Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Lögheimili
  • Umgengni
  • Meðlag


Miðvikudaginn 11. júlí 2012.

Nr. 478/2012.

K

(Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)

gegn

M

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Lögheimili. Umgengnisréttur. Meðlag.

Með úrskurði héraðsdóms var leyst úr ágreiningi K og M um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða þar til dómur gengur í forsjármáli þeirra. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að ekki væru efni til að fella niður sameiginlega forsjá K og M, en tók til greina kröfu K um að lögheimili barnanna yrði hjá henni og var M gert að greiða K meðlag með hvoru barni um sig. Þá tók Hæstiréttur afstöðu til inntaks umgengnisréttar M við börnin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2012, sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2012, þar sem hafnað var kröfum aðila um breytingu á forsjá sona þeirra, A, fæddur [...] 2000, og B, fæddur [...] 2005, og mælt fyrir um að þeir skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl viku í senn eftir nánara samkomulagi foreldranna. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að henni verði falin forsjá drengjanna til bráðabirgða þar til dómur gengur í forsjármáli aðila í héraði en til vara að lögheimili þeirra verði ákveðið hjá henni til sama tíma. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með drengjunum frá uppsögu dóms Hæstaréttar í kærumáli þessu. Þá krefst hún þess einnig að ákveðið verði inntak umgengnisréttar drengjanna við það foreldri sem ekki fær forsjá eða drengirnir hafi ekki lögheimili hjá. Sóknaraðili krefst málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, án tillits til gjafsóknar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að ekki séu efni til að fella niður sameiginlega forsjá aðila með sonum þeirra með því að fela hana öðru þeirra á meðan mál um forsjá til frambúðar er til meðferðar fyrir dómi. Kemur þá til úrlausnar ágreiningur þeirra um hvernig fari um lögheimili drengjanna, umgengni við þá og meðlag með þeim á þeim tíma, sbr. 2. mgr. 35. gr. barnalaga.

Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að báðir aðilar séu hæfir foreldrar og færir um að veita sonum sínum gott heimili. Af gögnum málsins verður ráðið að drengirnir hafi alla tíð búið hjá báðum foreldrum sínum þar til upp úr sambúð þeirra slitnaði í ágúst 2011. Bjuggu drengirnir hjá varnaraðila frá þeim tíma fram í byrjun febrúar 2012 þegar þeir fluttu til sóknaraðila þar sem þeir búa nú. Verður að telja að það muni valda minnstri röskun á högum drengjanna að lögheimili þeirra verði hjá sóknaraðila þar sem þeir búa nú. Af þeim sökum verður sú krafa sóknaraðila tekin til greina. Samkvæmt því verður varnaraðila gert að greiða einfalt lágmarksmeðlag með hvorum drengnum um sig frá uppsögu dóms þessa þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli aðila.

Báðir aðilar hafa gert kröfu um að ákvarðað verði um inntak umgengnisréttar meðan forsjármál þeirra er til meðferðar hjá dómstólum. Í samræmi við það sem áður segir skal umgengni varnaraðila við syni sína hagað þannig, þar til endanlegur dómur gengur í forsjármálinu, að regluleg umgengni verði aðra hverja helgi frá kl. 16 á föstudegi til kl. 16 á mánudegi, fyrst dagana 27. til 30. júlí 2012.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að sóknaraðili hafi fengið leyfi til gjafsóknar í máli þessu.

Dómsorð:

Sóknaraðili, K, og varnaraðili, M, skulu á meðan forsjármál þeirra er rekið fara sameiginlega með forsjá sona sinna, A og B.

Lögheimili drengjanna skal á sama tíma vera hjá sóknaraðila.

Varnaraðili greiði einfalt meðlag með sonum sínum frá uppsögu dóms þessa.

Þar til leyst hefur verið úr ágreiningi um forsjá drengjanna til frambúðar skulu þeir njóta reglulegrar umgengni við varnaraðila aðra hverja helgi, frá kl. 16 á föstudegi til kl. 16 á mánudegi, fyrst dagana 27. til 30. júlí 2012.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 26. júní 2012

I

Mál þetta var þingfest 6. júní 2012 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. júní 2012.

Sóknaraðili er K, kt. [...], [...],[...].

Varnaraðili er M, kt. [...],[...],[...].

      Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega, að henni verði einni falin forsjá barnanna A, kt. [...], og B, kt. [...], til bráðabirgða, allt þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í forsjármáli aðila.

         Til vara er þess krafizt, að ákveðið verði með úrskurði, að lögheimili barna aðila verði hjá sóknaraðila, og er þess einnig krafizt, að ákveðið verði með úrskurði, hvernig umgengni með börnunum verði háttað.

         Í öllum tilvikum er þess krafizt, að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila meðlag með börnum þeirra, eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir í máli aðila.

         Loks krefst sóknaraðili þess, að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í aðalmálinu.

         Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af dómkröfum sóknaraðila og honum verði með úrskurði falin forsjá barnanna til bráðabirgða, og að úrskurðað verði um umgengni sóknaraðila við börnin og meðlag.

         Til vara krefst varnaraðili þess, að lögheimili barnanna skuli skráð hjá honum, og að dómari úrskurði um umgengni með börnunum.

         Loks krefst varnaraðili þess, að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í aðalmálinu.

II

Málavextir

Í kröfugerð sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá er vísað um málavexti til greinargerðar í forsjármáli aðila, sem lögð hefur verið fram í máli þessu, en í því máli er sóknaraðili varnaraðili. Mikils ruglings gætir í greinargerð milli „stefnanda“ og „stefnda“, en eftir því sem næst verður komizt eru málavextir þeir, að aðilar hafi verið búsett á Íslandi allt frá því í október 2008, en varnaraðili hafi komið til landsins um haustið árið áður. Aðilar hafi verið búsettir á sameiginlegu heimili aðila að [...],[...]allt frá því þau komu til landsins. Síðan varnaraðili kom til landsins með börnin hafi hún ávallt farið með þeim til [...] yfir sumartímann og dvalist þar frá júní til ágúst. Varnaraðili hafi aldrei komið með í þær ferðir. Í júní 2011, þegar sóknaraðili kom til [...], hafi hún komizt að því varnaraðili hefði verið í sambandi við fleiri en eina konu, meðan á hjónabandi þeirra stóð. Upp úr því hafi orðið mikið rifrildi, sem hafi þó ekki endað með því að aðilar ákvæðu að slíta sambandi sínu endanlega.

         Varnaraðili hafi síðan átt að greiða fyrir farmiða sóknaraðila og barna hennar aftur til Íslands, eins og hann hafi gert á ári hverju, frá því að aðilar fluttu til Íslands. Þá hafi varnaraðili ávallt sent sóknaraðila peninga til [...] til þess að hún gæti lifað með börnum sínum í [...] yfir sumarið. Engir fjármunir hafi verið sendir af hálfu varnaraðila síðastliðið sumar. Hinn 22. júlí hafi varnaraðili sent sóknaraðila smáskilaboð í síma, þar sem hann segist ekki ætla að greiða farmiða fyrir hana heim til Íslands, en hann skuli greiða farmiða fyrir börnin. Hafi hún því ekki átt annarra kosta völ en að senda börnin á undan sér. Sóknaraðili hafi því ekki getað farið með börnunum heim þann 16. ágúst, enda hafi hún verið peningalaus sökum þess að hún hafi verið heimavinnandi á Íslandi. Hún hafi ekki komizt heim fyrr en móðir varnaraðila hafi keypt fyrir hana miða til Íslands þann 26. ágúst.

         Sóknaraðili hafi átt von á barnabótum í ágúst sl., sem hafi átt að berast inn á persónulegan reikning hennar á Íslandi. Þegar hún hafi ætlað að taka þær út af debetkorti sínu í [...], hafi komið í ljós, að varnaraðili hafði farið inn á heimabanka hennar og millifært barnabæturnar á reikning núverandi sambýliskonu sinnar.

         Þegar sóknaraðili kom til Íslands, hafi komið í ljós, að viðhald stefnanda hafði flutt inn í íbúð aðila á [...], en umrædd kona hafi verið með öllu ókunn börnum aðila. Þegar þau komu heim þann 16. ágúst, hafi því mætt þeim ókunnug kærasta varnaraðila, sem hafi átt að búa með börnunum. Einnig hafi verið í íbúðinni vinkona kærustunnar ásamt barni hennar. Þetta hafi komið sóknaraðila algjörlega í opna skjöldu, enda hafi ekki verið rætt sérstaklega um, að sóknaraðili fengi ekki að búa á heimilinu að [...]. Þegar sóknaraðili hafi óskað sérstaklega eftir því, til þess að hún gæti verið nálægt börnum sínum, hafi varnaraðili neitað því. Hafi henni því verið úthýst án fyrirvara af heimili sínu. Hafi beðið henni svartur ruslapoki úti á tröppum húsnæðisins, þar sem föt hennar hafi verið. Ekkert samkomulag hafi því orðið um að börnin byggju hjá varnaraðila, heldur hafi það orðið raunin eftir heimkomu vegna yfirgangs varnaraðila gagnvart sóknaraðila.

         Eftir að sóknaraðili kom til Íslands hafi hún fengið gistingu hjá vini sínum. Sóknaraðili hafi ekki verið í vinnu á þeim tíma og enga peninga átt. Enginn fjárstyrkur hafi komið frá varnaraðila.

         Sóknaraðili hafi síðan fengið vinnu í september 2011, hjá [...] og vinni hún enn þar. Sóknaraðili hafi síðan fengið leigða stúdíóíbúð í [...] þann 16. nóvember 2011, þar sem hún búi í dag.

         Eftir að sóknaraðili kom til landsins, hafi yngra barnið ávallt verið hjá henni, eftir að það kom heim úr skóla, þar til daginn eftir, þegar það fór aftur í skóla, og að sama skapi hafi verið regluleg umgengni við eldra barnið. Yngra barnið hafi síðan verið hjá föður sínum um helgar. 

         Þann 7. febrúar sl. hafi varnaraðili vísað börnum aðila á dyr, án þess að láta sóknaraðila vita fyrir fram. Hafi þau fengið föt sín í sitt hvorum svarta ruslapokanum. Síðan þá hafi börnin alfarið búið hjá sóknaraðila. Frá því 7. febrúar hafi börnin tvisvar hitt föður sinn, einu sinni í marz og einu sinni í apríl. Varnaraðili hafi ekkert frumkvæði að því að hafa samband við börn sín og hafi börnin einnig tjáð henni, að þau hafi ekki áhuga á samvistum við föður sinn.

         Aðilar hafi haldið heimili allt frá árinu 2008 og hafi safnað töluverðu innbúi á þeim tíma. Því hafi varnaraðili alfarið haldið, og hafi sóknaraðili ekkert fengið af innbúi aðila, hvorki húsgögn né önnur heimilistæki. Eftir samvistaslit hafi sóknaraðili einnig greitt töluvert af reikningum, sem hafi tilheyrt aðilum í sameiningu.

         Sóknaraðili sé í dag í ágætri stöðu, hún sé í fullri vinnu og með íbúð í [...]. Hún sé í dag að leita eftir íbúð, sem sé nær skóla barnanna, en þau gangi í skóla í [...].

         Varnaraðili vísar til stefnu í forsjármálinu um málavexti, en þar kemur fram, að báðir drengirnir séu búsettir hjá föður og gangi í [...].

         Hann kveður sóknaraðila hafa farið út til [...] í byrjun sumars 2011, en þá þegar hafi verið erfiðleikar í sambandi þeirra. Í ágústmánuði 2011, þegar sóknaraðili var í [...] hafi orðið samkomulag með þeim að skilja. Í kjölfarið hafi sóknaraðili ákveðið að senda börnin til Íslands til þess að búa hjá varnaraðila og sambýliskonu hans, sem hafi átt von á barni. Hafi börnin komið hingað til lands þann 16. ágúst 2011.

         Sóknaraðili hafi komið til Íslands tveimur mánuðum síðar, án þess að tilkynna varnaraðila eða börnunum um það. Sóknaraðili hafi í upphafi kennt eldri drengnum um ástandið á heimili varnaraðila og neitað að ræða við drenginn og hafi aðeins viljað vera í samskiptum við yngri drenginn.

III

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá til bráðabirgða á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Rökin á bak við þessa heimild í barnalögum séu þau, að hagsmunir barnanna kunni að kalla á nauðsyn þess að festa sé til staðar í málum þeirra, meðan forsjármál sé rekið fyrir dómstólum, þar sem slík mál geti tekið langan tíma í meðförum dómstóla.

         Í dag sé lögheimili barna aðila hjá varnaraðila, þrátt fyrir að þau búi ekki lengur á heimilinu að [...]. Eftir að börnin settust að hjá móður sinni þann 7. febrúar sl. hafi varnaraðili engan fjárhagsstyrk veitt þeim, og sé af þeim sökum einnig nauðsynlegt að kveða upp úrskurð, sem veiti sóknaraðila heimild til að fara með forsjá barnanna, meðan forsjármál aðila sé rekið fyrir dómstólum. Nauðsynlegt sé að benda á þann mikla aðstöðumun, sem sé á aðilum. Sóknaraðili hafi komið til landsins eftir sumarfrí í [...], og hafi henni verið vísað af heimili sínu og eingöngu fengið föt sín, en enga aðra muni, sem aðilar höfðu safnað í sameiningu, meðan á sambúðartímabili stóð. 

         Sóknaraðili telji nauðsynlegt, að það umhverfi, sem börn aðila séu í, sé stöðugt, meðan á rekstri málsins standi, og því sé ekki eðlilegt, að óvissa sé með dvalarstað þeirra á þessu tímabili.

         Sóknaraðili vísar enn fremur um málsástæður til greinargerðar í aðalmálinu. Þar kemur fram, að hún byggi kröfur sínar um forsjá barnanna á því, að það sé börnum hennar fyrir beztu, að hún fari með forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Að mati hennar hafi hún, fremur en varnaraðili, þá persónulegu eiginleika, sem þurfi til að sinna forsjá barna aðila. Hún hafi verið aðalumönnunaraðili beggja barnanna frá fæðingu þeirra. Frá því að aðilar komu til Íslands hafi varnaraðili unnið mikið utan heimilis þeirra, en sóknaraðili hafi verið heimavinnandi og þar með séð að mestu leyti um börn þeirra. Hún telji börn þeirra hafa tengzt henni mun sterkari böndum en föður sínum.

         Sóknaraðili telji það vera einlægan vilja beggja barnanna að vera búsett hjá henni en ekki föður. Sé nauðsynlegt, að vilji barna hennar verði kannaður, sbr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003. Eigi það sérstaklega við um eldra barn aðila, sem sé orðið þrettán ára gamalt.

         Þá skiptir einnig máli, að börn aðila hafi alfarið verið búsett hjá sóknaraðila frá því 7. febrúar 2012, og hafi varnaraðili frá þeim tíma ekki skipt sér af þeim nema í takmörkuðum mæli.

         Atferli varnaraðila bendi ekki til þess, að samskipti við hann vegna barnanna muni verði á jákvæðum nótum, fái hún forsjá barnanna. Hafi hann beitt hana yfirgangi, læst hana úti af heimili sínu, og hafi hún ekki getað fengið hluta búslóðar sinnar, sem að sönnu sé í jafnri eign beggja aðila, sbr. meginreglu 6. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

         Það bendir að sama skapi ekki til þess, að varnaraðila sé sérstaklega umhugað um börn sín, að hann veitti sóknaraðila ekki fé til uppihalds barnanna sumarið 2011, eins og venja hafi verið til. Hafi sóknaraðili þurft að reiða sig á góðvild móður sinnar til þess að hún hefði í börnin og á, meðan hún dvaldist í [...] umrætt sumar. Nauðsynlegt sé enn og aftur að benda á, að hún hafi verið tekjulaus, og heimavinnandi, meðan á sambandi aðila stóð.

         Sóknaraðili telji það einnig draga úr forsjárhæfni varnaraðila, að þegar börn hans komu frá [...] í ágúst 2011, hafi þrír ókunnugir aðilar verið búsettir á heimilinu, sem þau kannist ekki við, þar af einn, sem deilt hafi herbergi með föður þeirra. Telji sóknaraðili þetta ekki hafa verið nærgætið af varnaðaraðila, og hafi hann ekki komið fram af virðingu, hvorki við eigin börn né sóknaraðila í tengslum við samvistarslit þeirra.

         Þá sé lagt fram vottorð umsjónarkennara eldra barns aðila, þar sem fram komi, að á meðan barnið hafi verið búsett á heimili varnaraðila, hafi hegðunarvandamál þess aukist til mikilla muna. Þá hafi varnaraðili ekki svarað tölvupósti frá umsjónarkennara barnsins. Hafi umsjónarkennarinn einnig sagt, að eftir að barnið flutti til móður, hafi mikill munur verið á því og það líkara því, sem áður hafi verið, glaðara og jákvæðara.

         Allt ofangreint bendi til þess, að sóknaraðili skuli fá forsjá, en ekki varnaraðili.

         Krafa um meðlag byggist á 54. og 55. gr. barnalaga, og sé eingöngu krafizt einfalds meðlags, þ.e. að fjárhæð barnalífeyris, eins og hann sé ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.

         Sóknaraðili telji það rétt barnanna að hitta föður sinn og sé því gerð krafa um, að dómurinn ákveði umgengni þeirra við varnaraðila, fái sóknaraðili forsjá, og öfugt. Sóknaraðili hafi þó ekki upplýsingar um, hvort varnaraðili hafi yfirhöfuð áhuga á að umgangast börn sín og telji því ekki tímabært að koma með tillögu til umgengni, fái hún forsjá barnanna.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili byggir á því, að frá því að börnin fóru til sóknaraðila hafi hún markvisst haldið þeim frá varnaraðila. Þannig hafi varnaraðili aðeins fengið að hitta yngra barnið einu sinni.

         Eldra barninu hafi lent saman við sóknaraðila og flutt í kjölfarið í fjóra daga inn á heimili varnaraðila, án nokkurra vandkvæða.

         Þá hafi þær breytingar orðið á högum varnaraðila, að hann og sambýliskona hans hafi eignazt barn á sumardögum. Sóknaraðili hafi komið í veg fyrir, að drengirnir hitti lítið systkini sitt. Varnaraðili muni í öllu virða rétt drengjanna til samvista við sóknaraðila og telji sig líklegri til þess að virða rétt til umgengni, enda færi hátterni sóknaraðila heim sanninn fyrir því.

         Lögheimili barnanna sé hjá varnaraðila og gangi þau í [...]. Það væri sérstakt að færa lögheimili barnanna í annað sveitarfélag með tilheyrandi vandamálum, er varði skólavist o.fl. Varnaraðila sé ljóst, að mál þetta kunni að dragast á langinn og líkindi fyrir því að kveða þurfi til sérfróðan aðila til þess að ræða við drengina. Færsla lögheimilis myndi aðeins flækja málið til mikilla muna.

         Sóknaraðili hafi gert kröfu um, að varnaraðili láti honum eftir húsgögn úr íbúðinni að [...]. Varnaraðila sé það ómögulegt, enda hafi þau flutt inn í íbúð með húsgögnum á sínum tíma. Húsgögnin, sem sóknaraðili geri kröfu um að fá, séu í eigu þess aðila, sem leigt hafi þeim íbúðina, en hafi ekki orðið til hjá þeim á sambúðartíma. Þetta eigi sóknaraðila að vera ljóst.

         Aðilar hafi komizt að samkomulagi um að skilja, þegar sóknaraðili var í [...]. Lýsing sóknaraðila á því, að hún hafi komið til landsins úr sumarfríi og verið vísað af heimilinu séu færðar í stílinn. Það sjáist einna bezt á því, að hún hafi sent börnin á undan sér en ekki fylgt þeim heim og staðfesti það, að henni hafi ekki verið ókunnugt um, hvaða staða væri uppi í samskiptum hennar og varnaraðila.

         Varnaraðili hafi frá upphafi stutt börn sín og veitt þeim gott uppeldi. Varnaraðili telji jafnframt, að betra sé fyrir börnin að vera hjá sér. Það byggi hann á því, að hann hafi, vinnu sinnar vegna, ávallt verið í aðstöðu til að taka á móti börnunum, er þau komi heim úr skóla, aðstoða þau og veita þeim stuðning. Jafnframt sé núverandi sambýliskona hans á heimilinu og geti stutt við.

         Heimili sóknaraðila sé stúdíóíbúð í [...], í öðru sveitarfélagi, langt frá skóla drengjanna og vinum. Þá hátti svo til, að þegar sóknaraðili sé við vinnu, séu drengirnir einir heima, án nokkurrar viðveru. Telji varnaraðili, að þetta hafi skaðleg áhrif, og merki hann það einkum á versnandi frammistöðu drengjanna í skóla á vorönn.

         Í greinargerð sóknaraðila (stefndu) í forsjármálinu komi fram, að hún sé í ágætri stöðu og fullri vinnu. Það leiði til þess, að hún sé í góðri stöðu til þess að greiða með drengjunum meðlag.

         Vísað sé til málsástæðukafla í stefnu í forsjármáli varðandi málsástæður varnaraðila í forsjármálinu.

         Um varakröfu sé vísað til heimildar í 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og byggt á sömu rökum og að framan greini.

         Meðlagskrafa byggist á skyldu forsjárlauss foreldri til að greiða með uppeldi barna sinna.

         Sóknaraðili vísi kröfum sínum til stuðnings til 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 svo og athugasemda við frumvarp, sem varð að fyrrgreindum barnalögum, og eldri barnalaga nr. 20/1992. Krafa um meðlag byggist á 54. og 55. gr. sömu laga. Krafan um greiðslu málskostnaðar sé reist á 129. og 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Kröfur aðila í máli þessu eru um skipun forsjár yfir börnum aðila til bráðabirgða, þar til endanlegar verður skorið úr um forsjána með dómi í aðalmálinu. Heimild til að kveða upp úrskurð um forsjá til bráðabirgða er í 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í greinargerð með ákvæðinu segir m.a. svo, að rökin að baki þessari heimild séu þau, að það þyki mikilvægt að stuðla að því, að barn geti notið umgengni við báða foreldra, meðan forsjármál er til meðferðar, enda geti meðferð slíkra mála tekið langan tíma.

         Aðilar í máli þessu hafa sameiginlega forsjá barna sinna. Lögheimili barnanna er hjá föður þeirra, en þeir hafa meira og minna dvalist hjá móður sinni í [...] frá því í febrúar á þessu ári. Hafa þeir, að því er fram kemur í málatilbúnaði beggja aðila, haft lítil samskipti við föður sinn frá því að þeir fluttu til móður sinnar. Móðir telur föður hafa sýnt lítinn áhuga á að hafa samskipti við börnin, en faðir telur móður hafa hindrað samskipti.

         Ekkert það hefur komið fram í málinu, sem bendir til þess að börnunum sé hætta búin, andlega eða líkamlega, hjá öðru hvoru foreldra sinna, eða að þeim sé lítið eða illa sinnt. Þykja engar þær ástæður hafa verið færðar fram í málinu, sem leiða til þess að breyta því fyrirkomulagi á forsjá, sem nú er, og er kröfum beggja aðila um að þeir fari einir með forsjá drengjanna því hafnað. Með sömu rökum þykja ekki efni til að breyta lögheimili drengjanna.

         Með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga ákveðst, að drengirnir skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, viku í senn hjá hvoru foreldri, allt eftir nánara samkomulagi foreldra.

         Með hliðsjón af þessari niðurstöðu er kröfum málsaðila um greiðslu meðlags með börnunum hafnað.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfum aðila um breytingu á forsjá drengjanna, A og B, er hafnað.

         Drengirnir skulu búa hjá foreldrum sínum á víxl, viku í senn hjá hvoru foreldri, allt eftir nánara samkomulagi foreldra.

         Kröfu sóknaraðila um breytingu á lögheimili drengjanna er hafnað.

         Kröfum aðila um greiðslu meðlags er hafnað.

Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs dóms í forsjármálinu.