Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2016

Tölvulistinn ehf. (Guðmundur Ómar Hafsteinsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf (Ólafur Örn Svansson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging

Reifun

T ehf. höfðaði mál gegn L hf. og krafðist endurgreiðslu fjár sem fyrrnefnda félagið taldi sig hafa ofgreitt á grundvelli tveggja lánssamninga aðila. Greindi aðila á um hvort um væri að ræða lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu eða erlend lán. Annar lánssamningurinn fól í sér reikningslánalínu og var litið til þess að T ehf. hafði óskað eftir láni á grundvelli samningsins í tilgreindum erlendum myntum í ádráttarbeiðni. Þá hafði andvirði lánsins verið ráðstafað til greiðslu á eldri skuldbindingum T ehf. í erlendum gjaldmiðlum auk þess sem kvittanir vegna afborgana af láninu og vextir af því báru með sér að um erlent lán hafði verið að ræða. Hvað varðaði hinn lánssamninginn, sem hafði að geyma svokallað jafnvirðisorðalag, var aðallega litið til þess að lánsfjárhæðin hafði verið tilgreind í erlendum myntum í viðauka sem gerður hafði verið við samninginn. Var því litið svo á að báðir lánssamningarnir hefðu falið í sér lán í erlendum myntum og var L hf. sýknað af kröfu T ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 45.125.497 krónur, aðallega með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. október 2011 til 13. júní 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 12.167.406 krónur með sömu dráttarvöxtum og áður greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var gerður viðauki 27. október 2011 við lánssamning nr. 11911 en þar var fjárhæð lánsins tilgreind í erlendum myntum. Þegar af þeirri ástæðu verður það lán talið í erlendum gjaldmiðlum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tölvulistinn ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. október sl., að lokinni aðalmeðferð var höfðað fyrir dómþinginu af Tölvulistanum ehf., Suðurlandsbraut 26, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 8. janúar 2015.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum 45.125.497 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 20.032.889 krónum frá 1. október 2011 til 4. júlí 2012, en frá þeim degi af 45.125.497 krónum til 13. júní 2014, en frá þeim degi til greiðsludag með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Stefnandi er einkahlutafélag sem rekur sex verslanir Tölvulistans og auk þess netverslun.

                Stefndi er fjármálastofnun, en hinn 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 61/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., og víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf., sem nú ber heiti stefnda.  Óumdeilt er að stefndi tók við umdeildum lánssamningum á grundvelli þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

                Endanlegur ágreiningur aðila lýtur að tveimur lánssamningum upphaflega á milli Landsbanka Íslands hf. og IOD ehf., þ.e. viðskiptasamningi nr. 0106-11910 að fjárhæð 100.000.000 krónur, dagsettum 27. ágúst 2008, og lánssamningi nr. 0106-11911 að fjárhæð 92.000.000 krónur, dagsettum 27. ágúst 2008.

                Málavextir eru þeir, að í maí 2007 keyptu SM fjárfestingar ehf. stefnanda, sem þá hét IOD ehf., af BBen ehf.  Félagið BBen ehf. átti einnig félagið Tölvulistann ehf., sem síðar var nefnt Músavík ehf., og rak það félag verslanir Tölvulistans.  Í júní 2008 keypti stefnandi ásamt SM fjárfestingum rekstur verslana Tölvulistans.  Kaupin voru gerð fyrir milligöngu Landsbanka Íslands, forvera stefnda, sem var helsti kröfuhafi seljendanna, en seljendur áttu þá í verulegum fjárhagserfiðleikum.  Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi stefnandi greiða kaupverðið með því að yfirtaka skuldir rekstursins við Landsbanka Íslands, auk þess að yfirtaka lán BBen ehf. hjá Landsbanka Íslands.  Samhliða þessum kaupum rituðu svo BBen ehf. og SM fjárfestingar undir samkomulag um uppgjör á lánssamningi aðila, dagsett 13. maí 2007.  Í samkomulaginu fólst að SM fjárfestingar ehf. greiddu BBen ehf. kr. 123.406.000 krónur, en greiðslan fólst í yfirtöku skulda BBen ehf. við Landsbanka Íslands hf.  Af því tilefni undirrituðu aðilar þrjá lánssamninga, nr. 11909, 11910 og 11911, hinn 27. ágúst 2008.  Samhliða því var gerður veðsamningur milli SM fjárfestinga ehf. og Landsbanka Íslands hf., þar sem bankanum voru veittir allir hlutir í stefnanda, þ.e. IOD ehf., að handveði.

                Með kaupsamningi, dagsettum 30. október 2009, keypti Tölvulistinn ehf. alla hluti SM fjárfestinga ehf. í stefnanda, þ.e. IOD.  Í kjölfarið, eða hinn 14. nóvember 2009, tók Tölvulistinn ehf. yfir allar skyldur veðsala, samkvæmt framangreindum handveðssamningi.

                Fyrrgreindur lánssamningur nr. 11909 var gerður á milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og SM fjárfestinga ehf., sem lántaka.  Eftir að stefnandi breytti kröfum sínum við aðalmeðferð málsins, lýtur ágreiningur aðila ekki lengur að þeim samningi.

                Viðskiptasamningur nr. 11910, sem gerður var milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og stefnanda, sem lántaka, er á forsíðu hans sagður vera: „KR. 100.000.000,- VIPSKIPTASAMNINGUR UM REIKNINGSLÁNALÍNU“.  Í upphafsorðum samningsins segir að bankinn hafi samþykkt að veita lántaka rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 100.000.000 krónur í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn á viðskipti með, með þeim skilyrðum og skilmálum sem fram koma í samningnum.

                Í 2. gr. í samningnum er fjallað um lánsheimild, en þar segir að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð 100.000.000 krónur.  Í 3. gr. í samningnum, sem ber fyrirsögnina lánshlutar, segir að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar teljist vera sjálfstætt lán.  Í 4. gr. í samningnum er fjallað um lánsbeiðnir og í gr. 4.2 í samningnum kemur fram hvernig haga eigi formi lánsbeiðna, en meðal þess sem tilgreina skuli hverju sinni sé mynt og upphæð.

                Með ádráttarbeiðni, dagsettri 27. ágúst 2008, var óskað eftir útborgun með eftirfarandi hætti: „CHF 50% / JPY 30% / EUR 20%“.  Þá segir í beiðninni „Ráðstafist til innborgunar á erlent lán nr. 0106-8319, greiðandi Músavík ehf., kt. [...]“.  Í framlagðri kaupnótu, dagsettri 28. ágúst 2008, kemur fram að greitt hafi verið inn á lán 8319, 39.816 japönsk jen, 164.620,58 evrur og 662.334,21 svissneskir frankar.

                Stefndi kveður lán nr. 8319, sem greitt var upp með láni nr. 11910, hafa verið erlent lán, en erlendar myntir hafi verið tilgreindar í ádráttarbeiðni og lánið verið greitt út í erlendum myntum inn á önnur lán.

                Samkvæmt gögnum málsins voru við endurgreiðslu lánsins keyptar erlendar myntir með íslenskum krónum og andvirðinu ráðstafað inn á lánið, sbr. framlagðar kaupnótur vegna gjaldeyrisviðskiptanna.

                Samningur nr. 11911 var gerður milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka.  Þá gengu SM fjárfestingar ehf. og Sjónvarpsmiðstöðin ehf. í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldbindingarinnar. 

                Á forsíðu samningsins segir: „ISK 92.000.000,- LÁNSSAMNINGUR“.  Í upphafsorðum samningsins kemur fram að um sé að ræða fjölmyntalán til 7,5 ára að jafnvirði 92.000.000 króna í neðanskráðum myntum og hlutföllum: „CHF 50% JPY 30% EUR 20%“.

                Í beiðni um útborgun, dagsettri 27. ágúst 2008, kemur fram að útborgunarfjárhæðinni beri að ráðstafa til uppgreiðslu á erlendu láni Músavíkur ehf., og til innborgunar á erlendu láni BBen ehf.  Í kaupnótu, dagsettri 28. ágúst 2008, kemur fram að greitt hafi verið inn á lánið 39.816.660 japönsk jen, 164.620,58 evrur og 662.334,21 svissneskir frankar.

                Hluta lánsins, eða 21.000.000 króna, var varið til greiðslu á íslensku láni.

                Stefnandi kveðst á árinu 2008 hafa farið fram á viðræður við stefnda um endurskoðun á umdeildum samningum en stefndi hafi hafnað þeirri beiðni.  Í kjölfar dóma Hæstaréttar, m.a. í málum nr. 92/2010 og 1563/2010 og máli nr. 155/2011, hafi stefnandi ítrekað kröfur sínar um að lán félagsins yrðu endurskoðuð og lækkuð í samræmi við dómafordæmi.

                Stefndi hafnaði þeim kröfum stefnanda með bréfum, dagsettum 22. mars 2012 og 3. júlí 2013.

                Hinn 1. október 2011 greiddi stefnandi upp skuld sína samkvæmt samningi nr. 11910, með þeim hætti að stefnandi fékk nýja lánalínu hjá stefnda í íslenskum krónum.

                Aðilar gerðu með sér svokallað uppgjörssamkomulag hinn 3. október 2012, ásamt viðauka, dagsettum 23. janúar 2013, sem fól í sér að lánssamningar nr. 11909 og 119011 voru greiddir upp með nýjum lánum frá stefnda, sbr. lánssamning, dagsettan 3. október 2012.  Í umræddu samkomulagi er tekið fram af hálfu stefnanda að uppgjör samkvæmt samningnum sé gert með fyrirvara um betri rétt stefnanda og áskildi stefnandi sér allan rétt til að bera undir dómstóla lögmæti uppgreiddu lánasamninganna og endurútreikning þeirra.

                Með bréfi, dagsettu 13. maí 2014, krafði stefnandi stefnda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann taldi sig hafa ofgreitt stefnda, ásamt dráttarvöxtum.

                Með bréfi stefnda, dagsettu 24. júní 2014, var öllum endurgreiðslukröfum stefnanda hafnað.

III

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að lánssamningar, sem um er deilt í þessu máli, með númerin 0106-11910 og 0106-11911, séu um lán í íslenskum krónum sem verðtryggð hafi verið með ólögmætum hætti með tengingu þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé óheimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að tengja það við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 1563/2010, 603/2010 og 604/2010.

                Við úrlausn á því hvort lán eða skuld teljist vera í íslenskum krónum eða erlendri mynt verði aðallega að líta til þess hvernig lánakjör og eðli samnings séu skilgreind í viðkomandi lánssamningi, hvernig aðilar hafi innt af hendi frumskyldur sínar samkvæmt lánssamningi, sem og orðalags annarra samningsákvæða, yfirlýsingar aðila og háttsemi þeirra við efndir samningsins.

                Stefnandi byggir á því að lánsfjárhæð lánssamnings nr. 11910 sé í samningnum tilgreind í íslenskum krónum.  Á forsíðu samningsins og í inngangi hans sé samningurinn sagður vera að fjárhæð 100.000.000 króna.  Nánar tiltekið sé samningurinn þar skilgreindur sem „rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð kr. 100.000.000,- eitt hundrað milljónir 00/100, í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn á viðskipti með“.  Sambærilegt orðalag sé að finna í greinum 2.1 og 2.2 í samningnum.  Að lokum sé þar tilgreint í grein 13.2 að komi til uppsagnar samningsins sé stefnda heimilt að umreikna alla útistandandi lánshluta í íslenskar krónur, miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti samanstandi af.

                Einnig byggir stefnandi á því að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum.  Um útborgun á láninu segi í grein 3.1 að lánið skiptist upp í lánshluta og að hver lánshluti teljist sjálfstætt lán.  Í grein 4.6 í samningnum segi enn fremur að hver lánshluti greiðist inn á reikning lántaka miðað við kaupgengi hverrar myntar hjá stefnda, tveimur bankadögum fyrir útborgunardag.

                Í útgreiðslubeiðni lánssamningsins komi fram að láninu verði ráðstafað til að greiða upp lánssamning nr. 0106-8319.  Sá samningur er dagsettur 15. maí 2007 og hafi falið í sér lánalínu fyrir Tölvulistann hjá Landsbankanum að fjárhæð 80.000.000 króna.  Samkvæmt inngangskafla þess samnings hafi hann verið í íslenskum krónum og samningurinn ekki tengdur við gengi erlendra mynta.  Með því að svo hafi verið sé fullsannað að fjárhæð umþrætts láns hafi að öllu leyti verið greidd út í íslenskum krónum.

                Stefnandi telur að tilgreining lánsins nr. 0106-8319 í útborgunarbeiðni umþrætts samnings hafi ekkert sönnunargildi í málinu, enda hafi lánið ekki verið tengt við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Stefndi hafi gefið út kaupnótu vegna umþrætts láns þar sem tilgreind séu kaup á tilteknum fjárhæðum í erlendum myntum.  Stefnandi mótmælir því að þær kaupnótur hafi þýðingu í þessu máli, enda hafi þær verið einhliða gefnar út af stefnda og án samráðs við hann.  Stefnandi hafi ekki samþykkt umræddar nótur að neinu leyti.  Stefnandi kveðst aldrei hafa tekið við greiðslu í erlendum gjaldeyri en einungis hafi verið um að ræða ráðstöfun á fjármunum á gjaldeyrisreikningum bankans.

                Stefnandi byggir og á því að greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum.  Um endurgreiðslu lánsins segi í grein 7.1 í samningnum að hvern lánshluta skuli greiða á gjalddaga hans.  Sé lánshluti í erlendri mynt greiði lántaki afborganir, vexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Fyrir liggi að umræddur lánssamningur hafi verið greiddur upp hinn 1. október 2011, með nýrri lántöku stefnda í formi lánalínu.  Þetta sé staðfest í lánayfirliti stefnda og með áritun stefnda á frumrit lánssamningsins. Við uppgreiðsluna hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind í íslenskum krónum og hafi uppgjör lánsins farið fram með lántöku og greiðslu í íslenskum krónum.

                Þá byggir stefnandi á því að ákvæði samningsins miði öll að því að samningurinn hafi verið í íslenskum krónum en verðtryggður með tilliti til gengis erlendra mynta.  Um tryggingar fyrir greiðslum segi í grein 12.2 í samningnum, að til tryggingar samningnum skuli stefnandi setja bankanum að veði allar vörubirgðir sínar og kröfur með útgáfu tryggingabréfs að fjárhæð 100.000.000 króna.  Því sé ljóst að tryggingarákvæði samningsins miðaðist einnig við íslenskar krónur.

                Samkvæmt framangreindu verði ótvírætt talið að lánssamningur nr. 11910 hafi verið um lán í íslenskum krónum, enda sé lántökufjárhæð skilgreind í íslenskum krónum og meginskyldur aðila samkvæmt samningnum hafi verið efndar í íslenskum krónum. Sömuleiðis verði ekki annað sé, m.a. með hliðsjón af tryggingarákvæðum samningsins, að gengið hafi verið út frá því við samningsgerðina að um lán í íslenskum krónum væri að ræða.

                Stefnandi byggir á því að lánssamningur nr. 11911 hafi einnig verið um lán í íslenskum krónum tryggður með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Lánsfjárhæðin hafi eingöngu verið tilgreind í íslenskum krónum í samningnum.  Á forsíðu hans sem og inngangsorðum sé fjárhæð hans tilgreind 92.000.000 króna og í inngangi hans sé samningurinn skilgreindur sem „fjölmyntalán“ í neðanskráðum myntum og hlutföllum. Hvergi sé í lánssamningnum sjálfum tilgreind fjárhæð lánsins í erlendum myntum.

                Greitt hafi verið af samningnum í íslenskum krónum, en samkvæmt ákvæðum hans hafi afborganir verið skuldfærðar af reikningi stefnanda hjá stefnda, nr. 0101-26-222250, sem sé reikningur í íslenskum krónum.

                Stefnandi byggir og á því að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum.  Í útgreiðslubeiðni komi fram að láninu hafi verið ráðstafað til að greiða upp lánssamning nr. 0106-8319 milli Landsbankans og Tölvulistans, sem hafi verið í íslenskum krónum. Samkvæmt útgreiðslubeiðninni hafi láninu einnig verið ráðstafað til að greiða upp lán sem tilgreint sé sem innlent lán nr. 0106-74-14283.  Telji stefnandi því sannað að öll lánsfjárhæðin hafi runnið til greiðslu innlendra skulda í íslenskum krónum og að lánið hafi því verið greitt út í íslenskum krónum.

                Stefnandi mótmælir því að kaupnóta á erlendum myntum, sem einhliða hafi verið gefin út af stefnda, hafi þýðingu í málinu.

                Stefnandi byggir og á því að einstök ákvæði samningsins bendi öll til þess að um lánssamning í íslenskum krónum sé að ræða.  Auk ákvæða sem þegar hafi verið rakin bendir stefnandi á grein 10.2 í samningnum, en þar komi fram að Sjónvarpsmiðstöðin ehf. taki á sig sjálfskuldarábyrgð sem nemi 50.000.000 króna, sem bundnar séu við vísitölu neysluverð. Telur stefnandi að umrædd tilgreining fjárhæðar sjálfskuldarábyrgðarinnar í íslenskum krónum renni enn frekari stoðum undir það að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða.

                Með vísan til alls ofangreinds telur stefnandi ótvírætt að lánssamningurinn nr. 11911 hafi verið um lán í íslenskum krónum sem hafi verið verðtryggt miðað við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

                Stefnandi byggir og á því varðandi báða umdeilda samninga að stefndi geti ekki borið fyrir sig undanþáguákvæði lokamálsliðar 2. gr. laga nr. 38/2001, um að samningarnir hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda.

                Að þeirri niðurstöðu fenginni að verðtrygging hinna umstefndu lánasamninga með tilliti til erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða honum það sem hann hafi ofgreitt.  Stefnandi byggir kröfu sína um endurgreiðslu ofgreiddra höfuðstólsgreiðslna og verðbóta á meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Samkvæmt þeim beri kröfuhafa, sem krafið hafi skuldara um of háa greiðslu, að endurgreiða þær fjárhæðir sem skuldari hafi greitt umfram skyldu, ef skuldari hafi greitt í góðri trú.  Stefnandi telur að öll skilyrði reglnanna séu fyrri hendi og að stefnandi hafi verið í góðri trú.

                Stefnandi byggir endurkröfu sína einnig á 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, með síðari breytingu, en þar sé kveðið á um að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætrar verðtryggingar.  Sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í 1. mgr. 18. gr. fyrir gildistöku laga nr. 151/2010 sem breytt hafi umræddu ákvæði.  Samkvæmt 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 skuli kröfuhafi sömuleiðis greiða upp skuld sína innan 30 daga frá kröfu um endurgreiðslu.  Fyrir liggi að stefnandi hafi sannanlega greitt stefnda hærri fjárhæð en honum hafi borið.  Þá hafi stefnandi, með bréfi, dagsettu 13. maí 2014, farið fram á endurgreiðslu hins ofgreidda fjár.  Allar forsendur séu því til þess að stefnandi eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga nr. 38/2001.

                Stefndi bendir og á að strax í kjölfar dóma Hæstaréttar í hinum svokölluðu gengislánamálum hafi stefnandi ítrekað haft samband við stefnda vegna málsins og krafist leiðréttingar á hinum umdeildu lánssamningum.  Í uppgjörssamkomulagi aðila, dagsettu 3. október 2012, hafi stefnandi sömuleiðis gert fyrirvara við lögmæti lánasamninganna og áskilið sér rétt til að láta reyna á lögmæti þeirra fyrir dómstólum.  Sömuleiðis hafi stefnandi aflað endurútreikninga á lánunum og sent stefnda, sem innlegg í viðræður þeirra um uppgjör. Hafi stefnandi því haft uppi kröfur sínar gagnvart stefnda innan eðlilegs tíma frá því að honum hafi mátt vera ljós réttarstaða sín.

                Stefnandi hefur sundurliðað endanlega dómkröfu sína, og er ekki ágreiningur um tölulega útreikning fjárkröfunnar.  Samkvæmt því sé fjárkrafa stefnanda 20.032.889 krónur vegna lánssamnings nr. 11910 og 25.092.608 krónur vegna lánssamnings nr. 11911.

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína um vexti á því að hinar ofgreiddu fjárhæðir beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Byggir hann á því að sú venja hafi skapast við uppgjör ólögmætra gengistryggðra lánssamninga að lánastofnun greiði vexti af ofgreiddum fjárhæðum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.  Beri því stefnda einnig að greiða stefnanda slíka vexti.  Bendir stefnandi á, að fyrir liggi að stefndi hafi greitt vexti samkvæmt 4. gr. laganna í sambærilegum tilvikum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 70/2014, þar sem stefndi hafi ekki mótmælt kröfu um vexti samkvæmt 4. gr. laganna.  Stefnandi byggir og á því að eðli máls samkvæmt væri verulega óeðlilegt og ósanngjarnt að skuld stefnda við stefnanda vegna greiðslu sem stefndi hafi sannanlega innheimt of háa hjá stefnanda, beri enga vexti.  Samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001, áður en henni var breytt með lögum nr. 151/2010, hafi sérstaklega verið kveðið á um að endurkröfur, líkt og þær sem um sé fjallað í máli þessu, bæru vexti samkvæmt 4. gr. laganna.  Umrætt ákvæði virðist hins vegar hafa fallið niður fyrir mistök löggjafans.  Þá bendir stefnandi á að stefndi, sem sé lánastofnun, hafi getað lánað út umræddar fjárhæðir gegn greiðslu vaxta.  Halli því augljóslega á stefnanda sem lántaka í þessu sambandi og umrædd réttarstaða feli í raun í sér ólögmæta auðgun stefnda, samkvæmt samnefndum reglum kröfuréttar.  Í ljósi þess að ekki sé tekið á umræddri vaxtaákvörðun í settum lögum, augljóslega vegna mistaka löggjafans, telur stefnandi að beita megi meginreglum laga um að útistandandi kröfur beri vexti.  Þá megi beita reglum um eðli máls í þessu tilviki á grundvelli ofangreindra sjónarmiða.  Beri því að fallast á kröfur stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.

                Stefnandi byggir varakröfu sína um vexti á því að ofgreiddu fjárhæðirnar beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eða fyrir lögjöfnun frá því ákvæði og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eins og síðastnefndu lögunum hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 131/2002.  Fyrir liggi að ekki sé í lögum tekið á því hvernig almennt skuli fara með vaxtagreiðslur vegna oftekinna greiðslna af skuld.  Hins vegar hafi löggjafinn sett reglur um rétt til vaxta af ofgreiðslum af tilteknum kröfum, þ.e. opinberum gjöldum.  Ákvæðið hafi meðal annars verið sett vegna aðstöðumunar ríkis og greiðanda, ekki ósvipuðu því sem uppi sé í þessu máli, þ.e. milli lántaka og fjármálastofnunar er einhliða semji lánaskilmála og innheimti greiðslur.  Atvik máls þessa og þær aðstæður sem falli undir ákvæði laga nr. 29/1995 séu því sambærilegar.  Þá sé beinlínis óeðlilegt að önnur regla gildi um endurgreiðslu ofgreiddra afborgana af lánum en við ofgreiðslu opinberra gjalda.

                Upphafsdag vaxta beri að miða við uppgreiðsludag skuldarinnar, þ.e. 1. október 2011 vegna lánssamnings nr. 11910 og 4. júlí 2012 vegna samnings nr. 11911.

                Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, 72. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Þá vísar stefnandi til ólögfestra reglna kröfuréttar og dómafordæma Hæstaréttar. 

                Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001.

                Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Upphafsdagur dráttarvaxta sé 13. júní 2014, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um endurgreiðslu hinna ofgreiddu greiðslna, þ.e. með bréfi dagsettu 13. maí 2014.

                Um aðild vísar stefnandi til þess að hann hafi verið upphaflegur lántakandi lánasamninganna og því skuldari samkvæmt þeim.  Þá hafi hann greitt upp hina umdeildu lánasamninga með nýjum lántökum.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV

                Stefndi byggir sýknu vegna lánssamnings nr. 11910 á því að stefnandi hafi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum með undirritun sinni á ádráttarbeiðni.  Stefnanda beri að efna þann samning.  Þá byggir stefndi á því að skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningnum hafi verið um greiðslu lána í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna.  Nánar sé á því byggt að samningurinn og framkvæmd hans, þ.m.t. útgreiðsla og viðaukar, beri með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða.  Meginástæða þess að upphæð hinna erlendu mynta sé ekki sett fram í viðskiptasamningnum sjálfum sé sú að stefnandi hafi haft val, á grundvelli samningsins, í hvaða myntum hann óskaði eftir lánum.  Hafi því hreinlega verið útilokað að tilgreina hámarksfjárhæðina í viðskiptasamningnum í þeim myntum sem stefnandi veldi að endingu að taka að láni þar sem hann hefði ekki tekið um það ákvörðun.

                Þá hafi ekki verið ákveðið fyrirfram, samkvæmt samningnum, hvenær útgreiðsla skyldi fara fram en gert hafi verið ráð fyrir því í grein 4 að lántakandi skyldi senda bankanum beiðni um lán, þar sem m.a. hafi átt að koma fram mynt og upphæð og vaxtakjör auk þess sem þar skyldi tiltekið inn á hvaða reikning bæri að leggja lánshlutann.

                Í útborgunarbeiðni komi skýrt fram að óskað hafi verið eftir greiðslu í erlendri mynt og sérstaklega tekið fram að lánsfjárhæðinni yrði ráðstafað til innborgunar á erlent lán nr. 0106-8319.  Þegar óskað hafi verið eftir útgreiðslu hafi fyrst verið unnt að greiða út í samræmi við ádráttarbeiðnina.  Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll erlendu skuldbindinganna fyrir lánshlutann hafi nákvæmlega verið.  Kaupnóta sýni hver höfuðstóll lánsins sé á útborgunardegi en á kaupnótunni sé skuldbinding stefnanda útlistuð og einungis tilgreind með erlendu myntunum.  Skuldbinding stefnanda samkvæmt lánunum sé þannig ekki einungis tilgreind í íslenskum krónum heldur í hlutföllum erlendu myntanna í lánsbeiðnunum og einvörðungu í erlendu myntunum allt frá því að lánsbeiðnirnar hafi verið mótteknar í samræmi við ákvæði samningsins.

                Þá beri til þess að líta að í tilkynningum um gjalddaga lánanna hafi skuldbindingar stefnanda eingöngu verið tilgreindar með erlendu gjaldmiðlunum og sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir endurgreiðslu hvers gjalddaga.  Skuldbinding stefnanda hafi þannig í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind með þeim erlendu gjaldmiðlum sem hún hafi samanstaðið af, en ekki í íslenskum krónum.

                Enda þótt viðskiptasamningur nr. 8319 standi utan þess ágreinings sem á reyni í þessu máli sé óhjákvæmilegt að líta til samningsins við matið á því hvort lánssamningar nr. 11910 og 11911 hafi falið í sér lánveitingu í erlendri mynt enda hafi útgreiðsla beggja lánanna farið þannig fram að útgreiðslu hafi verið varið til uppgreiðslu á láni nr. 8319.

                Líkt og lán nr. 11910 hafi samningur nr. 8319 farið í sér reikningslánalínu sem síðar hafi verið dregið á, á grundvelli útborgunarbeiðna.  Hver ádráttur hafi því falið í sér nýtt og sjálfstætt lán, sbr. grein 3.1 í samningnum.  Liggi því í augum uppi að útborgunarbeiðni lánsins skipti grundvallarmáli við matið á því hvort lánið teljist vera erlent lán eða gengistryggt.

                Með lánsbeiðni dagsettri 15. febrúar 2007 hafi verið dregið á lánið en í beiðninni hafi lánsfjárhæðin einungis verið tilgreind í erlendri mynt, þ.e. 800.000 evrur.  Sýni þetta svo ekki verði um villst að lán nr. 8319 hafi í reynd verið í erlendri mynt.  Af þeim sökum blasi við að lánveitingar sem fól í sér uppgreiðslu á því erlenda láni, þ.e. lán nr. 11910 og 11911, hafi einnig verið í erlendri mynt.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu liggi fyrir að skuldbindingar á grundvelli lánssamninga nr. 11910 og 11911 hafi báðar falið í sér lán í erlendri mynt og því verið lögmæt.

                Með viðskiptasamningi aðila nr. 13233 að fjárhæð 148.919.798 krónur, dagsettum 27. október 2011, hafi stefnandi greitt upp skuld sína samkvæmt lánasamningi nr. 11910.  Viðskiptasamningurinn hafi falið í sér ógengistryggt lán í íslenskum krónum.  Við uppgreiðslu láns nr. 11910 hafi stefnandi fengið 25% höfuðstólsleiðréttingu án viðauka samhliða endurfjármögnuninni.  Lán nr. 13233 hafi svo verið greitt upp með lánssamningum nr. 14696 og 14699 hinn 4. júlí 2012.

                Með viðauka við lánssamning nr. 11911, dagsettum 27. október 2011, hafi stefnandi fengið höfuðstólslækkun á lánið.  Í viðaukanum segi að eftirstöðvum lánsins sé breytt í íslenskar krónur miðað við lokasölugengi viðkomandi gjaldmiðla hinn 30. apríl 2010.  Í viðaukanum komi fram að með eftirstöðvum lánsins sé átt við höfuðstól lánsins, áfallna vexti, vaxtavexti, dráttarvexti og allan kostnað.  Þá segi þar enn fremur að eftirstöðvum lánsins sem breytt hafi verið í íslenskar krónur myndi nýjan höfuðstól þess.  Höfuðstóllinn sé lækkaður um 25% og síðan vaxtareiknaður miðað við kjörvaxtaflokk 1 frá 30. apríl 2010 til síðasta greidda/ógreidda gjalddaga lánsins. 

                Eftir að láninu hafi verið breytt yfir í íslenskar krónur hafi staða þess verið 91.514.865 krónur, en að teknu tilliti til 25% niðurfellingar nemi höfuðstóll þess 68.636.149 krónum.  Þá hafi áfallnir vextir numið 7.936.913 krónum og hafi staða lánsins því samtals verið 76.573.062 krónur.  Til frádráttar þeirri fjárhæð komi svo innborganir að fjárhæð 30.216.398 krónur.  Eftir höfuðstólslækkunina hafi höfuðstóll lánsins því verið 46.356.552 krónur.  Lánið hafi svo verið greitt upp með láni nr. 14697 miðað við 4. júlí 2012.

                Með uppgjörssamkomulagi, dagsettu 3. október 2012, gerðu aðilar með sér samning um fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu og tók samningurinn til lánssamnings nr. 11911 og viðskiptasamnings nr. 13233, auk yfirdráttar.  Þar var miðað við að heildarskuldir félagsins, að lokinni endurskipulagningu, færu ekki fram úr endurmetnu eigna- og rekstrarvirði fyrirtækisins, hvort sem hærra væri, að viðbættu virði annarra trygginga sem stóðu til tryggingar skuldum fyrirtækisins.  Í samkomulaginu er fjárhagslega endurskipulagningin útlistuð og fólst hún í því að stefndi veitti stefnanda fjögur ný lán til að greiða upp eldri lán.  Í fyrsta lagi var stefnanda veitt lán að fjárhæð 69.191.100 krónur til þriggja ára, eða svokallað biðlán.  Í öðru lagi var stefnanda veitt lán að fjárhæð 36.244.000 krónur til sjö ára.  Í þriðja lagi var stefnanda veitt lán að fjárhæð 40.188.588 krónur til sjö ára og í fjórða lagi var stefnanda veitt fyrirgreiðsla í formi reikningslánalínu sem skyldi að hámarki nema 100.000.000 króna.

                Í 6. gr. í samkomulaginu var kveðið á um fyrirvara en þar segir orðrétt: „Aðilar samnings þessa eru auk þess sammála um það að eignist félagið einhverja kröfu á hendur Landsbankanum, óháð því hvort krafan á rót sína að rekja til lánssamninga sem hafa að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu eða annarra atvika eða samninga, þá verði kröfum félagsins á hendur Landsbankanum ráðstafað með eftirfarandi hætti:

                (1)  fyrst skal kröfum félagsins ráðstafað á móti útistandandi kröfum Landsbankans á hendur félaginu samkvæmt upphaflegum höfuðstól biðlánsins;

                (2)  því næst verður sama hlutfalli af kröfum félagsins og nam hlutfallslegri viðbótarfærslu Landsbankans á biðláninu ráðstafað á móti þeirri viðbótarfærslu Landsbankans á biðláninu sem þegar hefur átt sér stað. Með hlutfallslegri viðbótarfærslu Landsbankans er átt við hlutfall viðbótarfærslu Landsbankans af samanlagðri heildarlækkun höfuðstóls biðlánsins sem er til komin vegna innborgunar félagsins (sem er að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé) og viðbótarniðurfærslu Landsbankans.  Til útskýringar má nefna dæmi um biðlán að höfuðstólsfjárhæð kr. 100.000.000,- þar sem höfuðstóll þess var greiddur upp þegar tveir mánuðir voru liðnir af lánstímanum með kr. 66.666.667,- greiðslu frá félaginu (sem var að öllu leyti fjármögnuð með nýju eigin fé) og viðbótarniðurfærslu Landsbankans sem nam kr. 33.333.333,-.  Hlutfallsleg niðurfærsla Landsbankans í þessu tilfelli var 1/3, eða u.þ.b. 33%.  Ef kröfur félagsins á hendur Landsbankanum samkvæmt þessum lið (3) nema kr. 60.000.000,- skal þá 1/3 af þeirri fjárhæð, eða kr. 20.000.000,- ráðstafað á móti áður fenginni viðbótarniðurfærslu Landsbankans.  Félagið nýtur því í ofangreindu dæmi áfram viðbótarniðurfærslu Landsbankans að fjárhæð 13.333.333, en það er sú viðbótarniðurfærsla sem félagið hefði fengið ef upphaflegur höfuðstóll biðlánsins hefði verið lægri en sem nemur kröfum félagsins og því verið kr. 40.000.000,- í stað kr. 100.000.000,-;

                (3) að verður eftirstöðvum krafna félagsins ráðstafað á móti öðrum kröfum Landsbankans á hendur félaginu skv. vali Landsbankans.“

                Með öðrum orðum hafi aðilar gert með sér samkomulag um hvernig ráðstafa ætti kröfum sem stefnandi kynni að eignast vegna ætlaðra gengistryggingar samninga.  Þessu ákvæði líti stefnandi hins vegar algjörlega fram hjá. Í samningnum komi fram að það sé forsenda stefnda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu að uppgjör aðila samkvæmt samningnum verði í samræmi við 6. gr. eignist félagið kröfur á hendur Landsbankanum, sbr. ákvæði 6. gr.  Þá beri enn fremur til þess að líta að í viðauka með uppgjörssamkomulaginu hafi lán nr. 14697 og 14698 verið afskrifuð að hluta.  Á grundvelli 6. gr. uppgjörssamkomulagsins sé einsýnt að ætluðum kröfum vegna endurútreiknings gengistryggðra lána beri að skuldajafna á móti afskrifuðum kröfum.  Stefndi telur að stefnandi geti ekki þegið afskriftir lána og síðar gert endurgreiðslukröfu vegna ólögmætrar gengistryggingar.  Hér verði með öðrum orðum ekki hvort tveggja haldið og sleppt.

                Stefndi mótmælir sérstaklega kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti, þ.m.t. upphafstíma vaxta.  Byggir stefndi á því að ekki sé grundvöllur að lögum fyrir vaxtakröfum og ekki hafi verið samið um heimild til handa stefnanda til að krefjast vaxta.

                Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Ágreiningur máls þessa lýtur að tveimur samningum, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf. og IOD ehf., nú stefnanda, dagsettum 27. ágúst 2008, en ágreiningslaust er að kröfum í málinu er réttilega beint að stefnda sem tók við framangreindum lánssamningum á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Annars vegar er um að ræða svokallaðan viðskiptalánasamning um reikningslánalínu nr. 11910 og hins vegar lánssamning nr. 11911. Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn ákvæðum laganna, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Aðila greinir á um hvort lán á grundvelli umdeildra samninga hafi verið lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu. 

Ákvæðum umdeildra samninga hefur verið lýst hér að framan.  Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þá samninga sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. 

Samkvæmt því ber fyrst að líta til þess, þegar metið er hvort samningur nr. 11910 hafi verið um lán á fjárhæð í íslenskum krónum sem bundin hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, að samningurinn var gerður um fyrirgreiðslu bankans við stefnanda með svonefndri reikningslánalínu, sem stefnanda yrði heimilt að ganga á.  Hvorki var í samningnum að finna yfirlýsingu stefnanda að hann stæði í skuld við bankann né að hann myndaði kröfuréttindi bankans á hendur stefnanda, heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu.  Fólust því lánssamningar í beiðnum hans, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lána.  Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum.  Í samningnum sjálfum er hann sagður vera í erlendum myntum og íslenskum krónum en ekki tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánið eigi að vera en skírskotað til óska lántaka við útborgun lánsins.  Í samningnum er gert ráð fyrir því að stefnandi leggi fram sérstakar útborgunarbeiðnir þar sem hann tilgreini þá mynt eða hlutföll mynta sem hann óski eftir að lánið verði greitt út í.  Fyrir liggur að stefnandi óskaði eftir láni í tilgreindum erlendum myntum í ádráttarbeiðni, án þess þó að fjárhæð myntanna væri þar tilgreind eða fjárhæð þess í íslenskum krónum.  Hins vegar óskaði stefnandi eftir því að láninu yrði ráðstafað til innborgunar á tilgreint erlent lán, nr. 8319.  Framlagðar greiðslukvittanir fyrir uppgreiðslu lánsins nr. 8319 bera það með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum.  Að framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að útborgun láns samkvæmt samningi nr. 11910 hafi verið ráðstafað til greiðslu á eldri skuldbindingum stefnanda við bankann í erlendum gjaldmiðlum.  Þá tilgreina tilkynningar um gjalddaga og kvittanir vegna afborgunar stefnanda af láninu nr. 11910 eingöngu erlendu gjaldmiðlana.  Vextir samkvæmt láninu voru til samræmis við að um erlent lán væri að ræða.  Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að lánið til stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.

Eins og að framan greinir var umdeildur lánssamningur nr. 11911 sagður vera um fjölmyntalán að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilgreindum erlendum myntum og er prósenta þeirra mynta tiltekin.  Í samningnum var gert ráð fyrir því að stefnandi legði fram sérstaka beiðni um útborgun lánsins.  Samkvæmt viðauka með samningnum var óskað eftir því að lánið yrði nýtt til uppgreiðslu á áður tilgreindu erlendu láni, nr. 8319, sem og til innborgunar á annað erlent lán og er það óumdeilt að svo var gert.  Hluta af láninu var síðan varið til greiðslu á íslensku láni.  Að því virtu verður að leggja til grundvallar að útborgun lánsins hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Í samræmi við ákvæði samningsins var lánsfjárhæðin eftirleiðis eingöngu tilgreind í erlendum gjaldmiðlum, sbr. tilkynningar um gjalddaga lánsins og kvittanir fyrir greiðslu þess.  Þá var fjárhæð lánsins einungis tilgreind í erlendum fjárhæðum í viðauka við lánssamninginn 27. október 2011, sem bendir til að viðhorf samningsaðila hafi verið að lánið hefði verið veitt í erlendum myntum.  Vextir samkvæmt láninu voru og til samræmis við að um erlent lán væri að ræða.  Að öllu þessu virtu verður lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Samkvæmt því verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Tölvulistans ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.