Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2002


Lykilorð

  • Fasteignasala
  • Sameignarfélag
  • Lögmannsþóknun


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. maí 2003.

Nr. 437/2002.

Haflína Breiðfjörð Sigvaldadóttir

(Grétar Haraldsson hrl.)

gegn

Valgeiri Kristinssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

og gagnsök

 

Fasteignasala. Sameignarfélag. Lögmannsþóknun.

Ó og V áttu saman fasteignasöluna V sf., en H, eiginkona Ó, keypti síðar hlut eiginmanns síns í fasteignasölunni. Sá V sf. um að selja fasteign í eigu H. Í kaupsamningi um eignina var meðal annars kveðið á um að kaupandi hennar skyldi greiða hluta kaupverðsins með fimm nánar tilteknum víxlum. Í máli sem H höfðaði á hendur V til greiðslu víxlanna var deilt um hvort V hafi mátt ráðstafa þeim. Talið var að H hafi samþykkt að nota mætti víxlana í þágu V sf. Var V því sýknaður af kröfu H. V gagnstefndi H í málinu til greiðslu fyrir lögfræðiþjónustu. Talið var að H hafi þegar greitt V fyrir þjónustuna. Var H því sýknuð af kröfu V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2002. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 898.516 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 15. apríl 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. nóvember 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 883.950 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. júlí 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta um ofangreinda kröfu sína 23. janúar 2001. Gagnáfrýjandi höfðaði 19. júní sama árs sjálfstætt mál á hendur henni um kröfu sína, sem að framan er getið. Mál þessi voru sameinuð á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2001 og var farið upp frá því með mál gagnáfrýjanda sem gagnsök í máli aðaláfrýjanda.

Með framangreindri athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Aðaláfrýjandi verður dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Haflína Breiðfjörð Sigvaldadóttir, greiði gagnáfrýjanda, Valgeiri Kristinssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. júní 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí s.l., var í aðalsök höfðað 23. janúar 2001, en í gagnsök 19. júní 2001.

Aðalstefnandi og gagnstefnda er Haflína Breiðfjörð Sigvaldadóttir, Norðurtúni 8, Bessastaðahreppi.

Aðalstefndi og gagnstefnandi er Valgeir Kristinsson, Miðvangi 123, Hafnarfirði.

Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til greiðslu á krónum 898.516 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum af krónum 200.000 frá 15.04. 1998 til 15.05. s.á., af krónum 320.000 frá þeim degi til 15.06. s.á., af krónum 440.000 frá þeim degi til 15.07. s.á., af krónum 640.000 frá þeim degi til 15.11. s.á., af krónum 898.516 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Aðalstefnandi krefst krefst málskostnaðar úr hendi aðalstefnda ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Í aðalsök krefst aðalstefndi sýknu af kröfum aðalstefnanda. Aðalstefndi krefst málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gagnstefnda verði dæmd til greiðslu 883.950 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga n. 25/1987 með síðari breytingum frá 01.07. 1999 til 01.07. 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Í gagnsök krefst gagnstefnda sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Gagnstefnda krefst málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.

II.

Í aðalsök kveður aðalstefnandi helstu málsatvik þau, að þann 22. desember 1997 hafi fasteignasalan Valhús sf., sem aðalstefndi hafi veitt forstöðu sem löggiltur fasteignasali, selt eignarhluta 106 í Klukkubergi 41 í Hafnarfirði. Seljandi hafi verið aðalstefnandi, en kaupandi Guðmundur Fr. Pálsson. Við kaupsamning hafi kaupandinn, Guðmundur, gefið út tryggingarbréf með 2. veðrétti í ofanlýstri eign og til tryggingar greiðslu 5 víxla, sem aðalstefnandi hafi gefið út þann 22.12. 1997 og Guðmundur samþykkt til greiðslu í Íslandsbanka hf., Hafnarfirði svo:

1.             Pr. 15.04.98                            kr. 200.000

2.             Pr. 15.05.98                            kr. 120.000

3.             Pr. 15.06.98                            kr. 120.000

4.             Pr. 15.07.98                            kr. 200.000

5.             Pr. 15.11.98                            kr. 258.516              eða samtals kr. 898.516,00.

                Kaupverðið hafi þannig verið að fullu greitt og hafi Guðmundur Fr. Pálsson fengið afsal að eignarhlutanum hinn 26.01. 1998. Víxlana eða andvirði þeirra hafi aðalstefnandi hins vegar ekki fengið, heldur hafi aðalstefndi ráðstafað þeim til Landsbanka Íslands, Hafnarfirði, þann 12.02. 1998 og jafnframt sett þá að handveði fyrir skuld, sem hafi verið víxill samþykktur af aðalstefnda.

Þann 15. febrúar 1997 hafi maki aðalstefnanda, Ólafur Ólafsson, keypt 50/100 hluta í Valhúsum sf. fyrir 3.500.000 krónur og hafi Ólafur starfað með aðalstefnda við þá fasteignasölu. Kaupverðið hafi m. a. verið greitt með yfirtöku veðskulda, sem tryggðar voru í eign aðalstefnanda í Melási 1 í Garðabæ samkvæmt tryggingarbréfi dagsettu 20.01. 1998, en aðalstefnandi hafi verið þinglesinn eigandi þess eignarhluta. Aðalstefnandi hafi síðar gengið inn í félagið Valhús sf. sem eigandi, en ekki haft þar starfsviðveru eða þáð laun. Rekstur Valhúsa sf. hafi gengið erfiðlega og hafi Ólafur látið þar af störfum við áramótin 1998/1999. Hafi aðalstefnandi og Ólafur tapað verulegu fé á þessum kaupum. Með aðalstefnda og Ólafi standi nú yfir deilur um uppgjör, ráðstöfun á innheimtufé og e.t.v. fleiru. Af því tilefni hafi bréf gengið milli lögmanns aðalstefnanda og aðalstefnda. Í bréfi aðalstefnda frá 26. maí 1999 segi orðrétt og varði þetta mál: „Víxlar vegna Klukkubergs voru seldir og andvirðið notað til að greiða skuldir fasteignasölunnar, sem var skuldabréf við VÍS vegna starfsábyrgðartryggingar og einhverja fjárnámskröfu. Víxlarnir voru seldir og andvirðið notað til að greiða nefndar skuldir allt gert í árslok 1997 að mig minnir. Ákvörðunina um að selja víxlana og nýta á þennan hátt tók Ólafur að eigin frumkvæði en ég sá um að selja víxlana í Landsbankanum í Hafnarfirði.“

                Í greinargerð aðalstefnda segir m. a. um málsatvik, að aðalstefnandi hafi komið inn í sameignarfélagið Valhús sem helmingseigandi á móti aðalstefnda samkvæmt samningi dagsettum 31.12.1997. Áður hafi eiginmaður aðalstefnanda Ólafur verið eigandi að Valhúsum sf. á móti aðalstefnda. Í samningnum hafi verið miðað við yfirtöku og ábyrgð aðalstefnanda frá og með 1. mars 1997. Aðalstefnandi hafi tekið yfir skuldbindingar eiginmanns síns sem hafi gengið úr félaginu. Nokkrir greiðsluerfiðleika hafi verið hjá Valhúsum sf. í lok ársins 1997 og hafi það verið ákvörðun aðalstefnanda að nota víxlana sem stefnukrafan byggist á til ráðstöfunar á aðkallandi skuldum félagsins. Aðalstefnandi hafi ekki unnið sjálf við rekstur Valhúsa sf. sem starfsmaður, en fylgst vel með rekstrinum, en eiginmaður hennar hafi starfað sem sölustjóri félagsins og gætt hagsmuna hennar og þar með eigin hagsmuna í félaginu. Það hafi verið eiginmaður aðalstefnanda sem bar upp þá tillögu að ráðstafa víxlunum inn í rekstur félagsins. Aðalstefnandi hafi hvorki gert athugasemdir við að gengið hafi verið frá útborgunargreiðslum vegna íbúðarinnar með víxlum né að andvirði víxlanna hafi verið ráðstafað til skulda félagsins sem hún hafi vitað um frá byrjun. Aðalstefnandi hafi einnig haft ótal tækifæri til að hreyfa athugasemdum við víxlamálið en aldrei gert það. Þvílíkt tómlæti undirstriki samþykki hennar til umræddra ráðstafana. Aðalstefndi kveður aðalstefnanda hafa tekið út töluvert mikið fé úr félaginu umfram aðalstefnda á árinu 1997. Það kunni að hafa ráðið ákvörðun aðalstefnanda að láta víxlana inn í félagið. Ársreikningur félagsins fyrir árið 1997 sýni að Ólafur og þar með aðalstefnandi höfðu tekið út úr félaginu kr. 1.159.076, en aðalstefndi hins vegar greitt inn í félagið það ár kr. 13.755. Úttekt aðalstefnanda hafi því numið kr. 1.172.831 umfram meðeiganda hennar, aðalstefnda. Samningur sameignarfélagsins hafi verið á þá lund að félagsmenn mættu einungis taka jafnt út úr félaginu.

Aðalstefndi kveður aðalstefnanda hafa komið margsinnis á skrifstofu félagsins á árunum 1997 og 1998, jafnvel oft á dag og hafi hún verið vel inni í rekstri félagsins og fylgst með gangi mála.

III.

                Í aðalsök reisir aðalstefnandi kröfur sínar á því, að aðalstefndi hafi í umsýslu sinni í þessum viðskiptum haft stöðu opinbers sýslunarmanns, sbr. lög nr. 54/1997. Sem slíkum hafi honum borið að halda fé hennar aðgreindu og gera skil á því. Þetta hafi aðalstefndi ekki gert, sbr. orðalag í bréfi aðalstefna: ,,skuldabréf við VÍS og einhverja fjárnámskröfu.” Hvorki aðalstefnandi né Ólafur Ólafsson hafi heimilað aðalstefnda að blanda einkafjárreiðum aðalstefnanda saman við fjárreiður Valhúsa sf., eins og aðalstefndi fullyrðir. Aðalstefndi hefði, ef mál væru þannig vaxin sem hann heldur fram, átt sem hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali að leita eftir skriflegri heimild aðalstefnanda, en það hafi hann ekki gert, en kennst við skuld að þessu leyti fyrir Ólafi Ólafssyni og aðalstefnanda.

                Þá byggir aðalstefnandi á því, að engin skilyrði séu fyrir hendi til skuldajafnaðar vegna samskipta Ólafs Ólafssonar og aðalstefnanda vegna Valhúsa sf. eða annarra mála. Þau mál séu ekki samrætt, ef einhver séu, enda væri sá skilningur andstæður ákvæðum laga nr. 54/1997.

                Um lagarök vísar aðalstefnandi einkum til ákvæða laga nr. 54/1997 varðandi skyldur fasteignasala og 3. mgr. 7. gr. laga um málflytjendur nr. 61/1942, sbr. breytingar á þeim lögum frá 1995, en lög nr. 77/1998 hafi nú komið í stað fyrrnefndra laga. Um málskostnað vísar aðalstefnandi einkum til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

                Í aðalsök byggir aðalstefndi kröfur sínar á því að það hafi verið ákvörðun aðalstefnanda að nota víxla þá sem stefnukrafan byggist á til ráðstöfunar vegna greiðsluerfiðleika Valhúsa sf. Það hafi verið eiginmaður aðalstefnanda, Ólafur sem bar upp tillögu þessa efnis að ráðstafa víxlunum inn í rekstur félagsins. Aðalstefnandi hafi þannig engar athugasemdir gert um að gengið var frá útborgunargreiðslum íbúðarinnar með víxlum eða að andvirðinu var ráðstafað til skulda félagsins sem hún hafi vitað um. Þá hafi aðalstefnandi haft ótal tækifæri og tilefni til að hreyfa athugasemdum við víxlamálið en aldrei gert það. Þvílíkt tómlæti undirstriki samþykki hennar til umræddra ráðstafana.  Þá eigi ákvörðun aðalstefnanda um að láta víxlana inn í félagið sér þá eðlilegu skýringu að aðalstefnandi hafði þegar tekið út töluvert fé úr félaginu umfram aðalstefnda á árinu 1997. Samningur sameignarfélagsins hafi verið á þá lund að félagsmenn mættu einungis taka jafnt út úr félaginu. Þegar af þeirri ástæðu hafi aðalstefnanda borið að endurgreiða mun hærri fjárhæð en víxlunum nam inn í félagið. Telji aðalstefndi það vera skýringuna á ákvörðun aðalstefnanda um að láta víxlana ganga inn í félagið. Fjárhæð víxlanna hafi þó ekki dugað til að rétta af viðskiptareikning aðalstefnanda hjá félaginu. Þá hafi aðalstefnandi haft aðgang að öllum gögnum um fjármál félagsins og kynnt sér þau við inngöngu í félagið. Hafi hún frá upphafi og á öllum stigum vitað um ráðstöfun víxlanna sem fóru til greiðslu á skuldum Valhúsa sf.  Með afhendingu víxlanna hafi aðalstefnandi í raun verið að greiða inn á viðskiptaskuld sína við Valhús sf., sem henni bar að gera.

Aðalstefndi krefst þess að til frádráttar stefnukröfum komi peningaúttektir aðalstefnanda hjá Valhúsum sf. á árinu 1997, 1.159.076 krónur með skuldajöfnuði.

                Fallist dómurinn ekki á þau rök að aðalstefnandi hafi lagt umrætt fé til félagsins, verði að líta á víxlaframlagið sem lán aðalstefnanda til Valhúsa sf., sem aðalstefnanda beri að krefja félagið um endurgreiðslu á en ekki félagsmann persónulega. Þetta leiði til sýknu af kröfum aðalstefnanda.

                Af hálfu aðalstefnda er því mótmælt að hann hafi komið að málinu sem innheimtumaður aðalstefnanda eða fyrir hennar hönd sem lögmaður eða löggiltur fasteignasali eins og aðalstefnandi vilji vera láta. Aðalstefndi hafi ekki með neinum hætti verið að höndla með annarra fé sem hann hafi átt að halda aðgreindu frá eigin fé. Því sé harðlega mótmælt að víxlunum hafi verið ráðstafað öððru vísi en að vilja aðalstefnanda, með hennar samþykki og í þágu hennar sjálfrar og í samræmi við skyldur hennar sem helmingseiganda í sameignarfélagi. Fráleitt sé að meðeigandi og samstarfsmaður eigi að gjalda menntunar og starfsréttinda sinna þegar verið sé að vinna úr og leysa sameiginleg brýn hagsmunamál sameiginlegs félags og jafnframt verið að rétta af skuldastöðu annars félagsmanns með fullum vilja og samþykki viðkomandi.

                Þá sýni hinn langi tími sem leið frá ráðstöfun víxlanna í febrúar 1998 þar til aðalstefnandi hafði uppi ásakanir í garð aðalstefnda, að hún hafi samþykkt meðferð og ráðstöfun víxlanna sem raun varð á. Gengið hafi verið frá víxlunum í febrúar 1998 og hafi aðalstefnandi engar athugasemdir gert fyrr en með bréfi lögmanns í maí 1999 og málssókninni. Þessi langi tími sýni að aðalstefnandi hafði fyrir löngu samþykkt ráðstöfun víxlanna sem ella hefðu fyrir löngu runnið til hennar.

                Þá hafi aðalstefnandi margsinnis komið á skrifstofu fasteignasölunnar á árunum 1997 og 1998 og stundum oft á dag. Hún hafi verið vel inni í rekstri félagsins og fylgst með gangi mála. Víxlamálið hafi aldrei komið til umræðu vegna þess að þar var ekkert um að ræða. Málið hafi verið afgreitt með samkomulagi um áramótin 1997 og 1998. Félagið hafi hins vegar ekki getað endurgreitt víxlana vegna dugleysis eiginmanns aðalstefnanda í starfi sínu hjá Valhúsum sf. við að afla tekna. Telji dómurinn að aðalstefnda beri að endurgreiða aðalstefnanda framlag hennar inn í sameignarfélagið þá beri einungis að viðurkenna helming upphæðarinnar eða sem svarar hluta aðalstefnda í sameignarfélaginu.

                Aðalstefndi kveður árið 1998 hafa verið fjárhagslega erfitt rekstrarlega fyrir fasteignasöluna vegna getu- og áhugaleysis eiginmanns aðalstefnanda, sem hafi verið sölumaður og sölustjóri fasteignasölunnar. Fjárhagslega hafi enn hallað undan fæti eftir árið 1998 og hafi komið í hlut aðalstefnda að greiða umtalsverðar fjárhæðir fyrir Valhús sf. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að aðalstefndi sé greiðsluskyldur að því er stefnufjárhæðina varðar, þá beri að taka til greina til skuldajafnaðar þær fjárhæðir sem aðalstefndi hefur greitt persónulega f.h. Valhúsa sf. Félagið hafi hætt rekstri í lok desember 1998 og engar tekjur haft eftir það. Aðalstefndi hafi greitt úr eigin vasa alla reikninga vegna Valhúsa sf. eftir 1. janúar 1999. Samtals nemi þessi fjárhæð 1.127.731 krónum og sé krafist skuldajafnaðar á móti stefnukröfum með dráttarvöxtum frá 1.6. 1999.

                Þá krefst aðalstefndi þess að til skuldajafnaðar gegn stefnukröfum komi úttektir aðalstefnanda og eiginmanns hennar á þjónustu hjá Valhúsum sf. samtals að fjárhæð  544.500 krónur auk dráttarvaxta frá 1.1.1999.

Loks krafðist aðalstefndi skuldajafnaðar gagnvart stefnukröfum vegna lögfræðistarfa fyrir aðalstefnanda. Aðalstefndi hefur þær kröfur nú uppi í gagnsök í máli þessu.

Aðalstefndi kveður Valhús sf. enn skuldugt og sé nú fjárkröfum beint að honum persónulega svo sem skuld við sýslumanninn í Hafnarfirði. Aðalstefndi sé því enn að skaðast vegna útgjalda sem hann verði að bera einn þar sem aðalstefnandi sé eignalaus.

Um lagarök vísar aðalstefndi til meginreglna kröfuréttarins um stofnun kröfuréttar, aðild og umboð og rétt til að skuldajafna og meginreglna um sameignarfélög og meginreglna samningaréttar. Krafa um sýknu vegna aðildarskorts er byggð á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

V.

Gagnsök.

Gagnstefnandi kveður fjárhæð þá er hann krefur gagnstefndu um greiðslu á í gagnsökinni, 883.950 krónur, vera samkvæmt reikningi nr. 000185, útgefnum 1.7. 1999 vegna lögfræðistarfa fyrir gagnstefndu á árinu 1998.

Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða vinnu við að ná fasteigninni Melási 1 Garðabæ undan nauðungarsölu, samningar við lánardrottna, skjalagerð og útvegun lánsfjár. Nemi þóknun 400.000 krónum auk virðisaukaskatts 98.000 krónur. Í öðru lagi vinnu við að ná búi gagnstefndu undan gjaldþrotaskiptum. Krafa um þóknun nemi 230.000 krónum auk virðisaukaskatts 56.350 krónur. Í þriðja lagi vinnu við skattakæru og niðurfellingu á álögðum opinberum gjöldum, samtals 10 tíma vinna. Krafist sé 55.000 króna auk virðisaukaskatts 13.475 krónur. Í fjórða lagi vinnu við skattakæru vegna álagningar opinberra gjalda 1995, 30.000 krónur auk virðisauka­skatts 7.350 krónur.

                Gagnstefnandi kveður reikninga sína byggjast á gjaldskrá hans. Útseld vinna pr. klst. hafi verið á kr. 5.500 auk virðisaukaskatts. Hagsmunatengd þóknun greiðist vegna fyrsta og annars kröfuliðar samkvæmt 14. gr. gjaldskrár gagnstefnanda um skuldaskil 6-10 % af innborgaðri fjárhæð eða fjárhæð skulda. Þóknun sé þó mun lægra reiknuð.

                Gagnstefnandi höfðar málið á grundvelli kröfuréttar og samningalaga svo og reglum kaupalaga um skuldbindingar kaupenda þjónustu til að greiða fyrir hana.

 

                Af hálfu gagnstefndu er að því vikið að gagnstefnandi láti þess ógetið í stefnu að hann og gagnstefnda hafi verið sameigendur að Valhúsum sf., fasteignasölu, sem gagnstefnandi hafi veitt forstöðu sem hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali. Maki gagnstefndu Ólafur Ólafsson, hafi keypt sig fyrst inn í þann rekstur, en með samningi þann 31.12. 1997 hafi gagnstefnda yfirtekið hlut Ólafs. Með kaupunum hafi gagnstefnda yfirtekið veðskuldir sem hvíldu á fasteign gagnstefnanda Miðvangi 123, Hafnarfirði að nafnvirði kr. 3.500.000, og hafi þær veðskuldir verið fluttar yfir á Melás 1 í Garðabæ skv. veðtryggingabréfi útgefnu 20. janúar 1998.

                Það sé rétt, að gagnstefnandi hafi mætt við nauðungarsölu á Melási 1, Garðabæ og átt hlut að samningum við hæstbjóðanda, en því sé hafnað að hann hafi útvegað lánsfjármagn vegna þeirra viðskipta.

                Störf gagnstefnanda í þágu gagnstefndu hafi verið önnur en að ofan greinir, en öll unnin á árinu 1998 og því nokkuð sérkennilegt, að reikningur hafi ekki verið skrifaður út fyrr en 1. júlí 1999, en það var gert eftir að lögmaður gagnstefndu ritaði gagnstefnanda innheimtubréf í maí 1999. Af hálfu gagnstefndu er reikningi gagnstefnanda mótmælt sem of háum og bendir gagnstefnda jafnframt á að hún standi í engri skuld við gagnstefnanda vegna þessara starfa. Þá hafi gagnstefnandi sjálfur átt mikið undir því að veðkröfur, sem honum sjálfum tengdust, féllu ekki úr veðtryggingu við nauðungarsöluna.

                Maki gagnstefndu, Ólafur, hafi átt inneignir hjá Viðari Marel Jónssyni að fjárhæð kr. 570.000,00 og Iðnbæ ehf. kr. 160.000,00. Þessum fjármunum hafi Ólafur ráðstafað til gagnstefndu vegna uppboðsmála á Melási 1, Garðabæ, og hafi gagnstefnandi tekið á móti þessum fjárhæðum, samtals 730.000 krónum í aprílmánuði 1998. Þá hafi gagnstefnandi tekið á móti 739.719 krónum þann 14. janúar 1998, ráðstafað 700.000 krónum í þágu gagnstefndu, en notað 39.719 krónur til þess að greiða kortareikning konu sinnar. Vegna starfa sinna í þágu gagnstefndu, sem hann stefni fyrir í máli þessu, hafi gagnstefnandi þannig alls fengið greiddar 769.719 krónur. Reikningur gagnstefnanda sé dagsettur 1. júlí 1999 að fjárhæð 846.600,00. Áðurnefndar greiðslur hafi verið mótteknar fyrir þann tíma og nemi vextir vegna fjárhæðanna krónum 134.966 pr. 1.7.1999. Samtala höfuðstóls krónur 769.719 (39.719+570.000+160.000) og vaxta krónur 134.966 nemi því samtals krónum 904.719. Krafa gagnstefnanda pr. 1.7.1999 nemi krónum 846.6000 og sé því ofgreitt umfram dómkröfu gagnstefnanda krónur 58.085.

                Gagnstefnandi beri fram þær skýringar að hann hafi nánast verið í hlutverki sendils til þess að sækja peninga til þess að greiða leiguskuld Sumarhúsa ehf, sem nú er gjaldþrota. Af hálfu gagnstefnda er það ekki talið hafa líkindi með sér, að Ólafur Ólafsson, maki gagnstefndu, hafi ekki fremur hugsað um að reyna að bjarga sameiginlegu heimili þeirra hjóna en félagi, sem var við það að verða gjaldþrota. Gagnstefnandi verði að hafa í huga skyldur sínar og ábyrgð sem hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali.

                Í máli þessu hafa aðilar gefið munnlegar skýrslur fyrir dómi og maki aðalstefnanda, Ólafur Ólafsson, munnlega vitnaskýrslu fyrir dóminum.

 

Niðurstaða.

 

Aðalsök.

Í máli þessu verður að horfa til þess að aðalstefnandi og aðalstefndi áttu sinnhvorn helming fasteignasölunnar Valhúsa sf. er sala Klukkubergs átti sér stað og umþrættir víxlar voru gefnir út. Þá starfaði eiginmaður aðalstefnanda Ólafur Ólafsson, á fasteignasölunni með aðalstefnda, en Ólafur átti áður hlut aðalstefnanda í fasteignasölunni. Annað hefur ekki komið fram í málinu en að aðalstefndi hafi sinnt skyldum sínum sem löggilts fasteignasala og lögmanns við söluna á Klukkubergi. Til þess verður og að líta að það er fyrst í maí 1999 að aðalstefnandi gerir kröfur um uppgjör vegna víxlanna, en þá hafði slitnað upp úr samstarfi hennar og eiginmanns hennar við aðalstefnda án þess að sameignarfélaginu hafi verið slitið. Byggja verður á því að þá hafi aðalstefnanda fyrir löngu verið kunnugt um ráðstöfun víxlanna í þágu félagsins. Fram hefur komið í málinu að á þessum tíma hafi félagið átt í fjárhagserfiðleikum jafnframt því sem á aðalstefndu hallaði varðandi úttektir úr félaginu á árinu 1997. Þegar þetta allt er virt verður að telja að aðalstefnda hafi samþykkt að víxlanna mætti nota í þágu félagsins. Verður því ekki fallist á að aðalstefndi hafi brotið skyldur sínar sem lögmaður eða löggiltur fasteignasali við meðferð víxlanna. Verður því ekki fallist á kröfur aðalstefnanda á þeim grundvelli sem málið er rekið. Hér kann hins vegar verið um að ræða kröfu á hendur félaginu og og þá eftir atvikum aðalstefnda í tengslum við uppgjör milli eigenda félagsins.

Ber því þegar af ofangreindum ástæðum að sýkna aðalstefnda af öllum kröfum aðalstefnanda í aðalsök.

 

Gagnsök.

                Af hálfu gagnstefndu hefur því ekki verið mótmælt að gagnstefnandi hafi unnið lögfræðistörf fyrir hana, en á hinn bóginn er kröfum gagnstefnanda mótmælt sem of háum og því haldið fram að gagnstefnandi hafi þegar fengið greitt fyrir störf sín í hennar þágu með greiðslum sem hann móttók en eiginmaður gagnstefndu átti eða krónur 730.000. Af því sem fram hefur komið í málinu telur dómurinn að gagnstefnanda hafi þegar verið greitt fyrir störf sín í þágu gagnstefndu að fullu með þeim fjármunum sem hann móttök og voru greiðslur frá Viðari Marel Jónssyni, 570.000 krónur og Iðnbæ ehf., 160.000 krónur. Verður að fallast á staðhæfingu gagnstefndu um að þetta fé hafi runnið til gagnstefnanda enda hefur gagnstefnandi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu með gögnum. Samkvæmt þessu verður gagnstefnda sýknuð af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

                Eftir framangreindum úrslitum í aðalsök og gagnsök þykir rétt að ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu og að málskostnaður falli því niður bæði í aðalsök og gagnsök.

                Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kvað dóminn upp.

D ó m s o r ð :

                Aðalstefndi, Valgeir Kristinsson, er sýkn af kröfum aðalstefnanda, Haflínu Breiðfjörð Sigvaldadóttur, í aðalsök.

                Gagnstefnda, Haflína Breiðfjörð Sigvaldadóttir, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Valgeirs Kristinssonar, í aðalsök.

                Málskostnaður fellur niður í aðalsök og gagnsök.