Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Gagnsök
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Föstudaginn 26. mars 1999. |
|
Nr. 137/1999. |
Guðjón Styrkársson (sjálfur) gegn Ragnari Þórðarsyni (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Gagnsök. Kæruheimild. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.
G kærði úrskurð héraðsdómara þar sem hafnað var kröfu hans um frávísun máls sem R hafði höfðað gegn honum og einnig tekin til greina krafa R um frávísun gagnsakar sem G hafði höfðað. Kröfu G, um að tekin yrði til greina krafa hans um frávísun, var vísað frá Hæstarétti þar sem heimild skorti til kæru úrskurðarins að þessu leyti. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gagnsök hafi verið höfðuð of seint og gagnsakarmálinu yrði vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um frávísun máls varnaraðila á hendur sér, en fallist á kröfu varnaraðila um að gagnsök sóknaraðila í málinu yrði vísað frá dómi. Sóknaraðili krefst þess að aðalsök í málinu verði vísað frá dómi, en kröfu varnaraðila um frávísun gagnsakar verði hafnað. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Sú niðurstaða héraðsdómara að hafna kröfu sóknaraðila um frávísun aðalsakar getur ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti í kærumáli, svo sem leitt verður af gagnályktun frá j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður kröfu sóknaraðila um frávísun aðalsakarinnar því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila er samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði heimil kæra að því er varðar niðurstöðu héraðsdómara um að vísa gagnsök hans frá dómi. Málið var þingfest í héraði 15. september 1998. Sóknaraðili höfðaði hins vegar gagnsökina 10. nóvember sama árs og var þá liðinn frestur til þess samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Verður niðurstaða héraðsdómara um frávísun gagnsakar því staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila, Guðjóns Styrkárssonar, um frávísun aðalsakar í máli varnaraðila, Ragnars Þórðarsonar, gegn honum.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar frávísun gagnsakar sóknaraðila á hendur varnaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. febrúar sl., var höfðað með stefnu, birtri 9. sept. sl. Stefnandi er Ragnar Þórðarson, kt. 180620-4009, Hjallaseli 55, Reykjavík. Stefndi er Guðjón Styrkársson, kt. 121231-2559, Sóleyjargötu 31, Reykjavík. Með gagnstefnu, þingfestri 10. nóvember sl, höfðaði stefndi gagnsök á hendur stefnanda.
Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök: Að stefnda verði gert að greiða skuld að fjárhæð 450.000 kr. með dráttarvöxtum frá 1. nóv. 1997 til greiðsludags og málskostnað skv. gjaldskrá lögfræðistofu Guðmundar Arnar Guðmundssonar hdl.
Dómkröfur aðalstefnda í aðalsök: Að málinu verði vísað frá dómi. Í öðru lagi að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins úr hendi stefnanda og umboðsmanns hans.
Dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök: Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 815.340 kr. auk gildandi dráttarvaxta frá 10. nóvember 1998 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins. Þess er krafist að dráttarvextir af höfuðstól og málskostnaði leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, fyrst 12 mánuðum eftir þingfestingu.
Dómkröfur gagnstefnda í gagnsök: Aðallega er þess krafist að gagnsökinni verði vísað frá dómi en til vara að gagnstefndi verði sýknaður og til þrautavara að kröfur gagnstefnanda verði verulega lækkaðar.
Í öllum tilvikum gerir gagnstefndi kröfu um málskostnað úr hendi gagnstefnanda að mati dómsins.
Frávísunarkröfur í aðalsök og gagnsök eru hér til úrlausnar.
Málavextir.
Í aðalsök krefur aðalstefnandi aðalstefnda um greiðslu húsaleigu tímabilið 1. nóv. 1994 til 1. nóv. 1997. Að sögn aðalstefnanda átti aðalstefndi að greiða 500 kr. fyrir hvern fermetra á mánuði. Hið leigða er að sögn aðalstefnanda 25 fermetra húsnæði á annari hæð Aðalstrætis 9 í Reykjavík.
Í gagnsök krefur gagnstefnandi gagnstefnda um greiðslur vegna hreingerninga og teppalagnar sem gagnstefnandi kveðst hafa annast fyrir gagnstefnda á eignarhluta þeim sem aðalstefnandi krefur um leigugreiðslur fyrir í aðalsök. Jafnframt krefur gagnstefnandi gagnstefnda um greiðslu skaðabóta vegna vanhirðu og illrar umgengni á sameign hússins og þar með verðrýrnun á eignarhluta gagnstefnanda, sem valdið hafi því að gagnstefnanda hafi reynst ómögulegt að selja eða leigja húsnæði sitt nærri tvö síðastliðin ár.
Málsástæður og rökstuðningur aðalstefnda fyrir frávísunarkröfu í aðalsök.
Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að málatilbúnaður af hálfu aðalstefnanda sé ekki í samræmi við lög nr. 91/1991um meðferð einkamála, sbr. g og h lið 80. gr. Aðalstefnandi skýri ekki frá hvaða gögn hann hyggist leggja fram, heldur sé það háð afstöðu aðalstefnda. Aðalstefnanda beri að útskýra gögn sín í stefnu. Af hálfu aðalstefnanda sé skilyrt hverja hann hyggist leiða fyrir dóm sem vitni. Frá þessu beri að skýra í stefnu.
Engin stuðningsgögn séu með stefnukröfunni og málið höfðað að þarflausu án tilefnis, kröfur og staðhæfingar rangar og haldlausar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 131. gr.
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna var því haldið fram af hálfu aðalstefnda að í málinu sé ekkert umboð frá stefnanda og efaði aðalstefndi að lögmaður geti rekið mál án þess að hafa til þess umboð.
Mótmæli aðalstefnanda við frávísunarkröfu í aðalsök.
Af hálfu aðalstefnanda var þess krafist að frávísunarkröfu í aðalsök verði hafnað og aðalstefnanda verði tildæmdur málskostnaður sérstaklega vegna frávísuanrkröfunnar.
Stefnan í málinu sé í samræmi við 80. gr. laga um meðferð einkamála. Þar sé áskilnaður um að tilgreina síðar fleiri vitni en vitni það sem tilgreint er í stefnu. Í þessu sambandi var af hálfu aðalstefnanda bent á það sem fram komi í greinargerð aðalstefnda um áskilnað til frekari gagnaöflunar og vitnaleiðslna ef tilefni gefist.
Rökstuðningur gagnstefnda fyrir frávísunarkröfu í gagnsök.
Af hálfu gagnstefnda er því haldið fram að málatilbúnaður gagnstefnanda sé mjög óskýr. Ekki sé ljóst á hverju skaðabótakrafan byggist. Samkvæmt hvaða reglum eða lagasjónarmiðum beri gagnstefndi persónulega ábyrgð vegna meintra vanhirðu á sameign í húsinu. Það sé langt frá því að vera ljóst á hverju gagnstefnandi byggi mál sitt. Um hreina vanreifun sé að ræða, bæði er varðar bótagrundvöll fyrir skaðabótakröfunni og endurgreiðslukröfunni. Málsgrundvöllur og málsástæður gagn-stefnanda komi ekki fram í gagnstefnu. Jafnframt sé um vanreifun að ræða er varði rétt gagnstefnanda til skuldajafnaðar. Ekki sé t.d. nóg að kröfu megi rekja til sama atviks til að öðlast rétt til skuldajafnaðar. Í 28. gr. laga nr. 91/1991 sé aðeins átt við það að það sé skilyrði að kröfu megi rekja til sama atviks svo koma megi gagnkröfu að í sama máli. Ekki sé gerð grein fyrir rétti til skuldjafnaðar á grundvelli kröfuréttar. Málatilbúnaður gagnstefnanda sé því í andstöðu við ákvæði c,e,f, og g liðar 80. gr. laga nr. 9171991.
Stefna málsins hafi verið þingfest 15. sept. 1998. Gagnstefnandi hafi skilað greinargerð í aðalsök 10. nóv. 1998. Sama dag var gagnstefna þingfest. Við þá fyrirtöku hafi verið bókuð mótmæli gagnstefnda um það að gagnstefna væri of seint fram komin. Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 sé kveðið á um það að ef höfð sé uppi gagnkrafa til skuldajafnaðar án þess að gagnstefna og skilyrði skuldjafnaðar séu fyrir hendi skuli hafa hana uppi í greinargerð. Það hafi aðalstefndi ekki gert. Í 2. mgr. 28. gr. tilvitnaðara laga sé kveðið á um að ef gagnkrafa sé höfð uppi í máli með gagnstefnu þá verði að höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Þessi tvö skilyrði, þ.e. annars vegar að kröfu um skuldajöfnuð skuli hafa uppi í greinargerð eða hins vegar að gagnstefna skuli innan mánaðar frá þingfestingu séu grundvallaratriði sem á skorti. Þar að auki hafi gagnstefna ekki verið birt fyrir gagnstefnda heldur lögð fram sem venjulegt dómskjal. Ekkert í þessu afsaki gagnstefnanda þannig að 3. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála geti átt við, enda sé því ekki haldið fram í gagnstefnu.
Krafa aðalstefnanda í aðalsök sé kröfuréttarmál vegna leiguskuldar. Gagnstefnandi virðist hins vegar byggja gagnkröfu sína á einhverskonar skaðabótum. Krafa í aðalsök og gagnsök séu ekki samrættar, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Fullnægi gagnkrafa því ekki skilyrði 28. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til gagnstefnu eða skuldajafnaðar í málinu.
Mótmæli gagnstefnanda við frávísunarkröfu í gagnsök.
Af hálfu gagnstefnanda var þess krafist að frávísunarkröfu í gagnsök verði hrundið og gagnstefnanda tildæmdur málskostnaður í þessum þætti málsins.
Af hálfu gagnstefnanda var því haldið fram að gagnkrafan sé boðuð í greinargerð í aðalsök. Samkvæmt 3. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 sé gagnkrafa þingfest þegar hún er gerð fyrir dómi. Gagnstefna sé ekki ofseint framkomin, sbr. 3. mgr. 28. gr. tilvitnaðra laga. Birting gagnstefnu í máli þessu sé lögleg, sbr. 4. lið 83. gr. laga nr. 91/1991. Gagnstefna hafi verið lögð fram í sama þinghaldi og greinargerð í aðalsök.
Niðurstaða.
Fyrst verður tekin afstaða til frávísunarkröfu aðalstefnda í aðalsök.
Í stefnu eru talin þau gögn sem aðalstefnandi leggur fram. Stefnandi höfðar málið til heimtu húsaleigu, að hans sögn samkvæmt munnlegum leigusamningi. Þegar af þeirri ástæðu verður leigusamningur trauðla lagður fram.
Í stefnu er tilgreint eitt vitni sem lögmaður aðalstefnanda hyggst leiða við aðalmeðferð málsins. Jafnframt er áskilinn réttur til að tilgreina frekari vitni þegar fram er komið hverju stefndi mótmælir um málsatvik. Slíkur fyrirvari er alvanalegur og varðar ekki frávísun.
Samkvæmt 4. gr. laga um málflytjendur nr. 61/1942 og 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sem tóku gildi 1. janúar sl., telst lögmaður, sem sækir þing fyrir aðila, hafa umboð til þess nema annað sé sannað. Það varðar því ekki frávísun máls að lögmenn leggi ekki fram skriflegt umboð umbjóðenda sinna.
Við efnisúrlausn málsins verður tekin afstaða til þess hvort málið er höfðað að þarflausu án tilefnis og svo þess hvort kröfur og staðhæfingar aðalstefnanda teljast rangar og haldlausar, eins og haldið er fram af hálfu aðalstefnda, eða ekki.
Með vísan til þess sem hér er rakið er frávísunarkröfu aðalstefnda hafnað.
Málskostnaður vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.
Þá verður tekin afstaða til frávísunarkröfu gagnstefnda.
Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Aðalsök í máli þessu var þingfest 15. sept. 1998 en gagnstefnan þingfest 10. nóvember 1998.
Ekki verður litið á hugleiðingar aðalstefnda í greinargerð í aðalsök um skuldir aðalstefnanda og eða bótarétt aðalstefnda á hendur aðalstefnanda sem gagnkröfur enda eru í greinargerð aðalstefnda í aðalsök gerðar eftirfarandi kröfur: 1. Að málinu verði vísað frá dómi. 2. Að stefnandi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 3. Að stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins úr hendi stefnanda og umboðsmanns hans.
Með vísan til framanritaðs er gagnsök höfðuð ofseint. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa gagnsökinni frá dómi, enda hefur ekki verið sýnt fram á að skilyrði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í þessu sambandi.
Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms í málinu.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Frávísunarkröfu aðalstefnda er hafnað.
Frávísunarkrafa gagnstefnda er tekin til greina.