Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-219
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Orsakatengsl
- Örorkumat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Með beiðni 28. júní 2019 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. sama mánaðar í málinu nr. 877/2018: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur að fjárhæð 1.254.847 krónur ásamt vöxtum vegna líkamstjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir þegar ekið hafi verið aftan á bifreið hennar í maí 2016. Reisir leyfisbeiðandi kröfu sína á örorkumati læknis sem hún aflaði einhliða en í því var varanleg örorka hennar metin 2% og varanlegur miski 4 stig. Gagnaðili aflaði matsgerðar dómkvadds manns um ökuhraða bifreiðarinnar sem ekið var aftan á bifreið leyfisbeiðanda og komst hann að þeirri niðurstöðu að líklegasti hraði hennar hafi verið 8,5 km á klukkustund við áreksturinn. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi. Vísað var til þess að í örorkumati læknisins hafi einkennum leyfisbeiðanda verið lýst á svipaðan hátt og í læknisvottorði sem ritað hafi verið í febrúar 2016 í tengslum við umferðarslys sem leyfisbeiðandi varð fyrir á árinu 2014. Að þessu gættu og með hliðsjón af því að árekstur bifreiðanna í maí 2016 hafi verið mjög vægur var talið að leyfisbeiðanda hafi ekki tekist að sýna fram á orsakatengsl milli árekstursins og þeirra einkenna sem lýst hafi verið í örorkumatinu.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hún til þess að hún hafi aflað mats sérfróðs manns um afleiðingar slyssins í samræmi við 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þrátt fyrir það hafi gagnaðili sem sé stórt vátryggingafélag hafnað bótaskyldu án þess að reyna að hnekkja fyrirliggjandi mati með öflun matsgerðar dómkvadds manns eða álits örorkunefndar. Niðurstaða Landsréttar í málinu setji þær aðferðir sem skaðabótalög og dómaframkvæmd Hæstaréttar geri ráð fyrir í uppnám og geri vátryggingafélögum kleift að beita styrk sínum gagnvart einstaklingum og þvinga þá til að höfða dómsmál. Slík niðurstaða fæli menn frá því að leita réttar síns. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.