Hæstiréttur íslands
Mál nr. 35/2004
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Dráttur á máli
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu og að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu.
Af gögnum málsins er ekki ljóst í hvaða hverfi Kaupmannahafnar fíkniefnin, sem mál þetta snýst um, voru keypt. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og sakarkostnað, sem ákærða var gert að greiða. Þegar litið er til þáttar hans í innflutningi fíkniefnanna til landsins og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði sæti fangelsi í tvo mánuði.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 1997 var ákærði dæmdur í fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Brot ákærða, sem hér er fjallað um, var framið í janúar 2002. Beindist rannsókn málsins að þætti hans og sjö annarra manna í innflutningi á fíkniefnum til landsins 13. janúar 2002 og öðru fíkniefnalagabroti, sem varðaði innflutning fíkniefna til landsins síðar sama mánaðar. Var ákæra gefin út á hendur ákærða og mönnum þessum 22. júlí 2003. Þegar framangreint er virt svo og horft til dómafordæma verður þessi dráttur við rannsókn málsins og meðferð þess hjá ákæruvaldi ekki talinn svo verulegur að hann réttlæti að refsing ákærða, sem eins og fyrr segir hefur áður gerst sekur um fíkniefnalagabrot, verði bundin skilorði. Frá refsingunni skal draga 18 daga gæsluvarðhald ákærða.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal sæta fangelsi í tvo mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 18 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2003.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 22. júlí sl., á hendur ákærðu, A, E, G, I, X, [ . . . ], Ó, S, og V, “fyrir eftirgreind fíkniefnalagabrot með því að hafa í janúar 2002 í sameiningu staðið að flutningi fíkniefna hingað til lands til söludreifingar í ágóðaskyni og skiptu ákærðu fyrirfram með sér verkum við framningu brotanna:
[ . . . ]
IV. X:
Samkvæmt beiðni meðákærða A tekið á móti meðákærða E í Danmörku þann 10. janúar og útvegað honum þar gistingu og komið honum í samband við sölumann hassefna til að kaupa af honum 2 kg af hassi til flutnings til Íslands, en meðákærði E keypti í umrætt sinn 1.981,65 g af hassi sem var svo flutt til Íslands þann 13. janúar, allt sbr. liði I.1., II.1 . og V.
[ . . . ]
Telst framangreind háttsemi ákærðu varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fikniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fikniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002, sbr. áður reglugerð nr. 490, 2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að ofangreind 4.948,68 g af hassi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.”
[ . . . ]
Allmörg símtöl milli ákærðu innbyrðis og við aðra voru hleruð og hljóðrituð í lögreglurannsókninni. Upptökur þessar og endurrit þeirra liggja frammi í málinu en ekki eru efni til að reifa þær í dóminum.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi um þetta sakarefni.
Ákærði, E, hefur játað aðild sína að innflutningi hassefnisins 13. janúar. Hann segist muna miður eftir atvikum nú, enda sé langt um liðið. Hafi hann farið út til þess að kaupa efnið og látið A fá peninga til að láta I hafa fyrir flugfarinu. Ekki muni hann til þess að hann hafi látið hann hafa peninga til þess að kaupa gjaldeyri fyrir, en það geti verið. Hann muni þetta ekki fyrir víst. Hann hafi svo hitt X úti sem hafi aðstoðað hann við að fá sér gistingu, bent á hótel í Istegade. Hann hefði ekki farið þangað með honum. Hann segist hafa borið ranglega um þátt X og það hafi hann gert vegna þess að hann hafi haldið að X hefði sagt lögreglunni til hans. X sé gamall vinur A og hafi hann haft samband við hann samkvæmt ábendingu A sem hefði sagt að hann “gæti hringt í hann ef mig vantaði ráðleggingu um gistingu eða eitthvað svoleiðis.” Hann hefði hringt í hann þegar hann var kominn út og beðið hann um að vísa sér á einhvern stað, “einhverja hassbúllu” þar sem hann gæti keypt efni. Hann hafi bent á stað án þess að vita hvort þar fengjust efni. Hafi hann farið inn þar og talað við einhverja stráka en ekki haft erindi sem erfiði. Hann segist hafa verið búinn að kanna áður verðlagið á efnunum í Kristjaníu, “búinn að fá fast verð þar á efnum.” Hafi hann beðið X þarna inni að lána sér 50 þúsund en hann sagt að það kæmi ekki til greina, sem hafi verið skiljanlegt þar sem þeir hefðu rétt verið að kynnast. Við það hafi leiðir skilið en hann sjálfur hafi keypt hassið í Kristjaníu. Það sé því rangt í fyrri skýrslum hans að hann hafi fengið hassið hjá X. Þá sé það ekki rétt sem komi fram hjá X að hann hafi kynnt ákærða fyrir sölumanni heldur hafi hann bent honum “á þessa hassbúllu” og þeir farið þar saman inn en hann ekki vísað á neinn þar inni. Hann hafi svo fengið efnið afhent annars staðar í Kristjaníu. Ekki muni hann hvað hann greiddi fyrir hassið en hann hafi stungið því í tösku sína og farið með það á hótelið þar sem I fékk það og flutti með sér til Íslands. Þar hafi G átt að fjarlægja efnið úr töskunni og afhenda honum eins og þeir G hefðu samið um. Ekki muni hann hvað G átti að fá fyrir sitt ómak. Hann kveðst hafa farið til Keflavíkur að taka á móti I. A hafi ekki verið með í þeirri för, að hann minni. Hann kveðst ekki hafa skuldað A neitt, a.m.k. minni hann að hann hafi ekki skuldað honum. Ekki viti hann hvenær A hafi komist að því hvaða erindi ákærði átti til Hafnar en hann hafi ekki vitað það þegar ákærði fór út. Geti hann ekki skýrt hvers vegna A kannist við að hafa vitað það þá. A hafi heldur ekki verið kunnugt um erindi I.
[ . . . ]
Ákærði, X, hefur skýrt frá því að hann hafi hitt E í Kaupmannahöfn í umrætt sinn. Hefði A þá verið búinn að hringja og segja að vinur hans væri að koma til Kaupmannahafnar og beðið hann athuga hvort hann gæti útvegað honum ódýra gistingu. Ekki muni hann af hverju A hafi beðið um þetta, nema þá af þeirri ástæðu að ákærði væri “líklegri til að finna hótel sem kostaði fjögur hundruð í staðinn fyrir átta hundruð danskar, eða eitthvað svoleiðis.” Kveðst hann hafa sýnt E hótel í Istegade sem hann taldi sig vita að væri nokkuð ódýrt miðað við hótel í Kaupmannahöfn. Hann hafi farið með E í afgreiðsluna en ekki haft orð fyrir þeim að neinu leyti. E muni hafa tekið sér gistingu þarna því hann hafi verið dveljandi þar þegar hann hafi komið þar tveim dögum síðar. E hafi talað um fíkniefni og verið að velta fyrir sér hvað hass kostaði í Kaupmannahöfn og hvar væri hægt að fá það og þess háttar. Hafi hann spurt hvort ákærði gæti bent honum á stað þar sem hægt væri að fá hass en ákærði segist hafa þvertekið fyrir það. Daginn eftir hafi hann þó ekið með E á einn af 85 slíkum stöðum í Kaupmannahöfn, svonefndum hassklúbbum. Hafi þeir farið þar inn en ákærði kveðst hafa haldið sig til baka meðan E talaði við einhverja þar inni. Viti hann ekki hvort hann keypti hassið þar inni og hafi hann ekki séð hass hjá E. Hann viti heldur ekki hversu mikið magn E ætlaði að kaupa af því. Hann hafi þó gert sér grein fyrir því að það gæti verið umtalsvert því hann hafi talað um kílóverð á hassi sem væri um hundrað fimmtíu þúsund. Minni hann að E hafi talað um að hann ætlaði að fara með efnið til Svíþjóðar. Að minnsta kosti hafi hann ekki talað um að hann ætlaði að fara með það til Íslands. Ákærði kannast við að hafa spurt E hvort hann gæti tekið fyrir sig flutning til Íslands, daginn sem hann vísaði honum á hassbúlluna. Hafi þetta verið í forvitni enda þekki hann ekki til þessara mála og hafi alls ekki hugsað sér að standa í slíku. Hafi E sagt að það væri ekki hægt því efnið væri farið til Svíþjóðar. Hafi þetta verið daginn eftir að E keypti fíkniefnin.
[ . . . ]
Niðurstaða
[ . . . ]
Ákærði, X, hefur, í skýrslum hjá lögreglu og í dómi meðan mál þetta var í rannsókn, kannast við að hafa, að undirlagi A, tekið að sér að greiða götu E í Kaupmannahöfn. Hann hefur kannast við að hafa hjálpað E til þess að finna hentugt hótel í Kaupmannahöfn eftir að E bað hann um að vísa sér á stað þar sem hann gæti keypt umtalsvert magn af hassi. Kannaðist hann við að hafa vísað E á knæpu í Kristjaníu og komið honum þar í samband við mann sem E keypti af hass og að hafa auk þess leiðbeint honum í sambandi við kaupin, eins og fram er komið. E lýsti því að sínu leyti, bæði hjá lögreglu og í dómi meðan mál þetta var í rannsókn, hvernig X hefði vísað honum á gististaðinn og auk þess beinlínis látið hann fá hassið. Ekki er þó ákært fyrir þetta atriði og er það því ekki til umfjöllunar. Telur dómurinn sannað að hann hafi liðsinnt ákærða E við að flytja inn efnið sem ætlað var til sölu hér, eins og hann er ákærður fyrir að hafa gert. Aftur á móti telst ósannað að hann hafi vitað um fyrirætlun E að flytja hassið hingað til lands fyrr en eftir að þeir E hittust í Kaupmannahöfn. Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn þeim refsiákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.
[ . . . ]
Refsing, viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Meðferð máls þessa hefur dregist verulega hjá ákæruvaldinu en sá dráttur hefur ekki verið réttlættur.
[ . . . ]
Ákærði, X, var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi árið 1997 fyrir fíkniefnalagabrot og þar áður hafði hann verið sektaður fyrir þjófnað, 1992, og umferðarlagabrot 1991. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Vegna þess hve málsmeðferðin hefur dregist þykir mega ákveða að fresta því að framkvæma refsinguna, undir sama skilorði og að framan greinir. Komi hins vegar til þess að ákærði taki út refsinguna ber að draga frá henni 18 gæsluvarðhaldsdaga.
[ . . . ]
Samkvæmt þeim lagaákvæðum sem greinir í ákærunni ber að dæma ákærðu til þess að þola upptöku á samtals 4.948,68 grömmum af hassi.
Dæma ber ákærða, A, til þess að greiða verjanda sínum, Einari Þór Sverrissyni hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, E, til þess að greiða verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 135.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun, ákærða, G, til þess að greiða verjanda sínum, Viðari Lúðvíkssyni hdl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, I, til þess að greiða verjanda sínum, Lárentsínusi Kristjánssyni hdl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, X til þess að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 135.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, Ó, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 35.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, S, til þess að greiða verjanda sínum, Ragnheiði Margréti Ólafsdóttur hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða, V, til þess að greiða verjanda sínum, Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun. Þar sem skilyrði voru til þess að ljúka þætti ákærðu E, G, I og V sem játningarmáli og Ó hefur verið sýknaður að hluta ber að greiða málsvarnarlaun úr ríkissjóði sem hér segir: Erni Clausen hrl., 115.000 krónur, Viðari Lúðvíkssyni hdl., 120.000 krónur, Lárentsínusi Kristjánssyni hdl., 120.000 krónur, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 115.000 krónur, og Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl., 120.000 krónur. Annan sakarkostnað ber að leggja óskiptan á ákærðu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
[ . . . ]
Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga. Frá refsingunni dragast 18 gæsluvarðhaldsdagar.
[ . . . ]
Frestað er því að framkvæma refsingu allra ákærðu og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærðu, hver um sig, almennt skilorð.
Ákærðu sæti upptöku á samtals 4.948,68 grömmum af hassi.
Ákærði, A, greiði verjanda sínum, Einari Þór Sverrissyni hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, E, verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 135.000 krónur í réttargæslu- og I, verjanda sínum, Lárentsínusi Kristjánssyni hdl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun, X, verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 135.000 krónur í málsvarnarlaun, Ó, verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 35.000 krónur í málsvarnarlaun, S, verjanda sínum, Ragnheiði Margréti Ólafsdóttur hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun og V, verjanda sínum, Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun. Úr ríkissjóði greiðist málsvarnarlaun sem hér segir: Erni Clausen hrl., 115.000 krónur, Viðari Lúðvíkssyni hdl., 120.000 krónur, Lárentsínusi Kristjánssyni hdl., 120.000 krónur, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 115.000 krónur, og Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl., 120.000 krónur. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.