Hæstiréttur íslands

Mál nr. 494/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting


 

Föstudaginn 20. júlí 2012.

Nr. 494/2012.

 

A

(Guðrún Sesselja Arnardóttir)

gegn

B og

C

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Sjálfræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í fjögur ár á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2012, sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2012, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í fjögur ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur til hvors.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2012.

                Með beiðni, dagsettri 6. júní 2012, hafa C, kt. [...], og B, kt. [...], krafist þess að A, kt. [...], verði sviptur sjálfræði í fjögur ár á grundvelli a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

                Varnaraðili mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2011 var varnaraðili sviptur sjálfræði í 12 mánuði og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. júlí 2011 í málinu nr. 424/2011.

      Í vottorði Ólafs Bjarnasonar geðlæknis, dagsettu 29. júní 2012, kemur fram að varnaraðili hafi átt við geðræn veikindi að stríða frá 13 ára aldri. Hann greinist með [...]. Varnaraðili hafi haft miklar ranghugmyndir og sýnt af sér ofbeldishegðun. Hann hafi frá í september 2011 dvalið á öryggisdeild geðdeildar Landspítala, deild 15 á Kleppi. Kemur fram að minna hafi borið á ranghugmyndum og ofbeldishegðun hjá varnaraðila að undanförnu. Ranghugmyndir séu þó enn til staðar og sé varnaraðili viðsjárverður. Varnaraðili komi sér endurtekið undan nauðsynlegri lyfjameðferð, fái hann ekki nægjanlegt aðhald. Hann sé mjög veikur og allsendis ófær um að ráða dvalarstað sínum. Þá hafi hann ekkert sjúkdómsinnsæi. Í ljósi langvarandi og erfiðra veikinda sé mælt með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði til tveggja ára.

      Ólafur Bjarnason gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt. Hann kvaðst telja algjört lágmark að miða sjálfræðissviptingu varnaraðila við tvö ár, en vera meðmæltur lengri sviptingartíma, allt að fjórum árum eins og krafist hafi verið. Vísaði læknirinn til þess að varnaraðili hafi átt við langvarandi veikindi að stríða. Hann tók fram að ekki væri fyrirhugað að vista varnaraðila á lokaðri deild til lengri tíma. Með sjálfræðissviptingu væri ætlunin að ná samvinnu við varnaraðila um eftirlit og læknismeðferð.

                Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann gerði verulegar athugasemdir við læknisvottorð sem liggur fyrir í málinu. Hann kvað vottorðið vera efnislega rangt og gerði ítarlega grein fyrir því. Þá kvaðst hann ekki hafa haft ranghugmyndir, eins kæmi fram í vottorðinu. Varnaraðili kvaðst ekki telja sig vera veikan og ekki þurfa á lyfjum að halda.

Niðurstaða

                Með vottorði Ólafs Bjarnasonar geðlæknis, vætti hans og varnaraðila fyrir dóminum, er sýnt fram á að varnaraðili er óhæfur að ráða persónulegum högum sínum. Með vísan til a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verður varnaraðili sviptur sjálfræði í fjögur ár svo að tryggja megi að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar.

                Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða málskostnað úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hrl., og varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 75.300 krónur til hvorrar um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í fjögur ár.

      Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hrl., og varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 75.300 krónur til hvorrar um sig, greiðist úr ríkissjóði.