Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-12

Skúli Gunnar Sigfússon (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður)
gegn
þrotabúi EK 1923 ehf. (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Einkahlutafélag
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 9. janúar 2019 leitar Skúli Gunnar Sigfússon eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 155/2018: Þrotabú EK 1923 ehf. gegn Skúla Gunnari Sigfússyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrotabú EK 1923 ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu þrotabús EK 1923 ehf. um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðanda vegna tjóns sem það kveðst hafa orðið fyrir vegna greiðslu EK 1923 ehf. á nánar tilgreindri skuld við Evron Foods Ltd. eftir frestdag við gjaldþrotaskipti á búi fyrrnefnda félagsins. Reisir þrotabúið kröfu sína á því að leyfisbeiðandi hafi í skjóli eignarhalds síns á EK 1923 ehf. í gegnum annað félag gefið fyrirmæli um greiðslu skuldarinnar þrátt fyrir að hafa verið grandsamur um ógjaldfærni félagsins. Héraðsdómur Suðurlands sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu þrotabúsins en Landsréttur tók hana á hinn bóginn til greina með fyrrnefndum dómi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann í þeim efnum til þess að brýnt sé að eyða óvissu um við hvaða aðstæður og á hvaða lagagrundvelli einstaklingur sem ekki er framkvæmdastjóri, stjórnarmaður eða hluthafi í félagi geti borið skaðabótaábyrgð vegna athafna þess. Þá sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni hvort þrotabú geti krafist skaðabóta vegna tjóns sem hljótist af ráðstöfun þrotamanns án þess að henni hafi áður verið rift en leyfisbeiðandi telur það brjóta í bága við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um jafnræði kröfuhafa. Loks telur hann að málið varði mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé efnislega rangur og í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.