Hæstiréttur íslands

Mál nr. 595/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Gæsluvarðhald


Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 595/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.

S kærði úrskurð héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta farbanni, til Hæstaréttar. Krafðist S þess að X yrði þess í stað gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að eins og atvikum væri háttað yrði fallist á þá röksemd S að það væri ekki nægilegt til að tryggja nærveru X að hann yrði einungis látinn sæta banni við för úr landi. Vegna þess að fyrir hendi væru öll skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 í þessu skyni væri fallist á kröfu S um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2011.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. nóvember 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum þess í stað gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 2. desember 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2011 klukkan 16.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og stundar hvorki atvinnu né á fjölskyldu hér á landi. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrir hendi er rökstuddur grunur um að hann hafi flutt töluvert magn af fíkniefnum til landsins og þar með gerst brotlegur við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Samkvæmt framansögðu verður að telja hættu á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn áður en mál hans verður til lykta leitt.

Eins og atvikum er háttað er fallist á þá röksemd sóknaraðila að það sé ekki nægilegt til að tryggja nærveru varnaraðila að hann verði einungis látinn sæta banni við för úr landi á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Vegna þess að fyrir hendi eru öll skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga í þessu skyni verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2011 klukkan 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2011 klukkan 16.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. nóvember 2011.

Dóminum hefur borist krafa lögreglustjórans á  Selfossi þess efnis að [X] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2011 kl. 16:00 á grundvelli b- liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá 28. október 2011 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2011 kl. 16:00 með vísan til a- og b- liða 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá var kærða jafnframt gert að sæta einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga á gæsluvarðhaldstímanum. Sé nú nauðsynlegt að framlengja gæsluvarðhaldið á grundvelli b- liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála þar sem hætta sé talin á að kærði  reyni að yfirgefa Ísland gangi hann laus í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Þá sé það jafnframt talið nauðsynlegt að kærði sæti varðhaldi með tilliti til almannahagsmuna þar sem það sé talið ganga gegn réttarvitund almennings að menn sem eru grunaðir um stórfellt fíkniefnamisferli gangi um lausir á meðan rannsókn málsins standi hjá lögreglu.

Kærði hafi verið handtekinn um kl. 00:40 aðfaranótt föstudagsins 28. október sl. ásamt tveimur öðrum mönnum í orlofshúsi nr.[...]. í[...] grunaður um fíkniefnamisferli.  Við húsleit hafi fundist 374,34 g af kókaíni, 369,06 g af hvítu duftkenndu efni af óþekktum toga, 219 stk. af hylkjum með óþekktu innihaldi, brúsar sem innihéldu naglalakkseyði, olíuhreinsi og startvökva. Kærði hafi viðurkennt fyrir dómi að eiga umrædd efni og þá hafi hann borið í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði staðið að innflutningi efnanna. Með vísan til játningar kærða telur lögreglustjóri ljóst að kærði hafi framið afbrot sem varði hann óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu.

Lögreglustjóri bendir á að kærði sé ferðamaður á Íslandi og hafi því engin bein tengsl við landið. Í ljósi þessa sé því veruleg hætta á að kærði reyni að yfirgefa Ísland gangi hann laus í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Enn eigi eftir að rannsaka ýmis atriði sem varði málið þar á meðal ferðir kærða til og frá Íslands, hvernig efnin voru flutt til landsins, hvernig hafi átt að standa að því að koma efnunum í verð hér á landi o.fl. Þá sé beðið niðurstöðu efnagreiningar óþekktra efna sem fundist hafi í orlofshúsinu, þ.e. duftinu, lyfjahylkjunum og vökvunum. Jafnframt eigi eftir að taka frekari skýrslur af kærða.

Kærði mótmælir kröfunni og bendir á að grípa megi til vægari ráðstafana í máli þessu, svo sem farbanns.

Eins og að framan er rakið var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald 28. október sl. með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekki er krafist framlengingar gæsluvarðhalds kærða á grundvelli rannsóknarhagsmuna en telja verður að enn sé uppfyllt það skilyrði b-liðar að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast eða reyni að koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Krafa lögreglustjóra er einnig byggð á 2. mgr. 95. gr. sömu laga en skilyrði þess að því ákvæði verði beitt er að sterkur grunur leiki á því að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Kærði hefur játað að eiga þau efni sem fundust í orlofshúsinu og leikur grunur á því að um sé að ræða 374,4 g af kókaíni. Ekki hefur verið staðreynt að önnur efni sem fundust í húsinu séu fíkniefni. Kærði er grunaður um brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni en brot gegn þeim lögum varða fangelsi allt að 6 árum. Er því ljóst að gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki beitt gegn þeim sem einungis eru undir sterkum grun um brot gegn þeim lögum. Lögreglustjóri vísar einnig til 2. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt því lagaákvæði skal hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, sæta fangelsi allt að 12 árum Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr. Það er mat dómsins að ekki sé sýnt fram á sterkur grunur leiki á því að kærði hafi framið brot sem verði heimfært undir síðastgreinda lagagrein jafnframt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og verður gæsluvarðhald því ekki reist á 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Hins vegar verður að telja að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laganna sé uppfyllt og kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að beita vægari úrræðum eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 100. gr. laganna. Kærði er litháískur ríkisborgari sem er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn fíkniefnalöggjöf og er því ljóst að brottför kærða af landinu gæti torveldað frekari rannsókn málsins og því ber nauðsyn til að tryggja nærveru hans meðan máli hans er ólokið.  Með vísan til framanritaðs og ofangreindra lagaákvæða verður kærða í stað gæsluvarðhalds bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 2. desember nk. kl. 16:00.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð.

Kærða, [X], er bönnuð för frá Íslandi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. desember 2011 kl. 16:00.