Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Fjarskipti
- Upplýsingaskylda
|
|
Föstudaginn 20. mars 2009. |
|
Nr. 130/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. Fjarskipti. Upplýsingaskylda.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem símafyrirtækjunum S, P, N og I var gert skylt að veita rannsóknardeild L nánar tilgreindar upplýsingar um notkun síma S 8. febrúar 2009. Ofangreindum símafyrirtækjum var einnig gert skylt að láta lögreglu í té upplýsingar um svokölluð IMEI númer þeirra símtækja, sem nánar tilgreind símanúmer notuðu á sama tímabili, sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf téðra númera, og að upplýsa hverjir væru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengdust téðum númerum á sama tíma. Þá skyldu símafyrirtækin veita upplýsingar um í hvaða endurvarpa í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna hefðu farið símtöl og SMS sendingar úr og í ofangreind símanúmer á sama tíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2009, þar sem gefið var svofellt úrskurðaorð: „Símanum hf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf. og IP fjarskiptum ehf. er skylt að veita rannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur haft til umráða og önnur símanúmer og símtæki sem kærði hefur í eigu sinni eða umráðum, sunnudaginn 8. febrúar 2009. Jafnframt er skylt að veita lögreglu upplýsingar um IMEI númer sem framangreind símanúmer nota á sama tímabili, sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf téðra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast téðum númerum á sama tíma. Ennfremur skulu upplýsingar veittar um í hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna hafa farið símtöl og SMS sendingar úr og í ofangreind símanúmer á sama tíma.“
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Símanum hf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf. og IP fjarskiptum ehf. sé skylt að veita rannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], (hér eftir nefndur kærði) hefur haft til umráða og önnur símanúmer og símtæki sem kærði hefur í eigu sinni eða umráðum, sunnudaginn 8. febrúar 2009. Þá er krafist upplýsinga um IMEI númer sem framangreind símanúmer nota á sama tímabili, sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf téðra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast téðum númerum á sama tíma. Ennfremur er krafist upplýsinga um í hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna hafa farið símtöl og SMS sendingar úr og í ofangreind símanúmer á sama tíma.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að samkvæmt frumskýrslu lögreglu sé málavextir þeir að þann 8. febrúar 2009 hafi lögregla fengið tilkynningu um að fara að [...] vegna líkamsárásar. Þar hafi lögregla hitt árásarþola, A, sem hafi verið mjög illa farinn í andliti. Hafi hann verið blóðugur í framan, bólginn á báðum kinnbeinum og virtist nef hans aflagað. Hafi hann tjáð lögreglu að kærði X hefði hringt í hann og beðið hann að ræða við sig. Kærði hefði svo komið að [...], hringt í hann og beðið hann koma út í bifreiðina til sín. Árásarþoli hafi farið út og sest inn í framsæti bifreiðarinnar farþegamegin. Bifreiðin hafi verið af gerðinni [...] og verið silfurgrá. Kærði hafi verið í ökumannssætinu og annar maður í aftursætinu sem árásarþoli vissi ekki deili á. Kærði hafi sagt árásarþola að slökkva á síma sínum og svo ekið bifreiðinni að [...]. Þar hafi kærði lagt bifreiðinni upp að grindverki svo árásarþoli kæmist ekki út úr bifreiðinni. Kvað árásarþoli kærða hafa sakað hann um að hafa verið með barnsmóður kærða, B, en árásarþoli vinnur með B. Kvað árásarþoli að þessar ásakanir kærða væru ekki á rökum reistar. Kærði hefði svo slegið árásarþola hnefahöggum í andlitið u.þ.b. 10 sinnum. Kærði hafi svo sagt við árásarþola að ef hann hefði samband við lögreglu væri það dauðadómur fyrir hann en kærði myndi þá fara með hann upp í Heiðmörk og “klára hann þar”. Kona árásarþola, C, hafi tjáð lögreglu að hún hefði séð silfurgráan [...] fyrir utan [...]. Hafi hún ekki getað lýst mönnunum í bifreiðinni að öðru leyti en því að maðurinn í aftursætinu væri skolhærður. Ætlaði árásarþoli að fara á slysadeild og leita sér aðstoðar.
Í kæruskýrslu hjá lögreglu þann 9. janúar 2009 hafi árásarþoli lýst árásinni nánar. Kærði hefði slegið hann mörgum hnefahöggum með þeim afleiðingum að talsvert blæddi úr árásarþola. Blóð hefði lekið á árásarþola og í bifreiðina, sérstaklega við hurðina. Að árásinni lokinni hafa kærði hleypt árásarþola út úr bifreiðinni og ekið burt. Á slysadeild hafi komið í ljós að árásarþoli hlaut opið nefbrot í árásinni.
Í málinu liggi fyrir læknisvottorð, dags. 25 febrúar 2009, þar sem fram komi að árásarþoli hafi leitað á slysadeild þann 8. febrúar 2009 skömmu eftir árásina. Við skoðun hafi hann verið blóðugur í framan og með mikla bólgu og mar umhverfis hægra auga. Einnig hafi hann verið með mar við vinstra auga. Nefið hafi verið bólgið og skurður yfir nefbeininu hægra megin og annar skurður rétt miðlægt við nefið. Hafi verið hann greindur með opið beinbrot á nefi.
Bifreiðin [...], sem sé silfurgrár [...] og skráð á barnsmóður kærða, B, var þann 26. febrúar 2009 haldlögð vegna rannsóknar málsins með leyfi B. Kvað B kærða hafa verið á bifreiðinni einhverjum vikum fyrr en hún mundi ekki nákvæmlega hvenær. Tæknideild lögreglunnar hafi rannsakað bifreiðina í kjölfarið og leitað eftir ummerkjum eftir líkamsárás.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar hafi fundist nokkrir litlir blóðblettir aftarlega á innanverðri rúðu í hægri framhurð. Neðarlega á hurðarspjaldi hurðarinnar hafi verið blóðkám og blóðblettur. Á dyrastaf aftan við hurðina hafi ofarlega verið nokkrir litlir blóðblettir en þeir hafi verið í sömu hæð og blóðblettirnir á rúðunni. Á framanverðum höfuðpúða framfarþegasætis var blóðkám. Einn stór blóðdropi var á sleðabraut við gólf bifreiðarinnar á milli framfarþegasætis og hurðar. Tekin hafi verið sýni af blóðinu og hafi það gefið jákvæða svörun sem mennskt blóð í blóðprófum. Hafi það verið niðurstaða tæknideildar að staðsetning og stærð blóðbletta inni í bifreiðinni [...] gefi vísbendingar um að aðili í framfarþegasæti hafi fengið fleiri en eitt högg í andlitið frá aðila í ökumannssæti.
Þann 27. febrúar 2009 hafi verið tekin skýrsla af kærða. Hann hafi alfarið neitað sök og sagt að þetta hlyti að vera misskilningur. Það væri verið að ruglast á bifreiðum eða mönnum. Kvaðst hann vita hver árásarþoli væri því hann væri að vinna með barnsmóður hans, B. Kvaðst hann nota bifreiðina [...] mikið og þá aðallega um helgar. Það væru einhverjar vikur síðan hann var á bifreiðinni síðast. Sagði hann að það gæti vel verið að hann hefði verið á bifreiðinni helgina 7. til 8. febrúar sl. en það geti líka verið að einhver annar hafi verið á bifreiðinni en hann lánaði bifreiðina oft út um helgar. Kvaðst hann aldrei hafa hringt í árásarþola og ekki haft nein samskipti við hann þessa helgi. Kvaðst hann jafnframt ekki kannast við að hafa verið í kring um [...] þann 8. febrúar sl. Var kærða kynnt að blóðslettur hefðu fundist í bifreiðinni [...] og sagði kærði í því sambandi að það geti vel verið að það hefðu einhvern tímann verið slagsmál í bifreiðinni en hann hefði aldrei ráðist á árásarþola. Hafi hann ekki veitt lögreglu heimild til að taka farsíma sinn til rannsóknar.
Rannsókn málsins sé ekki lokið. Um sé að ræða meiriháttar líkamsárás þar sem árásarþoli hafi verið sleginn mörgum hnefahöggum í andlitið svo hann hlaut opið nefbrot. Að mati lögreglu þyki vera fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði sé árásarmaðurinn.
Kærði hafi alfarið neitað að hafa haft símasamband við brotaþola þann 8. febrúar 2009 og í kjölfarið ráðist á hann. Neiti hann jafnframt að hafa verið nokkurs staðar nærri vettvangi árásarinnar er hún átti sér stað. Þá sé ekki vitað hver sá aðili sé sem árásarþoli kvað hafa verið í aftursæti bifreiðarinnar þegar árásin átti sér stað. Miklu skipti því fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að aflað verði upplýsinga um inn- og úthringingar kærða í því skyni að fá upplýsingar um þá einstaklinga sem hann var í símasamskiptum við umræddan dag. Einnig geti upplýsingar um notkun símtækis kærða á tilteknum endurvörpum í borginni skipt verulegu máli í því skyni að sýna fram á ferðir kærða í nágrenni við brotavettvang í umrætt sinn.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 84. gr., sbr. 80 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett, enda verður að telja skilyrði 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt.
Í máli þessu er kærði grunaður um að hafa framið brot gegn 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Brotaþoli hefur borið fyrir lögreglu að kærði hefði hringt í sig og beðið sig um að ræða við kærða. Að því loknu hafi kærði komið að [...] hér í borg, hringt í sig og beðið sig um að koma út í bifreiðina til sín. Kærði hefur neitað sök og hefur ekki veitt lögreglu heimild til að taka síma sinn til rannsóknar í því skyni að kanna símnotkun kærða umræddan dag. Með vísan til ofanritaðs, fyrirliggjandi kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og gagna málsins að öðru leyti þykir fullnægt skilyrðum 80. gr., sbr. og 83. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að fallast á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Verður hún því tekin til greina, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Símanum hf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf. og IP fjarskiptum ehf. er skylt að veita rannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur haft til umráða og önnur símanúmer og símtæki sem kærði hefur í eigu sinni eða umráðum, sunnudaginn 8. febrúar 2009. Jafnframt er skylt að veita lögreglu upplýsingar um IMEI númer sem framangreind símanúmer nota á sama tímabili, sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf téðra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast téðum númerum á sama tíma. Ennfremur skulu upplýsingar veittar um í hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna hafa farið símtöl og SMS sendingar úr og í ofangreind símanúmer á sama tíma.