Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 5. maí 2014. |
|
Nr. 250/2014. |
Birna Fahning Arnarsdóttir (Þórður Heimir Sveinsson hdl.) gegn Inga
Arnari Pálssyni (Hlöðver Kjartansson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kært var
ákvæði í dómi héraðsdóms um að vísa frá dómi varakröfu í máli B á hendur I um
bætur vegna vanefnda á samningi aðilanna. Í úrskurði héraðsdóms var ekki talið
að B hefði gert með fullnægjandi hætti grein fyrir málsástæðum sínum fyrir
varakröfunni eða þeim gögnum sem lægju henni til grundvallar. Þá lægi hvorki
fyrir að B hefði orðið fyrir tjóni né í hverju ætlað tjón hennar fælist. Í dómi
Hæstaréttar var því á hinn bóginn slegið föstu að ráðið yrði af stefnu málsins
og fyrirliggjandi gögnum hverjar málsástæður B fyrir varakröfunni væru og hvaða
atvik B teldi skipta máli til þess að samhengi þeirra væri ljóst. Væri lýsing B
á málsatvikum, svo og tilgreining málsástæðna og lagaraka að öðru leyti,
nægilega glögg og studd fullnægjandi gögnum til þess að ekki færi á milli mála
hvert sakarefnið væri. Var ákvæði hins kærða dóms því fellt úr gildi og lagt
fyrir héraðsdómara að taka kröfu B til efnismeðferðar.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Suðurlands 21. mars 2014 um að vísa frá dómi varakröfu sóknaraðila í máli hans á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um frávísun verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnisdóms að því leyti. „Jafnframt að niðurstaða um dæmdan málskostnað í héraði verði felld úr gildi að sama skapi og dæmdur á ný.“ Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest og sóknaraðila gert að greiða honum kærumálskostnað.
I
Eins og nánar greinir í héraðsdómi á mál
þetta rætur að rekja til kaupa varnaraðila á íbúð sóknaraðila að Hábergi 7 í Reykjavík
á árinu 2008. Samkvæmt undirrituðu kauptilboði 15. apríl 2008 var kaupverðið
20.600.000 krónur og skyldi varnaraðili greiða 4.510.000 krónur við undirritun
kaupsamningsins. Voru eftirstöðvar kaupverðsins fjármagnaðar með yfirtöku
varnaraðila á áhvílandi láni Íbúðalánasjóðs að fjárhæð 15.577.818 krónur og með
nýju láni að fjárhæð 512.182 krónur. Var afsal vegna kaupanna undirritað 18.
apríl 2008. Um atvik máls að öðru leyti greinir aðila nokkuð á. Af gögnum
málsins verður þó ráðið að óumdeilt sé að varnaraðili innti ekki af hendi 4.510.000
krónur sem greiða skyldi við undirritun kaupsamningsins. Er og óumdeilt að
sóknaraðila var gert að greiða fjármagnstekjuskatt árið 2011 að fjárhæð 624.264
krónur vegna hagnaðar við sölu íbúðarinnar og gerði hún samkomulag við
tollstjóra 6. janúar 2012 um að greiða skuldina með sjö greiðslum.
Í málinu liggur fyrir að aðila greindi nokkuð á um uppgjör vegna viðskiptanna. Þau undirrituðu samkomulag 21. nóvember 2011 í fjórum liðum, en samkvæmt öðrum lið þess skyldi varnaraðili greiða sóknaraðila 624.264 krónur vegna fjármagnstekjuskattsins, sem lagður var á sóknaraðila, og skyldi sóknaraðili í staðinn falla frá öllum kröfum á hendur varnaraðila vegna kaupsamningsins. Er upplýst að varnaraðili hefur ekki innt af hendi greiðslu samkvæmt 2. lið samkomulagsins.
II
Í málinu gerði sóknaraðili þá kröfu
aðallega að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér ,,skuld samkvæmt
kaupsamningsgreiðslu“ að fjárhæð 4.454.378 krónur vegna kaupa varnaraðila á
áðurgreindri fasteign. Var krafan á því reist að þar sem varnaraðili hefði ekki
staðið við 2. lið samkomulagsins 21. nóvember 2011 hefði raknað við krafa
hennar á hendur varnaraðila um útborgun kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum. Til
vara gerði sóknaraðili kröfu um bætur að fjárhæð 473.073 krónur. Var sú krafa
reist á 2. lið samkomulagsins, þar sem varnaraðili samþykkti að greiða
fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 624.264 krónur, og miðaðist endanleg krafa við stöðu
skuldar sóknaraðila við tollstjóra 22. febrúar 2014, sem þá var 473.073 krónur.
Með héraðsdómi var varnaraðili
sýknaður af aðalkröfu sóknaraðila. Á hinn bóginn var varakröfu sóknaraðila vísað
frá dómi án kröfu. Taldi héraðsdómur að skort hefði á að gerð væri fullnægjandi
grein fyrir því í stefnu hverjar væru málsástæður fyrir kröfunni og hvaða gögn
lægju þeim til grundvallar. Hefði sóknaraðili hvorki leitt líkur að því að hann
hefði orðið fyrir tjóni, né í hverju tjón hans hafi falist eða orsakatengslum.
Taldi héraðsdómur málatilbúnað sóknaraðila, hvað varakröfuna varðar, ekki
uppfylla skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og
glöggan málatilbúnað og að úr þeim annmörkum hefði ekki verið bætt við meðferð
málsins.
III
Af stefnu og gögnum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins í héraði verður ráðið hverjar málsástæður sóknaraðila fyrir varakröfunni eru og hvaða atvik sóknaraðili telur skipta máli til þess að samhengi þeirra sé ljóst, þótt málavaxtalýsing sé að sumu leyti óskýr. Sóknaraðili byggir þannig á því að verði varnaraðila ekki gert að greiða skuld vegna vanefnda á greiðslu kaupverðsins sé hann í öllu falli skuldbundinn til þess að greiða fjármagnstekjuskattinn, sem á sóknaraðila var lagður vegna fasteignaviðskiptanna, í samræmi við samkomulagið 21. nóvember 2011. Þessi lýsing, svo og tilgreining á málsástæðum og lagarökum að öðru leyti, er nægilega glögg og studd fullnægjandi gögnum til þess að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið er. Er krafan þannig nægilega skýr til að á hana verði lagður dómur. Varnaraðili tók til efnisvarna og verður ekki séð að framangreindur óskýrleiki hjá sóknaraðila hafi gert varnaraðila erfitt um vik í þeim efnum. Voru því ekki nægjanleg efni til að vísa varakröfu sóknaraðila frá dómi vegna vanreifunar, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði hins kærða dóms um frávísun varakröfu sóknaraðila verður því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka hana til efnismeðferðar. Að virtri 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki skilyrði fyrir hendi til að taka til endurskoðunar ákvörðun héraðsdóms um málskostnað sem fylgdi efnisdómi hans.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða dóms um frávísun
varakröfu sóknaraðila, Birnu Fahning Arnarsdóttur, er
fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Ingi Arnar Pálsson,
greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. mars 2014.
Mál þetta, sem þingfest var þann 5.
júní 2013 og dómtekið þann 25. febrúar sl., er höfðað af Birnu Fahning Arnarsdóttur, kennitala 111086-2229, til heimilis
að Suðurhólum 26, Reykjavík, með stefnu birtri þann 30. maí 2013, á hendur Inga
Arnari Pálssyni, kennitala 260652-3119, til heimilis að Klettagljúfri 8,
Sveitarfélaginu Ölfusi.
Dómkröfur
Stefnandi
gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld samkvæmt
kaupsamningsgreiðslu vegna kaupa á fasteigninni Hábergi 7, Reykjavík, að
fjárhæð 4.454.378 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2009 til greiðsludags. Þá er
þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti
samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta sinn 5. júní 2010.
Endanleg
varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda
efndabætur að fjárhæð 473.073 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2011 til 1. september 2011,
en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr.
vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir
leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, í
fyrsta sinn 1. september 2012.
Þá
krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts samkvæmt
mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af aðalkröfu stefnanda, en til vara skuldajöfnuðar.
Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af varakröfu stefnanda en til vara skuldajöfnuðar.
Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Þá er
krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum
málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Eins og
áður er rakið var mál þetta þingfest þann 5. júní 2013. Í framangreindu
þinghaldi var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu stefnda
til 4. september sama ár. Þann dag lagði stefndi fram greinargerð. Í fyrsta
þinghaldi eftir úthlutun, þann 17. október 2013, var ekki mætt af hálfu
stefnanda og málið því fellt niður að kröfu stefnda. Lögmaður stefnanda óskaði endurupptöku
málsins og vísaði til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, sbr. a. lið 1. mgr.
sömu greinar. Fallist var á kröfu stefnanda í þinghaldi þann 21. nóvember 2013.
Að beiðni lögmanna aðila var málinu frestað til sáttatilrauna til 25. febrúar
2014. Sættir tókust ekki með aðilum og fór aðalmeðferð fram á fyrrnefndum degi
og var málið dómtekið þann sama dag.
Málsatvik
Óumdeilt er að upphaf þessa máls
má rekja til þess að stefnandi keypti íbúð að Hábergi 7 í Reykjavík með
kaupsamningi dagsettum 20. mars 2007, og var kaupverð 16.700.000 krónur. Afsal til handa stefnanda
var dagsett 12. júní 2007. Þá liggur fyrir að aðilar málsins undirrituðu þann
15. apríl 2008 kauptilboð stefnda í áðurnefnda íbúð að Hábergi 7. Samkvæmt
kauptilboðinu var kaupverð íbúðarinnar 20.600.000 krónur. Kaupsamningsgreiðsla
var tilgreind 4.510.000 krónur og yfirtók stefndi áhvílandi lán Íbúðalánasjóðs
að eftirstöðvum 15.577.818 krónur, auk þess sem kaupin voru fjármögnuð með láni
hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 512.182 krónur. Kaupsamningur liggur ekki frammi
og upplýst var að hann var ekki gerður. Samkvæmt gögnum málsins undirrituðu
aðilar afsal vegna kaupanna þann 18. apríl 2008.
Loks er óumdeilt að þann 21. nóvember 2011 gerðu
aðilar málsins með sér samkomulag vegna framangreindra fasteignaviðskipta.
Málshöfðun þessi á rót að rekja til framangreindra viðskipta og greinir aðila
málsins verulega á um atvik að baki viðskiptunum.
Í stefnu segir að stefnandi hafi fyrst búið ein í
íbúðinni en síðar faðir hennar og annar maður sem greitt hafi leigu. Afborganir
vegna húsnæðislánsins hafi verið með sérstæðum hætti því leggja hafi þurft
greiðslur af láninu inn á bankareikning í eigu móður stefnanda, sem jafnframt
er sambýliskona stefnda, og skyldi sú fyrrnefnda sjá um að greiða af húsnæðisláninu.
Stefnandi heldur því fram að miðað við þær greiðslur sem lagðar voru inn á
bankareikninginn virðist sem ekki hafi verið greitt af láninu og vanskil orðið.
Í framhaldi af því hafi stefnandi verið undir miklum þrýstingi af hálfu stefnda
að selja íbúðina.
Í greinargerð stefnda er atvikum lýst þannig að þar
sem stefnandi hafi ekki haft fjárhagslega burði til kaupa á húsnæði árið 2007
hafi raunverulegir eigendur íbúðarinnar verið stefndi og sambýliskona hans,
móðir stefnanda, þó svo stefnandi hafi verið skráð fyrir íbúðinni. Stefndi hafi
greitt kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 1.985.000 krónur, auk þess sem hann og
móðir stefnanda hafi greitt ýmsar aðrar kröfur fyrir stefnanda. Þar sem
stefnandi hafi ekki staðið við samkomulag um að greiða af húsnæðisláninu hafi
lánið farið í vanskil.
Í stefnu segir að það hafi orðið
ofan á að stefnandi seldi stefnda umrædda íbúð og hafi stefnandi samþykkt
kauptilboð stefnda þann 15. apríl 2008. Þegar stefnandi hafi spurst fyrir um
kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 4.510.000 krónur hafi stefndi lýst því yfir að
aðeins væri um að ræða tölur á blaði sem stefnandi ætti ekki að velta fyrir sér
enda kæmi ekkert í hlut stefnanda. Afsal hafi síðan verið gefið út til stefnda
þann 18. apríl 2008, þrátt fyrir að stefndi hafi ekki greitt framangreinda
kaupsamningsgreiðslu til stefnanda enda hafi stefnandi engu ráðið um söluna
vegna áhrifavalds stefnda og sambýliskonu hans. Stefnandi, sem hafi verið um
tvítugt, hafi lítið þekkt inn á fasteignaviðskipti og treyst stefnda. Síðar
hafi stefnandi gert sér grein fyrir að hún ætti eignarhlut í íbúðinni vegna
hækkunar fasteignaverðs. Síðar hafi komið í ljós, að þar sem stefnandi seldi
íbúðina innan tveggja ára frá kaupum, hafi skattstjóri, á árinu 2011, ákvarðað
stefnanda skatt vegna söluhagnaðar að fjárhæð 624.264 krónur auk þess sem
stefnandi hafi misst barnabætur og húsaleigubætur.
Stefndi lýsir atvikum að baki
kaupum á umræddri íbúð árið 2008 þannig að verðmat fasteignasölunnar Lyngvíkur,
sem sá um framangreind viðskipti, hafi frekar byggst á því að mögulegt væri
fyrir stefnda að fá viðbótarlán frá Íbúðalánasjóði en að um væri að ræða
raunverulega hækkun á markaðsvirði íbúðarinnar. Hækkun á verði íbúðarinnar frá
fyrri sölu hafi haft þann eina tilgang að gera viðskiptin möguleg og því hafi enginn
raunverulegur söluhagnaður orðið af sölunni og það hafi aðilum máls verið ljóst
frá upphafi.
Eins og áður er rakið gerðu aðilar málsins með sér
samkomulag í fjórum liðum vegna framangreindra viðskipta þann 21. nóvember
2011. Óumdeilt er að stefndi hefur staðið við 1., 3. og 4. lið samkomulagsins,
en ekki við lið 2, þar sem hann samþykkti að greiða fjármagnstekjuskatt vegna
söluhagnaðar stefnanda vegna sölu íbúðarinnar til stefnda, að fjárhæð 624.264
krónur. Þá liggur fyrir að þann 6. janúar 2012 gerði stefnandi samkomulag við
tollstjóra, svokallaða greiðsluáætlun, um að greiða skuldina með sjö greiðslum
fyrri hluta árs 2012. Einnig er óumdeilt að skuld stefnanda við tollstjóra var
473.073 krónur þann 22. febrúar 2014, sem er endanleg varakrafa stefnanda og
upplýsti stefnandi við aðalmeðferð málsins að lækkun kröfunnar stafaði af inneign
stefnanda í skattkerfinu.
Málsástæður
og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðalkröfu um kaupsamningsgreiðslu
að fjárhæð 4.454.378 krónur á því að þar sem stefndi hafi ekki staðið við 2.
lið samkomulags aðila frá 21. nóvember 2011, hafi raknað við krafa stefnanda á
hendur stefnda um útborgunargreiðslu kaupsamnings aðila um íbúðina að Hábergi 7
að fjárhæð 4.510.000 (4.454.378) krónur. Ljóst hafi verið af hálfu stefnanda að
samkomulagið frá 21. nóvember 2011 hafi átt að koma í stað kröfu stefnanda um
kaupsamningsgreiðsluna og ef stefndi stæði ekki við samkomulagið myndi
stefnandi krefjast greiðslunnar. Vísar stefnandi í því sambandi til bréfs
lögmanns stefnanda til stefnda, dagsett 1. september 2011, þar sem gerð var
krafa um bætur til handa stefnanda vegna íbúðarkaupanna, en í lok bréfsins hafi
verið kveðið á um að ekki yrði gerð krafa á hendur stefnda um efndir
kaupsamningsgreiðslunnar að svo stöddu ef staðið yrði við að greiða stefnanda
bætur vegna sölunnar. Nánar um aðalkröfuna vísar stefnandi til
kostnaðaryfirlits fasteignasölunnar Lyngvíkur en samkvæmt því hafi stefndi átt,
að teknu tilliti til allra kostnaðarþátta kaupsamningsins, að greiða stefnanda
4.454.378 krónur.
Endanlega varakröfu sína að fjárhæð 473.073 krónur
byggir stefnandi á 2. lið samkomulags aðila frá 21. nóvember 2011, þ.e.
samþykkis stefnda að greiða söluhagnað að fjárhæð kr. 624.264 krónur. Vegna
vanefnda stefnda krefst stefnandi efndabóta samkvæmt almennum reglum
skaðabótaréttarins, þ.e. bóta fyrir tjón sem aðili samnings verði fyrir í
kjölfar þess að gagnaðili hans vanefni samning. Krafa um framangreindar bætur
séu við það miðaðar að aðili verði eins settur og ef hann hefði fengið fullar
efndir samnings.
Um lagarök vísar stefnandi til
meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir samnings- og fjárskuldbindinga.
Jafnframt er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins um efndabætur. Vísað
er til 1. mgr. 6. gr., 8. gr., 9. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu. Varðandi varnarþing vísast til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga.
Málsástæður
og lagarök stefnda
Stefndi byggir kröfu um sýknu af aðalkröfu stefnanda
í fyrsta lagi á því að stefndi hafi verið raunverulegur kaupandi að
fasteigninni Hábergi 7 þann 20. mars 2007. Stefnandi hafi aðeins lagt stefnda
til lánshæfi sitt hjá Íbúðalánasjóði en stefndi lagt til útborgunina og einnig
hafi hann greitt stærstan hluta kostnaðar við íbúðakaupin sem og af rekstri
íbúðarinnar. Í öðru lagi krefst stefndi sýknu með vísan til þess að enginn
raunverulegur söluhagnaður hafi orðið af sölu framangreindrar íbúðar þann 18.
apríl 2008, þar sem hækkun íbúðarverðsins hafi verið tilbúningur aðila til að
gera stefnda mögulegt að fá viðbótarlán hjá Íbúðalánasjóði. Um þetta hafi öllum
aðilum verið kunnugt enda hafi viðbótarlánið runnið til að greiða vanskil
stefnanda á áhvílandi láni sjóðsins.
Til vara krefst stefndi skuldajafnaðar að fjárhæð
3.069.735 krónur og vísar í því sambandi til yfirlits í greinargerð um
sannarlegar greiðslur stefnda til handa stefnanda vegna kaupa á umræddri fasteign, reksturs
hennar og annarra fjárskuldbindinga stefnanda.
Stefndi krefst sýknu af varakröfu stefnanda. Stefndi
kannast við að hafa staðið að samningi við stefnanda 21. nóvember 2011. Mistök
og vankunnátta hafi verið þess valdandi að Ríkisskattstjóri hafi séð ástæðu til
að leggja álagningu á stefnanda vegna söluhagnaðar sem aldrei var til. Þar sem stefndi
hafi viljað aðstoða stefnanda hafi hann samið um að greiða umræddan skatt auk
fleiri greiðslna, en engin lagaskylda hafi knúið hann að samningaborðinu.
Hafnar stefndi því að hafa ekki sýnt vilja til að standa við samkomulagið
heldur hafi fjárkröfur stefnanda reynst óyfirstíganlegar. Þá krefst stefndi
þess að þær greiðslur sem hann hefur innt af hendi vegna fjárskuldbindinga
stefnanda eftir 18. apríl 2008, að fjárhæð 126.985 krónur, komi til
skuldajöfnunar við varakröfu stefnanda, auk greiðslna stefnda til tollstjóra,
sem stefndi tekur fram að hann hyggist leggja fram ef til aðalmeðferðar málsins
komi.
Um
lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar og laga um vexti
og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá vísar stefndi til 28. gr. laga um meðferð
einkamála vegna krafna um skuldajöfnuð. Um málskostnað vísast til laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.
Niðurstaða
Stefnandi
og Steinar S. Jónsson, fyrrverandi sölustjóri fasteignasölunnar Lyngvíkur, gáfu
skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Ágreiningslaust er að
þann 15. apríl 2008 komst á bindandi samningur milli aðila þessa máls um kaup
stefnda á íbúð á þriðju hæð að Hábergi 7 samkvæmt kauptilboði en aðilar gerðu
ekki með sér skriflegan kaupsamning. Aðila greinir hins vegar á um efni
kauptilboðsins. Þá er einnig óumdeilt að stefndi greiddi ekki svokallaða
kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 4.510.000 krónur eins og kauptilboðið kvað á um
og að stefnandi gaf út afsal þann 18. apríl 2008. Þá er einnig ágreiningslaust að í júlímánuði 2011 var
stefnanda, samkvæmt ákvörðun skattstjóra, gert að greiða fjármagnstekjuskatt
vegna söluhagnaðar af sölu umræddrar íbúðar á árinu 2008. Fyrir liggur einnig
að í kjölfar framangreindra viðskipta gerðu aðilar málsins þann 21. nóvember
2011 með sér samkomulag í fjórum liðum, líkt og áður er lýst.
Stefnandi krefst þess
aðallega að stefndi greiði sér 4.454.378 krónur, þ.e. kaupsamningsgreiðslu
vegna kaupa stefnda á íbúð stefnanda. Í stefnu er ekki með skýrum hætti gerður
greinarmunur á atvikum máls og málsástæðum. Málatilbúnaður stefnanda verður þó
ekki skilinn á annan veg en þann að stefnandi byggi aðalkröfu sína í málinu á
þeirri málsástæðu að með því að stefndi hafi vanefnt 2. lið samkomulags aðila
frá 21. nóvember 2011 hafi samkomulagið fallið niður og um leið hafi krafa
stefnanda á hendur stefnda vegna kaupsamningsgreiðslunnar raknað við. Vísar
stefnandi í því sambandi til bréfs lögmanns stefnanda, dagsett 1. september
2011, þar sem stefnandi hafi fallið að svo stöddu frá kröfu sinni um
kaupsamningsgreiðsluna gegn efndum á öllum liðum framangreinds samkomulags. Í
munnlegum málflutningi vísaði stefnandi til þess að þar sem stefndi hafi hvorki
borið fyrir sig fyrningu né tómlæti sé stefndi að lögum bundinn við skilmála
kauptilboðsins frá 15. apríl 2009.
Í stefnu kemur fram að þegar stefnandi samþykkti kauptilboð stefnda þann
15. apríl 2008 hafi stefndi svarað fyrirspurn stefnanda um kaupsamningsgreiðslu
að fjárhæð 4.510.000 krónur á þann veg að aðeins væri um að ræða tölur á blaði
og ekki stæði til að greiðsla kæmi í hlut stefnanda. Þetta staðfesti stefnandi
í skýrslu sinni fyrir dómi. Aðspurð sagði stefnandi að hún hafi ekki talið sig
þurfa að sækja kaupsamningsgreiðslu á hendur stefnda fyrr en tilkynning barst
um álagningu skattstjóra. Þá hafi hún gert sér grein fyrir að ekki hafi verið
rétt að málum staðið.
Stefndi hafnar aðalkröfu
stefnanda og vísar til þess að í
raun hafi stefndi verið raunverulegur kaupandi umræddrar íbúðar þegar stefnandi
keypti hana á árinu 2007. Þá vísar stefndi til þess að hækkun íbúðarverðsins
við söluna 2008 hafi verið tilbúningur aðila til að gera stefnda mögulegt að fá
viðbótarlán hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna til að greiða vanskil stefnanda
við sjóðinn og um það hafi báðum aðilum verið kunnugt. Málatilbúnaður stefnda
að þessu leyti verður ekki skilinn á annan veg en þann að stefndi haldi því
fram að kauptilboðið hafi verið málamyndagerningur, en eðli slíkra löggerninga
er að báðir aðilar eru samhuga um að leggja aðra merkingu í löggerninginn en
leiða má af orðalagi hans eða formi samkvæmt almennum túlkunarreglum. Það að
stefnandi vissi að stefndi ætlaði ekki að inna kaupsamningsgreiðsluna af hendi
og sú staðreynd að þrátt fyrir það gaf stefnandi út afsal fyrir íbúðinni þremur
dögum eftir samþykki kauptilboðsins, án þess að umrædd kaupsamningsgreiðsla
væri innt af hendi, styður að um málamyndagerning hafi verið að ræða, enda
hefur í dómaframkvæmd verið litið svo á, að í afsali seljanda felist yfirlýsing
af hans hálfu um að kaupandi hafi réttilega efnt skyldur sínar samkvæmt
kaupsamningi og seljandi geti því ekki gert frekari kröfur á hendur kaupanda um
efndir kaupsamningsins sem slíks. Sama gildir um samning þann sem aðilar
málsins gerðu þann 21. nóvember 2011, en í niðurlagi hans er kveðið á um að stefnandi
eigi engar frekari kröfur á hendur stefnda vegna umræddrar íbúðar. Að þessu
virtu er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki gegn mótmælum stefnda fært
sönnur fyrir aðalkröfu sinni og er stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda
í máli þessu.
Til
vara krefst stefnandi skaðabóta vegna vanefnda stefnda á 2. lið samkomulags
aðila frá 21. nóvember 2011, svokallaðra efndabóta. Ákvæðið er svohljóðandi. „ Ingi
greiðr [sic]
fjármagnstekjuskatt, vegna svokallaðs söluhagnaðar sem myndaðist hjá Birnu við
sölu íbúðarinnar að Hábergi 7, Reykjavík, kr.624.264.- eða eins og staða
skuldarinnar verður þegar hún er greidd. Greiðslu skal inna af hendi eigi síðar
en 31.12.2011 eða að Ingi hafi gengið frá greiðslusamkomulagi við tollstjóra
fyrir þann tíma“. Ágreiningslaust er að stefndi hefur ekki
staðið við framangreint ákvæði samningsins, en stefndi hefur þó mótmælt
kröfunni.
Eins og áður segir er í stefnu ekki með skýrum hætti gerður
greinarmunur á atvikum máls og málsástæðum og á það sérstaklega við hvað
varakröfu stefnanda varðar. Í stefnu skortir á að gerð sé með fullnægjandi
hætti grein fyrir málsástæðum varðandi varakröfu og hvaða gögn liggi þeim til
grundvallar. Í stefnu leiðir stefnandi hvorki líkur að því að hann hafi orðið
fyrir tjóni, í hverju tjón hans felist né orsakatengslum. Samkvæmt framansögðu
telur dómurinn að málatilbúnaður stefnanda hvað varakröfuna varðar uppfylli
ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um
skýran og glöggan málatilbúnað og ekki var úr því bætt við aðalmeðferð málsins.
Samkvæmt þessu verður varakröfu
stefnanda vísað frá dómi án kröfu.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991
ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 370.000
krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Af
hálfu stefnanda flutti Þórður Heimir Sveinsson hdl. málið.
Af
hálfu stefnda flutti Jóhannes Kristbjörnsson hdl. málið.
Dóminn kvað upp Ragnheiður
Thorlacius héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi,
Ingi Arnar Pálsson, er sýkn af aðalkröfu stefnanda, Birnu Fahning
Arnarsdóttur.
Varakröfu stefnanda er
vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 370.000
krónur í málskostnað.