Hæstiréttur íslands
Mál nr. 618/2009
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
|
|
Fimmtudaginn 4. febrúar 2010. |
|
Nr. 618/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Jónasi Inga Ragnarssyni og(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Tindi Jónssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni.
J og T voru sakfelldir fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa um nokkurt skeið staðið saman að framleiðslu fíkniefna, ætluðum til söludreifingar og í því skyni framleitt rúm 38.000 grömm af efninu P-2-NP og ótiltekið magn af efninu P-2-P. Sannað þótti að framleiða hefði mátt rúm 14 kíló af hreinu amfetamíni úr því magni sem fannst við húsleit af efninu P-2-NP. Var háttsemi J og T talin varða við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var J jafnframt sakfelldur fyrir tvö önnur fíkniefnabrot með því að hafa haft í vörslum sínum fíkniefni, sem ætluð voru til söludreifingar. Þótt styrkleiki efnanna hefði verið lítill þótti hafið yfir vafa þegar litið var til magns þeirra að þau hafi verið ætluð til söludreifingar. Voru brot J samkvæmt síðari liðum ákærunnar talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að J og T stóðu saman að framleiðslu mikils magns fíkniefna í söluskyni en ekki þótti ástæða til að gera greinarmun á þætti þeirra í málinu. Brot þeirra voru stórfelld og urðu að teljast alvarlegri en innflutningur eða varsla fíkniefna. Þá var ásetningur þeirra styrkur og einbeittur. Litið var svo á að þeir ættu sér engar málsbætur. Refsing J fyrir umrædd brot var ákveðin í einu lagi, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í tíu ár, en refsing T fangelsi í átta ár. Ennfremur voru gerð upptæk ýmis tæki, búnaður og efni, sem lögregla hafði lagt hald á, og talið var að hefðu verið notuð eða ætluð til að framleiða fíkniefni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. október 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.
Ákærði Jónas Ingi Ragnarsson krefst sýknu af 1. ákærulið. Án tillits til niðurstöðu um þá kröfu krefst hann þess að refsing verði milduð.
Ákærði Tindur Jónsson krefst aðallega sýknu, en til vara að honum verði ekki gerð refsing eða hún milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu beggja ákærðu samkvæmt 1. lið ákæru, þó þannig að sannað er að framleiða hefði mátt rúm 14 kíló af hreinu amfetamíni úr því magni af efninu P-2-NP, sem um getur í ákærunni. Varðar háttsemi ákærðu við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Í niðurstöðu héraðsdóms varðandi 2. og 3. ákærulið segir að ákærði Jónas Ingi hafi skýlaust játað háttsemina sem honum er þar að sök gefin. Ákærði játaði við þingfestingu málsins að hafa haft í vörslum sínum fíkniefni sem greinir í þessum liðum ákæru, en mótmælti að hafa ætlað þau til söludreifingar. Þá kvað hann efnið sem um ræðir í 2. lið hafa verið ónothæfan úrgang og efnin í 3. lið „sérstaklega útþynnt“. Í niðurstöðu matsgerðar Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að magn tetrahýdrókannabínóls í sýni af kannabisefninu sem um getur í 2. lið sé 37 mg/g. Ekki verður fallist á með ákærða að efnið sé ónothæft til neyslu, þó að ljóst sé að það er talsvert undir meðalstyrk. Styrkur amfetamínbasa í amfetamíni sem fjallað er um í 3. lið mældist lítill, eða tæplega 3%. Þótt styrkleiki þessara efna sé lítill samkvæmt framansögðu er hafið yfir vafa þegar litið er til magns þeirra að þau hafi verið ætluð til söludreifingar. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Jónasar Inga samkvæmt 2. og 3. lið ákæru og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Ákvæði héraðsdóms um refsingu beggja ákærðu, frádrátt gæsluvarðhaldsvistar þeirra frá refsingunni, upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Einnig skal draga frá refsingu ákærða Jónasar Inga gæsluvarðhaldsvist hans frá 22. september 2009.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður, en frá refsingu ákærða, Jónasar Inga Ragnarssonar, skal draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 22. september 2009.
Ákærðu Jónas Ingi og Tindur Jónsson greiði hvor um sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, hæstaréttarlögmannanna Sveins Andra Sveinssonar og Brynjars Níelssonar, 439.250 krónur í hlut hvors. Ákærðu greiði í sameiningu annan áfrýjunarkostnað, 308.615 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. september 2009, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 2. júlí 2009, á hendur Jónasi Inga Ragnarssyni, kt. 110172-4199, óstaðsettum í hús í Reykjavík, og Tindi Jónssyni, kt. 070687-3569, Breiðvangi 28, Hafnarfirði, báðir með dvalarstað að fangelsinu Litla-Hrauni, „fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot, framin í Hafnarfirði á árinu 2008, í ágóðaskyni:
1. Gegn báðum ákærðu með því að hafa, um nokkurt skeið fram að 16. október að Móhellu 4e og Rauðhellu 1, staðið saman að framleiðslu fíkniefna, ætluðum til söludreifingar og hafa í því skyni framleitt 38.037,67 g af P-2-NP (phenyl2-nitropropene) og 3.555 ml af P-2-P (benzyl metýl ketón/BMK), en efnin fundust við húsleit þann dag. Með ofangreindu magni af P-2-NP hefði mátt framleiða að minnsta kosti 353 kg af amfetamíni en einnig hefði verið hægt að framleiða úr efninu metamfetamín.
2. Gegn ákærða Jónasi Inga með því að hafa fimmtudaginn 16. október, að Rauðhellu 1, haft í vörslum sínum 18.158,89 g af kannabis ætluðu til söludreifingar.
3. Gegn ákærða Jónasi Inga með því að hafa þann 16. október, að Móhellu 4e, haft í vörslum sínum ætluðu til söludreifingar, 692,95 g af amfetamíni og 75,36 g af kannabis.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og lög nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Upptökukröfur:
Þess er krafist að gerð verði upptæk ofangreind 38.037,67 g af P-2-NP, 3.555 ml af P-2-P, 18.159,89 g af kannabis og 692,95 g af amfetamíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um meðferð ávana- og fíkniefna og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
Jafnframt er þess krafist að tæki, búnaður og efni sem haldlögð voru og tilgreind eru á skjali merktu 1.0.68 til 1.0.216 í skjalaskrá lögreglu í máli nr. 007-2008-43364 og talin eru hafa verið notuð við ólögmæta meðferð efna eða ætluð til slíkrar notkunar verði gerð upptæk samkvæmt heimild í 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Málið var endurupptekið 28. september 2009 og lögð fram framhaldsákæra, útgefin 22. sama mánaðar. Með henni er leiðrétting gerð á framangreindri ákæru þannig að magn kannabis sem krafist er upptöku á er 18.234,25 g í stað 18.159,89 g. Málið var dómtekið á ný sama dag.
Ákærði Jónas Ingi krefst sýknu af 1. ákærulið, en til vara lægstu refsingar sem lög leyfa. Hvað varðar ákæruliði 2 og 3 er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði að öllu leyti eða að hluta.
Ákærði Tindur krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að honum verði ekki gerð refsing ellegar að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.
I.
Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 30. apríl 2008 bárust lögreglu upplýsingar um innflutning fyrirtækis í eigu ákærða Jónasar Inga Ragnarssonar, Hjúps ehf., á varningi sem notaður er til ræktunar á kannabisplöntum. Í júlí á sama ári bárust lögreglu jafnframt upplýsingar frá aðila um að ákærði Jónas Ingi hefði til sölu mikið magn amfetamíns. Við rannsókn lögreglu kom í ljós að ákærði Tindur Jónsson hefði aðstoðað ákærða Jónas Inga við að flytja varning.
Í rannsóknarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hinn 24. júlí 2008 hófust hleranir á símum ákærðu. Einnig var fylgst með ákærðu fara oft að Móhellu 4e í Hafnarfirði. Jafnframt fóru ákærðu oft í fyrirtækið Parlogis hf. og sóttu þar vörur sem voru keyptar af fyrirtækinu Gróco ehf., sem selur tæki og rekstrarvörur fyrir rannsóknarstofur. Enn fremur kom í ljós að sendingar til Hjúps ehf. innhéldu ýmsan glervarning til notkunar á rannsóknarstofum. Í byrjun ágúst fékk lögreglan svo upplýsingar um að ákærði Jónas Ingi hefði, fyrir hönd Hjúps ehf., pantað 1.000 kg af mannitol, en síðan breytt pöntuninni í mjólkursykur (laktósa). Þessar upplýsingar, ásamt lista yfir vörur sem Hjúpur ehf. hafði sótt hjá Parlogis ehf., voru bornar undir sérfræðinga hjá Europol og bandarísku alríkislögreglunni í Las Vegas.
Í ljósi framangreindra upplýsinga fékk lögreglan dómsúrskurð sem heimilaði henni að setja upp búnað til að hlusta og hlera samtöl og önnur hljóð í Móhellu 4e, Hafnarfirði. Þá voru teknar myndir í húsnæðinu og vettvangur kannaður. Við símhlustun 1. október 2008 kom í ljós að ákærðu fengu afhent iðnaðarhúsnæði að Rauðhellu 1 og sást til þeirra flytja hluti frá Móhellu 4e í Rauðhellu 1. Lögregla fékk í framhaldi af því heimild til að hlera samtöl og önnur hljóð í Rauðhellu 1. Aðfaranótt 16. október 2008 fór lögregla inn í húsnæðið til að laga búnað sem hún hafði komið fyrir og var þá ákveðið að stöðva framleiðslu sem þar var í gangi. Ákærði Jónas Ingi var handtekinn á vettvangi um morguninn og ákærði Tindur var handtekinn skömmu síðar skammt frá heimili sínu.
II.
Fjölmörg skjöl liggja fyrir í gögnum málsins, m.a. skýrslur tæknideildar lögreglu ásamt myndum sem teknar voru af munum og efnum sem fundust að Móhellu 4e og Rauðhellu 1, sem og skýrslur sérfræðinga, matsgerðir og skjöl sem fundust í tölvum ákærðu.
Í skýrslu Europol, dags. 19. desember 2008, kemur fram að tveir starfsmenn lyfjadeildar Europol, Andre van Rijn og Daniel Dudek, aðstoðuðu lögreglu við rannsókn málsins og á vettvangi 16. ágúst 2008. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að smíði og uppsetning búnaðar á vettvangi hafi verið fagmannleg og með svipuðum hætti og á ýmsum ólöglegum framleiðslustöðum nýmyndaðra lyfja sem hafi verið gerðir upptækir innan Evrópusambandsins. Búnaðurinn hafi verið mjög sérhæfður og af mjög miklum gæðum. Þá hafi búnaðurinn og efnin bent til aðkomu aðila með efnafræðilega þekkingu.
Í skýrslunni er því lýst hvernig P-2-NP er notað til að framleiða forefnið P-2-P. Með svokallaðri Leuckart-nýmyndun sé svo P-2-P, ásamt formamíði, maurasýru og saltsýru, notað til að framleiða amfetamín. Þessi framleiðsluaðferð sé algengust. Enn fremur segir í skýrslunni að í stað þess að ummynda P-2-NP í P-2-P, sem svo sé notað til að framleiða amfetamín, sé hægt að breyta P-2-NP beint í amfetamín með afoxun. Fram kemur að þessi aðferð krefjist efnafræðilegrar þekkingar og sérhæfðs búnaðar. Sjaldgæft sé að nota þessa aðferð, nema þegar framboð sé lítið af P-2-P á svörtum markaði eða vegna vandamála við innflutning.
Þá er í skýrslunni reiknað út hversu mikið amfetamín hefði mátt framleiða úr P-2-NP sem fannst á vettvangi, 38,036 kg. Með beinni afoxun á P-2-NP hefði mátt, miðað við 50% afrakstur, framleiða 19,018 kg af amfetamíni, en miðað við 70% afrakstur hefði mátt framleiða 26,625 kg. Með því að þynna amfetamínið í hlutföllunum frá 1:15 og allt að 1:24 fáist 304-475 kg. Hvað varðar 70% afrakstur fáist 426-666 kg með þynningu.
Með afoxun á 38,036 kg af P-2-NP megi fá 28,527 kg af P-2-P eða 28,245 lítra. Með Leuckart-nýmyndun væri hægt að ummynda það í amfetamín og fá 14,122 kg ef miðað væri við 50% afrakstur. Ef það væri þynnt í hlutföllunum 1:15 og allt að 1:24 fengjust 226-353 kg. Miðað við 70% afrakstur fáist 19,772 kg, eða 316-494 kg eftir því hvaða þynningarhlutfall væri notað.
Lögreglan fékk einnig Má Másson prófessor á vettvang hinn 16. október 2008. Í matsgerð hans, dags. 10. mars 2009, segir að á Rauðhellu hafi verið í gangi framleiðsla þar sem verið var að umbreyta P-2-NP í P-2-P. Þá hefðu fundist efni á Móhellu sem hefði verið hægt að nota til að framleiða amfetamín eða metamfetamín. Í matsgerðinni er jafnframt lýst nokkrum aðferðum við framleiðslu amfetamíns, m.a. Leuckart-nýmundun. Einnig er bent á í matsgerðinni að töluvert magn fannst á vettvangi af metýlamín í 40% vatnslausn (44 lítrar) sem nota megi í framleiðslu metamfetamíns úr P-2-P. Önnur algeng framleiðsluaðferð sé að nota „reductive amination“ (afoxunaramínun). Öll tæki til þess hefðu fundist á staðnum, en vetnisgas hefði vantað. Fundist hefðu 10 g af platinu (IV) oxíð, sem kosti um 250.000 krónur, en lítið magn þurfi af efninu til að framleiða mikið magn af fíkniefnum. Jafnframt segir að við þessa aðferð þurfi sérhæfðan vetnunarbúnað og hann hefði fundist á staðnum.
Amfetamíninu, sem fannst að Móhellu 4e, samtals 692,95 g, var pakkað með brúnu límbandi í sjö pakka. Tekin voru sýni úr tveimur pökkum. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 25. nóvember 2008, var styrkur amfetamínbasa í öðru sýninu 2,8%, sem samsvarar 3,8% af amfetamínsúlfati. Í hinu sýninu reyndist styrkur amfetamínbasa vera 2,9%, sem samsvarar 3,9% af amfetamínsúlfati. Þá kemur fram í sömu matsgerð að magn tetrahýdrókannabínóls í kannabisi sem lögregla lagði hald á, sbr. 2. tl. ákæru, hafi verið 37 mg/g.
Sýni af amfetamíninu, ásamt sýnum af laktósa sem fannst á vettvangi, voru einnig send til rannsóknarstofu sænska ríkisins í réttarvísindum (SKL). Í sérfræðiáliti rannsóknarstofunnar, dags. 19. mars 2009, kemur m.a. fram að í sýnum hefðu fundist 4% amfetamínsúlfat, koffín og laktósi. Samanburðarrannsóknir á amfetamíninu bentu eindregið til þess að sýnin hefðu verið úr sömu framleiðslulotu. Þá hefði amfetamínið verið búið til úr P-2-P með aðferð Leuckarts. Einnig bentu niðurstöður til þess að það P-2-P sem notað hafi verið til framleiðslu á því amfetamíni sem fannst hafi ekki verið gert úr P-2-NP.
Við rannsókn lögreglu á tölvum ákærðu fundust fjölmörg skjöl um framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Í tölvu sem haldlögð var á heimili ákærða Jónasar Inga fannst t.d. skjalið „Large-Scale Methamphetamin Manufacture“, en þar er framleiðslu metamfetamíns lýst á ítarlegan hátt. Auk þess fundust skjöl um lífræna efnafræði fyrir byrjendur og lengra komna. Í tölvu sem fannst í bifreið var m.a. skjal frá 16. júní 2007, vistað af Tindi Jónssyni, sem ber heitið „Reduction of 1-phenyl-2-nitropropene to amphetamine.“ Í skjalinu „Production of C9H13N“, efnafræðilegri formúlu amfetamíns, kemur fram að höfundur þess sé Guðmundur og það hafi síðast verið vistað af Jónasi Inga Ragnarssyni 24. ágúst 2005. Í tölvu sem haldlögð var á heimili ákærða Tinds var m.a. grein um „Al/HG Reductive amination under pressure“ og fjallar hún um framleiðslu metamfetamíns. Í annarri grein með heitinu „Home Hydrogenation“ er einnig lýst hvernig búa skuli til metamfetamín með vetnun. Einnig fannst skjal með greininni „Large-Scale Methamphetamine Manufacture“ og skjalið „nitroproppene.cth“ sem fjallar um framleiðslu amfetamíns. Auk þess fundust í tölvunni skjöl um framleiðslu annarra fíkniefna, s.s. LSD og maríhúana. Þá fannst hjá Hjúpi ehf., að Laugavegi 178, geisladiskur með ýmsum skjölum um framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Þar er m.a. að finna grein þar sem svokallaðri „Leuckart aðferð“ er lýst á ítarlegan hátt.
III.
Ákæruliður 1
Í skriflegri greinargerð ákærða Jónasar Inga er vísað til þess að hann hafi játað við þingfestingu málsins að hafa staðið að framleiðslu á efninu P-2-NP (phenyl-2-nitropropene) og efninu P-2-P (benzyl metýl ketón/BMK), en mótmælt því að efnið hafi verið í því magni sem tilgreint er í ákæru. Ákærði neitar því að til hafi staðið að framleiða amfetamín eða metamfetamín úr þessum efnum og hann ber brigður á að unnt hefði verið að framleiða það magn amfetamíns sem greinir í ákæru.
Krafa ákærða um sýknu byggist á því að framleiðsla á P-2-NP og P-2-P sé ekki refsiverð samkvæmt lögum nema sannað sé að framleiðsla þeirra sé í þeim tilgangi að búa til fíkniefni, sbr. 4. gr. a laga nr. 65/1874.
Ákærði kveður að í ákæruskjali séu hann og meðákærði ákærðir fyrir að hafa staðið að framleiðslu fíkniefna, með framleiðslu ofangreindra efna sem úr hefði mátt framleiða amfetamín eða metamfetamín. Þeir séu hins vegar ekki ákærðir fyrir að hafa framleitt eða hafa ætlað að framleiða amfetamín eða metamfetamín. Í ákæruskjali sé brot ákærða talið varða við 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Síðarnefndu lögin tilgreini þau efni sem teljist ólögmæt og í reglugerð nr. 233/2001, sem sett sé með heimild í lögunum, sé tilvísun í öll þau efni sem teljast til ávana- og fíkniefna og önnur eftirlitsskyld efni. Sé þar stuðst við þrjá alþjóðlega samninga um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sem séu talin upp í fylgiskjölum I og II með reglugerðinni.
P-2-NP sé hvorki fíkniefni í skilningi laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, né eftirlitsskylt efni. Það sé hvorki í skrám yfir slík efni, í reglugerð nr. 233/2001, sem sett sé með heimild í lögum nr. 65/1974, né þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að. P-2-NP sé hins vegar unnt að nota til framleiðslu á P-2-P, en til hafi staðið að nota P-2-NP í þeim tilgangi.
Ákærði segir að P-2-P sé heldur ekki fíkniefni í skilningi laga nr. 65/1974. Það sé hins vegar eftirlitsskylt efni, sbr. fylgiskjal II með reglugerð nr. 233/2001, enda megi nota það sem milliefni við framleiðslu fíkniefna.
Refsiheimildir fyrir fíkniefnabrot sé að finna í 2. og 3. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Ávana- og fíkniefni sem tilgreind séu í 2. gr. laganna séu með öllu bönnuð á íslensku yfirráðasvæði. Í 3. gr. séu settar takmarkanir við því að efni eða lyf sem þar greinir verði notuð í öðru skyni en í læknisfræðilegum eða vísindalegum tilgangi. Mörkin milli efna samkvæmt 2. gr. annars vegar og 3. gr. hins vegar byggi á alþjóðlegum samningum frá 1961 og 1971 sem vísað sé til í 1. og 2. tölulið 1. gr. reglugerðarinnar. Þannig sé í 2. gr. skírskotað til efna sem merkt séu N I-N IV í fylgiskjali I og í 3. gr. til efna sem merkt séu P I-P IV í sama fylgiskjali. Efnið P-2-P sé í fylgiskjali II, merkt D I sem vísað sé til í 3. tölulið 1. gr. reglugerðarinnar, samkvæmt samningi frá 1988. Því eigi framleiðsla á P-2-P ekki undir 2. og 3. gr. laganna.
Í 4. gr. laga nr. 65/1974 sé kveðið á um að 2. og 3. gr. laganna gildi einnig um hráefni sem unnt sé að vinna úr eða breyta í ávana- og fíkniefni. Hafi ákvæðum þessum einkum verið beitt um vörslu, ræktun eða aðra meðferð platna sem unnt sé að vinna fíkniefni úr. Í greinargerð með 4. gr. segi að ákvæðið sé sett til öryggis og eigi að ná yfir efnisblöndur, efnisleifar og afganga. Það sé því ljóst að ákvæðið eigi aðeins við um hráefni sem innihaldi grunnefni fíkniefnisins sem vinna megi úr hráefninu, s.s. kannabisplöntur, tóbaksblandað hass o.s.frv. Ákvæði 4. gr. nái því hvorki til P-2-P né P-2-NP, enda sé ekki hægt að breyta þeim í fíkniefni nema að bæta við öðrum efnum og efnahvörfum.
Það sé hins vegar meira álitaefni hvort framleiðsla og vörslur framangreindra efna geti verið brot á 4. gr. a. Þá þurfi að liggja fyrir að ákærði hafi vitað að nota ætti þau til framleiðslu fíkniefna. Þetta ákvæði hafi komið inn í lögin árið 1997 og fjalli um efni sem nota megi við framleiðslu ávana- og fíkniefna. Þetta séu efni sem ekki dugi ein og sér við framleiðslu fíkniefna því þau innihaldi ekki grunnefni fíkniefnis. Þetta séu efni sem komi inn með alþjóðasamningnum frá 1988.
Ákvæði 2.-4. gr. laganna nái ekki til efna á skrá I og II með fíkniefnasamningnum 1988 (merkt D I og D II í reglugerðinni). Í sömu athugasemd með greininni segi jafnframt að efnin á skrá I og II, í samningnum frá 1988, séu í reynd talin með tækjum eða hlutum sem notuð séu til ólöglegrar framleiðslu á fíkniefnum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a sé þannig ekki ætlast til að meðferð þeirra verði refsiverð á grundvelli ákvæðisins nema hún standi í beinu sambandi við framleiðslu, flutning eða dreifingu fíkniefna. Með orðalagi ákvæðisins "til notkunar" sé ætlast til að sanna verði ásetning til þess að nota efnin í þessu skyni.
Ákærði Jónas Ingi kveðst hafa haft vitneskju um að úr þeim efnum sem tilgreind séu í ákæru mætti búa til amfetamín, en þar með sé ekki sagt að hann hafi vitað að það hafi staðið til að framleiða amfetamín úr þessum efnum.
Ákærði Jónas Ingi áréttar að hann neiti því að til hafi staðið að framleiða amfetamín eða metamfetamín. Ekkert liggi fyrir í málinu um að slík áform hafi verið uppi, né heldur liggi nokkuð fyrir um að vitneskja hafi verið um það hjá ákærða að til hafi staðið að framleiða fíkniefni úr þessum efnum. Ákærði vísar til Europol-skýrslunnar þar sem fram komi að þrátt fyrir að búnaður til beinnar umbreytingar á P-2-NP í amfetamín hafi verið á staðnum, hafi hins vegar ekki verið til staðar nauðsynleg efni fyrir það ferli. Segi síðan í skýrslunni að framleiðsla á P-2-P gefi það til kynna að hinir grunuðu notuðu hefðbundna aðferð, líklega Leuckart-nýmyndun. Efnin formamíð og ammoníumformat, sem notuð séu við Leuckart-nýmyndun, hafi ekki verið á staðnum en unnt hefði verið að flytja þau á staðinn um leið og framleiðslan ætti að eiga sér stað. Ákærði segir að þetta séu hreinar getgátur, en að sama skapi staðfesting á því að þegar lögregla lét til skarar skríða hafi staðan verið sú að ekki hafi verið unnt að framleiða amfetamín eða metamfetamín. Einnig vísar ákærði til þess að í skýrslu Europol komi fram að efnið P-2-P gangi kaupum og sölum á svörtum markaði. Þetta styðji þá frásögn ákærða að hann hafi verið beðinn um að framleiða P-2-P fyrir ótilgreindan aðila. Vangaveltur um nýtingu mjólkursykursins sem fannst á Móhellu breyti hér engu, enda hafi ákærði stundað sölu á ýmsum efnum og íhlutum sem hugsanlega hefði mátt nota í þeim tilgangi að varsla, vigta eða drýgja fíkniefni. Engin sönnun liggi þannig fyrir því í málinu að ákærði hafi ætlað sér að framleiða amfetamín eða metamfetamín eða haft um það vitneskju.
Ákærði telur óljóst hvort í ákæru sé verið að ákæra fyrir tilraun til fíkniefnaframleiðslu (amfetamíns) með því að framleiða P-2-NP og P-2-P eða hvort það sé sjálfstætt brot að framleiða þessi efni. Eins og að framan greini sé það brot gegn 4. gr. a laga nr. 65/1974 að framleiða þessi efni verði sannað að það hafi verið gert í því skyni að búa til fíkniefni. Brot gegn þeirri grein verði aldrei heimfærð til 173. gr. a almennra hegningarlaga, enda hafi fíkniefni ekki verið afhent öðrum á sérstaklega saknæman hátt eða fíkniefni framleidd í sama skyni. Ákvæði 173. gr. a fjalli um stórfelld brot á 2.-4. gr. laganna um ávana- og fíkniefni, en ekki um 4. gr. a sem fjalli um önnur eftirlitsskyld efni og tæki sem nota eigi til fíkniefnaframleiðslu, enda það ákvæði ekki komið í ávana- og fíkniefnalögin þegar ákvæði 173. gr. a var lögfest. Refsiheimild 173. gr. a almennra hegningarlaga nái því ekki til brota á 4. gr. a laga nr. 65/1974.
Ákærði telur að verknaðarlýsing ákæru nægi ekki til að refsa fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnabrots sem heimfært væri undir 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 2.-4. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Það komi ekki fram í verknaðarlýsingu að um tilraunabrot sé að ræða og ekki sé vísað til 20. gr. almennra hegningarlaga. Í raun standist verknaðarlýsing ákæru ekki með góðu móti því ekki gangi að segja að ákærðu hafi staðið saman að framleiðslu fíkniefna með framleiðslu P-2-NP og P-2-P þar sem framleiðsla á þeim efnum sé ekki refsiverð nema hún sé gerð í þeim tilgangi að framleiða fíkniefni.
Varðandi magn P-2-NP segir ákærði að rétt sé að halda því til haga að eftir hafi átt að ná úr efninu miklu magni af metanóli sem samsvari um 20-30% af magninu. Hvað varðar magn P-2-P þá sé ljóst að þær tölur sem fram koma í ákæru séu víðs fjarri, enda hafi sá vökvi sem lagt var hald á verið 90% vatn sem hafi átt eftir að eima í burtu. Það sé því nærri lagi að tala um að um 350-400 ml af P-2-P hafi verið að ræða.
Ákærði telur út í hött að það hefði mátt framleiða 353 g af amfetamíni, eins og greinir í ákæru. Það magn amfetamíns sem unnt hefði verið að framleiða úr P-2-NP verði að miðast við hreint amfetamín, en ekki eftir að blandað hafi verið út í það íblöndunarefnum. Vísar ákærði í þessu sambandi til dómafordæma þar sem flutt hafi verið inn nánast hreint amfetamín, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 667/2006. Í því máli hafi verið smyglað til landsins tæplega 12 kg af hreinu amfetamíni. Samkvæmt matsgerð sem fyrir lá í málinu hefði verið unnt að drýgja efnið og fá úr því um eða yfir 30 kg af amfetamíni með rúmlega 20% styrkleika. Ákærðu í málinu hafi ekki verið dæmdir fyrir innflutning á 30 kg af amfetamíni heldur hafi styrkleikinn á 12 kg verið metinn til refsiþyngingar og fangelsisrefsing ákveðin 7 ár. Einnig vísar ákærði til dóms Hæstaréttar í máli nr. 417/2006, en í því máli hafi verið um að ræða innflutning á 1.745 ml af vökva er innihélt amfetamínbasa og hefði mátt framleiða úr honum 1.813 g af amfetamínsúlfati væri hámarksárangri náð. Miðað við 10% styrkleika hefði mátt framleiða úr þessu 13,3 kg af amfetamíni. Hafi styrkleikinn verið metinn til refsiþyngingar og fangelsisrefsing ákveðin fjögur ár. Svipaða sögu sé að segja af dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2006.
Ákærði segir að í máli því sem hér sé til úrlausnar sé það niðurstaða sérfræðinga Europol að framleiða hefði mátt úr P-2-NP, miðað við 50% afrakstur, um 14 kg af hreinu amfetamíni. Hugsanleg þynning eftir það séu bara tilgangslausar vangaveltur.
Ákæruliður 2
Í greinargerð ákærða Jónasar Inga segir að hann sé ekki eigandi efnanna, en viðurkenni vörslur þeirra. Líta beri til þess að um kannabisúrgang sé að ræða með lítil sem engin vímuáhrif.
Ákæruliður 3
Ákærði Jónas Ingi viðurkennir í greinargerð sinni vörslur á 692,95 g af amfetamíni og 75,36 g af kannabis, en kveðst ekki vera eigandi efnanna. Líta beri við refsiákvörðun til mjög lítils styrkleika efnanna.
IV.
Í greinargerð ákærða Tinds segir að hann hafi viðurkennt að hafa að beiðni meðákærða aðstoðað hann við framleiðslu á P-2-NP og P-2-P, en hann geri athugasemd við það magn sem tilgreint sé í ákæru. Þessi efni séu ekki fíkniefni og að það hafi aldrei staðið til að nota þessi efni til framleiðslu á fíkniefnum. Þá telur ákærði að framleiðsla á P-2-NP og P-2-P verði ekki heimfærð undir 173. gr. a almennra hegningarlaga.
Ákærði segir að forsaga málsins sé sú að hann hafi aðstoðað meðákærða Jónas Inga við framleiðslu eldvarnarefnis. Hafi ákærðu talið að um ábatasama framleiðslu gæti orðið að ræða ef vel tækist til. Hafi hann talið verkefnið svo vænlegt til árangurs að hann hafi tekið þátt í frumkvöðlakeppni hjá Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetri. Síðar hafi ákærði samþykkt að aðstoða meðákærða við að framleiða P-2-NP og síðan úr því P-2-P, en meðákærði hefði sagst hafa kaupanda að slíku efni. Á þeim tíma hefði ákærði enga vitneskju haft um að hægt væri að nota P-2-P til framleiðslu á ólöglegum fíkniefnum. Meðákærði hafi séð um að útvega öll tæki og efni til framleiðslunnar, sem og húsnæði. Þáttur ákærða hafi verið að aðstoða við framleiðslu efnanna, enda hafi honum sem efnafræðanema fundist það ögrandi verkefni.
Krafa ákærða um sýknu byggist á því að framleiðsla á P-2-NP og P-2-P sé ekki refsiverð samkvæmt lögum. Heimilt sé þó að refsa fyrir framleiðslu á P-2-P ef sannað er að framleiðsla þess sé í þeim tilgangi að búa til fíkniefni, sbr. 4. gr. a laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Ákærði kveður það bæði rangt og ósannað að til hafi staðið að framleiða fíkniefni. Verði framleiðsla framangreindra efna talin brot á 4. gr. a laganna byggir ákærði varakröfu sína á því að brotið verði ekki heimfært undir 173. gr. a almennra hegningarlaga.
Í 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni séu tilgreind þau efni sem séu óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Í 2. mgr. 2. gr. laganna sé ráðherra heimilað að mæla svo fyrir í reglugerð að vörslur og meðferð annarra fíkniefna, sem sérstaklega mikil hætta sé talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum, sé á sama hátt óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Um þetta gildi reglugerð nr. 233/2001. Í 1. gr. reglugerðarinnar sé tilvísun í öll þau efni sem teljist til ávana- og fíkniefna og önnur eftirlitsskyld efni. Þar sé stuðst við þrjá alþjóðlega samninga um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sem séu talin upp í fylgiskjölum I og II með reglugerðinni. Í fylgiskjali I séu öll efni merkt N I-N IV og P I-P IV eftirritunarskyld. Þar sé stuðst við alþjóðasamninga, annars vegar frá 1961 (Single Convention on Narcotic Drugs) og hins vegar frá 1971 (Convention on Psychotropic Substances). Sum þeirra séu merkt með x í dálki B í fylgiskjali I sem þýði að öll meðferð þeirra sé óheimil á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði 2. og 3. gr. laganna eigi við um þau efni. Í fylgiskjali II, merkt D I og D II, séu tilgreind efni sem aðeins megi flytja út og inn, framleiða og selja í heildsölu að fengnu leyfi ráðherra. Sé þar stuðst við samning frá 1988 (United Nation Convention against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic Substances). Efnið P-2-P sé merkt D I í fylgiskjali II. Hins vegar sé efnið P-2-NP hvergi að finna í lögum um ávana- og fíkniefni eða í reglugerðinni og fylgiskjölum.
Refsiheimildir fyrir fíkniefnabrot sé að finna í 2. og 3. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Ávana- og fíkniefni sem tilgreind séu í 2. gr. laganna séu með öllu bönnuð á íslensku yfirráðasvæði. Í 3. gr. séu settar takmarkanir við því að efni eða lyf sem þar greini verði notuð í öðru skyni en í læknisfræðilegum eða vísindalegum tilgangi. Greinarmörk 2. og 3. gr. séu að verulegu leyti reist á flokkun alþjóðasamninganna tveggja frá 1961 og 1971, sem vísað sé til í 1. og 2. tölulið 1. gr. reglugerðarinnar. Þannig sé í 2. gr. laganna skírskotað til efna sem merkt séu N I-N IV í fylgiskjali I og í 3. gr. laganna til efna sem merkt séu P I-P IV í sama fylgiskjali. Efnið P-2-P sé í fylgiskjali II, merkt D I sem vísað sé til í 3. tölulið 1. gr. reglugerðarinnar, samkvæmt samningi frá 1988. Því eigi framleiðsla á P-2-P ekki undir 2. og 3. gr. laganna.
Í 4. gr. laganna sé öryggisákvæði sem kveði á um að 2. og 3 gr. laganna gildi einnig um hráefni sem unnt sé að vinna úr eða breyta í ávana- og fíkniefni. Hafi ákvæði þessu einkum verið beitt þegar um er að ræða vörslur, ræktun eða aðra meðferð plantna sem unnt sé að vinna fíkniefni úr. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum um ávana- og fíkniefni segi um 4. gr. að hún sé sett til öryggis og eigi að ná yfir efnisblöndur, efnisleifar og afganga. Ákærði telur því ljóst að ákvæðið eigi aðeins við um hráefni sem innihaldi grunnefni fíkniefnisins sem vinna megi úr hráefninu, s.s. kannabisplöntur, hassblandað tóbak o.s.frv. Ákvæði 4. gr. nái því hvorki til P-2-P né P-2-NP, enda sé ekki hægt að breyta þeim í fíkniefni nema að bæta við öðrum efnum og efnahvörfum.
Hins vegar geti framleiðsla og vörslur á efninu P-2-P verið brot á 4. gr. a ef ákærði hefur vitað að nota ætti það til framleiðslu fíkniefna. Þessi grein hafi komið í lögin árið 1997 og fjalli um efni sem nota megi við framleiðslu ávana- og fíkniefna. Þetta séu efni sem ekki dugi ein og sér við framleiðslu fíkniefna því þau innihaldi ekki grunnefni fíkniefnis. Þetta séu efni sem komi inn með alþjóðasamningnum frá 1988 og tilgreind séu í fylgiskjali II, merkt D I og D II. Í athugasemd með frumvarpinu komi fram að lagabreyting þessi hafi verið nauðsynleg til þess að Ísland gæti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988. Í athugasemd við þessa grein segi:
Með þessu ákvæði frumvarpsins er stefnt að því að verknaðir sem lýst er í (iv)- lið (a) liðar og (ii) lið, (c) liðar 1. mgr. 3. gr. fíkniefnasamningsins verði skýrlega gerðir refsiverðir samkvæmt lögunum um ávana- og fíkniefni. Vegna sérstöðu efna, svo og tækja og hluta sem talin eru upp í ákvæðinu samanborið við ávana- og fíkniefni sem falla undir 2.-4. gr. laganna, þykir rétt að refsiheimild vegna meðferðar þeirra verði í sérstakri grein, 4. gr. a í lögunum. Í núgildandi löggjöf skortir heimild til þess að refsa mönnum fyrir vörslur og meðferð tækja, hluta eða efna sem skráð eru í skrá I og II með fíkniefnasamningnum frá 1988 í þeirri vitneskju að þau skuli notuð til ólöglegrar ræktunar, framleiðslu eða tilbúnings fíkniefna eða skynvilluefna.
Ákærði telur að hér fari ekki á milli mála að ákvæði 2.-4. gr. laganna nái ekki til efna á skrá I og II með fíkniefnasamningnum 1988 (merkt D I og D II í reglugerðinni). Í áðurgreindri athugasemd með frumvarpinu segi jafnframt að efnin á skrá I og II í samningnum frá 1988 séu í reynd talin með tækjum eða hlutum sem notuð séu til ólöglegrar framleiðslu á fíkniefnum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a sé þannig ekki ætlast til að meðferð þeirra verði refsiverð á grundvelli ákvæðisins nema hún standi í beinu sambandi við framleiðslu, flutning eða dreifingu fíkniefna. Með orðalagi ákvæðisins „til notkunar“ sé ætlast til að sanna verði ásetning til þess að nota efnin í þessu skyni.
Ákærði mótmælir því að hann hafi ætlað að framleiða amfetamín eða önnur fíkniefni; það sé bæði rangt og ósannað. Í framlagðri skýrslu frá Europol telji skýrsluhöfundar líklegast að nota hafi átt P-2-P efnið til framleiðslu á amfetamíni með svokallaðri Leuckart-aðferð. Ákærði segir að hann viti svo sem ekkert hvað væntanlegir kaupendur hafi ætlað að gera við efnið. Hins vegar liggi fyrir samkvæmt skýrslu Europol að hvorki efni né tæki í vörslum ákærðu hafi gert þeim kleift að framleiða amfetamín eða önnur fíkniefni.
Ákærði telur óljóst hvort í ákæru sé verið að ákæra fyrir tilraun til fíkniefnaframleiðslu (amfetamíns) með því að framleiða P-2-NP og P-2-P eða hvort það sé sjálfstætt brot að framleiða þessi efni. Það sé brot gegn 4. gr. a laga nr. 65/1974 að framleiða efnið P-2-P verði sannað að það hafi verið gert í því skyni að búa til fíkniefni. Brot gegn þeirri grein verði aldrei heimfært undir 173. gr. a almennra hegningarlaga, enda hafi fíkniefni ekki verið afhent öðrum á sérstaklega saknæman hátt eða fíkniefni framleidd í sama skyni. Ákvæði 173. gr. a fjalli um stórfelld brot á 2.-4. gr. laganna um ávana- og fíkniefni, en ekki um 4. gr. a sem fjalli um önnur eftirlitsskyld efni og tæki sem nota eigi til fíkniefnaframleiðslu, enda hafi það ákvæði ekki verið komið í lögin um ávana- og fíkniefni þegar ákvæði 173. gr. a hafi verið lögfest. Refsiheimild 173. gr. a almennra hegningarlaga nái því ekki til brota á 4. gr. a laga nr. 65/1974.
Ákærði telur að verknaðarlýsing ákæru nægi ekki til að refsa fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnabrots sem heimfært væri til 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 2.-4. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Það komi ekki fram í verknaðarlýsingu að um tilraunabrot sé að ræða og ekki sé vísað til 20. gr. almennra hegningarlaga. Í raun standist verknaðarlýsing ákæru ekki með góðu móti því ekki gangi að segja að ákærðu hafi staðið saman að framleiðslu fíkniefna með framleiðslu P-2-NP og P-2-P þar sem framleiðsla á P-2-P sé ekki refsiverð nema hún sé gerð í þeim tilgangi að framleiða fíkniefni og framleiðsla á P-2-NP sé yfirhöfuð hvorki ólögmæt né refsiverð, enda sé það efni hvergi nefnt í fylgiskjölum með reglugerðinni.
Í ákæru sé einnig haldið fram að ákærðu hafi framleitt 3.555 ml af P-2-P. Í niðurstöðu Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði segi aðeins að vökvinn innihaldi P-2-P, en ekki að það séu 3.555 ml af efninu. Vökvinn sem innihélt P-2-P sé aðallega vatn og megi því ætla að efnið P-2-P sé aðeins lítill hluti af heildarmagninu. Sama megi segja um efnið P-2-NP, en vænta megi að það rýrni verulega eftir uppgufun vökva. Þá verði ekki séð í gögnum málsins að fram hafi farið styrkleikamæling efnanna í þeim sýnum sem afhent voru. Magn og styrkleiki efnanna skipti máli við ákvörðun refsingar komi til sakfellingar í málinu. Einnig geti það skipt máli við heimfærslu til refsiákvæða.
Að lokum segir ákærði í greinargerð sinni að hann telji skýrslurnar að hluta til bæði rangar og villandi og að lögregla hafi ekki í öllum tilvikum greint rétt frá staðreyndum í matsbeiðnum sínum.
V.
Verður þá rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði Jónas Ingi Ragnarsson skýrði þannig frá atvikum að hann hefði framleitt fenýlaseton til endursölu, sem sé sama efni og P-2-P og það sé einnig kallað BMK. Hann hefði fengið örlitla aðstoð hjá meðákærða við það, þ.e. hann hefði spurt meðákærða út í nokkur atriði og fengið aðstoð við uppstillingu.
Ákærði sagði að á vordögum 2008 hefðu aðilar komið að máli við sig og beðið sig um að útvega þetta efni. Ákærði kvaðst hafa verið í því að selja ýmis efni, s.s. mjólkursykur og gróðurvörur, og þessir aðilar hefðu frétt af því. Ákærði hefði byrjað á þeirri starfsemi í ágúst 2007 og frá byrjun árs 2008 undir nafni Hjúps ehf. Nánar um atvik sagði ákærði að aðili hefði komið að máli við sig og spurt hvort hann gæti útvegað BMK, þ.e. P-2-P. Ákærði hefði athugað hvort hann gæti flutt það inn, en komist að því að það væri á lista yfir bannvörur. Hann hefði þá kannað möguleika á því að framleiða efnið sjálfur og hafið undirbúning á því. Ákærði vildi ekki gefa upp hver þessi aðili var. Ákærði sagði að hann hefði verið beðinn um að útvega nokkur hundruð millilítra sem hann átti að skila fyrir áramótin 2008/2009. Ákærði sagði að ekki hefði verið búið að semja um greiðslu fyrir efnið en það hefði átt að fara eftir gæðum og magni efnisins. Allur kostnaður við að framleiða efnið hefði verið greiddur af aðilanum og kostnaður verið á bilinu 3-6 milljónir króna. Ákærði var spurður hvort það hefði ekki hvarflað að ákærða að hætta við að útvega efnið þegar hann hafi komist að því að það væri andstætt lögum. Ákærði svaraði neitandi og kvaðst hafa séð fram á að þetta væri reglugerðarbrot en ekki lagabrot. Ákærði skýrði frá því að hann hefði aflað sér upplýsinga um framleiðslu efnisins á netinu og keypt hluti á e-bay og hjá íslenskum fyrirtækjum og leigt húsnæði. Á sama tíma hefði ákærði verið í sambandi við meðákærða um tilraunir á eldvarnarefni, en þeir hefðu þegar verið komnir með efni og búnað. Ákærði sagði að hann hefði talið að hann þyrfti ekki mikið meira, en svo hefði komið í ljós að búnaðurinn vegna eldvarnarverkefnisins hefði verið allt of lítill. Hann hefði því keypt stærri búnað og leigt stærra húsnæði. Ákærði kvaðst hafa notað að einhverju leyti sama búnað og efni til að útbúa eldvarnarefni og P-2-P, en ákærði gat ekki nefnt hvaða efni það hefði verið sem notað var í báðum tilvikum þar sem langt væri um liðið. Hann hefði byrjað í húsnæðinu að Móhellu með smátilraun sem hefði leitt í ljós að búnaðurinn hefði ekki dugað. Hann hefði keypt nýjan búnað og flutt sig í Rauðhellu. Hann kvaðst hafa getað nýtt eitthvað af P-2-NP kristöllunum sem hann hefði búið til í Móhellu. Það hefði verið búið að útbúa lítið af P-2-P, eða um 300 ml, að vatni meðtöldu. Hann hefði því verið búinn að framleiða það efni sem hann ætlaði að afhenda og því ekki séð ástæðu til að framleiða meira af því.
Nánar um þátt meðákærða sagði ákærði að aðkoma meðákærða hefði verið takmörkuð, þ.e. hann hefði leitað til meðákærða í upphafi varðandi það hvort ákveðnir hlutir gengju upp eða ekki, en ekki beint lýst því hvað hann ætlaði að gera. Síðan hefði ákærði fengið meðákærða til að sækja ródíum-safn, sem væri listi með ýmsum efnafræðiuppskriftum. Meðákærði hefði flett upp nokkrum atriðum á netinu og ákærði hefði notað efnafræðihæfileika meðákærða. Þegar ákærði hefði byrjað á framleiðslunni hefði hann fengið meðákærða aðeins til að aðstoða sig við að setja saman búnað. Ákærði kvaðst ekki hafa sagt meðákærða strax hvað hann væri að gera en sett hann fljótlega aðeins inn í það, þ.e. að til stæði að framleiða fenýlaseton. Ákærði hefði hins vegar ekki sagt til hvers það væri eða hverjir væru kaupendur efnisins. Þegar ákærði flutti sig yfir í Rauðhellu hefði meðákærði aðstoðað við að stilla upp búnaði og litið þar við nokkrum sinnum. Ákærði sagði að hann hefði ekki lofað meðákærða greiðslu fyrir þetta að öðru leyti en því að hann myndi gera eitthvað gott fyrir hann. Þegar ákærði var inntur eftir því sem fram kom hjá lögreglu, um að alltaf hefði staðið til að meðákærði fengi greiðslu, sagði hann að þetta hefði aldrei verið rætt neitt frekar. Ákærði kvaðst hafa vitað að hægt væri að nota efnið í hreinsiefni og skordýraeitur. Hann hefði ekki spurt viðskiptavini sína en haft sínar grunsemdir og alveg eins gert ráð fyrir að það yrði notað í annað, eins og t.d. fíkniefni. Um það hvort ákærði hefði aflað sér upplýsinga á fleiri stöðum en á netinu og hjá meðákærða kvaðst ákærði hafa rætt þetta við nokkra samfanga á Litla-Hrauni á árinu 2005.
Ákærði sagði að hann hefði við framleiðsluna lagt til grundvallar aðferð sem byggist á bensaldehýði, en hann hefði fundið þá aðferð á netinu. Aðspurður hvað hafi átt að gera við búnaðinn þegar hann hefði verið búinn að framleiða umbeðið magn efnisins sagðist hann ekki hafa verið búinn að taka ákvörðun um það, en væntanlega hefði hann selt hann. Fram kom að meðákærði hefði haft lykil að húsnæðinu að Móhellu en ekki að Rauðhellu, en ákærði hefði hleypt honum þar inn í nokkur skipti.
Um muni sem fundust á vettvangi, eins og íblöndunarefni, litla lokanlega plastpoka, hrærivél o.fl., sem almennt eru notaðir til íblöndunar fíkniefna, sagði ákærði að hann hefði leigt nokkrum aðilum aðgang að húsnæðinu að Móhellu, en enginn af þeim hefði haft aðgang að Rauðhellu. Ákærði sagði að þessir hlutir hefðu væntanlega verið notaðir til íblöndunar fíkniefna. Ákærði vildi ekki gefa upp hvaða aðilar hefðu haft aðgang að húsnæðinu.
Aðspurður sagði ákærði að brennisteinssýra, sem fannst á vettvangi, hefði verið ætluð til endursölu og ákærði hefði ekki notað hana. Ákærði var spurður hvaða efni hefðu verið notuð til að búa til eldvarnarefni. Hann svaraði því til að notuð hefði verið bórsýra, en hann kvaðst ekki muna hvaða önnur efni hefðu verið notuð því langt væri um liðið. Ákærði kvaðst hafa kynnst meðákærða við heimsókn sína á Kvíabryggju og þeir spjallað um eldvarnarefni, en ákærði hefði unnið hjá fyrirtæki sem notaði slík efni og hann hefði verið búinn að sækja um styrk til að þróa slíkt efni. Ákærði sagði að verkefnið með eldvarnarefnið hefði verið komið afar skammt á veg og meðákærði hefði verið meira inni í því en hann. Þeir hefðu útbúið tvær prufur og þær hefðu þolað íkveikju og næsta skref hefði verið að prófa viðloðun, en það hefði verið mikið eftir svo hægt hefði verið að markaðssetja það.
Bornar voru undir ákærða ýmsar myndir af munum sem voru haldlagðir. Um ílát til afoxunar með rafgreiningu (vetnunar) sagði hann að þetta væri búnaður til að nota við sjálfvirka gróðurstöð með ljósalömpum, áveitukerfum o.fl. Einn af þeim sem hefðu haft aðgang að húsnæðinu hefði unnið að slíku. Platínu (IV) oxíð hefði verið ætlað til endursölu, en ekki hafi verið búið að selja neitt af því. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að þetta efni væri notað til framleiðslu fíkniefna. Þá kvaðst ákærði ekki muna í hvað vítissódi hefði verið notaður. Hann sagði að metýlamínið hefði upphaflega átt að nota í P-2-P framleiðslu, en hann hefði fundið uppskrift að þeirri aðferð á netinu. Kosturinn við metýlamínið væri sá að ekki þyrfti að eima vatn frá, en ákærði hefði hætt við að nota efnið og frekar notað aðra uppskrift með bútýlamín. Þá sagði ákærði að málmgrind með rólu (hristunarbúnaður) væri hluti af ræktunarverkefni. Inntur eftir því af hverju þessi framburður ákærða hefði ekki komið fram hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa vitað það þá, en hann hefði svo talað við aðila sem höfðu aðgang að húsnæðinu og vissi því nú í hvað þetta væri notað.
Borið var undir ákærða símtal milli hans og meðákærða hinn 1. október 2008, sem lögregla hleraði. Í samtalinu segir meðákærði: „Værirðu til í að gera mér einn risastóran greiða Jónas? Kaupa þér nýjan síma. Allar svona pantanir. Sem við erum að gera.“ Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu samtali. Í samtalinu segir ákærði: „Nú ok en ég nota þetta cover náttúrulega með eldvarnar.“ Spurður hvað meint væri með þessu sagði ákærði að þetta gæti haft tvenns konar merkingu, þeir hafi verið að framleiða eldvarnarefni og að þeir hefðu notað það sem yfirskyn yfir eitthvað annað. Ákærði kvaðst ekki muna hvort þeir hafi notað þetta orð í síðarnefndu merkingunni. Síðar í símtalinu segir meðákærði: „Það er bara margt sem við höfum mjög mikla áhættu af en það þarf ekki að auka hana.“ Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu en sagði að hann hefði verið að búa til efni sem hann hafi ekki átt að vera að búa til og því ekki skrýtið að hann hefði sagt þetta.
Ákærði sagði að efnið P-2-NP væri hráefni til að framleiða P-2-P og síðarnefnda efnið hefði verið söluvaran. Fram kom hjá ákærða að hann hefði vitað að hægt væri að nota P-2-P til að framleiða amfetamín, en hann hefði ekki kynnt sér hvernig það væri gert. Ákærði kvaðst ekki þekkja til svokallaðrar Leuckart-aðferðar.
Hvað varðar magn þeirra efna sem tilgreind eru í ákæru sagði ákærði að P-2-NP hefði innihaldið töluvert magn af metanól, eða 30-50%. Hvað varðar efnið P-2-P þá hafi það verið 90% vatn, en það hafi átt eftir að eima vatnið frá. Inntur eftir því hvað væri hægt að framleiða mikið P-2-P úr 38.037,67 g af P-2-NP kvaðst ákærði ekki geta nefnt það.
Nánar um starfsemi ákærða kvaðst hann hafa verið söluaðili fyrir mjólkursykur, gróðurlampa, gróðurvörur, áburð, tölvur, rafeindatæki, vogir og plastpoka. Hann hefði ekki spurt viðskiptavini sína neinna spurninga. Þá hefði hann leigt mönnum aðstöðu og ekki spurt hvað þeir geymdu þar eða gerðu.
Ákærði mótmælti upptöku tiltekinna muna, en þeir kæmu sakarefninu ekki við: Bakaraofn með tveimur hitahellum, álkista, verkfærasett í blárri tösku, þrír ljósaskermar, duftslökkvitæki, fartölva, tvær plastmælikönnur, vökvadæla, loftræstivifta, vetnisperoxíð, benzalkonium chloride fluka, brennisteinssýra, sodium tetraborate, pappírsspænir, bórsýra (sem væri merkt í munaskrá sem mjólkursykur í plastboxi með bláu loki), glerkúla, járnhillur, skápur, stólaborð, stálvaskur.
Ákærði Tindur Jónsson skýrði frá því að hann hefði byrjað að starfa fyrir meðákærða Jónas Inga um sumarið 2008. Upphaflega hefðu þeir unnið að eldvarnarverkefni. Meðákærði hefði komið að máli við ákærða, meðan hann afplánaði refsivist á meðferðarheimilinu Vernd, um að hann hefði kaupendur að fenýlasetoni og beðið ákærða um aðstoð við framleiðslu á því. Þetta hefði verið um vor 2008. Í framhaldinu hefði ákærði hjálpað honum við framleiðslu á því. Ákærði kvaðst hafa gefið honum ráð og hjálpað til við uppsetningu og annað á tækjum og aðstoðað hann í þessu ferli. Aðspurður hvort ákærði hefði þekkt til þessa efnis sagði ákærði að hann hefði ekki gert það. Ákærði sagði að hann hefði gert ráð fyrir að hann kynni meira í efnafræði en meðákærði og sagt að hann ætlaði að reyna að hjálpa honum. Ákærði sagði einnig að hann hefði fengið upplýsingar hjá ákærða og leitað á netinu. Meðákærði hefði keypt inn efni og tæki og í framhaldi af því, þegar það hafi allt verið komið, hafi þeir fyrst farið í framleiðslu á litlum einingum og svo hefðu þeir fengið stærri einingu og þá hefði lögreglan gripið inn í.
Um upphaf eldvarnarverkefnisins sagði ákærði að hann hefði kynnst meðákærða á Kvíabryggju og hann nefnt það við sig. Þegar ákærði hefði farið á Vernd hefði hann byrjað að vinna í þessu, tæta niður dagblöð og finna efni sem geta verið eldtefjandi. Næsta skref hefði verið að finna út hvernig væri hægt að útbúa stærri einingar af þessu. Þá hefði þurft stærri tæki til að búa til meira magn, en þeir hefðu verið komnir með eldtefjandi eiginleikana í pappírinn. Það hafi átt eftir að vinna í viðloðun og öðru. Aðspurður hver hefði fengið hugmyndina að eldvarnarverkefninu sagði ákærði að það hefði verið meðákærði, en ákærði hefði unnið meira að tilraununum með það. Þeir hefðu byrjað að vinna að eldvarnarverkefni áður en þeir hófu framleiðslu á P-2-P og svo hefðu þeir unnið eitthvað samhliða með þetta. Ákærði sagði að hann hefði ekki haft lykil að húsnæðinu að Rauðhellu eða Móhellu, en farið þangað nokkrum sinnum með lykil frá meðákærða. Ákærði kvaðst hafa leiðbeint meðákærða að einhverju leyti en meðákærði hefði haft nokkuð góðar hugmyndir um þetta sjálfur. Ákærði sagði að honum hefði fundist þetta spennandi verkefni þá og hann verið í vinnu hjá ákærða. Meðákærði hefði beðið um aðstoð og ákærði sæi mikið eftir því nú og sagði að auðvitað hefði hann átt að spyrja meira hvað væri í gangi. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið laun fyrir vinnu sína, hvorki fyrir eldvarnarverkefnið né framleiðslu á P-2-P. Þeir hefðu vonast til að fá eitthvað út úr eldvarnarverkefninu ef það kæmist í framleiðslu. Það hefði ekki verið búið að semja um greiðslur fyrir framleiðsluna á P-2-P en ákærði hefði búist við að fá eitthvað fyrir vinnu sína. Meðkærði hefði sagt að hann myndi gera eitthvað fyrir ákærða en það ekki verið rætt nánar.
Ákærði sagði að þeir hefðu skoðað fleiri en eina uppskrift til að framleiða P-2-P og þeir hefðu notað þá aðferð að nota tólúenleysi og bensaldehýð og nítróetan hvarfað saman við bútýlamín og svo væri tekið „iron reduction“ (afoxun) á P-2-NP með járni og saltsýru í vatnslausn. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að önnur aðferð hefði verið notuð, en þeir hefðu ekki verið búnir að vera það lengi með þessi grunnefni, þ.e. bensaldehýð og nítróeten. Nánar um aðkomu sína að framleiðslunni sagði ákærði að meðákærði hefði beðið sig um að athuga hvort einhver eining væri í gangi og í lagi, búnaður væri rétt uppstilltur, en ákærði hefði verið búinn að fá kennslu í uppstillingu á glervörum, og annað. Þá hefði meðákærði spurt sig hvort einhver hætta stafaði af einhverjum efnum. Ákærði sagði að hann hefði ekki verið búinn að kynna sér til hvers P-2-P væri notað. Hann hefði rekist á ýmislegt þegar hann hefði leitað á netinu en ekki spurt hvað ætti að gera við efnið sem þeir ætluðu að framleiða. Ákærði kvaðst hafa séð í húsnæðinu muni eins og íblöndunarefni, litla poka, hrærivél, mjólkursykur o.fl., en hann hefði aldrei notað þá og ekki spurt til hvers þeir væru notaðir. Ákærði sagði að hann hefði vitað að meðákærði seldi mjólkursykur og bent einum vini sínum á það.
Um framangreint símtal hinn 1. október 2008, milli ákærða og meðákærða, sagði ákærði að hann hefði fengið vitneskju um að það væri einhver eftirlitsskylda með þessu efni sem þeir hefðu verið að framleiða og vitað að meðákærði væri að flytja inn ýmsar „aukavörur“ og hlotið dóm. Ákærði hefði því gert ráð fyrir að eitthvert eftirlit væri með meðákærða og beðið hann um að fara varlega. Ákærði hefði ekki viljað láta bendla sig við eitthvert samstarf við meðákærða. Það hefði getað haft áhrif á nám ákærða og annað. Varðandi orðalagið „eldvarnarcover“ sagði ákærði að meðákærði hefði ekki viljað að það væri opinbert að hann væri að framleiða P-2-P. Meðákærði hefði því pantað öll efni fyrir það undir því yfirskyni að hann væri að nota það í eldvarnarefnið. Um það hvað ákærði hefði átt við með því að segja að það væri margt sem þeir hefðu mjög mikla áhættu af og það þyrfti ekki að auka hana, sagði ákærði að þar sem þeir hefðu ekki haft leyfi til að framleiða P-2-P hefði hann ekki viljað auka við einhverja áhættu hjá meðákærða. Þar sem ákærði hefði aðstoðað meðákærða þýddi það einnig áhættu fyrir hann.
Bornar voru undir ákærða myndir af tilteknum munum og efnum sem haldlögð voru á vettvangi. Ákærði sagði um platínu (IV) oxíð að meðákærði hefði nefnt það í sambandi við eldvarnarkvoðu. Ákærði kvaðst aldrei hafa notað þetta efni. Þá hefði hann ekki notað brennisteinssýru sem fannst á vettvangi og taldi hann að meðákærði hefði haft hana til sölu. Enn fremur kvaðst hann ekki hafa notað ílát til afoxunar með rafgreiningu (vetnunar). Meðákærði hefði haft ýmsar vörur þarna sem komu og fóru. Ákærði sagði að vítissódi hefði verið notaður þegar búið var að setja saltsýru út í til að hlutleysa sýruna, áður en eiming hæfist á P-2-P. Ákærði sagði að hann hefði aldrei notað metýlamínið og vissi ekki til þess að meðákærði hefði notað það. Ákærði kvaðst hafa vitað til þess að meðákærði hefði ætlað að nota það í staðinn fyrir bútýlamín. Um málmgrind með rólu (hristibúnað) sagði ákærði að hann hefði límt trekt við hana þegar hann hafi hellt efnum milli brúsa, en vissi annars ekki til hvers svona róla væri notuð. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við upptökukröfu í ákæru málsins.
Ákærði sagði að aldrei hefði komið til umræðu milli sín og meðákærða að framleiða fíkniefni úr þessum efnum. Það hefði einungis staðið til að framleiða P-2-P og meðákærði sagt að hann ætlaði að selja það. Þá sagði ákærði að amfetamín sem fannst á vettvangi hefði ekki verið framleitt þar.
Ákærði var beðinn um að lýsa nánar vinnu sinni og meðákærða með eldvarnarefni. Ákærði sagði að þeir hefðu unnið með „patent“ og prófað sig áfram með efni eins og t.d. bórsýru og bórax. Svo hefði ákærði verið með tvö eða þrjú bindiefni sem hann muni ekki hver hafi verið. Einnig hafi hann prófað sveppaeyði og rotvarnarefni. Ákærði hefði reynt að fá vetnisperoxíð í það, en það ekki gengið. Þeir hefðu verið með einhverja poka að Móhellu með tilbúnu efni. Ákærði hefði reynt að kveikja í einhverju af þessu og það ekki brunnið. Öll útfærsla á þessu, til notkunar á veggi og annað, hafi ekki átt sér stað. Ákærði kvaðst hafa prófað sig áfram í um fimm skipti og eitt skipti tekist best. Ákærði sagði að hann hefði skráð eitthvað um þetta niður hjá sér en þetta hefði ekki verið mjög flókið og ekki formleg rannsókn verið á þessu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa notað glervörurnar í þetta verkefni, nema bikarglös til að hræra duft og annað. Hann hefði ekki notað suðuflöskur og slíkt.
Vitnið Jakob Kristinsson, hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sagði að það færi eftir því hvaða aðferð væri notuð hversu mikið magn fengist þegar P-2-P væri umbreytt yfir í amfetamín. Þá kom fram að í matsgerð vitnisins væri notað orðalagið sýni „bendir eindregið til“ að það innihaldi P-2-NP, þar sem ekki væri til vottaður staðall af efninu og væntanlega væri hvergi hægt að fá hann. Því væri notað efni til viðmiðunar sem væri ekki vottaður staðall og þess vegna væri ekki tekið sterkar til orða en þetta. Einnig kom fram að venja væri að gera ekki magnákvörðun á öðrum efnum en þeim sem teljast ólögleg ávana- og fíkniefni nema sérstaklega væri beðið um það, en það hefði ekki verið gert í þessu tilviki. Vitnið kvaðst geta staðfest að miðað við niðurstöður rannsókna sinna væri unnt að fullyrða að þetta væri að langmestu leyti þetta efni. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hlutfall á magni P-2-P (bensýl metýl ketón) í sýni samkvæmt matsgerð, dags. 25. nóvember 2009, en það væri að öllum líkindum nokkrir tugir prósenta. Ekki væri unnt að útiloka að ekki hefði verið búið að eima efnið frá. Jafnframt greindi vitnið frá því að á árunum 2006-2008 hefði styrkleiki sýna sem hann hefði rannsakað með amfetamíni verið um 17%, en miðgildi þess væri um 9%. Einnig væri mikil dreifing á styrkleika kannabis og meðalstyrkur væri 60 mg/g af tetrahýdrókannabínól og miðgildi væri 51. Það hæsta sem vitnið hefði séð væri 148.
Vitnið Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands og dr. í efnaverkfræði, skýrði frá því að hann hefði að beiðni lögreglu fylgst með því, ásamt sérfræðingum frá Europol, þegar búnaður og annað var tekið niður að Rauðhellu 1 og Móhellu 4e. Vitnið sagði að miðað við tæki, búnað og efni á staðnum væri það mat sitt að þarna hefði farið fram stórfelld framleiðsla á fíkniefnum. Af efnagreiningum og efnum sem fundust á staðnum væri ljóst að þarna hefði verið framleitt P-2-P og miðað við önnur efni og tæki á staðnum væri eðlilegt að álykta að þau væru ætluð til fíkniefnaframleiðslu. Vitnið kvaðst ekki sjá neinn annan augljósan tilgang með því að nota þessi efni.
Vitnið skýrði frá því að samkvæmt efnagreiningu hefði fundist á staðnum verulegt magn efna til að framleiða phenyl-2-nitropropene (P-2-NP) og þá hefðu fundist efni til að framleiða úr phenyl-2-nitropropene efnið bensýl metýl ketón (P-2-P). Á staðnum hefði fundist töluvert magn af bensýl metýl ketón. Tiltölulega einfalt væri að framleiða amfetamín eða metamfetamín úr bensýl metýl ketón. Ýmsar aðferðir komi til greina eins og að hvarfa bensýl metýl ketón við formamíð, svokölluð Leuckart-aðferð. Með þeirri aðferð væri hægt að framleiða amfetamín. Ekki hefðu öll efni verið á staðnum til að framleiða amfetamín, en það hefði þurft formamíð og maurasýru. Önnur aðferð væri að nota metýlamínið, sem hefði fundist á vettvangi, og maurasýru til að búa til metýlformamíð. Með bensýl metýl ketón og maurasýru hefði svo verið hægt að framleiða metamfetamín. Vitnið sagði að auðvelt væri að útvega maurasýru og metýlformamíð, en það væri hægt að kaupa þetta af aðilum sem selja efni til efnaframleiðslu og ekki þyrfti til þess sérstök leyfi. Þriðja aðferðin, og sú sem væri töluvert í samræmi við það sem hefði fundist á staðnum, væri að nota bensýl metýl ketón, metýlamínið og hvata, þ.e. platínu-oxíð. Sérstakan búnað þurfi við þetta, vetnunarbúnað, en hann hafi verið á staðnum. Samkvæmt skoðun hefði sá búnaður hins vegar ekki verið notaður og ekki heldur hvatinn. Vetnisgas hefði einnig vantað en auðvelt sé að verða sér úti um það samdægurs hjá aðila sem selur gas til heimilisnota. Spurður hvort hægt væri að nota P-2-P í öðrum tilgangi en að framleiða fíkniefni sagði vitnið að það væri fyrst og fremst þekkt sem efni fyrir framleiðslu á amfetamíni og metamfetamíni. Vitnið sagði að það væru vísbendingar um að amfetamín, sem fannst á staðnum, hefði verið framleitt þar en það hefðu ekki fundist öll efni á staðnum til að framleiða það, eins og vitnið hafði áður greint frá.
Borið var undir vitnið það sem fram kemur í skýrslu Europol um að P-2-P væri þekkt söluvara og var vitnið spurt af hverju það drægi því þá ályktun að ákærðu hafi ekki ætlað að framleiða P-2-P í söluskyni. Vitnið kvaðst gera það vegna annarra efna sem hefðu fundist á staðnum, eins og metýlamínið. Vetnisgas væri aðgengilegt og maurasýra væri algengt efni, en formamíð væri ekki vel aðgengilegt.
Um magn amfetamíns sem hefði mátt framleiða úr því magni P-2-NP sem tilgreint er í ákæru sagði vitnið að umreikningar Europol væru vel ígrundaðir. Þegar vitnið var innt eftir því hvort það hefði áhrif á þessa útreikninga ef ekki væri um að ræða hreint P-2-NP, þ.e. hluti af því væri metanól, sagði vitnið að svo væri, en tók fram að ef þetta væri fast efni væri magn metanóls óverulegt. Varðandi P-2-P sagði vitnið jafnframt að þótt vatn væri til staðar myndi það ekki skaða framleiðsluna á amfetamíni.
Þegar vitnið var innt eftir því hvort það gæti útilokað að þarna hefði eingöngu átt sér stað framleiðsla á P-2-P til endursölu svaraði það því til að þarna hefði verið til staðar efni til að breyta því efni áfram yfir í fíkniefni og þá sérstaklega metamfetamín. Þau efni hefðu verið metýlamínið og hvatinn. Vetnisgas hefði vantað í því tilviki. Aðspurt hvort P-2-P væri leysanlegt í vatni sagði vitnið að það skildi sig frá vatni. Vitnið kvaðst hafa séð eimingu í gangi. Vökvi hefði dropið í járnpott og aðskilið sig þar í glæran vökva, sem ætla mætti að væri vatn, og olíukenndan vökva. Að mati vitnisins var vökvinn að megninu til olíukenndi vökvinn, en þó eitthvert magn vatns. Vitnið treysti sér ekki til að áætla fjölda millilítra. Fram kom að með olíukenndum vökva væri átt við P-2-P. Ef það hefði verið metanól í P-2-NP hefði það einungis getað verið lítið magn því metanól sé vökvi.
Vitnið kvaðst ekki geta séð neina tengingu milli metýlamínið og eldvarnarefna. Einnig sagði vitnið að metýlamínið væri ekki notað við framleiðslu á P-2-P. Þegar búið væri að framleiða P-2-P væri metýlamínið hins vegar notað til að framleiða fíkniefni. Um það hvort hugsanlegt væri að metýlamínið hefði verið notað við framleiðsluna á P-2-P í staðinn fyrir bútýlamín sagði vitnið að það hefði ekki hentað. Bútýlamín væri það efni sem hentaði fyrir P-2-P og ekki væri ástæða til að reyna metýlamínið ef bútýlamín væri fyrir hendi, en það hefði reynst vera til staðar á vettvangi. Enn fremur kom fram hjá vitninu að platínu-hvatinn sem hefði fundist á staðnum, um 10 g, væri mjög dýrt efni og samkvæmt eftirgrennslan vitnisins kostaði það 250.000 krónur.
Vitnið Andre Van Rijn, sérfræðingur hjá Europol, greindi frá menntun sinni og starfsreynslu. Fram kom að hann hefur starfað sem lögreglumaður í meira en 30 ár. Jafnframt er hann verkfræðingur að mennt og sérhæfður í tæknirannsóknum. Frá árinu 1991 hefur hann starfað hjá fíkniefnadeild Europol. Hann starfaði sem yfirmaður rannsóknarstofu Europol til ársins 2000 og frá þeim tíma sem yfirmaður fíkniefnadeildar Europol.
Vitnið lýsti því að hann hefði aðstoðað við rannsókn málsins samkvæmt beiðni lögregluyfirvalda á Íslandi. Þannig hefði vitnið skilgreint efnin og vinnsluferlið. Vitnið kvaðst hafa skoðað verksmiðjuna þegar hún var tekin niður. Vitnið sagði að fyrirkomulagið að Móhellu hefði verið mjög fagmannlegt. Búnaðurinn þar hefði verið mjög faglegur sem og vinnsluferlið við framleiðslu á P-2-P. Aðferðin væri mjög sérstök og ekki algeng í Evrópusambandsríkjum. Í geymslurýminu að Móhellu hefðu verið geymd efni og búnaður. Í frysti hefðu fundist P-2-P og P-2-PN. Auk þess hefðu fundist sjö pakkar sem innihéldu hvítt duft sem hafi reynst vera amfetamín. Einnig hefði fundist búnaður sem sé notaður við framleiðslu nýmyndaðra efna. Töluvert af leysiefnum, sem einnig megi nota við framleiðslu á nýmynduðum efnum, hefði verið á vettvangi. Þar að auki hefðu efni til íblöndunar verið á borði og hrærivél og járnskál. Auk þess hefðu verið á borðinu plastpokar og límband. Fyrir framan borðið hefðu verið pokar með laktósa, en hann væri notaður sem þynningarefni. Hvítt duft hefði verið á þessum hlutum og borðinu. Vitnið sagði að það væri vel þekkt að laktósi væri notaður til þynningar á fíkniefnum. Brúnt límband, sem fannst á borðinu, væri af sambærilegri gerð og á pökkunum í frystinum. Í geymslurýminu hefði jafnframt verið stálvaskur og þar sést leifar af appelsínugulri eða brúnleitri eðju, en samkvæmt rannsókn fannst í leifunum P-2-NP og amfetamín. Þá hefðu fundist gleráhöld fyrir rannsóknarstofur með leifum af P-2-NP. Vitnið sagði að miðað við búnaðinn og efnin sem hafi fundist á staðnum, P-2-NP og amfetamín, væri það niðurstaða vitnisins að vettvangurinn hefði verið notaður til að framleiða P-2-P og P-2-NP og þá líklega einnig við framleiðslu á amfetamíni, ásamt því að vera staður þar sem fíkniefni eru þynnt og sett í umbúðir. Vitnið kvaðst mjög sjaldan sjá þetta framleiðsluferli því aðalefnið við framleiðslu á amfetamíni eða metamfetamíni sé P-2-NP og það sé mjög aðgengilegt í Evrópusambandsríkjum. Þessi aðferð þekkist eingöngu þegar skortur sé á P-2-NP.
Vitnið sagði að kristallarnir, gulir á lit, hafi verið mjög hreinir. Engin merki hafi verið um mengun eða íblöndun í þeim. Framleiðslan á kristöllunum sé mjög vandasöm og mjög lítið megi út af bregða til þess að kristallarnir verði brúnir og jafnvel svartir. Að mati vitnisins voru gæði kristallanna mjög mikil. Vitnið benti á að þegar búið væri að framleiða kristallana þurfi að geyma þá í frysti því annars verði þeir brúnir eða svartir. Vitnið greindi frá því að fyrir utan dyrnar á Rauðhellu 1 hefðu fundist gulir kristallar. Einnig hefðu kristallar fundist inni á gólfi og í holræsi. Þá sagði vitnið að á fyrstu hæð hefði verið ýmiss búnaður: Loftræstibúnaður, dælur, pökkunarefni og járnduft. Í eldhúsinu hefði verið mikið magn af glerílátum sem notuð eru á rannsóknarstofum. Sum af þessum ílátum hefðu borið merki um gula kristalla og olíukennt efni. Þá hefði verið tenging á milli vatnslagna og holræsislagna. Vatn hefði verið leitt úr eldhúsi í svefnherbergi með slöngum. Þessar slöngur hefðu verið tengdar við eimingarslöngu, en vatnið hefði verið notað sem kæling við eimingarferlið. Á baðherberginu hefði verið búnaður sem alla jafna er notaður á rannsóknarstofum. Þar hefði einnig verið lofttæmiflaska. Í svefnherberginu hefði fundist hitaplata sem tengd var við straumbreyti og á plötunni hefði verið hvarfaflaska úr gleri. Hámarksframleiðslugeta hennar hafi verið um 50 lítrar. Í þessu íláti hefði verið efnablanda, gráleitur vökvi, og það hefði sest eðja á botninn. Vitnið taldi að í ílátinu hefðu verið 30-35 lítrar af vökva sem og eðja sem sat á botni hennar. Hitastig efnablöndunnar hafi verið mælt og reynst vera 97°. Úr þessu íláti hefði verið tenging, þ.e. eimingarrör sem hafi verið kælt með vatni sem var leitt úr eldhúsinu. Við endann á eimingarrörinu hafi dropar sést falla í annað ílát. Í því hefði verið tær vökvi sem var tveggja laga. Við rannsókn á þessu íláti hefði komið í ljós að um hafi verið að ræða P-2-P. Í skápum í svefnherberginu hefði fundist umtalsvert magn af glerílátum, fjöldi flaskna og plastíláta með efnum í, eins og bensaldehýð og nitropropene. Einnig hefðu fundist efni eins og járnklórið og járnduft. Þessi þrjú efni séu notuð við framleiðslu á P-2-P. Vitnið sagði að P-2-NP væri notað til þess að framleiða P-2-P. Við þá framleiðslu séu mikilvægustu efnin járnklóríð, járnduft og saltsýra. Öll þessi efni hefðu verið á staðnum og nauðsynlegur búnaður. Það hefði því verið mat vitnisins, eftir að hafa farið inn í svefnherbergið, að þarna hafi P-2-P verið framleitt úr P-2-NP.
Vitnið sagði einnig að líkt og að Móhellu hefði búnaður að Rauðhellu verið ákaflega fagmannlegur. Þá hefði uppsetning og samsetning á búnaðinum gefið til kynna að þar færi einstaklingur sem vissi hvernig ætti að nota þennan búnað. Vitnið var innt eftir því hvort eitthvað hefði bent til þess að frekari vinnsla þessara efna gæti farið þarna fram. Vitnið skýrði frá því að við framleiðslu fíkniefna væri í 95% tilvika notuð Leuckart-aðferðin. Við þá aðferð þurfi ákveðinn búnað, eins og hitaskáp, hvarfaílát úr gleri, eimingarpípur og bakstreymisbúnað. Einnig þurfi Buchner-trekktir með dælu. Allur þessi búnaður hefði verið til staðar, bæði að Rauðhellu og Móhellu. Jafnframt hefðu verið til staðar flest þau efni sem þurfi til að breyta P-2-P í amfetamín með Leuckart-aðferðinni. Ef litið væri til niðurstaðna rannsóknarstofu sænska ríkisins í réttarvísindum þá væri ástæða til að ætla að amfetamín sem fannst í frystinum að Móhellu hefði verið framleitt með Leuckart-aðferðinni.
Vitnið sagði að í samanteknu máli þá hefði við rannsókn á báðum stöðum fundist búnaður til framleiðslu nýmyndaðra efna. Framleiðsla á P-2-P hefði átt sér stað og P-2-NP verið notað til þess. Þá hefðu efni verið til staðar til að framleiða amfetamín og þynning á amfetamíni hefði átt sér stað á vettvangi. Samkvæmt skýrslu rannsóknarstofu sænska ríkisins í réttarvísindum hafði styrkleiki amfetamíns sem fannst í frystinum verið 4%. Allt hitt hefði verið laktósi og koffín. Ef vettvangurinn að Rauðhellu og Móhellu væri borinn saman við þá staði sem vitnið hefði séð á starfsferli sínum þá hefðu báðir þessir staðir verið notaðir til framleiðslu á forefnum og síðan til framleiðslu á amfetamíni. Vitnið sagði að á vettvangi hefðu hvorki fundist formamíð né ammóníum formamíð, en annað hvort hafi þurft til að fullvinna amfetamín. Allur búnaður hefði hins vegar verið á staðnum.
Vitnið var spurt hvort unnt hefði verið að búa til amfetamín úr þeim efnum og búnaði sem var á staðnum með öðrum aðferðum en Leuckart og svaraði vitnið því játandi. Á staðnum hefði verið búnaður fyrir afoxun með rafgreiningu og þá væri P-2-P notað, en ekki P-2-NP. P-2-P væri forefnið fyrir amfetamín. Þessi búnaður hefði ekki verið notaður, en þrýstimælirinn hefði verið brotinn. Vitnið var spurt hvort rafskaut þurfi til að nota þennan búnað og kvaðst vitnið ekki þekkja þessa tegund af afoxunarbúnaði og ekki hafa séð hann að innan.
Vitnið var spurt um útreikninga í skýrslu sinni, á því hversu mikið magn amfetamíns fengist úr 38 kg af P-2-NP, og hvort tillit hefði verið tekið til vökvans, P-2-P, sem fannst. Vitnið sagði að það hefði aðeins verið gert hvað varðar P-2-NP. Vitnið sagði að almennt væri ekki framkvæmd mæling á hreinleika efna á vettvangi. Vitnið skýrði frá því að við framleiðslu á P-2-P fáist á endanum vökvi. Afurðin verði mismunandi mikil eftir því hvaða aðferð sé notuð, þeim sem beitir henni og efni sem séu notuð, en engu að síður sé afurðin P-2-P. Vitnið kvaðst hafa séð fjöldann allan af P-2-P á mismunandi framleiðslustöðum. Sé efnið rétt unnið fáist mjög tær vökvi. Ef ferlið er ekki framkvæmt rétt sjáist mengun í vökvanum. Það sé samt P-2-P, en styrkleikinn sé lægri. Slíka afurð sé hægt að nota við framleiðslu á amfetamíni en afurðin verði minni. Vitnið sagði að vökvinn sem vitnið hefði séð að Rauðhellu og Móhellu hefði verið mjög tær og alls enga mengun að sjá. Að teknu tilliti til þess búnaðar sem hefði verið notaður og gæða efnanna eigi að fást mjög tært P-2-P. Þegar vitnið var spurt um áhrif þess á framleiðslu amfetamíns að P-2-P væri mjög óhreint sagði vitnið að maður myndi samt fá amfetamín en það yrði óhreint. Styrkleikinn yrði lægri, en ef tekið væri tillit til þynningar, sem væri alla jafna 1:20 eða 1:24, og þynning væri með koffíni, þá myndu menn ekki verða varir við það. Vitnið sagði jafnframt að við skoðun á P-2-P á rannsóknarstofu sjáist óhreinindi eða mengunarefni skýrt. Aðeins efnafræðingur sem skoðar efnið og rannsakar það gæti sagt til um óhreinindin sem væru í vökvanum. Vitnið sagði að þegar hann hefði rætt við efnafræðinginn um niðurstöðu hans hefði hann ekkert minnst á að um óhreinindi hefði verið að ræða. Vitnið var spurt hvort hægt væri að styrkleikamæla P-2-P. Vitnið sagði að ef það væri blandað, sem gerist stundum þegar efnið sé flutt inn t.d. frá Rússlandi, þá sé það þynnt með öðru efni til þess að auka afrakstur seljandans. Niðurstaðan gæti þá verið 60% P-2-P og 40% eitthvert annað efni. En ef maður framleiðir aftur á móti P-2-P og eimar það eigi að fást 100% P-2-P. Það gætu verið einhver óhreinindi í því en það sé samt P-2-P. Þá var vitnið innt eftir því hvað hægt væri að framleiða mikið amfetamín eða önnur fíkniefni úr 3,5 lítrum af P-2-P. Vitnið sagði að með því að nota Leuckart-aðferðina væri afraksturinn 50%, en góður efnafræðingur gæti náð 70% afrakstri. Ef lægra viðmiðið er notað fáist 1,75 kg af amfetamíni. Amfetamín sé aldrei selt hreint til neytenda, heldur sé það alltaf þynnt í hlutföllunum 1:15 til 1:20. Þannig fáist umtalsvert magn amfetamíns úr 1,75 kg ef það er þynnt 1:20.
Vitnið var spurt hvort algengt sé að verksmiðjur finnist þar sem P-2-P sé framleitt en fíkniefni séu ekki fullunnin. Vitnið sagði að á flestum framleiðslustöðum í Evrópu væri P-2-P innflutt frá Rússlandi eða Kína. Eina ástæðan til að framleiða sjálfur P-2-P væri skortur á efninu á markaði eða vandamál við að flytja efnið inn. Vitnið kvaðst oftast sjá við störf sín, þegar Leuckart-aðferðinni sé beitt, að P-2-P sé breytt í amfetamín. Síðan sé amfetamínolíu breytt í amfetamínsúlfat. Þegar efnið sé selt neytendum sé það þynnt, en ef það er selt til annars hóps brotamanna þá sé það alla jafna selt óþynnt. Vitnið sagði að það væri því ekki algengt í Evrópu að framleiða aðeins P-2-P. Vitnið sagði að verðið á P-2-P væri mjög breytilegt á markaðinum eftir framboði, eða allt frá 650 evrum upp í 1100 evrur á lítra. Ef Leuckart-aðferðin væri notuð til að breyta P-2-P yfir í amfetamín eða amfetamínsúlfat fengjust u.þ.b. 500 g af nokkuð hreinu amfetamínsúlfati. Ef það væri þynnt 1:20 fengjust um 10,5 kg. Algeng sölupakkning til neytanda sé 30 mg. Hagnaðurinn af því að framleiða amfetamín úr P-2-P og þynna það sé því miklu meiri en að selja P-2-P. Vitnið varpaði fram þeirri spurningu hví menn ættu að selja P-2-P ef þeir hafa allan þann búnað sem þarf til að framleiða amfetamín. Verjandi ákærða Tinds spurði vitnið þá á móti af hverju menn væru þá að selja P-2-P frá Rússlandi og Kína til Evrópu ef þeir geta fengið miklu hærra verð með því að framleiða amfetamín. Vitnið sagði að P-2-P væri framleitt í Rússlandi og Kína í miklu magni af efnaverksmiðjum. Skipulögð glæpasamtök sem framleiða amfetamín kaupi P-2-P frá öðrum glæpasamtökum sem taki þátt í innflutningi og sölu á P-2-P í Evrópusambandsríkjum. Í dag sé mest af P-2-P flutt inn til Evrópuríkja frá Rússlandi. Það séu því til glæpasamtök sem geri ekkert annað en að sinna innflutningi á forefnum. Vitnið kvaðst telja útilokað að ákærðu hefðu aðeins ætlað að selja P-2-P.
Þegar nánar var spurt um búnað til að framleiða annars vegar P-2-P og hins vegar amfetamín sagði vitnið að almennt væri hægt að nota sama búnaðinn fyrir framleiðslu á P-2-P og amfetamíni. Efni sem þurfi til að framleiða amfetamín hafi verið á staðnum, þ.e. P-2-P og saltsýra. Einnig hefði amfetamín fundist. Vitnið sagði að ekki væri algengt að maurasýra sæist við slíka framleiðslu og hún væri ekki nauðsynleg til að framleiða amfetamín. Aðspurt hvort saltsýra væri einnig notuð við framleiðslu á P-2-P sagði vitnið að svo væri. Vitnið benti á að á vettvangi hefði eiming verið í gangi. Leuckart-aðferðin væri fjölþrepa ferli og oft sjáist að menn vinni eitt þrep og færi sig yfir á næsta þrep sem kalli á breytta uppsetningu búnaðar. Það að formamíð hafi ekki verið á staðnum þýði ekki að amfetamín hafi ekki verið framleitt þar. Þegar vitnið kom á vettvang hafi eiming verið í gangi í því skyni að framleiða P-2-P. Ef Leuckart-aðferðin væri notuð væri auðvelt að koma inn með efni eftir þörfum. Vitnið kvað að það væri því ekki óeðlilegt að formamíð og maurasýra hefðu ekki verið á staðnum. Á flestum stöðum sem vitnið þekki til pakki menn saman rusli og hendi því. Engin ástæða væri til að geyma tómar pakkningar. Vitnið var spurt hvort ekki hefðu átt að finnst leifar af formamíð ef það hefði verið notað á vettvangi. Vitnið sagði að þegar það hafi komið á vettvang hefði amfetamínframleiðsla ekki verið í gangi og því ekki þörf á formamíði. Glerílátin á staðnum hefðu verið hreinsuð og þetta hefði verið fagmannlegur staður. Formamíð sé tær vökvi og ef maður lýkur við framleiðsluna hreinsar maður glerílátin og hellir skolinu í holræsi. Amfetamín hefði fundist á vettvangi og samkvæmt sænsku rannsóknarstofunni hefði Leuckart-aðferðinni verið beitt. Vitnið taldi engu breyta þótt koffín hefði verið í amfetamíninu sem fannst á vettvangi, en ekkert koffín fannst á vettvangi. Vitnið benti á að borð á vettvangi hefði verið notað til að gera efni að dufti og blanda það. Liturinn á límbandinu og umbúðunum hefði verið í sama lit og pakkarnir sem fundust í frystinum. Vitnið sagði jafnframt að þetta væri algeng tegund límbands. Mikið magn af laktósa hefði fundist á staðnum, búnaðurinn verið til staðar, flest efnin verið til staðar, úrgangurinn í vaskinum hefði innihaldið amfetamín og þynningarefni og pökkunarefni verið til staðar. Það eina sem hefði vantað hafi verið formamíð, maurasýra og koffín, en það þýði ekki að amfetamínframleiðsla hefði ekki átt sér stað þarna.
Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hversu mikið magn af P-2-P hefði verið komið út úr eimingarpípunni og hversu mikið hefði verið eftir í dallinum. Öll sönnunargögn og efni hefðu verið flutt til tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vitnið var innt eftir því hvort P-2-P væri notað í öðru skyni en til að framleiða fíkniefni og sagðist vitnið aðeins hafa séð það notað við framleiðslu á amfetamíni og metamfetamíni.
Vitnið var spurt hvort það teldi að amfetamín sem fannst á staðnum hefði verið framleitt þar. Vitnið svaraði því til að sjö pakkar af amfetamíni hefðu fundist og amfetamínið enn verið blautt. Samkvæmt niðurstöðum sænsku rannsóknarstofunnar hefði þetta amfetamín verið framleitt með Leuckart-aðferðinni. Vitnið útskýrði af hverju amfetamín væri blautt og sagði að það gæti þýtt tvennt. Við framleiðslu á amfetamíni verði það eins og olíukennt efni og því þurfi að breyta því í fast efni. Amfetamínolíunni sé breytt með brennisteinssýru og metanóli. Amfetamínolían verði þá að amfetamínsúlfati sem sé fast efni. Amfetamínið samanstandi þá af amfetamíni, brennisteinssýru og metanóli. Amfetamínsúlfatið sé á því stigi blautt. Síðan sé amfetamínsúlfatið skilið frá brennisteinssýrunni og metanólinu. Lokavaran séu blautir kristallar. Á árum áður hafi menn alltaf þurrkað amfetamínið og síðan selt það sem þurra afurð. Nú til dags sé kristöllunum, þegar þeir eru enn blautir, pakkað í lokanlega poka og efnið síðan selt. Á ólöglega markaðinum sé blautt amfetamín merki um hreinleika vörunnar. Það sem vitnið verði vart við í sífellt auknum mæli sé að amfetamínið sé útþynnt og síðan sé bleytt í því með metanóli, því pakkað og það selt sem blautt amfetamín. Kaupandinn geri því ráð fyrir að hann sé með hreina afurð en ekki þynnt efni. Það sé því ekki óvenjulegt að þynnt amfetamín sé blautt.
Vitnið var beðið um að gera nánar grein fyrir því hvort það teldi að amfetamínið sem fannst á staðnum hefði verið framleitt þar og hverjar röksemdirnar væru fyrir því. Vitnið taldi svo vera vegna búnaðarins, hluta þeirra efna sem notuð væru í Leuckart-aðferðinni, ásamt tilvist búnaðar til að þynna amfetamín, sambærni milli pökkunarbúnaðar á borðinu og umbúðanna á pökkunum sjö og þeirri staðreynd að sala á amfetamíni veitti miklu meiri ágóða en sala á P-2-P. Þessu til viðbótar benti vitnið á að leifar af amfetamíni hefðu fundist í úrgangi í vaskinum. Þar af leiðandi taldi vitnið miklar líkur á því að amfetamín hefði verið framleitt þarna. Það væri ekki skynsamlegt að selja P-2-P og kaupa síðan eða fá amfetamín og byrja svo að þynna það. Leuckart-aðferðin væri mjög einföld og ef búnaður væri til staðar væri rökréttara að breyta P-2-P í amfetamín. Vitnið sagði að lokum að miðað við búnað og efni á staðnum væri það mat sitt að amfetamín hefði verið framleitt þarna.
Vitnið Daniel Dudek er lögreglumaður hjá Europol og lögfræðingur að mennt. Hann starfar þar sem sérfræðingur á sviði nýmyndaðra lyfja. Vitnið lýsti því að hann hefði aðstoðað lögregluyfirvöld hér á landi við rannsókn málsins og við að taka niður verksmiðjuna.
Vitnið var innt eftir því hvort fundist hefðu vísbendingar á vettvangi um að ákærðu hafi ætlað að framleiða þar fíkniefni. Vitnið sagði að á grundvelli reynslu sinnar og þeirra sönnunargagna sem fundust á vettvangi væri það skoðun sín að ákærðu hafi ætlað eða reynt að framleiða fíkniefni. Búnaður og efni á vettvangi, auk niðurstaðna rannsóknarstofu sænska ríkisins í réttarvísindum, sem og niðurstaðna Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, ásamt reynslu vitnisins af svona verksmiðjum, gæfi tilefni til að ætla að þarna hafi verið framleitt amfetamín. Vitnið kvaðst hafa séð, við rannsókn á vettvangi, búnað og efni til framleiðslu á amfetamíni. Þar hefði fundist P-2-NP og um 700 g af amfetamíni, sem rannsóknarstofan í Svíþjóð (SKL) hefði staðfest að var framleitt með Leuckart-aðferðinni. Niðurstaða vitnisins og starfsfélaga þess hefði verið sú að ákærðu hafi fyrst framleitt P-2-NP og svo P-2-P. Þeir hefðu svo beitt Leuckart-aðferðinni til að framleiða amfetamín. Vitnið sagði að ákærðu hefðu haft næg efni á staðnum til að framleiða amfetamín með Leuckart-aðferðinni. Fram kom að formamíð og maurasýra væru notuð til að framleiða amfetamín með Leuckart-aðferðinni. Vitnið sagði að sjaldnast finnist öll þau efni á vettvangi sem þurfi til að fullvinna amfetamín, einfaldlega vegna þess að efnin hafi þegar verið notuð til framleiðslu.
Innt eftir því hvort P-2-P væri notað í öðru skyni en til að framleiða amfetamín eða metamfetamín sagði vitnið að þetta efni væri eingöngu notað við ólöglega framleiðslu fíkniefna. Vitnið sagði að það hefði verið orðrómur í fjölmiðlum um að hægt væri að nota efnið til að framleiða t.d. hreinsiefni, en það væri ekki rétt. Í 99,9% tilvika væri þetta efni notað í ólöglegum tilgangi. Þá var vitnið spurt hvort þekkt væri að verksmiðjur framleiddu eingöngu P-2-P, en ekki amfetamín. Vitnið kvaðst vita til þess að fundist hefðu ólöglegar verksmiðjur sem framleiddu P-2-P og svo hafi innan sömu glæpasamtaka framhaldsframleiðsla verið á öðrum stað til að forðast að upp um það kæmist. Vitnið var þá innt eftir því hvort hægt væri að útiloka að aðeins hafi verið um að ræða framleiðslu á P-2-P í þessu máli. Vitnið kvaðst telja að framleiðsla á amfetamíni hefði átt sér stað á vettvangi. Sú skoðun vitnisins væri byggð á þeim búnaði og efnum og öðru því sem fannst á vettvangi. Vitnið vísaði jafnframt til skýrslu sænsku rannsóknarstofunnar því til stuðnings. Vitnið sagði það vera skoðun sína að þarna hefði ekki bara verið framleitt P-2-P, heldur einnig amfetamín.
Vitninu var bent á að amfetamín sem fannst á staðnum hefði verið blandað með koffíni, en ekkert koffín hefði fundist á staðnum. Aftur á móti hefðu 1.000 kg af laktósa fundist þar. Vitnið benti þá á að amfetamínið hefði verið þynnt með laktósa og koffíni. Vitnið sagði að þegar Leuckart-aðferðinni væri beitt þá fyndust aldrei á svona stöðum öll þau efni sem notuð væru. Amfetamín hefði fundist á vettvangi á ýmsum ílátum og bensaldehýð. Vitnið var spurt hvort ekki væri hægt að líta svo á að amfetamínið sem fannst á vettvangi hafi komið annars staðar frá og svaraði vitnið því til að miðað við gögn málsins og niðurstöður rannsókna hefði framleiðsla á amfetamíni átt sér stað á vettvangi. Vitnið sagði jafnframt að algengt væri við rannsóknir á verksmiðju sem þessari að ýmsar tegundir af fíkniefnum fyndust, eins og kannabis og kókaín. Vitnið sagði að lokum að það teldi, miðað við rannsóknina og þau gögn sem fundust á staðnum, að amfetamínið hefði verið framleitt af ákærðu. Þótt sum efni hefðu ekki verið þarna væru sterkar vísbendingar um að amfetamín hefði verið framleitt þar.
Vitnið A greindi frá því að hann þekkti ákærða Tind en ekki ákærða Jónas Inga. Hann kvaðst hafa komið að Rauðhellu 1 eða Móhellu 4e til að hitta ákærða Tind og skoðað m.a. „eldvarnarkjaftæðið“. Vitnið kvaðst hafa lýst því sem hann sá hjá lögreglu en hann myndi þetta ekki vel í dag. Um samtöl vitnisins við ákærða Tind, sem lögregla hleraði, kvaðst vitnið hafa gefið skýrslu um þetta hjá lögreglu og gat ekki útskýrt hvað þeir hefðu verið að ræða eða hvort þeir hefðu rætt um fíkniefni.
Vitnið B kom fyrir dóm og var borið undir hann að fram hefði komið hjá ákærða Jónasi Inga hjá lögreglu að vitnið hefði látið hann fá upplýsingar um framleiðslu fíkniefna. Vitnið neitaði alfarið að tjá sig um þetta.
Vitnið Eiríkur Valberg lögreglumaður, sem flutti ákærða Jónas Inga á lögreglustöðina á Hverfisgötu, sagði að ákærði hefði að fyrra bragði farið að tala um þetta mál og sagt að hann hefði verið „tekinn með höndina í kökukrúsinni“. Hann hefði sagst gera sér grein fyrir því að hann væri á leiðinni „austur“ í langan tíma og það kæmi sér vel að hann þekkti samfélagið þar. Þá hefði ákærði talað um að hann hefði framleitt efnið fenýlaseton (P-2-P), sem væri í raun lokastig framleiðslu amfetamíns, og átt að fá góðan pening fyrir það.
Vitnið Magnús Guðmundsson lögreglumaður skýrði frá því að hann hefði, ásamt Eiríki Valberg lögreglumanni, flutt ákærða Jónas Inga af vettvangi á lögreglustöð. Vitnið sagði að ákærði hefði sagt að hann hefði verið tekinn með höndina í kökukrúsinni og væri á leiðinni austur í einhvern tíma. Vitnið kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði rætt um hvaða efni hann hafi verið að framleiða.
Vitnið Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, sem stýrði rannsókn á vettvangi að Móhellu 4e og Rauðhellu 1, lýsti aðgerðum á vettvangi og sagði að þar hefði verið talin sprengihætta. Fram kom að flaskan í eimingartækinu hefði brotnað þegar hún var tekin niður. Efnið sem var í henni hefði verið sett í eiturnefnatunnu og sýni tekin úr því til efnagreiningar. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnisins frekar.
Vitnið Steinarr Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi kom fyrir dóm og greindi frá skoðun á tölvugögnum, sem fyrir liggja í málinu, en ekki er ástæða til að rekja framburð vitnisins sérstaklega. Einnig komu fyrir dóm vitnin Ævar Pálmi Pálmason rannsóknarlögreglumaður og C. Vitnin staðfestu lögregluskýrslur sem fyrir liggja í málinu, en ekki er ástæða til að rekja hér framburð þeirra.
VI.
Ákærðu neita báðir sök. Þeir viðurkenna að hafa framleitt P-2-P (bensýl metýl ketón) til endursölu og segja að þeir hafi notað í því skyni P-2-NP (fenýl-2-nítróprópen). Þeir neita því að hafa framleitt eða ætlað að framleiða fíkniefni úr þessum efnum. Ákærðu byggja sýknukröfu sína einkum á því að framleiðsla á P-2-P og P-2-NP sé ekki refsiverð og ósannað sé að framleiðslan hafi verið í þeim tilgangi að búa til fíkniefni. Þá bera ákærðu það fyrir sig að ekki hafi verið til staðar nauðsynleg efni til að framleiða amfetamín eða metamfetamín. Enn fremur bera ákærðu brigður á að magn efna sem tilgreint er í ákæru málsins sé rétt og gera athugasemdir við heimfærslu í ákæru til refsiákvæða.
Ákærðu hafa lýst því að þeir hafi ætlað að framleiða eldvarnarefni. Ákærði Jónas Ingi hefði svo um vorið 2008 verið beðinn af ónafngreindum aðila um að framleiða P-2-P og ákærði Tindur aðstoðað hann við það. Framburður ákærða Jónasar Inga er um margt ótrúverðugur. Hann hefur ekki viljað greina frá því hvaða aðili hafi beðið hann um að útvega efnið og segir að hann hafi verið beðinn um að útvega um 300 ml af efninu. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði ekki séð ástæðu til að framleiða meira af því. Ekki hafi verið búið að semja um greiðslu fyrir efnið og allur útlagður kostnaður við kaup á búnaði og efni til framleiðslunnar hefði verið greiddur af þessum aðila, en kostnaður hafi verið á bilinu 3-6 milljónir króna. Þessi framburður ákærða verður að teljast mjög ótrúverðugur í ljósi vitnisburðar sérfræðings hjá Europol, Andre Van Rijn, um að hægt sé að kaupa lítra af P-2-P í Evrópu á ólöglegum markaði á 650-1.100 evrur, en efnið sé framleitt í miklu magni í Kína og Rússlandi og flutt þaðan. Enn fremur er til þess að líta, eins og fram kemur í skýrslu Europol, að með því magni P-2-NP sem fannst á vettvangi (38.037,67 g) fást 28,245 lítrar af P-2-P. Þá eru ýmsar skýringar ákærða á efni og búnaði, sem lögregla lagði hald á, með ólíkindablæ. Þannig sagði ákærði að ílát til afoxunar með rafgreiningu, eða vetnun, væri til að nota í gróðurstöð en að mati dómsins er slíkur tilgangur sérhæfðs búnaðar vandséður. Þá verður það að teljast ólíklegt að ákærði hafi keypt platínu (IV) oxíð ætlað til endursölu og ekki haft kaupanda að efninu. Þetta er efnahvati sem er mjög dýr og eins og vitnið Már Másson prófessor hefur greint frá kosta 10 g af efninu um 250.000 krónur. Jafnframt er þessi skýring ekki í samræmi við framburð meðákærða sem sagði fyrir dómi að ákærði hefði nefnt þetta efni í sambandi við eldvarnarkvoðu. Í ljósi þess hversu dýrt þetta efni er væri fráleitt að nota það til að búa til eldvarnarefni. Einnig verður að draga í efa framburð ákærða um að hann hafi ætlað að nota metýlamín í stað bútýlamíns við framleiðslu á P-2-P, en hann hafi fundið þá uppskrift á netinu. Eins og fram kom hjá vitninu Má Mássyni prófessor er bútýlamín þekkta efnið til að framleiða P-2-P og engin ástæða til að reyna notkun metýlamíns ef bútýlamín er fyrir hendi. Auk þess þarf samkvæmt þeirri uppskrift sem ákærði bendir á, sem hann fann á netinu, mjög lítið magn af metýlamíni. Miðað við það magn metýlamíns sem fannst á vettvangi, 44 lítrar í 40% vatnslausn, hefði fengist um þúsundfalt magn þess sem ákærði kvaðst hafa verið beðinn um að útvega af P-2-P. Þá þykja ummæli ákærða við handtöku benda til þess að hann hafi verið að framleiða annað og meira en P-2-P. Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða verður enn fremur að horfa til þess að í tölvugögnum sem fundust hjá honum voru fjölmargar og ítarlegar greinar um framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Að öllu þessu virtu er framburður ákærða, um að hann hafi hvorki framleitt né ætlað að framleiða amfetamín eða metamfetamín, ótrúverðugur.
Ákærði Tindur greindi frá því fyrir dómi að hann hefði aðstoðað meðákærða við að framleiða P-2-P og ekki hefði verið rætt um greiðslu til hans fyrir það. Ákærði sagði að hann hefði ekki þekkt til þessa efnis og hann hefði ekki kynnt sér til hvers það væri notað. Þessi framburður ákærða verður að teljast ótrúverðugur, enda fannst í tölvu hans fjöldi greina um það hvernig efnið er notað til að framleiða fíkniefni. Hjá báðum ákærðu fannst t.d. sama skjalið, „Large-Scale Methamphetamin Manufacture“. Þá er misræmi í framburði ákærða og meðákærða, eins og um skýringar á því til hvers ætti að nota platínu (IV) oxíð. Jafnframt er ósamræmi í framburði þeirra varðandi það hvort ákærði hafi haft lykil að húsnæðinu að Móhellu 4e og Rauðhellu 1. Einnig er að líta til þess að ákærði kvaðst ekki vita til hvers málmgrind með rólu (hristibúnaður), sem var heimasmíðuð og fannst á vettvangi, væri notuð. Samt fannst mynd í tölvu hans af sams konar búnaði. Eins og rakið hefur verið hér að framan hleraði lögregla símtal milli ákærðu hinn 1. október 2008. Þar biður ákærði meðákærða um að gera sér „risastóran greiða“ og fá sér nýjan síma fyrir „allar svona pantanir“ og segir að það sé margt sem þeir hafi „mjög mikla áhættu af“. Þessi ummæli hans benda til þess að þeir hafi haft annað og meira í huga en að framleiða einungis P-2-P. Með vísan til framangreinds er framburður ákærða, um að hann hafi hvorki framleitt né ætlað að framleiða fíkniefni með meðákærða, ótrúverðugur.
Sérfræðingar sem hafa komið fyrir dóm, Már Másson prófessor, Andre Van Rijn og Daniel Dudek hjá Europol, eru allir á einu máli um að miðað við þann búnað og efni sem fannst á vettvangi þá hafi verið um að ræða framleiðslu amfetamíns. Vitnin hafa borið um það að öll tæki til fíkniefnaframleiðslu voru á staðnum og þótt ekki hefði fundist formamíð og maurasýra, sem notað er við framleiðslu amfetamíns með aðferð Leuckarts, þýði það ekki að fíkniefni hafi ekki verið framleidd þar eða að það hafi ekki staðið til. Ekki er erfitt að nálgast formamíð, maurasýru eða vetnisgas. Jafnframt sögðu sérfræðingar Europol að öll þau efni sem til þarf við framleiðslu fíkniefna finnist sjaldnast á vettvangi, annaðhvort vegna þess að búið sé að nota efnin eða það eigi eftir að koma með þau, enda um fjölþrepaframleiðslu að ræða. Vitnið Már Másson prófessor benti sérstaklega á að metýlamín hefði fundist á staðnum, en það sé ekki notað til að framleiða P-2-P heldur til að búa til fíkniefni, sérstaklega metamfetamín. Eins og áður hefur verið rakið fær skýring ákærða Jónasar Inga ekki staðist um að það hafi átt að nota metýlamínið við framleiðslu á P-2-P. Þá verður að horfa til þess að efni og tæki til framleiðslu á metamfetamíni úr P-2-P og metýlamíni voru á staðnum, þ.e. sérhæfður vetnisbúnaður og efnahvatinn platínu oxíð. Platínu oxíð er mjög dýrt efni sem, samkvæmt skýrslu Europol, er oft gert upptækt þar sem framleiðsla fíkniefna hefur farið fram. Enn fremur er til þess að líta að eitt tilbrigði Leuckart-aðferðarinnar er að nota ammoníum format sem hvarfefni við framleiðslu amfetamíns og er þessari aðferð lýst ítarlega í grein um aðferðir Leuckarts sem fannst á geisladiski á starfsstöð fyrirtækis ákærða Jónasar Inga, Hjúps ehf. Í upplýsingaskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. apríl 2009, er að finna yfirlit yfir viðskipti Hjúps ehf. hjá Parlogis ehf. Þar kemur fram að Hjúpur ehf. keypti 1 kg af ammoníum format. Samkvæmt framansögðu er ljóst að sú fullyrðing ákærðu fær ekki staðist að þeir hafi ekki haft tilskilin efni til að framleiða fíkniefni og geta þeir því ekki borið það fyrir sig. Þá voru ummerki á vettvangi um að ákærðu hafi staðið að dreifingu fíkniefna. Þar fundust m.a. blandarar, vogir, mikið magn af mjólkursykri, litlir pokar og límband fannst á borði, en það var sömu gerðar og á pökkunum sjö sem innihéldu amfetamín.
Ákærðu halda því fram að magn P-2-NP hafi verið mun minna en greinir í ákæru þar sem það hafi innihaldið metanól. Efnið P-2-NP er vandmeðfarið og lítið þarf út af að bregða svo það verði brúnt. Samkvæmt gögnum málsins og vitnisburði Andre Van Rijn voru kristallarnir gulir á lit og því mjög hreinir. Eins og vitnið Már Másson prófessor sagði er magn metanóls óverulegt þegar um er að ræða fast efni og við skýrslutöku ákærða Tinds hjá lögreglu 18. nóvember 2008 skýrði hann frá því að ákærðu hefðu notað filterflösku við að hreinsa kristallana og sía vökva frá. Þá höfðu kristallarnir verið settir í frysti en það er ekki gert nema búið sé að sía vökva frá. Verður því lagt til grundvallar að ákærðu hafi framleitt 38.037,67 g af P-2-NP.
Eins og fram kemur í gögnum málsins og vitnisburði Andre Van Rijn var eiming í gangi á P-2-P þegar framleiðsla ákærðu var stöðvuð. Það hefur engin áhrif í máli þessu að hvarfaílátið hafi brotnað þegar framleiðslan var stöðvuð þar sem það er vökvinn í pottinum sem skiptir máli. Út úr eimingarrörinu og í pottinn kom tær vökvi, en það bendir til þess að efnið hafi verið rétt unnið og því verið hreint. Vökvinn var tveggja laga, olíukenndur vökvi og vatn. Þar sem mæling fór ekki fram á hlutfalli olíukennda vökvans og vatns verður ekki fullyrt um magn P-2-P. Hvað sem því líður þá hefur það ekki sérstaka þýðingu hvert var raunverulegt magn efnisins þar sem í ákæru er lagt til grundvallar hvað hefði verið hægt að framleiða mikið af amfetamíni úr P-2-NP, en ekki úr P-2-P.
Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið er sannað svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að ákærðu hafi staðið saman að framleiðslu fíkniefna til söludreifingar og að hafa í því skyni framleitt 38.037,67 g af P-2-NP og ótiltekið magn af P-2-P. Lagt verður til grundvallar að úr þessu hefðu ákærðu getað framleitt 14,122 kg af hreinu amfetamíni eða metamfetamíni, en með því að þynna efnið til neyslu hefði mátt fá úr því allt að 353 kg. Ekki er fallist á með ákærðu að verknaðarlýsing í ákæru verði ekki heimfærð sem brot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að hver sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skuli sæta fangelsi allt að 12 árum. Þá segir í 2. mgr. að sömu refsingu skuli sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga „framleiðir“ ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
2. og 3. tl. ákæru
Ákærði Jónas Ingi hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákvörðun refsingar og sakarkostnaður
Ákærði Jónas Ingi var með héraðsdómi 9. nóvember 2004, sem staðfestur var í Hæstarétti 28. apríl 2005, dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn lífi og líkama og fyrir ósæmilega meðferð á líki. Ákærði fékk reynslulausn 8. febrúar 2007 á eftirstöðvum refsingar, 300 dagar. Með úrskurði 26. nóvember 2008 var ákærða gert að afplána eftirstöðvar þeirrar refsingar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Ákærði hefur þannig lokið afplánun á eftirstöðvum refsingar.
Ákærði Tindur var hinn 17. maí 2004 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir eignaspjöll og líkamsárásir. Með héraðsdómi 12. apríl 2006 var ákærði dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, fjórar líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Dómurinn frá 17. maí 2004 var dæmdur með. Refsing ákærða var staðfest með dómi Hæstaréttar 7. desember 2006. Ákærða var veitt reynslulausn hinn 15. september 2008 á eftirstöðvum refsingar, 1080 dagar. Með úrskurði 26. nóvember 2008 var ákærða gert að afplána þær eftirstöðvar refsingar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Framangreindur dómur verður því ekki tekinn upp og dæmdur með í máli þessu. Með viðurlagaákvörðun 6. janúar 2009 gekkst ákærði undir sektargreiðslu og sviptingu ökuréttinda fyrir umferðarlagabrot.
Ákærðu stóðu saman að framleiðslu mikils magns fíkniefna í söluskyni. Ekki er ástæða til að gera greinarmun á þætti ákærðu í málinu. Með því magni P-2-NP sem lögregla lagði hald á hefði mátt framleiða rúmlega 14 kg af hreinu amfetamíni. Með því að drýgja efnið hefði samkvæmt útreikningum Europol mátt fá úr því allt að 353 kg af amfetamíni. Brot ákærðu er stórfellt og verður að teljast enn alvarlegra en innflutningur eða varsla fíkniefna. Þá var ásetningur þeirra styrkur og einbeittur. Ákærðu eiga sér engar málsbætur. Ákærði Jónas Ingi hefur játað sök samkvæmt 2. og 3. tl. ákæru. Magn kannabis sem tilgreint er í 2. tl. ákæru er mjög mikið, rúmlega 18 kg. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði var magn tetrahýdrókannabínóls 37 mg/g. Ekki er því fallist á með ákærða Jónasi Inga að um kannabisúrgang hafi verið að ræða með litlum sem engum vímuáhrifum. Við ákvörðun refsingar ber hins vegar að líta til þess að styrkleikinn er nokkuð undir miðgildi. Magn kannabis í 3. tl. ákæru er 75,36 g og magn amfetamíns 692,95 g. Styrkur amfetamínbasa í amfetamíninu er ekki mikill eða tæplega 3%, en það samsvarar um tæplega 4% af amfetamínsúlfati. Refsingu ákærða Jónasar Inga fyrir umrædd brot ber að tiltaka í einu lagi, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 667/2006 þykir refsing ákærða Jónasar Inga hæfilega ákveðin fangelsi í tíu ár. Refsing ákærða Tinds þykir hæfilega ákveðin fangelsi í átta ár. Til frádráttar fullnustu refsingar ákærðu komi gæsluvarðhald sem þeir sættu frá 16. október 2008 til 26. nóvember sama ár, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til þeirra lagaákvæða sem vísað er til í ákæru málsins ber að gera upptæk til ríkissjóðs 38.037,67 g af P-2-NP, ótiltekið magn af P-2-P, samtals 18.234,25 g af kannabis og 692,95 g af amfetamíni, sem lögregla haldlagði. Ákærði Tindur gerir ekki athugasemdir við upptökukröfu en ákærði Jónas Ingi við hluta af þeim munum sem krafist er upptöku á. Telja verður að öll þau tæki, búnaður og efni sem lögregla lagði hald á og tilgreind eru á skjali 1.0.68 til 1.0.216 í skjalaskrá lögreglu, hafi verið notuð eða ætluð til að framleiða fíkniefni. Verður ákærðu samkvæmt framansögðu gert að sæta upptöku á þeim.
Þá ber ákærðu að greiða allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er útlagður kostnaður við rannsókn málsins 2.530.851 króna, sem þeim ber að greiða óskipt. Auk þess greiði ákærði Jónas Ingi þóknun verjanda á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðst með hliðsjón af tímaskýrslu, 139.440 krónur. Jafnframt greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 1.627.962 krónur. Ákærði Tindur greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst, með hliðsjón af tímaskýrslu, 2.046.282 krónur. Við ákvörðun þóknunar allra verjenda hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts og vinnu á rannsóknarstigi.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, dr. Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í lífrænni efnafræði, og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Jónas Ingi Ragnarsson, sæti fangelsi í tíu ár.
Ákærði, Tindur Jónsson, sæti fangelsi í átta ár.
Til frádráttar refsingu ákærðu komi gæsluvarðhald þeirra frá 16. október 2008 til 26. nóvember sama ár.
Gerð eru upptæk til ríkissjóðs 38.037,67 g af P-2-NP, ótiltekið magn af P-2-P, 18.234,25 g af kannabis og 692,95 g af amfetamíni. Jafnframt eru gerð upptæk tæki, búnaður og efni sem lögregla lagði hald á og tilgreind eru á skjali 1.0.68 til 1.0.216 í skjalaskrá lögreglu.
Ákærði Jónas Ingi greiði í sakarkostnað 139.440 króna þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, og 1.627.962 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.
Ákærði Tindur greiði í sakarkostnað 2.046.282 króna þóknun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns.
Annan sakarkostnað, 2.530.851 krónu, greiði ákærðu óskipt.