Hæstiréttur íslands
Mál nr. 519/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 519/2013.
|
Hagsmunasamtök heimilanna (Þórður Heimir Sveinsson hdl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Lögbann.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að taka ekki til greina kröfu hans um lögbann við nánar tilgreindum athöfnum L hf. H reisti kröfu sína á lögum nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Hæstiréttur féllst ekki á að af þeim sökum ætti ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. ekki við um kröfu H en þar segir að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verði að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Vísaði Hæstiréttur um þetta til dóms réttarins í máli nr. 636/2012. Taldi Hæstiréttur að í tilteknum yfirlýsingum L hf. fælist næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda yrðu ekki fyrir borð bornir og hefði H ekki lagt fram haldbær gögn sem styddi það að ástæða væri til að óttast um greiðslugetu L hf. Samkvæmt því stæði 1. töluliður 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að lögbann næði fram að ganga. Þegar af þeirri ástæðu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. janúar 2013 um að synja kröfu sóknaraðila um að leggja lögbann við að varnaraðili „sendi út og innheimti greiðsluseðla sem tilkomnir eru vegna endurútreiknings tækja- og bílasamninga (kaupleigusamninga) eða skuldabréfa þeim tengd, og eru nú í íslenskum krónum en voru áður gengistryggðir við erlenda mynt og eru tryggðir með veði í lausafé eða fasteign og veitt hafa verið neytendum (einstaklingum), sem“ varnaraðili „hefur þegar viðurkennt að séu ólögmæt lán með endurútreikningi til neytenda sem framkvæmdur hefur verið á tímabilinu eftir dóm Hæstaréttar nr. 471/2010 þann 16. september 2010 og fyrir dóm Hæstaréttar nr. 464/2012 sem upp var kveðinn 18. október 2012. Lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verða sendir út í samræmi við dóma Hæstaréttar nr. 600/2011 og nr. 464/2012.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanni verði gert að leggja lögbann við þessum athöfnum varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um lögbann á 1. gr. laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Samkvæmt því ákvæði geta stjórnvöld eða samtök leitað lögbanns til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn nánar tilgreindum tilskipunum sem þar gilda eins og þær hafa verið leiddar í íslensk lög og eru þær taldar upp í 12 töluliðum. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi brotið gegn tilskipunum í töluliðum 1., 3. og 7 sem varða óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaði, samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán og óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
Sóknaraðili telur að þar sem hann byggi kröfu sína um lögbann á fyrrgreindum lögum eigi ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki við um kröfu hans. Verður ekki falist á það með sóknaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2012 í máli nr. 636/2012, en þar var niðurstaðan sú að sóknaraðili þessa máls þótti vera bær til þess að bera upp hér á landi kröfu um lögbann til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001 en að ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 stæði því í vegi að lögbann næði fram að ganga. Ekki er ágreiningur í þessu máli um aðild sóknaraðila.
Samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að almenn úrræði komi ekki að nægu haldi enda sé þá fullnægt skilyrðum lögbanns.
Aðila greinir á um fordæmisgildi dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 varðandi útreikning krafna varnaraðila, en varnaraðili kveður lán þau sem hann hafi veitt nánast í öllum tilvikum vera kaupleigusamninga til skamms tíma. Úr þessum ágreiningi aðila verður ekki leyst í þessu máli. Á hinn bóginn hefur varnaraðili lýst því yfir að hann hafi, eftir tilmælum Fjármálaeftirlitsins 1. mars 2012 um varúðarráðstafanir í þágu skuldara vegna réttaróvissu, gripið til sérstakra öryggisráðstafana til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna sinna með stofnun varasjóðs í þágu skuldara vegna óvissu um mögulegar ofgreiðslur og að hann muni ekki ráðstafa honum fyrr en réttaróvissu hafi verið eytt. Þá hefur varnaraðili lýst því yfir í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, sem varði bílasamning, að hann hafi hafið undirbúning nýs útreiknings hluta samninga sinna sem áður voru gengistryggðir. Felst í yfirlýsingum þessum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir og hefur sóknaraðili ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja það að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. Samkvæmt því standa ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því í vegi að lögbann nái fram að ganga samkvæmt þeirri kröfu sóknaraðila sem mál þetta tekur til. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hagsmunasamtök heimilanna, greiði varnaraðila, Lýsingu hf. 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 5. júlí 2013.
Mál þetta var þingfest 15. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 15. maí sl. Sóknaraðili er Hagsmunasamtök heimilanna, Frakkastíg 27, Reykjavík, en varnaraðili er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru svohljóðandi:
,,1. Að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. janúar 2013, um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann í málinu nr. L-38/2012.
2. Að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík, að leggja lögbann við, að varnaraðili sendi út og innheimti greiðsluseðla sem tilkomnir eru vegna endurútreikninga tækja- og bílasamninga (kaupleigusamninga) eða skuldabréfa þeim tengd, og eru nú í íslenskum krónum en voru áður gengistryggðir við erlenda mynt og eru tryggðir með veði í lausafé eða fasteign og veitt hafa verið neytendum (einstaklingum), sem varnaraðili hefur þegar viðurkennt að séu ólögmæt lán með endurútreikningi til neytenda sem framkvæmdur hefur verið á tímabilinu eftir dóm Hæstaréttar nr. 471/2010 þann 16. september 2010 og fyrir dóm Hæstaréttar nr. 464/2012 sem upp var kveðinn 18. október 2012. Lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verða sendir út í samræmi við dóma Hæstaréttar nr. 600/2011 og nr. 464/2012.“
Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt ákvörðun dómsins, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, frá 3. janúar 2013, um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann í máli nr. L-38/2012. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Í dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 sló rétturinn því föstu að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimiluðu ekki að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að þar sem bein og órjúfanleg tengsl væru milli ógilds ákvæðis í samningi um gengistryggingu og ákvæða samningsins um vexti væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Atvik málsins svöruðu til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skyldu vextir þegar svo stæði á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.
Eftir uppkvaðningu þessara dóma og setningu laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl., mun varnaraðili hafa endurreiknað lán viðskiptavina sinna og sent þeim greiðsluseðla sem miðuðust við hinar breyttu forsendur. Eftir gildistöku laga nr. 151/2010 hefur Hæstiréttur kveðið upp tvo dóma þar sem á það reyndi hvort fjármálafyrirtæki hefðu mátt endurreikna vaxtagreiðslur, sem skuldarar höfðu greitt, þannig að í stað hinna greiddu umsömdu LIBOR-vaxta væru reiknaðir vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010 eða hvort slíkt væri óheimilt þar sem fjármálafyrirtæki hefði gefið út fullnaðarkvittanir vegna þessara greiðslna. Annar dómurinn var kveðinn upp 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 en hinn 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Hæstiréttur rakti í dómunum þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, ætti viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt væri. Frá þeirri reglu væri þó gerð sú undantekning að fullnaðarkvittun kröfuhafa gæti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glataði frekari kröfu. Greiðslutilkynningar fjármálafyrirtækis og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum skuldara í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum. Taldi Hæstiréttur það standa fjármálafyrirtækinu nær að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og að hinn rangi lagaskilningur aðila, sem lá til grundvallar lögskiptum þeirra, yrði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar. Þá taldi Hæstiréttur að lög nr. 151/2010 gætu ekki haggað þessari niðurstöðu, enda væri ekki með almennum lögum unnt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Varnaraðili mun hafa stofnað bankareikning í tilefni af tilmælum Fjármálaeftirlitsins 1. mars 2012 um varúðarráðstafanir í þágu skuldara vegna réttaróvissu. Í fréttatilkynningu 28. ágúst 2012 segir varnaraðili m.a.: ,,Umræddur bankareikningur er í vörslu Arion banka hf. og geymir hluta af greiðslum viðskiptavina Lýsingar sem hafa verið inntar af hendi eftir dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl. Um er að ræða varasjóð Lýsingar þar sem fjármunum, sem ágreiningur er um eða kann að verða ágreiningur um, er haldið sérgreindum á einum reikningi í því skyni að endurgreiða þá, komist dómstólar að þeirri niðurstöðu, andstætt mati lögmanna félagsins, að um ofgreiðslu hafi verið að ræða samkvæmt ákvæðum samninganna. Lýsing ráðstafar ekki innistæðum í sjóðnum fyrr en réttaróvissu hefur verið eytt. Lýsing hefur enn fremur gert samkomulag við kröfuhafa um að inneignin sé fyrst notuð til að endurgreiða hugsanlega ofgreiðslu til viðskiptavina áður en henni yrði ráðstafað til greiðslu á öðrum kröfum. Stofnun reikningsins byggist á framangreindri yfirlýsingu um hlutverk hans og meðferð auk fjárhagslegs mats á umræddum réttarágreiningi sem Lýsing hefur lagt fyrir Fjármálaeftirlitið ...“.
Í kjölfar síðarnefnda dómsins mun varnaraðili hafa lýst því í fréttatilkynningu að framangreindir dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hefðu að hans mati ekki fordæmisgildi um lánasafn varnaraðila.
Með bréfi, mótteknu 3. desember 2012, fór sóknaraðili þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili sendi út og innheimti greiðsluseðla sem væru til komnir vegna endurútreiknings tækja- og bílasamninga (kaupleigusamninga) eða skuldabréfa sem tengdust þeim. Kaupleigusamningarnir séu nú í íslenskum krónum en hafi áður verið gengistryggðir við erlenda mynt og séu tryggðir með veði í lausafé eða fasteign. Lánin hafi verið veitt neytendum (einstaklingum) og hafi varnaraðili þegar viðurkennt að þau séu ólögmæt með endurútreikningi til neytenda sem gerður hefur verið á tímabilinu eftir dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og fyrir dóm Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verði sendir út í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Sýslumaður hafnaði kröfunni með bréfi 3. janúar 2013 með vísan til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., þar sem að virtri beiðni sóknaraðila og fylgigögnum með henni yrði að telja að umræddir hagsmunir væru nægilega tryggðir með réttarreglum um refsingu og skaðabætur. Með bréfi mótteknu 24. janúar sl. fór sóknaraðili þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að felld yrði úr gildi framangreind ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannsbeiðni hans.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að hann sé hagsmunasamtök heimila á Íslandi og sé til þess bær að gæta hagsmuna allra einstaklinga sem séu lántakendur og neytendur sem tekið hafi gengistryggð erlend lán sem falli undir lögbannskröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili telur að samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, sé nauðsynlegt að vernda heildarhagsmuni neytenda sem hafi orðið og muni að óbreyttu verða fyrir röskun réttinda vegna viðskipta sinna við varnaraðila. Nauðsynlegt sé að stöðva þau viðskipti og koma í veg fyrir háttsemi sem hafi afleiðingar hér á landi og þyki stríða gegn tilskipunum sem tilgreindar eru í 1., 3., og 7., tl. 1. gr. laga nr. 141/2001, eins og þær hafa verið innleiddar í íslensk lög.
Í 1. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001 sé talin upp tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum, sbr. lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. lög nr. 50/2008 og reglugerð nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Í 3. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001 sé talin upp tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB, sbr. lög nr. 121/1994 um neytendalán. Í 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001 sé talin upp tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, sbr. a-d liði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995 um breytingu á lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Sóknaraðili byggir á því að þegar hann lagði fram lögbannsbeiðni sína hafi tækja- og bílasamningar (kaupleigusamningar) varnaraðila og skuldabréf þeim tengd sem tilgreind séu í lögbannskröfu ekki verið reiknuð út á lögmætan hátt með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Jafnframt telur sóknaraðili að endurútreikningar samkvæmt lögum nr. 151/2010, þar sem vextir og verðbætur af greiddum afborgunum séu lögð við höfuðstól og þannig fundinn nýr höfuðstóll, séu ekki heimilir því að einungis 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili slíkt við tiltekin skilyrði. Endurútreikningar varnaraðila gefi því ekki rétta mynd af stöðu lána. Þar af leiðandi sé ekki hægt að innheimta þau með útsendingu greiðsluseðla. Jafnframt hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 verið túlkaður alltof rúmt af hálfu varnaraðila og annarra fjarmálafyrirtækja sem og þeirra sem hafi lagt fram frumvarp sem varð að lögum nr. 151/2010.
Með dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 hafi að mati sóknaraðila endanlega verið skorið úr um hvernig fara ætti með greiddar afborganir neytenda af ólögmætum gengistryggðum lánum. Önnur fjármálafyrirtæki hafi samþykkt þetta. Veki það því furðu að varnaraðili geri ekki slíkt hið sama, nema ljóst sé að staða hans verði gífurlega erfið eftir nýja endurútreikninga og óljóst hvernig fari um áframhaldandi starfsemi hans.
Dómurinn hafi áréttað það fordæmi sem sett var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, að útgefnir greiðsluseðlar og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum í samræmi við þá hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, sem teljist til eignarréttinda og njóti þar með stjórnarskrárverndar. Þar af leiðandi megi ekki krefja lántaka síðar um viðbótargreiðslu vegna þegar greiddra gjalddaga. Dómurinn hafi einnig gengið lengra og samþykkt tiltekna reikniaðferð sem sett hafi verið fram í kröfugerð aðila. Fordæmisgildi dómsins sé varla hægt að skilja þannig að það sé sérstaklega háð því hvort lán hafi endilega alltaf verið í fullum skilum, enda breyti það ekki meginreglunni sem fram komi í dómnum. Jafnframt geti krafa, byggð á ólögmætum skilmála og sem sé of há, aldrei talist vera í vanskilum þar sem slík krafa sé ekki lögvarin. Kröfuhafi (varnaraðili) verði að hafa uppi rétta kröfu svo hann eigi rétt til efnda.
Sóknaraðili telur að ofangreindur Hæstaréttardómur sé fordæmisgefandi varðandi endurútreikning ólögmætra gengislána og breyti þar engu hvort átt sé við lán varnaraðila eða annarra.
Varnaraðili hafi endurútreiknað lán þau sem lögbannsbeiðni sóknaraðila snúi að þannig að gengið hafi verið út frá því að lánin hafi frá stofndegi borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Varnaraðili telji sig því eiga kröfu aftur í tímann um slíka vexti samkvæmt tækja- og bílasamningum (kaupleigusamningum) og skuldabréfum þeim tengdum, þar sem hann hafi fylgt lögum nr. 151/2010 um þann endurútreikning. Á móti komi að lántakendur (neytendur) hafi greitt afborganir af lánum sínum frá stofndegi samkvæmt ákvæðum lánssamninga og lána varnaraðila. Þar sem vextir af lánunum hafi verið hærri samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 en upphaflegir lánssamningar hafi kveðið á um, þá eigi varnaraðili rétt á þeim mismun vaxta sem hann hafi reiknað út. Þessi túlkun varnaraðila sé á skjön við niðurstöðu framangreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012.
Varnaraðili hafi sent frá sér fréttatilkynningu 23. október 2012 þar sem hann segi að til þess að undantekningarregla sem á reyndi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012, þess efnis að fullnaðarkvittanir gangi framar meginreglu um fullar efndir samkvæmt samningum, eigi við þurfi tiltekin skilyrði að vera fyrir hendi samkvæmt forsendum dómsins. Varnaraðili telji að þeim skilyrðum sé ekki fullnægt hvað snertir samninga félagsins og að dómurinn snúi að afmörkuðu máli og afmarkaðri kröfugerð sem varði varnaraðila ekki. Sóknaraðili telur þennan fréttaflutning varnaraðila ekki standast nein rök. Í báðum dómum Hæstaréttar séu settar fram meginreglur sem varði endurútreikning ólögmætra gengislána/gengissamninga sem fráleitt sé að snerti eingöngu öll önnur fjármálafyrirtæki en varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að neytendur eigi lögvarinn rétt til að fá rétta greiðsluseðla samkvæmt 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. 5. til 7. gr. laganna, sbr. einnig 3. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001.
Hinum umdeildu samningsákvæðum gengislánasamninga hafi verið breytt með setningu laga nr. 151/2010. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi í máli nr. 600/2011, sbr. dóm í máli nr. 464/2012, að slík breyting með íþyngjandi afturvirkum hætti stangaðist á við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeirri niðurstöðu leiði að útsendir greiðsluseðlar varnaraðila innihaldi ekki kröfu um réttar efndir samkvæmt samningi aðila, heldur gangi háttsemi varnaraðila gegn ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, sbr. tilskipun 87/102/EB í 3. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Samkvæmt fjölmörgum fordæmum Evrópudómstólsins hafi það í för með sér að skilmáli sá er varnaraðili byggi á innheimtu vaxta teljist jafnframt vera ósanngjarn samningsskilmáli í skilningi laga nr. 7/1936 og tilskipunar 93/13/EB, sbr. 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/13/EB, sem kveði á um að samningsákvæði sem leiði af lögum eða bindandi stjórnvaldsfyrirmælum séu undanskilin tilskipuninni, hafi ekki verið innleitt í íslensk lög, sbr. heimild í 8. gr. tilskipunarinnar. Því til viðbótar hafi Evrópudómstóllinn kveðið á um það í máli nr. C-472/10 að skilmála sem leiði af lögum eða bindandi stjórnvaldsfyrirmælum þurfi að kynna sérstaklega fyrir neytanda. Af því leiði að slíkur skilmáli verði að vera til staðar við samningsgerðina.
Útsending og innheimta greiðsluseðla án þess að tekið hafi verið tillit til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 verði að mati sóknaraðila á þessari stundu að teljast til óréttmætra viðskiptahátta, sbr. 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með síðari breytingum, sbr. 1. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/2005 séu óréttmætir viðskiptahættir bannaðir og gildir það bann áður, á meðan og eftir að viðskipti fara fram. Lög nr. 57/2005 byggist á tilskipun 2005/29/E8, sbr. lög nr. 50/2008. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar teljist viðskiptahættir óréttmætir ef þeir ganga gegn kröfum um faglega kostgæfni og eru líklegir til að raska verulega hag meðalneytandans í fjárhagslegu tilliti. H-liður 2. gr. tilskipunarinnar skilgreini faglega kostgæfni.
Sóknaraðili telur að óumdeild fordæmi séu fyrir útsendingu og innheimtu greiðsluseðla sem auðveldi lántakendum að greiða af lánum sínum í samræmi við rétt lög, lánasamning og réttan endurútreikning. Ef greiðsluseðlar væru ekki sendir út myndu lántakendur ekki vita hvað þeir ættu að greiða. Útsending þeirra sé því nauðsynlegur liður í innheimtu viðkomandi lána varnaraðila og fjármálakerfisins í heild.
Gera verði sérstaka kröfu um færni, alúð og ekki síst góða trú þegar kemur að starfsemi fjármálafyrirtækja. Varnaraðili hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með fréttaflutningi sínum. Varnaraðili ætli að innheimta greiðsluseðla eins og dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi aldrei verið kveðnir upp. Sóknaraðili og skjólstæðingar hans samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 geti ekki sætt sig við þá afstöðu varnaraðila að niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 sé svo mikilli óvissu háð að fleiri dóma þurfi til að skýra hvaða áhrif hann hafi á endurútreikning lána. Ekki sé hægt að bíða lengur lögmætra réttarúrræða og sé nú svo komið að snúa verði við blaðinu neytendum og heimilunum í hag.
Í mörgum tilvikum liggi ekki fyrir samþykki neytenda á endurútreikningi fyrir nýjum samningi eða veðskuldabréfi í íslenskum krónum í stað gengistryggðs samnings, heldur hafi fjármálafyrirtækin skikkað lántakendur og þá um leið heimilin í landinu til að neyta einhverra þeirra úrræða sem fjármálafyrirtækjunum, þ. á m. varnaraðila, séu þóknanleg, þótt lántakendur hafi mótmælt útreikningum fjármálafyrirtækja/varnaraðila samkvæmt samningum/veðskuldabréfum.
Varnaraðili bæti vöxtum og verðbótum við eftirstöðvar endurútreiknings og fái með því nýjan höfuðstól, þrátt fyrir að lántakandi (neytandi) hafi staðið í skilum og þegar greitt vextina og verðbæturnar. Þessi endurútreikningur sé á skjön við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.
Jafnframt telur sóknaraðili að endurútreikningur þar sem vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, sé bætt við höfuðstól þegar svo ber undir sé ekki heimill. Með gagnályktun frá 1. mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001 sé óheimilt að taka vexti og verðbætur af veltureikningi og leggja við höfuðstól (á 12 mánaða fresti) þegar skuldari hafi þegar greitt afborganir og vexti á því tímabili sem um ræðir. Jafnframt sé það ekki í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Hér sé því alla jafna um ólögmætan höfuðstólsútreikning að ræða. Að öðru leyti orki tvímælis hvort 12. gr. laga nr. 38/2001 eigi við um lánasamninga nema heimild sé í þeim til slíkra vaxtaútreikninga. Að auki sé ekki að finna í lögum nr. 38/2001 heimild til að taka vexti og verðbætur af veltureikningi (biðreikningi) og leggja þá við höfuðstól.
Sóknaraðili byggir á því að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sé fullnægt.
Um sé að ræða byrjaða og yfirvofandi athöfn af hálfu varnaraðila með þegar útsendum greiðsluseðlum og yfirvofandi útsendingu greiðsluseðla fyrir næstu mánuði og ár. Sóknaraðili hafi samkvæmt framangreindu gert sennilegt að útsending varnaraðila á greiðsluseðlum brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti neytenda til að fá að greiða rétta fjárhæð af lánum samkvæmt greiðsluseðlum. Óvíst sé hve lengi varnaraðili muni senda út ólögmæta og ranga greiðsluseðla. Gildir þetta a.m.k. þar til nýir endurútreikningar hafi átt sér stað og verið sendir út.
Svo geti farið að réttindi sóknaraðila og skjólstæðinga þeirra, neytenda, fari forgörðum ef varnaraðili eða fjármálafyrirtæki verður gjaldþrota og ekki verður hægt að endurkrefja um greiðslur samkvæmt greiðsluseðlum. Verði eitt fjármögnunarfyrirtæki gjaldþrota verði önnur það oft líka, eins og í svokölluðu bankahruni.
Sóknaraðili telur að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 tryggi neytendur ekki nægilega. Varnaraðili standi völtum fótum, nánast engin útlán séu fyrir hendi og varnaraðili og/eða eigandi varnaraðila hafi riðað á barmi gjaldþrots frá hausti 2008. Algerlega sé óljóst að sá fjöldi lántakenda sem hugsanlega hafi ofgreitt af lánum sínum hjá varnaraðila eigi endurkröfu í sjóði hans eða að varnaraðili hafi bolmagn til að greiða þeim neytendum sem muni gera kröfur á hendur honum. Jafnframt að einstaklingar sem hafi ofgreitt af lánum sínum hafi bolmagn eða kraft til að krefjast skaðabóta eða eftir atvikum að höfða mál fyrir dómstólum. Verði varnaraðili gjaldþrota eftir að endurútreikningur samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 eða annarra dóma liggi fyrir, verði kröfur lántakenda (neytenda) almennar kröfur í þrotabúið. Því hafi 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki þýðingu. Máli skipti að þúsundir lántakenda geti átt kröfur á hendur varnaraðila.
Það að varnaraðili sé eina fjármálafyrirtækið sem skirrist við að hefja endurútreikning að nýju eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 segi meira en flest orð. Líkindi séu á að varnaraðili standi illa og geti hreinlega ekki staðið undir endurútreikningi að nýju samkvæmt dómum Hæstaréttar nr. 600/2011 og 464/2012 og rekið áfram starfsemi sína.
Í nýjasta ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2011
segi að handbært fé félagsins hafi dregist saman um 77% á árinu 2011 og numið
1,9 milljörðum króna 31. desember 2011, samanborið við 8 milljarða í upphafi
árs 2011. Sérstaklega sé tekið fram í skýringu 49 að óvissa sé um rekstrarhæfi
félagsins, þ.e. hæfi þess til að starfa næstu 12 mánuði, talið frá 31. desember
2011, bæði vegna hugsanlegra áhrifa af niðurstöðum dómsmála og vegna þess að
félagið uppfylli ekki skilmála í lánasamningum við lánadrottna sína. Í áritun
löggilt
ra endurskoðenda á ársreikninginn sé
vakin sérstök athygli á þessari óvissu.
Í 1. gr. laga nr. 141/2001 komi skýrt fram að beiðni um aðgerðir samkvæmt lögunum miði að því að stöðva eða koma í veg fyrir háttsemi sem hafi afleiðingar hér á landi. Í ákvæðinu felist einnig að aðgerðir samkvæmt lögunum snúi að því að vernda heildarhagsmuni neytenda og því sé ekki þörf á að sýna fram á að einhver ákveðin réttindi fari forgörðum. Slíkt væri óframkvæmanlegt þar sem um sé að ræða hagsmuni ótilgreindra neytenda sem verði eða geti orðið fyrir tjóni vegna háttsemi sem stríði gegn þeim tilskipunum sem tilgreindar séu í töluliðum 1-12.
Sóknaraðili telur að 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 eigi ekki við þegar krafa sé sett fram samkvæmt lögum nr. 141/2001, enda sé það ekki skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 að réttindum sé raskað. Eina skilyrði laga nr. 141/2001 sé að brotið sé gegn lögum byggðum á þeim 12 tilskipunum sem fram komi í 1. gr. laganna og sé ætlað að tryggja heildarhagsmuni neytenda, ekki með leiðréttingu eftir á eins og 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 vísi til, heldur til að stöðva brot þá þegar. Slíkar leiðréttingar eftir á séu einkaréttarlegs eðlis en ekki allsherjarréttarlegs eðlis, og varði því ekki „heildarhagsmuni neytenda“. Í 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé frekar verið að fjalla um einn gerðarbeiðanda og einn gerðarþola og eitt tilvik/atburð sem krafist sé að lagt verði lögbann við sem sé afmarkað og snúi ekki að ótilgreindum hópi neytenda. Allt aðrar forsendur séu uppi þegar farið sé fram á lögbann með vísan til laga nr. 141/2001.
Sóknaraðili byggir á því að Hæstiréttur hafi þegar með dómum í málum nr. 600/2011 og 464/2012 dæmt að óheimilt sé að innheimta kröfur á ólögmætum grunni. Því sé fráleitt að varnaraðili haldi áfram að innheimta kröfur í andstöðu við þessa dóma Hæstaréttar í skjóli þess að varnaraðili muni hugsanlega geta endurgreitt einhvern tíma síðar. Neytendur eigi alltaf að njóta vafans í slíkum tilvikum.
Jafnframt sé það tilgangur tilskipunar 98/27/EB og laga nr. 141/2001 að stöðva ólögmæta háttsemi sem hafi áhrif á ótiltekinn fjölda neytenda. Komist dómstóllinn að því að um sé að ræða ólögmæta háttsemi, m.a. samkvæmt 1., 3. eða 7. tl. 1. gr. laganna og að um óréttmæta viðskiptahætti sé að ræða, geti hann ekki heimilað að háttsemin haldi áfram.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 mæli fyrir um að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að öll þrjú skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi.
1. Sóknaraðili hefur ekki sannað eða gert sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum hagsmunum hans eða skjólstæðinga hans.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé sett það skilyrði að sóknaraðili þurfi að sanna eða gera sennilegt að tiltekin athöfn varnaraðila brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Frá framangreindri meginreglu sé ein undantekning, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 141/2001. Þótt sóknaraðili njóti stöðu samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 141/2001 og geti þar með krafist lögbanns án þess að hafa lögvarða hagsmuni af því, þá veiti lagaheimildin honum ekki rétt til þess að krefjast lögbanns við hvers kyns athöfnum. Í athugasemdum í greinargerð með 1. gr. frumvarps til áðurnefndra laga séu sett fram tvö skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt svo slíkir aðilar geti krafist lögbanns; Í fyrsta lagi þurfi sú athöfn sem krafist sé lögbanns við að brjóta gegn þeim lögum sem löggjafinn hefur sett til þess að innleiða þær tilskipanir sem eru tilgreindar í 1. 12. tl. 1. mgr. laganna. Í öðru lagi þurfi afleiðingar brotsins að koma fram í öðru EES-ríki.
Röksemdir sóknaraðila fyrir því að útsending varnaraðila og innheimta á greiðsluseðlum brjóti gegn lögum sem sett hafa verið til þess að uppfylla áðurnefndar tilskipanir séu þríþættar. Í fyrsta lagi byggi sóknaraðili á því að brotið sé gegn 14. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr. 5. 7. gr. laganna, sbr. og 3. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Í öðru lagi byggi sóknaraðili á því að brotið sé gegn lögum nr. 7/1936, sbr. 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Í þriðja lagi byggi sóknaraðili á því að brotið sé gegn 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með síðari breytingum, sbr. 1. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001.
1.1. Útsending og innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum brýtur ekki gegn 13. gr. laga 121/1994 um neytendalán.
Varnaraðili mótmælir því að útsendir greiðsluseðlar hans innihaldi ekki kröfu um réttar efndir samkvæmt samningi aðila þar sem háttsemi varnaraðila gangi gegn 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán. Varnaraðili telur að greiðsluseðlar hans uppfylli skilyrði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 enda hafi hann endurreiknað alla gengistryggða kaupleigusamninga og skuldabréf sín til samræmis við lög nr. 151/2010 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og taki greiðsluseðlar mið af þeim endurútreikningi.
Varnaraðili hafnar röksemdum sóknaraðila um að dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 geti haft almennt fordæmisgildi um þegar framkvæmdan endurútreikning varnaraðila og því séu útsendir greiðsluseðlar rangir. Í stuttum kaupleigusamningum og lánum líkt og þeim sem varnaraðili veitir sé viðbótarkrafa um vexti aldrei umtalsverð í skilningi áðurgreindra dóma Hæstaréttar. Í niðurstöðukafla dómanna skýri rétturinn hvernig reikna eigi hlutfall viðbótarkröfunnar, miðað við þá kröfugerð sem hafi legið fyrir í málinu, en hlutfallið sé svo notað við mat á umfangi viðbótarkröfunnar. Reikna eigi hlutfallið með því að bera saman: a) mismun á endurreiknaðri fjárhæð láns samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og breytingalögum nr. 151/2010 og höfuðstól eins og hann hefði átt að standa miðað við upphaflegar forsendur og fjölda greiddra afborgana, við b) upphaflegan höfuðstól láns. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 hafi framangreint hlutfall verið 34,3% en 28,2% í dómi réttarins í máli nr. 464/2012, sbr. eftirfarandi útreikning:
|
Dómur |
Lengd láns |
Gr. afb. |
Skil |
Tími liðinn af lánst. |
Áætlaðar eftirstöðvar m.v. fjölda gr. leigugr. |
Endurútr. á viðm.d |
Umtalsv. fjárhæð |
Hlutf.
|
|
Hrd. 600/2011 |
30 ár |
20 af 120 |
Ávallt í skilum |
5 ár |
16.000.000 |
22.585.936 |
6.585.936 af 19.200.000
|
34,3% |
|
Hrd. 464/2012 |
20 ár |
17 af 80 |
Ávallt í skilum |
4,25 ár |
157.500.000
|
213.894.471 |
56.394.471 af 200.000.000 |
28,2%
|
Í tilfelli kaupleigusamninga og skuldabréfa varnaraðila sé framangreint hlutfall almennt mun lægra og oftast neikvætt, vegna stutts lánstíma. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2012 í máli nr. E-2657/2011 hafi fjármálafyrirtæki verið sýknað af kröfum leigutaka kaupleigusamnings sem byggði á því að fjármálafyrirtækinu hafi verið óheimilt að krefjast aukinna vaxta fyrir liðna tíð, í samræmi við Hrd. 471/2010, þar sem leigutakinn hefði yfir fullnaðarkvittunum að ráða. Rétturinn hafi fjallað um Hæstaréttardóma nr. 600/2011 og 464/2012, þá meginreglu kröfuréttar sem fjallað sé um í dómunum um rétt kröfuhafa til fullra efnda og undantekningarregluna um að fullnaðarkvittun skuldara geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati rétti til frekari greiðslna síðar. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að fjárhæð viðbótarkröfu samkvæmt endurútreikningi gæti aldrei talist umtalsverð í skilningi framangreindra dómafordæma og því hafi fjármálafyrirtækið verið sýknað af kröfum leigutakans. Hlutfall viðbótarkröfunnar í framangreindu dómsmáli samkvæmt áðurnefndri reiknireglu hafi verið 5,43% (244.627/4.500.000).
1.2. Útsending og innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum brýtur ekki gegn lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Varnaraðili andmælir því að sá skilmáli sem varnaraðili byggir á um innheimtu vaxta teljist vera ósanngjarn samningsskilmáli í skilningi laga nr. 7/1936. Sóknaraðili hvorki rökstyðji hvers vegna hann telji samningsskilmálann ósanngjarnan né vísi til einstakra ákvæða laga nr. 7/1936 málsástæðunni til stuðnings. Þessari málsástæðu sé einnig mótmælt með sömu rökum og greinir að framan.
1.3. Útsending og innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum brýtur ekki gegn 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Varnaraðili vísar því á bug að útsending og innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum án þess að tekið hafi verið tillit til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2010 teljist óréttmætir viðskiptahættir, sbr. 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Varnaraðili mótmælir framangreindri málsástæðu einnig með sömu rökum og fyrr greinir.
Einnig geti útsending og innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum sem grundvallist á lánum sem endurreiknuð hafi verið í samræmi við gildandi lög og dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 aldrei talist vera óréttmætir viðskiptahættir. Varnaraðili bendi á að embætti umboðsmanns skuldara hafi verið falið eftirlit með framkvæmd endurútreikninga fjármálastofnana á grundvelli laga nr. 151/2010. Embættið hafi ekki gert athugasemdir við endurútreikningsaðferðir varnaraðila. Þvert á móti komi fram í fréttatilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá 29. maí 2011 að samkvæmt skýrslu umboðsmanns skuldara rúmist endurútreikningsaðferðir allra fjármálafyrirtækja, þ.m.t. þeirra sem veita bílalán, innan ákvæða laga nr. 151/2010. Tilvitnaðir dómar Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 og 464/2012 geti engu breytt í því sambandi enda hafi rétturinn beitt undantekningarreglu frá meginreglu kröfuréttar um fullnar efndir í áðurgreindum málum. Túlka beri undantekningarreglur afar þröngt.
2. Sóknaraðili hefur hvorki sannað né gert sennilegt að varnaraðili hafi hafist handa eða muni hefjast handa um athöfn sem brjóti gegn lögvörðum rétti hans eða skjólstæðinga hans.
Varnaraðili byggir á því að þar sem sóknaraðila hafi ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um að tiltekin athöfn varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila eða skjólstæðinga hans sé uppfyllt, þá hafi sóknaraðila heldur ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að varnaraðili muni hefjast handa við slíka athöfn.
3. Sóknaraðili hefur hvorki sannað né gert sennilegt að réttindi hans eða skjólstæðinga hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til þess að bíða dóms um þau.
Varnaraðili telur að sóknaraðila hafi ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um að réttindi hans eða skjólstæðinga hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til þess að bíða dóms um þau. Sóknaraðili færi ekki fram haldbæran rökstuðning fyrir því að réttindi sóknaraðila eða skjólstæðinga hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til þess að bíða dóms um þau. Auk heimildar til þess að krefjast lögbanns hafi sóknaraðili heimild til þess að höfða einkamál til að fá lagt bann við athöfn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 141/2001. Telji skjólstæðingar sóknaraðila að dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi fordæmisgildi og uppreiknaðar eftirstöðvar samninganna séu því rangar, geti þeir gert sóknaraðila grein fyrir því og boðið fram greiðslu á því sem þeir telji að endurspegli réttar eftirstöðvar eða höfðað dómsmál gegn varnaraðila, t.d. einkamál með viðurkenningarkröfu.
Varnaraðili vísar á bug röksemdum sóknaraðila um slæma stöðu varnaraðila. Varnaraðili uppfylli fjárhagsleg skilyrði sem Fjármálaeftirlitið gerir til reksturs fjármálafyrirtækja. Eiginfjárhlutfall varnaraðila í lok síðasta árs hafi verið 19,02% en lágmarkskrafa um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja sé 8%. Samkvæmt ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2012 sé rekstur hans í góðu horfi.
Varnaraðili hafi gripið til sérstakra öryggisráðstafana umfram skyldu til þess að tryggja hagsmuni viðskiptamanna sinna, svo sem með stofnun varasjóðs í þágu skuldara vegna óvissu um mögulegar ofgreiðslur. Umræddur varasjóður sé í vörslu Arion banka hf. og geymi þann hluta af greiðslum viðskiptavina varnaraðila sem hafi verið inntar af hendi eftir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012. Þessum fjármunum sé þannig haldið sérgreindum á einum reikningi. Af þessum reikningi sé hægt að endurgreiða viðskiptavinum, komist dómstólar í einhverjum tilfellum að þeirri niðurstöðu að um ofgreiðslu hafi verið að ræða samkvæmt ákvæðum tiltekinna samninga. Varnaraðili hafi lýst því yfir að hann ráðstafi ekki innstæðum sjóðsins fyrr en réttaróvissu hafi verið eytt. Varnaraðili hafi jafnframt lýst því yfir að hann hafi gert samkomulag við kröfuhafa sína um að sjóðurinn verði fyrst notaður til að endurgreiða viðskiptavinum hugsanlega ofgreiðslu áður en honum verði ráðstafað til greiðslu á öðrum kröfum.
4. Hafna ber dómkröfum sóknaraðila vegna ákvæðis 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Varnaraðili telur að hafna beri kröfum sóknaraðila þar sem sýslumanni hafi verið rétt að synja um hina umbeðnu gerð vegna ákvæðis 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Réttarreglur um skaðabætur tryggi að fullu mögulega hagsmuni sóknaraðila og skjólstæðinga hans og engin ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. Röksemdum sóknaraðila um að regla 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 eigi ekki við þegar lögbannsmál sé rekið eftir ákvæðum sérlaga nr. 141/2001 sé hafnað með vísan til 4. gr. laganna.
5. Hafna ber dómkröfum sóknaraðila vegna ákvæðis 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Varnaraðili byggir á því að hafna beri kröfum sóknaraðila og staðfesta ákvörðun sýslumanns á grundvelli 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Varnaraðili telur að hagsmunir hans af því að fá að senda út greiðsluseðla vegna kaupleigusamninga og skuldabréfa á grundvelli endurútreiknings sem framkvæmdur hafi verið í samræmi við gildandi lög séu mun meiri en hagsmunir óskilgreinds hóps neytenda af því að greiðsluseðlarnir séu ekki sendir út. Allar líkur séu á því, að mati varnaraðila, að hinir tveir tilvitnuðu dómar Hæstaréttar Íslands, þar sem undantekningu frá meginreglu kröfuréttar um fullnar efndir var beitt, séu ekki fordæmisgefandi fyrir meirihluta kaupleigusamninga og skuldabréfa varnaraðila. Fari svo að niðurstaða tiltekinna dómsmála, sem rekin séu um þessar mundir, verði á þann veg að varnaraðila beri að framkvæma nýjan endurútreikning á einhverjum hluta kaupleigusamninga og skuldabréfa sinna þá sé varnaraðili að fullu í stakk búinn til þess að mæta slíku.
6. Grundvöllur fyrir lögbannskröfu sóknaraðila er of óljós.
Varnaraðili byggir einnig á því að grundvöllur fyrir lögbannskröfu sóknaraðila sé of óljós. Krafa um lögbann við útsendingu greiðsluseðla vegna ótilgreindra kaupleigusamninga og skuldabréfa sé mun víðtækari en þær tilskipanir sem sóknaraðili vísi til og innleiðing þeirra í íslenskan rétt gefi kost á. Ekki séu tilgreindir þeir kaupleigusamningar og þau skuldabréf sem um ræðir, heldur látið nægja að vísa til allra kaupleigusamninga og skuldabréfa sem falli undir lýsingu sóknaraðila og veitt hafa verið neytendum á ákveðnu tímabili. Tilgreining sóknaraðila á skuldabréfum í lögbannskröfu sé óljós, en varnaraðili átti sig ekki á því hvað sóknaraðili eigi við með orðunum „...eða skuldabréfa þeim tengd“.
Verði niðurstaða dómsmála sem rekin eru á þá leið að einhver hluti kaupleigusamninga og skuldabréfa varnaraðila skuli endurreiknaður, muni það aldrei eiga við um alla þá kaupleigusamninga og skuldabréf sem hin óljósa tilgreining sóknaraðila taki til. Þá sé óljóst með hvaða hætti varnaraðili eigi að bregðast við, og þá gagnvart hvaða skuldabréfum og samningum, fari svo að lögbann verði lagt á með þeim hætti sem sóknaraðili krefst.
Útsending varnaraðila á greiðsluseðlum geti aldrei brotið gegn lögvörðum rétti sóknaraðila eða skjólstæðinga hans þar sem lántakendum beri að greiða af lánum sínum og kaupleigusamningum, án tillits til þess hvort þeir fái greiðsluseðla í hendur eða ekki. Engin lagaskylda hvíli á varnaraðila að senda greiðsluseðla til skuldara sinna.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggir á 130. gr. eml. sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. ksl.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segir að leggja megi lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, „ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau“. Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. sömu greinar verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda geta stjórnvöld eða samtök, sem um ræðir í 2. og 3. gr. laganna, leitað lögbanns eða höfðað dómsmál samkvæmt 4. gr. þeirra til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökunum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðir að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi, sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn nánar tilteknum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög. Í 2. mgr. 3. gr. segir að ráðherra geti útnefnt önnur stjórnvöld og íslensk félagasamtök, sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði, til að njóta heimildar til að grípa til aðgerða eins og um ræðir í 1. mgr. 3. gr. Í 1. mgr. 4. gr. segir loks að stjórnvöld eða samtök, sem njóta réttar samkvæmt 2. og 3. gr., geti leitað lögbanns hér á landi við athöfn, sem ákvæði 1. gr. laganna geta tekið til, og gildi þá almennar reglur um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest. Með auglýsingu nr. 1320/2011, sem innanríkisráðherra gaf út 14. desember 2011 með stoð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 141/2001, var m.a. sóknaraðila veittur réttur til að leita lögbanns eða höfða dómsmál í samræmi við heimildir laganna. Sóknaraðili er því bær til að hafa uppi kröfu um lögbann til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 15. október 2012 í máli nr. 636/2012.
Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 141/2001 segir að frumvarpið sé samið til þess að innleiða í íslensk lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Í athugasemdunum segir m.a.: ,,Tilgangur tilskipunar 98/27/EB er ekki að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brotsins er. Heimild þessara aðila samkvæmt frumvarpi þessu nær þó ekki til hvers kyns athafna heldur aðeins þeirra sem kunna að brjóta gegn þeim lögum sem hlutaðeigandi ríki hafa sett vegna lögleiðingar á þeim tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka 98/27/EB, sbr. og 1. gr frumvarpsins. Tilskipunin gerir þó þær lágmarkskröfur til aðildarríkjanna að þau veiti aðgang að þeim stjórnvöldum og dómstólum sem séu bærir til þess með skjótum hætti að stöðva brot á tilskipunum sem taldar eru upp í viðaukanum. Aðildarríkjum er einnig skylt að tilnefna fyrir sitt leyti og viðurkenna með gagnkvæmum hætti þau stjórnvöld (eða samtök) sem önnur aðildarríki hafa veitt heimild og tilnefnt vegna lögleiðingar þessarar tilskipunar til þess að teljast bær um að höfða dómsmál, að undangengnu lögbanni ef þörf krefur, gegn ólögmætum athöfnum og þar með brotum á ákvæðum þeirra tilskipana sem frumvarp þetta tekur til. Aðildarríkin skulu tilkynna til framkvæmdastjórnar ESB hvaða stjórnvöld (eða samtök) hafi fengið slíkt vald og birtir hún síðan einn heildarlista yfir þá aðila sem tilkynnt hefur verið um í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. EFTA-ríkin í EES tilkynna með samsvarandi hætti um framangreinda aðila til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í tilskipun 98/27/EB er ekki að finna ákvæði sem víkja að mati á því hvort leggja skuli lögbann við athöfn sem talin er andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Veltur það því á almennum reglum í hverju tilviki fyrir sig.“
Samkvæmt þessu virðist tilgangur frumvarpsins sem varð að lögum nr. 141/2001 helst vera sá að víkja frá almennum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um aðild. Túlka verður skilyrði 1. gr. laga nr. 141/2001 um að beiðni um lögbann snúi að því að ,,stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi“ og þann áskilnað 1. mgr. 4. gr. að um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest gildi almennar reglur, eins og tilgangi frumvarpsins er lýst, á þann hátt að það almenna skilyrði lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að gerðarbeiðandi verði að sanna eða gera sennilegt að réttindi muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau, gildi einnig þegar gerðarbeiðandi leitar lögbanns á grundvelli laga nr. 141/2001. Ekki verður heldur dregin sú ályktun af 1. og 4. gr. laga nr. 141/2001 og þeim ummælum í almennum athugasemdum við frumvarp til laganna, sem gerð er grein fyrir að framan, að ákvæði 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 gildi ekki þegar gerðarbeiðandi leitar lögbanns á grundvelli laga nr. 141/2001, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2012 í máli nr. 636/2012.
Varnaraðili mun hafa endurreiknað lán viðskiptavina sinna í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010 og setningar laga nr. 151/2010. Aðilar málsins deila um það hvort endurreikningur varnaraðila sé lögmætur. Sóknaraðili telur að dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi fordæmisgildi fyrir endurreikning gengistryggðra lána fjármálafyrirtækja, þ. á m. varnaraðila. Endurreikningur varnaraðila sé því ólögmætur og varnaraðili krefji viðskiptavini sína um rangar greiðslur. Varnaraðili hafnar þessu og telur að umræddir dómar Hæstaréttar hafi ekki fordæmisgildi um endurreiknaða kaupleigusamninga og skuldabréf varnaraðila, þar sem í nánast öllum tilvikum séu samningar til skamms tíma og fjárhæð viðbótarkröfu sé því aldrei umtalsverð. Sóknaraðili telur einnig að endurútreikningur varnaraðila fari í bága við 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili mótmælir þessu og telur endurútreikning sinn fyllilega standast ákvæði laga nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010.
Hæstiréttur sló því föstu í dómum í málum nr. 600/2011 og 464/2012 að það væri meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefði minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt væri. Frá meginreglunni væru þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa gæti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glataði frekari kröfu. Undantekning frá henni styðjist meðal annars við þau rök að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið. Því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma og honum gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð. Niðurstaða Hæstaréttar í báðum málunum varð sú að öll skilyrði töldust uppfyllt svo undantekning frá meginreglunni ætti við, þ. á m. var talið að fjárhæð viðbótarkröfu væri umtalsverð. Hinn 30. maí sl. var kveðinn upp í Hæstarétti dómur í máli nr. 50/2013. Rétturinn vísaði til fyrri dóma sinna í málum nr. 600/2011 og 464/2012 og var niðurstaða réttarins á þá leið að öll skilyrði töldust uppfyllt svo að undantekning frá meginreglunni, um að kröfuhafi, sem hefði fengið minna greitt en hann átti rétt til, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt væri, ætti við, þ. á m. taldi rétturinn að fjárhæð viðbótarkröfu væri umtalsverð.
Sóknaraðili hefur ekki leitast við að sýna fram á með gögnum, gegn mótmælum varnaraðila, að varnaraðili hafi krafið viðskiptavini sína um umtalsverðar viðbótargreiðslur fyrir liðna tíð, svo að undantekning frá meginreglunni um að kröfuhafi, sem fengið hefði minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt væri. Sóknaraðili hefur þannig ekki leitt að því líkur að endurreikningur varnaraðila á gengistryggðum lánum sé af þessum sökum ólögmætur.
Jafnframt telur sóknaraðili að endurútreikningur þar sem vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, sé bætt við höfuðstól þegar svo ber undir sé ekki heimill. Varnaraðili hafnar þessu og bendir á að umboðsmaður skuldara hafi ekki gert athugasemdir við endurútreikningsaðferðir varnaraðila. Með 1. gr. laga nr. 151/2010 var 18. gr. laga nr. 38/2001 breytt. Í 5. mgr. 18. gr. er mælt fyrir um reikningsaðferð við ákvörðun endurgreiðslu eða útreiknings á stöðu skuldar þegar kröfuhafi hefur ranglega haft fé af skuldara vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Að mati dómsins er hér um sérreglu að ræða sem gildir á tilteknu sviði. Þá er þessi regla skýr um það hvernig framkvæma eigi endurútreikning. Í samræmi við almennar reglur um skýringu sérákvæða gengur ákvæðið framar ákvæðum 12. gr. sömu laga. Sóknaraðili hefur þannig ekki leitt að því líkur að endurreikningur varnaraðila brjóti í bága við 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.
Sóknaraðili hefur þannig ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að varnaraðili hafi, með endurreikningi sínum og innheimtu krafna í samræmi við hann, brotið gegn þeim tilskipunum sem taldar eru upp í 1., 3. og 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög.
Meðal gagna málsins er endurskoðaður samstæðuársreikningur varnaraðila fyrir árið 2012. Samkvæmt ársreikningnum er eigið fé varnaraðila samtals um níu milljarðar króna í árslok 2012. Ekki er deilt um að eiginfjárhlutfall varnaraðila í árslok 2012 var 19,02%, en samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skal eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni. Varnaraðili hefur lýst því yfir að hann hafi lagt inn á sérgreindan bankareikning þann hluta af greiðslum viðskiptavina varnaraðila sem hafi verið inntar af hendi eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012. Varnaraðili muni ekki ráðstafa innstæðum sjóðsins fyrr en réttaróvissu hafi verið eytt. Þá hafi varnaraðili gert samkomulag við kröfuhafa sína um að sjóðurinn verði fyrst notaður til að endurgreiða viðskiptavinum hugsanlega ofgreiðslu áður en honum verði ráðstafað til greiðslu á öðrum kröfum. Að áliti dómsins verður því að telja nægilega tryggt að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir. Með sömu rökum þykir ljóst að réttarreglur um skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni lántakenda, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Verður því að hafna dómkröfum sóknaraðila og staðfesta ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, frá 3. janúar 2013, um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann í máli nr. L-38/2012.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 við uppkvaðningu úrskurðarins.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, frá 3. janúar 2013, um að synja beiðni sóknaraðila, Hagsmunasamtaka heimilanna, um lögbann í máli nr. L-38/2012.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 500.000 krónur í málskostnað.