Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2005
Lykilorð
- Nauðgun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 223/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl. Björn Þorri Viktorsson hdl.) |
Nauðgun. Miskabætur.
X var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa með ofbeldi og hótunum þröngvað A til samræðis á heimili hans. X neitaði sök og kvað þau hafa sammælst um að A kæmi til hans umrætt kvöld til þess að hafa samfarir í síðasta sinn. Kom fram hjá honum að A hefði haft allt frumkvæði að samræði þeirra umrætt kvöld. Talið var að framburður X um tilefni heimsóknar A og samskipti þeirra væri mjög ótrúverðugur. Vitnisburður A um málsatvik þótti hins vegar trúverðugur og álitið að framburður tveggja vinkvenna hennar, en önnur þeirra sá A m.a. hlaupa grátandi og ekki fullklædda út úr húsi X, og framburður læknis, sem tók á móti henni á neyðarmóttöku, renndi stoðum undir frásögn hennar. VarX því sakfelldur fyrir brot á 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var hæfileg refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 700.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 1.000.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Að teknu tilliti til þeirra atriða, sem greinir í héraðsdómi og varða ákvörðun refsingar, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur og vexti af þeim.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um miskabætur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.153.146 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur, og fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttaréttarlögmanns, 124.500 krónur, og fyrir Hæstarétti, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2005.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 18. janúar 2005 á hendur: ,,X, kennitala [...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot með því að hafa að kvöldi mánudagsins 8. nóvember 2004 á heimili sínu að Y, Reykjavík, með ofbeldi og hótunum um ofbeldi þröngvað A, kennitala [...], til samræðis.
Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
A krefst miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 auk dráttarvaxta frá 10. nóvember 2004 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.“
Undir aðalmeðferð málsins var miskabótakrafa A lækkuð í eina milljón króna.
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu A verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin og að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði.
A lagði hinn 10. nóvember sl. fram kæru á hendur ákærða fyrir nauðgun. Henni reyndist ekki unnt að leggja kæruna fram fyrr af ástæðum sem raktar eru síðar. Lýsti hún slitróttu sambandi þeirra ákærða frá því um áramótin 2001 2002, en þau slitu sambandinu í mars 2004. Hún lýsti sambandi þeirra eftir það, aðdraganda heimsóknar sinnar til ákærða 8. nóvember sl., heimsókninni, hótunum og ofbeldi, sem ákærði beitti hana í því skyni að hafa við hana samræði. Hún hafi að lokum komist út og hitt vinkonur sínar, sem fylgdu henni á neyðarmóttöku. Vitnisburður A hjá lögreglu er mjög á sama veg og hún greindi frá fyrir dómi.
Ákærði var handtekinn á heimili sínu 10. nóvember 2004 er gerð var þar húsleit. Við leitina fannst m.a. dúkahnífur sem síðar verður vikið að en hnífurinn fannst á borði við hlið rúms í svefnherbergi.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 11. nóvember sl., þar sem hann neitaði því að hafa beitt A ofbeldi eða hótað henni slíku. Kvað hann allt það sem fram fór á milli þeirra á heimili hans 8. nóvember hafa verið með hennar vilja.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi og hjá lögreglu að hluta.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa kynnst A laust fyrir áramótin 2002. Þau hafi síðar haft náin kynni, en sambandið hafi verið stormasamt. Ákærði kvað þau A hafa hætt saman um tveimur mánuðum fyrir atburðinn, sem í ákæru greinir, en þá hafi ákærði hringt í A frá Spáni og greint henni frá því að sambandi þeirra væri lokið. Ákærði kvað þau, þrátt fyrir þetta, hafa haldið áfram að hittast eftir heimkomu ákærða frá Spáni, en mikil leynd hafi hvílt yfir fundum þeirra og lýsti ákærði því. Hann kvað þau A hafa margrætt saman símleiðis og þau ákveðið að þau myndu hittast í síðasta sinn þetta kvöld, 8. nóvember sl. Hafi þau ætlað að eiga saman notalega kvöldstund að sögn ákærða, borða saman og ákveðið hafi verið að þau myndu hafa samfarir í síðasta sinn. A hafi síðan hringt og flýtt heimsókn sinni til ákærða af ástæðum sem ákærði vissi ekki hverjar voru. Hún hafi síðan komið með mat með sér frá veitingastað þar sem hún starfaði og hafi þau borðað í rólegheitum. Ákærði kvað þau hafa ætlað að fara út að fá sér bjór eða að sækja hann og hafi A sótt bjór handa þeim á bar skammt frá. Eftir að hún kom til baka hafi A margsagt ,,drífum þetta bara af þá er þetta búið.“ Hann kvað þetta hafa átt við það sem hann kvað þau áður hafa ákveðið, þ.e. kynlíf. Hann lýsti því að A hafi beðið ákærða um að klæða sig úr fötunum inni í stofunni, þar sem hann minnti að hún hafi verið í bol og nærbuxum. Hann hafi þá greint henni frá því að hann vildi ekki haga hlutunum á þennan hátt. Hann hafi viljað fara inn í svefnherbergið. Kvaðst hann hafa farið á snyrtinguna og er hann kom til baka hafi A verið komin inn í svefnherbergið, þar sem hún hafi legið á maganum upp í rúmi. Ákærði kvaðst enn hafa sagt henni að hann vildi ekki hafa þetta svona, en hún hafi margsagt að þau skyldu drífa þetta af. Hann lýsti því síðan að A væri óútreiknanleg í kynlífi og hann hafi ekki áttað sig á aðstæðum, honum hafi liðið illa, hætt og staðið á fætur. Hann kvað A þá hafa komið á móti honum, rykkt niður um hann buxum, tekið í liminn á honum og lagst á bakið í rúmið og stungið limnum inn í sig. Kvað hann A þannig hafa stjórnað því að samfarir áttu sér stað, sem ella hefði ekki orðið að sögn ákærða.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 11. nóvember 2004 er svofelldur kafli: ,,Hann stóð svo upp og klæddi sig í nærbuxurnar. Hún settist upp á rúmstokkinn, rykkti nærbuxum hans niður þannig að þær þeyttust niður á gólf. Hún reif svo harkalega í tittlinginn á honum og togaði hann ofan á sig. Hún setti liminn á honum inn í kynfæri sín.“ Skömmu síðar er í lögregluskýrslunni svofelldur kafli: ,,[X] segir að hann hafi einungis verið með liminn á sér inni í kynfærum hennar í smástund, en síðan stóð hann aftur upp. Hann sagði við hana: ,,Hvað er í gangi? Er ekki í lagi með þig? Ég get ekki gert þetta svona.“ Hún settist þá upp á rúmstokkinn eða lagðist á hnén fyrir framan hann. Hún spurði hann að því hvort hann vildi ekki bara fá það framan í hana. Hann sagði þá við hana: ,,Það er ekki séns að ég treysti þér fyrir tittlingnum á mér í þessum ham sem þú ert í núna.“ Þá glotti hún og teygði sig í dúkahníf sem hann átti á skrifborði við hliðina á rúminu. Hún setti hnífinn að limnum á honum og spurði í hæðnistón hvort hann treysti henni ekki fyrri tittlingnum á sér.“ Síðan lýsti ákærði í skýrslunni því að hann hafi fengið nóg og hann hafi verið hneykslaður á A. Ekki er ástlæða til að rekja framburð ákærða hjá lögreglunni frekar að þessu leyti.
Fyrir dómi lýsti ákærði framhaldinu svo að hann hafi sagt að hann væri ekki reiðubúinn til kynlífs og hafi hann sagt A að hún ætti við erfiðleika að stríða og nefndi ákærði í því sambandi að hún hefði gengið til sálfræðings og hefði orðið fyrir nauðgun fyrir nokkrum árum. Hann hafi eftir þetta staðið á fætur, en hún hafi komið að honum og spurt hvort hann vildi ekki annars konar kynmök. Hann kvaðst hafa sagt henni að hann treysti henni ekki fyrir limnum á sér í því ástandi, sem hún væri. Hún hafi þá spurt ákærða hvort hann væri hræddur við sig og hvort hann treysti henni ekki og í sama mund hafi hún lagt dúkahníf að lim ákærða. Kvaðst ákærði eftir þetta hafa hætt öllu og sagt A að hún væri kynferðislega brengluð eins og ákærði kvaðst hafa vitað í langan tíma. Kvaðst hann hafa greint henni svo frá að kominn væri tími til að hún greindi honum frá því, sem hent hefði hana í lífinu og kvaðst ákærði þá hafa átt við nauðgun, sem hún varð fyrir fyrir nokkrum árum. Ákærði kvaðst hafa gert þetta sökum þess að A hafi leitað til hans með hluti, sem hún hafi átt í erfiðleikum með og hafi ekki getað rætt um við aðra. Kvað hann A hafa greint sér frá þessum atburði og eftir þá frásögn hafi þau bæði grátið. Hann kvaðst eftir þetta hafa boðið henni að dvelja hjá sér um nóttina sem í hönd fór. Ákærði kvað A haldna ,,hjartagalla“ og hún fái oft ,,hjartaköst“ við álag. Í þetta sinn hafi hún fengið eitt slíkt. Kvaðst ákærði vita að besta leiðin til að laga þetta væri að fara út sem fyrst. Hún hafi eftir þetta farið fram í stofu, þar sem hún dvaldi í nokkrar mínútur áður en hún fór út úr húsinu.
Ákærði kvaðst ekki hafa beitt A ofbeldi eða hótað henni ofbeldi. Hún hafi komist út hvenær sem var allan tímann, sem hún dvaldi hjá honum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa hótað henni að vinna henni eða sjálfum sér mein, ef hún kæmi ekki í heimsókn til hans, eins og A hafði borið hjá lögreglunni.
Ákærði var spurður um vitnisburð B og C hjá lögreglu, sem báðar báru að A hafi verið grátandi eftir að hún fór frá ákærða þetta kvöld. Hann kvaðst hafa séð A í samskonar ástandi er hann ræddi um gömlu nauðgunina við hana auk þess sem samskonar ástand komi er hún fái ,,hjartatruflanir“ að sögn ákærða. Hann kvað þetta skýra hvers vegna A hafi grátið eftir að hún fór frá honum.
Fram kemur í gögnum málsins að ákærði sendi A svofelld SMS skilaboð kl. 07.14 að morgni 9. nóvember sl.: ,,Mér líður hörmulega yfir thessu öllu saman, það fer ekki lengra það sem þú sagðir mér þegar hér var nauðgað: Fyrirgeðu þú veist að ég elska þig líka.“ Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa átt við það með þessum skilaboðum að honum hafi liðið illa yfir því að hafa gengið jafn hart fram og hann gerði í því að fá A til að greina frá nauðguninni, sem hún hafi orðið fyrir og áður er lýst.
Vitnið, A, lýsti upphafi kynna þeirra ákærða, sem hafi verið um áramótin 2001 2002. Lýsti hún erfiðleikum í sambandi þeirra, skapbrestum ákærða og fleiru. Hún lýsti utanför þeirra á árinu 2003, þar sem ákærði hefði ráðist á hana og kæru hennar af þeim sökum eftir heimkomu. Hún staðfesti að hafa í júní sl. dregið til baka átta kærur á hendur ákærða. Skýrði hún hvers vegna hún dróg kærurnar til baka, en það hafi verið vegna hagsmuna sonar ákærða. A lýsti því að þau ákærði hafi haldið áfram sambandi eftir utanförina á árinu 2003, þó hún viti ekki hvers vegna þau gerðu það. Hún lýsti sambandi þeirra ákærða, hótunum hans í hennar garð og fleiru.
Hún kvað þau ákærða hafa verið í sambandi um tveggja mánaða skeið sl. sumar uns ákveðið var að binda enda á sambandið. Taldi hún að þau hafi bæði verið sátt við það. Eftir það hafi ákærði tekið að hringja í hana og haft uppi ásakanir í hennar garð. Lýsti hún því að ákærði hefði margsinnis hringt í hana og sagt að þau yrðu að tala saman í síðasta skiptið. Hún kvað ákærða hafa hringt í sig 7. nóvember og sagt að hún yrði að koma, hann ætlaði að gera eitthvað sem yrði ekki aftur tekið og hafi hann viðhaft álíka hótanir. A kvaðst alltaf hafa getað róað ákærða niður og kvaðst hún hafa ákveðið að hitta hann kvöldið eftir, þ.e. 8. nóvember. Hún kvað aldrei hafa staðið til að þau myndu hafa kynferðisleg samskipti þetta kvöld. Það hafi ekki verið rætt og hafi ekki staðið til af sinni hálfu og hafi aldrei komið fram hjá ákærða. Hefði svo verið hefði hún ekki farið til hans að sögn. A kvaðst hafa farið snemma úr vinnunni þetta kvöld og hafi tilgangur sinn með heimsókninni til ákærða verið að segja honum að sambandi þeirra væri endanlega lokið, en það hefði hún jafnframt sagt honum kvöldið áður. Hún kvaðst hafa verið frekar stressuð yfir því að fara til ákærða og hún hafi því látið B, vinkonu sína, vita hvert hún var að fara.
A kvað ákærða hafa verið rólegan þegar hún kom til hans þetta kvöld. Hann hafi setið í nærbuxum og bol í sófa í stofunni, en hún hafi komið með mat til hans. Þau hafi rætt saman í rólegheitum. Hún kvað sér hafa verið fremur illa við að vera ein með ákærða á heimili hans og hafi hún því reynt að fá hann út með sér á stað þar sem þau gætu fengið sér bjór og rætt saman. Hann hafi ekki viljað það, en úr varð að hún fór út og keypti bjór. Er hún kom til baka hafi ákærði verið búinn að klæða sig og þau hafi rætt saman og allt verið í lagi um stund uns ákærði sagði ,,að hann ætlaði að ríða henni einu sinni áður en hún gengi út frá honum” og hann muni gera þetta hver sem vilji hennar væri. Hún hafi greint honum frá því að hann viti að þetta muni ekki gerast. Hann hafi þá sagt að honum stæði á sama þótt hann þyrfti að drepa hana og berja, draga á hárinu, hann myndi gera það og hún mætti velja milli þess að vera flutt á brott í sjúkrabíl eða ganga út sjálf. Hann hafi síðan gert að gamni sínu með það hvort hún vildi ekki fara út. Hann hafi þá spurt hana hvort hún héldi að hann hafi verið að grínast með að hann ætlaði að hafa við hana samfarir áður, eins og rakið var. Hún hafi greint honum frá því að hún mætti ekki hafa samfarir vegna bakteríusýkingar og að hún ætti auk þess kærasta. Ákærði hafi sagt að hann myndi láta hana í friði, ef hún hefði við hann samfarir. Hún kvaðst hafa setið hálfstjörf í sófanum yfir því sem var í gangi, en hún hafi trúað ákærða til að gera henni eitthvað alvarlegt, ef hún gerði ekki það sem hann segði. Þá hafði ákærði, í þessari atburðarrás, sýnt hnefann og látið hana vita að hann myndi ekki hika við að beita honum. Þessu næst hafi ákærði beðið hana um að klæða sig úr, sem hún kvaðst hafa neitað. Hann hafi þá tekið í fætur henni og fært hana úr skóm og sokkunum og hafi hann sagt henni að sitja uppi í sófanum og vera róleg. Lýsti hún því hvernig hann strauk hár hennar og vanga og tók að tala niður til hennar uns hann sagði henni að fara úr buxunum. Hún kvaðst hafa ákveðið að sýna engin viðbrögð til að athuga hvort hann myndi ekki skilja að þetta væri henni ekki að skapi. Þessu næst hafi ákærði tekið niður um hana buxurnar og hún hafi spurt hvort hann vissi hvað hann væri að gera. Hann hafi sagt svo vera og að hann væri reiðubúinn að keyra hana á neyðarmóttöku eða á Stígamót eftir á, ef hún vildi. Hún lýsti því er ákærði rykkti í buxur hennar og hún á móti án þess að átök yrðu, en hún kvaðst hafa ákveðið að láta ákærða klára það sem hann var að gera. Kvaðst hún hafa setið skjálfandi og í hnipri í sófanum er ákærði spurði hana hvort henni væri kalt. Hún kvaðst þessu næst hafa greint honum frá því að hún hefði sagt föður sínum frá því hvar hún væri og hann myndi koma, ef hún væri ekki komin heim kl. 23.00. Ákærði hafi sagt að þetta skipti hann engu máli, hann myndi ganga frá henni, ef hann sæi ljós fyrir utan. Það gæti enginn bjargað henni úr þessu. Hún lýsti því að ákærði hafi skipað henni að fara inn í svefnherbergið, sem hún hafi ekki gert, þótt hún hefði gert það síðar og í uppgjöf sinni, eins og skilja mátti á henni.
A kvað ákærða hafa farið á salernið á þessum tíma. Á meðan kvaðst hún hafa sent SMS skilaboð til B, vinkonu sinnar, og slökkt á símanum eftir það, en ákærði hafði eftir að hann byrjaði hótanirnar sagt henni að slökkva á símanum. Skilaboðin sem hún sendi B voru svohljóðandi ,,allt í geðv”. Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki sent skilaboð um hjálp kvaðst A hafa sent boðin í miklum flýti og henni hafi ekki unnist tími til að hugsa. Auk þess hafi skilaboðin verið í þeim anda, sem þær vinkonur ræða saman í og hún hafi gert sér grein fyrir því að þetta myndi skiljast sem og hafi orðið raunin.
A kvaðst hafa setið í hnipri í rúminu eftir að hún kom inn í svefnherbergið. Ákærði hafi þá sagt að honum stæði á saman þótt hún gréti og þá hafi hann haft orð á því að hann ætlaði sér að skemma samband A og unnusta hennar. Hún kvaðst hafa lagst niður sökum hræðslu, eins og ráða má af vitnisburði hennar, en hún var hrædd. Sagði hún, að er þarna var komið sögu, hafi ákærði fært hana úr nærbuxunum og tekið að strjúka hana og þá hafi hann rifið upp um hana bol, sem hún klæddist. Hún kvaðst hafa brostið í grát. Fyrst hafi ákærði sagt henni að gráta ekki, en síðan hafi hann sagt að honum stæði á sama og hann vildi fremur að hún væri mótfallin því, sem fram fór. Þessu næst hafi ákærði strokið kynfæri hennar og lýsti hún því. Kvaðst hún hafa hrint ákærða frá sér og sagt að hún vildi þetta ekki, en hann hafi sagt að hún myndi stjórna því hvernig þetta færi fram því ,,ég geng bara frá þér hérna” hafi hann sagt.
A kvaðst, er hér var komið sögu, hafa sagt ákærða að klára það sem hann aðhafðist, því hún þyrfti að komast út frá honum. Eftir þetta hafði ákærði samræði við hana í stuttan tíma. Lýsti hún því meðal annars að hún hafi hrækt á ákærða meðan á því stóð. Hún kvaðst hafa kveikt ljósið og séð hníf á borðinu. Ákærði hafi séð það og spurt hana hvort hann ætti ekki eftir að nota þennan og átt við hnífinn. Kvaðst hún hafa ýtt ákærða ofan af sér og sagst ætla út. Hann hafi þá ýtt henni ítrekað í rúmið. Hún kvaðst hafa komist fram hjá ákærða og inn í stofu, þar sem hún kvaðst hafa gripið síma og sagt ákærða að hún væri búin að hringja í lögregluna. Þá urðu ryskingar á milli þeirra og bolur hennar rifnaði og hún hafi hellt úr glasi. Ákærði hafi sagt að hann hefði ekki lokið sér af og að hún færi ekki fyrr en svo væri. Hafi hún aftur farið inn í herbergið, þar sem ákærði hafi sagt að hún yrði að hafa við hann munnmök. Lýsti A því sem gerðist í framhaldinu uns hún kvaðst hafa litið á hnífinn, sem áður var getið um. Ákærði hafi þá spurt hana að því hvort hún héldi að hann léti brúklegan hníf liggja fyrir framan hana. Hann hafi þá tekið hnífinn og lagt að hálsi hennar og spurt hvort hún myndi fremur vilja hafa þetta svona. A kvaðst á þessum tíma hafa verið búin að gráta mikið og verið mjög hrædd. Hún kvaðst hafa brotnað alveg saman, hágrátið og átt erfitt með andardrátt. Kvað hún ákærða hafa haft áhyggjur af hjartakvilla, sem hún hafi og hafi ákærði spurt hvort andnauðin væri af þeim sökum. Kvaðst hún hafa ákveðið að skrökva því að svo væri, en það kvaðst hún áður hafa gert til að losna úr aðstæðum, sem hún réð ekki við, þegar ákærði átti í hlut. Þetta hafi iðulega dugað og ákærði hafi orðið hræddur.
A lýsti því að þessu næst hafi ákærði spurt hana að því hvort það sem þarna gerðist hafi vakið upp gamlar minningar, en ákærði hafi ávallt haldið því fram, að sögn A, að fyrrverandi unnusti hennar hefði nauðgað henni, sem ekki var raunin að hennar sögn. Hafi ákærði tekið að spyrja hana um það hvernig sú nauðgun hefði átt sér stað og spurt ýmissa spurninga í því sambandi, en hún kvaðst hafa leikið með og ýmist kinkað kolli eða hrist höfuðið. Hún hafi spurt hann hvers vegna hann gæti gert henni þetta, þar sem hann vissi að hún hefði lent í þessu áður og spurt hvort hún mætti ekki fara út. Hún yrði að komast út, hún gæti ekki andað. Lýsti hún því að ákærði hafi viljað hugga hana, en hún hafi slitið sig lausa frá honum og sagst verða að komast út. Hann hafi skipað henni að þurrka upp, það sem áður hafi hellst niður í stofunni og fyrr var rakið. Hún hafi gert það. Hafi henni tekist að koma sér í fötin eftir þetta, en áður en hún fór hafi ákærði sagt að hún vissi hvernig færi, ef hún greindi frá því sem þarna gerðist. Eftir það hafi hún farið út, en hún hafi haldið á peysu sinni og nærbuxum er hún fór. A kvaðst strax og út var komið hafa haft samband við B vinkonu sína og C og þær hafi hist nærri lögreglustöðinni. Hún hafi greint þeim frá því sem gerðist og þær hafi hvatt hana til að fara á neyðarmóttökuna. A kvaðst ekki hafa haft hug á því í fyrstu, en ákveðið síðar að fara þangað. A kvaðst hafa leitað sér aðstoðar eftir þennan atburð og lýsti hún því. Hún kvað sér líða betur í dag, en hún sé mjög hrædd við ákærða, sem stöðugt hóti henni í gegnum annað fólk. Ákærði hringi stöðugt heim til hennar og nýlega hafi hann hellt sér yfir 12 ára gamlan bróður hennar og einnig rætt við móður hennar í síma.
Vitnið, B, vinkona A, kvaðst hafa vitað af stormasömu sambandi þeirra ákærða. B kvaðst hafa verið stödd hjá A er hún ræddi símleiðis við ákærða að kvöldi 7. nóvembers sl. Kvaðst B minnast þess að þau hefðu rökrætt um það hvort B ætti að koma til ákærða eða ekki. Hún kvaðst ekki hafa heyrt það, sem ákærði sagði í símann, en fram hafi komið að honum hafi liðið illa. Eftir símtalið hafi A greint henni frá því að ákærði hefði hótað að svipta sig lífi kæmi hún ekki til hans.
B kvað A hafa hringt í sig og greint sér frá því daginn eftir, 8. nóvember, að hún væri á leið til ákærða. Fram kom hjá A að hún hafi viljað að B vissi af þessari heimsókn til ákærða. B lýsti því síðan er hún fékk SMS skilaboðin frá A, sem getið var um í vitnisburði A hér að framan. Hún kvað sér hafa brugðið. En þegar hún fékk skilaboðin hafi hún gert sér grein fyrir því að eitthvað var að. Hún þekki A og geri sér grein fyrir þeirri merkingu, sem hún leggi í þessi skilaboð. Hún hafi ekki vitað hvernig hún hafi átt að bregðast við, en hún hafi strax hringt í A og reynt að senda henni SMS skilaboð, en slökkt hafi verið á síma A. Eftir að C, vinkona B, kom hafi þær ákveðið að halda að heimili ákærða og athuga ástandið. Þær hafi ekið næstu götu við hliðina, en að lokum haldið inn í garðinn að Y. Kvaðst hún hafa séð tvær manneskjur í íbúð ákærða, en ekki greint þær í sundur. B kvaðst ekkert hafa heyrt. Meðan þær voru þarna staddar hafi A rokið út úr húsinu. Hún hafi ekki séð það, en C hafi hins vegar gert það. B kvað A stuttu síðar hafa hringt grátandi í hana og þær mælt sér mót nærri lögreglustöðinni, þar sem þær hittust allar þrjár. Þá hafi A verið grátandi og titrandi og illa á sig komin. A hafi greint þeim svo frá, að ákærði hefði nauðgað henni. Fram kom hjá B að ekki hefðu átt sér stað barsmíðar eða þess háttar, heldur hafi A á einhvern hátt verið neydd til kynmaka. A hafi sagt að ákærði hefði haldið að henni hníf, hún mætti ekki fara út, hún mætti ekki segja frá, þá hefði hún verra af. B lýsti klæðnaði A og að hún hafi meðal annars klæðst hlýrabol, sem hafi verið rifinn öðru megin. B mundi ekki eftir nærbuxum A, en hún lýsti því að þær hafi síðar haldið á neyðarmóttöku. Þá lýsti hún því að við skoðun þar hafi A þurft að fara út í bíl til að sækja nærbuxur sínar, sem þar voru geymdar.
Vitnið, C, vinkona A, kvaðst hafa verið stödd á heimili hennar ásamt B að kvöldi 7. nóvember sl., er A ræddi í símann við ákærða. Fram hafi komið að ákærði hefði viljað fá A til að koma til sín, sem hún hafi ekki viljað í fyrstu, en hún hafi síðan látið til leiðast. Þau hafi ætlað að ræða sín mál. C minnti að A hafi látið til leiðast eftir að ákærði hefði hótað henni að illa færi fyrir henni, ef hún kæmi ekki. Þá minnti hana að rætt hafi verið um það í símtalinu að A ætti á þessum tíma nýjan kærasta.
C kvað A hafa hringt í B og látið hana vita af ferð sinni til ákærða 8. nóvemer sl. B hafi síðan látið vitnið vita. Fram hafi komið að A hafi ætlað að stoppa stutt hjá ákærða og að hún myndi láta vita af sér er hún kæmi frá honum. Tveimur tímum síðar hafi B fengið SMS skilaboðin, sem áður var lýst. B hafi þegar hringt til baka, en þá hafi verið slökkt á síma A. Eftir þetta hringdi B í vitnið og lét vita af þessu. C kvaðst hafa lagt þann skilning í skilaboðin að verið væri að biðja um hjálp. Þær B hafi rætt hvað þær ættu að gera og úr varð að þær fóru að heimili ákærða og taldi C að þær hefðu dvalið þar rúma klukkustund. Aðspurð hvers vegna þær hefðu ekki hringt á lögreglu kvað hún þær hafa íhugað það, en ekki hafa þorað það, auk þess sem þeim hafi liðið skár við að sjá hreyfingu inni í íbúðinni, en hún hafi séð hreyfingu inn um rimlagardínu, þar sem hún kvaðst hafa séð í ákærða. Hún kvaðst hafa merkt, á hreyfingu inni í íbúðinni, að eitthvað var að. Þá kvaðst hún hafi heyrt háreysti. C lýsti því er hún sá A koma hlaupandi og grátandi út úr húsinu. Á sama tíma hafi hún hringt í þær B, en A hafi þá séð SMS skilaboðin, sem þær höfðu sent meðan slökkt var á síma A. Stuttu síðar hittust allar þrjár nærri lögreglustöðinni. Þær B hafi reynt að róa A niður, en hún hafi verið með ekka, titrað og skolfið og tæpast getað talað í tíu mínútur. A hafi klæðst rifnum hlýrabol, en nærbuxur sínar hafi hún geymt í veski sínu. Fram hafi komið hjá A að ákærði hefði nauðgað henni. Þá hafi komið fram í frásögn hennar að ákærði hafi haldið hníf að hálsi hennar. Hún hafi greint svo frá að í fyrstu hafi ákærði boðið henni upp á bjór, en hann hafi síðan hótað henni öllu illu og að A hafi vitað að hún kæmist ekki upp með það að gera ekki það, sem ákærði vildi. C hafði eftir A að á endanum hefði hún gefist upp fyrir ákærða, sem þá hafði samfarir við hana. Þær B hafi síðan farið með A á neyðarmóttöku, en hún hafi ekki í fyrstu viljað það, þar sem ákærði hefði hótað henni illu, ef hún greindi frá því sem gerðist. Á neyðarmóttöku hafi A þurft að fara út í bíl til sækja nærbuxur, sem hún gleymdi í veski sínu, eins og lýst var. A kom á neyðarmóttöku kl. 02.00 aðfaranótt 9. nóvember sl. í fylgd B og C. A lýsti fyrir lækni heimsókn sinni til ákærða kvöldið áður og að ákærði hefði nauðgað henni. Lýsti hún hótunum ákærða og ógnandi og niðurlægjandi framkomu hans í hennar garð. Kvaðst A hafa grátið allan tímann meðan á þessu stóð og óttast um líf sitt. Ákærði hefði rifið bol hennar og haft við hana samræði gegn vilja hennar. Frásögn A við læknisskoðunina er efnislega á sama veg og hún greindi frá fyrir dómi og sem rakinn var að ofan.
Ósk Ingvarsdóttir, sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, skoðaði A þessa nótt. Hún lýsti ástandi hennar svo að hún hafi verið útgrátin og mikið miður sín. Hún hafi verið í sjokki og uppnámi, en yfirveguð í frásögn sinni og hafi greint skilmerkilega frá. Hún hafi verið trúverðug, en virkað mjög óttaslegin. Hún hafi endurtekið í sífellu að hún þyrði ekki að kæra, væri hrædd við gerandann. Hún hafi grátið og setið í hnipri.
Ósk Ingvarsdóttir læknir staðfesti fyrir dóminum skýrslu sína eftir skoðun á A á neyðarmóttöku aðfaranótt 9. nóvember sl. Kvað hún hafa komið fram hjá A við skoðunina að hún hafi verið óttaslegin eftir atburðinn, sem hún lýsti, eins og hún hafi upplifað líflátshótun. Ósk skýrði einstaka hluti skýrslu sinnar.
Vitnið, Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur, skýrði og staðfesti sálfræðiskýrslu, sem dags. er 23. mars 2005, en skýrslan er rituð eftir sjö sálfræðiviðtöl við A.
Vitnið, Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, lýsti aðkomu sinni að rannsókn málsins og skýrði hluta rannsóknargagna.
Niðurstaða.
Ákærði og A höfðu slitið sambandi sínu á þeim tíma, sem í ákæru greinir. Bæði bera þau um það en hvort með sínum hætti. Ákærði og A ræddu saman í síma 7. nóvember 2004, þar sem A ákvað að hitta ákærða á heimili hans næsta kvöld, 8. nóvember. Ákærði hefur borið að ákveðið hafi verið fyrir fram milli þeirra A að þau myndu hafa kynferðisleg samskipti er A kæmi til hans 8. nóvember. A hefur borið að það hafi aldrei vakað fyrir henni og það hafi aldrei borið á góma milli þeirra, enda hefði hún ekki farið til ákærða hefði hún talið að það vekti fyrir honum, eins og hún bar. A hefur borið að hún hafi farið til ákærða þetta kvöld til að binda enda á samband þeirra eins og ráða má af vitnisburði hennar. Fær vitnisburður hennar um tilefni ferðar hennar til ákærða stoð í vitnisburði B og C, sem báðar hlýddu á samtalið og er vísað til þess, sem áður var rakið þar um. Fram kom hjá A að henni hafi ekki verið vel við að dvelja ein með ákærða á heimili hans og lét hún þess vegna B vinkonu sína vita af ferð sinni þangað.
Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að framburður ákærða sé rangur um það að þau A hafi ákveðið fyrirfram að þau myndu hafa kynferðisleg samskipti, er hún kom á heimili ákærða að kvöldi 8. nóvember sl.
A sendi SMS skilaboð, eins og rakið var, frá heimili ákærða. Þótt leggja megi misjafnan skilning í þau skilaboð greindu vitnin B og C svo frá, að í þeirra huga hafi ekki verið neinn vafi á því að eitthvað hafi verið að og að A hafi verið að biðja um hjálp. Brugðust þær við þessu með því að fara að heimili ákærða, eins og lýst var.
Vitnið, C, heyrði háreysti frá íbúð ákærða og sá A koma grátandi þaðan út haldandi á hluta af fatnaði sínum. Stuttu síðar hittust allar þrjár og þá var A í rifnum hlýrabol, en ákærði bar hjá lögreglunni að bolurinn hafi ekki verið rifinn er A dvaldi hjá honum. Lögreglan fékk hlýrabolinn sem A klæddist er hún kom til skoðunar á neyðarmóttöku. Ljósmyndir af bolnum sýna að hann er rifinn öðru megin.
Að þessu virtu er það álit dómsins að framburður ákærða um að bolurinn hafi ekki verið rifinn, er A dvaldi hjá honum, sé rangur. Rennir þetta stoðum undir vitnisburð A um það hvernig bolurinn rifnaði í átökum eða ryskingum þeirra á milli eins og hún lýsti og rakið var.
Eins og rakið var hittu B og C, A, skömmu eftir að hún kom frá ákærða. Lýstu þær slæmu ásigkomulagi hennar og er vísað til vitnisburðar þeirra þar um. Þá greindu báðar frá því að A hefði sagt ákærða hafa nauðgað sér eins og rakið var. Stuttur tími leið uns A fór á neyðarmóttöku, þar sem Ósk Ingvarsdóttir læknir skoðaði hana. Hún kvað A hafa verið í sjokki og uppnámi. Hún hafi verið yfirveguð í frásögn sinni og trúverðug, en mjög óttaslegin og sífellt endurtekið að hún hafi verið hrædd við gerandann.
Dómurinn telur sannað með þessum vitnisburði og öðru því, sem rakið hefur verið, að A hafi verið hrædd og óttaslegin og í miklu uppnámi er hún kom frá heimili ákærða í greint sinn. Fær þetta einnig stoð í sálfræðiskýrslu, sem Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur ritaði eftir viðtöl við A. Allt rennir þetta stoðum undir vitnisburð A af því sem gerðist.
Þegar þetta er virt í heild er það mat dómsins að framburður ákærða af því sem gerðist sé í heild mjög ótrúverðugur og að mestu leyti rangur varðandi það, sem átti sér stað eftir að A kom aftur á heimili ákærða eftir að hafa sótt bjórinn. A greindi B og C frá því grátandi og í miklu uppnámi, nýkomin frá ákærða, að hann hefði nauðgað henni og ógnað með hníf.
Í þessu ljósi og að öðru leyti með vísan til þess, sem rakið hefur verið, er framburður ákærða hjá lögreglunni um það, að A hafi lagt dúkahníf að lim hans glottandi og ávarpað hann í hæðnistón, eins og hann lýsti, fráleitur. Þá er framburður ákærða allur á þann veg að A hafi ráðið atburðarásinni. Í raun er framburður ákærða hjá lögreglunni og fyrir dómi þannig, að hann heldur því fram að A hafi nauðgað honum. Auk þessa er framburður ákærða og skýringar á því hvers vegna A fór grátandi frá honum að engu hafandi enda fær hann enga stoð í gögnum málsins. Þá þykja skýringar ákærða á SMS sendingunni, þar sem fjallað er um nauðgun, ekki trúverðugar, en þær skýringar ráða ekki úrslitum eins og hér stendur á.
Ákærði og A eru ein til frásagnar um það sem gerðist í íbúð ákærða þetta kvöld, þótt vitnin Bog C, sem heyrðu háreysti, hafi reynt að fylgjast með atburðarásinni meðan þær dvöldu fyrir utan heimili ákærða. Bæði þessi vitni, vitnisburður Óskar Ingvarsdóttur og læknisskoðun, sem hún gerði á A, rifinn hlýrabolur A, það að hún hljóp grátandi og ekki fullklædd, meðal annars nærbuxnalaus, frá heimili ákærða þetta kvöld, rennir allt stoðum undir trúverðugan vitnisburð A. Það sama má segja um tilgang heimsóknar hennar, sem lýst var, og vitnin B og C báru um.
Eins og rakið hefur verið er framburður ákærða um flest, sem gerðist á heimili hans þetta kvöld eftir að A sótti bjórinn, mjög ótrúverðugur og að mörgu leyti með ólíkindum. Ekkert í gögnum málsins eða vitnisburði styður framburð ákærða um að málavextir hafi verið eins og hann lýsti þeim.
Að öllu þessu virtu er sannað með vitnisburði A, sem fær stoð í vitnisburði B, C og með læknisfræðilegum gögnum, sem rakin voru og með vitnisburði Óskar Ingvarsdóttur og jafnframt með stoð í vitnisburði Þórunnar Hreinsdóttur og með öðru því sem nú hefur verið rakið og að virtum öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem í ákæru greinir og að ákærði hafi bæði með því að beita ofbeldi og hótun um ofbeldi þröngvað A til samræðis. Brot ákærða varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.
Ákærði á að baki langan sakaferil. Nemur samanlögð óskilorðsbundin refsivist hans tæpum sjö árum. Hann hefur frá árinu 1985 hlotið 13 refsidóma, þar af er einn dómur Hæstaréttar og tveggja ára og 10 mánaða fangelsisdómur frá Þýskalandi fyrir fíkniefnabrot. Hefur ákærði hlotið dóma fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, fíkniefnabrot, þjófnað, fjársvik og skjalafals. Síðast hlaut ákærði dóm 15. nóvember sl., 30 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Ber nú að dæma hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærða er alvarlegt og beindist að mikilsverðum hagsmunum og þykir ákærði hafa sýnt styrkan og einbeittan brotavilja. Allt hefur þetta áhrif til refsihækkunar, sbr. 1., 2. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
A krefst 1.000.000 króna í miskabætur. Hún á rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir A. Þykja bætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur auk dráttarvaxta frá 19. desember 2004 að telja og til greiðsludags, en upphafstími dráttarvaxta er dagurinn er mánuður var liðinn frá því að ákærða var birt krafan.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.
A var í fyrstu fráhverf kæru og vildi ekki kæra strax. Ástæðum þessa lýsti Steinunn Guðbjartsdóttir héraðsdómslögmaður, réttargæslumaður A, í bréfi dags. 10. nóvember 2004 en tekið var fram í bréfinu að A hafi verið hrædd við viðbrögð gerandans legði hún fram kæru. Um kl. 11.00 daginn eftir atburðinn, 9. nóvember sl., hafði A samband við Steinunni og vildi leggja fram kæru. Þegar var haft samband við lögreglu með ósk um að fá að leggja fram kæru. Lögð var áhersla á að málið yrði tekið fyrir samdægurs. Fram kom hjá lögreglufulltrúa að lögreglumenn væru á námskeiði og ekki væri mannskapur til að taka á móti kæru. Ekki reyndist því unnt að leggja fram kæru fyrr en daginn eftir, 10. nóvember. Ofangreint bréf Steinunnar Guðbjartsdóttur var sent lögreglustjóranum í Reykjavík en ekki liggur fyrir hvort bréfinu var svarað.
Ámælisvert er að lögreglan skyldi ekki taka á móti nauðgunarkæru þegar í stað eins og bar að gera af augljósum ástæðum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Ásgeir Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A 700.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 19. desember 2004 að telja og til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns og 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.