Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2005. |
|
Nr. 446/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Ólafi Tý Hreggviðssyni (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
Ó var sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir á árinu 2001. Fallist var á með héraðsdómi að báðar árásirnar hefðu verið fólskulegar og tilefnislausar, en þær voru heimfærðar undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru. Þessi brot Ó voru framin áður en tveir síðustu dómar á hendur honum voru kveðnir upp. Var skilorð síðari dómsins tekið upp og Ó gert að sæta fangelsi samtals í 18 mánuði. Tekið var fram að brot Ó hefðu verið framin fyrir fjórum árum og að rannsókn hefði dregist hjá lögreglu, án þess að fullnægjandi skýringar hefðu verið gefnar á þeim drætti. Þá hefðu hagir Ó breyst til hins betra frá því sem áður var. Þótti því mega fresta fullnustu 15 mánaða af refsingunni. Þá var Ó gert að greiða 200.000 krónur í miskabætur vegna annarrar árásarinnar auk bóta vegna kostnaðar af því að kröfunni var haldið fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans og að honum verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur, auk staðfestingar á tildæmdum bótum vegna lögmannskostnaðar brotaþola, allt með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2003 til greiðsludags.
Ákærði krefst mildunar á refsingu og að fjárhæð dæmdra bóta verði lækkuð.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir, annars vegar aðfaranótt laugardagsins 5. maí 2001 en hins vegar aðfaranótt sunndagsins 17. júní sama ár. Í fyrra tilvikinu veittist ákærði að A og skallaði hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði á nefi, hlaut lítinn skurð við nefrót og blóðnasir. Í síðara tilvikinu sló hann B með bjórkönnu í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á vinstri augabrún, sár vinstra megin á enni, á vinstri kinn, vinstra megin á hálsi og framanvert vinstra eyra. Fallist er á með héraðsdómi að báðar árásirnar hafi verið fólskulegar og tilefnislausar, en í ákæru eru þær heimfærðar undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Sakaferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar kemur fram hefur hann margoft áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot og ákæra í málinu tekur til. Hann hlaut sinn fyrsta dóm 3. október 1996 vegna líkamsárásar sem hann framdi áður en hann varð 18 ára gamall. Þau brot sem nú eru til meðferðar voru framin áður en tveir síðustu dómar, 3. júlí 2001 og 5. mars 2002, voru kveðnir upp. Með síðarefnda dóminum var tekinn upp skilorðsbundni hluti fyrrnefnda dómsins og hann dæmdur með. Þá hafði ákærði staðið skilorð dóms frá 10. mars 1998 er rannsókn hófst á þeim brotum sem nú um ræðir. Ber að taka upp skilorð dómsins 5. mars 2002 og ákveða ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. og 78. gr. sömu laga. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Brot ákærða voru framin fyrir fjórum árum og dróst rannsókn hjá lögreglu nokkuð á langinn, án þess að fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar á þeim drætti. Þá er fram komið að hagir ákærða hafa breyst til hins betra frá því sem áður var. Þykir því mega fresta fullnustu 15 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Þegar litið er sérstaklega til afleiðinga árásar ákærða á B, er hlaut marga skurði í andlit sem sauma þurfti saman, eru miskabætur ákveðnar 200.000 krónur. Þá er staðfest niðurstaða héraðsdóms um bætur vegna kostnaðar sem B hafði af því að halda fram kröfu sinni, allt með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki er ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Týr Hreggviðsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði B 262.863 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2003 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2004.
Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 4. febrúar 2003 á hendur
Ólafi Hreggviðssyni, [kt], Malarási 11, Reykjavík,
fyrir eftirgreindar líkamsárásir í Reykjavík á árinu 2001:
I.
Aðfaranótt laugardagsins 5. maí:
a) Veist að A [kt], á bensínstöð Essó við Geirsgötu,
og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði á nefi, hlaut lítinn skurð við nefrót og blóðnasir.
(M.010-2001-10675)
b) [...]
II.
Aðfaranótt sunnudagsins 17. júní á skemmtistaðnum Vegamótum við Vegamótastíg veist að B [kt.], og slegið hann með bjórkönnu í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á vinstri augabrún, sár vinstra megin á enni, á vinstri kinn, vinstra megin á hálsi og framanvert á vinstra eyra.
(M.010-2001-14992)
Teljast þessi brot varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst B þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 841.963 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 17. júní 2001 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins komi til málflutnings lögmanns hans við aðalmeðferð málsins.
Ákærði játaði sakargiftir samkvæmt a) lið I. kafla og samkvæmt II. kafla ákærunnar en neitað sök samkvæmt b) lið I. kafla. Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Jafnframt er þess krafist aðallega að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara er krafist lækkunar hennar. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákæruliður I. a.
Aðfaranótt laugardagsins 5. maí árið 2001 kom A á lögreglustöðina Hverfisgötu og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás. Kvaðst hann hafa verið á gangi ásamt D þegar maður sem þau ekkert þekktu hafi gengið að honum og verið með dólgslæti. Hafi hann ekkert viljað ræða við manninn en þá hafi maðurinn gengið alveg að honum og skallað hann í andlitið. Síðan hafi hann farið af vettvangi en A kvaðst hafa heyrt að maðurinn héti Ólafur Hreggviðsson. Samkvæmt skýrslu lögreglu dagsettri 5. maí staðfesti D frásögn A en fram kemur að þau hafi hvorug verið undir áhrifum áfengis. Þá kemur fram í skýrslunni að A hafi leitað aðhlynningar á sysadeild vegna áverka á nefi.
Mánudaginn 7. maí 2001 lagði A fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Hrafnkels Óskarssonar, læknis á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þar segir að A hafi komið á slysamóttöku hinn 5. maí 2001 kl. 3:48. Kvaðst hann hafa lent í pústrum í miðbænum og fengið högg á nefið. Á miðju nefi hafi sést 2 mm stór skurður sem blæddi úr. Þá voru væg eymsli yfir skurðinum og bólga en engar skekkjur hafi sést á nefinu. Sárinu hafi verið lokað með límplástri og settar á umbúðir.
Ákærði játaði sök samkvæmt þessum ákærulið bæði fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Skýlaus játning ákærða er í samræmi við gögn málsins og er þannig sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Brotið er þar rétt fært til refsiákvæða.
Ákæruliður 1. b.
[...]
Ákæruliður II.
Aðfaranótt sunnudagins 17. júní 2001 var lögreglan send að veitingastaðnum Vegamótum við Vegamótastíg. Þar hittist fyrir B og var hann blóðugur í andliti og hélt þerripappír við vinstra gagnaugað. Þá var hann með skurð á vinstra eyra og á enni vinstra megin auk þess sem sjá mátti nokkra smáskurði á vinstri hlið höfuðsins. Kom sjúkrabifreið á vettvang og flutti hann á slysadeild.
I unnusta B tjáði lögreglu að ákærði hafi gripið um hana aftanfrá á dansgólfi staðarins og hafi B beðið hann um að hætta því. Ákærði hafi þá gengið í burtu en kom skyndilega aftur og hélt þá á bjórkönnu. Hafi hann slegið B fyrirvaralaust með könnunni á vinstra gagnaugað en við það hafi bjórkannan brotnað. Eftir þetta hafi hann farið út af staðnum. J staðfesti þessa frásögn og kvaðst kannast við ákærða. Þá voru tekin tali tvö vitni sem sáu B eftir árásina og ákærða hraða sér út af staðnum.
Þriðjudaginn 19. júní 2001 lagði B fram kæru hjá sýslumanninum á Siglufirði vegna ofangreindrar líkamsárásar. Kvaðst hann hafa verið að skemmta sér ásamt unnustu sinni I og hafi maður sem þau ekki þekktu farið að kássast utan í henni. B hafi gengið til mannsins sem var ljóshærður, stuttklipptur og þrekvaxinn og bað hann um að láta þau í friði. Maðurinn hafi síðan komið á eftir þeim og pikkað í öxl B. Þegar hann hafi snúið sér við hafi maðurinn fyrirvaralaust lamið hálfslítra bjórglasi framan í hann. Hafi hann náð að víkja sér líttillega undan en bjórglasið hafi lent vinstra megin á andlitinu og brotnað. Kvað hann 20 spor hafi verið saumuð í andlit sitt, aðallega við eyra en einnig við gagnauga og á kinn. Þá kvaðst hann vita til þess að maðurinn sem sló hann væri kallaður Óli Hregg.
Samkvæmt læknisvottorði Arnbjörns H. Arnbjörnssonar, læknis á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi, kom B á slysamóttökuna 17. júní 2001 kl. 3:30. Við skoðun hafi komið í ljós smávegis sár efst á enninu vinstra megin sem úr blæddi og 1/2 cm langur skurður á vinstri augabrún. Þá hafi einnig verið lítið sár á vinstri kinn og sömuleiðis á hálsinum vinstra megin. Sár hafi verið á eyra framanverðu þar sem nokkrir flipar voru lausir. Hafi B hins vegar verið laus við eymsli í höfði og hnakka. Voru sár hans hreinsuð og saumuð í staðdeyfingu og var saumataka ráðgerð eftir fimm daga.
Ákærði játaði sök samkvæmt þessum ákærulið bæði fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Skýlaus játning ákærða er í samræmi við gögn málsins og er þannig sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessari ákæru. Brotið er þar rétt fært til refsiákvæða.
Refsiákvörðun
Ákærði sem fæddur er árið 1978 á að baki nokkurn sakarferil. Frá 18 ára aldri hefur hann hlotið sex refsidóma þar af fjóra vegna líkamsárása. Þá hefur hann einnig hlotið refsingu fyrir fíkniefnabrot, auðgunarbrot og brot á umferðarlögum. Brot þau sem ákærði er nú dæmdur fyrir eru framin fyrir uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðinn 3. júlí 2001, en þá hlaut ákærði sjö mánaða fangelsi þar af fimm mánuði skilorðsbundna til fjögurra ára fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr., 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot, og dóm Héraðsdóms Austurlands uppkveðinn 5. mars 2002 en þá hlaut ákærði þrettán mánaða skilorðsbundna refsingu til fjögurra ára fyrir fíkniefnabrot.
Refsing sem ákærði hefur nú unnið til er hegningarauki við framangreinda dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðsdómurinn frá 5. mars 2003 tekinn upp og ákærða gerð refsing fyrir brot það sem hann var dæmdur fyrir í þeim dómi og þau sem hann er nú sakfelldur fyrir. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði hefur ítrekað gerst sekur um líkamsárásir og voru líkamsárásir þær, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, fólskulegar og tilefnislausar. Talsvert langt er síðan brot ákærða voru framin. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd tólf mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum 4 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Skaðabótakrafa
Af hálfu B er krafist skaðabóta að fjárhæð 841.963 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. júní 2001 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Krafan er sundurliðuð þannig:
1. Þjáningabætur, fótaferð, 9 d. x 920 kr. 7.360,-
2. Miskabótakrafa kr. 700.000,-
3. Tímabundið atvinnutjón kr. 69.240,-
4. Lögmannskostnaður kr. 50.000,-
5. Vsk. á lögmannskostnað kr. 12.863,-
Samtals kr. 841.963,-
1. Með gögnum málsins hefur ekki verið sýnt fram á að brotaþoli hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga þá níu daga sem krafist er þjáningabóta. Verður kröfunni því vísað frá dómi.
2. Ákærði er bótaskyldur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga en árás hans olli brotaþola líkamlegu tjóni auk þess sem hún er til þess fallin að valda ákærða andlegum þjáningum. Miskabætur til brotaþola eru ákvarðaðar 150.000 krónur.
3. Fram kemur í gögnum málsins að þegar árásin var framin hafði kærandi skuldbundið sig til starfa yfir sumartímann á Siglufirði. Meðfram öðrum störfum hafi hann hins vegar einnig aflað tekna sem fyrirsæta. Fram kemur í ódagsettu bréfi vinnuveitanda [...] að brotaþoli hafi misst af nokkrum verkefnum vegna þeirra andlitslýta sem hann bar eftir árásina. Verður þó ekki séð af því sem fram kemur í bréfi vinnuveitanda að nokkru sé hægt að slá föstu um að þau verkefni hefðu fallið honum í skaut. Verður kröfu þessari því vísað frá sem órökstuddri.
4. Brotaþoli á rétt á lögmannskostnaði fyrir að halda kröfu sinni fram og er á hann fallist.
Samkvæmt ofanrituðu skal ákærði greiða brotaþola 212.863 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2003 en þann dag er mánuður liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan til greiðsludags.
Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að ákærði greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar R. Jóhannssonar hrl., en 1/3 hluta ber að greiða úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar R. Jóhannssonar hrl., ákvarðast 120.000 krónur.
Dagmar Arnardóttir fulltrúi lögreglustjóra flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ólafur Hreggviðsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frestað er framkvæmd 12 mánaða af refsingunni og fellur hún niður að liðnum 4 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði B 212.863 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, en 1/3 hluti alls sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar R. Jóhannssonar hrl., ákvarðast 120.000 krónur.