Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2001
Lykilorð
- Vátrygging
- Heimilistrygging
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2002. |
|
Nr. 252/2001. |
Kristný Björnsdóttir(Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vátrygging. Heimilistrygging.
K flutti úr húsinu að Melbæ 30 í Reykjavík í kjölfar þess að það var selt nauðungarsölu. Bjó enginn í húsnæðinu eftir þetta. Af hálfu K var því haldið fram að síðar hefði verið brotist inn í húsið og þaðan stolið ýmsum munum sem voru í eigu K og fjölskyldu hennar. Ekki lágu fyrir óyggjandi gögn um merki þess að brotist hefði verið inn í húsnæðið. K, sem keypt hafði innbústryggingu, krafði tryggingafélagið V hf. um andvirði þessara muna. Ósannað þótti að K hefði ekki verið unnt í tengslum við brottflutning sinn að taka alla búsmuni sína með sér. Enda þótt heimili K hafi verið skráð Melbær 30 í tryggingaskírteini og flutningur K ekki verið tilkynntur Hagstofu þótti það ekki ráða úrslitum um gildissvið tryggingarinnar, heldur hitt hvar raunverulegt heimili K var. Ekki var talið unnt að líta svo á að heimili K hafi verið að Melbæ 30 eftir að hún fluttist þaðan. Atvik þóttu og að öðru leyti með þeim hætti að ekki hefði verið fullnægt skilmálum þeim, sem tryggingin byggði á. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu V hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2001 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 432.332 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. ágúst 1995 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði verulega lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi flutti áfrýjandi úr húsinu að Melbæ 30 í Reykjavík í nóvember 1994 í kjölfar þess að íbúð hennar á neðri hæð hússins hafði verið seld Búnaðarbanka Íslands á nauðungaruppboði. Var flutningurinn ekki tilkynntur og var áfrýjandi og fjölskylda hennar áfram skráð með lögheimili að Melbæ 30. Hinn 15. júní 1995 fóru áfrýjandi og eiginmaður hennar inn í húsið og í framhaldi þess kölluðu þau til lögreglu og tilkynntu að stolið hefði verið ýmsum munum, sem þar hefðu orðið eftir og lýtur krafa þeirra í málinu að þeim. Fyrir liggur að áfrýjandi krafði ofangreindan eiganda íbúðarinnar um bætur vegna ætlaðs tjóns síns 28. júlí 1995 þar sem hún hefði ekki fengið að fara inn í húsið eftir flutninginn. Bankinn hafnaði kröfunni 15. ágúst 1995 og mótmælti því að áfrýjanda hefði verið meinaður aðgangur að íbúðinni og hafi það verið nokkru eftir að hún flutti þaðan að bankinn hafi skipt um skrá á íbúðardyrum nefndrar eignar, en áður hefði Landsbankinn, sem átti efri hæðina, skipt um skrá í útidyrahurð, sem var sameiginleg fyrir hæðirnar.
Af framburði eiginmanns áfrýjanda fyrir dómi verður ráðið að umræddir munir hafi verið í kössum í geymslu í kjallara hússins við hlið bílskúrs, er flugmódelklúbbur hafði aðstöðu í, meðal annars eftir að fjölskylda áfrýjanda flutti úr húsinu. Í skýrslu lögreglu, sem gerð var í tilefni þess að hún var kölluð að Melbæ 30 hinn 15. júní 1995, er ekki getið um hvar í húsinu hinir stolnu munir hafi átt að vera geymdir. Engin vettvangskönnun fór fram, að því er séð verður, til að sannreyna að brotist hefði verið inn í húsið. Var þannig engin athugun gerð á því, hvort ummerki innbrots væru á dyraumbúnaði umræddrar geymslu, eða hvort hún var læst. Hins vegar hefur verið lögð fram lögregluskýrsla í málinu frá 2. júní 1995 um rúðubrot í húsinu. Segir í henni að kjallaragluggi á suðurhlið hússins hafi verið brotinn og steinvala legið á gólfi fyrir innan. Búið hafi verið að byrgja fyrir gluggann. Ekki er nefnt í skýrslunni að ummerki hafi verið um að farið hafi verið inn í húsið. Samkvæmt framburði tveggja umsjónarmanna eigenda hússins fyrir dómi hafði ekkert komið fram við þetta tilefni, sem benti sérstaklega til þess að farið hefði verið inn í húsið, og hefðu glerbrot verið í gluggarammanum.
II.
Krafa áfrýjanda er reist á heimilistryggingu, sem hún hafði á þessum tíma hjá Skandia hf., en ágreiningslaust er að stefndi yfirtók skuldbindingar þess tryggingafélags. Er greint frá efni tryggingaskírteinis og tryggingaskilmálum í héraðsdómi. Tryggingin gilti á heimili áfrýjanda, sem í skírteininu var tilgreint Melbær 30, en tók þó einnig til búsmuna, sem um stundarsakir væru utan heimilis hans. Í skilmálum sagði og að það væri skilyrði fyrir greiðsluskyldu vegna tjóns af völdum þjófnaðar, að á vettvangi væru greinileg merki þess að brotist hefði verið inn.
Ljóst er að áfrýjandi hafði rúmu hálfu ári áður en hún tilkynnti um horfna búsmuni flutt úr umræddu húsnæði, sem hún átti ekki lengur, og hafði frá þeim tíma búsetu annars staðar í Reykjavík. Liggur fyrir að eftir þetta bjó enginn í húsnæðinu. Ósannað er að áfrýjanda hefði ekki verið unnt í tengslum við brottflutning sinn úr húsnæðinu að taka alla búsmuni sína með sér. Umrædd trygging átti að gilda fyrir heimili hennar. Enda þótt það hafi verið skráð Melbær 30 í tryggingaskírteini og flutningur ekki tilkynntur til Hagstofu þykir það ekki ráða úrslitum um gildissvið tryggingarinnar, heldur hitt, hvar raunverulegt heimili áfrýjanda var. Er á það fallist með héraðsdómi að ekki sé unnt að líta svo á að heimili hennar hafi verið að Melbæ 30 eftir að hún flutti þaðan í nóvember 1994. Samkvæmt því sem áður er rakið þykja atvik og að öðru leyti með þeim hætti að ekki hafi verið fullnægt skilmálum þeim, sem tryggingin byggði á. Verður héraðsdómur samkvæmt þessu staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 27. mars sl., er höfðað með stefnu, birtri 14. júní 1999.
Stefnandi er Kristný Björnsdóttir, kt. 300151-2729, Laufrima 2, Reykjavík.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 432.332 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. ágúst 1995 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Stefnandi kveður málavexti vera þá að hún hafi, ásamt eiginmanni sínum, búið að Melbæ 30 í Reykjavík en orðið að flytja þaðan í nóvember 1994 í kjölfar þess að húsið var selt á nauðungaruppboði. Hún hafi þó átt þar lögheimili áfram. Eftir að hún flutti út hafi húsið verið í umsjá og á ábyrgð Búnaðarbankans og Landsbankans. Bankarnir hafi látið skipta um skrár í útihurðum og kveðst stefnandi því ekki hafa haft aðgang að munum, sem hún hafi átt í húsinu. 15. júní 1995 hafi komið í ljós að búið var að brjótast inn í húsið og stela þaðan ýmsum munum í eigu stefnanda og fjölskyldu hennar, svo sem fatnaði, bókum, smátækjum og fleiru, sem verðmetið hafi verið á sömu fjárhæð og stefnukrafan er.
Stefnandi kveðst hafa keypt innbústryggingu hjá tryggingafélaginu Skandia hf. og krefur í málinu stefnda, er keypti Skandia hf., um andvirði framangreindra muna.
Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu að öðru leyti en því, að þegar stefnandi og fjölskylda hennar hafi flutt úr húsinu, hafi þau tekið með sér búslóð sína og einnig fjarlægt eldhúsinnréttingu. Þá hafi stefnandi ekki tilkynnt tryggingafélaginu Skandia hf. um flutninginn. Stefndi hefur ekki viljað bæta stefnanda tjónið, þar sem það sé ósannað og einnig telur hann það falla utan gildissviðs vátryggingarinnar.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi keypt vátryggingu á innbúi sínu hjá Skandia hf. að verðmæti 4.560.000 krónur. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar hafi innbú stefnanda verið m.a. tryggt vegna tjóns af völdum innbrots og þjófnaðar. Stefnandi kveðst hafa tilkynnt Skandia hf. um tjónið og jafnframt hafi því borist gögn frá lögreglu, þ.m.t. listi yfir þá muni, er hurfu í innbrotinu. Þrátt fyrir þetta hafi Skandia hf. og síðar stefndi ekki fengist til að bæta tjónið.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til skilmálanna í vátryggingarsamningi aðila, laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 svo og til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að vátrygging stefnanda hafi aðeins gilt á heimili hans, sem nefnt sé í vátryggingarskírteininu. Hún taki því aðeins til búsmuna utan heimilis stefnanda að þeir séu þar um stundarsakir en ekki til lengri tíma. Stefnandi hafi flutt heimili sitt og búslóð frá Melbæ 30 í nóvember 1994 en þjófnaðurinn var ekki framinn fyrr en í júní 1995, sex til sjö mánuðum síðar. Telur stefndi hér um lengri tíma að ræða en svo að talið verði að munirnir hafi verið utan heimilis um stundarsakir. Meint tjón stefnanda falli því utan við gildissvið vátryggingarinnar.
Í öðru lagi er á því byggt að ósannað sé að mununum hafi verið stolið í innbroti í Melbæ 30, en það sé skilyrði bótaskyldu að um sé að ræða þjófnað við innbrot í læst húsnæði, sbr. gr. 4.11 í hinum almennu skilmálum tryggingarinnar. Stefnandi sé einn um þá fullyrðingu að munirnir hafi horfið við innbrot í Melbæ 30, ekkert liggi fyrir um það frá lögreglu eða húseigendum. Telur stefndi ósannað að munirnir hafi verið í húsinu eða að þeim hafi verið stolið þaðan.
Loks byggir stefndi á því að umfang tjóns stefnanda sé ósannað, bæði magn og verðmæti. Engin gögn hafi verið lögð fram um tilvist munanna í húsinu, ástand þeirra eða verðgildi.
V
Það er ágreiningslaust í málinu að stefnandi hafði gilda heimilistryggingu hjá Skandia hf. á árinu 1995. Samkvæmt tryggingarskírteininu var innbú hans tryggt fyrir 4.560.000 krónur og það sagt staðsett að Melbæ 30. Í almennum skilmálum heimilis- tryggingarinnar segir að vátryggingin gildi á heimili vátryggingartaka, sem nefnt sé í skírteininu, en taki þó einnig til búsmuna, sem séu um stundarsakir utan heimilis hans.
Það er fyrst til úrlausnar hvort stefnandi hafi átt heimili að Melbæ 30 í skilningi framangreindra skilmála í júní 1995 en samkvæmt vottorði Hagstofunnar var hann skráður þar með lögheimili a.m.k. frá 1985 til 17. september 1999 "er hún var gerð óstaðsett í hús, Reykjavík samkv. heimildum Þjóðskrár", eins og segir í vottorðinu.
Meðal gagna málsins er endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík frá 31. mars 1993 þar sem fram kemur að þann dag hafi eignin Melbær 30, neðri hæð, eign stefnanda, verið seld nauðungarsölu og hafi kaupandinn verið Búnaðarbanki Íslands. Stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dómi en eiginmaður hennar bar að fjölskyldan hefði flutt frá Melbæ 30 í nóvember 1994 að Laufrima 2 þar sem hún hefði búið síðan. Eftir það hefðu þau ekki haft lyklavöld að Melbæ 30 og komust ekki þangað inn fyrr en í júní 1995. Hann kvað þau ekki hafa tekið alla búslóð sína með sér þegar þau fluttu og tilgreindi ýmsa hluti, er orðið höfðu eftir auk þess, sem stolið var. Þá kannaðist hann við að þau hefðu tekið eldhúsinnréttingu úr húsinu og flutt með sér. Hafi það verið látið átölulaust af bankanum, enda hafi staðið til að rífa húsið sem reyndar hafi verið gert á árinu 1995.
Í skilmálum heimilistryggingarinnar er ekki skilgreint hvað teljist heimili vátryggingartaka. Í 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 er lögheimili manns sagður sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu og í 2. mgr. sömu greinar segir að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstað þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna vinnu, orlofs eða annarra álíkra tilvika.
Þegar þess er gætt að stefnandi flutti frá Melbæ 30 í nóvember 1994 með fjölskyldu sína og megnið af búslóð sinni, hafði eftir það ekki lyklavöld að íbúðinni og tók með sér eldhúsinnréttinguna er ekki hægt að fallast á það með honum að heimili hans hafi áfram verið að Melbæ 30. Skiptir hér engu þótt það hafi verið þannig skráð í Þjóðskrá, enda mun stefnandi hafa átt þar skráð lögheimili eftir að húsið var rifið.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki átt heimili að Melbæ 30 eftir nóvember 1994 og þar af leiðandi ekki á þeim tíma, er hlutir þeir hurfu, er hún krefur stefnda um bætur fyrir. Heimilistryggingin gilti því ekki um þá hluti, er orðið höfðu eftir af búslóð stefnanda í Melbæ 30. Breytir hér engu þótt vátryggingaskírteinið tilgreini heimili stefnanda að Melbæ 30 þar eð sú tilgreining var röng eftir að stefnandi flutti þaðan. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Kristnýjar Björnsdóttur, en málskostnaður skal falla niður.