Hæstiréttur íslands
Mál nr. 47/2016
Lykilorð
- Lögmaður
- Ábyrgðartrygging
- Skaðabætur
- Erfðaskrá
- Aðfararheimild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 9. október 2009 leitaði A, sem fædd var árið [...], til Guðmundar Þórðarsonar héraðsdómslögmanns sem samdi erfðaskrá fyrir hana þar sem mælt var fyrir um að 1/3 hluti eigna hennar skyldi renna að jöfnu til tveggja dætra hennar, stefndu í máli þessu. Aðrar eignir hennar skyldu svo ganga til allra þriggja dætra hennar sem lögerfingja samkvæmt fyrirmælum erfðalaga nr. 8/1962. Á erfðaskránna var fært svofellt arfleiðsluvottorð: „Undirritaðir, sem höfum verið kvaddir til þess að vera vottar að framanritaðri arfleiðslugerð vottum hér með að, A ... ritaði að okkur viðstöddum nafn sitt undir erfðaskrána, sem hún kvað hafa að geyma hinsta vilja sinn. Gerði hún það heil heilsu andlega og líkamlega, allsgáð og af fúsum og frjálsum vilja. Þetta erum við reiðubúnir að staðfesta með eiði ef krafist verður.“ Þrátt fyrir þennan texta vottorðsins ritaði aðeins framangreindur lögmaður undir það. Var þannig ekki farið að skýrum fyrirmælum 1. mgr. 40. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. erfðalaga um að arfleiðandi kveddi tvo menn til að votta arfleiðslu sína og að hún hafi kannast við undirritun sína þeim vottum viðstöddum. Þá verður hvorki ráðið hver hafi kvatt vottinn til né heldur hvenær og hvar vottun fór fram, sbr. 1. og 3. mgr. 42. gr. laganna. Arfleiðandi mun hafa afhent sýslumanni erfðaskrána til varðveislu.
Arfleiðandi lést [...] 2012 og mánuði síðar ritaði lögmaður fyrir hönd þriðju systurinnar bréf til stefndu þar sem því var lýst að sú fyrstnefnda hafi fengið ljósrit af erfðaskránni og ákveðið í samræmi við 47. gr. erfðalaga að vefengja hana þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 40. gr. laganna um vottun. Í svarbréfi stefndu 27. september 2012 kom fram sú afstaða að miða bæri skiptin við efni erfðaskrárinnar óháð mistökum við gerð hennar. Hinn 9. október 2012 ritaði lögmaður stefndu bréf þar sem ítrekað var það sjónarmið að ágallar á erfðaskránni ættu ekki að varða ógildingu hennar heldur skyldi dánarbúinu skipt einkaskiptum með efni hennar að leiðarljósi. Þessu svaraði lögmaður systurinnar með bréfi 12. október 2012 þar sem því var lýst yfir að í ljósi bréfsins 9. sama mánaðar yrði óskað eftir opinberum skiptum á dánarbúinu með vísan til 38. gr. og IV. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Var það gert með bréfi 15. janúar 2013 og búið tekið til opinberra skipta 22. febrúar það ár.
Hinn 5. apríl 2013 sendi lögmaður stefndu bréf til Guðmundar Þórðarsonar og tilkynnti honum að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta „vegna ágreinings um gildi erfðaskrár hinnar látnu“ og þar sem hann væri vottur að erfðaskránni væri óskað eftir að hann lýsti sig reiðubúinn að mæta fyrir dóm og „staðfesta það sem kemur fram í arfleiðsluvottorðinu.“ Svaraði Guðmundur með bréfi sama dag þar sem hann kvaðst reiðubúinn að staðfesta að þetta hafi verið vilji arfleiðanda.
Ágreiningsmál um gildi erfðaskrárinnar var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 4. október 2013 og gaf Guðmundur Þórðarson skýrslu þar fyrir dómi 23. janúar 2014. Lýsti hann því að þetta væri ekki í eina skiptið sem hann hefði gengið svo frá málum að einungis hann einn hefði vottað erfðaskrá sem arfleiðsluvottur, en það hefði ekki komið að sök því menn hefðu „gúdderað svona vottun“, eins og hann komst að orði. Jafnframt kvaðst hann hafa sagt arfleiðanda að láta skrá erfðaskrána hjá sýslumanni. Úrskurður héraðsdóms gekk 7. febrúar 2014 þar sem kveðið var á um ógildi erfðaskrárinnar.
Hinn 27. febrúar 2014 sendi lögmaður stefndu Guðmundi Þórðarsyni bréf þar sem hann var annars vegar krafinn um bætur vegna missis bréfarfs „áætlað á milli 5 og 10 milljón krónur.“ Hins vegar var krafist bóta vegna kostnaðar stefndu „af því að ágreiningur um gildi erfðaskrárinnar hefur leitt til þess að dánarbúið var tekið til opinberra skipta og ágreiningi um gildið vísað til héraðsdóms og síðan til Hæstaréttar. Um var að ræða vinnu lögmanns í 67,5 klst. fram til 17. febrúar s.l. þegar kæra var afhent héraðsdómi.“ Bréfinu fylgdi afrit úrskurðar héraðsdóms og kæra lögmannsins til Hæstaréttar. Var afrit þess jafnframt sent áfrýjanda með vísan til starfsábyrgðartryggingar Guðmundar hjá honum.
Hinn 5. mars 2014 gekk dómur í Hæstarétti í máli nr. 132/2014 þar sem vísað var til þess að af hálfu systur stefndu hefði verið gætt ákvæðis fyrri málsliðar 47. gr. erfðalaga um að bera upp andmæli gegn gildi erfðaskrárinnar jafnskjótt og tilefni varð til. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest þegar af þeirri ástæðu að erfðaskráin uppfyllti ekki lágmarkskröfur erfðalaga um vottun.
Hinn 7. mars 2014 sendi lögmaður stefndu Guðmundi bréf þar sem tilkynnt var um niðurstöðu Hæstaréttar og óskað „eftir svari þínu fljótlega“ með „fyrirvara um aukinn kostnað vegna reksturs Hæstaréttarmálsins og vegna dæmds málskostnaðar.“ Erindið var áréttað með bréfi 16. apríl sama ár og gerður áskilnaður um að hefja innheimtuaðgerðir fengist ekki svar fyrir ætluð skiptalok 28. sama mánaðar. Svaraði Guðmundur í bréfi 23. apríl 2014 með svofelldum hætti: „Ég mótmæli alfarið skaðabótaskyldu vegna þessarar erfðaskrár. Þar sem við vorum bara tvö þegar hún undirritaði hana þá sagði ég henni að hún yrði að fara með hana til notariusar hjá sýslumanni og láta hann staðfesta undirritun hennar og skrá erfðaskrána þar. Það liggur fyrir að hún fór til sýslumanns og lét skrá erfðaskrána en notarius hefur þá ekki gert neitt meira en að skrá hana. Ef maður fer með gögn í þinglýsingu þá fæst skjalið ekki þinglýst nema það sé rétt vottað. Ég get ekki tekið ábyrgð á því hvernig vinnubrögðin eru hjá notarius. Ég mun halda uppi stífum vörnum í máli þessu allt upp í hæstarétt.“
Hinn 28. apríl 2014 var samþykkt frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu með þeirri niðurstöðu að hrein eign arfleiðanda næmi samtals 31.659.818 krónum. Með bréfi lögmanns stefndu 29. sama mánaðar til Guðmundar Þórðarsonar og áfrýjanda kom fram bótakrafa samtals að fjárhæð 7.722.793 krónur sem var sundurliðuð svo: „1. 1/3 hluti þess sem kom til arfs eftir A kr. 5.276.636 2. Málskostnaður lögmanns umbj. minna í héraði með virðisaukaskatti kr. 1.702.533 3. Málskostnaður lögmanns umbj. minna í Hæstarétti m/virðisaukask. kr. 313.624 4. Dæmdur málskostnaður í héraði frá umbj. m. til varnaraðila kr. 180.000 5. Dæmdur málskostnaður í Hæstarétti frá umbj. m. til varnaraðila kr. 250.000“.
Áfrýjandi hafnaði kröfu stefndu í bréfi 21. júlí 2014 með vísan til þess að Guðmundur Þórðarson hefði reynt að fá annan vott til að votta með sér erfðaskrána, en þar sem það hefði ekki tekist hefði verið ákveðið að arfleiðandi fengi sýslumann til að votta skrána og skrá. Væri því ósannað að ágalla erfðaskrárinnar mætti rekja til saknæmrar háttsemi Guðmundar.
Hinn 29. september 2014 sendi lögmaður stefndu áfrýjanda á ný bréf með kröfu samtals að fjárhæð 8.469.185 krónur. Munaði þar einkum um að til viðbótar var krafist 417.620 króna vegna 2/3 hluta kostnaðar af opinberum skiptum og 462.969 króna vegna lögmannskostnaðar við innheimtu kröfunnar og væri þar talinn með undirbúningur vegna kæru til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
Á tímabilinu frá 8. september til 12. desember 2014 áttu sér stað nokkur samskipti milli lögmanns stefndu og áfrýjanda. Í bréfi fyrrnefnda daginn sendi lögmaður stefndu áfrýjanda endurrit úr þingbók með framburði Guðmundar Þórðarsonar og tilkynnti jafnframt að frestað yrði áformum stefndu um að skjóta ágreiningnum til úrskurðarnefndar vátryggingamála „ef ske kynni að framburðurinn breytti einhverju um afstöðu félagsins.“ Með bréfi 24. september 2014 féllst áfrýjandi á bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingu Guðmundar. Aðilar náðu þó ekki samkomulagi um bótafjárhæð og lauk samskiptum þeirra með því að 12. desember 2014 greiddi áfrýjandi stefndu samtals 3.167.092 krónur með svofelldri sundurliðun: „Höfuðstóll“ 1.714.145 krónur, „lögmannskostnaður innheimta bóta“ 157.727 krónur, „virðisaukaskattur af lögmannsk“ 40.220 krónur, „málskostnaður v/dómsmáls að álitum ex gratia“ 1.255.000 krónur. Var tekið fram í tjónskvittun að um væri að ræða fullnaðargreiðslu vegna tjóns og jafnframt ítrekað að greiðslan fæli ekki í sér viðurkenningu á rétti til frekari greiðslu.
Áfrýjandi greiddi svo stefndu 18. mars 2015 til viðbótar 112.663 krónur í vexti með vísan til 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. febrúar 2014, er stefndu beindu fyrst til hans kröfu, til greiðsludags 12. desember sama ár, en 3.710 krónur í dráttarvexti frá þeim degi til 18. mars 2015.
Stefndu höfðuðu mál þetta 15. janúar 2015 og gekk hinn áfrýjaði dómur 8. desember sama ár.
II
Eins og að framan greinir deila málsaðilar um umfang þess tjóns sem stefndu urðu fyrir og bæta skal samkvæmt skilmálum framangreindrar starfsábyrgðartryggingar. Áfrýjandi greiddi 12. desember 2014 og 18. mars 2015 stefndu þá fjárhæð sem þær hefðu fengið samkvæmt hinni ógildu erfðaskrá, eða 1.714.145 krónur með vöxtum. Er hvorki ágreiningur um þennan lið bóta til stefndu né sérstaklega um fjárhæð þá, 157.727 krónur, sem þeim voru greiddar vegna innheimtu bóta hjá áfrýjanda.
Þá er ekki ágreiningur með aðilum um að áfrýjanda beri að greiða stefndu kostnað sem fólst í að staðreyna tjón þeirra í samræmi við skilmála framangreindrar tryggingar.
Stefndu telja sig eiga rétt til greiðslu vegna málskostnaðar til handa lögmanni sínum vegna reksturs framangreinds ágreiningsmáls í héraði 1.702.533 krónur og fyrir Hæstarétti 313.624 krónur. Hafi þær fjárhæðir verið inntar af hendi 6. maí 2015. Þá beri þeim bætur vegna málskostnaðar sem þær voru dæmdar til að greiða vegna reksturs ágreiningsmálsins, eða 180.000 krónur í héraði og 250.000 krónur fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi telur sig á hinn bóginn hafa að fullu bætt lögmannskostnað þann sem stefndu hafi haft af innheimtu bóta með greiðslu 157.727 króna auk virðisaukaskatts og vaxta. Þá hafi hann greitt umfram skyldu kostnað vegna reksturs framangreinds ágreiningsmáls, 1.255.000 krónur með vöxtum.
Loks deila aðilar um hvort áfrýjanda beri að greiða stefndu 2/3 hluta kostnaðar vegna opinberra skipta á framangreindu dánarbúi, eða 417.620 krónur.
Í grein 2.2 í skilmálum tryggingarinnar segir um gildissvið hennar að vátryggt sé gegn bótaskyldu sem fellur á vátryggðan, sem lögmann, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni sem rakið verður til vátryggðs sjálfs eða starfmanns hans. Um vátryggingarfjárhæð segir í grein 4.2 að félagið greiði kostnað vegna ákvörðunar um skaðabótaskyldu eða bótafjárhæð enda þótt greiðsla félagsins fari af þeim sökum fram úr vátryggingarfjárhæðinni. Sama gildi um vexti, sem vátryggður er dæmdur til að greiða af skaðabótakröfu sem vátryggingin tekur til.
Þótt neytt hafi verið heimildar samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi móður stefndu í kjölfar deilna um gildi framangreindrar erfðaskrár verður hvorki séð að sú aðgerð hafi verið óhjákvæmileg afleiðing hins bótaskylda verknaðar né verður ráðið hver hefði að öðrum kosti orðið kostnaður stefndu af skiptum á dánarbúinu. Þá vissi áfrýjandi fyrst af kröfu stefndu á hendur sér er honum var sent afrit af bréfi lögmanns stefndu 27. febrúar 2014. Verður því á engan hátt fallist á með stefndu að taka búsins til opinberra skipta falli undir bótaskylt tjón í skilningi skilmála vátryggingarinnar. Verður áfrýjandi af þeim sökum sýknaður af þessum hluta kröfu stefndu.
Eins og að framan greinir fékk áfrýjandi fyrst veður af kröfu stefndu á hendur sér er lögmaður þeirra sendi afrit af bréfi hans til Guðmundar Þórðarsonar 27. febrúar 2014. Hafði þá þegar fallið til kostnaður vegna reksturs ágreiningsmáls í héraði um gildi erfðaskrárinnar og kostnaður vegna kæru til Hæstaréttar. Ákvörðun Hæstaréttar um málskostnað kom síðan í kjölfarið. Samkvæmt þessu gerðu stefndu ekki kröfu á hendur áfrýjanda á þessum tíma, en héldu þess í stað til streitu fyrir dómstólum tilefnislausri kröfu um gildi erfðaskrár sem haldin var augljósum formgalla. Gat vátryggingin ekki tekið til kostnaðar sem stofnað var til með þeim hætti sem hér um ræðir. Að þessu virtu og þeirri greiðslu sem áfrýjandi hefur innt af hendi til stefndu vegna þessara hluta kröfu þeirra verður hann sýknaður í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum og í samræmi við kröfugerð áfrýjanda hér fyrir dómi verður málskostnaður í héraði felldur niður en stefndu gert að greiða óskipt áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefndu, B og C.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Stefndu greiði áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2015.
Mál þetta sem dómtekið var þann 10. nóvember 2015 var höfðað 15. janúar s.á. af hálfu B, [...], [...] og C, [...], [...], gegn Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík til greiðslu skaðabóta.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð 1.410.830 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. janúar 2013 til 1. apríl 2014, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi greiði stefnendum málskostnað samkvæmt framlögðum reikningi að teknu tilliti til þess að stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Héraðsdómslögmaður, sem hafði starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda, útbjó erfðaskrá fyrir móður stefnenda, sem dagsett er 9. október 2009. Samkvæmt henni skyldu stefnendur erfa að jöfnu 1/3 hluta eigna móðurinnar en það sem eftir stæði skiptist jafnt milli stefnenda og þriðju systurinnar. Á erfðaskránni er aðeins einn vottur, lögmaðurinn sjálfur. Móðirin lést [...] 2012. Hinn 12. september sama ár tilkynnti lögmaður þriðju systurinnar að hún myndi vefengja erfðaskrána vegna galla á vottuninni. Með bréfi stefnenda til lögmanns systur þeirra, 27. september 2012, og með bréfi lögmanns stefnenda til hans, 9. október 2012, var farið fram á að fallið yrði frá vefengingu og að farið yrði við skiptin að þeim vilja móðurinnar sem fram kemur í erfðaskránni. Af hálfu þriðju systurinnar var 15. janúar 2013 krafist opinberra skipta á dánarbúi móðurinnar. Undir skiptum var deilt um gildi erfðaskrárinnar. Skiptastjóri úrskurðaði að ekki skyldi byggt á henni við skiptin. Stefnendur vísuðu ágreiningi um það til héraðsdóms og kærðu síðan niðurstöðu hans til Hæstaréttar, sem dæmdi erfðaskrána ógilda 5. mars 2014. Skiptum lauk í samræmi við það með úthlutunargerð skiptastjóra 28. apríl 2014.
Með bréfi dags. 27. febrúar 2014 kröfðu stefnendur héraðsdómslögmanninn skaðabóta vegna þess tjóns sem þær töldu sig verða fyrir vegna mistaka hans. Með vísan til starfsábyrgðartryggingar hans hjá stefnda var stefnda sent afrit bréfsins. Lögmaðurinn hafnaði bótaskyldu með tölvupósti til lögmanns stefnenda 23. apríl 2014 og kvaðst hann myndu halda uppi stífum vörnum í málinu allt upp í Hæstarétt.
Bótakrafa sem stefnendur gerðu á hendur héraðsdómslögmanninum og stefnda, var í bréfi 29. apríl 2014 að fjárhæð 7.722.793 krónur. Stefndi brást við því bréfi 21. júlí s.á. og kom á framfæri neikvæðri afstöðu til kröfugerðar stefnenda og byggði sú afstaða á framsetningu vátryggingartaka á málavöxtum en hann taldi að hann hefði staðið með þeim hætti að verki að saknæmri háttsemi væri ekki til að dreifa af hans hálfu. Lögmaður stefnenda undirbjó málskot með greinargerð til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en áður en því var komið á framfæri var afstaða til bótaskyldu endurskoðuð af hálfu stefnda og var þá fallist á að um bótaskylda háttsemi vátryggingartaka hefði verið að ræða 24. september 2014. Breytt afstaða stefnda byggði á því sem fram kemur í endurriti af vitnaframburði vátryggingartaka í dómsmálinu um gildi erfðaskrárinnar sem lögmaður stefnenda hafði komið á framfæri við stefnda. Framsett bótakrafa var þó að höfuðstól í upphafi hærri en fjárhæð þess arfshluta sem stefnendur urðu af vegna ógildi erfðaskrárinnar og var krafan síðar lækkuð og ekki er lengur ágreiningur með aðilum um fjárhæð höfuðstóls skaðabóta.
Ágreiningur reis um lögmannskostnað, annars vegar um þóknun lögmanns stefnenda við gæslu hagsmuna þeirra við dánarbússkipti og málaferli og hins vegar um þóknun vegna innheimtu bóta hjá stefnda. Ágreining í þessum efnum jöfnuðu aðilar ekki að fullu og svo fór að stefndi greiddi óumdeilda þætti kröfugerðar stefnenda og svo bætur að öðru leyti að álitum í samræmi við mat stefnda á réttmæti kröfugerðar stefnenda, alls 3.167.092 krónur í skaðabætur þann 12. desember 2014 og 116.373 krónur í vexti þann 18. mars 2015. Stefnendur fallast ekki á að um fullnaðaruppgjör hafi verið að ræða og höfða málið til heimtu fullra bóta vegna þess kostnaðar sem þær hafi haft af málinu sem rekja megi til mistaka lögmannsins. Að mati stefnda er sá kostnaður sem skilgreindur var af hálfu stefnenda langt umfram tilefni og hafnar stefndi frekari bótagreiðslum. Stefnendur komu báðar fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gáfu skýrslur.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Endaleg dómkrafa stefnenda er sundurliðuð þannig:
1. Höfuðstóll 1.714.145 krónur
2. Málskostnaður í héraði skv. reikningi 1.702.533 krónur
3. Dæmdur málskostnaður í héraði 180.000 krónur
4. Málskostnaður í Hæstarétti skv. útreikningi 313.624 krónur
5. Dæmdur málskostnaður í Hæstarétti 250.000 krónur
6. Tveir þriðju hlutar skiptakostnaðar 417.620 krónur
Samtals 4.577.922 krónur
Greiddar bætur samtals 3.167.092 krónur
Mismunur 1.410.830 krónur
Ágreining aðila kveða stefnendur snúast um það hvort eða að hve miklu leyti aðrir liðir en höfuðstóll falli undir ábyrgðartrygginguna. Samkvæmt sundurliðun stefnenda eru þeir að fjárhæð 2.863.777 krónur og upp í þá hefur stefndi greitt 1.452.947 krónur.
Stefnendur byggi á því að þær hafi haft fullt tilefni til að halda upp vörnum gegn kröfu þriðju systurinnar um ógildingu erfðaskrárinnar. Þær hafi viljað að skiptin byggðust á skýrum vilja móður þeirra um hvernig arfurinn ætti að skiptast. Fram komi í fjórum vottorðum, sem lögð voru fram í héraðsdómsmálinu, að móðir þeirra hafi verið ákaflega skýr í hugsun við gerð erfðaskrárinnar og hafi gert sér ljósa grein fyrir því hvaða afleiðingar þessi ráðstöfun hefði í för með sér. Afstaða stefnenda verði því að teljast mjög eðlileg. Þótt vottur á erfðaskránni hafi aðeins verið einn, hafi verið byggt á því, að þar sem hann hefði mikla reynslu af gerð erfðaskráa og hefði sömu menntun og lögbókandi, þótt hann hefði ekki stöðu lögbókanda, þá væri ekki útilokað með tilliti til hins skýra arfleiðsluvilja, að erfðaskráin yrði metin gild.
Frá upphafi opinberu skiptanna hafi stefnendur gert sér ljóst, að yrði erfðaskráin metin ógild vegna vottunarinnar, kynni ábyrgðartrygging lögmannsins að bæta þeim tjónið. Yrði erfðaskráin hins vegar metin gild, kæmi ekki til þess að gera þyrfti kröfu í trygginguna. Það hafi því verið grundvallaratriði að fá niðurstöðu um gildi erfðaskrárinnar og það varð ekki gert nema að fengnum dómi. Þrátt fyrir að dómur Hæstaréttar lægi fyrir um ógildi erfðaskrárinnar hafi stefndi ekki fallist á að greiða skaðabætur og ekki viðurkennt bótaskyldu fyrr en lögmaður stefnenda sendi útprentun af framburði héraðsdómslögmannsins í héraðsdómi til stefnda. Byggt sé á því, með tilvísun til þessa, að engin leið hafi verið fær fyrir stefnendur til að fá tjón sitt bætt hjá stefnda, önnur en sú að láta reyna fyrst á gildi erfðaskrárinnar fyrir dómi. Undanfari þess hafi verið að halda uppi vörnum við opinberu skiptin, sem systir þeirra krafðist að færu fram.
Stefnendur byggja á því að liðir 2-6 í sundurliðun stefnukröfunnar sýni tjón þeirra. Þessir kostnaðarliðir hefðu ekki komið til nema vegna hinna bótaskyldu mistaka lögmannsins. Við mat á tjóninu sé byggt á reglum skaðabótaréttarins um bætur samkvæmt sakarreglunni. Bornar séu saman tvær atburðarásir, annars vegar sú sem ætla megi að hefði orðið ef hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað og hins vegar sú sem varð eftir atburðinn. Ef ekki hefðu orðið mistök við vottunina hjá lögmanninum hefði ekki komið til opinberra skipta og eftirfylgjandi dómsmála. Kostnaðurinn, sem stefnendur hafi orðið fyrir vegna skiptanna og dómsmálanna sé því hluti af tjóni þeirra.
Liður nr. 2 sé rökstuddur með vísan til málskostnaðarreiknings og fylgiskjala hans sem fram hafi verið lögð við aðalmeðferð í héraði. Í þeim komi fram tímaskráning og almennt tímagjald lögmannsins á þessum tíma. Um hafi verið að ræða 57 klst. vinnu á tímagjaldinu 23.800 krónur eða 1.356.600 krónur auk virðisaukaskatts. Liður nr. 3 komi fram í héraðsdómi og hafi stefnendur greitt málskostnaðinn við opinber skipti á dánarbúi móður þeirra. Um lið nr. 4 sé vísað til handritaðra upplýsinga um unnar klukkustundir á ljósriti af málskostnaðarreikningi í héraði. Ekki hafi verið útbúinn formlegur reikningur við rekstur Hæstaréttarmálsins, en niðurstaðan sé þessi: Samning kæru, 14.2.2014, 7,0 klst. og samning kæru, 17.2.2014, 3,5 klst. samtals 10,5 klst. á 23.800 krónur = 249.900 krónur auk virðisaukaskatts. Liður nr. 5 komi fram í dómi Hæstaréttar og hafi kostnaðurinn verið greiddur við skiptin á dánarbúi móður stefnenda. Liður nr. 6 komi fram á bls. 2 undir liðnum skiptakostnaður í úthlutunargerð í dánarbúi móður stefnenda. Skiptakostnaðurinn sé alls 626.431 króna. Krafist sé 2/3 hluta kostnaðarins eða 417.620 króna, sem stefnendur hafi greitt við skiptin.
Ágreiningur sé um upphæð tjónsbótanna, en ekki bótaskylduna í sjálfu sér. Fulltrúi stefnda vísi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 105/2005 sem leiðbeiningar um ákvörðun tjónsins, þar sem fjallað sé um starfsábyrgðartryggingu fasteignasala, en atvik séu ekki sambærileg og hér geti ekki verið um að ræða neina skiptingu kostnaðar að álitum.
Stefnendur líti svo á, að tjónið hafi orðið þegar þriðja systirin hafi gert kröfu um opinber skipti 15. janúar 2013. Krafist sé vaxta frá þeim degi. Byggt sé á því að með bréfi lögmanns stefnenda dags. 29. apríl 2014, hafi verið lagðar fram nægar upplýsingar til að stefndi gæti metið tjónsatvik og upphæð bóta. Krafist sé dráttarvaxta í samræmi við það frá 1. júní 2014.
Um málskostnað vísist til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Taka beri tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldar og þurfi því að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda
Á því er byggt af hálfu stefnda að engu óbættu tjóni sé til að dreifa. Strax og málsatvik hafi legið upplýst fyrir í september 2014 hafi stefndi fallist á bótaskyldu og greitt stefnendum tjón þeirra einhliða þegar sýnt varð að samkomulag næðist ekki vegna kröfu stefnenda um endurgreiðslu kostnaðar.
Óumdeilt sé að bótaskyld mistök hafi átt sér stað þegar skjal sem átti að fela í sér erfðaskrá móður stefnenda hafi ekki verið vottað með fullnægjandi hætti og væntanlegum arfláta ekki heldur veittar fullnægjandi leiðbeiningar um hvernig nauðsynlegt væri að standa að vottun erfðaskrárinnar með fulltingi lögbókanda. Stefndi hafi á hinn bóginn engar spurnir af því haft hvernig í pottinn væri búið í þessum efnum fyrr en að gengnum dómi Héraðsdóms Reykjaness og eftir að stefnendur höfðu kært úrlausn héraðsdóms til Hæstaréttar. Stefndi hafi þannig engin tök haft á því að kynna sér málavöxtu og grípa inn í atburðarásina eftir atvikum áður en efnt hafði verið til mjög kostnaðarsamra málaferla sem samtals virðast hafa kostað stefnendur 2.446.157 krónur, annars vegar 430.000 krónur í dæmdan málskostnað til gagnaðila og svo 2.016.157 krónur til þeirra eigin lögmanns. Fyrst þann 27. febrúar 2014 hafi stefndi verið upplýstur um í hvert óefni hagsmunir stefnenda væru komnir.
Áhorfsmál sé hvort yfirhöfuð þurfti að efna til málaferla af þessu tilefni enda vitnað til dómafordæmis í bréfi lögmanns systur stefnenda, sem sé skýrt, auk þess sem hlutrænt liggi fyrir að grundvallarformskilyrði skorti til þess að skjal geti talist gild erfðaskrá samkvæmt 40. gr. laga nr. 8/1962. Annaðhvort þarf skjal að vera vottað af Notario Publico eða af tveimur arfleiðsluvottum en skjalið fullnægi hvorugu og liggi þannig fyrir hlutrænt að skjalið er ekki gild erfðaskrá. Frekari blöðum þurfi ekki að fletta og það taki vart tvær vinnustundir að leita af sér allan grun í dómasafni Hæstaréttar til að staðreyna að þess finnist engin dæmi að skjal sem þetta hafi hlotið náð fyrir dómstólum sem erfðaskrá. Hafi minnsti vafi verið á ferð, sem þá fælist helst í þeim málatilbúnaði vátryggingartaka að hann hafi gefið útgefanda skjalsins leiðbeiningar um að leita fulltingis Notario Publico til að fá vottun, þá hafi sá vafi eyðst í síðasta lagi við skýrslutökur fyrir dómi. Um framburð hans hafi stefndi ekki frétt fyrr en í september 2014. Fallist hafi verið á bótaskyldu í beinu framhaldi.
Stefnendur geri grein fyrir sundurliðun dómkröfu í sjö tölusettum liðum í stefnu. Þar af sé óumdeilt að einn liður sé að fullu greiddur, höfuðstóll skaðabótarkröfu. Í fimm liðum, merktum 2 til 6 sundurliði stefnendur ýmsan lögfræðikostnað vegna málsins, samtals að fjárhæð 2.863.777 krónur.
Stefndi hafi vegna liða 2 til 5 greitt 1.255.000 krónur og telji þá þar með fullgreidda en deila málsaðila lúti fyrst og fremst að þeim liðum er snúi að þóknun þeirri sem lögmaður stefnenda áskilji sér úr hendi stefnenda. Þær fjárhæðir, 1.702.533 krónur og 313.624 krónur, séu að mati stefnda langt umfram tilefni og alltof háar. Jafnvel þó að stefnendur hefðu kosið að leita sér fulltingis lögmanns sem áskilið hafi sér þóknun sem þessa úr þeirra hendi þá bindi það ekki stefnda þannig að slíkur kostnaður teljist bótaskylt tjón sem greiðsluskylt sé úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka. Stefnda beri einungis að bæta það tjón sem stefnendur verði fyrir sem hann má reikna með en í annan stað sé það beinlínis í andstöðu við skyldu stefnenda sem bótakrefjenda að freista þess ekki að takmarka tjón sitt svo sem kostur er, meðal annars þannig að gætt sé hófs í þeim kostnaði sem til sé stofnað. Í annan stað sé með öllu ósannað að stefnendur hafi orðið fyrir þessu tjóni. Engar greiðslukvittanir séu lagðar fram og engir reikningar sem endurspegli þessar fjárhæðir.
Liður nr. 6 í kröfugerð stefnenda sé vegna hagsmunagæslu lögmanns við dánarbú móður stefnenda. Að mati stefnda sé lögmannsþóknun sem kunni að hafa verið greidd vegna opinberra skipta á dánarbúi ekki tjón sem hljótist af ógildi erfðaskrárinnar. Augljóst sýnist að auki af málatilbúnaði í nefndu hæstaréttarmáli að engin eindrægni hafi ríkt meðal erfingjanna og því næsta ljóst að dánarbú móðurinnar hefði vart verið skipt einkaskiptum með samkomulagi erfingja. Það að standa að skiptum á dánarbúi er verknaður sem kemur í hlut erfingja annars vegar sem eigin verk eða með fulltingi skiptastjóra. Kostnaður sem af þeim verkum hljótist sé ekki tjón. Í þessum efnum hafa heldur engar greiðslukvittanir verið lagðar fram og enginn reikningur sem endurspegli þessa fjárhæð, tjónið sé þannig ósannað.
Stefndi hafi greitt 197.947 krónur vegna innheimtukostnaðar við að heimta bætur úr hendi stefnda og telji sig þar með hafa greitt þóknun að fullu. Í raun sé samningur stefnenda við lögmann sinn stefnda óviðkomandi. Vilji þær leita fulltingis lögmanns sem taki of háa þóknun fyrir starf sitt þá sé þeim það frjálst, þær geri það hins vegar ekki á kostnað stefnda. Engar greiðslukvittanir hafi verið lagðar fram og enginn reikningur sem endurspegli þessa fjárhæð. Tjónið sé þannig ósannað.
Krafa stefnda um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist sé álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti. Stefnda sé nauðsynlegt að fá dæmt álag er þeim skatti nemi úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um umfang hins bótaskylda tjóns stefnenda sem hlaust af mistökum lögmanns sem hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda.
Það er meginregla í skaðabótarétti að bótaskyldur aðili bæti tjónþola allt það tjón sem telja má sennilega afleiðingu hinnar bótaskyldu háttsemi og verða jafnframt að vera orsakatengsl milli háttseminnar og tjónsins. Verður þessari reglu einnig beitt þegar um er að ræða ábyrgðartryggingu samkvæmt vátryggingarsamningi. Það er markmið skaðabóta að gera tjónþola fjárhagslega eins settan og hann hefði ekki orðið fyrir tjóni.
Stefndi heldur því fram að kostnaður af opinberum skiptum sé eðlilegur kostnaður erfingja og telur að stefnendur verði að bera hallann af því að ósannað sé hvort einkaskipti hefðu tekist þótt erfðaskráin hefði ekki verið vefengjanleg. Ekki verður á þetta fallist. Af málsatvikum, m.a. bréfaskiptum við systur stefnenda og lögmann hennar, er ljóst að tilefni þess að krafist var opinberra skipta var ágreiningur um gildi erfðaskrárinnar og að sá ágreiningur var til kominn vegna ófullnægjandi vottunar vátryggingartaka á erfðaskrána. Áskorun stefnenda til systur sinnar um að skiptin færu fram að vilja móður þeirra þrátt fyrir þennan ágalla var ekki sinnt og var opinberra skipta krafist með vefengingu á erfðaskránni, án þess að stefnendur fengju rönd við reist.
Þá heldur stefndi því fram að dómsmál sem stefnendur ráku með aðstoð lögmanns til að verjast vefengingu erfðaskrár móður þeirra, sem skiptastjóri mat ógilda, hafi verið tilefnislaust. Kostnaður af þeim málarekstri verði ekki rakinn til háttsemi vátryggingartaka með þeim hætti að hann falli undir tjón sem stefnda beri að bæta úr ábyrgðartryggingu hans. Af gögnum málsins og framburði stefnenda hér fyrir dómi þykir ljóst að skjalið sem vátryggingartaki útbjó hafi haft að geyma vilja móður þeirra um ráðstöfun eigna sinna eftir sinn dag. Því er ljóst að fyrir stefnendum vakti að láta á það reyna hvort unnt væri að fara við skiptin að skýrum arfleiðsluvilja hennar, sem vátryggingartaki bar um og staðfesti í dómsmálinu, að skjalið hefði að geyma. Afstaða vátryggingartaka til kröfu stefnenda og sú afstaða stefnda til hennar í upphafi að hafna bótaskyldu, samræmist ekki þeirri málsástæðu stefnda að galli á vinnu vátryggingartaka, héraðsdómslögmannsins, hafi verið svo augljós að tilefnislaust hafi verið fyrir stefnendur að láta á það reyna fyrir dómi.
Að þessu virtu verður það fjártjón stefnenda sem krafist er bóta fyrir í máli þessu talið sennileg afleiðing mistaka vátryggingartaka við frágang erfðaskrárinnar og eru bein orsakatengsl milli þeirra og tjónsins fyrir hendi. Ber stefnda því að bæta stefnendum allt það fjártjón, sem þær hafa orðið fyrir beinlínis vegna mistaka lögmannsins, úr ábyrgðartryggingu hans hjá stefnda.
Stefndi heldur því fram að þóknun lögmanns stefnenda vegna reksturs dómsmálsins í héraði og fyrir Hæstarétti, auk aðstoðar við opinber skipti, 1.702.533 krónur og 313.624 krónur þar með talinn virðisaukaskattur, sbr. kröfuliði nr. 2 og nr. 4 í stefnu, sé langt umfram tilefni og alltof há. Af hálfu stefnda hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að mál þessi hafi mátt reka með aðstoð lögmanns fyrir lægri fjárhæð, en í málinu liggja fyrir gögn frá lögmanninum um tímafjölda og tímagjald hans. Þá verður ekki fallist á það með stefnda að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir þeim skiptakostnaði sem stefnendum var gert að greiða skiptastjóra við opinber skipti dánarbúsins, enda er skiptakostnaður tiltekinn í frumvarpi til úthlutunargerðar, sem samþykkt var á skiptafundi 28. apríl 2014, sem fyrir liggur sem dómskjal í málinu og nam hann samtals 626.431 krónu. Hlutur stefnenda í þeim skiptakostnaði, tveir þriðju hlutar, nema 417.620 krónum svo sem greinir í kröfulið nr. 6. Í sama dómskjali kemur fram að dæmdur málskostnaður í héraði og í Hæstarétti, samtals 430.000 krónur, sbr. kröfuliði nr. 3 og nr. 5, var dreginn frá arfshluta stefnenda við skiptin.
Um þá málsástæðu stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á tjón stefnenda með greiðslu þeirra á hinum umdeilda kostnaði fyrir þjónustu lögmanns er til þess að líta að þann 6. maí 2015, þ.e. eftir að málið var höfðað, var þessi kostnaður, fjárhæðir kröfuliða nr. 2 og nr. 4, millifærður af fjárvörslureikningi, þar sem fjármunir stefnenda voru varðveittir, til lögmannsins sjálfs. Þykir nægilega hafa verið sýnt fram á að þessi kostnaður hafi við höfðun málsins verið talinn til skuldar stefnenda við lögmanninn. Fjártjón þeirra samkvæmt þessum liðum verður þó ekki talið hafa orðið fyrr en 6. maí 2015, þegar greiðsla reikninganna var millifærð af fjárvörslureikningi, án þess að við þær fjárhæðir legðust vextir eða dráttarvextir. Fjártjón stefnenda samkvæmt kröfuliðum nr. 3. nr., 5 og nr. 6, samtals 847.620 krónur, varð við úthlutun við opinberu skiptin 28. apríl 2014 þegar þessi kostnaður var dreginn frá arfshluta þeirra.
Stefnendur krefjast dráttarvaxta á kröfu sína, í dómkröfukafla stefnu er dráttarvaxta krafist frá 1. apríl 2014, en í málsástæðukafla stefnu segir að krafist sé dráttarvaxta frá 1. júní s.á. og er dráttarvaxtakrafan þar studd þeim rökum að stefndi hafi verið krafinn um bætur 29. apríl s.á. með nægum upplýsingum til að stefndi gæti metið tjónsatvik og upphæð bóta. Stefndi greiddi stefnendum þann 12. desember 2014 bætur að fjárhæð 3.167.092 krónur og með greiðslu 18. mars 2015 greiddi stefndi vexti af þeirri fjárhæð frá 27. febrúar 2014 til 12. desember s.á. og dráttarvexti af fjárhæðinni frá þeim degi til 18. mars 2015. Stefnendur greiddu ekki lögmannskostnað samkvæmt kröfuliðum nr. 2 og nr. 4 fyrr en 6. maí 2015 og nemur sá kostnaður hærri fjárhæð en þær bætur frá stefnda sem hér er fallist á að stefnendur eigi rétt til og enn eru ógreiddar. Þannig hafði stefndi þá þegar greitt stefnendum að álitum þann kostnað að hluta ásamt vöxtum og dráttarvöxtum með uppgjörum 12. desember 2014 og 18. mars 2015 þegar reikningar lögmannsins komu til greiðslu án vaxta eða dráttarvaxta. Þykir með hliðsjón af þessu rétt að dæma ekki vexti á ógreiddar bætur og að gera stefnda að greiða dráttarvexti á dæmdar bætur fyrst frá dómsuppsögu til greiðsludags, sbr. 2. ml. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnendum málskostnað sem ákveðinn er 930.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnendum, B og C, óskipt 1.410.830 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnendum 930.000 krónur í málskostnað.