Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2005


Lykilorð

  • Víxill
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit
  • Brostnar forsendur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. júní 2005.

Nr. 39/2005.

Sigurður Sigurðsson

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Bjarka Ágústssyni

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Víxill. Óvígð sambúð. Fjárslit. Brostnar forsendur.

B hafði verið í sambúð með E og áttu þau saman einkahlutafélagið K. Vegna reksturs félagsins gaf S, faðir E, út víxil á árinu 2002, sem ábektur var af E en samþykktur til greiðslu af K. Sambúðarslit urðu með B og E á árinu 2002. Voru af því tilefni gerð drög að fjárskiptasamningi, en samkvæmt þeim átti B m.a. að fá til sín félagið K. Einnig gaf B skriflega yfirlýsingu þar sem hann lofaði m.a. að leysa S undan ábyrgðum vegna félagsins K og var í yfirlýsingunni vísað sérstaklega til fjárskiptasamningsins. Ekki varð af því að fjárskiptasamningurinn yrði undirritaður og fékk B aldrei yfirráð yfir K og var félagið loks tekið til gjaldþrotaskipta. Framangreindur víxill fór í vanskil og greiddi S hann. Beindi hann í málinu kröfu að B og K um endurgreiðslu víxilsins. Héraðsdómur dæmdi kröfuna á hendur félaginu en sýknaði B að svo stöddu. Var dóminum einungis áfrýjað varðandi þátt B en krafa gagnvart honum byggðist á fyrrgreindri yfirlýsingu hans. Talið var að yfirlýsingin hefði verið gefin í tengslum við fjárskiptasamning þeirra B og E. Þar sem hann var aldrei undirritaður og B fékk aldrei yfirráð yfir félaginu K hefði brostið forsenda fyrir yfirlýsingunni og væri hún því ekki bindandi fyrir B. Þar sem B hafði ekki áfrýjað af sinni hálfu var niðurstaða héraðsdóms um sýknu að svo stöddu staðfest. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.897.071 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2003 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hóf stefndi 1995 óvígða sambúð með dóttur áfrýjanda, Elísabetu Sigurðardóttur. Á árinu 1998 stofnaði stefndi með henni Kaldaberg ehf. um atvinnurekstur sinn við tannlækningar, en félagið, sem hvort þeirra átti að helmingi, mun meðal annars hafa keypt húsnæði og tæki fyrir starfsemina. Erfiðleikar munu hafa orðið í rekstrinum og félagið ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar. Á fyrri hluta árs 2002 mun stefndi af þessum sökum hafa lagt drög að því að fá til samstarfs við sig annan tannlækni og haft í huga að sá keypti hlut í félaginu. Til að auðvelda þetta mun stefndi hafa talið þörf á að koma skuldum félagsins í skil. Í því skyni var Búnaðarbanka Íslands hf. seldur víxill að fjárhæð 3.300.000 krónur, sem mun hafa verið gefinn út af áfrýjanda 6. maí 2002 og ábektur af Elísabetu, en samþykktur til greiðslu af Kaldabergi ehf. Um gjalddaga víxilsins er það eitt upplýst í málinu að hann hafi verið fáum vikum eftir útgáfudaginn. Ekkert varð af ráðagerðum um sölu á hlut í félaginu og fór víxillinn jafnframt í vanskil.

Sambúð stefnda og Elísabetar var slitið 25. ágúst 2002. Fyrir liggur að þau áttu í framhaldi af því viðræður um fjárslit og voru meðal annars gerð drög að samningi um það efni. Samkvæmt honum átti Elísabet að fá í sinn hlut íbúð, sem hún var þinglýstur eigandi að, ásamt bifreið í eigu Kaldabergs ehf. og helmingi hlutabréfa í tilteknum hlutabréfasjóði, en taka um leið að sér áhvílandi veðskuldir á íbúðinni og bifreiðinni. Stefndi átti á hinn bóginn að fá í sinn hlut öll hlutabréf í Kaldabergi ehf., bifreið á nafni Elísabetar, hlutabréf í öðru tilteknu félagi, sem þau áttu hvort sinn hlut í, og helming hlutabréfa í áðurnefndum hlutabréfasjóði, en gegn þessu átti stefndi að taka að sér allar skuldir, sem vörðuðu Kaldaberg ehf., og áhvílandi veðskuld á bifreiðinni. Um innbúsmuni sagði að þeim hefði þegar verið skipt og stæði enginn ágreiningur um þá. Jafnframt áttu stefndi og Elísabet að halda þeim innistæðum á bankareikningum, sem skráðir væru á nafni hvors um sig, og taka að sér skuldir, sem á hvoru hvíldu. Sérstaklega var tekið fram að Elísabet og foreldrar hennar skyldu verða skaðlaus af ábyrgðum, sem þau hefðu gengist undir vegna skulda stefnda og Kaldabergs ehf., og skyldi það sama gilda um foreldra stefnda að því er varðaði ábyrgðir á skuldum Elísabetar. Þá átti stefndi að fá nýja ábyrgðarmenn fyrir skuldum Kaldabergs ehf. í stað Elísabetar og aflétta veði fyrir skuld félagsins, sem hvíldi á íbúð hennar. Í drögunum að samningi þessum var ráðgert að hann yrði undirritaður í október 2002.

Stefndi ritaði 29. október 2002 undir yfirlýsingu, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Í tengslum við sambúðarslit mín og Elísabetar Sigurðardóttur lýsi ég undirritaður ... því hér með yfir að ég mun aflétta ábyrgðum föður Elísabetar, Sigurðar Sigurðssonar, ... af lánum tengdum Kaldabergi ehf., en ég er nú einn eigandi félagsins. Annars vegar er um að ræða víxil að fjárhæð kr. 3.300.000, sem fallinn er í gjalddaga, en verður framlengdur með óbreyttum ábyrgðum til 1. febrúar 2003 ... Víxillinn var upphaflega gefinn út 6. maí 2002 af Sigurði Sigurðssyni, greiðandi er Kaldaberg ehf. og ábyrgðarmaður Elísabet Sigurðardóttir. Við undirskrift yfirlýsingar þessarar verður víxillinn framlengdur til 1. febrúar 2003. Ég mun sjá til þess að víxillinn verði greiddur upp eigi síðar en 1. júlí 2003 og ábyrgðum þessara aðila verði aflétt fyrir þann tíma. ... Ég ábyrgist jafnframt að foreldrar Elísabetar verði skaðlaus af þeim lánum sem þau eru í ábyrgðum á, lendi þau í vanskilum. ... Yfirlýsing þessi er undirrituð í tengslum við samkomulag mitt og Elísabetar Sigurðardóttur vegna sambúðarslita okkar.“ Fyrir liggur í málinu að Elísabet hafi samið drög að þessari yfirlýsingu í samráði við stefnda, en áfrýjandi og móðir hennar síðan fengið nafngreindan hæstaréttarlögmann, sem Elísabet mun þá hafa starfað með, til að fara yfir drögin. Mun textinn síðan hafa verið borinn undir stefnda, sem hafi fengið því framgengt að framangreindum lokamálslið yfirlýsingarinnar yrði bætt þar við, en við svo búið ritað undir hana. Í tengslum við það gaf áfrýjandi út víxil 4. nóvember 2002 að fjárhæð 3.300.000 krónur til framlengingar á áðurnefndri víxilskuld við Búnaðarbanka Íslands hf., en nýi víxillinn, sem var ábektur af Elísabetu, var samþykktur af Kaldabergi ehf. til greiðslu 1. febrúar 2003.

Eftir þessar ráðstafanir reis ágreiningur milli stefnda og Elísabetar varðandi sambúðarslitin og luku þau því aldrei samningi um fjárslit, sem áðurgreind drög höfðu verið lögð að. Á árinu 2003 var leitað samkomulags um þetta efni með atbeina lögmanna, en án árangurs. Eftir þetta mun ekkert frekar hafa verið gert til að ljúka fjárslitum. Eins og málið liggur fyrir virðist Elísabet hafa selt fyrrnefnda íbúð, sem hún átti á sambúðartímanum, og greitt þá meðal annars veðskuld Kaldabergs ehf., sem hvíldi á íbúðinni. Þá virðist hún hafa fengið bifreiðina, sem félagið átti og ráðgert var að kæmi í hlut hennar í drögunum að samningi um fjárslit. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að hann hafi aldrei fengið afhentan hlut Elísabetar í Kaldabergi ehf. og heldur ekki bifreiðina, sem skráð var á hennar nafni og áður var getið, en um afdrif annarra fyrrnefndra hlutabréfa þeirra liggja ekki fyrir upplýsingar. Stefndi heldur því einnig fram að Elísabet hafi ekkert gert til að leysa foreldra hans undan ábyrgðum fyrir skuldum hennar eða til að greiða á annan hátt úr skuldbindingum þeirra tveggja. Fram er komið að Kaldaberg ehf. seldi 30. september 2003 fasteignina, þar sem rekstur félagsins fór fram, og hafi jafnframt í tengslum við það ráðstafað lausafjármunum varðandi reksturinn.

Vanskil urðu á áðurnefndum víxli að fjárhæð 3.300.000 krónur, sem samþykktur var af Kaldabergi ehf. til greiðslu 1. febrúar 2003. Varð áfrýjandi að leysa víxilinn til sín 30. október 2003 frá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. með 3.897.071 krónu og höfðaði hann síðan mál þetta með stefnu 30. desember sama ár á hendur Kaldabergi ehf. og stefnda til greiðslu sömu fjárhæðar. Að því er félagið varðaði var málsóknin reist á víxlinum, en krafa á hendur stefnda hins vegar á fyrrgreindri yfirlýsingu hans frá 29. október 2002. Með hinum áfrýjaða dómi var krafa áfrýjanda á hendur félaginu tekin til greina, en stefndi sýknaður að svo stöddu. Í málinu er ekki til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu félagsins við áfrýjanda, en fram er komið að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 25. mars 2004. Ekki liggur fyrir hvort skiptum sé lokið, en svo virðist sem gengið sé út frá því að ekkert muni fást þar greitt upp í kröfur, sem áfrýjandi hefur meðal annarra lýst fyrir sitt leyti.

II.

Áðurgreindri yfirlýsingu stefnda frá 29. október 2002 var ekki eftir orðanna hljóðan beint til ákveðins viðtakanda. Ljóst er af því, sem fram er komið í málinu, að hún var gerð í beinum tengslum við fyrirhugað uppgjör skuldar Kaldabergs ehf. við Búnaðarbanka Íslands hf. samkvæmt víxli útgefnum af áfrýjanda 6. maí 2002, sem var í vanskilum, en til þess uppgjörs var meðal annars nýttur víxillinn, sem áfrýjandi gaf út 4. nóvember sama ár og mál þetta varðar. Ætla verður að stefnda hafi sem fyrirsvarsmanni Kaldabergs ehf. verið mjög í mun að geta framlengt víxilskuld félagsins á þennan hátt. Þegar þar var komið sögu hafði sambúð stefnda við Elísabetu Sigurðardóttur verið slitið. Gagnvart henni hafði stefndi ekkert tilefni til að gera sérstaka skriflega yfirlýsingu um að hann tryggði skaðleysi foreldra hennar af ábyrgðum þeirra fyrir skuldum Kaldabergs ehf., enda var gert ráð fyrir ákvæði um það í áðurnefndum drögum að fjárslitasamningi, sem þau virðast hafa haft í hyggju að ljúka við um þær mundir. Er því engin ástæða til annars en að skýra umrædda yfirlýsingu á þann veg að með henni hafi stefndi beint loforði til áfrýjanda og eiginkonu hans með því efni, sem þar greindi nánar.

Í niðurlagi yfirlýsingar stefnda, sem hér um ræðir, var sérstaklega tekið fram að hún væri undirrituð í tengslum við samkomulag hans við Elísabetu Sigurðardóttur vegna sambúðarslita þeirra. Eins og áður er rakið voru þau á sama tímabili að leitast við að ljúka samningi um fjárslit sín á milli, en ekkert virðist hafa þá bent til annars en að það gæti tekist. Í fyrrnefndum drögum að fjárslitasamningi var meðal annars gert ráð fyrir að Kaldaberg ehf., þar sem Elísabet átti helming hlutafjár, kæmi að öllu leyti í hlut stefnda, en hann myndi tryggja skaðleysi hennar og foreldra hennar af ábyrgðum fyrir félagið. Af þessari samningsgerð varð á hinn bóginn ekkert og hefur fjárslitum stefnda og Elísabetar ekki verið lokið formlega á annan hátt. Stefndi hefur því ekki fengið til sín hlut Elísabetar í Kaldabergi ehf., svo sem ráðgert var í drögunum að samningi um fjárslit, og mun heldur ekki geta fengið hlutinn til sín síðar, enda hefur bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta. Vegna þessarar þróunar mála eftir gerð yfirlýsingarinnar 29. október 2002 hafa brostið forsendur, sem þar var skýrlega vísað til, fyrir skuldbindingargildi hennar gagnvart stefnda. Samkvæmt þessu og með því að hann hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti verður dómurinn að standa óraskaður.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurður Sigurðsson, greiði stefnda, Bjarka Ágústssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. nóvember 2004.

             Mál þetta var þingfest 28. janúar 2004 og tekið til dóms 27. október sl.  Stefnandi er Sigurður Sigurðsson, [kt.], Hegranesi 15, Garðabæ, en stefndu eru Bjarki Ágústsson, [kt.], Lækjarkinn 24, Hafnarfirði og Kaldaberg ehf., [kt.], Lækjarkinn 24, Hafnarfirði. 

             Dómkröfur stefnanda er þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 3.897.071 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. október 2003 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

             Stefndi Bjarki krefst sýknu í málinu og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

             Stefnda Kaldaberg ehf. tekur ekki til varnar í málinu og var málið dómtekið á hendur félaginu í þinghaldi 17. mars 2004.

I.

             Málavextir eru þeir að stefndi Bjarki og Elísabet Sigurðardóttir, dóttir stefnanda, slitu samvistum í september 2002 eftir sjö ára sambúð.  Stefndi Bjarki er tannlæknir en Elísabet lögfræðingur.  Þau stofnuðu félagið Kaldaberg ehf. í maí 1998 um rekstur tannlæknastofu stefnda Bjarka.  Áttu þau helmingshlut hvort í félaginu en Kaldaberg ehf. var skráð fyrir eignarhluta í fasteigninni Staðarberg 2-4 þar sem tannlæknastofan var til húsa. 

             Fram hefur komið í málinu að fljótlega fór að síga á ógæfuhliðina í fjármálum félagsins. Til þess að létta á skuldum hugðist stefndi Bjarki reyna að selja helmingshlut í tannlæknastofunni og Kaldabergi ehf.  Var hann í viðræðum við tannlækni í maí 2002 í þessu augnamiði.  Skuldastaða fyrirtækisins var þá þegar orðin erfið og vanskil nokkur.  Til þess að gera félagið söluhæft ákvað stefndi Bjarki að taka lán í banka til þess að greiða vanskilaskuldir.  Var útbúinn víxill að fjárhæð 3.300.000 krónur í maí 2002 með gjalddaga þremur vikum síðar.  Víxillinn var samþykktur til greiðslu af stefnda Kaldabergi ehf., stefnandi var útgefandi hans og  Elísabet Sigurðardóttir ábekingur. Segir stefnandi að stefndi Bjarki hafi beðið sig um að skrifa upp á víxilinn þar sem hann væri kominn með kaupanda að rekstrinum og því myndi rætast úr fjármálum fyrirtækisins fljótlega.  Ábyrgð stefnanda hafi aðeins átt að standa í stuttan tíma. 

             Svo fór að kaupin gengu til baka og víxillinn fór í vanskil.  Stefndi Bjarki og Elísasbet slitu samvistum í september þetta ár.  Í október var farið að huga að framlengingu víxilsins.  Stefnandi sá ekki ástæðu til þess að vera lengur í ábyrgð á víxlinum nema til kæmi persónuleg ábyrgð stefnda Bjarka.  Útbjó Elísabet drög að yfirlýsingu og einnig fékk stefnandi lögmann til þess að aðstoða sig.  Yfirlýsingin er dagsett 29. október 2002 og segir meðal annars í henni:

 „Í tengslum við sambúðarslit mín og Elísabetar Sigurðardóttur lýsi ég undirritaður Bjarki Ágústsson, kt. 130668-5779, því hér með yfir að ég mun aflétta ábyrgðum föður Elísabetar, Sigurðar Sigurðssonar, Hegranesi 15, Garðabæ, af lánum tengdum Kaldabergi ehf., en ég er nú einn eigandi félagsins. Annars vegar er um að ræða víxil að fjárhæð kr. 3.300.000, sem fallinn er í gjalddaga, en verður framlengdur með óbreyttum ábyrgðum til 1. febrúar 2003 og hins vegar veðskuldabréf, upphaflega að fjárhæð kr. 4.860.497,30 sem jafnframt er tryggt með veði í húseign Kaldabergs ehf. að Staðarbergi 2-4, Hafnarfirði.

             Víxillinn var upphaflega gefinn út 6. maí 2002 af Sigurði Sigurðssyni, greiðandi er Kaldaberg ehf. og ábyrgðarmaður Elísabet Sigurðardóttir.  Við undirskrift yfirlýsingar þessarar verður víxillinn framlengdur til 1. febrúar 2003.  Ég mun sjá til þess að víxillinn verði greiddur upp eigi síðar en 1. júlí 2003 og ábyrgðum þessara aðila verði aflétt fyrir þann tíma.

             ---        

Ég ábyrgist jafnframt að foreldrar Elísabetar verði skaðlaus af þeim lánum sem þau eru í ábyrgð á, lendi þau í vanskilum.

---

             Yfirlýsing þessi er undirrituð í tengslum við samkomulag mitt og Elísabetar Sigurðardóttur vegna sambúðarslita okkar.”

             Undir þessa yfirlýsingu skrifar stefndi Bjarki en Elísabet Sigurðardóttir er vottur á yfirlýsingunni.  Fram hefur komið í málinu að stefnandi og eiginkona hans áttu fund með lögmanni þeim er aðstoðaði þau við gerð þessarar yfirlýsingar.  Stefndi Bjarki fór nokkrum dögum síðar á skrifstofu lögmannsins og undirritaði yfirlýsinguna.  Segist hann hafa látið breyta yfirlýsingunni áður en hann undirritaði hana. Bætt hafi verið inn lokasetningu skjalsins um að yfirlýsingin væri undirrituð í tengslum við samkomulag hans og Elísabetar Sigurðardóttur vegna sambúðarslita þeirra.  Segist stefndi Bjarki hafa undirritað yfirlýsinguna á þeirri forsendu að samkomulag væri orðið milli hans og Elísabetar um skiptingu eigna og skulda.  Á þessum tíma hafi Elísabet verið búin að semja fjárslitasamning milli þeirra sem hann hafi verið tilbúinn að samþykkja fyrir sitt leyti.  Þessi samningur hafi þó aldrei verið undirritaður þrátt fyrir tilraunir hans þar um og engin skipti farið fram.  Eignir hafi verið litlar sem engar en skuldir miklar.  Í raun hafi Elísabet selt íbúð er þau hafi búið í og hafi verið á hennar nafni en hann selt eignir stefnda Kaldabergs ehf. upp í skuldir. Hann hafi tekið yfir þær skuldir sem hann og fjölskylda hans hafi verið í ábyrgð fyrir en Elísabet tekið yfir þær skuldir sem hún hafi verið í ábyrgð fyrir.  Mjög halli á hann í þessu uppgjöri.  Þess vegna hafi hann ekki viljað fallast á að skrifa undir yfirlýsinguna nema ábyrgð hans samkvæmt henni væri í tengslum við fjárslitin og uppgjör þeirra í milli.

             Nauðungarsölu var krafist á fasteign Kaldabergs ehf. að Staðarbergi 2-4.  Til að forða tjóni segist stefndi Bjarki hafa fengið föður sinn eða félaga á hans vegum til þess að kaupa eignina 30. september 2003 fyrir 24.000.000 króna.  Hafi eignin verið keypt á yfirverði og því til sönnunar hefur stefndi Bjarki lagt fram vottorð fasteignasala um að rétt verð hafi verið 17.500.000 krónur á þessum tíma.

             Þá hefur verið lagt fram í málinu yfirlit yfir skuldir Kaldabergs ehf.  Kemur þar fram að heildarskuldir hafi verið 54.269.456 krónur.  Greitt hafi verið 24.000.000 krónur með sölu húsnæðis og 9.350.000 með sölu tækja og innréttinga.  Eftir standi 20.919.456 krónur.

II.

             Stefnandi byggir málssókn sína á framangreindum víxli að fjárhæð 3.300.000 krónur með gjalddaga 1. febrúar 2003.  Greiðslufall hafi orðið á víxlinum og hafi stefnandi innleyst hann 30. október 2003 með greiðslu að fjárhæð 3.897.071 króna. 

             Stefnandi gerir endurkröfu á hendur samþykkjanda víxilsins, stefnda Kaldabergi ehf., og byggir málssókn á hendur honum á ákvæðum víxillaga nr. 93/1933.  Málssókn sína á hendur stefnda Bjarka byggir stefnandi á ábyrgðar­yfirlýsingunni frá 29. október 2002 en með henni hafi stefndi Bjarki lýst því yfir að stefnandi yrði skaðlaus af greiðslu víxilskuldarinnar.  Málinu sé því beint að stefnda Bjarka persónulega á grundvelli yfirlýsingarinnar.

             Stefndi Bjarki byggir sýknukröfu sína á því að hann sé ekki víxilskuldari á þeim víxli sem mál þetta varðar og mál á hendur honum verði því ekki byggt á þeim víxli.  Yfirlýsingin hafi ekki verið gefin út til handa stefnanda og skapi stefnanda ekki sjálfstæðan rétt á hendur stefnda.  Yfirlýsingin hafi verið gefin Elísabetu Sigurðar­dóttur í tengslum við og sem hluti af samningi þeirra um sambúðarslit.  Þetta komi skýrlega fram í lokamálsgrein yfirlýsingarinnar.  Sá samningur hafi hins vegar aldrei komist á milli þeirra.  Skiptum milli þeirra sé enn ólokið og ríki fullur ágreiningur með þeim um skiptin.  Elísabet geti því engan rétt byggt á yfirlýsingunni hvað þá þriðji maður sem enga aðild eigi að málinu.  Forsendur yfirlýsingarinnar hafi brugðist bæði hvað varðar sambúðarslitin og afsal eignarhlutans í Kaldabergi ehf. til stefnda.

III.

             Eins og framan er rakið stofnuðu sambúðarfólkið, stefndi Bjarki og Elísabet Sigurðardóttir, stefnda Kaldaberg ehf. 15. maí 1998 um rekstur tannlæknastofu.   Félagið átti meðal annars eignarhlut í fasteigninni Staðarbergi 2-4 í Hafnarfirði.  Svo fór um fjármál félagsins að selja þurfti eigur þess upp í skuldir en umtalsverðar skuldir stóðu þó eftir.  Þau Elísabet og stefndi Bjarki slitu samvistum í september 2002 og hafa fjárskipti ekki farið fram milli þeirra að öðru leyti en því að eignir hafa verið seldar.  Hefur stefndi Bjarki greitt af þeim skuldum sem hann og hans fjölskylda eru í ábyrgð fyrir en Elísabet af þeim skuldum sem hún er skrifuð fyrir.  Segir stefndi Bjarki að mjög halli á hann við þessi skuldaskipti og benda gögn málsins til þess að svo sé.

             Til umræddrar víxilskuldbindingar var stofnað með þeim hætti að stefndi Bjarki var að reyna að selja helmingshlut í stefnda Kaldabergi ehf. til þess að grynnka á skuldum.  Hann ákvað að taka víxillán í banka til þess að greiða vanskilaskuldir fyrirtækisins og með því að gera það söluvænlegra.  Víxillinn var með gjalddaga þremur vikum síðar og var stefnda Kaldaberg ehf. greiðandi víxilsins, stefnandi útgefandi og Elísabet Sigurðardóttir ábekingur.  Kaupin gengu til baka og greiðslufall varð á víxlinum.  Þegar farið var að huga að framlengingu hans í október 2002 óskaði stefnandi eftir því að stefndi Bjarki kæmi að málinu og gengi í persónulega ábyrgð með einhverjum hætti.  Úr varð að Elísabet samdi áðurnefnda yfirlýsingu og einnig kom að samningu hennar lögmaður stefnanda. 

             Yfirlýsingin er þess efnis að stefndi Bjarki lýsir því yfir að hann muni aflétta öllum ábyrgðum af foreldrum Elísabetar og þar með stefnanda vegna lána tengdum stefnda Kaldabergi ehf.  Er umræddur víxill tiltekin í yfirlýsingunni og honum lýst.  Í lok yfir­lýsingarinnar segir að hún sé undirrituð í tengslum við samkomulag stefnda Bjarka og Elísabetar vegna sambúðarslita þeirra.  Á þessum tíma lágu fyrir drög að fjárslita­samningi sem ekki varð samkomulag um.

             Stefndi Bjarki er ekki víxilskuldari á þeim víxli er mál þetta varðar.  Krafa á hendur honum verður því ekki reist á þeim grunni.  Málssókn stefnanda á hendur stefnda Bjarka er byggð á umræddri yfirlýsingu sem hann telur vera óskilyrta ábyrgðaryfirlýsingu um skaðleysi stefnanda á víxilskuldbindingu hans.

             Ekkert samningssamband er milli stefnanda og stefnda Bjarka. Yfirlýsingin var ekki gefin út til handa stefnanda og hún skapar honum ekki sjálfstæðan rétt á hendur stefnda Bjarka.  Samkvæmt yfirlýsingunni gaf stefndi Bjarki Elísabetu Sigurðardóttur loforð og telst það loforð þriðjamannsloforð sem veitir þriðja manni rétt til að sækja í eigin nafni efndir úr hendi loforðsgjafans, með málssókn ef með þarf.  Í yfirlýsingunni segir að hún sé undirrituð í tengslum við samkomulag stefnda Bjarka og Elísabetar vegna sambúðarslita þeirra.  Loforð stefnda Bjarka samkvæmt yfirlýsingunni var því þáttur í gagnkvæmum íþyngjandi samningi, samningi sem enn hefur ekki komist á.  Greiðsla samkvæmt þriðjamannsloforðinu er því enn ekki gjaldkræf og ber því samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda Bjarka að svo stöddu af kröfum stefnanda í máli þessu.

             Af hálfu stefnda Kaldabergi ehf. hefur ekki verið tekið til varnar í málinu. Endurkrafa stefnanda er byggð á ákvæðum víxillaga og verður hún tekin til greina.

             Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda Bjarka málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Stefndi Kaldaberg ehf. greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

             Stefndi, Bjarki Ágústsson, skal vera sýkn að svo stöddu af kröfum stefnanda, Sigurðar Sigurðssonar, í málinu.

             Stefnda, Kaldaberg ehf., greiði stefnanda 3.897.071 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. október 2003 til greiðsludags.

             Stefnandi greiði stefnda Bjarka 250.000 krónur í málskostnað.

             Stefnda, Kaldaberg ehf., greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.