Hæstiréttur íslands

Mál nr. 612/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Þriðjudaginn 2. desember 2008.

Nr. 612/2008.

Þrotabú Jac-Pol ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Glaumi verktakafélagi ehf.

(Halldór H. Backman hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

G krafðist þess að þrotabúi J yrði gert að setja fram málskostnaðartryggingu vegna máls sem J höfðaði gegn G með stefnu birtri 18. október 2007. Það var fyrst í þinghaldi 16. september 2008 sem G varð ljóst að þrotabú J ætlaði framvegis að reka málið og gerði G þá þegar kröfu um málskostnaðartryggingu. Í úrskurði héraðsdóms, sagði að orðalag 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að krafa um málskostnaðartryggingu skuli koma fram við þingfestingu máls yrði ekki talið girða fyrir að slík krafa yrði tekin til greina, ef tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu kæmi fyrst fram eftir þingfestingu málsins. Skilyrðum b-liðar fyrrgreinds ákvæðis fyrir málskostnaðartryggingu var talið fullnægt enda hafði ekki verið sýnt fram á að þrotabúið hefði getu til að standa undir þeim kostnaði sem kynni að hljótast af málinu. Í dómi Hæstaréttar var jafnframt tekið fram að árangurslaust fjárnám hjá J 18. janúar 2007 auk kröfu tollstjóra um gjaldþrotaskipti, sem var afturkallað 30. maí 2007, hefðu ekki gefið G þá þegar í október 2007 tilefni til að krefjast málskostnaðartryggingar, að því viðlögðu að slík krafa yrði ekki síðar höfð uppi eftir að bú J hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þrotabúi J yrði gert að setja málskostnaðartryggingu, sem þótti hæfilega ákveðin 800.000 krónur.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fram í Hæstarétti, gerði sýslumaðurinn í Reykjavík 18. janúar 2007 árangurslaust fjárnám hjá Jac-Pol ehf. Í framhaldi af því krafðist tollstjórinn í Reykjavík að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en sú krafa var afturkölluð 30. maí 2007. Félagið höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 18. október 2007. Ekki verður litið svo á að þessi atvik hafi gefið varnaraðila tilefni til að krefjast þá þegar að félagið setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að því viðlögðu að slík krafa yrði ekki síðar höfð uppi eftir að bú þess hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði segir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, þrotabús Jac-Pol ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar byrjar að líða við uppsögu þessa dóms.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Glaumi verktakafélagi ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2008.

Í málinu er af hálfu stefnda, Glaums verktakafélags ehf., gerð sú krafa að stefnanda, Jack-Pol ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 2.000.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins. Stefnandi krefst þess aðallega að þessari kröfu stefnda verði hafnað, en til vara er þess krafist að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði ákvörðuð lægri en stefndi geri kröfu um. 

Stefnandi höfðaði málið á hendur stefndu með stefnu birtri 18. október 2007. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.119.927 krónur auk vaxta. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi lagði fram greinargerð í málinu 19. desember 2007 ásamt fjölda skjala. Krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Við fyrirtöku málsins 27. mars sl. upplýsti lögmaður stefnanda að stefnandi hefði verið tekinn til gjaldþrotaskipta og að Magnús Guðlaugsson hrl. hefði verið skipaður skiptastjóri búsins. Var málinu þá frestað til 9. maí sl. að ósk lögmanna í því skyni að skiptastjóri gæti kynnt sér málið og tekið afstöðu til þess. Í þinghaldi 9. maí sl. upplýsti lögmaður stefnanda að skiptastjóranum hefði verið send gögn málsins og upplýsingar um málavexti, en afstaða skiptastjórans lægi ekki fyrir. Var málinu þá frestað af sömu ástæðum til 10. júní sl., en þann dag var málinu frestað utan réttar til 16. september sl.  Í þinghaldi þann dag upplýsti lögmaður stefnanda að skiptastjórinn hefði lýst því yfir að þrotabúið tæki við rekstri málsins. Kvaðst lögmaðurinn munu ganga eftir því að fá staðfestingu þessa efnis frá skiptastjóranum. Í ljósi þessara upplýsinga gerði lögmaður stefnda kröfu um málskostnaðartryggingu, sem þegar var mótmælt af hálfu stefnanda. Var málinu þá frestað til framlagningar yfirlýsingar skiptastjóra og til umfjöllunar um köfuna um málskostnaðartryggingu til 13. þessa mánaðar og aftur frestað utan réttar til 22. þessa mánaðar. Var þá lögð fram yfirlýsing skiptastjóra um að þrotabúið hefði tekið við rekstri málsins fyrir dómi.

Krafa stefnda um málskostnaðartryggingu er reist á b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Andmæli stefnanda gegn þessari kröfu stefnda lúta að því að stefndi hafi ekki gert málskostnaðarkröfu þegar við þingfestingu málsins eins og lög mæli fyrir um.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Það var fyrst í þinghaldinu 16. september sl. sem stefnda varð ljóst að þrotabú stefnanda ætlaði framvegis að reka málið. Gerði stefndi þá þegar kröfu um málskostnaðartryggingu. Orðalag 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um að krafa skuli koma fram við þingfestingu máls verður ekki, með vísan til þess sem í greinargerð með lagaákvæðinu segir, talið girða fyrir að slík krafa verði tekin til greina, ef tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu kemur fyrst fram eftir þingfestingu málsins. Með hliðsjón af því að þrotabú stefnanda hefur nú tekið við rekstri málsins af upphaflegum stefnanda, þykir skilyrðum b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir málskostnaðartryggingu fullnægt, enda hefur ekki verið sýnt fram á að þrotabúið hafi getu til að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu kann að  hljótast.

Með hliðsjón af kröfum málsins og umfangi þess svo og áskilnaði stefnda í greinargerð um hugsanlega öflun mats dómkvaddra matsmanna í málinu þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 800.000 krónur. Ber stefnanda að setja tryggingu á þann hátt og innan þess frests, sem nánar greinir í úrskurðarorði.    

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

Stefnanda, Þrotabúi Jac-Pol ehf., er skylt innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 800.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Glaumi verktakafélagi ehf.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.