrei um viðskipti sín með stofnfjárbréf, eins og skylt var, draga aðalstefnendur þá ályktun að innherjaupplýsingum um sölu bréfanna hafi verið haldið leyndum. Aðalstefndi hafi keypt stofnfjárbréf af þessum sama innherja, en leynt aðalstefnendur uppruna þeirra. Þannig hafi aðalstefndi átt beinan þátt í því að þessum upplýsingum var ekki komið á framfæri við aðalstefnendur. Fullyrða þeir að aðalstefndi hafi vitað eða mátt vita að við söluna lægju fyrir innherjaupplýsingar, sem bentu sterklega til þess að verðmæti bréfanna væri allt annað og verulega lægra en söluverðið, og um leið að í gengi á markaði SPRON fælist verulegt ofmat á verðmætum í félaginu. Að þessu leyti hafi bréfin því verið haldin verulegum galla þegar þau voru seld Insolidum ehf.

Um heimild til riftunar, þegar innherjaupplýsingar eru nýttar í viðskiptum, vísa aðalstefnendur til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, m.a. reglna um brostnar forsendur, 18., 19. og 1. mgr. 39. gr. kaupalaga nr. 50/2000, sem og ákvæða verklagsreglna aðalstefnda. Auk almennra ákvæða verklagsreglnanna um upplýsingaskyldu og jafnræði aðila er sérstaklega bent á ákvæði 3.4, d-lið, þar sem segi að aðalstefnda beri að gæta þess sérstaklega að viðskipti stangist ekki á við ákvæði laga og reglna um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja. Einnig er vísað til sjálfstæðrar riftunarheimildar í ákvæði 13.1 í sömu reglum. Riftunarkrafan er sérstaklega reist á 30. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Í öðru lagi byggja aðalstefnendur á því að þeir hafi verið leyndir því hver væri seljandi bréfanna. Að þeirra dómi skiptir miklu máli hver sé seljandi, ekki síst í verðbréfaviðskiptum, enda sé þar fyrst og fremst verið að selja framtíðarvæntingar, byggðar á upplýsingum um útgefanda verðbréfanna. Aðilar á verðbréfamarkaði hafi mismunandi aðstöðu til að afla slíkra upplýsinga, en tveir hópar hafi þar þó algera sérstöðu, innherjar og fjármálafyrirtæki. Því hafi sérstakar reglur verið settar um viðskipti þessara aðila, sem leggi mun ríkari skyldur á þá en aðra markaðsaðila. Í því efni benda aðalstefnendur á 6. og 14. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, þar sem áréttað sé mikilvægi þess að gætt sé óhlutdrægni, jafnræðis og trúverðugleika í viðskiptum. Í 15. gr. sömu laga sé kveðið á um að fjármálafyrirtækjum beri að setja sér reglur til að tryggja að slíku sé fylgt. Fjármálaeftirlitið hafi jafnframt sett leiðbeinandi verklagsreglur, nr. 1/2001, um efni slíkra reglna. Í 13. lið þeirra komi fram að ráðleggi starfsmaður fjármálafyrirtækis viðskiptamönnum að eiga viðskipti með verðbréf, beri honum að greina frá því ef fjármálafyrirtækið sjálft hefur hagsmuna að gæta í viðkomandi fyrirtæki.

Á grundvelli 15. gr. laga nr. 33/2003 og áðurnefndra reglna FME hafi Saga Capital sett sér verklagsreglur, og sé þar í fjölmörgum ákvæðum kveðið á um óhlutdrægni, trúnað og upplýsingagjöf gagnvart viðskiptavinum, sbr. einkum ákvæði 3.2. Í 6. kafla séu ákvæði um eigin viðskipti bankans, og benda aðalstefnendur sérstakleg á ákvæði 6.3, þar sem fram komi að þegar um eigin viðskipti sé að ræða, og bankinn sjái um miðlun viðskiptanna, skuli þess getið á viðskiptanótu að bankinn sé mótaðili viðskiptanna. Með framangreint í huga telja aðalstefnendur að aðalstefnda hafi ótvírætt borið skylda til þess að upplýsa þá um að bankinn væri sjálfur eigandi og seljandi stofnfjárbréfanna, enda skipti það kaupanda verulegu máli hver sé seljandi þeirra, við mat á því hvort af viðskiptum verði og hvaða verð hann greiði fyrir þau. Þá skipti það kaupanda einnig máli hvort bankinn, sem sjái um sölu og fjármögnun viðskiptanna, hafi hagsmuni af því að viðskiptin fari fram.

Aðalstefnendur telja að aðstöðumunur til upplýsingaöflunar um framtíðarverðmæti bréfanna sé augljós. Þannig selji fjármálafyrirtæki ekki verðbréf, nema verðið sem greitt sé fyrir þau sé hagstæðara en framtíðarvæntingar. Hefðu aðalstefnendur vitað að fjármálafyrirtækið sjálft væri að losa sig við verðbréfin, hefðu þeir jafnframt vitað að fjármálafyrirtækið teldi söluverð bréfanna hærra en framtíðarvæntingar þeirra. Fullyrða aðalstefnendur að aldrei hefði komið til viðskiptanna ef aðalstefndi hefði upplýst þá um að hann væri sjálfur eigandi og seljandi bréfanna. Vegna tengsla aðalstefnda og SPRON hefði þó enn ríkari skylda hvílt á aðalstefnda að upplýsa um að bankinn væri sjálfur eigandi bréfanna. Í því sambandi minna aðalstefnendur á að Sundagarðar hf. voru annar stærsti hluthafi í Saga Capital, þá eigandi rúmlega 11% hlutafjár. Samkvæmt því hafi bankinn keypt stofnfjárbréfin af aðila, sem að lögum fari með virkan eignarhlut í honum, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002. Sundagarðar hf. teljist einnig venslaður aðili gagnvart aðalstefnda samkvæmt leiðbeinandi tilmælum FME um fjármálafyrirtæki nr. 4/2006, um efni reglna samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002. Tilgangur þeirra reglna sé m.a. að efla trúverðugleika í viðskiptum þessara félaga og tryggja að eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir í starfsemi fjármálafyrirtækis, enda augljóst að venslaðir aðilar geti misnotað aðstöðu sína, svo sem með því að knýja fram óeðlileg viðskiptakjör, eða hlutast til um viðskiptalegar ákvarðanir er varði þá sjálfa. Telja aðalstefnendur blasa við að Sundagarðar hf. hafi notað stöðu sína gagnvart aðalstefnda í því skyni að koma á viðskiptum á viðkvæmum tíma og í skjóli upplýsinga, sem kaupandi bréfanna var hins vegar leyndur. Jafnframt staðhæfa aðalstefnendur að hefðu þeir vitað af tengslum aðalstefnda og Sundagarða hf., hefðu þeir aldrei keypt bréfin. Í ljósi alls framanritaðs telja þeir að almennar reglur samninga- og kröfuréttar, m.a. um brostnar forsendur, leiði til þess að þeim sé heimilt að rifta kaupunum. Þá vísa þeir einnig sérstaklega til 18. og 19. gr. kaupalaga nr. 50/2000, til stuðnings riftunarkröfunni. Af þeim ákvæðum, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar leiði, að seljanda beri að veita kaupanda upplýsingar sem geti haft áhrif á kaupin. Vanræki seljandi það teljist söluhlutur gallaður. Í þessu tilviki sé hið selda haldið verulegum galla, enda hafi verðmæti söluhlutarins við söluna, miðað við verðmat sem stjórn SPRON hafði aðgang að, verið um 50% af kaupverðinu. Því sé þeim heimilt að rifta kaupunum á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000.

Af hálfu aðalstefnenda er einnig á því byggt að verklagsreglur Saga Capital séu ein af undirliggjandi forsendum samninga þeirra við bankann, og því grundvallaratriði að bankinn fari eftir þeim í viðskiptum sínum. Verklagsreglurnar séu birtar opinberlega á heimasíðu aðalstefnda og því hluti af samningi aðila. Bankinn hafi gróflega brotið reglurnar, þegar hann upplýsti ekki að hann væri sjálfur eigandi stofnfjárbréfanna. Í ákvæði 13.1 í reglunum sé hins vegar að finna skýrt vanefndaúrræði, þegar brotið sé gegn reglunum, en þar segi: „Viðskipti sem brjóta gegn reglum þessum skulu ganga til baka ef unnt er, en annars skal leitast við að gera hagnað upptækan þannig að hann renni til bankans.“ Verklagsreglurnar séu í samræmi við leiðbeinandi tilmæli FME nr. 1/2001, en í 7. kafla þeirra tilmæla komi fram þau fyrirmæli að viðskipti fjármálafyrirtækja, sem feli í sér brot gegn 3. kafla, um viðskipti fyrir eigin reikning, skuli ganga til baka. Þar sem aðalstefndi hafi með bindandi yfirlýsingu lögmanns síns frá 7. nóvember 2007 viðurkennt að hafa brotið gegn eigin verklagsreglum, krefjast aðalstefnendur þess að kaupin gangi til baka með riftun kaupsamnings.

Í þriðja lagi, og til frekari stuðnings öðrum kröfum sínum, byggja aðalstefnendur á því að Saga Capital hafi brotið gróflega gegn ákvæðum laga og reglna um aðskilnað starfssviða fjármálafyrirtækja, til að koma á viðskiptum við aðalstefnendur. Vísa þeir einkum til 13. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, þar sem kveðið er á um aðskilnað starfssviða, svo og til leiðbeinandi verklagsreglna FME nr. 1/2001. Í 7. lið þeirra reglna komi fram að fyrirtæki beri m.a. að aðgreina viðskipti fyrir eigin reikning, miðlun og eignastýringu, en samkvæmt 8. lið skuli tryggja sérstaklega að viðkvæmar upplýsingar berist ekki milli starfssviða. Rökin fyrir reglunum séu að starfsmenn einstakra sviða fjármálafyrirtækja megi ekki nýta sér upplýsingar um viðskiptavini sem verði til innan annarra sviða fyrirtækisins. Þannig verði ákvarðanir innan hvers sviðs að vera teknar á þeim forsendum og eftir þeim reglum sem það svið starfi eftir, en megi ekki nýta til að koma á viðskiptum innan annarra sviða sama fyrirtækis. Verklagsreglur aðalstefnda fjalli ítarlega um aðskilnað starfssviða, aðallega 4. kafli þeirra, og komi þar m.a. fram, að eigin viðskipti félagsins skuli skilin frá miðlun og útlánasviði, bæði innan húsrýmis og í samskiptum starfsmanna. Telja aðalstefnendur ljóst að reglur um aðskilnað starfssviða hafi verið þverbrotnar þegar aðalstefndi kom á viðskiptum við Insolidum ehf. 20. júlí 2007. Þannig hafi forstjóri aðalstefnda hringt í framkvæmdastjóra Insolidum ehf. og boðið honum til kaups allan þann fjölda af stofnfjárbréfum í SPRON sem hann kærði sig um, og að auki boðið fram lán fyrir öllu kaupverðinu. Í einu símtali sé því öllu blandað saman; miðlun, viðskiptum fyrir eigin reikning bankans og útlánum. Að dómi aðalstefnenda er brot þetta sérstaklega ámælisvert, þegar haft er í huga að aðalstefndi neitaði aðalstefnendum um lánsfé tæpum mánuði fyrr, eða 22. júní 2007, þótt engin breyting sem heitið geti hafi orðið á fjárhagsstöðu Insolidum ehf. frá þeim tíma til 20. júlí. Hins vegar hefði sú breyting orðið hjá aðalstefnda að nú vildi hann, eða annar stærsti hluthafi hans, selja, og þá mátti lána. Hefði aðalstefndi ekki brotið reglur um aðskilnað, fullyrða aðalstefnendur að fyrri afstaða bankans til lánveitingar hefði verið óbreytt. Til að koma kaupunum á hefði aðalstefnda verið nauðsynlegt að brjóta reglur um aðskilnað starfssviða og breyta um leið afstöðu lánasviðs félagsins.

Að áliti aðalstefnenda voru framangreind brot aðalstefnda liður í því að koma á viðskiptum. Brot þessi auki enn á ólögmæti viðskiptanna og styðji við fyrri málsástæður þeirra um riftun á grundvelli almennra reglna samninga- og kröfuréttar, sem og ákvæða laga nr. 50/2000. Þá veiti brotin sjálfstæða riftunarheimild á grundvelli reglu 13.1 í verklagsreglum aðalstefnda.

Með bréfi 14. nóvember 2007 frá lögmanni aðalstefnda var aðalstefnendum tilkynnt að sá fyrrnefndi hefði leyst til sín 47.500.000 stofnfjárbréf á grundvelli handveðssamnings, sem gerður var á grundvelli lánssamnings Saga Capital og Insolidum ehf. Með því móti hefði aðalstefndi öðlast umráð bréfanna. Telja aðalstefnendur að þar með hafi Insolidum ehf. skilað stofnfjárbréfunum. Insolidum ehf. beri einnig að skila þeim verðmætum sem það hafi fengið á grundvelli lánssamnings, samtals 571.575.890 krónum, en aðalstefnda beri að skila kaupverði bréfanna, auk þóknunar og lántökugjalds, einnig samtals 571.575.890 krónum. Ekki þurfi þó að fjalla um endurgreiðslu peninganna, þar eða stefndi hafi fært þá sér til tekna, þótt þeir hafi aldrei farið á milli aðila.

Aðalstefnendur mótmæla þeim sjónarmiðum aðalstefnda að það komi í veg fyrir riftun að ekki sé hægt að skila hinu selda í sama horfi og það var þegar kaup áttu sér stað. Telja þeir að breyting á verðgildi vegna markaðsaðstæðna hamli því á engan hátt að riftun geti átt sér stað á grundvelli forsendna í upphaflegum kaupum. Riftun hafi þá lögfræðilegu merkingu að samningar gangi til baka.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísa aðalstefnendur til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda í aðalsök

Aðalstefndi mótmælir ásökunum aðalstefnenda um að forstjóri Saga Capital hafi, í félagi með fyrirsvarsmanni Sundagarða hf., sem átti u.þ.b. 10% hlut í bankanum, látið bankann kaupa stofnfjárbréf í SPRON á of háu verði og selt hluta þess áfram til Insolidum ehf., einnig á of háu verði. Til þess eigi þeir að hafa notfært sér innherjaupplýsingar, en án þess að aðalstefnendur láti uppi hvaða upplýsingar það voru eða hvert hið rétta verð hafi átt að vera í viðskiptunum. Í ásökununum felist að forstjóri aðalstefnda og fyrirsvarmaður Sundagarða hf., sem jafnframt var stjórnarmaður í SPRON, hafi haft fé af bankanum sjálfum og Insolidum ehf. Fullyrðir aðalstefndi að staðhæfingar þessar séu með öllu tilhæfulausar og settar fram af ábyrgðarleysi og án sannana. Þá mótmælir aðalstefndi því að skilyrði riftunar hafi nokkru sinni verið fyrir hendi, og allra síst eftir verðrýrnun bréfanna í kjölfar mikils verðfalls á fjármálamörkuðum og aðgerðarleysis eigenda Insolidum ehf. við áskorunum starfsmanna aðalstefnda um frekari tryggingar. Leggur aðalstefndi áherslu á að lagaskilyrði til riftunar í verðbréfaviðskiptum séu mjög þröng og nægi ekki það eitt að ekki hafi verið gætt allra form- og verklagsreglna, sem fara átti eftir. Líti aðalstefnendur framhjá því að þeir þurfi að sýna fram á galla, sem hafi leitt til verulegrar hlutfallslegrar verðmætarýrnunar miðað við kaupverð, auk annarra skilyrða. 

Aðalstefndi tekur fram að 20. júlí 2007 hafi Saga Capital keypt stofnfjárhluti í SPRON að nafnverði 188.657.257 krónur. Upplýst sé að seljandi bréfanna var Sundagarðar hf. og að   fyrirsvarmaður þess sé Gunnar Gíslason, stjórnarmaður í SPRON. Þá liggi fyrir að Sundagarðar hf. séu og hafi verið hluthafi í Saga Capital, með ríflega 10% hlut. Á þeim tíma er viðskiptin áttu sér stað áttu Sundagarðar hf. ekki fulltrúa í stjórn aðalstefnda, og er fullyrt að engin saga hafi verið um viðskipti félaganna. Jafnframt er staðhæft að kaup aðalstefnda á stofnfjárbréfum af Sundagörðum hf. verði ekki skilgreind sem fyrirgreiðsluviðskipti og að allra reglna hafi verið gætt í þeim viðskiptum. Þá komi og fram í gögnum málsins að eftir 20. júlí 2007 hafi Sundagarðar hf. átt 286.915.556  stofnfjárhluti að nafnverði. Af þeim hlutum sem aðalstefndi hafi keypt hafi bankinn haldið eftir sem fjárfestingu til lengri tíma 50.500.000 stofnfjárhlutum, en 47.500.000 hlutir hafi verið seldir Insolidum ehf. Restin hafi hins vegar verið seld tveimur öðrum félögum sama dag.

Að því er varðar ásakanir um innherjaviðskipti byggir aðalstefndi í fyrsta lagi á því að ákvæði IX. kafla laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, hafi ekki gilt um viðskipti með stofnfjárbréf SPRON, þar sem bréfin hafi verið óskráð. Gildissvið innherjaákvæða laganna sé takmarkað við „verðbréf sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð á skipulegum verðbréfamarkaði“, eins og segi í 1. tl. 1. mgr. 56. gr. laganna. Stofnfjárbréf í sparisjóði sé hins vegar ekki hægt að skrá á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem takmarkanir gildi um framsöl þeirra. Ljóst sé einnig að innherjareglur laganna verði fyrst virkar eftir að óskað hafi verið eftir skráningu. Í þessu sambandi bendir aðalstefndi jafnframt á að samkvæmt 13. gr. skilmála Saga Capital skuldbindi viðskiptavinur sig til að tilkynna bankanum ef hann er innherji í félagi sem innherjaákvæði verðbréfaviðskiptalaganna taki til, eða aðrar sambærilegar ástæður takmarki heimild hans til að eiga viðskipti með ákveðna fjármálagerninga. Aðalstefnda hafi hins vegar ekki borist nein slík tilkynning frá Sundagörðum hf. eða Gunnari Gíslasyni vegna viðskipta með stofnfjárbréf. Enn fremur bendir aðalstefndi á að undirbúningur að skráningu SPRON hafi hafist 7. ágúst 2007, en þá hafi markaði með stofnfjárhluti verið lokað. Ákvæði um innherjaviðskipti hafi því ekki átt við í viðskiptum Sundagarða hf. 20. júlí 2007. Því sé merkingarlaust að tala um innherjaupplýsingar um stofnfjárbréfin, innherja í SPRON eða innherjaviðskipti með bréfin, á þeim tíma er innherjaákvæðin hafi ekki átt við í viðskiptum með stofnfjárbréfin.

Í öðru lagi vísar aðalstefndi til fyrirliggjandi yfirlýsingar stjórnar SPRON frá 7. febrúar 2008. Þar komi fram að SPRON hafi á árinu 2004 haft frumkvæði að því að setja reglur um viðskipti innherja með stofnfjárhluti. Í kjölfar þess hefði verið óskað eftir umsögn FME um stofnun tilboðsmarkaðar og gerð reglnanna. FME hefði hins vegar lagst gegn slíku og vísað til þágildandi 34. gr. kauphallarlaga nr. 34/1998. Í yfirlýsingu stjórnar komi einnig fram að viðskipti stjórnarmanna SPRON fyrir skráningu í kauphöll hefðu verið heimil og í samræmi við lög, enda hefðu engar innherjaupplýsingar legið fyrir eftir að gerð hefði verið grein fyrir ákvörðun stjórnarinnar um skráningu í kauphöll 17. júlí 2007. Þá hefði jafnframt komið fram í fjölmiðlum að verðmat Capacent á SPRON væri um 60 milljarðar króna. Innherjum hefði því verið frjálst að eiga viðskipti með stofnfjárhluti fram til 7. ágúst 2007, þegar markaði með stofnfjárhluti var hætt og undirbúningur hafinn að skráningu SPRON í kauphöll.

Í þriðja lagi áréttar aðalstefndi að langur tími sé liðinn frá viðskiptum aðila. Á þeim tíma hefði SPRON farið í gegnum ítarlega skoðun, meðal annars í skráningarferli, og hefði ekkert komið fram um að fyrir Gunnari Gíslasyni og forstjóra Saga Capital hefðu legið óbirtar verðmótandi upplýsingar.

Í fjórða lagi mótmælir aðalstefndi að Gunnari Gíslasyni og forstjóra aðalstefnda sé samsamað, þannig að hafi Gunnar haft innherjaupplýsingar þá hafi forstjóri aðalstefnda einnig haft þær. Hafi stjórnarmenn í SPRON ekki farið að gildandi reglum í sínum viðskiptum beri aðalstefndi ekki ábyrgð á því.

Í fimmta lagi bendir aðalstefndi á að á þessum tíma hefði Saga Capital sjálft fjárfest í stofnfjárbréfum SPRON til lengri tíma, fyrir enn hærri upphæð en seld var Insolidum ehf. og tveimur öðrum félögum, sem bæði séu hluthafar bankans. Væri slíkt fjarstæðukennt, ef Saga Capital hefði búið yfir vitneskju um að kaupverðið í viðskiptunum væri allt of hátt.             

Auk þessa mótmælir aðalstefndi þeirri málsástæðu aðalstefnenda að Saga Capital hafi vísvitandi leynt þá hver væri mótaðili í viðskiptum þeirra. Því til stuðnings bendir aðalstefndi á að bankinn hafi gert samning við Arion verðbréfavörslu hf. um að það fyrirtæki annaðist uppgjör verðbréfaviðskipta Saga Capital og hefði fyrirtækið borið ábyrgð á að gefa út kaupnótu vegna viðskiptanna, sem og allar viðskiptakvittanir aðalstefnda. Eftir að aðalstefnendur höfðu gert athugasemdir við kvittunina hefði aðalstefndi farið að grennslast fyrir um hvers vegna áletrun um aðild bankans kæmi þar ekki fram. Í ljós hefði þá komið að slík áletrun kæmi ekki fram með sjálfvirkum hætti í tölvukerfum Arion hf., og virtist sem tölvukerfi þess tæki ranga ákvörðun. Arion hf. hefði enn ekki fundið lausn á þessu vandamáli, en ynni að lausn þess í samvinnu við OMX kauphöllina. Fullyrðir aðalstefndi að vandamál þetta sé ekki aðeins hjá Saga Capital, önnur fjármálafyrirtæki búi einnig við hið sama. Samkvæmt því telur aðalstefndi að ágalli á kvittuninni til Insolidum ehf. verði ekki rakinn til mistaka, og því síður ásetnings starfsmanna aðalstefnda, heldur galla í tölvukerfi og verklagi hjá Arion hf. Um leið er tekið fram að ábyrgð aðalstefnda vegna þessa sé sérstaklega undanskilin í lokamálsgrein 11. gr. almennra skilmála Saga Capital. Telur aðalstefndi að aðalstefnendur geri mun meira úr ágalla á kvittuninni en efni standi til, enda hafi upplýsingar sem áttu að koma þar fram, allar legið fyrir daginn sem viðskiptin áttu sér stað. Loks bendir aðalstefndi á að í 12. gr. leiðbeinandi tilmæla FME nr. 1/2001 segi að tilgangur með áletruninni sé að gefa viðskiptamanni kost á að leggja mat á stöðu sína gagnvart fjármálafyrirtækinu.

Þá er því einnig mótmælt að verklagsreglur bankans um eigin viðskipti hafi verið brotnar í viðskiptum aðila. Fullyrt er að engar trúnaðarupplýsingar hafi lekið á milli sviða og samið hafi  verið um verðbréfafjármögnun. Aðalstefnendur hafi vitað nákvæmlega um forsendur viðskiptanna, undirritað og samþykkt öll skjöl í tengslum við þau, án skilyrða eða athugasemda. Hefðu þeir ekki sætt sig við viðskiptin hafi þeim borið að koma athugasemdum á framfæri miklu fyrr. Telur aðalstefndi að tilvísun aðalstefnenda til gr. 6.4 í verklagsreglum bankans ekki eiga við, þar sem Saga Capital hafi ekki verið í ráðgjafarhlutverki í viðskiptum aðila.

Loks kveðst aðalstefndi sérstaklega mótmæla túlkun aðalstefnenda á gr. 13.1 í verklagsreglum um eigin viðskipti bankans. Í ákvæðinu felist ekki sjálfstæð riftunarheimild, heldur sé hún bundin við viðskipti sem séu óheimil samkvæmt reglunum, og ætlað að vernda bankann gegn ólögmætum viðskiptum starfsmanna. Með því sé alls ekki verið að opna greiðari riftunaraðgang gegn fjármálafyrirtækjum en leiði af almennum reglum. Þá sé varnagli í ákvæðinu, þar sem segi að viðskipti skuli ganga til baka „ef unnt er.“ Eðli verðbréfamarkaðar sé að hreyfast á miklu meiri hraða en t.d. markaðir með fasteignir og flestar tegundir lausafjármuna. Því megi ljóst vera að ekki sé unnt að láta verðbréfaviðskipti ganga til baka mánuðum síðar, þegar hagnaðarvon aðila hafi ekki gengið eftir. Með tómlæti sínu hafi aðalstefnendur hins vegar samþykkt viðskiptin og tekið áhættuna af þeim.

Af hálfu aðalstefnda er tekið fram að í 5. gr. almennra skilmála bankans sé að finna ákvæði um símaupptökur. Komi þar fram að til að tryggja öryggi viðskiptavinar og bankans, svo og til að leiðrétta hugsanlegan misskilning, kunni símtöl að vera hljóðrituð, án þess að sérstaklega sé um það tilkynnt hverju sinni. Af þessu verði sú ályktun dregin að bankinn beri ekki ábyrgð á því ef hljóðritun hefur ekki átt sér stað, eins og eigi við í því tilviki þegar umdeild viðskipti aðila fóru fram. Því hafi ekki verið unnt að leggja fram hljóðritanir af símtölum Páls Ágústs og starfsmanns og forstjóra aðalstefnda 20. júlí 2007. Jafnframt tekur aðalstefndi fram að honum sé ekki fært að verða við áskorun aðalstefnenda um að kynna þeim gögn er snerti aðra viðskiptamenn, þar eð ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 standi því í vegi. Að auki sé kveðið á um slíka þagnarskyldu starfsmanna gagnvart viðskiptamönnum í almennum skilmálum Saga Capital.

Samkvæmt framanrituðu telur aðalstefndi sig hafa fært fyrir því rök að engin skilyrði séu til að rifta kaupsamningi aðila um stofnfjárbréf í SPRON 20. júlí 2007. Um leið er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að Saga Capital hafi vísvitandi beitt blekkingum í viðskiptum við aðalstefnendur. Þá eigi málatilbúnaður þeirra um innherjaviðskipti ekki við nein rök að styðjast. Jafnframt er því mótmælt að forstjóri aðalstefnda hafi leynt aðalstefnendur hver hafi verið seljandi bréfanna. Þar fyrir utan sé ósönnuð sú fullyrðing aðalstefnenda að ákvörðun þeirra um kaupin hafi verið tekin út frá því hver hafi verið seljandi, a.m.k. hafi aðalstefnda verið ókunn sú ákvörðun.

Kröfum sínum til frekari stuðnings vísar aðalstefndi til þess að aðalstefnendur hafi ekki sýnt fram á að Saga Capital hafi brotið gegn hagsmunum þeirra. Í gögnum málsins sé ekki vísbending um að verð í viðskiptunum hafi verið óeðlilega hátt, aðalstefnendur hafi átt frumkvæði að þeim og verið kunnugt um forsendur þeirra, án ráðlegginga aðalstefnda. Viku síðar hafi þeir meira að segja keypt fleiri stofnfjárbréf í SPRON fyrir milligöngu annars fyrirtækis. Staðhæfir aðalstefndi að hann hafi í viðskiptum aðila á engan hátt brotið gegn lagaákvæðum, eigin verklagsreglum eða hagsmunum aðalstefnenda. Staðhæfingar aðalstefnenda um annað séu ósannaðar. Þá ítrekar aðalstefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla, þ.e. að þau hafi ekki haft þá eiginleika söluhlutar sem kveðið sé á um í 17. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Enn fjarlægara sé að aðalstefnendur hafi sýnt fram á að bréfin hafi verið haldin verulegum galla, en slíkt sé skilyrði riftunar samkvæmt 39. gr. sömu laga.

Auk þessa vísar aðalstefndi til 66. gr. lausafjárkaupalaga. Þar komi fram að aðeins sé heimilt að rifta kaupum að kaupandi geti skilað hlut að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hlutur var í, þegar kaupandi veitti honum viðtöku. Í þessu tilviki hafi hið selda rýrnað um nærri 50% að verðgildi í höndum Insolidum ehf. Þar sem aðalstefnendur ætlist ekki til að tekið verði tillit til verðmætarýrnunar við mat á riftuninni, né hyggist þeir bæta verðmætarýrnunina sérstaklega við skil, séu skilyrði riftunar ekki fyrir hendi, sbr. lokamálsgrein 66. gr. sömu laga. Þá telur aðalstefndi að vegna tómlætis og aðgerðarleysis aðalstefnenda séu skilyrði riftunar ekki heldur fyrir hendi, sbr. 32. og 39. gr. lausafjárkaupalaga. Þeir hafi setið á bréfunum og ætlað sér að hagnast á þeim til lengri tíma. Þegar bréfin hafi hins vegar fallið í verði um nær 50% hafi blaðinu verið snúið við. Telur aðalstefndi að ekki sé unnt að láta gömul verðbréfaviðskipti ganga til baka, eins og ekkert hafi í skorist, eftir að allar aðstæður á verðbréfamarkaði hafi gjörbreyst.

Loks áréttar aðalstefndi að aðalstefnendur hafi ekki gert líklegt að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Hafi þeir hins vegar orðið fyrir tjóni, telur aðalstefndi að skorti algerlega sönnun um orsakasamband þess og atvika, sem Saga Capital beri með réttu ábyrgð á.

Málskostnaðarkrafa er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Er þess krafist að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu aðalstefnda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns, þar eð bankinn sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnanda í gagnsök

Í gagnstefnu Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. á hendur Insolidum ehf. er á því byggt að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir riftun lánssamnings, merkts sem lánssamningur nr. 131, sem aðilar undirrituðu 3. ágúst 2007. Er þar gerð grein fyrir helstu efnisatriðum lánssamningsins. Jafnframt segir þar að lækkanir á markaði haustið 2007 hafi leitt til þess að gagnstefndi, Insolidum ehf., hafi ekki lengur uppfyllt skilyrði lánssamningsins um 150% tryggingaþekju gagnvart lánsfjárhæð og um að eigið fé næmi 150% af lánsfjárhæð. Því hefði gagnstefnandi 24. október 2007 kallað eftir auknum tryggingum. Í fyrstu hefði gagnstefndi ekki hafnað frekari tryggingum, en síðar hefði afstaða hans breyst og hann ekki orðið við ítrekuðum áskorunum um að leggja fram frekari tryggingar. Því hefði gagnstefnandi tilkynnt gagnstefnda um gjaldfellingu kröfunnar með bréfi 8. nóvember 2007. Í kjölfarið hefði gagnstefnandi látið selja hlutabréf í SPRON hf., sem hann hafði 1. handveðrétt í samkvæmt handveðssamningum, og hafi söluverðið samtals verið 317.631.941 króna, sem hafi verið ráðstafað sem innborgun á lánið. Að frádregnum áföllnum dráttarvöxtum og samningsvöxtum hefðu 283.717.384 krónur gengið upp í höfuðstól lánsins. Eftirstöðvar höfuðstóls á innborgunardegi, 19. nóvember 2007, nemi því 298.282.616 krónum, sem sé sú fjárhæð sem gagnstefnandi krefji nú gagnstefnda um. Frá þeim degi reiknist síðan dráttarvextir.

Til stuðnings kröfu sinni vísar gagnstefnandi til meginreglunnar um að samninga beri að halda. Krafan hafi fallið í gjalddaga 8. nóvember 2007, er gagnstefnandi hafi lýst yfir gjaldfellingu lánsins. Áfallnir vextir og dráttarvextir til þess dags hafi þá verið gerðir upp með áðurnefndri innborgun. Er á því byggt að frá og með innborgunardegi, 19. nóvember 2007, beri krafan dráttarvexti samkvæmt ákvæðum lánssamningsins, sbr. og III. og IV. kafli laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er reist á 130,. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá kveðst gagnstefnandi höfða gagnsök þessa til sjálfstæðs dóms, með heimild í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en dómkröfur, bæði í aðalsök og gagnsök, eigi rætur að rekja til lánssamnings málsaðila. 

Málsástæður og lagarök stefnda í gagnsök

Sýknukrafa gagnstefnda byggist á því að samningum aðila, þ.á m. lánssamningi, hafi verið rift 8. nóvember 2007 og hafi nú þegar farið fram skil á verðmætum sem farið hafi á milli aðila á grundvelli þeirra samninga sem rift hefur verið. Því eigi gagnstefnandi engar kröfur á gagnstefnda á grundvelli samninganna.

Um grundvöll riftunar og málsástæður vísar gagnstefndi til stefnu í aðalsök. Áréttar hann að gerð kaupsamnings aðila um 47.500.000 stofnfjárhluti í SPRON hafi verið ákvörðunarástæða fyrir gerð annarra samninga um kaupin, þ.m.t. þess lánssamnings sem gagnsök sé reist á. Því hafi honum verið heimilt að rifta lánssamningnum, m.a. með stoð í réttarreglum um brostnar forsendur. Þá er einnig á því byggt að brot gagnstefnanda á reglum um innherjaviðskipti, aðskilnað starfssviða og eigin verklagsreglum hafi veitt gagnstefnda sjálfstæða heimild til riftunar lánssamningsins. Sem frekari rökstuðnings vísar gagnstefndi einnig til 3. tl. 2. mgr. 1. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, en þar segi að lögin gildi um veitingu lánsheimilda, ábyrgð eða lán til fjárfestis, þannig að hann geti átt viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga, ef fjármálafyrirtæki sem veiti lánsheimildina eða lánið annist viðskiptin. Þar sem gagnstefnandi bæði veitti lánsheimildina og annaðist viðskiptin hafi ákvæðið gilt beint um gerð lánssamningsins. 

Gagnstefndi tekur fram að hann telji dómkröfur gagnstefnanda rangt reiknaðar. Við sölu bréfanna 19. nóvember 2007 hafi Saga Capital leyst bréfin til sín. Í þeim tilvikum mæli handveðsamningarnir fyrir um að bréfin skuli innleyst á meðalgengi sjö síðustu viðskiptadaga, hvort sem þau séu skráð á skipulegum verðbréfamarkaði eða stofnfjármarkaði. Í stað þess að miða innlausn við meðalgengi síðustu sjö daga hefði gagnstefnandi miðað við það tilboð sem barst í bréfin á markaði, en það tilboð hefði komið frá gagnstefnanda sjálfum, og hljóðað upp á gengið 12,90. Meðalgengi síðustu sjö daga hefði hins vegar verið 13,75 og nemi innlausnarverð bréfanna því 338.526.002 krónum, að teknu tilliti til þóknunar gagnstefnanda. Mismunurinn sé því 20.894.061 króna. Þá mótmælir gagnstefndi sérstaklega dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda. Hafi gagnstefnda aldrei verið sent kröfubréf með sundurliðun á meintri skuld og því sé enginn grundvöllur til að krefjast dráttarvaxta af kröfunni, fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu. Loks kveðst gagnstefndi mótmæla ráðstöfun gagnstefnanda á því sem hann kalli innborgun á kröfuna 19. nóvember 2007, en þar sé innborgun m.a. ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, án þess að skýrt sé hvernig séu til komnir.

Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Munnleg sönnunarfærsla fyrir dómi

Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dóminum Páll Ágúst Ólafsson, framkvæmdastjóri Insolidum ehf., Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., svo og vitnin Geir Gíslason, framkvæmdastjóri útlánasviðs Saga Capital, Gunnar Þór  Gíslason, forsvarsmaður Sundagarða hf., og Guðrún Óladóttir Blöndal, framkvæmdastjóri Arion verðbréfavörslu hf.

Í framburði sínum rakti Páll Ágúst Ólafsson aðdraganda viðskipta við Saga Capital 20. júlí 2007. Sagðist hann eingöngu hafa verið að leita eftir fjármögnun frá bankanum, en hefði þó haft í huga að kanna með kaup á stofnfjárbréfum gengi málaleitan hans eftir. Sagðist hann hafa orðið hissa á því að forstjóri bankans vildi fá síma sinn og hefði hann síðar hringt í sig. Forstjórinn hefði þó afsakað sig með því að framkvæmdastjóri verðbréfamiðlunar væri í fríi og væri hann að sinna hans hlutverki. Erindi forstjórans hefði verið að bjóða honum að kaupa stofnfjárbréf í SPRON í eins miklu magni og áhugi væri á, og lána fyrir öllum kaupunum. Hefði forstjórinn nefnt að hann væri með seljanda að bréfunum, en ætti eftir að semja við hann um verðið. Seljandi væri ekki bankinn sjálfur, en hins vegar gæti hann ekki gefið upp nafn seljandans vegna trúnaðarskyldu gagnvart honum. Páll Ágúst kvaðst þá hafa spurt forstjórann hvers vegna seljandinn væri að selja á þessum tíma og hefði forstjórinn svarað því að seljandinn væri svo stór, fjársterkur og eignamikill að hann vildi dreifa áhættu sinni á þessum tíma, sem hann taldi heppilegan til að losa um stöðu í SPRON. Forstjórinn hefði einnig tekið fram, í tilefni af fyrirspurn hans, að verðið væri gott og ætlaði Saga Capital einnig að kaupa á þessu verði.

Páll Ágúst var að því spurður hvort hann hefði hætt við kaupin ef upplýsingar hefðu  legið fyrir um að Saga Capital eða Sundagarðar hf. væru seljandi bréfanna, og sagði hann að þá hefðu þau ekki verið keypt. Ákvörðun um kaup bréfanna hefði byggst á þeirri forsendu að annar en bankinn væri seljandi. Hefði hann vitað að bankinn væri seljandinn hefði hann horft á fjárfestingarráðgjöf forstjórans í allt öðru ljósi. Fram kom einnig í framburði hans að hann þekkti þær reglur sem giltu um sparisjóði og að stofnfjárbréf væru ekki skráð á skipulögðum verðbréfamarkaði, svo og að reglur um innherja giltu ekki um viðskipti með stofnfjárbréf. Spurður um verðmat Capacent og niðurstöður þess sagði Páll Ágúst að sér hefði verið kunnugt um að verðmatið hefði verið gert, svo og um niðurstöðu þess, en forsendur verðmatsins hefðu hins vegar ekki legið fyrir á þessum tíma. Hann neitaði því að hafa leitað að hagstæðara verði hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, en kvaðst þó hafa vitað að einhver viðskipti hefðu átt sér stað á stofnfjármarkaði Sparisjóðsins sjálfs í Reykjavík, en ekki í hve miklu magni það var.

Sérstaklega spurður um þær upplýsingar sem haldið væri fram í málinu að væru innherjaupplýsingar og hefðu verið hagnýttar í viðskiptum aðila, sagði Páll Ágúst að annars vegar hefðu það verið upplýsingar um verðmat Capacent, en hins vegar upplýsingar um hver væri raunverulegur seljandi bréfanna. Ekki kvaðst hann hafa forsendur til að meta það hvort þær innherjaupplýsingar hefðu haft áhrif á verð bréfa í SPRON eftir 20. júlí 2007.

Í máli Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar kom fram að Saga Capital hefði á umræddum tíma starfrækt upplýsingavettvang um verðmyndun á stofnfjárbréfum, bæði í SPRON og öðrum sparisjóðum. SPRON hefði á sama tíma einnig starfrækt slíkan upplýsingavettvang. Allt frá árinu 2005 hefði ásókn í stofnfjárbréf aukist og hefðu þau hækkað umtalsvert í verði fyrri hluta árs 2007.

Þorvaldur Lúðvík sagðist hafa rætt símleiðis við Gunnar Gíslason í Sundagörðum hf., líklega 18. júlí 2007. Í því símtali hefði Gunnar lýst áformum um að selja öll bréf Sundagarða hf. í SPRON, en Þorvaldur þá lýst þeirri skoðun sinni að hann skyldi frekar selja þriðjungshlut, enda stæðu væntingar til þess að bitist yrði um bréfin. Eftir þetta hefðu þeir ekki ræðst við fyrr en eftir hádegi 20. júlí. Að morgni þess dags hefði Geir Gíslason, framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans, komið að máli við sig til þess að ræða möguleika á stórri lánveitingu til Insolidum ehf. Hefði Geir reifað þessa lánsumsókn og talið að skilyrði væru fyrir kaupum að ákveðinni upphæð, með tilliti til veðþekju. Að því loknu hefði hann spurt Geir hvort bréfin væru í hendi hjá Insolidum ehf. til fjármögnunar, en Geir svarað því neitandi. Kvaðst Þorvaldur þá hafa sagt að Saga Capital gæti hjálpað og óskaði eftir símanúmeri hjá Páli Ágústi, enda hefði framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans þá verið fjarverandi og hann einn með umboð til þess að tala við mögulegan viðskiptavin. Því hefði hann hringt í Pál Ágúst. Í því samtali hefðu þeir rætt um fjárfestinguna og það verð og magn, sem komið hefði fram á síðu SPRON. Hefði Þorvaldur talið verðið þar of hátt, sem stafaði líklega af litlu magni. Síðar þennan sama dag hefði Gunnar Gíslason hringt og sagst ætla að selja þriðjung bréfa Sundagarða hf. Var það samdóma álit þeirra að verðið á upplýsingavettvangi SPRON væri of hátt og hefði Gunnar sæst á mun lægra verð. Eftir að hafa ráðfært sig við framkvæmdastjóra áhættustýringar og framkvæmdastjóra eigin viðskipta bankans, kvaðst Þorvaldur hafa tekið ákvörðun um að bankinn keypti bréfin af Sundagörðum hf. fyrir um tvo milljarða króna. Kvaðst hann sjálfur hafa talið verðið ásættanlegt, en um leið verið vongóður um að geta selt hluta þeirra. Einnig hefði það verið ásetningur bankans að taka eignarhlut í SPRON, í þeirri von að slagur yrði um bréfin eftir skráningu á markaði. Tók hann fram að Insolidum ehf. hefði notið þess afsláttar sem honum hefði tekist að ná fram í samningum við Sundagarða hf. Aðspurður hvort einhverjar innherjaupplýsingar hefðu komið fram í samtölum við Gunnar Gíslason, sagði Þorvaldur að ekkert hefði þar komið fram sem hljómaði öðruvísi en eðlilegar upplýsingar sem þá þegar voru opinberar.

Þorvaldur tók fram að vel gæti hugsast að túlka hefði mátt orð hans í fyrsta samtali við Pál Ágúst á þá leið að hann væri milligöngumaður við sölu bréfanna, en ekki seljandi, enda hefði hann þá ekki haft bréfin til reiðu og verið á sama tíma að semja við Gunnar. Hins vegar kvaðst hann þess fullviss að í síðari samtölum við Pál Ágúst hefði komið fram að Saga Capital væri eigandi bréfanna og ætti stóran hlut. Þó gæti hann ekki fullyrt hvort hann hefði sagt að bankinn væri að selja sín bréf, hins vegar hefði Páli Ágústi verið ljóst að þeir væru á sama báti. Hagsmunir beggja hefðu verið hinir sömu, svo og áhætta af verðþróun bréfanna.

Í skýrslu sinni kvaðst Þorvaldur Lúðvík ekki minnast þess að hafa í samtali við Pál Ágúst boðið Insolidum ehf. ótakmarkað magn af bréfum til fjármögnunar, þegar þess væri gætt að fyrri málaleitan félagsins um lánsfjármögnun hefði verið hafnað, þar eð tryggingaþekja var ekki nægjanleg. Hins vegar hefði verð eigna Insolidum ehf. hækkað verulega í verði frá fyrri málaleitan félagsins og tryggingaþekja orðin nægileg fyrir kaupum að ákveðnu marki þennan dag. Þegar Þorvaldur var að því spurður hvort hann hefði veitt Páli Ágústi fjárfestingarráðgjöf svaraði hann því þannig að hann hefði lýst skoðunum sínum á verðmyndun og hvernig hann teldi að þróunin yrði á markaði með hliðsjón af því sem áður hefði gerst í tilvikum Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs. Hefði hann talið að hið sama myndi gerast með stofnfjárbréf SPRON, sérstaklega þar sem hann hefði verið eini sparisjóðurinn sem búinn var að lýsa því yfir að yrði skráður á almennan hlutabréfamarkað. Þorvaldur var einnig að því spurður hvort viðskipti bankans og Insolidum ehf. flokkuðust sem miðlun á bréfum eða eigin viðskipti. Svaraði hann því til að um hefði verið að ræða miðlun, fyrir hönd eigin viðskipta. Forstöðumaður miðlunar hefði verið fjarverandi þennan dag og hefði hann því sjálfur annast um miðlunina. Fram kom einnig í máli hans að viðskiptin hefðu ekki verið á svokölluðum Saga-Market.   

Framburður Geirs Gíslasonar um aðdraganda viðskipta Saga Capital og Insolidum ehf. 20. júlí 2007 var á sama veg og hjá forstjóra Saga Capital. Hann sagðist hafa vitað að fyrirhugað lán væri ætlað til kaupa á bréfum SPRON, en ekki hver væri eigandi þeirra. Fram kom einnig í máli hans að samskipti hans og forsvarsmanna Insolidum ehf. hefðu verið með ágætum og aldrei gætt neinnar óánægju af hálfu hinna síðarnefndu, fyrr en SPRON fór á markað og Saga Capital gerði veðkall og óskaði frekari trygginga. 

Í máli Gunnars Þórs Gíslasonar kom fram að hann væri persónulega hluthafi í Saga Capital og jafnframt í forsvari fyrir félag sem væri þar stór hluthafi. Á árunum 2004 til 2008 hefði hann jafnframt setið í stjórn SPRON.

Spurður um ástæðu og aðdraganda að sölu Sundagarða hf. á 185 milljón stofnfjárhlutum í SPRON 20. júlí 2007 sagði Gunnar að Sundagarðar hf. hefðu um nokkurt árabil átt 5% stofnfjár í SPRON. Hluturinn hefði aukist mjög að verðmæti og hefði verið orðinn býsna stór hluti af heildareignum félagsins, svo stór að ástæða þótti til að losa um og dreifa áhættu í eignasafni félagsins. Daginn eftir stjórnarfund í SPRON 17. júlí 2007, þar sem kynnt voru áform stjórnar um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag, sagðist hann hafa haft samband við regluvörð SPRON, Pál Árnason að nafni, og fengið hjá honum heimild til að eiga viðskipti með stofnfjárbréfin, sem innherji. Að því búnu hefði hann hringt í Þorvald Lúðvík og rætt um að til stæði að Sundagarðar hf. seldu stóran hlut, enda hefði hann ekki viljað að bréfin yrðu seld innan stofnfjármarkaðar SPRON. Þorvaldur hefði ekki tekið illa í erindið og ætlaði að skoða málið. Einum eða tveimur dögum síðar hefðu þeir náð samkomulagi um verð og magn bréfa. Hefði það verið um 40% af stofnfjárbréfum Sundagarða hf. í SPRON og tók Gunnar fram að Sundagarðar hf. hefðu ekki selt fleiri hluti fyrr en við skráningu SPRON. Sérstaklega aðspurður sagðist hann ekki hafa búið yfir neinum öðrum upplýsingum um SPRON en þeim sem þá voru opinberar. Jafnframt sagðist hann ekki muna eftir því hvort Þorvaldur Lúðvík hefði sagt honum að hann hefði kaupendur að hluta bréfanna. Sjálfur hefði hann þó gert ráð fyrir því að bankinn ætlaði að selja bréfin áfram að einhverju leyti. 

Gunnar Þór var einnig spurður um umræður í stjórn SPRON um verðmat Capacent á tímabilinu frá maí til júlí 2007. Fram kom í svari hans að höfundar matsins hefðu komið á fund stjórnar og kynnt efni matsgerðarinnar. Jafnframt hefði stjórnin rætt um verðmatið, en þó aðallega hlutfallið milli eignarhluta stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar, þ.e. 85% á móti 15%. Tók hann einnig fram að verðmatið hefði miðast við 31. mars og hefði ýmislegt breyst á verðbréfamarkaði á þeim fjórum mánuðum, fram að stjórnarfundi 17. júlí 2007. Gunnar var einnig inntur svara við því hvers vegna Sundagarðar hf. væru skráðir seljendur stofnfjárbréfa til Insolidum ehf. á framsalslista SPRON. Sagðist hann ekki geta svarað því, en tók fram að sá listi yfir framsöl sem lagður hefði verið fyrir stjórnina í umrætt sinn hefði verið mjög langur. Tilgangurinn væri sá að gæta þess að enginn eignaðist meira en 10% af stofnfjárbréfum, enda hefði slíkt verið óheimilt, og því hefði stjórnin þurft að samþykkja framsal bréfanna.

Fyrir dómi hafnaði Gunnar Þór í fyrstu að upplýsa um kaupgengi á bréfum SPRON í viðskiptum Sundagarða hf. og Saga Capital 20. júlí 2007, og vísaði til þess að þær upplýsingar lægju fyrir í trúnaði hjá dómara málsins. Síðar samþykkti hann að trúnaði yrði aflétt. Samkvæmt kvittunum var gengið í viðskiptunum 11,576723.

Guðrún Óladóttir Blöndal upplýsti að Arion verðbréfavarsla hf. annaðist uppgjör fyrir Saga Capital gagnvart verðbréfaskráningum og vörsluaðilum, svo og gagnvart bönkum. Hún staðfesti að starfsmenn Saga Capital hefðu haft samband við hana og undrast að á kvittun vantaði áritun um að Saga Capital væri mótaðili í viðskiptum við Insolidum ehf. Sagði hún skýringuna vera þá að þegar selt væri úr miðlunarsafni kæmi ekki áletrunin fram. Öðru máli gegndi þegar selt væri úr eigin bók fjármálafyrirtækisins, en þá kæmi áletrun fram. Miðlunarsafnið væri hins vegar þess eðlis að þar gætu safnast bréf frá mörgum aðilum, bæði af eigin bók og frá öðrum seljendum, sem síðan væru seld í einni færslu til viðskiptavinar. Stöfuðu erfiðleikarnir af því að bréfin væru rafræn. Í tilviki Saga Capital hefðu öll eigin viðskipti bankans farið í gegnum miðlunarsafnið og því hefði áletrun ekki komið fram.

Niðurstaða

Aðalsök

Krafa aðalstefnenda um riftun á kaupsamningi Insolidum ehf. og aðalstefnda, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., sem gerður var 20. júlí 2007 um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, er einkum á því reist að stofnfjárbréfin hafi í reynd ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið, og hafi aðalstefnda verið það ljóst. Vegna tengsla aðalstefnda við fyrrverandi eiganda stofnfjárhlutanna hafi hann búið yfir innherjaupplýsingum um verðmæti hlutanna og hafi aðalstefndi hagnýtt sé þær upplýsingar með ólögmætum hætti og beitt aðalstefnendur blekkingum til þess að koma viðskiptum á. Af þessum sökum hafi hið selda verið haldið slíkum göllum að riftun varði. Kröfu sinni til stuðnings vísa aðalstefnendur til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, m.a. reglna um brostnar forsendur, 18. og 19. gr., sbr. og 1. mgr. 39. gr. kaupalaga nr. 50/2002, sem og ákvæða verklagsreglna aðalstefnda, einkum gr. 13.1 í þeim reglum. Þá er einnig sérstaklega vísað til 30. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Áður en fjallað verður um þær vanefndir sem aðalstefnendur telja að rekja megi til aðalstefnda þykir rétt að greina stuttlega frá samskiptum aðila í aðdraganda viðskiptanna, svo og stöðu eigenda Insolidum ehf. gagnvart aðalstefnda. 

Í gögnum málsins kemur fram að eigendur Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson, leituðu til aðalstefnda í maí og júní 2007 um fjármögnun fjárfestinga félagsins. Í málaleitan þeirra kom fram að þau hefðu trú á fjárfestingum í stofnfjárbréfum sparisjóða og hefðu þá þegar staðið í nokkrum slíkum, einkum í bréfum SPRON og Sparisjóðsins Byrs. Fjárfestingarnar hefðu skilað góðum arði og vildu þau auka stofnfjáreign sína í þessum sparisjóðum, og hugsanlega fleiri sparisjóðum þar sem völ væri á stofnfjárbréfum. Til tryggingar fyrirhugaðri fjármögnun buðu þau fram handveð í sjálfum stofnfjárbréfunum, en einnig hlutabréf sín í Insolidum ehf., ef þörf krefði. Eftir frekari samskipti aðila í tölvupósti 21. júní 2007, þar sem enn var fjallað um beiðni eigenda Insolidum ehf. um aðstoð við fjármögnun fjárfestinga félagsins, var það niðurstaða aðalstefnda að hann gæti ekki sætt sig við veð í Insolidum ehf., enda væri krafa gerð um tryggingaþekju sem aðalstefndi gæti ekki vikið frá. Engu að síður benti hann á að mögulegt væri að lána Insolidum ehf. fé gegn tryggingum í óveðsettum stofnfjárbréfum félagsins og fasteignum þess. Af gögnum málsins verður ekki séð að aðilar hafi átt frekari samskipti sín í milli fyrr en 20. júlí 2007, en að morgni þess dags barst aðalstefnda tölvupóstur frá Páli Ágústi með beiðni um fjármögnun á allt að 750.000.000 króna, eða sem svaraði til 50 til 80 milljóna stofnfjárhluta. Í tölvupóstinum tók Páll Ágúst fram að Insolidum ehf. hefði hug á að bæta verulega við sig í SPRON, ekki síst í ljósi þeirra tíðinda að félagið yrði skráð á markað.

Ofanritað sýnir, svo ekki verður um villst, að eigendur Insolidum ehf. áttu frumkvæði að því að óska eftir liðsinni aðalstefnda, bæði um fjármögnun fjárfestinga félagsins, en einnig um kaup á stofnfjárbréfum sparisjóða. Þá verður síðastnefnt tölvubréf Páls Ágústs ekki skilið öðruvísi en svo að í því sé hann bæði að óska liðsinnis aðalstefnda við kaup á miklu magni stofnfjárbréfa í SPRON, svo og fjármögnun þeirra viðskipta, enda er þess þar hvergi getið að Insolidum ehf. hafi í hyggju að semja um kaup bréfanna við annan en aðalstefnda. Framburður Páls Ágústs fyrir dómi styður það einnig. Hins vegar verða ekki aðrar ályktanir dregnar af svarbréfi aðalstefnda við fyrri málaleitan eigenda, en að aðalstefndi hefði á  þeim tíma ekki sætt sig við veð í félaginu til tryggingar því láni sem leitað var eftir.  

Samskipti aðila bera þess einnig vitni að eigendur Insolidum ehf. höfðu bæði mikla þekkingu á viðskiptum á verðbréfamarkaði og reynslu af viðskiptum með stofnfjárbréf sparisjóða. Fyrir liggur einnig að tilgangur Insolidum ehf. var m.a. kaup, sala og eignarhald á hlutabréfum og öðrum verðbréfum og hafði félagið hagnast mikið á slíkum viðskiptum. Báðir eru eigendur félagsins lögfræðingar að mennt og sagði Páll Ágúst fyrir dómi að hann þekkti þær reglur sem giltu um sparisjóði, að stofnfjárbréf væru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og að reglur um innherja tækju ekki til viðskipta með stofnfjárbréf. Þá ber jafnframt að geta þess að forsenda fyrir markaðsviðskiptum aðalstefnenda við aðalstefnda var að eigendur samþykktu almenna skilmála Saga Capital, sem varð um leið hluti af þeim samningi sem gerður var á milli aðila. Í 11. gr. skilmálanna kemur m.a. fram að viðskiptavinur geri sér ljóst að þau viðskipti sem hann kunni að eiga á grundvelli skilmálanna geti verið sérstaklega áhættusöm og að viðskipti með óskráð verðbréf séu auk þess mun áhættusamari en með skráð verðbréf. Þá er þar tekið fram að bankinn veiti ekki ráðgjöf um einstök viðskipti, enda veiti hann eingöngu fagfjárfestum þjónustu. Því beri viðskiptavini að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðings, telji hann hennar þörf. Jafnframt er áréttað, að óski viðskiptavinur eftir áliti starfsmanna bankans á tilteknum viðskiptum, sé slíkt álit eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanns, en skuli ekki skoðast sem aðstoð við val á fjarfestingarkostum. Loks er þar tekið fram að Saga Capital beri hvorki ábyrgð á að verðbréf beri þá ávöxtun sem bankinn eða viðskiptavinur hafi væntingar um. Eigendur Insolidum ehf. undirrituðu skilmálana 23. júlí 2007, en sjá má af tölvupóstsamskiptum aðila að skilmálarnir voru sendir mun fyrr til undirritunar, og kallaði aðalstefndi sérstaklega eftir þeim 20. júlí 2007.

Hér ber einnig að nefna að ekki verður séð að aðalstefnendur hafi lýst nokkrum efasemdum eða komið á framfæri athugasemdum eða kvörtunum vegna viðskipta þeirra við aðalstefnda, fyrr en aðalstefndi hafði vakið athygli þeirra á miklu verðfalli bréfanna 24. október 2007, og þá kallað eftir frekari tryggingum. Til þess tíma virðast samskipti aðila hafa verið með ágætum. Í fyrstu töldu aðalstefnendur ekki ástæðu til að „panikera“ vegna lækkandi gengis, þótt þeir skildu áhyggjur aðalstefnda, og bentu á að um langtímafjárfestingu hefði verið að ræða af þeirra hálfu. Var það ekki fyrr en aðalstefndi hafði ítrekað kröfu sína um frekari tryggingar að aðalstefnendur töldu að þeir hefðu verið blekktir í viðskiptunum.

Í nóvembermánuði 2007 óskuðu aðalstefnendur eftir rannsókn Fjármálaeftirlitsins á viðskiptum þeirra við aðalstefnda. Jafnframt rituðu þeir Kauphöll Íslands og ríkislögreglustjóra bréf, þar sem athygli var vakin á viðskiptunum. Af gögnum málsins verður ekki séð að brugðist hafi verið við erindum þeirra.

Óumdeilt er að forstjóri Saga Capital hringdi í Pál Ágúst, framkvæmdastjóra Insolidum ehf., 20. júlí 2007, eftir að framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans hafði skýrt honum frá lánsumsókn Insolidum ehf. fyrr um morguninn. Halda aðalstefnendur því fram að í samtölum þeirra hafi forstjórinn hvatt þá til kaupa á stofnfjárbréfum í eins miklu magni og þeir vildu, og um leið lofað þeim fjármögnun fyrir öllu kaupverðinu. Þessu hefur aðalstefndi neitað og bent á að aðalstefnendur hafi bæði óskað bæði eftir hærri lánsfjárhæð og fleiri stofnfjárhlutum en viðskipti tókust síðar um. Aðalstefnendur hafa ekki fært sönnur á fullyrðingu sína og verður henni því hafnað. Hinu sama gildir um þá fullyrðingu þeirra að forstjórinn hafi leynt því hver væri seljandi og eigandi stofnfjárbréfanna, svo og að ekki hefði komið til kaupa á bréfunum ef sú vitneskja hefði legið fyrir að aðalstefndi væri eigandi þeirra. Raunar er vandséð að það hafi skipt aðalstefnendur nokkru máli hver var eigandi bréfanna þegar viðskiptin áttu sér stað. A.m.k. skýtur það skökku við að á sama tíma og þeir halda því fram að forsenda þeirra fyrir kaupum á bréfunum hafi verið sú að annar en bankinn væri eigandi þeirra, sagði Páll Ágúst fyrir dómi að bréfin hefðu heldur ekki verið keypt ef seljandinn væri Sundagarðar hf. Engu að síður er því haldið fram af hálfu aðalstefnenda að blekkingar aðalstefnda hafi m.a. falist í því að þeim hefði verið talin trú um að seljandinn væri stór stofnfjáreigandi í SPRON.

Fram er komið að starfsmenn Saga Capital leituðu skýringa á því hjá Arion verðbréfavörslu hf. hvers vegna áletrun á kaupnótu bæri ekki með sér að aðalstefndi væri mótaðili í viðskiptum við Insolidum ehf. Að fengnum skýringum framkvæmdastjóra Arion hf. verður ekki á það fallist að aðalstefndi beri á því ábyrgð eða hafi vísvitandi ætlað að leyna aðalstefnendur hver væri mótaðili í umræddum viðskiptum.

Í ljósi framritaðs verður að hafna þeirri málsástæðu aðalstefnenda að aðalstefndi hafi vísvitandi leynt því að hann væri eigandi umræddra stofnfjárbréfa. Að sama skapi verður hafnað þeirri óljósu röksemd aðalstefnenda að fjármálafyrirtæki selji ekki verðbréf, nema kaupverðið sé hagstæðara en framtíðarvæntingar þess. Þá er ósönnuð sú fullyrðing aðalstefnenda að allt til 7. nóvember 2007 hefði aðalstefndi komið fram sem umboðsmaður seljanda gagnvart þeim. Verður því ekki talið að aðalstefndi hafi brotið gegn verklagsreglum sínum um eigin viðskipti frá 29. mars 2007, sbr. einkum gr. 3.2. og 6.3.

Aðalstefnendur byggja á því að aðalstefndi hafi brotið gegn ákvæðum IX. kafla þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, þegar viðskiptin fóru fram 20. júlí 2007. Í kaflanum er fjallað um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja og er þar tekið fram í 1. tl. 1. mgr. 56. gr. að ákvæði kaflans gildi um verðbréf sem skráð hafi verið eða óskað hafi verið eftir að verði skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.

Ekki er um það deilt að viðskipti aðila voru með óskráð verðbréf, stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem ekki var hægt að skrá á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem takmarkanir giltu um framsal þeirra, sbr. 64. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá liggur og fyrir að þegar viðskipti aðila fóru fram, 20. júlí 2007, hafði ekki verið óskað eftir skráningu SPRON í kauphöll. Hins vegar er óumdeilt að á fundi stjórnar sparisjóðsins 17. júlí 2007 var samþykkt að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu í kauphöll. Sú skráning gat þó ekki farið fram fyrr en að stofnfjáreigendur höfðu samþykkt að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Var það samþykkt á fundi stofnfjáreigenda 21. ágúst 2007 og hlutafélagið Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis skráð í kauphöll 23. október sama ár. Meðal skjala málsins er einnig tölvubréf frá starfsmanni Fjármálaeftirlitsins, þar sem staðfest er að Kauphöll Íslands hafi ekki borist umsókn SPRON um skráningu félagsins á skipulegum verðbréfamarkaði þegar umrædd viðskipti áttu sér stað, og því hafi innherjaákvæði IX. kafla laga nr. 33/2003 ekki átt við um viðskiptin. Tekur dómurinn undir þau sjónarmið og gerir að sínum. 

Aðalstefnendur halda því fram að Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Sundagarða hf. og stjórnarmaður í SPRON, hafi búið yfir innherjaupplýsingum um að verðmæti stofnfjárbréfanna væri verulega minna en markaðsgengi, og að gengi bréfanna endurspeglaði verulegt ofmat á verðmætum í félaginu. Sundagarðar hf. hafi á umræddum tíma verið annar stærsti eigandi aðalstefnda og honum venslaður, og hafi félagið þannig misnotað aðstöðu sína gagnvart aðalstefnda í skjóli þeirra upplýsinga sem forsvarsmaður þess hafi búið yfir. Benda aðalstefnendur sérstaklega á að á stjórnarfundi í SPRON 17. júlí 2007 hafi verið lagt fram ítarlegt verðmat á sparisjóðnum, unnið af ráðagjafarfyrirtækinu Capacent, og hafi þeim verið neitað um aðgang að því með þeim rökum að það væri trúnaðarmál, allt þar til undir hið síðasta í rekstri þessa máls. Hljóti slíkt að bera vott um að matið hafi falið í sér innherjaupplýsingar, sem Gunnar Þór hafi búið yfir og hagnýtt sér í viðskiptum við aðalstefnda. Þá veki það sömu grunsemdir í hugum aðalstefnenda að Gunnar Þór hafi ekki viljað upplýsa um samninga aðalstefnda og  Sundagarða hf. um kaup hins fyrrnefnda á stofnfjárbréfum félagsins.

Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að innherjaákvæði IX. kafla laga nr. 33/2003 giltu ekki í viðskiptum aðila. Verður því ekki frekar fjallað um þá málsástæðu, en þess í stað vikið að öðrum sjónarmiðum aðalstefnenda hér að ofan.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði framkvæmdastjóri Insolidum ehf. að honum hefði verið kunnugt um niðurstöður í verðmati Capacent, en forsendur þess hefðu þó ekki legið fyrir. Áður er fram komið að ráðgjafarfyrirtækið mat markaðsvirði SPRON á 59,4 milljarða króna og lágu þær upplýsingar fyrir 18. júlí 2007. Verðmatið var ekki lagt fyrir dóminn fyrr en 9. desember sl., en þá hafði sparisjóðsstjórinn verið kvaddur fyrir dóminn samkvæmt heimild í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Við munnlegan flutning málsins var af hálfu aðalstefnenda ekki vikið sérstaklega að efni matsskýrslunnar, eða þeim forsendum sem byggt var á, enda verður að telja að þar hafi engar upplýsingar verið að finna sem skipt geti hér máli, eða talist til trúnaðarupplýsinga. Hins vegar fer ekki á milli mála að gengi á stofnfjárbréfum í SPRON á umræddum tíma var í engu samræmi við verðmat Capacent, sem lá fyrir á sama tíma. Verður aðeins ályktað að gengi bréfanna, bæði fyrir og eftir að verðmatið lá fyrir, hafi stjórnast af allt öðru en raunverulegu verðmæti sparisjóðsins, og er þá nærtækast að líta til óraunhæfra væntinga markaðarins vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins í kauphöll. 

Undir rekstri málsins lagði aðalstefndi fyrir dóminn sem trúnaðarskjal kaupnótur vegna viðskipta Sundagarða hf. og Saga Capital 20. júlí 2007. Við skýrslutöku fyrir dómi, við upphaf aðalmeðferðar, var samþykkt, bæði af hálfu aðalstefnda og Sundagarða hf., að aflétta trúnaði á þeim skjölum. Með því var upplýst að aðalstefndi keypti þann dag af Sundagörðum hf. 185.000.000 stofnfjárhluti í SPRON á genginu 11,576723. Sama dag seldi aðalstefndi Insolidum ehf. 47.500.000 stofnfjárbréf og var gengi í þeim viðskiptum 11,797232. Að fengnum þeim upplýsingum má einkum ráða tvennt. Í fyrsta lagi staðfesta kaupnóturnar að aðalstefndi keypti mun fleiri stofnfjárbréf af Sundagörðum hf. en hann seldi Insolidum ehf. sama dag. Hluta þeirra mun hann hafa selt tveimur öðrum fyrirtækjum, en mismuninum, sem svaraði til 0,53% af heildarstofnfé SPRON, hélt hann eftir fyrir sig. Fær það stoð í framlögðu yfirliti yfir stærstu stofnfjáreigendur í SPRON eftir 24. júlí 2007. Í öðru lagi sýna þær að lítill munur var á gengi bréfanna, annars vegar í viðskiptum aðalstefnda og Sundagarða hf., og hins vegar í viðskiptum aðila þessa máls. Meðal gagna málsins er einnig yfirlit yfir gengi á stofnfjárbréfum SPRON í viðskiptum í júlímánuði 2007. Af því verður ekki annað ráðið en að gengi bréfanna í viðskiptum málsaðila 20. júlí 2007 hafi verið nokkuð hagstæðara en í öðrum viðskiptum með stofnfjárbréf á tímabilinu frá 18. júlí til 23. sama mánaðar.

Með vísan til ofanritaðs verður að hafna öllum sjónarmiðum aðalstefnenda, þess efnis að aðalstefndi hafi búið yfir og hagnýtt sér innherjaupplýsingar í viðskiptum þeirra, eða beitt þá blekkingum í því skyni að koma á viðskiptum með stofnfjárbréf, sem í reynd hafi ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið. Þótt fyrir liggi að Sundagarðar hf. hafi á umræddum tíma verið annar stærsti hluthafi í Saga Capital, verður ekki séð að sú aðstaða hafi haft nokkur áhrif í viðskiptunum, hvorki milli Sundagarða hf. og aðalstefnda, né síðar milli aðalstefnda og aðalstefnenda. Þá hafa aðalstefnendur á engan hátt fært sönnur á samverknað Sundagarða hf. og aðalstefnda, né sýnt fram á að sú aðstaða eigi að leiða til þess að krafa þeirra verði tekin til greina. Telur dómurinn einnig haldlausa þá ályktun aðalstefnenda að vísbending um samverknað felist í þeirri staðreynd að aðalstefndi hafi ekkert aðhafst gagnvart Sundagörðum hf. vegna þeirra 0,53% stofnfjár, sem bankinn hélt sjálfur eftir í viðskiptum sínum við Sundagarða hf. Að þessu sögðu getur dómurinn því ekki fallist á að viðskipti aðila hafi farið í bága við IX. kafla laga nr. 33/2003, né tilvitnuð ákvæði verklagsreglna aðalstefnda um eigin viðskipti frá 29. mars 2007. Þá stoðar það heldur ekki aðalstefnendur að vísa til reglna samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur, 18. og 19. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, né 30. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, kröfu sinni til stuðnings.

Aðalstefnendur byggja loks á því að Saga Capital hafi gróflega brotið gegn ákvæðum laga og reglna um aðskilnað starfssviða fjármálafyrirtækja, í því skyni að koma á viðskiptum við aðalstefnendur. Því til stuðnings vísa þeir til 13. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, leiðbeinandi tilmæla FME nr. 1/2001 og verklagsreglna aðalstefnda um eigin viðskipti, einkum 4. kafla þeirra.

Í tilvitnuðum ákvæðum er fjallað um svokallaða kínamúra, sem ætlað er að aðskilja einstök starfssvið fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í verðbréfaviðskiptum. Í 7. gr. leiðbeinandi tilmæla FME nr. 1/2001, segir að fyrirtæki beri að aðgreina viðskipti fyrir eigin reikning, miðlun, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf, bakvinnslu og önnur svið eftir því sem starfsemi fyrirtækisins gefi tilefni til. Jafnframt segir þar að með aðskilnaði sé átt við að sviðin séu aðskilin í stjórnun, afkomu, upplýsingakerfum og með reglum um samskipti milli sviða. Í samræmi við fyrirmæli laga nr. 33/2003 og leiðbeinandi tilmæli FME hefur aðalstefndi sett sér verklagsreglur um aðskilnað starfssviða, sem finna má í 4. kafla verklagsreglna hans um eigin viðskipti frá 29. mars 2007. Þar er m.a. mælt fyrir um aðskilnað eigin viðskipta frá útlánasviði og verðbréfamiðlun í stjórnun, afkomu og upplýsingakerfum. Að sama skapi eru fyrirmæli um aðskilnað útlánasviðs frá  verðbréfamiðlun og eigin viðskiptum. Jafnframt segir þar að í samskiptum milli starfssviða skuli þess gætt að viðkvæmar upplýsingar berist ekki á milli þeirra. Samkvæmt gr. 2.3. í umræddum reglum er forstjóri Saga Capital ekki undanþeginn ákvæðum 4. kafla verklagsreglnanna, og ber honum því einnig að hlíta þeim reglum sem fjalla um aðskilnað starfssviða.

Áður hefur því verið lýst að framkvæmdastjóri Insolidum ehf., Páll Ágúst, sendi tölvupóst til framkvæmdastjóra útlánasviðs Saga Capital, Geirs Gíslasonar, 20. júlí 2007, þar sem reifuð voru áform aðalstefnenda um fjármögnun fyrirhugaðra viðskipta. Ekki er um það deilt að Geir kynnti forstjóra aðalstefnda lánsumsóknina, enda var erindið um stóra lánveitingu. Framburður forstjórans og Geirs fyrir dómi er samhljóða um að Geir hefði í viðtali við forstjórann talið að skilyrði væru fyrir kaupum að ákveðinni upphæð, með tilliti til veðþekju. Sérstaklega aðspurður sagðist Geir hins vegar ekki hafa vitað að lánið væri ætlað til kaupa á eigin bréfum, aðeins að það væri ætlað til kaupa á stofnfjárbréfum í SPRON. Forstjóri aðalstefnda hringdi að því loknu í Pál Ágúst. Þótt ágreiningur sé um efni þess samtals og annarra samtala þeirra, er ekki um það deilt að rætt var bæði um kaup aðalstefnenda á stofnfjárhlutum í SPRON og fjármögnun þeirra viðskipta. Lauk samtölum þeirra með því að Insolidum ehf. festi kaup á 47.500.000 stofnfjárhlutum og samþykkti aðalstefndi að fjármagna þau kaup. Fyrir dómi sagðist forstjóri aðalstefnda sjálfur hafa hringt í Pál Ágúst, þar sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans hefði verið fjarverandi og hann einn með umboð til þess að ræða við viðskiptavini. Staðfesti Páll Ágúst þessa frásögn forstjórans fyrir dómi.

Af þessu má ráða að framkvæmdastjóri útlánasviðs aðalstefnda lagði sjálfstætt mat á lánsumsókn aðalstefnenda, og taldi að skilyrði væru fyrir kaupum að ákveðinni upphæð. Forstjórinn, í fjarveru framkvæmdastjóra markaðsviðskipta, annaðist síðan miðlun stofnfjárbréfanna. Að þessu leyti verður ekki séð að hagsmunaárekstur hafi orðið í viðskiptunum, þar sem ákvarðanataka fór fram á aðskildum starfssviðum, þótt vissulega kunni það að orka tvímælis að forstjóri, sem æðsti starfsmaður bankans og yfirmaður allra starfssviða, taki slíkar ákvarðanir. Þar sem framkvæmdastjóra Insolidum ehf. var hins vegar kynnt í upphafi samtalsins að forstjórinn væri jafnframt í hlutverki framkvæmdastjóra markaðsviðskipta, þykja ekki efni til að taka undir þau rök aðalstefnenda að framganga forstjórans hafi falið í sér brot á reglum um aðskilnað starfssviða.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ekki séu skilyrði til þess að verða við kröfu aðalstefnenda um riftun á kaupsamningi Insolidum ehf. og aðalstefnda um kaup Insolidum ehf. á 47.500.000 stofnfjárbréfum í SPRON 20. júlí 2007, enda enga þá galla að finna á hinu selda eða í söluferlinu, sem metið verði til verulegra vanefnda af hálfu aðalstefnda, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Verður aðalstefndi því sýknaður af  kröfum þeirra.

Gagnsök

Aðalstefndi hefur í máli þessu höfðað gagnsök á hendur Insolidum ehf. og gerir kröfu um að félagið verði dæmt til að greiða honum 298.282.616 krónur, ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Byggist krafan á lánssamningi aðila frá 3. ágúst 2007, að fjárhæð 582.000.000 króna, sem var að langstærstum hluta varið til fjármögnunar þeirra viðskipta sem áður eru rakin. Til tryggingar skuldinni var lánveitanda settur að handveði nánar tilgreindur fjöldi stofnfjárhluta í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóði og Sparisjóði Keflavíkur, svo og allir hlutir í lántaka. Samhliða lánssamningnum voru gerðir átta handveðsamningar til að veita þessar tryggingar.

Fram kemur í gögnum málsins að 24. október 2007 kallaði gagnstefnandi, Saga Capital, eftir auknum tryggingum vegna mikillar lækkunar á virði bréfanna og lækkandi tryggingaþekju. Í fyrstu hafnaði gagnstefndi, Insolidum ehf., ekki frekari tryggingum, en óskaði eftir fresti til að leysa vandann í samráði við viðskiptabanka sinn, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Eftir ítrekaðar áskoranir um frekari tryggingar, og án þess að brugðist væri við af hálfu gagnstefnda, gjaldfelldi gagnstefnandi kröfu sína samkvæmt umræddum lánssamningi 8. nóvember 2007. Í bréfi lögmanns gagnstefnanda þann dag kemur fram að Saga Capital meti hlutfall tryggingaþekju 108% og áætlað eigið fé Insolidum ehf. 96.606.439 krónur, eða innan við 16% af lánsfjárhæð. Samkvæmt bréfinu nam skuld Insolidum ehf. við gagnstefnanda 611.242.322 krónum með vöxtum, en án kostnaðar. Um heimild til gjaldfellingar var vísað til greinar 9.2. í lánssamningi.

Með bréfi 12. nóvember 2007 til lögmanns gagnstefnda tilkynnti gagnstefnandi að hann hygðist næsta dag hefja fullnustu á kröfu sinni samkvæmt lánssamningi aðila með því að ráðstafa verðmætum, sem honum hefðu verið sett að handveði, ef ekki yrði orðið við áskorun um að greiða kröfuna. Gagnstefnandi fylgdi þessu eftir 14. sama mánaðar með því að hann leysti til sín hlutabréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., sem komið höfðu í stað stofnfjárhluta sem hann hafði að handveði frá Insolidum ehf. og Dögg Pálsdóttur, fyrir 317.631.941 krónu. Var fjárhæðinni ráðstafað sem innborgun á lánið. Á kaupnótu kemur fram að dagsetning uppgjörs sé 19. nóvember 2007. Að frádregnum áföllnum dráttarvöxtum og samningsvöxtum gengu 283.717.384 krónur upp í höfuðstól lánsins. Eftirstöðvar námu því 298.282.616 krónum.

Gagnstefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að lánssamningi aðila hafi verið rift 8. nóvember 2007 og hafi þegar farið fram skil á verðmætum sem farið hafi á milli aðila. Því eigi gagnstefnandi engar kröfur á gagnstefnda á grundvelli samninganna. Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið skilyrði til riftunar kaupsamnings aðila, þykir ekki ástæða til að fjalla um þá málsástæðu gagnstefnda, þótt hún lúti hér að riftun á lánssamningi sömu aðila, enda sömu rökum teflt fram í báðum tilvikum. Verður því ekki fallist á sýknukröfu gagnstefnda. 

Samkvæmt áðurnefndum handveðsamningum, til tryggingar lánssamningi aðila, gat  lántaki leyst til sín verðbréfin að því marki sem þörf var á til fullnustu kröfu hans, miðað við meðalgengi bréfanna eins og það var skráð á skipulegum verðbréfamarkaði síðustu 7 daga áður en fullnusta færi fram. Á kvittunum gagnstefnanda fyrir sölu þeirra stofnfjárhluta sem hann hafði að handveði er sölugengið skráð 12,90. Gagnstefndi heldur því fram að sölugengið eigi að vera 13,75, og sé það gengi meðalgengi síðustu 7 daga fyrir innlausn. Dómurinn hefur engar forsendur til að leggja mat á réttmæti þeirra athugasemda gagnstefnda, þar eð engin gögn hafa verið lögð fyrir hann er sýna meðalgengi bréfanna á umræddum tíma. Verður gagnstefndi að bera hallann af því.

Gagnstefndi mótmælir jafnframt dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda á þeim forsendum að honum hafi aldrei verið sent kröfubréf með sundurliðun á meintri skuld. Þessu er til að svara að í bréfi gagnstefnanda 8. nóvember 2007, þar sem lýst var yfir gjaldfellingu skuldarinnar, kemur fram að skuldin nemi 611.242.322 krónum með vöxtum, en án kostnaðar. Síðar í bréfinu segir að dráttarvextir reiknist frá og með sama degi, þ.e. 8. nóvember 2007. Er það í samræmi við ákvæði 11.1. í margnefndum lánssamningi, þar sem fram kemur að dráttarvextir greiðist frá og með gjaldfellingardegi til greiðsludags.  Mótmæli gagnstefnda eiga því ekki við rök að styðjast.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður krafa gagnstefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett í gagnstefnu og nánar greinir í dómsorði.

--------------------------

         Með hliðsjón af úrslitum málsins, bæði í aðalsök og gagnsök, svo og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verða aðalstefnendur og gagnstefndi dæmd til greiðslu málskostnaðar. Áður er komið fram að bú Insolidum ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og er mál þetta rekið á kostnað og áhættu aðalstefnendanna, Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar, samkvæmt heimild í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Verður málskostnaður því lagður á þau að óskiptu.

Í málinu liggur frammi málskostnaðaryfirlit frá aðalstefnda og gagnstefnanda, samtals að fjárhæð 18.808.199 krónur. Kemur þar fram að málflutningsþóknun sé samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf., og ráðist hún af fjárhagslegum hagsmunum er svari til fjárkröfu í gagnsök. Dómurinn getur ekki fallist á að málskostnaður verði í máli þessu ákvarðaður eftir þeim hagsmunum sem tekist er á um í gagnsök. Þess í stað verður litið til umfangs málsins og áætlaðs vinnuframlags lögmannsins. Með það í huga, svo og að teknu tilliti til þóknunar vegna málflutnings um frávísunarkröfu 18. september sl., þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 2.800.000 krónur. Hefur þá einnig verið tekið tillit til skyldu aðalstefnda og gagnstefnanda til greiðslu virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Aðalstefndi, Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., er sýkn af kröfum aðalstefnenda, þrotabús Insolidum ehf., Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar.

Gagnstefndi, þrotabú Insolidum ehf., greiði gagnstefnanda, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., 298.282.616 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. nóvember 2007 til greiðsludags.

Aðalstefnendur, Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson, greiði óskipt aðalstefnda og gagnstefnanda 2.800.000 krónur í málskostnað.