Hæstiréttur íslands

Mál nr. 438/2011


Lykilorð

  • Áfrýjun
  • Áfrýjunarfrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 438/2011.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Áfrýjun. Áfrýjunarfrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

X kom á skrifstofu ríkissaksóknara 24. júní 2011 og vildi áfrýja héraðsdómi sem honum hafði verið birtur 27. maí 2011. Hann kom ekki bréflegri tilkynningu um áfrýjun til ríkissaksóknara fyrr en 27. júní 2011 en þá var liðinn sá fjögurra vikna frestur til áfrýjunar héraðsdóms frá birtingu hans sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af þeim sökum var ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti. Fékk ekki haggað þeirri niðurstöðu þótt skort hafi á leiðbeiningar af hálfu ríkissaksóknara þegar ákærði kom á skrifstofu hans innan hins lögmælta áfrýjunarfrests.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar refsingar.

Hinn áfrýjaði dómur var birtur ákærða 27. maí 2011 í samræmi við ákvæði 3. mgr. 185. gr., sbr. 156. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í yfirlýsingu, sem ákærði undirritaði í viðurvist lögreglumanns, staðfesti hann að honum hafi verið birtur dómurinn. Jafnframt að hann hafi tekið við leiðbeiningum um rétt sinn til áfrýjunar og áfrýjunarfrest.

  Fyrir liggur í málinu að ákærði kom á skrifstofu ríkissaksóknara 24. júní 2011 og vildi áfrýja dóminum. Á hinn bóginn kom ákærði ekki bréflegri tilkynningu um áfrýjun til ríkissaksóknara, svo sem áskilið er í 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008, fyrr en 27. sama mánaðar. Var þá liðinn sá fjögurra vikna frestur til áfrýjunar frá birtingu dóms sem mælt er fyrir um í þeirri málsgrein. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti. Það fær ekki haggað þeirri niðurstöðu þótt skort hafi á leiðbeiningar af hálfu ríkissaksóknara þegar ákærði kom á skrifstofu hans innan hins lögmælta áfrýjunarfrests eins og að framan greinir. Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti var því hreyft af verjanda ákærða að fyrrgreint ákvæði um áfrýjunarfrest væri í andstöðu við fyrirmæli mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ekki er fallist á að svo sé, sbr. dóm Hæstaréttar frá árinu 1996, bls. 2972 í dómasafni réttarins það ár.

Þótt gögn málsins hafi borið með sér að áðurgreindur annmarki stæði í vegi fyrir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar virðist athygli ákærða ekki hafa verið vakin á þessu áður en áfrýjunarstefna var út gefin og málsgögn útbúin í hendur Hæstaréttar. Er því rétt að leggja allan kostnað af áfrýjun sakarinnar á ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.