Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2002


Lykilorð

  • Refsiákvörðun


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 24. október 2002.

Nr. 266/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ásgeiri Heiðari Stefánssyni og

Ásgrími Ragnars

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Ákvörðun refsingar.

Með héraðsdómi hafði ÁH verið sakfelldur fyrir þrettán hegningarlagabrot, þar af ellefu þjófnaðarbrot, sem lutu að verðmætum hátt á fjórðu milljón krónur, auk nytjastuldar og hylmingar. Tíu þessara brota hafði hann framið í félagi við aðra menn. ÁR hafði í héraðsdómi verið sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot og verðmæti þau sem þjófnaðarbrot hans tóku til voru hátt í þrjár milljón krónur. Fjögur hegningarlagabrotanna hafði hann framið í félagi við aðra menn. Báðir mennirnir játuðu brot sín en áfrýjuðu málinu í því skyni að refsing þeirra yrði milduð. Við ákvörðun refsingar beggja var vísað til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga að því er varðaði þau brot, sem þeir frömdu ásamt öðrum. Litið var til þess að auðgunarbrot þeirra hafi verið skipulögð og framin í því skyni að selja öðrum þýfið. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 18 mánaða fangelsisvist ÁH. ÁR var einnig gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Þá var niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ÁR í tvö ár staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu þeirra og enn frekari sviptingar ökuréttar ákærða Ásgríms. Þá er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða allan sakarkostnað.

          Ákærðu krefjast þess að refsing þeirra verði milduð. Þá krefst ákærði Ásgrímur þess að sviptingu ökuréttar sem honum var gerð með hinum áfrýjaða dómi verði markaður skemmri tími. Loks krefjast ákærðu þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Í málinu hefur ákærði Ásgeir Heiðar verið sakfelldur fyrir þrettán hegningarlagabrot, þar af ellefu þjófnaðarbrot, sem lutu að verðmætum hátt á fjórðu milljón krónur, auk nytjastuldar og hylmingar. Tíu þessara brota framdi hann í félagi við aðra menn. Ákærði Ásgrímur, sem var tuttugu og fjögurra ára er hann framdi brot sín, hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot og verðmæti þau sem þjófnaðarbrot hans tóku til voru hátt í þrjár milljón krónur. Fjögur hegningarlagabrotanna framdi hann í félagi við aðra menn. Eins og í héraðsdómi greinir hafði hann tvívegis áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, en í bæði skiptin verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður vísað til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar þau brot, sem þeir frömdu ásamt öðrum. Auðgunarbrot ákærðu voru skipulögð og framin í því skyni að selja öðrum þýfið. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða Ásgeirs Heiðars hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en ákærða Ásgríms fangelsi í 18 mánuði. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Ásgrímur sviptur ökurétti í 2 ár vegna ölvunaraksturs 2. febrúar 2002. Var honum tekið blóðsýni í framhaldi akstursins og mældist 0.92‰ alkóhóls í blóði hans. Með dómi 12. apríl 2000 var hann sviptur ökurétti í 3 mánuði frá þeim degi. Hefur hann nú ítrekað gerst sekur um ölvun við akstur og verður því staðfest ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða í 2 ár samkvæmt 1. mgr. 101. gr. og 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákvæði hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða Ásgeirs Heiðars Stefánssonar og ökuréttarsviptingu ákærða Ásgríms Ragnars skulu vera óröskuð.

          Ákærði Ásgrímur Ragnars sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2002.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 27. febrúar 2002 á hendur:

Agnari Sæberg Sverrissyni, kt. 130784-3139,

Brúarási 8,

Ásgeiri Heiðari Stefánssyni, kt. 281282-5819,

Jórufelli 4,

Ásgrími Ragnars, kt. 121077-4509,

Hólabergi 4,

Sigurði Júlíussyni, kt. 220881-3269,

Maríubakka 26, og

Skúla Júlíussyni, kt. 180182-4549,

Barðastöðum 13,

öllum til heimilis í Reykjavík,

,,fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2001, nema annað sé tekið fram:

I

Ákærða Agnari Sæberg fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 8. desember stolið myndbandstæki, að verðmæti um kr. 27.000, í versluninni Hagkaup, Skeifunni 15.

M. 010-2001-30926

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II

1.

Ákærða Ásgeiri Heiðari fyrir eftirtalda þjófnaði föstudaginn 12. október:

1.1.

Stolið ferðatölvu, að verðmæti um kr. 180.000, í versluninni BT tölvur, verslunarmiðstöðinni Kringlan, Kringlunni 8-12.

M. 010-2001-26497

1.2.

Stolið ferðatölvu, að verðmæti um kr. 230.000, í versluninni Elkó, Smáratorgi, Kópavogi.

M. 037-2001-5228

2.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. janúar 2002 í félagi við 2 tilgreinda menn brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Vélar og þjónusta hf., Járnhálsi 2, með því að brjóta gler í glugga, og stolið ferðatölvu að verðmæti um kr. 220.000.

M. 010-2002-1501

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

III

Ákærða Ásgrími Ragnars fyrir eftirtalin brot:

1.

Þjófnaði í versluninni BT tölvur, Gylfaflöt 5:

1.1.

Sunnudaginn 21. október í félagi við tilgreindan mann brotist inn í verslunina með því að spenna upp glugga, og stolið 4 stafrænum myndavélum, samtals að verðmæti um kr. 140.000.

1.2.

Aðfaranótt mánudagsins 22. október brotist aftur inn í verslunina, með því að saga í sundur og beygja rimil sem var fyrir innan framannefndan glugga, og stolið 5 ferðatölvum og 6 stafrænum myndavélum, auk fylgihluta, samtals að veðmæti um kr. 1.180.000.

M. 010-2001-27084

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

2.

Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 2. febrúar 2002 undir áhrifum áfengis ekið bifreiðinni LB-810, með skráningarnúmerið K-915, norður Dalveg í Kópavogi uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við hús númer 18.

M. 037-2002-578

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48, 1997, 3. gr. laga nr. 57, 1997 og 186. gr. laga nr. 82, 1998.

IV

Ákærða Sigurði fyrir eftirtalin brot:

1.

Þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 24. júní brotist inn í húsnæði veitingastofunnar Vogakaffi, Súðavogi 50, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð, og stolið tösku með ýmsum pappírum og peningakassa sem í var um kr. 2.500 í skiptimynt.

M. 010-2001-15689

2.

Hylmingu, með því að hafa föstudaginn 12. október tekið við úr höndum meðákærða Ásgeirs Heiðars, ferðatölvu að verðmæti um kr. 180.000, sem ákærði ætlaði að koma í verð, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að meðákærði Ásgeir Heiðar hafði stolið henni skömmu áður, sbr. kafla II,1.1.

M. 010-2001-26497

3.

Þjófnað, með því að hafa mánudaginn 15. október í félagi við tilgreindan mann stolið fjarstýringu fyrir leikjatölvu, að verðmæti um kr. 3.700, í versluninni Hagkaup, verslunarmiðstöðinni Smáralind, Hagasmára 1, Kópavogi.

M. 037-2001-5282

4.

Þjófnað, með því að hafa í seinni hluta desember farið inn í húsnæði fyrirtækisins Húsasmiðjan hf., Fiskislóð 2, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið skúffu úr afgreiðslukassa ásamt kr. 2.000 sem í henni voru.

M. 010-2001-32200

5.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 25. desember brotist inn í húsnæði verslunarinnar Tómstundahúsið, Nethyl 2, með því að brjóta rúðu í glugga, og stolið afgreiðslukassa ásamt um kr. 5.000 í peningum sem í honum voru.

M. 010-2001-32119

6.

Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 25. desember brotist inn í húsnæði Olíuverslunar

Íslands hf., OLÍS, við Sundagarða, með því að spenna upp glugga, og stolið 520 frímerkjum, að verðmæti kr. 21.840, og kr. 28.000 í peningum.

M. 010-2001-32131

7.

Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 25. desember brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Húsamiðjan hf., Skútuvogi 16, með því að brjóta gler í hurð, og stolið kr. 6.000 í peningum.

M. 010-2001-32135

8.

Þjófnað, með því að hafa skömmu síðar sama dag brotist inn í húsnæði Olíuverslunar Íslands hf., OLÍS, við Fjallkonuveg, með því að spenna upp útidyr, og stolið skúffu úr afgreiðslukassa og um kr. 5.000 í peningum.

M. 010-2001-32218

9.

Þjófnað, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 30. desember brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Smith & Norland hf., Nóatúni 4, með því að brjóta rúðu í glugga, og stolið 3 ferðatölvum, að verðmæti um kr. 500.000.

M. 010-2001-32455

10.

Þjófnað, með því að hafa skömmu síðar sama kvöld brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Bílanaust, Borgartúni 26, með því að brjóta gler í glugga og þegar inn var komið brotið aðra rúðu við inngang inn í verslun fyrirtækisins, og stolið 3.000 í peningum.

M. 010-2001-32507

11.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 31. desember brotist í auðgunarskyni inn í húsnæði söluturnsins Dónald, Hrísateigi 19, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð, og rótað til við leit að verðmætum, en komið var að ákærða á vettvangi.

M. 010-2001-32475

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. laganna varðandi brotið í lið II, en brotið í lið 2 telst varða við 254. gr. sömu laga.

V

Ákærða Sigurði fyrir þjófnað og ákærða Ásgeiri Heiðari fyrir hylmingu, ákærða Sigurði með því að hafa að morgni sunnudagsins 23. desember brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Húsamiðjan hf., Skútuvogi 16, með því að spenna upp glugga í útidyrahurð, og stolið afgreiðslukassa ásamt um kr. 100.000 í peningum, og ákærða Ásgeiri Heiðari fyrir hylmingu með því að hafa ekið meðákærða með þýfið frá vettvangi.

M. 010-2001-32040

Telst brot ákærða Sigurðar varða við 244. gr. almennra hegningarlaga og brot ákærða

Ásgeirs Heiðars við 254. gr. sömu laga.

VI

Ákærða Skúla fyrir eftirtalin brot:

1.

Eignaspjöll, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 17. júní sparkað upp útidyrahurð íbúðar á 2. hæð til hægri í fjölbýlishúsi við Teigasel 4 í Reykjavík með þeim afleiðingum að hurðarkarmur og hurðarlæsing skemmdust.

M. 010-2001-14948

2.

Þjófnað, með því að hafa í nóvember í alls þrjú skipti stolið samtals 3 myndbandsspólum með kvikmyndum, samtals að verðmæti um kr. 21.000, í myndbandaleigunni Vídeóheimar, Gylfaflöt 3.

M. 010-2001-29663

Telst brotið í lið 1 varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og brotið í lið 2 við 244. gr. sömu laga.

VII

Ákærðu Agnari Sæberg og Ásgeiri Heiðari fyrir eftirtalin brot framin í félagi:

1.

Tilraun til þjófnaðar með því að hafa miðvikudaginn 26. desember brotist í auðgunarskyni inn í húsnæði fyrirtækisins Stál og stansar hf., Vagnhöfða 7, með því að spenna upp útidyrahurð, og reynt að stela peningaskáp, en ákærðu tókst ekki að losa hann.

M. 010-2001-32500

2.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. desember brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Merkúr hf., Skútuvogi 12a, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið skíðahettu, 4 tölvum, 4 tölvuskjám, 4 tölvulyklaborðum, 4 tölvumúsum og 6 hálfslítersflöskum af Egils Kristal, samtals að verðmæti um kr. 700.000, og um kr. 8.000 í peningum.

M. 010-2001-32173

3.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. desember brotist inn í húsnæði fyrirtækisins Uppdæling ehf., Fosshálsi 1, með því að brjóta gler í útidyrahurð, og stolið tölvu, tölvuprentara og tölvuskjá, samtals að verðmæti um kr. 120.000.

M. 010-2001-32205

4.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 28. desember brotist inn í húsnæði verslunarinnar Hans Petersen hf., Laugavegi 178, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið tölvu, að verðmæti um kr. 420.000.

M. 010-2001-32256

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, hvað varðar brotið í lið 1.

VIII

Ákærðu Agnari Sæberg og Skúla fyrir eftirtalin brot framin í félagi:

1.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. desember brotist inn í húsnæði hárgreiðslustofunnar Hár og hitt, Sporhömrum 3, með því að spenna upp glugga, og stolið kr. 4.000 í peningum úr afgreiðslukassa.

M. 010-2001-30095

2.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 6. desember reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í húsnæði verslunarinnar Ellingsen, Grandagarði 2, með því að spenna upp útidyrahurð, en án árangurs, og horfið á brott við svo búið.

M. 010-2001-30736

3.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. desember brotist inn í húsnæði verslunarinnar Ellingsen, Grandagarði 2, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið 3 haglabyssum, samtals að verðmæti kr. 136.000.

M. 010-2001-30946

4.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 8. desember brotist inn í húsnæði hárgreiðslustofunnar Hár og hitt, Sporhömrum 3, með því að spenna upp glugga, og stolið kr. 3.500 í peningum úr afgreiðslukassa.

M. 010-2001-31100

5.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 12. desember reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í húsnæði hárgreiðslustofunnar Hár og hitt, Sporhömrum 3, með því að spenna upp glugga, en án árangurs, og horfið á brott við svo búið.

M. 010-2001-31657

6.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 12. desember brotist inn í húsnæði snyrtistofunnar Þú um þig ehf., Lóuhólum 2, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið kr. 2.500 í peningum úr afgreiðslukassa.

M. 010-2001-31415

7.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 13. desember brotist í auðgunarskyni inn í húsnæði hárgreiðslustofunnar Bliss, Stigahlíð 45-47, með því að spenna upp útidyrahurð, leitað peninga í afgreiðslukassa sem var tómur, og horfið á brott við svo búið.

M. 010-2001-31375

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, hvað varða brotin í liðum 2, 5 og 7.

IX

Ákærðu Ásgeiri Heiðar og Ásgrími Ragnars fyrir eftirtalin brot framin í félagi:

1.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 5. nóvember brotist í auðgunarskyni inn í atvinnuhúsnæðið að Austurbugt 3, og leitað verðmæta, en lögregla kom að ákærðu á vettvangi.

M. 010-2001-28119

2.

Nytjastuld, með því að hafa sunnudaginn 20. janúar 2002 tekið í heimildarleysi bifreiðina AK-738 frá athafnasvæði Bílasölu Selfoss, Hrísmýri 3, Selfossi, ekið henni til Reykjavíkur og falið hana í Seljahverfi og aðfaranótt þriðjudagsins 22. janúar tekið bifreiðina þaðan og ekið henni að húsnæði verslunarinnar Office 1, Skeifunni 17, sbr. lið 3, og síðan þaðan um götur borgarinnar uns ákærðu skildu bifreiðina eftir við Fagrabæ 19.

M. 033-2001-236

3.

Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 22. janúar 2002 brotist inn í húsnæði verslunarinnar Office 1, Skeifunni 17, með því að spenna upp útidyrahurð, og stolið tölvu og 2 skjávörpum, samtals að verðmæti um kr. 1.500.000.

M. 010-2001-2800

Brotin í liðum 1 og 3 teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, hvað varðar lið 1, og brotið í lið 2 telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 20, 1956 og 137. gr. laga nr. 82, 1998.

X

Ákærðu Ásgeiri Heiðari og Sigurði fyrir eftirtalin brot framin í félagi:

1.

Þjófnað, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 23. desember brotist inn í verslunina Húsasmiðjan, Fossaleyni 2, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð, og stolið afgreiðslukassa og um kr. 20.000 í peningum.

M. 010-2001-32058

2.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa að morgni þriðjudagsins 25. desember brotist í auðgunarskyni inn í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíð 10, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð og síðan spenna upp báðar útidyrahurðirnar, og eftir að inn var komið, reynt að brjótast inn í hraðbanka Búnaðarbanka Íslands hf., í því skyni að stela peningum, með því að skera og brjóta ytra byrði hans án árangurs, og reynt að brjótast inn í gossjálfsala í sama skyni og með svipuðum hætti án árangurs, þá reynt að stela hraðbankanum, sem er að verðmæti um kr. 2.000.000, með því að losa festingar hans, en styggð kom að ákærðu og flúðu þeir af vettvangi áður en þeim tókst ætlunarverk sitt.

M. 010-2001-32112

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, hvað varðar brotið í lið 2.

XI

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og ákærði Ásgrímur einnig til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 2. gr. laga nr. 23, 1998.

Í málinu gera eftirtaldir kröfu um skaðabætur:

1.

Á hendur ákærða Ásgeiri Heiðari gerir Elkó ehf., kt. 480185-0219, kröfu að fjárhæð kr. 229.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi, sem var 12.10.2001, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

M. 037-2001-5228

2.

Á hendur ákærða Ásgrími Ragnars gerir Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, kröfu að fjárhæð kr. 805.970.

M. 010-2001-27084

3.

Á hendur ákærða Sigurði:

3.1.

Olíuverslun Íslands hf., OLÍS, gerir kröfu að fjárhæð kr. 234.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til greiðsludags, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

M. 010-2001-32218

3.2.

Olíuverslun Íslands hf., OLÍS, gerir kröfu að fjárhæð kr. 71.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi til greiðsludags, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

M. 010-2001-32131

3.3.

Bílanaust hf., kt. 460169-2919, gerir kröfu að fjárhæð kr. 29.500.

M. 010-2001-32507

4.

Á hendur ákærða Skúla gerir Sigrún Jónsdóttir, kt. 140264-3779, kröfu að fjárhæð kr. 211.500.”

M. 010-2001-14948

Í þinghaldi 22. mars sl. var ákveðið að skilja þátt ákærða, Agnars Sæbergs, frá málinu en ekki hafði tekist birting á hendur honum.  Verður máli hans gefið sérstakt númer.

Aðrir ákærðu játuðu brot sín við þingfestingu málsins 22. mars sl. og kváðu háttsemi sinni rétt lýst í ákærunni.

Sannað er með skýlausri játningu ákærðu, sem studd er öðrum gögnum málsins, að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem ákært er út af og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Verjandi ákærða, Ásgeirs Heiðars, krefst vægustu refsingar er lög leyfa og komi gæsluvarðhald ákærða til frádráttar.  Þá er gerð krafa um réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins.

Af hálfu ákærða er bótakröfu ekki mótmælt nema að því er varðar dráttarvexti, sem beri að reikna frá mánuði eftir birtingu kröfunnar.

Verjandi ákærða, Ásgríms, krefst vægustu refsingar er lög leyfa.  Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun að mati dómsins.

Þá verði kröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. vísað frá dómi.

Verjandi ákærða, Sigurðar Júlíussonar, krefst vægustu refsingar er lög leyfa og komi gæsluvarðhald ákærða frá 31. desember 2001 til 21. janúar 2002 til frádráttar.  Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun að mati dómsins.

Ákærði samþykkir bótakröfur í málinu.

Verjandi ákærða, Skúla, krefst vægustu refsingar er lög leyfa.  Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun að mati dómsins.

Þess er krafist að bótakröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi eða að hún verði lækkuð verulega vegna vanreifunar, þrátt fyrir viðurkennda bótaskyldu.

Viðurlög.

Refsing ákærðu allra verður ákveðin með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga.  Þá verður litið til þess að þeir hafa allir hreinskilnislega játað brot sín, sem að langmestu leyti eru framin í stuttri brotahrinu, þýfi komst að miklu leyti til skila og þeir eru allir ungir að árum.  Hins vegar er það refsingu þeirra til þyngingar að brotin frömdu ákærðu í félagi eftir því sem nánar verður frá greint hér á eftir.  Þá er um mikil verðmæti að ræða í sumum tilfellum.

Samkvæmt sakavottorði ákærða, Ásgeirs Heiðars, frestaði lögreglustjórinn í Reykjavík ákæru á hendur honum 19. febrúar 1999, vegna brots gegn 259. gr. almennra hegningarlaga.  Þá hlaut hann dóm 26. október 2000, fangelsi í 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað.  Að öðru leyti eru brot ákærða samkvæmt sakavottorði gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.  Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dóms frá 26. október 2000 og ber að taka þá refsingu inn í þennan dóm og tiltaka í einu lagi.  Við ákvörðun refsingar ber að líta til ungs aldurs ákærða.

Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir þrettán auðgunarbrot og nytjastuld, þar af ellefu í félagi með öðrum en andlag brota hans skipti samtals milljónum króna.

Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.  Til frádráttar refsivist kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. janúar til 6. mars 2002. 

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 100.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.

Ákærði, Ásgrímur Ragnars, hefur samkvæmt sakavottorði að baki nokkurn sakaferil.  Frá árinu 1995 hefur honum verið refsað tíu sinnum fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum, m.a. gekkst hann undir sátt 12. apríl 2000, 36.000 króna sekt, auk 4 mánaða sviptingar ökuréttar fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. 

Ákærði var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað 6. nóvember 1998.  Þá hlaut hann dóm 4. maí 2001, fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir skjalafals og þjófnað.  Með broti sínu nú hefur hann rofið skilorð þess dóms og ber að taka þá refsingu upp og dæma í einu lagi.

Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir fimm þjófnaði, þar af 4 í félagi með öðrum.  Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði.  Samkvæmt vottorði sjúkrahússins Vogs, hóf ákærði áfengismeðferð 3. febrúar sl.  Þá hefur hann innritast í göngudeildarstuðning hjá SÁÁ.  Þrátt fyrir að ákærði hafi nú farið í áfengismeðferð þykja ekki skilyrði, eins og hér stendur á, til að skilorðsbinda refsingu hans.

Þá er ákærði sviptur ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 25.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Sigurður Júlíusson, á talsverðan sakaferil að baki fyrir þjófnað, fjársvik og nytjastuld, auk brota á umferðarlögum og fíkniefnalöggjöf, sem nær aftur til ársins 1996.  Hann hlaut síðast dóm 23. janúar 2002, fangelsi í 8 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.  Sá dómur var hegningarauki við dóm 1. október 2001, fangelsi í 7 mánuði, skilorðbundið í 2 ár, sem einnig var hegningarauki við dóm frá 4. september 2001, 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár.

Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir fjórtán brot, þar af tólf í félagi við aðra, þar sem um talsverð verðmæti er að ræða.  Brot ákærða nú eru öll hegningarauki við dóm frá 23. janúar 2002 og ber því að dæma upp skilorðsdóminn og tiltaka refsingu ákærða í einu lagi.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði hefur átt við vímuefnavandamál að stríða.  Samkvæmt vottorði, sem frammi liggur í málinu, hefur ákærði dvalið í endurhæfingarsambýli Byrgisins síðan 26. febrúar 2002 og sótt um langtíma endurhæfingarmeðferð þar, þ.e. 6 mánaða meðferð.  Fram kemur að hann hafi sýnt góða samvinnu og stefni af alefli að því að ná tökum á lífi sínu.  Því er lýst í vottorðinu að það sé eindreginn vilji stofnunarinnar að honum verði gert kleift að halda meðferðinni áfram.  Samkvæmt þessu þykir ljóst að ákærði er á ábyrgan hátt að stuðla að breyttu og bættu lífi sínu.  Dómurinn telur að gera verði honum kleift að sýna að hann sé þess megnugur og þykir því rétt að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Þá skal ákærði á skilorðstímanum hvorki neyta áfengis né deyfilyfja, sbr. 3. tl. 2. mgr. 57. gr. sömu laga.   Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 31. desember 2001 til 21. janúar 2002 koma til frádráttar.

Ákærði greiði verjanda sínum, Páli Arnóri Pálssyni hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Skúli Júlíusson, hlaut dóm 7. febrúar sl., 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað.  Brot hans nú er hegningarauki við þann dóm og ber að dæma upp skilorðsdóminn og gera ákærða refsingu í einu lagi.

Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir níu brot þar af 7 í félagi við aðra.

Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði verjanda sínum, Erni Clausen hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í málsvarnarlaun.

Skaðabætur

Ákærði, Ásgeir Heiðar, hefur samþykkt fjárhæð bótakröfu Elkó ehf. að fjárhæð 229.000 krónur, með þeim athugasemdum að dráttarvextir reiknist mánuði eftir birtingu kröfunnar.  Ber því að taka hana til greina ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi, sem var 12. október 2001, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá 24. apríl 2002 til greiðsludags.

Af hálfu ákærða, Ásgríms Ragnars, er gerð krafa um að bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf., að fjárhæð 805.970 krónur, verði vísað frá dómi.  Krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er ekki studd neinum gögnum og er því fallist á kröfu um frávísun vegna vanreifunar.

Ákærði, Sigurður, hefur samþykkt bótakröfur Olíuverslunar Íslands hf., OLÍS.  Ber ákærða samkvæmt því að greiða félaginu annars vegar 234.000 krónur en hins vegar 71.000 krónur, eða samtals 305.000 krónur.  Vaxtakrafa þykir hins vegar svo  vanreifuð að vísa verði henni frá dómi án kröfu.

Þá hefur ákærði samþykkt kröfu Bílanausts hf. um greiðslu 29.500 króna og er fallist á hana.

Af hálfu ákærða, Skúla, hefur þess verið krafist að bótakröfu Sigrúnar Jónsdóttur að fjárhæð 211.500 krónur verði vísað frá dómi þrátt fyrir að ákærði viðurkenni bótaskyldu sína.  Í málinu liggur frammi bótakrafa Sigurðar Georgssonar hrl. fyrir hönd Sigrúnar Jónsdóttur.  Meðal annars er þar gerð krafa um miskabætur.  Sú krafa er ekki studd neinum gögnum.  Þykir verða að vísa kröfunni frá í heild sinni.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómi kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Ásgeir Heiðar Stefánsson, sæti  fangelsi í 18 mánuði.  Til frádráttar refsivist kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. janúar til 6. mars 2002. 

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 100.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.

Ákærði, Ásgrímur Ragnars, sæti fangelsi í 14 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 25.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Sigurður Júlíusson, sæti fangelsi í 18 mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Þá skal ákærði á skilorðstímanum hvorki neyta áfengis né deyfilyfja, sbr. 3. tl. 2. mgr. 57. gr. sömu laga.  Komi til fullnustu refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 31. desember 2001 til 21. janúar 2002 koma til frádráttar.

Ákærði greiði verjanda sínum, Páli Arnóri Pálssyni hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Skúli Júlíusson, sæti fangelsi í 3 mánuði en frestað er fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði verjanda sínum, Erni Clausen hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Ásgeir Heiðar, greiði Elkó ehf. 229.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 12. október 2001 til 24. apríl 2002, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði, Sigurður, greiði Olíuverslun Íslands hf. 305.000 krónur.

Ákærði, Sigurður, greiði Bílanausti hf. 29.500 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.