Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 25. júní 2008. |
|
Nr. 324/2008. |
Skaginn hf. (Sigurbjörn Þorbergsson hdl.) gegn Fishery Products International Ltd. (Gunnar Jónsson hrl.) |
Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Hinn 18. september 2003 gerðu S og F með sér verksamning sem fól í sér að S setti upp fiskvinnslukerfi um borð í togara F sem var í smíðum í Póllandi. Ágreiningur reis með aðilum um reikninga S fyrir aukaverk. Krafðist S greiðslu 360.843 kanadískra dollara frá F. S sótti málið á starfstöðvarvarnarþingi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að samkvæmt verksamningi aðila hafi átt að afhenda og setja upp fiskvinnslukerfi frá S í togara F í skipasmíðastöð í Póllandi. Það verk áttu starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar að annast undir verkstjórn starfsmanna S. Í málinu lá fyrir að verk þetta hófst á vormánuðum 2004 í skipasmíðastöðinni en skipinu var síðan siglt hingað til lands og verkinu lokið í ágúst sama ár. Hvort sem vinnan fór fram hér á landi eða í Póllandi var búnaður afhentur og þjónusta látin í té um borð í skipi F en ekki fastri starfstöð S. Yrði málið því ekki sótt á starfstöðvarvarnarþingi og var því þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. maí 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Skaginn hf., greiði varnaraðila, Fishery Products International Ltd., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. maí 2008.
Mál þetta var höfðað 27. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar 23. maí sama ár. Stefnandi er Skaginn hf., Bakkatúni 26 á Akranesi, en stefndi er Fishery Products International Limited, O´Leary Avenue, St. John´s í Kanada.
Stefnandi hefur höfðað málið til heimtu skuldar að fjárhæð 360.843 kanadískir dollarar með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 16. júní 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum samtals 175.577 kanadískum dollurum sem dragast frá skuldinni miðað við stöðu hennar á nánar tilgreindum dögum þegar greiðslur voru inntar af hendi. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða málskostnað.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í úrskurði þessum er tekin til úrlausnar aðalkrafa stefnda um að málinu verði vísað frá dómi. Krefst stefnandi þess að þeirri kröfu verði hrundið og að málskostnaður bíði efnisdóms.
I.
Hinn 18. september 2003 gerðu málsaðilar með sér verksamning um að stefnandi setti upp fiskvinnslukerfi um borð í togara stefnda sem var í smíðum í Póllandi. Um var að ræða kerfi sem hannað var til vinnslu á rækju og tilteknum öðrum fisktegundum. Verklaun voru 1.750.000 kanadískir dollarar sem greiða átti á nánar tilgreindum gjalddögum á tímabilinu frá undirritun samnings til 16. apríl 2004. Tækjabúnað frá stefnanda átti að afhenda eigi síðar en 31. desember 2003 og uppsetningu átti að vera lokið 16. febrúar 2004. Stefnandi bar þó ekki ábyrgð á töfum af völdum skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi eða annarra birgja stefnda.
Samkvæmt samningnum átti að setja búnaðinn upp í skipasmíðastöðinni í Póllandi. Áttu starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar að annast það verk undir verkstjórn starfsmanna stefnanda. Var gert ráð fyrir að vinna við uppsetningu og prófun búnaðarins tæki um fjórar vikur. Ef sú vinna yrði tímafrekari átti stefndi að greiða aukakostnað.
Í samningnum var nánar lýst fiskvinnslukerfinu sem setja átti upp í skip stefnda en kerfið skiptist í sjö hluta. Tekið var fram í samningnum að ekki væri innifalið í verðinu frystipönnur, uppsetning umfram það sem leiddi af samningnum, þjálfun starfsmanna, skattar og gjöld, kostnaður vegna sérfræðings við uppsetningu vigtunarbúnaðar og trefjagrindur og standar sem ekki væru tilgreindir í tilboði.
II.
Vegna dráttar á smíði skipsins gátu starfsmenn stefnanda ekki hafist handa við verkið fyrr en 13. apríl 2004. Stefnandi heldur því fram að uppsetning búnaðarins hafi gengið erfiðlega, einkum vegna þess að iðnaðarmenn skipasmíðastöðvarinnar hafi ekki búið yfir nægri sérþekkingu eða kunnáttu til að annast uppsetninguna. Því hafi starfsmenn stefnanda þurft að annast nánast allt það verk. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að stefnandi, sem annaðist verkstjórn, beri ábyrgð á þeirri töf sem varð á verkinu.
Hinn 14. maí 2004 var gert hlé á verkinu en starfsmenn stefnanda snéru aftur til skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi 25. júní 2004. Áfram sóttist verkið hægt en málsaðilar vísa ábyrgðinni í þeim efnum hvor á annan. Þessu lyktaði síðan með því að ákveðið var að ljúka því sem var eftir af verkinu hér á landi. Kom togarinn til landsins 24. júlí 2004 og lauk vinnu við verkið 12. ágúst sama ár.
III.
Stefndi hefur staðið skil á greiðslu samningsverðsins. Með aðilum er hins vegar ágreiningur um reikninga stefnanda fyrir aukaverk. Hefur stefndi greitt þá reikninga að hluta en andmælir því að inna beri frekari greiðslu af hendi.
Stefndi hefur greitt að fullu fimm reikninga vegna aukaverka, útgefna á tímabilinu frá september 2004 til júlí 2007, samtals að fjárhæð 10.756 kanadískir dollarar. Stefnandi hefur jafnframt gefið út eftirtalda reikninga á hendur stefnda:
Útgáfudagur/gjalddagi Fjárhæð í kanadískum dollurum
16. júní 2004 70.979
20. ágúst 2004 473
29. september 2004 193.691
31. október 2004 4.406
23. nóvember 2004 46.746
6. desember 2004 1.250
6. desember 2004 8.700
22. desember 2004 2.194
22. desember 2004 2.963
22. desember 2004 38.093
Samtals 369.495
Að frádregnum kreditreikningi stefnanda 30. desember 2004 að fjárhæð 8.652 kanadískir dollarar nemur fjárhæð kröfunnar 360.843 dollurum sem er stefnufjárhæð málsins. Til frádráttar þeirri fjárhæð kemur innborgun stefnda 12. ágúst 2004 að fjárhæð 45.298 dollarar, innborgun 13. október sama ár að fjárhæð 112.000 dollarar og innborgun 24. janúar 2005 að fjárhæð 18.279 dollarar. Innborganir stefnda nema því samtals 175.577 kanadískum dollurum.
IV.
Stefnandi sækir málið hér fyrir dómi á starfstöðvarvarnarþingi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Stefndi vísar á hinn bóginn til þess að höfuðstöðvar félagsins séu í Kanada og þar eigi að réttu lagi að sækja það á heimilisvarnarþingi. Telur stefndi að engin heimild standi til þess að félagið verði sótt í máli hér fyrir dómi. Til stuðnings þessu bendir stefndi á að samningur aðila hafi gert ráð fyrir því að verkið færi að öllu leyti fram í Póllandi. Í þessu tilliti geti engu breytt þótt óverulegur hluti verksins hafi farið fram á Íslandi. Í öllu falli telur stefndi að ekki sé hægt að sækja mál á hendur stefnda á starfstöðvarvarnarþingi vegna allra þeirra reikninga sem stefnandi hefur gefið út á hendur stefnda heldur aðeins þeirra sem sannanlega séu fyrir veitta þjónustu í atvinnustöð stefnanda.
Einnig bendir stefndi á að málatilbúnaður stefnanda fari verulega í bága við 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og í raun sé málið svo vanreifað að stefndi eigi óhægt um vik að taka til varna í málinu. Til stuðnings þessu bendir stefndi á að tilgreiningar á einstökum kostnaðarliðum í reikningum séu með öllu ófullnægjandi þannig að útilokað sé að taka nokkra afstöðu til þeirra. Stefndi tekur þó fram að hann geri ekki kröfu um frávísun málsins á grundvelli vanreifunar, enda þjóni það betur hagsmunum félagsins að verða sýknað af kröfum stefnanda.
Við munnlegan flutning um formhlið málsins var því haldið fram af hálfu stefnanda að málið yrði sótt hér fyrir dómi á starfstöðvarvarnarþingi. Jafnframt var því andmælt að málið væri svo vanreifað að varðað gæti frávísun þess. Að því marki sem skýra þurfi nánar einhver atriði í málatilbúnaðinum telur stefnandi að það verði hæglega gert undir rekstri málsins.
V.
Til stuðnings því að sækja málið hér fyrir dómi vísar stefnandi eingöngu til starfstöðvarvarnarþings, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Í umræddu ákvæði laganna segir að sækja megi mál til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu, sem hefur verið fengin eða þegin í verslun eða annarri fastri starfstöð, í þeirri þinghá þar sem verslunin eða starfstöðin er, ef það er atvinna upphaflega skuldareigandans að láta slíka vöru eða þjónustu í té.
Samkvæmt verksamningi málsaðila frá 18. september 2003 átti að afhenda og setja upp fiskvinnslukerfi frá stefnanda í togara stefnda í skipasmíðastöð í Póllandi. Það verk áttu starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar að annast undir verkstjórn starfsmanna stefnanda. Í málinu liggur fyrir að þetta verk hófst á vormánuðum 2004 í skipasmíðastöðinni í Póllandi en skipinu var síðan siglt hingað til lands og verkinu lokið í ágúst sama ár. Hvort sem vinna fór fram hér á landi eða í Póllandi var búnaður afhentur og þjónusta látin í té um borð í skipi stefnda en ekki í fastri starfstöð stefnanda. Málið verður því ekki sótt á starfstöðvarvarnarþingi. Þegar af þessari ástæðu og án þess að fjalla þurfi um hvort málið sé nægjanlega reifað verður því vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Skaginn hf., greiði stefnda, Fishery Products International Limited, 200.000 krónur í málskostnað.