Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2013. |
|
Nr. 46/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað.
Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. febrúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á áðurgreinda kröfu um gæsluvarðhald yfir varnaraðila.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili játað við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa undir fölsku yfirskini fengið tvær sjö ára stúlkur til að fara upp í bifreið sína í [...] og ekið með þær á afvikinn stað við [...]. Þar kveðst varnaraðili hafa sett höndina á vanga annarrar stúlkunnar og kysst hana á kinnina. Einnig hafi hann klappað stúlkunum báðum á magann og strokið læri þeirra utanklæða. Þessi frásögn varnaraðila samrýmist því sem fram kom hjá stúlkunum við skýrslutöku af þeim fyrir dómi. Önnur þeirra sagði að vísu að varnaraðili hafi kysst sig tvisvar sinnum og við það hafi hún orðið óttaslegin og farið að gráta. Svo virðist sem varnaraðili hafi við þetta látið af framangreindri háttsemi sinni og ók hann stúlkunum þangað sem hann hafði upphaflega hitt þær.
Samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. Sú háttsemi sem að framan greinir að svipta stúlkurnar frelsi, þótt ekki væri nema í skamman tíma, getur falið í sér brot á þessari lagagrein, sbr. dóm Hæstaréttar 6. maí 1993 í máli nr. 440/1992 sem birtur er í dómasafni 1993, bls. 906.
Með gæsluvarðhaldi eru skert mikilsverð réttindi manna sem njóta verndar 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem svo er fyrir mælt að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sem krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er reist á, má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. greinarinnar séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til þess sem að framan greinir eru tvö fyrstnefndu skilyrðin fyrir gæsluvarðhaldi eftir 2. mgr. 95. gr. uppfyllt. Á hinn bóginn er það ekki nægilegt til að fallist verði á kröfu sóknaraðila, heldur verður þriðja skilyrðið, að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, jafnframt að vera til staðar.
Háttsemi varnaraðila fól í sér alvarlegt athæfi í garð stúlknanna tveggja. Það eitt og sér nægir þó ekki til þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu almannahagsmuna, heldur verður meira að koma til. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gerst sekur um sams konar háttsemi og að framan greinir. Að teknu tilliti til þess og að virtum þeim brotum, sem honum eru gefin að sök, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að nauðsyn beri til að úrskurða hann í gæsluvarðhald á grundvelli þess ákvæðis sem hér um ræðir. Samkvæmt því brestur lagaskilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður þar af leiðandi staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 18. febrúar 2013, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi borist tilkynning klukkan 14:23, miðvikudaginn 9. janúar sl. um að börn hafi verið tekin upp í bifreið hjá manni sem sýnt hafi af sér afbrigðilega hegðun. Rætt hafi verið við foreldra telpnanna og óformlega við telpurnar sjálfar en þær séu báðar sjö ára. Frásögn þeirra sé á þann veg að þær hafi farið saman í verslun [...] í [...] og höfðu hnuplað sælgæti. Eftir það hafi þær farið út og sest í strætisvagnabiðskýli fyrir austan [...]. Til þeirra hafi komið karlmaður sem kvaðst vera starfsmaður verslunarinnar sem hafi séð þær hnupla sælgætinu og sagði þeim að fylgja sér í bifreið sína. Hafi þær ekki þorað öðru, fylgdu honum og settust í aftursæti bifreiðar hans sem hafði verið lagt í botnlanga við [...]. Maðurinn hafi síðan ekið að [...] og skammað þær fyrir að stela. Hann hafi sest í aftursætið hjá þeim við hlið annarrar þeirrar, sagt þeim hvað þær væru „sætar,“ strokið læri þeirra og kysst aðra þeirra tvisvar á kinnina. Hafi þær á þessum tímapunkti verið orðnar hræddar og önnur þeirra farin að kjökra. Maðurinn hafi hætt og ekið þeim aftur að [...].
Í kjölfarið hafi lögreglan auglýst eftir manni þessum og hafi kærði gefið sig fljótlega eftir það fram við lögreglu. Hann hafi kannast við að hafa ekið með telpurnar upp að [...] umrætt sinn. Hann hafi séð þær hnupla sælgæti í verslun [...] og er hann kom út hafi hann séð þær sitja í strætóskýli í nágreninu. Kærði hafi þá farið og sótt bifreið sína sem hafi verið lagt í nágrenni við heimili hans að [...]. Hann hafi lagt bílnum í [...], gengið til telpnanna þar sem þær hafi setið í strætisvagnaskýlinu og beðið þær að koma með sér í [...] enda hafi hann séð þær hnupla sælgæti og ætlaði að segja til þeirra. Hann hafi ekið af stað með þær og kvað eitthvað hafa gerst „í höfðinu“ á sér. Þegar þangað hafi verið komið hafi hann tekið barnabílstól úr aftursætinu til þess að geta komið sér fyrir við hlið þeirra. Hafi kærði lýst því hvernig hann hefði snert þær utanklæða á læri og maga. Þá hafi hann spurt þær hvort þær ættu kærasta og kysst aðra þeirra. Þegar hann hafi séð „viðbrögð“ telpnanna hafi hann áttað sig á því að „þetta var rangt sem ég var að gera.“ Kærði kvaðst aldrei hafa gert nokkuð þessu líkt en teldi að „einhver dulin hneigð“ hafi komið fram hjá honum. Hann hafi ekki talið sig haldinn barnagirnd en „hljóti að vera þar sem hann hafi verið að gera þetta.“ Hann kvaðst ekki hafa haft neitt illt í hyggju.
Skýrsla hafi verið tekin af telpunum, A, kt. [...] og B, kt. [...], í héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. janúar sl. Hafi þær í meginatriðum borið á sama veg um að kærði hefði sagt við þær að hann hefði séð þær hnupla og að hann myndi segja lögreglunni til þeirra. Hafi þær orðið mjög hræddar og talið sinn kost vænstan að hlýða og fara í bifreið hans. Hafi þær lýst því hvert kærði hefði ekið með þær og kváðu hann hafa ætlað að aka inn í skóg. Þá hafi þær lýst áreiti kærða sem fólst í því að strjúka læri þeirra og kvið, með það að yfirskini að hann væri að leita á þeim, og kyssa aðra þeirra á kinnina. Fram hafi komið að á þessu stigi hafi önnur þeirra verið farin að gráta en hin við það að fara að gráta. Þær hafi verið skelfingu lostnar og hræddar um hvað kærði myndi gera þeim.
Farið hafi verið á vettvang annars vegar með telpurnar og hins vegar kærða, en svæðið sem um ræði sé kjarri vaxið og sjáist ekki frá þjóðvegi.
Eins og rakið hafi verið hafi kærði viðurkennt að hafa undir fölsku yfirskini ekið með telpurnar á fáfarinn stað við [...]. Þar hafi hann áreitt þær með nánar tilgreindum hætti. Í meginatriðum beri honum og telpunum saman um atburðarrásina.
Telja verði að fram sé kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið brot gegn telpunum er kann að varða við 193. gr. og 226. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Háttsemi kærða kunni að varða fangelsisrefsingu í allt að sextán ár. Brot kærða, sem virðist skipulagt, sé andstyggilegt, alvarlegt og hættuleg, þar sem hann nemi stúlkubörnin á brott með sér. Hann aki með þær á afvikinn stað þar sem hann í kynferðislegum tilgangi þukli á þeim og kyssi en að því er virðist hverfi frá fyrirætlan sinni þegar a.m.k. önnur telpan fer að gráta. Ætla megi að kærði glími við kynferðislegar hvatir til stúlkubarna á alvarlegu stigi. Þegar litið sé til þessa og eðlis og alvarleika brotsins sé talið óréttlætanlegt að kærði gangi laus.
Rannsókn málsins sé nú á lokastigi en samhliða hafi kærði gengist undir sálfræðimat sem sé langt á veg komið.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Ljóst er af framlögðum gögnum að kærði er undir sterkum grun um að hafa brotið gegn tveimur stúlkum 9. janúar sl. með því að hafa undir fölsku yfirskini fengið þær til að fara upp í bifreið sína við [...] í Reykjavík og ekið með þær að [...] þar sem hann strauk þeim utanklæða á læri og kvið og kyssti aðra þeirra á kinnina. Virðist kærði hafa hætt er stúlkurnar sýndu merki um hræðslu og ók þeim aftur að [...].
Samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga varðar það allt að 16 ára fangelsi eða ævilangt að svipta „foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá“. Beinist verknaðarlýsing að rétti foreldra eða annarra aðila til umráða og umsjá yfir barni og þarf ásetningur hins brotlega að ná til þess að svipta þá þeim rétti. Ekki liggur ljóst fyrir að háttsemi sú sem kærði er grunaður um varði við ákvæði þetta.
Sóknaraðili styður kröfuna að öðru leyti við að sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst brotlegur við 226. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn síðarnefnda ákvæðinu varðar allt að sex ára fangelsi en brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, sem hér virðist eiga við, varðar allt að fjögurra ára fangelsi. Ekki má úrskurða mann í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 nema að sterkur grunur leiki á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Í ljósi refsiramma fyrrgreindra lagaákvæða og þess sem að framan greinir fær dómurinn ekki séð að þessu skilyrði sé fullnægt. Því ber að hafna kröfu sóknaraðila.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi.