Hæstiréttur íslands

Mál nr. 626/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 26. apríl 2012.

Nr. 626/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur.

X var sakfelld fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa stungið A með hnífi í vinstri öxl. Var refsing X ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fullnustu 9 mánaða af refsingunni var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum þremur árum héldi X almennt skilorð. Þá var X dæmd til að greiða A 500.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en að refsing hennar verði þyngd.

Ákærða krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en að því frágengnu að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst ákærða þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af kröfunni, en að því frágengnu að hún verði stórlega lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærðu verður gert að að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 339.061 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 18. október 2011, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. ágúst 2011 á hendur X, [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt 28. desember 2010, að [...], Reykjavík, veist að [A], slegið hann í andlit og stungið hann með steikarhníf í vinstri öxl, með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu á vinstra kinnbeini og 4 cm skurð á vinstri öxl.

Telst þetta varða við 2. mg. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu [A], kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. desember 2010, þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Verjandi ákærðu krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð af ákæru, en til vara að ákærðu verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá er þess aðallega krafist að miskabótakröfu verði vísað frá dómi eða ákærða sýknuð af kröfu um miskabætur, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.

Málsatvik

Í skýrslu lögreglu frá aðfaranótt þriðjudagsins 28. desember 2010 kemur fram að laust eftir miðnætti hafi borist tilkynning um að maður hafi verið stunginn með hnífi í íbúð að [...] í Reykjavík. Kom fram að brotaþoli, [A], væri á leið á slysadeild. Þá kom fram að ákærða, X, væri völd að hnífsstungunni. Ákærða reyndist ekki vera í íbúðinni er lögreglu bar að garði. Var hún handtekin á heimili kunningja síns í austurborginni klukkan 1:25. Í skýrslu [B] lögreglumanns kemur fram að við handtöku hefði ákærða sagst hafa lent í átökum við fyrrum sambýlismann sinn, [A]. Hefði hann dregið hana á hárinu um íbúðina, en síðan tekið hníf og spurt hana hvort hún ætlaði ekki að stinga hann. Ákærða hefði lýst því svo að hún hefði slegið í hönd [A], sem hann hélt um hnífinn, og við það hefði hnífurinn stungist í öxlina á honum.

Ákærða var með áverka á hendi og var hún færð á slysadeild til skoðunar, þar sem [C] rannsóknarlögreglumaður ræddi við hana. Í skýrslu lögreglumannsins kemur fram að ákærða hafi verið í annarlegu ástandi og hafi hún sagst hafa verið við neyslu vímuefna í þrjá sólarhringa, m.a. áfengis og kókaíns. Hún hafi virst vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna, verið ör og talað samhengislaust. Hún hefði skýrt frá því að þau [A], kærasti hennar, hefðu verið saman á heimili hennar og hefði hún komist að því að hann hefði verið henni ótrúr. Hún hefði í fyrstu ætlað að sætta sig við það og hefðu þau haft samfarir. Hún hefði verið búin að neyta áfengis og kókaíns og hefði hún haldið því áfram um kvöldið. Hún hefði síðan „skipt um skoðun varðandi framhjáhaldið“, reiðst og þau [A] farið að rífast um þetta. Hefði komið til átaka og [A] dregið hana á hárinu um íbúðina. Ákærða sagðist hafa barið [A] margsinnis í andlitið og taldi sig hafa handarbrotnað við það. Á einhverjum tímapunkti hefði [A] haldið á hnífi og sagt við hana: „Viltu ekki bara stinga mig“. Hefði ákærða þá slegið í hönd [A] með þeim afleiðingum að hann hefði skorið sjálfan sig í öxlina. Lögreglumaðurinn ræddi einnig við [A] á slysadeild, sem lýsti atvikinu með öðrum hætti. Sagði hann ákærðu hafa tekið upp hníf af sófaborði og stungið hann í öxlina.

Ákærða var yfirheyrð af lögreglu morguninn eftir atvikið og var skýrslutakan tekin upp á hljóð- og myndband. Ákærða sagði þau [A] hafa verið trúlofuð og hefðu þau búið saman í íbúðinni að [...], en [A] hefði slitið sambandinu fyrir u.þ.b. mánuði og verið einn í íbúðinni eftir það. Hún hefði komið í íbúðina daginn áður og hefði farið vel á með þeim [A] í fyrstu. Hann hefði sagt henni frá því að hann hefði átt í sambandi við aðra stúlku. Þau hefðu haft samfarir þennan dag og aftur um kvöldið. Þegar leið á kvöldið hefðu þau farið að rífast út af þessari stúlku og hefði komið til átaka á milli þeirra. [A] hefði tekið hana hálstaki og rifið í hár hennar, en hún hefði slegið hann nokkrum hnefahöggum. Hún hefði hlotið áverka á hendi við að slá hann og sýndi hún sáraumbúðir á litla fingri og baugfingri hægri handar til marks um það. Ákærða kvað [A] síðan hafa rétt henni hníf og sagt við hana: „Komdu stingdu mig bara.“ Sýndi ákærða með látbragði hvernig [A] hefði sett hnífinn í hönd hennar, tekið um úlnlið hennar og ýtt hendinni svo að hnífurinn fór í öxlina á honum. Ákærða lýsti atvikinu nánar þannig að [A] hefði sett hnífinn í höndina á henni og sagt: „Stingdu mig, stingdu mig.“ Síðan hefði hann læst hönd hennar utan um hnífinn og ýtt hendinni svo að hnífurinn fór í hann sjálfan. Ákærða sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta var, auk þess sem hún hefði neytt kókaíns fyrr um daginn.  

Við skýrslutöku hjá lögreglu 7. janúar 2011 skýrði [A] svo frá að þau ákærða hefðu slitið sambúð fyrir nokkru, en hefðu ákveðið að hittast mánudaginn 27. desember til að ræða málin. Ákærða hefði verið við drykkju þennan dag og hefði hún jafnframt neytt kókaíns í viðurvist hans. Þau hefðu haft samfarir, fengið sér pizzu að borða og hefði ákærða haldið áfram drykkjunni og verið orðin illskeytt. Þau hefðu farið að rífast og hefði það lyktað með því að hann hefði sagt við hana: „Af hverju stingur þú mig ekki bara með hnífi?“ Gaf hann þá skýringu á orðum sínum að honum hefði allt eins fundist hún geta gert það miðað við það sem hún hefði verið að segja við hann, hnífsstunga myndi særa hann jafnmikið og þau orð sem hún hefði látið falla. Hann hefði ekki meint að hún ætti að gera þetta, heldur hefði þetta verið myndlíking sem hann notaði. Ákærða hefði þá tekið upp símann og gert sig líklega til að hringja í strák sem hún hefði áður átt í sambandi við. [A] kvaðst hafa orðið reiður við þetta, rifið af henni símann og rifið í hár hennar aftan á hnakka. Hann hefði síðan gengið fram í forstofu, en ákærða komið á eftir honum og hefði hún þá verið búin að missa stjórn á skapi sínu. Hún hefði gripið skrautexi og slegið henni í kommóðu, sem brotnaði við höggið, en stungið síðan exinni í skrifborð. Því næst hefði hún ráðist á hann með höggum og spörkum og hefði hún meðal annars slegið hann í andlitið. [A] kvaðst þá hafa endurtekið það sem hann hefði áður sagt: „Af hverju stingur þú mig ekki bara með hnífi?“ Ákærða hefði þá gripið hníf af stofuborðinu, sem þau hefðu áður notað til að skera pizzuna. Áður en hann vissi af hefði hún verið búin að stinga hann með hnífnum í öxlina.

Í málinu eru ljósmyndir af hníf sem fannst í íbúðinni í sófa í stofu. Um er að ræða steikarhníf með viðarskefti, sléttri egg og beinum bakka. Var hnífurinn haldlagður.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð [D], sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 25. febrúar 2011, þar sem kemur fram að [A] leitaði á deildina klukkan 00:52 umrædda nótt og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás af hálfu fyrrverandi kærustu, sem hefði gengið í skrokk á honum með höggum og spörkum og loks stungið hann með hnífi í vinstri öxl. Við skoðun hafi hann reynst vera með bólgu um vinstra kinnbein og nokkrar rispur hægra megin á hálsi. Hann hafi verið með 4 cm skurð aðeins framan og utanvert á vinstri öxl, sem hafi teygt sig inn í þríhyrningsvöðva. Þá hafi verið roði neðan við skurðinn og nuddmerki eða roði aftanvert á vinstri framhandlegg, auk þess sem brotaþoli hafi lýst eymslum í brjóstkassa. Var tekin röntgenmynd af brjóstholi og brotaþola vísað til meðferðar hjá brjóstholssérfræðingi.

Þá liggur fyrir vottorð [E], sérfræðings í almennum skurðlækningum og brjóstholsskurðlækningum, dagsett 17. mars 2011, þar sem kemur fram að [A] hafi frá árinu 2005 ítrekað leitað á hjarta- og lungnaskurðlækningadeild vegna endurtekins loftbrjósts í vinstra brjóstholi. Á röntgenmynd sem tekin hafi verið á slysadeild eftir að hann leitaði þangað aðfaranótt 28. desember 2010 hafi komið fram að vinstra lunga var nær samfallið og hafði færst til hægri. Þá var nokkur vökvi í brjóstholi og loft undir húð í holhönd upp í háls. Hafi hann gengist undir aðgerð, sem hafi gengið vel og lungað þanist og gróið vel. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að brotaþoli hafi „krónískan“ sjúkdóm í vinstra lunga og hafi margsinnis fengið loftbrjóst af þeim sökum. Því sé algjörlega ósannað að hnífsstunga sem hann hafi orðið fyrir hafi valdið loftbrjóstinu í umrætt sinn.

Ákærða var flutt á slysadeild til skoðunar í kjölfar handtöku aðfaranótt 28. desember. Samkvæmt læknabréfi [D], dagsettu samdægurs, gaf hún þá sögu að hafa lent í átökum við fyrrverandi kærasta og hefði komið til handalögmála þar sem meðal annars var togað í hár hennar. Við skoðun reyndist hún vera með svolítinn skallablett á hnakka, 1 x 3 cm að stærð, auk þess sem hún var marin á hnúa hægri baugfingurs fram á nærkjúku. Búið var um áverka ákærðu, en einnig tekið blóðsýni til lyfjarannsóknar. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 22. mars 2011, mældist 160 ng/ml af benzóýlekgónín í blóði ákærðu, en það er umbrotsefni kókaíns. Segir að sú niðurstaða staðfesti að hlutaðeigandi hafi neytt kókaíns nokkru áður en blóðsýnið var tekið.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærða viðurkenndi að hafa slegið [A] í andlitið í umrætt sinn, en kvaðst ekki vita hvort það hefði haft einhverjar afleiðingar. Hún neitaði hins vegar að hafa stungið hann með hnífi, eins og henni er gefið að sök í ákæru. Ákærða sagði þau [A] hafa hist til að ræða málin og hefði sambönd þeirra við annað fólk þá borið á góma. Það hefði þó farið vel á með þeim framan af og hefðu þau haft samfarir. Ákærða kvaðst hafa verið búin að neyta áfengis og fíkniefna þennan dag. [A] hefði síðan viðurkennt að hafa skoðað síma hennar eftir að þau slitu sambandinu og hefði henni ofboðið það. Þau hefðu rifist heiftarlega og tekist á. Hún hefði dregið upp síma sinn og sagst ætla að hringja í annan mann og fara til hans. Þá hefði [A] orðið brjálaður og dregið hana um á hárinu, en hún kýlt hann í andlitið. [A] hefði síðan sagt við hana: „Af hverju stingur þú mig ekki bara?“ Hann hefði síðan tekið hníf upp af stofuborðinu og látið í hönd hennar. Þau hefðu farið að kljást og hún hefði ekki séð hvað gerðist, en skyndilega hefði hann beygt sig undan og hefði hann þá greinilega hlotið einhvern áverka. Þegar það gerðist hefði hún haldið á hnífnum. [A] hefði tekið utan um úlnlið hennar og þau verið eitthvað að „tosast“. Við þetta hefði hnífurinn lent í [A].

Ákærða var spurð um ummæli í fyrrgreindri skýrslu [B] lögreglumanns, þar sem haft var eftir henni að [A] hefði tekið hníf og spurt hana hvort hún ætlaði ekki að stinga hann, en hún hefði „slegið í höndina á honum, þ.e. þá sem hann hélt á hnífnum með, og við það hafi hnífurinn stungist […] í öxlina á honum“. Ákærða kvaðst telja sig hafa verið að meina að þetta hefði atvikast eins og hún hefði lýst fyrir dóminum. Ekki væri rétt að [A] hefði haldið á hnífnum eins og kæmi fram í lögregluskýrslunni, heldur hefði hann látið hnífinn í hönd hennar. Hún hefði meint þetta þannig þegar hún ræddi við lögreglumanninn. Ákærða kvaðst ekki telja að rangt væri eftir sér haft í skýrslunni, en tók fram að hún hefði verið „í áfalli“ þegar hún ræddi við lögreglumanninn.

Ákærða var þá spurð um ummæli í fyrrgreindri skýrslu [C] rannsóknarlögreglumanns, sem ræddi við hana á slysadeild, þar sem haft var eftir henni að [A] hefði haldið á hníf og að hún hefði þá „slegið í höndina á [A] með þeim afleiðingum að hann hafi skorið sjálfan sig í öxlina“. Ákærða svaraði því til að hún hefði slegið í hönd [A] með þeirri hönd sem var „frí“. Þau hefðu verið að togast á. Hún hefði slegið með vinstri hendinni, haldið á hnífnum í hægri hönd og [A] haldið um úlnlið hennar.

Vitnið [A] skýrði svo frá að þau ákærða hefðu hist síðdegis þennan dag til að ræða málin í því skyni að skilja í sátt. Meðal annars hefði þurft að ákveða hvernig færi með íbúðina þar sem þau hefðu búið saman. Í fyrstu hefði allt gengið vel, en síðan hefðu þau farið að ræða um að bæði hefðu „sofið hjá“ öðrum. Samræður þeirra hefðu verið tilfinningaþrungnar og hefði ákærða sagt ýmislegt sem hann hefði tekið nærri sér. Hann hefði þá sagt við hana: „Af hverju stingur þú mig ekki bara með hnífi?“, en í þeim orðum hefði falist ákveðin myndlíking af hans hálfu, þar sem orð hennar hefðu sært hann mikið. Ákærða hefði þá sagt að hún ætlaði að gera dálítið annað, tekið upp símann og ætlað að hringja í þennan mann, sem hún hefði áður nefnt að hafa verið með. Þetta hefði vakið hjá honum mikla reiði. Hann hefði staðið á fætur, rifið í hár hennar, rifið af henni símann, slökkt á honum og farið með hann fram á gang. Ákærða hefði komið á eftir honum, gripið skrautexi og slegið í kommóðu á ganginum, sem hefði brotnað. Hún hefði algjörlega misst stjórn á sér, ráðist á hann og slegið hann. Hann hefði gripið í hana, haldið henni og sleppt henni. Hún hefði ráðist á hann á ný og hann haldið henni aftur og sleppt. Þau hefðu verið komin inn í stofu þegar þetta var og hefði hann þá endurtekið spurningu sína um hvers vegna hún stingi hann ekki bara, í því samhengi að hún meiddi hann jafnmikið með því sem hún væri að gera. Ákærða hefði þá gripið steikarhníf af stofuborðinu, sem þau hefðu notað til að skera pizzu fyrr um kvöldið. Hún hefði reitt hnífinn á loft og stungið honum í vinstri öxl hans, en síðan hent hnífnum frá sér á sófann. [A] sagði að sér hefði strax farið að blæða mikið. Hann vísaði lýsingu ákærðu á atvikum á bug og kvaðst ekki minnast þess að hafa snert hönd hennar. Hann hefði rifið í hnakkadrambið á henni fyrr um kvöldið, en ekki beitt hana frekara ofbeldi.

Vitnin [F] og [G] kváðust hafa verið staddir í miðbænum þegar [A] hefði hringt í síma [F] og beðið hann um að sækja sig, sem þeir hefðu gert og ekið honum á sjúkrahús. [F] sagði ákærðu hafa verið fyrir utan húsið þegar þá bar að og hefði ástand hennar ekki verið upp á marga fiska. Hún hefði verið að tala eitthvað á ensku. Síðan hefði [A] komið út og haldið um aðra öxlina. Þeir hefðu ekið greitt á sjúkrahúsið og hefði hann hringt í Neyðarlínuna á leiðinni, þar sem [A] var talsvert blóðugur. Kvaðst [G] hafa fært sig í aftursætið til [A] og haldið um sárið til að halda þrýstingi á því. Hefði [A] sagt að ákærða hefði stungið sig.

Vitnið [D] lýsti áverka á öxl [A], sem hefði náð niður úr fitulagi og ofan í vöðva. Komið hefði í ljós við röntgenmyndatöku að sjúklingurinn var með samfallið lunga. Spurður hvort [A] hefði getað veitt sér áverkann sjálfur svaraði vitnið að ómögulegt væri að segja um tilurð áverkans annað en að skorið hefði verið með eggvopni. Spurður hvort áverkinn gæti hafa hlotist eins og ákærða hefði lýst að [A] hefði sett hníf í hönd hennar, haldið um úlnlið hennar og hún slegið frá sér, svaraði vitnið að ekki væri hægt að útiloka það, en áréttaði að hann gæti ekki sagt til um það hvernig eggvopnið hefði rekist þarna í.

Vitnið [E] kvað loftbrjóst sem [A] hlaut ekki hafa stafað af hnífsstungu. Hins vegar væri [A] veikur fyrir og gæti loftbrjóstið verið afleiðing átaka, enda hefði hann borið merki um ryskingar og verið aumur yfir brjóstkassa. Högg á bringu gæti valdið slíkum áverka.

[B] lögreglumaður, sem ritaði skýrslu um handtöku ákærðu, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrsluna. Vitnið kvaðst hafa ritað skýrsluna morguninn eftir og hefði hann ritað eftir minni það sem haft var eftir ákærðu. Vitnið [C] rannsóknarlögreglumaður, sem ræddi við ákærðu og [A] á slysadeild, kom einnig fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sem hann hafði ritað þar um.

Loks kom fyrir dóminn sem vitni [H] listmeðferðarfræðingur, sem gerði grein fyrir líðan brotaþola og meðferð hans. Er vottorð vitnisins einnig meðal gagna málsins.

Niðurstaða

Ákærða játar að hafa slegið [A] í andlit, en neitar að hafa stungið hann með hnífi í vinstri öxl, svo sem henni er gefið að sök í ákæru. Eru ákærða og [A] ein til frásagnar um tildrög þess að hann hlaut skurðsár á öxl. Ákærða lýsti atvikum þannig við yfirheyrslu hjá lögreglu að [A] hefði sett hníf í hönd hennar, læst hönd hennar utan um hnífinn, tekið um úlnlið hennar og ýtt hendi hennar svo að hnífurinn fór í hann sjálfan. Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærða atvikum svo að [A] hefði tekið hnífinn og látið í hönd hennar. Hann hefði haldið um úlnlið hennar og þau verið að kljást eða „tosast“. Hefði hnífurinn við þetta lent í [A], en hún hefði ekki séð hvernig það gerðist. Ákærða var spurð um ummæli í skýrslu lögreglumanns sem rituð var eftir handtöku hennar, þar sem haft var eftir henni að hún hefði slegið í hönd [A], sem hann hefði haldið á hnífnum með, og við það hafi hnífurinn stungist í öxlina á honum. Kvaðst ákærða þá hafa meint að þetta hefði gerst eins og hún lýsti fyrir dóminum, en tók fram að hún hefði verið í miklu uppnámi er hún ræddi við lögreglumanninn. Þá var ákærða spurð um ummæli sem höfð voru eftir henni í skýrslu rannsóknarlögreglumanns sem ræddi við hana á slysadeild, að hún hefði slegið í hönd [A] með þeim afleiðingum að hann hefði skorið sjálfan sig í öxlina. Svaraði ákærða því þá til að hún hefði slegið í hönd [A] með vinstri hendinni, haldið á hnífnum í hægri hönd og [A] þá haldið um úlnlið hennar.

[A] hefur frá upphafi lýst atvikinu á þann veg að ákærða hafi gripið hnífinn af stofuborði og stungið hann með honum í öxlina. Hann gaf greinargóða lýsingu á atvikum við aðalmeðferð málsins og var framburður hans fyrir dómi í samræmi við framburðarskýrslu hans hjá lögreglu og lýsingu sem höfð er eftir honum í skýrslu rannsóknarlögreglumanns sem ræddi við hann á slysadeild. Hefur [A] jafnframt greint frá átökum milli þeirra ákærðu og orðaskiptum þeirra og gefið skýringu á því að hann spurði ákærðu hvers vegna hún stingi hann ekki með hnífi. Hefur framburður [A] verið stöðugur frá upphafi og er afar trúverðugur að mati dómsins. Á hinn bóginn hefur frásögn ákærðu af atvikum verið reikul, svo sem rakið hefur verið. Er það jafnframt mat dómsins að lýsingar ákærðu á tildrögum hnífstungunnar séu með miklum ólíkindablæ. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn [A] til grundvallar í málinu. Þykir, gegn neitun ákærðu, ekki varhugavert að telja sannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem lýst er í ákæru, með þeim afleiðingum sem þar greinir og rakið er í læknisvottorði. Verður ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og telst brot hennar varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða er fædd [...] 1986 og hefur hún ekki sætt refsingu svo vitað sé. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærða veitti [A] áverka með hættulegu vopni, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er til þess að líta, samkvæmt 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, að verknaðurinn var unnin í átökum milli ákærðu og [A] og er fram komið að bæði voru í miklu tilfinningauppnámi. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Réttargæslumaður hefur fyrir hönd [A] krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir dómi krafðist réttargæslumaður jafnframt greiðslu útlagðs kostnaðar vegna reiknings frá röntgendeild Landspítala, en verjandi ákærðu mótmælti kröfunni. Einkaréttarkrafa brotaþola, sem tilgreind er í ákæru, tekur ekki til þessa kostnaðarliðar og ber af þeirri ástæðu að vísa frá dómi kröfu um bætur þar fyrir.

Með broti því sem ákærða hefur verið sakfelld fyrir hefur hún bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Brot hennar var alvarlegt og kom fram í framburði [A] og vitnisburði listmeðferðarfræðings, sem hann hefur leitað til, að það hefur valdið honum vanlíðan. Þykir miskabótakröfu í hóf stillt og verður hún dæmd eins og hún er fram sett með vöxtum sem í dómsorði greinir.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan sakarkostnað málsins 887.879 krónur, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 235.313 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir, settur saksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærða, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða greiði [A] 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. desember 2010 til 9. apríl 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærða greiði allan sakarkostnað málsins 887.879 krónur, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 235.313 krónur.