Hæstiréttur íslands
Mál nr. 224/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Börn
- Mannerfðafræðileg rannsókn
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 29. maí 2006. |
|
Nr. 224/2006. |
A og B (Jón Sveinsson hrl.) gegn C (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn. Sératkvæði.
Hæstiréttur hafnaði kröfu C um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og látnum föður þeirra A og B við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og látnum föður sóknaraðila við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um fyrrgreinda rannsókn. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað. Til vara krefst hann þess að þóknun lögmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
I.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili fæddur 6. mars 1932. Móðir hans var D, fædd [...] 1905, sem lést [...] 1997. Hún gekk í hjúskap [...] 1931 við E, en hann var fæddur [...] 1902 og lést [...] 1997. Taldist E vera faðir varnaraðila á grundvelli 1. gr. laga nr. 57/1921 um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sem í gildi voru þegar varnaraðili fæddist.
Varnaraðili leitaði 21. ágúst 2003 eftir því við Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr sér og þeim D og E til að staðreyna hvort sá síðastnefndi hafi í reynd verið faðir sinn. Samkvæmt álitsgerð rannsóknastofunnar 26. febrúar 2004 var útilokað að E væri faðir varnaraðila. Til samræmis við þetta mun hafa gengið dómur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. september 2004 í máli, sem varnaraðili höfðaði til vefengingar á faðerni sínu, og var þar dæmt að E væri ekki faðir hans.
Varnaraðili höfðaði mál þetta 8. desember 2004 á hendur sóknaraðilum með þeirri kröfu að þeim yrði gert að þola að faðir þeirra, F, sem fæddist [...] 1896 og lést [...] 1976, yrði dæmdur faðir varnaraðila. Var málinu beint að sóknaraðilum með stoð í reglum 10. gr. barnalaga og hafa þau krafist sýknu í því. Undir rekstri málsins krafðist varnaraðili þess að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífssýnum úr sér, D og F til að færa sönnur fyrir faðerni hans. Héraðsdómur féllst á þá kröfu með úrskurði 7. apríl 2005, sem sóknaraðilar kærðu til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 17. maí 2005 í máli nr. 174/2005 var kröfu varnaraðila á hinn bóginn hafnað. Í framhaldi af því óskaði hann eftir að fá að leiða fimm nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til að færa sönnur fyrir staðhæfingum sínum um að D og F hafi átt í nánu sambandi á getnaðartíma hans. Því hafnaði héraðsdómari með úrskurði 8. september 2005. Varnaraðili kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, sem með dómi 13. október sama ár í máli nr. 426/2005 féllst á kröfu hans um vitnaleiðslur. Að fenginni þeirri niðurstöðu voru teknar skýrslur af þremur vitnum í þinghaldi 16. desember 2005 og gaf varnaraðili síðan aðilaskýrslu 3. janúar 2006. Samkvæmt kröfu hans var tekin skýrsla af einu vitni til viðbótar 17. febrúar 2006 og loks af tveimur vitnum eftir kröfu sóknaraðila 21. sama mánaðar. Í þinghaldi 30. mars 2006 krafðist varnaraðili þess á ný að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífssýnum úr sér, D og F. Héraðsdómari féllst á þá kröfu með hinum kærða úrskurði.
II.
Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 17. maí 2005 var meðal annars vísað til þess að varnaraðili neytti í málinu þeirrar heimildar, sem veitt sé barni með 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða dómsmál um faðerni sitt. Í slíku máli gildi sú regla samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna að varnaraðili þess skuli vera sá maður eða þeir, sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns, en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum, sem gengju barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Síðan sagði í dóminum: „Móðir varnaraðila lést sem áður segir 1997, áratugum eftir að hann átti þess fyrst kost að höfða dómsmál um faðerni sitt. Því er ekki borið við í málinu að hún hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst F föður varnaraðila. Ekkert liggur fyrir í málinu af hennar hendi um að hún hafi talið svo vera. Varnaraðili hefur heldur ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn þessari, sem áður er getið. Er reyndar ekki staðhæft berum orðum í málatilbúnaði varnaraðila að slík atvik hafi gerst. Mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. barnalaga getur farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið er um faðerni barns. Þeirri heimild verður eðli máls samkvæmt ekki beitt nema fyrir hendi séu þau grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls, sem skortir hér á samkvæmt framansögðu. Að því virtu verður hafnað kröfu varnaraðila um að slík rannsókn verði gerð í máli þessu.“
Eftir að dómur þessi gekk hefur varnaraðili sem áður segir fengið skýrslur teknar fyrir héraðsdómi af fjórum vitnum, auk þess að gefa þar sjálfur aðilaskýrslu. Tvö af þessum vitnum voru systkinabörn móður varnaraðila, fædd 1944 og 1946, og það þriðja skólasystkin hans og jafnaldri. Fjórða vitnið, sem var fætt 1932, var í fjölskyldutengslum við E. Öll þessi vitni kváðust oft hafa heyrt rætt um að F hafi verið faðir varnaraðila, en ekkert þeirra hafði á hinn bóginn orðið vitni að því að D léti orð falla um það né greindi nokkurt þeirra frá öðrum, sem segðist hafa orðið vitni að slíku. Vegna aldurs þessara vitna gátu þau af augljósum sökum ekkert borið af eigin raun um hvort eitthvert samband hafi verið milli F og móður varnaraðila á líklegum getnaðartíma hans. Frásögn í aðilaskýrslu varnaraðila um orðaskipti hans við móður sína um þessi efni getur ekki komið hér að haldi. Sönnunarfærslan, sem nú hefur farið fram, getur því engu breytt um það, sem réði niðurstöðu í dómi Hæstaréttar 17. maí 2005, að ekkert liggur fyrir í málinu um að D hafi talið F vera föður varnaraðila, hvað þá lýst því yfir fyrir yfirvöldum eða dómi, eða að uppfyllt séu á annan hátt áðurnefnd meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn varnaraðila. Að þessu virtu verður því enn hafnað kröfu varnaraðila um þá mannerfðafræðilegu rannsókn, sem um ræðir í málinu.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu. Um þóknun lögmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, C, um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífssýnum úr honum sjálfum, D og F.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Þóknun lögmanns varnaraðila, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur hæstaréttardómara
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur stefnandi máls verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns, enda hafi barnið ekki verið feðrað. Í 3. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að barnið sjálft eða móðir þess geti stefnt þeim manni eða mönnum, sem eru taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns. Sé maður látinn má höfða málið á hendur lögerfingjum manns sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 76/2003, segir meðal annars í umfjöllun um 10. gr. þeirra: „Barnið er sett í öndvegi og talið upp fyrst í því skyni að leggja áherslu á að það eru hagsmunir þess fyrst og fremst sem marka form og efni aðildarreglnanna, eins og annarra reglna barnalaga.“ Þá er þar einnig vísað til þess að barn eigi ríka hagsmuni af því að vera feðrað. Í 10. gr. barnalaga eru barni, ekki frekar en móður, hvorki settar skorður við því hvenær það megi höfða mál til sönnunar faðerni sínu né sett skilyrði þess efnis að það verði að leiða að því einhverjar líkur við málshöfðun að ætlaður faðir hafi átt samfarir við móðurina á getnaðartíma barns. Nægir í því efni að barnið telji að svo sé. Faðernismál sæta samkvæmt 12. gr. barnalaga almennri meðferð einkamála að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögunum. Í slíkum málum getur barn lagt fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings og krafist þess að dómari ákveði með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og ennfremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir, sbr. 15. gr. barnalaga. Samkvæmt 16. gr. laganna getur dómari auk þess sjálfur, ef nauðsyn þykir, aflað sönnunargagna enda hafi hann árangurslaust beint því til aðila að afla þeirra. Þegar litið er til þeirra ríku hagsmuna sem barn og afkomendur þess hafa af því að fá úr faðerni skorið er ljóst að sýna verður fram á að aðrir ríkari hagsmunir ráði því að slíkri sönnunarfærslu verði hafnað. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á slíka hagsmuni. Samkvæmt því tel ég að staðfesta beri hinn kærða úrskurð og dæma sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
Með dómi réttarins 17. maí 2005 í máli nr. 174/2005 var hafnað kröfu varnaraðila um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og föður sóknaraðila við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í málinu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, en skráður faðir varnaraðila hafði á grundvelli mannerfðafræðilegrar rannsóknar útilokast sem faðir hans. Var niðurstaðan á því reist að varnaraðili hefði alls ekkert fært fram í málinu, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt væri það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn sem þessari, að líkur væru á að F yrði talinn hafa haft samfarir við móður varnaraðila á getnaðartíma hans. Eins og rakið er í dómi réttarins 13. október 2005 í máli nr. 426/2005 fólst í niðurstöðu fyrrnefnds dóms sú afstaða, að til þess að geta krafist hinnar lögmæltu sönnunarfærslu, sem 15. gr. barnalaga kveður á um, verði sá sem krefst viðurkenningar fyrir dómi á faðerni barns að færa fram líkur fyrir því að umræddu skilyrði fyrir málsókninni teljist fullnægt. Þá sagði í dóminum: „Með ósk sinni um vitnaleiðslur nú freistar sóknaraðili þess að færa fram í málinu gegn varnaraðilum líkur fyrir því að faðir varnaraðila kunni að hafa haft samfarir við móður hans á getnaðartímanum, sem ekki voru taldar fram komnar, þegar dómur Hæstaréttar 17. maí 2005 gekk. Í kæru til Hæstaréttar hefur sóknaraðili gert grein fyrir hvað hann telur umrædd vitni geta borið um í málinu. Ljóst er að vitnisburður þeirra um þau atriði, sem sóknaraðili nefnir, felur ekki í sér sönnun um réttmæti dómkrafna hans. Á hinn bóginn er ekki fyrirfram unnt að útiloka, eins og sönnunarstöðu er háttað í máli þessu, að umrædd vitni gætu haft einhverja þá vitneskju, að framburður þeirra nægði til að sóknaraðili teldist hafa fært þær líkur fyrir málsókn sinni, sem myndu heimila honum að krefjast sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga. Eru af þessum sökum ekki næg efni til að fallast á það með héraðsdómi að vitnisburðurinn geti ekki haft þýðingu í máli aðilanna, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.“
Ég er ósammála meirihluta dómenda um að nú séu ekki uppfyllt meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga til málshöfðunarinnar og skilyrði til þeirrar sönnunarfærslu sem varnaraðili krefst í málinu. Samkvæmt 10. gr. barnalaga getur stefnandi faðernismáls verið barnið sjálft, enda hafi það ekki verið feðrað. Getur barn stefnt erfingjum þess manns sem talinn er hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma þess. Ekki gilda sérstakir tímafrestir um málshöfðun. Eðli málsins samkvæmt er oft örðugt um sönnun í slíkum málum og því erfiðara sem lengri tími líður frá getnaði. Hefur dómari enda rúmar heimildir til afskipta af sönnunarfærslu og getur, ef nauðsynlegt þykir, aflað sjálfur sönnunargagna, sbr. 16. gr. barnalaga. Þá getur hann að kröfu aðila mælt fyrir um að mannerfðafræðilegar rannsóknir skuli fram fara samkvæmt 15. gr. laganna. Ræðst það meðal annars af því að úrslit máls geta haft bein réttaráhrif fyrir fleiri en aðila þess. Þetta mál snýst aðeins um rétt varnaraðila til að afla sönnunargagna, sem auðvelt er að afla, og gætu eins leitt til annarrar niðurstöðu en varnaraðili ætlar. Eins og að framan er rakið var varnaraðila með dómi réttarins 13. október 2005 heimilað að leiða tilgreind vitni. Var sú heimild veitt jafnvel þótt fyrir hafi legið að þessi vitni myndu ekki geta borið um málsatvik þannig að með framburði þeirra fengjust sönnur fyrir réttmæti dómkröfu varnaraðila. Nokkur vitnanna bera að almælt hafi verið innan fjölskyldu F og fjölskyldu varnaraðila að F væri faðir varnaraðila. Er þessi framburður þannig til stuðnings fullyrðingum varnaraðila í þessa veru, en staðfest hefur verið með dómi að varnaraðili var rangfeðraður. Samkvæmt framanrituðu hefur varnaraðili uppfyllt þau skilyrði sem sett eru til að umkrafin sönnunarfærsla fari fram og tel ég að staðfesta beri hinn kærða úrskurð og dæma sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006.
Mál þetta var höfðað 8. desember sl.
Stefnandi er C, [heimilisfang]
Stefndu eru A og B.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að þola að F f. [...] 1986, d. [...] 1976, verði dæmdur faðir hans. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.
Þegar mál þetta var tekið fyrir 21. mars sl. setti lögmaður stefnanda fram þá kröfu að dómurinn úrskurðaði að heimilað verði að fram fari mannerfðafræðilegar rannsóknir á lífsýnum D, móður stefnanda, f. [...] 1905, d. [...] 1997 og F, meintum föður stefnanda, f. [...] 1896, d. [...] 1976. Jafnframt að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á blóðsýni úr stefnanda til þess að staðreyna faðerni hans.
Lögmaður stefndu mótmælti því að slík rannsókn fari fram og að úrskurðað verði um það.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. apríl 2005 var krafa stefnanda tekin til greina. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi sínum uppkveðnum 17. maí 2005 hafnaði kröfu stefnanda.
Í þinghaldi 1. september 2005 lagði lögmaður stefnanda fram lista yfir vitni sem hann óskaði eftir að kalla fyrir dóm til skýrslugjafar. Kvað lögmaðurinn tilgang vitnaleiðslunnar vera að bera fram sönnur fyrir fullyrðingum stefnanda um að faðir stefndu og móður hans hafi átt í nánu sambandi á getnaðartíma hans. Í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands frá 17. maí 2005 taldi lögmaður stefnanda þetta nauðsynlegt. Lögmaður stefndu mótmælti því á grundvelli 1. mgr. 51. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 að vitnaleiðslan færi fram.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 8. september 2005, var þessari kröfu stefnanda hafnað. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi uppkveðnum 13. október 2005 heimilaði stefnanda að leiða fyrir héraðsdóm tilgreind vitni. Vitnin voru síðan leidd fyrir dóminn og skýrslur teknar af þeim. Að þeim skýrslutökum loknum, eða í þinghaldi 30. mars 2006, krafðist lögmaður stefnanda úrskurðar dómsins um að heimilað verði að mannerfðafræðilegar rannsóknir á lífsýnum D annars vegar og F hins vegar fari fram til þess að staðreyna faðerni stefnanda. Af hálfu stefnanda er því jafnframt lýst yfir að stefnandi muni gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn í þessu sama skyni. Lögmaður stefndu mótmælti kröfunni.
Hinn 4. apríl sl. fór fram munnlegur málflutningur vegna framkominnar kröfu stefnanda. Stefnandi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að heimilað verði að mannerfðafræðilegar rannsóknir á lífsýnum D annars vegar og F hins vegar fari fram til þess að staðreyna faðerni stefnanda. Af hálfu stefnanda er því jafnframt lýst yfir að stefnandi muni gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn í þessu sama skyni. Þess er krafist að ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms. Stefndu krefjast þess að kröfu stefnanda verði hafnað og að stefndu verði úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins.
Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands frá 17. maí 2005 segir m.a. að í máli þessu neyti varnaraðili þeirrar heimildar, sem veitt er barni sjálfu með 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða dómsmál um faðerni sitt. Þegar það sé gert gildi sú regla samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar að varnaraðili máls skuli vera sá maður eða þeir, sem taldir séu hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns, en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum, sem gengju barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Því hafi ekki verið borið við í málinu að móðir stefnanda hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst F föður stefnanda. Ekkert liggi fyrir í málinu af hennar hendi að um að hún hafi talið svo vera. Stefnandi hafi ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málssókn þessari. Sé reyndar ekki staðhæft berum orðum í málatilbúnaði stefnanda að slík atvik hafi gerst. Mannerfðafræðileg rannsókn geti samkvæmt 15. gr. barnalaga farið fram til þess að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið sé um faðerni barns. Þeirri heimild verði eðli máls samkvæmt ekki beitt nema fyrir hendi séu þau grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls, sem skorti hér á samkvæmt framansögðu. Að því virtu hafnaði Hæstiréttur kröfu stefnanda um mannerfðafræðilega rannsókn.
Eftir umræddan dóm Hæstaréttar hefur stefnandi gefið aðilaskýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá hefur stefnandi leitt fram fimm vitni. Telja verður að við yfirheyrslurnar hafi komið fram vísbendingar um að móðir stefnanda og faðir stefndu hafi átt í nánu sambandi á getnaðartíma stefnanda. Í ljósi þessara skýrslna þykir rétt að heimila stefnanda sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga og verða kröfur hans í þessum þætti málsins því teknar til greina.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Heimilt er að nota lífsýni frá D, f. [...] 1905, d. [...] 1997, og F, f. [...] 1896, d. [...] 1976, í þágu mannerfðafræðilegrar rannsóknar til staðfestingar á faðerni stefnanda, C.