Hæstiréttur íslands
Mál nr. 695/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudagur 16. desember 2010. |
|
Nr. 695/2010. |
A (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um niðurfellingu nauðungarvistunar hans á sjúkrahúsi sem samþykkt var af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu 4. desember 2010. Eftir uppkvaðningu úrskurðar barst yfirlýsing frá B um að hún gerði ekki athugasemdir við kröfu A um að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi. Í dómi Hæstaréttar segir að þar sem nauðungarvistun A hafi verið gerð að beiðni B og B samþykki kröfu A verði krafa A tekin til greina. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. desember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu 4. desember 2010. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi auk kærumálskostnaðar.
Að beiðni varnaraðila 4. desember 2010 samþykkti dómsmála- og mannréttindaráðuneytið nauðungarvistun sóknaraðila samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði héraðsdóms sem sóknaraðili kærði til Hæstaréttar. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins barst yfirlýsing frá varnaraðila dagsett 14. desember 2010, þar sem fram kemur að hún geri ekki athugasemdir við kröfu sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Nauðungarvistun sóknaraðila var gerð að beiðni varnaraðila og með því að hún samþykkir kröfu sóknaraðila verður krafa hans tekin til greina.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, A, um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu 4. desember 2010.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðra talsmanna málsaðila er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. desember 2010.
Mál þetta barst dóminum 9. desember 2010 og var tekið til úrskurðar 10. sama mánaðar. Sóknaraðili er A, kt. [...], [...] á [...], en varnaraðili er B, kt. [...], [...] á [...].
Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi samþykki dómsmálaráðuneytisins, frá 4. desember 2010, um nauðungarvistun hans á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Varnaraðili, sem er móðir sóknaraðila, krefst þess að kröfunni verði hrundið og að nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest.
I
Með beiðni 4. desember 2010 óskaði varnaraðili eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi samkvæmt 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Krafan varnaraðila um nauðungarvistun var reist á læknisvottorði C, geðlæknis, en þar kemur fram að sóknaraðili hafi veikst á geði [...] ára að aldri. Hann hafi legið nokkur skipti á geðdeild í D og fengið sjúkdómsgreininguna [...] en undanfarin ár hafi sjúkdómsmynd meira farið að líkjast [...]. Í niðurlagi vottorðsins segir svo:
A er ungur maður með alvarlegan geðsjúkdóm sem hefur gengið illa að meðhöndla undanfarna 2 mánuði. Hann hefur verið í örlyndi og hefur á þeim tíma sýnt ofbeldisfulla hegðun, verið í neyslu cannabis og endurtekið útskrifað sig gegn læknisráði af geðdeild. Hann hefur verið hættulegur og dómgreindarlaus í hegðun og sýnt ofbeldi og hótað starfsfólki á geðdeild. Hann hefur ekki fullt innsæi í alvarleika veikinda sinna og er ekki tilbúinn að dvelja á geðdeild og þiggja meðferð. Ég tel hann í þessu ástandi vera hættulegan sjálfum sér og öðrum. Það er fullreynt að meðhöndla hann sjálfviljugan á geðdeild og því tel ég óhjákvæmilegt að hann verði vistaður gegn vilja.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 4. desember 2010 var fallist á beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Þeirri ákvörðun hefur sóknaraðili skotið til dómsins, sbr. 30. gr. lögræðislaga.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að ekki séu fyrir hendi skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hans.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi og er vísað til gagna málsins því til stuðnings.
III.
Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins er sóknaraðila ókleift vegna geðsjúkdóms að ráða persónulegum högum sínum. Þótt ráðið verði af framburði sóknaraðila fyrir dómi að hann sé til samvinnu um að þiggja viðeigandi læknismeðferð er innsæi hans í sjúkdóminn takmarkað og vilji til að leita lækninga við sjúkdómnum ekki einbeittur. Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Kröfu sóknaraðila er því hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðra talsmanna aðila úr ríkissjóði svo sem greinir í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu A, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneyti 4. desember 2010.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar, hdl., og skipaðs talsmanns varnaraðila, Inga Tryggvasonar hdl., 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatts til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.