Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 10. maí 2011. |
|
|
Nr. 281/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. maí sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi áfram, allt til mánudagsins 6. júní 2011. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og að krafa hans um gæsluvarðhald yfir varnaraðila verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, allt til mánudagsins 6. júní 2011 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að aðfaranótt 3. maí sl. hafi lögreglan verið kvödd að [...] vegna gruns um að stúlka hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Á vettvangi hafi brotaþoli A, kt. [...] verið í uppnámi og skýrt frá því að ókunnugur maður hafi komið að henni, þar sem hún hafi kropið og verið að pissa, en hann hafi fyrirvaralaust rekið fingur inn í endaþarm hennar. Hafi hún “hrokkið” undan manninum en hann hafi hlegið og haft sig á brott. Hún hafi strax farið til vina sinna sem hafi verið skammt frá og sagt þeim frá því sem hafi gerst. Hafi hún sagst finna fyrir eymslum í endaþarmi eftir atvikið.
Framburður tveggja vitna sem hafi séð kærða hlaupa af vettvangi og upp í bifreið sína hafi leitt til handtöku hans í iðnaðarhúsnæði í [...] síðar um nóttina. Kærði hafi þá verið fáklæddur en blautir skór og fatnaður hafi fundist á staðnum.
Kærði hefi við yfirheyrslur hjá lögreglu játað að hafa sett tvo fingur í leggöng stúlku sem hafi verið að pissa á [...] umrædda nótt. Hann hafi séð hana og „ákveðið að káfa aðeins á henni.“ Segist hann hafa komið aftan að stúlkunni. Hafi hann talið stúlkuna hafa öskrað á sig og þau hafi „stokkið“ hvort í sína áttina. Aðspurður kveðist kærði hafa „viðurstyggð“ á athæfi sínu og um „fíflaskap“ hafi verið að ræða og „eitthvað langt út fyrir það.“ Kærði segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Í skýrslu sem tekin var af brotaþola lýsti hún atvikum í meginatriðum á sama veg og í frumskýrslu.
Í bráðabirgðalæknisvottorði um skoðun á brotaþola komi fram að hún hafi greint frá því að maður hafi stungið fingri í endaþarminn á henni. Hún hafi verið undir áhrifum áfengis en þó ekki áberandi ölvuð. Hún hafi getað gert grein fyrir því sem hafi gerst á skýran hátt. Greining samkvæmt vottorðinu sé „bráð bakraufarsprunga“ en áverkum sé lýst nánar í vottorðinu.
Vinir brotaþola hafa staðfest að hún hefði verið í uppnámi þegar hún kom til þeirra og greindi þeim frá því sem gerst hafði. Þau hafi strax farið að leita að manninum. Brotaþoli hafi sagt þeim nánar frá atvikinu eftir að hann hafði sig á brott á bifreiðinni og kvað hann hafa stungið fingrum upp í rassinn á henni.
Í upptökum úr eftirlitsmyndakerfi [...] sýni kærða við [...] og hluta atburðarrásarinnar eftir að kærði tók á rás í átt að [...]. Þá sjáist hann ganga aftur inn á [...] og ganga þar fram og aftur þar til hann verður var við annað vitnið en þá hleypur að bifreið sinni og ekur á brott. Eldri upptaka sé frá 24. mars sl. og sýnir kærða á og við [...]. Fannst öryggisvörðum háttarlag hans undarlegt og því fylgdust þeir með honum.
Lögreglustjóri vísar til þess að fyrir liggi fyrir játning kærða um að hafa framið kynferðisbrot gegn ungri stúlku sem hafi verið honum alls ókunnug. Samræmi sé á milli framburðar hennar og hans um það sem hafi gerst, þó hann telji sig hafa sett fingur í leggöng en ekki endaþarm. Áverkar við endaþarm, framburðir vitna og upptökur úr eftirlitskerfum að nokkru, styðji auk þess framburð brotaþola.
Fram sé kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Til þess sé að líta að um fullframin önnur kynferðismök sé að ræða og falli sú verknaðaraðferð sem beitt hafi verið undir ofangreinda málsgrein hegningarlaganna. Um grófa, fyrirvaralaust árás sé að ræða á almannafæri og hafi ásetningur kærða staðið til þess að beita stúlkuna kynferðislegu ofbeldi. Fyrir liggi að kærði sé leigubílstjóri í afleysingum en hann segist vera bifvélavirki og hafi því iðnaðarhúsnæði til umráða, en þar hafi hann verið handtekinn eins og áður segi.
Þegar litið sé til aðdraganda brotsins og eðlis þess að öðru leyti þyki ekki réttlætanlegt að kærði gangi laus.
Rannsókn málsins sé langt á veg komin. Óskað hafi verið eftir sálfræðimati á kærða.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með hliðsjón af játningu kærða, sem fær stuðning af rannsóknargögnum, er fullnægt því skilyrði að fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varðar allt að 16 ára fangelsi. Þegar litið er til málsatvika er hins vegar ekki fullnægt því skilyrði ákvæðisins að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Er því kröfu lögreglu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, er hafnað.