Hæstiréttur íslands
Mál nr. 405/2003
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 405/2003. |
Höfin sjö ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Vallý Rán Georgsdóttur (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Dómsuppsaga. Ómerking. Heimvísun.
Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. október 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var flutt og dómtekið í héraði 22. maí 2003 en dómur kveðinn upp 16. júlí sama árs. Því leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Með símbréfi 14. júlí 2003 til lögmanna aðila boðaði héraðsdómari til dómsuppsögu 16. sama mánaðar. Við þá fyrirtöku var í þingbók getið þeirrar afstöðu lögmanns stefndu að ekki væri þörf á að flytja málið á ný. Hins vegar var þá ekki sótt þing af hálfu áfrýjanda og verður ekki séð að fram hafi komið yfirlýsing hans um afstöðu til endurflutnings málsins. Vegna þessa verður sjálfkrafa að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er, að hvor aðila beri sinn kostnað af þessum þætti málsins fyrir Hæstarétti.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og uppsögu dóms að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.