Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Fjárslit
- Kröfugerð
- Sakarefni
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2008. |
|
Nr. 10/2008. |
K(Björn L. Bergsson hrl.) gegn M (Ingólfur Hjartarson hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit. Kröfugerð. Sakarefni. Frávísun máls að hluta frá Héraðsdómi.
Skiptastjóri við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks beindi til héraðsdóms nánar tilgreindum ágreiningi við skiptin. Var talið að M hefði í kröfugerð sinni til héraðsdóms aukið við það sakarefni sem skiptastjóri hefði þannig vísað til úrlausnar dómsins og var þeim kröfum hans, sem þannig stóð á um, vísað frá héraðsdómi. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að við skiptin skyldi miðað við að tilteknar tvær sumarhúsalóðir væru sameign aðila í jöfnum hlutföllum, en að M teldist einn eigandi tiltekins sumarhúss á Íslandi og tveggja sumarhúsa á Spáni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2007, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi varðandi opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar aðilanna. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði til grundvallar við fjárslitin að aðilarnir séu sameigendur í jöfnum hlutföllum að íbúð, sem auðkennd er A á Spáni, fasteign í B á Spáni og sumarbústað á lóð nr. [...] úr landi C í D, en staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um að þau eigi að helmingi hvort lóðina undir síðastnefndum sumarbústað og leigulóðarréttindi að sumarbústaðarlóð merktri nr. [...] við E í landi F í G. Þá krefst sóknaraðili þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi kröfum varnaraðila um að lagt verði til grundvallar við fjárslitin að sóknaraðili sé eigandi íbúðar nr. 01-0202 ásamt bílgeymslu að H í I, að varnaraðili sé eigandi íbúðar nr. 01-0301 að J í I og að sóknaraðili standi í skuld við varnaraðila að fjárhæð 8.300.000 krónur. Til vara krefst sóknaraðili þess að hún verði sýknuð að svo stöddu af þessum síðastgreindum kröfum. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði aðallega staðfestur í öllum atriðum, en til vara um annað en áðurnefndar tvær fasteignir á Spáni, sem verði þá taldar í sameign aðilanna þannig að eignarhlutur sóknaraðila sé 5%, en varnaraðila 95%. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hófu aðilarnir, sem bæði eru fædd 1941, óvígða sambúð í ágúst 1990 á heimili varnaraðila og var hún skráð í þjóðskrá [...] 1991. Varnaraðili mun hafa verið skipstjóri á fiskiskipi fram til ársins 2002, en sóknaraðili starfað utan heimilis til 1995. Eiginkona varnaraðila hafði látist snemma árs 1990 og áttu þau uppkomin börn. Sóknaraðili kveður barnabarn varnaraðila hafa dvalið mikið á heimili þeirra frá upphafi sambúðarinnar, en þau hafi tekið það í fóstur 1993 og hún annast um það. Aðilarnir eignuðust ekki börn saman og lauk sambúð þeirra á árinu 2005. Samkvæmt kröfu varnaraðila var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness um opinber skipti til fjárslita milli þeirra 8. júní 2006.
Í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að sóknaraðili hafi engar eignir átt við upphaf sambúðar þeirra og er ekki að sjá að því hafi verið andmælt. Varnaraðili hafi á hinn bóginn átt hlut í skipinu, sem hann var skipstjóri á, auk fasteignar. Aðilarnir gerðu samning 22. september 1997, þar sem meðal annars var tekið fram að á sambúðartíma þeirra hafi „orðið eignaaukning.“ Þar var ákveðið að ef til sambúðarslita kæmi yrði eignum skipt á þann hátt að sóknaraðila fengi í sinn hlut íbúð að H í I og yrði hún án veðbanda, en þinglýst á nöfn beggja aðilanna í jöfnum hlutföllum. Þá átti sóknaraðili einnig að fá alla innbúsmuni, sem væru í íbúðinni, auk bifreiðar af gerðinni BMW 318 árgerð 1991 eða samsvarandi verðmæti. Í hlut varnaraðila áttu á hinn bóginn að koma allar aðrar eignir, þar á meðal eignarhlutinn í fyrrnefndu skipi.
Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var greint frá tekjum aðilanna samkvæmt skattframtölum allt frá 1997, þegar þau gerðu fyrrnefndan samning, til ársins 2004 og er það yfirlit tekið upp í heild í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því voru tekjur varnaraðila á þessu tímabili samtals 103.402.734 krónur auk arðs að fjárhæð 30.000.000 krónur. Tekjur sóknaraðila á sama tímabili voru alls 4.474.977 krónur, en á árinu 2004 fékk hún að auki greiddan arf að fjárhæð 3.533.012 krónur.
Af gögnum málsins verður ráðið að talsverðar breytingar hafi orðið á eignum aðilanna eftir gerð samningsins 1997. Varnaraðili kveður samstarfi um útgerð áðurnefnds fiskiskips hafa lokið á árinu 2002 og hluti hans í því þá orðið eign einkahlutafélagsins K, sem hann hafi einn verið eigandi að. Hann hafi síðan selt þetta félag í júlí 2005, en áður tekið þó til sín nokkrar eignir þess. Fyrir liggur að aðilarnir gerðu í sameiningu samning 14. september 2002 um kaup á íbúð í A á Spáni fyrir 154.760 evrur. Varnaraðili kveðst hafa greitt 79.930 evrur af kaupverðinu í sama mánuði og samningurinn var gerður, en fyrir eftirstöðvum þess hafi verið gefið út skuldabréf til tíu ára með veði í íbúðinni og hafi hann einn staðið straum af greiðslu afborgana og vaxta. Að auki gerðu aðilarnir bæði samning 13. maí 2003 um kaup á húsi í B á Spáni fyrir samtals 410.880 evrur. Varnaraðili kveður K ehf. hafa greitt 205.440 evrur af kaupverðinu 16. júní 2003 og 6.244,28 evrur 4. ágúst 2004, en þessi verðmæti hafi hann tekið til sín úr félaginu áður en hann seldi það. Varnaraðili kveðst hafa greitt eftirstöðvar kaupverðsins eftir að sambúð aðilanna var lokið og hafi þær að endingu numið 202.440 evrum. Staðhæfingum varnaraðila um þessar greiðslur á kaupverði fasteignanna tveggja á Spáni hefur ekki verið andmælt í málatilbúnaði sóknaraðila. Þá keypti varnaraðili á árinu 2005 íbúð að J í I, sem var þinglýst eign hans eins, en hann kveðst hafa greitt allt kaupverðið og er ekki að sjá að sóknaraðili hafi andmælt því. Auk þessa gerðu aðilarnir samning 4. ágúst 1999 um leigu á lóð undir sumarhús úr landi jarðarinnar F í G og fengu þau jafnframt afsal 29. ágúst 2004 fyrir sumarbústaðarlóð úr landi C í D. Ekki liggur fyrir hvernig staðið hafi verið að greiðslu leigu eða kaupverðs vegna þessara lóða, en aðilarnir eru nú á einu máli um að líta á þær sem sameign þeirra í jöfnum hlutföllum. Á síðarnefndu lóðinni hefur á hinn bóginn verið reist sumarhús, sem varnaraðili kveðst einn hafa greitt kostnaði af, en hann hafi fengið það ófullgert sem greiðslu skuldar í september 2003 og lagt síðan til fé til að ljúka smíð þess. Í gögnum málsins er þessu til viðbótar greint frá bifreiðum og hlutabréfum, sem aðilarnir höfðu eignast áður en sambúð þeirra lauk, en um þær eignir virðist ekki hafa staðið ágreiningur við fjárslitin. Þá liggur fyrir að við lok sambúðarinnar hafi aðilarnir enn verið þinglýstir eigendur áðurnefndrar íbúðar að H í I að helmingi hvort.
II.
Með bréfi 16. október 2006 beindi skiptastjóri við opinberu skiptin til fjárslita milli aðilanna ágreiningi, sem þar hafi risið, til úrlausnar Héraðsdóms Reykjaness og var mál þetta þingfest af því tilefni 14. desember sama ár. Í bréfinu var því lýst að ágreiningur stæði um hvaða dag aðilarnir hafi slitið sambúð, en að öðru leyti væru deilur uppi vegna krafna varnaraðila um að hann yrði einn talinn eigandi fyrrnefndrar íbúðar í A og húss í B á Spáni, svo og sumarhúsalóðarinnar úr landi F og sumarhússins og lóðarinnar úr landi C.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi var þess krafist að við fjárslitin yrði lagt til grundvallar að fasteignirnar tvær á Spáni og „sumarbústaðarlóð nr. [...] úr landi C í D, landnúmer lóðar [...]“ væru sameign aðilanna í jöfnum hlutföllum og auk þess leiguréttindi yfir sumarbústaðarlóðinni úr landi F. Varnaraðili krafðist þess á hinn bóginn í greinargerð í héraði að fasteignirnar á Spáni yrðu taldar að öllu leyti í hans eigu, svo og sumarbústaður á lóðinni úr landi C, en sumarbústaðarlóðirnar tvær í sameign aðilanna í jöfnum hlutföllum. Auk þessa krafðist varnaraðili þess að kveðið yrði á um að íbúðin að H í I ásamt bílgeymslu væri eign sóknaraðila, enda tæki hún að sér greiðslu tveggja tiltekinna veðskulda á íbúðinni, en varnaraðili myndi aflétta þremur tilgreindum veðskuldum. Enn fremur krafðist varnaraðili þess að lagt yrði til grundvallar við fjárslitin að íbúðin að J í I væri eign hans, svo og að sóknaraðili stæði í skuld við sig að fjárhæð 8.300.000 krónur.
Í máli, sem rekið er í héraði samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 20/1991 í tilefni af því að skiptastjóri við opinber skipti hafi beint ágreiningsefni til úrlausnar dómstóla eftir 122. gr. sömu laga, verða aðeins hafðar uppi kröfur um þau atriði varðandi skiptin, sem hann hefur lagt fyrir á þann hátt. Af framangreindu er ljóst að í máli þessu var aðilunum aðeins unnt að hafa uppi kröfur varðandi fasteignirnar tvær á Spáni, sumarbústað og lóð úr landi C og sumarbústaðarlóð úr landi F. Var þeim hvoru fyrir sig heimilt að hafa uppi sjálfstæðar kröfur um þessi efni, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991, en á grundvelli þessa lagaákvæðis var varnaraðila á hinn bóginn ekki fært að auka við sakarefni, sem skiptastjóri hafði beint til héraðsdóms. Þegar af þessum sökum verður að vísa frá héraðsdómi kröfum varnaraðila, sem varða íbúðirnar að H og J í I, svo og ætlaða skuld sóknaraðila við hann að fjárhæð 8.300.000 krónur.
III.
Í málinu er ekki uppi ágreiningur um að fyrrnefnd sumarbústaðarlóð úr landi C í D og leiguréttindi yfir slíkri lóð úr landi F í G skuli við fjárslit milli aðilanna teljast sameign þeirra í jöfnum hlutföllum. Dómkröfur sóknaraðila í greinargerð fyrir héraðsdómi, sem áður er lýst, beindust ekki að sumarhúsi á lóðinni úr landi C, en varnaraðili krafðist þess á hinn bóginn að lagt yrði til grundvallar við fjárslitin að hann væri einn eigandi að því. Sóknaraðili getur ekki fyrir Hæstarétti gert nýja kröfu í þessum efnum, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um sameign aðilanna í jöfnum hlutföllum að réttindum yfir báðum sumarhúsalóðunum, svo og að varnaraðili sé einn eigandi sumarhússins á lóðinni úr landi C.
Samkvæmt gögnum málsins, sem áður er lýst, stóðu aðilarnir bæði að gerð samninga á árunum 2002 og 2003 um kaup á íbúð í A og húsi í B á Spáni. Ekkert liggur fyrir um þinglýsingu eða aðra opinbera skráningu eignarréttinda að þessum fasteignum, en allt að einu verður að líta svo á að nægilega sé fram komið að heimildarskjöl um þessi réttindi kveði á um sameign aðilanna. Þótt þessar heimildir hafi sönnunargildi við úrlausn ágreinings aðilanna um eignarréttindi yfir fasteignunum geta þær ekki einar og sér leitt til niðurstöðu, en í þeim efnum ræður mestu, svo sem endranær við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar, hver framlög aðilanna hafi í raun verið við öflun þessara eigna. Eins og áður kom fram hefur varnaraðili staðhæft að hann hafi einn staðið straum af þeim hluta kaupverðs fasteignanna, sem greiddur hafði verið fyrir lok sambúðar aðilanna. Þessum staðhæfingum, sem eiga stoð í gögnum málsins, hefur ekki verið andmælt og hefur því heldur ekki verið borið við að féð, sem varið var til kaupanna, hafi átt rætur að rekja til annars en tekna varnaraðila eða andvirðis fyrri eigna hans. Ekki verður litið svo á að varnaraðili hafi gefið sóknaraðila helmingshlut í þessum eignum með því einu að þau hafi bæði verið tilgreind sem kaupendur að þeim í samningum um kaupin. Þótt sambúð aðilanna hafi staðið á annan áratug og óumdeilt er að fjárhagsleg samstaða hafi tekist með þeim verður ekki séð að sóknaraðili hafi lagt nokkuð til þessarar eignarmyndunar, sem leitt gæti til þeirrar niðurstöðu að fasteignirnar ættu að teljast sameign aðilanna. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að varnaraðili skuli teljast eigandi þessara tveggja fasteigna við fjárslit milli aðilanna.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfum varnaraðila, M, varðandi íbúð nr. [...] ásamt bílgeymslu að H og íbúð nr. [...] að J í I og um viðurkenningu á skuld sóknaraðila, K, við hann að fjárhæð 8.300.000 krónur.
Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2007.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 18. október 2006 frá skiptastjóra samkvæmt 112. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 122. gr. sömu laga. Málið var þingfest 14. desember 2006 en dómari sá sem fór með málið vék sæti í því 16. mars 2007. Undirritaður dómari fékk málið til meðferðar 21. mars 2007 og var það tekið til úrskurðar 29. nóvember sl..
Sóknaraðili er K, [kt. og heimilisfang] en varnaraðili er M, [kt. og heimilisfang].
Kröfur sóknaraðila eru þær að við skipti á búi aðila verði við það miðað að eignarhlutur þeirra í eftirtöldum fasteignum sé jafn:
1) A, Spáni,
2) B, Spáni,
3) Sumarbústaðarlóð nr. [..] úr landi C í D, landnúmer lóðar [...], og að leigulóðarréttindi í sumarbústaðalóð merkt nr. [...] við E, lóð úr landi F í G, séu í jöfnum hlutföllum.
Að auki krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega þær að úrskurðað verði að við yfirstandandi opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar aðila, skuli eftirfarandi eigna- og skuldaskipting m.a. lögð til grundvallar:
1. Íbúð [...] og bílageymslu [...] í húsi H í I sé eign sóknaraðila. Sóknaraðili yfirtaki áhvílandi lán á 3. og 4. veðrétti upphaflega að fjárhæð 2.500.000 krónur og 3.100.000 krónur en varnaraðili aflétti áhvílandi lánum á 1., 2. og 5. veðrétti upphaflega að fjárhæð 3.448.217, 1.500.000 og 3.300.000 krónur.
2. Íbúð [...] í húsi J í I sé eign varnaraðila.
3. Íbúð að A, Spáni, sé eign varnaraðila.
4. B, Spáni, sé eign varnaraðila.
5. Sumarbústaðalóð nr. [...] úr landi C í D, landnúmer lóðar [...] og leigulóðarréttindi í sumarbústaðalóð merkt nr. [...] við E, lóð úr landi F í G, séu eign aðila að jöfnu.
6. Sumarbústaður á landi nr. [...] úr landi C í D, landnr. lóðar [...], sé eign varnaraðila.
7. Viðurkennd sé skuld sóknaraðila við varnaraðila samtals að fjárhæð 8.300.000 krónur.
Til vara er krafist þess sama varðandi liði 1., 2., 5., 6. og 7. en að eignarhluti varnaraðila í eignum samkvæmt liðum 3 og 4 verði við skiptin talin 95% en sóknaraðila 5%. Áhvílandi skuldir skiptist í sama hlutfalli.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Varnaraðili var ekkjumaður og sat í óskiptu búi er aðilar kynntust og hófu sambúð 1990. Varnaraðili og eiginkona hans áttu þrjú börn, fædd 1964, 1965 og 1970 en að auki átti eiginkona varnaraðila einn son, fæddan 1961. Skráð sambúð aðila hófst 1991. Eftir að sambúð hófst greiddi varnaraðili syni eiginkonu sinnar út móðurarf með skiptagerð 31. janúar 1991.
Varnaraðili var helmingseigandi útgerðar og skipstjóri á L fram til ársins 2002 en sóknaraðili starfaði sem bókavörður við M til ársins 1995. Dótturdóttir varnaraðila, fædd 1982, var á heimili aðila frá upphafi sambúðar þeirra vegna veikinda dóttur varnaraðila og kveðst sóknaraðili hafa annast hana. Þann 18. september 1993 var gerður formlegur fóstursamningur um stúlkuna.
Þann 22. september 1997 gerðu aðilar með sér samning þar sem segir m.a. að þau hafi búið í óvígðri sambúð frá 1. ágúst 1991 og sitji varnaraðili í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Á sambúðartíma aðila hafi orðið eignaaukning. Síðan segir í 2. gr. samningsins:
,,Komi til sambúðarslita á milli okkar höfum við orðið ásátt um að skipta eignunum þannig:
Í hlut K kemur:
1. Íbúð að H, I. K skal fá íbúðina veðbandalausa. Íbúðin verður þó skráð á nafn okkar beggja í veðmálabókum í jöfnum eignarhlutföllum.
2. Bifreiðin [...], sem er af gerðinni BMW 318, árg. 1991 eða samsvarandi verðmæti úr búinu.
3. Allt innbú sem er í íbúðinni að H, I.
M skal fá allar aðrar eignir, þ.m.t. hlut í bátnum L.”
Í 3. gr. samningsins segir að samningur þessi verði aðeins virkur ef til slita á sambúð komi en ekki í öðrum tilfellum, s.s. við andlát.
Árið 2002 slitnaði upp úr samstarfi um útgerðina og var eignarhlutur varnaraðila í útgerðinni færður yfir í einkahlutafélagið N ehf. sem varnaraðili var einn eigandi að. Með einkaskiptagerð 21. ágúst 2002 var dánarbúi eiginkonu varnaraðila skipt milli erfingja. Í júlí 2005 seldi varnaraðili öll hlutabréf sín í N ehf. en áður hafði hann flutt yfir á sitt nafn nokkrar eignir sem tilheyrðu N ehf.
Aðilar deila um hvenær sambúðarslit hafi orðið en það er þó ekki til úrlausnar í þessu máli. Samkvæmt gögnum málsins virðast sambúðarslit hafa orðið á seinni hluta árs 2005.
Frá því að fyrrgreindur samningur aðila var gerður 22. september 1997 hafa tekjur aðila samkvæmt skattframtölum verið sem hér segir:
Ár M M arður K
frá N ehf.
1997 5.365.505 0
1998 7.145.954 264.858
1999 17.386.418 0
2000 10.979.878 0
2001 11.798.639 0
2002 8.083.312 2.008.860
2003 9.120.601 12.000.000 1.196.298
2004 3.522.727 18.000.000 1.004.061
Samtals 103.402.734 30.000.000 4.474.977
II.
Sóknaraðili heldur því fram að eftir að samningur aðila var gerður árið 1997 hafi orðið eignaaukning. Þannig hafi aðilar keypt fimm árum síðar með samningi 14. september 2002 íbúð í A á Spáni. Síðar hafi þau ákveðið með samningi 13. maí 2003 að kaupa hentugra húsnæði á Spáni og þá í borginni B. Þá hafi aðilar keypt sumarbústaðarlóð í landi C í D og fengið afsal fyrir lóðinni 29. ágúst 2004. Þau hafi flutt sumarhús á lóðina sem hafi verið í byggingu og varnaraðili hafi fengið upp í skuld. Þau hafi staðið saman að því að fullgera sumarbústaðinn og sé því verki ekki lokið. Áður hafi þau tekið á leigu sumarbústaðarland í landi F í G. Sá leigusamningur sé dagsettur 4. ágúst 1999 til 50 ára.
Allir þessir samningar séu gerðir af báðum aðilum og hafi þau í raun bæði tekið þátt í framangreindum kaupum.
Sóknaraðili telur að eignahlutföll í fasteignunum eigi ekki að ráðast af fjárframlögum aðila. Skýlaus gögn liggi frammi um að báðir aðilar hafi keypt allar þessar fasteignir sem um sé deilt í málinu. Eignaaukning hafi orðið eftir langan sambúðartíma aðila en þau hafi að öllu leyti haft með sér sameiginlegt fjárfélag á sambúðartíma. Framangreind kaup á fasteignum hafi verið gerð með hagsmuni beggja aðila í huga enda eignirnar ætlaðar sem dvalarstaður þeirra. Ekkert bendi til þess að þau hafi fyrirhugað að eiga umræddar eignir hvort um sig líkt og þau höfðu áður gert varðandi tiltekna eign samkvæmt samningi aðila frá 22. september 1997. Sóknaraðili hafnar því alfarið að fjármálum N ehf. sé blandað inn í fjárskipti aðila enda viðurkenni sóknaraðili að það fyrirtæki hafi verið eign varnaraðila. Löglíkur séu fyrir því að eignaskipting sé jöfn þegar aðilar eigi saman eign.
III.
Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið algjörlega eignalausa þegar aðilar hófu sambúð 1990. Samningurinn frá 22. september 1997 hafi verið gerður að frumkvæði sóknaraðila til að tryggja hlut hennar að ákveðnu marki kæmi til sambúðarslita. Þær eignir sem nú sé deilt um séu allar fjármagnaðar af fyrrum eignarhluta varnaraðila í útgerðinni sem síðar hafi runnið í félagið N ehf. Hér sé því um að ræða tilfærslu eigna en ekki eignaaukningu. Þá sé óumdeilt að varnaraðili eða fyrirtæki hans hafi lagt út fyrir öllum greiðslum vegna kaupa á þessum eignum og afborgunum lána vegna kaupanna enda hafi sóknaraðili verið nánast tekjulaus eða tekjulítil öll árin frá 1997 til sambúðarslita. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um dvöl ættingja varnaraðila til langframa á heimili þeirra. Heimilishald hafi þvert á móti verið létt. Hinn mikli tekjumunur aðila frá 1997 hafi leitt til þess að varnaraðili hafi greitt fyrir nánast allt heimilishald auk þess að leggja fram fjármuni til sóknaraðila til persónulegra þarfa. Því hafi ekki verið um fjárhagslega samstöðu að ræða sem komi best fram í því að varnaraðili hafi setið í óskiptu búi með þremur uppkomnum börnum sínum allt til ágústmánaðar 2002.
Varnaraðili telur að þinglýsing íbúðar og húss á Spáni á nafni beggja aðila ráði hér ekki úrslitum um eignarhald. Varnaraðili synjar fyrir það að um gjöf hafi verið að ræða. Samningar hafi verið á spænsku og hafi hann talið að krafist væri áritunar maka eða sambýliskonu. Auk þess hafi það alltaf legið fyrir að afsalshafi að húsinu á Spáni yrði fyrirtæki hans, N ehf., þótt hann hefði af hagkvæmnisástæðum ritað á kaupasamninginn.
Þó að greiðsla vegna sumarhúsalóðanna hafi komið frá varnaraðila fellst hann á eignarhlut aðila að jöfnu annars vegar á lóðinni nr. [...] úr landi C í D og hins vegar á leigulóðarréttindum á sumarbústaðalóð merkt nr. [...] við E, lóð úr landi F, G. Varnaraðili telur hins vegar að hann sé einn eigandi að sumarhúsi því sem stendur á ofangreindri lóð, sbr. framlagt afsal þar að lútandi.
Varðandi varakröfu sína vísar varnaraðili til sömu sjónarmiða og hér að framan greinir. Krafa sóknaraðila um hlutdeild í íbúð og húsi á Spáni byggist annars vegar á þinglýstum kaupsamningi og afsali vegna íbúðarinnar og hins vegar á óþinglýstum kaupsamningi um hús í smíðum. Hvergi sé getið um hvernig eignarhlutur eigi að skiptast milli aðila. Óumdeilt sé að allar greiðslur hafi komið frá varnaraðila og fyrirtæki hans og því hafni varnaraðili að um einhverja gjöf til sóknaraðila hafi verið að ræða. Meintur eignarhlutur sóknaraðila hljóti að byggjast á hugsanlegri verðmætaaukningu í fasteignunum. Enginn gögn hafi hins vegar verið lögð fram þar að lútandi. Telur varnaraðili að leiða megi að því nokkuð áreiðanlegar líkur að frekar sé um tap að ræða á þessari fjárfestingu. Ef á annað borð verði talið eðlilegt að sóknaraðili eignist hlut í þessum eignum, telur varnaraðili að það hlutfall geti ekki farið yfir 5%. Verði það niðurstaðan hljóti sóknaraðili einnig að verða ábyrg fyrir áhvílandi skuldum að sama hlutfalli.
Einstaka kröfuliði útskýrir varnaraðili að öðru leyti með eftirfarandi hætti:
Það sé í samræmi við samning aðila frá 22. september 1997 að íbúðin að H, I, komi í hlut sóknaraðila. Samkvæmt þeim samningi hafi varnaraðili tekið að sér að aflétta veðböndum af eigninni á 1. og 2 veðrétti. Veðbönd á 3. til 5. veðrétti séu tilkomin vegna veðheimilda er aðilar hafi veitt börnum og barnabörnum sínum. Telur varnaraðili eðlilegt að sóknaraðili yfirtaki við skiptin veðbönd þau sem varði hennar barn en varnaraðili veðband það sem varði hans barnabarn.
Varnaraðili kveðst hafa keypt íbúðina að J haustið 2005 og þá hafi hún verið þinglýst á hans nafn. Óumdeilt sé að hann hafi greitt allt kaupverðið.
Kaupverð íbúðarinnar á Spáni hafi verið 154.760 evrur og hafi hann greitt í september 2002 79.930 evrur en 74.830 evrur hafi hann greitt af söluandverði skuldabréfs sem hafi verið gefið út með veði í íbúðinni. Varnaraðili hafi greitt afborganir og vexti af lánunum sem og annan kostnað af íbúðinni. Hann hafi greitt mánaðarlega 1.700 evrur og vísar í því sambandi við framlagðra skjala. Í þessu sambandi telur varnaraðili að skráning sóknaraðila á kaupsamning og afsal breyti engu. Ekki hafi verið um gjöf að ræða til sóknaraðila frá varnaraðila og beri eingöngu að líta til þess hver hafi fjármagnað kaupin. Ljóst sé að sóknaraðili hafi enga fjármuni lagt fram við kaupin né tekið þátt í greiðslu afborgana og vaxta á áhvílandi lánum og öðrum kostnaði sem tengist íbúðinni. Hugsanleg hlutdeild sóknaraðila geti því einungis byggst á eignaaukningu vegna almennra hækkana á verði íbúðar á Spáni en þá verði einnig að taka tillit til tapaðra vaxta af þeim fjármunum sem varnaraðili hafi innt af hendi vegna íbúðarinnar.
Varðandi húsið á Spáni segir varnaraðili að það hafi verið keypt í byggingu og hafi hluti kaupverðs verið greiddur 16. júní 2003 af fyrirtæki varnaraðila, N ehf., með 205.440 evrum. Þann 3. ágúst 2004 hafi til viðbótar verið greiddar 6.244,28 evrur. Hafi varnaraðili litið á þessi kaup sem fjárfestingarkost fyrir N ehf. Afhending og afsal hafi átt að eiga sér stað í byrjun árs 2006 en byggingaraðili hafi krafist þess að sóknaraðili áritaði einnig afsal. Til þess að kaupunum yrði ekki rift hafi varnaraðili greitt eftirstöðvar kaupverðs að fjárhæð 202.440 evrur án þess að fá afsal útgefið. Varnaraðili vísar til sömu röksemda og fram koma hér að framan varðandi kaup á íbúðinni á Spáni.
Varnaraðili fellst á kröfur sóknaraðila um að lóðirnar teljist sameign aðila að jöfnu.
Varnaraðili kveðst hafa keypt sumarhús það sem standi á lóð í landi C í D. Hann hafi einn greitt fyrir þennan sumarbústað og annast flutning hans svo og framkvæmdir við húsið.
Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi viðurkennt að skulda honum 8.300.000 krónur og vísar varnaraðili til fundargerðar frá skiptafundi þann 5. október 2006.
IV.
Aðilar hófu sambúð 1990 á heimili varnaraðila í O. Varnaraðili var þá ekkjumaður og átti þrjú uppkomin börn með eiginkonu sinni en hún átti eitt barn áður. Það barn fékk móðurarf sinn greiddan á árinu 1991. Dánarbúi eiginkonu varnaraðila var skipt 21. ágúst 2002. Deilt er um hvenær sambúðarslit hafi orðið en sá ágreiningur er ekki til úrlausnar hér en samkvæmt gögnum málsins virðast sambúðarslit hafa orðið á seinni hluta árs 2005.
Óumdeilt er að sóknaraðili var eignalaus er aðilar hófu sambúð. Þá er einnig óumdeilt að varnaraðili átti íbúðarhús og helmingshlutdeild í útgerð við upphaf sambúðar. Útgerðinni var skipt upp 2002 og eignarhlutur varnaraðila í henni færður undir félagið N ehf. sem varnaraðili var einn eigandi að. Í júlí 2005 seldi varnaraðila öll hlutabréf sín í félaginu. Fyrir liggur í málinu að aðilar keyptu saman annars vegar 14. september 2002 íbúð á Spáni og hins vegar 13. maí 2003 íbúðarhús í byggingu í sama landi. Eru þau bæði skráðir eigendur samkvæmt framlögðum kaupsamningum. Þá liggur einnig fyrir í málinu að mikill tekjumunur var milli aðila á sambúðartímanum. Frá því samningur aðila frá 22. september 1997 var gerður og til ársloka 2004 hafði varnaraðili 103.402.734 krónur í tekjur og að auki 30.000.000 í arðgreiðslur frá N ehf. meðan sóknaraðila hafði 4.474.977 krónur í tekjur fyrir sama tímabil. Þá liggur fyrir samningur aðila frá 22. september 1997 þar sem segir að komi til sambúðarslita aðila skuli sóknaraðili eiga íbúð að H, I, tiltekna bifreið eða samsvarandi fjárverðmæti úr búinu svo og allt innbú að H. Varnaraðili skyldi hins vegar eiga allar aðrar eignir.
Það hefur verið talin meginregla í íslenskum rétti um skiptingu eigna og skulda við slit á óvígðri sambúð að hvor aðili um sig teljist eiga þau verðmæti sem hann kemur með inn í sambúðina og þau verðmæti sem hann eignast á sambúðartímanum. Þinglýsing eignarheimilda og aðrar opinberar skráningar veita vísbendingu um eignarráð en leiða þó ekki þegar til þeirrar niðurstöðu að skráður eigandi eigi hlut í eign. Sá sem heldur öðru fram ber sönnunarbyrðina fyrir því að eignarráð séu önnur en skráðar eignarheimildir segja til um. Í þessu máli háttar svo til að allt fé til kaupa á framangreindum fasteignum kom frá varnaraðila málsins eða fyrirtæki hans en ekkert frá sóknaraðila. Þegar það er virt og höfð hliðsjón af samningi aðila 22. september 1997, sem kvað á um að varnaraðili skyldi eiga allar eignir aðrar en íbúð að H, I, bifreið og innbú, verður að fallast á kröfur varnaraðila í málinu.
Verður nú fjallað um einstaka kröfuliði. Sóknaraðili hefur ekki mótmælt að í hennar hluti komi íbúð í H, I. Þá hefur sóknaraðili ekki mótmælt að hvor aðili yfirtaki þær skuldir sem þeim tilheyra en óumdeilt er að veðbönd á 3. til 5. veðrétti íbúðarinnar eru tilkomin vegna veðheimilda sem aðilar veittu börnum sínum og barnabörnum en veðbönd á 1. og 2. veðrétti tilheyra varnaraðila og samkvæmt samningi aðila frá 22. september 1997 skuldbatt hann sig til af aflétta þeim veðböndum. Sem áður sagði hefur sóknaraðili ekki mótmælt þessari kröfu varnaraðila og verður því fallist á með varnaraðila að sóknaraðili yfirtaki lán á 3. og 4. veðrétti en varnaraðili aflétti lánum af 1., 2. og 5. veðrétti.
Sóknaraðili hefur ekki mótmælt því að íbúð í húsi J í I komi í hlut varnaraðila enda óumdeilt að hann greiddi allt kaupverð hennar haustið 2005 eftir eða um það leyti er aðilar slitu sambúð.
Varðandi íbúð og hús á Spáni vísast til þess sem áður sagði að þrátt fyrir skráða eignarheimild sóknaraðila þyki sannað í málinu að varnaraðili stóð einn að greiðslu kaupverðs fasteignanna. Ber því að taka til greina þessa kröfu varnaraðila um að við það skuli miða við opinber skipti aðila að íbúð í A Spáni og hús í B á Spáni skuli koma í hans hlut.
Ekki er deilt um að tvær sumarbústaðalóðir, annars vegar úr landi C í D og hins vegar úr landi F í G, skulu vera eign aðila að jöfnu. Verður sú krafa aðila tekin til greina.
Deilt er um sumarbústað á lóð nr. [...] í landi C í D en varnaraðili fellst ekki á kröfu sóknaraðila um að aðilar eigi hana að jöfnu. Fyrir liggur í málinu afsal dagsett í september 2003 þar sem bústaðnum er afsalað til varnaraðila og að kaupverð sé 2.500.000 krónur. Varnaraðili heldur því fram að hann hafi fengið bústaðinn greiddan upp í skuld. Vísast til þess sem áður sagði að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á framlag sitt til kaupa á þessum sumarbústað og ber því að fallast á kröfur varnaraðila varðandi þetta atriði.
Varnaraðili gerir þá kröfu að viðurkennt verði að skuld sóknaraðila við varnaraðila sé samtals 8.300.000 krónur. Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili greiddi sóknaraðila 8. júní 2006 5.000.000 krónur sem greiðslu upp í hennar hlut í búinu. Þann 10. júní 2004 fékk hún lán hjá N ehf. að fjárhæð 2.000.000 króna. Þá heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi tekið út af sameiginlegum reikningi aðila 1.300.000 krónur eftir sambúðarslit aðila. Sem áður sagði hefur þessum staðhæfingum varnaraðila ekki verið mótmælt og var bókað á skiptafundi 5. október 2006 að ekki virtist vera ágreiningur með aðilum um þessa skuld sóknaraðila við varnaraðila. Þessi kröfuliður varnaraðila verður því tekinn til greina.
Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á kröfur varnaraðila í málinu.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili úrskurðuð til að greiða varnaraðila málskostnað að fjárhæð 350.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar sóknaraðila, K og varnaraðila, M skali miða við eftirfarandi eigna- og skuldaskipti:
1. Íbúð [...] og bílageymslu [...] í húsi H í I sé eign sóknaraðila. Sóknaraðili yfirtaki áhvílandi lán á 3. og 4. veðrétti upphaflega að fjárhæð 2.500.000 krónur og 3.100.000 krónur en varnaraðili aflétti áhvílandi lánum á 1., 2. og 5. veðrétti upphaflega að fjárhæð 3.448.217, 1.500.000 og 3.300.000 krónur.
2. Íbúð [...] í húsi J í I sé eign varnaraðila.
3. Íbúð að A, Spáni, sé eign varnaraðila.
4. Íbúðarhús að B, Spáni, sé eign varnaraðila.
5. Sumarbústaðalóð nr. [...] úr landi C í D, landnúmer lóðar [...] og leigulóðarréttindi í sumarbústaðalóð merkt nr. [...] við E, lóð úr landi F í G, séu eign aðila að jöfnu.
6. Sumarbústaður á landi nr. [...] úr landi C í D, landnr. lóðar [...], sé eign varnaraðila.
7. Viðurkennd er skuld sóknaraðila við varnaraðila samtals að fjárhæð 8.300.000 krónur.
Sóknaraðil greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.