Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/1998


Lykilorð

  • Uppsögn
  • Sjálfseignarstofnun
  • Ríkisstarfsmenn
  • Kjarasamningur
  • Sératkvæði


                                                                                                                 

Miðvikudaginn 12. maí 1999.

Nr. 266/1998.

Háskólabíó

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Sigurbirni Þorgrímssyni

(Atli Gíslason hrl.)

og gagnsök

Uppsögn. Sjálfseignarstofnun. Ríkisstarfsmenn. Kjarasamningur. Sératkvæði.

S var starfsmaður kvikmyndahúss sem var í eigu sjóðsins A. Voru kjör hans að mestu miðuð við kjör ríkisstarfsmanna en ekki var gerður við hann skriflegur ráðningar-samningur. Þegar S var sagt upp störfum stefndi hann kvikmyndahúsinu og gerði kröfu til bóta á þeim grunni að hann hefði verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 38/1954 eða notið sambærilegrar stöðu.

Talið var að þar sem A væri ekki ríkisstofnun heldur sjálfseignarstofnun með sjálfstæðan fjárhag hefði S ekki verið ríkisstarfsmaður í skilningi laganna. Viðmiðun kjara hans við kjarasamning opinberra starfsmanna gæti ekki ein sér leitt til þess að hann nyti réttinda sem æviráðinn starfsmaður. Var kvikmyndahúsið því sýknað af kröfum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 25. júní 1998 og krefst hann aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að fjárkrafa gagnáfrýjanda verði verulega lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði með stefnu 28. ágúst 1998. Krefst hann þess í aðalsök að héraðsdómur verði staðfestur og aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Í gagnsök krefst hann þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.638.100 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu á 5.240.300 krónum með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu greinir. Til þrautavara krefst hann greiðslu á annarri lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar með sömu dráttarvöxtum.  Hver sem úrslit málsins verða krefst hann þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi starfaði gagnáfrýjandi sem húsvörður og dyravörður hjá aðaláfrýjanda allt frá árinu 1968 þar til honum var sagt upp störfum með bréfi 24. maí 1995. Starf gagnáfrýjanda var í upphafi hlutastarf en samkvæmt gögnum málsins verður að telja að a.m.k. frá 1986 eða 1987 hafi starfið verið aðalstarf hans og að hann hafi verið á föstum launum. Óumdeilt er að í upphafi hafi laun hans verið miðuð við kjarasamning Starfsmannafélags ríkisstofnana við ríkið. Einnig er ágreiningslaust að frá 1986 eða 1987 voru honum greidd laun að ¾ hlutum samkvæmt þeim kjarasamningi en að ¼ hluta samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Lífeyrissjóðsgreiðslur skiptust í sömu hlutföllum milli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Kom fram í skýrslu framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda fyrir dómi að þróun hefði orðið í þá átt að starfsmenn hans tækju laun samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Aldrei var gerður skriflegur ráðningarsamningur við gagnáfrýjanda. Svo virðist sem héraðsdómari byggi á því í niðurstöðu sinni að fram hafi komið hjá framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda fyrir dómi að aðaláfrýjandi hafi gert skriflega ráðningarsamninga við flestalla aðra starfsmenn sína. Þessu hefur aðaláfrýjandi mótmælt í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti og verður að fallast á það með honum að þetta hafi ekki komið fram í framburði framkvæmdastjórans, eins og hann liggur fyrir í endurriti. Heldur aðaláfrýjandi því fram í greinargerð sinni að einungis þrír af starfsmönnum hans í dag hafi skriflega ráðningarsamninga, þ.e. framkvæmdastjórinn og tveir aðrir, sem einnig gegni stjórnunarstörfum.

Ekki er krafist ómerkingar héraðsdóms vegna ofangreinds annmarka og ekki þykir ástæða til ómerkingar hans ex officio.

II.

Gagnáfrýjanda var sem fyrr segir sagt upp störfum með bréfi 24. maí 1995. Var uppsögnin með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. júní sama ár. Jafnframt var gagnáfrýjanda tilkynnt að ekki væri lengur óskað eftir vinnuframlagi hans, en eftir að launagreiðslum eftir uppsagnarfrest lyki yrðu honum greidd samningsbundin laun án yfirvinnu- og álagsgreiðslna þar til hann hefði náð 65 ára aldri. Á þessum tíma vantaði rúmlega mánuð á að gagnáfrýjandi næði 64 ára aldri.

Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda vegna ólögmætrar uppsagnar. Byggir hann aðallega á því að hann hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hafi ekki verið um slíkt að ræða er krafan á því reist að um ráðningarkjör hans hafi farið eftir kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana. Að lokum vísar gagnáfrýjandi til þess að jafnræðisregla stjórnarfarsréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi verið brotin gagnvart sér.

Háskólabíó er eign Sáttmálasjóðs Háskóla Íslands, sem stofnaður var samkvæmt 14. gr. dansk - íslensku sambandslaganna nr. 39/1918, en þar sagði að ríkissjóður Danmerkur greiddi tvær milljónir króna til stofnunar tveggja sjóða, hvors að fjárhæð ein milljón króna, í því skyni að efla andlegt samband milli Danmerkur og Íslands, styðja íslenskar vísindarannsóknir og aðra vísindastarfsemi og styrkja íslenska námsmenn. Annar sjóðanna skyldi ,,lagður til” háskólans í Reykjavík, en hinn til háskólans í Kaupmannahöfn. Nánari fyrirmæli um stjórn og starfsemi sjóðanna yrðu sett af konungi eftir tillögum stjórnar hvors lands, að fengnu áliti háskóla þess. Var Sáttmálasjóður Háskóla Íslands settur á fót með stofnskrá,  sem konungur staðfesti og auglýst var 29. júní 1919. Er í 2. gr. kveðið á um tilgang sjóðsins í samræmi við 14. gr. sambandslaganna. Í 3. gr. segir að háskólaráð stjórni sjóðnum. Í 4. gr. er mælt fyrir um varðveislu sjóðsins, en samkvæmt 8. gr. skal ritari háskólans hafa á hendi reikningshald, taka við greiðslum í sjóðinn og annast um greiðslur eftir fyrirmælum rektors. Í 6. og 7. gr. eru ákvæði um ákvörðun og fyrirkomulag styrkveitinga úr sjóðnum.

Með ályktun Alþingis 16. júní 1944 nr. 32/1944 var dansk-íslenski sambandslagasamningurinn felldur úr gildi. Lög nr. 39/1918 voru ekki formlega felld úr gildi í heild. Sáttmálasjóður Háskóla Íslands hefur haldið áfram störfum. Hefur hann rekið kvikmyndahús til öflunar tekna allt frá árinu 1942.  Þykir verða að líta svo á að upphafleg stofnskrá sjóðsins sé enn í gildi, enda var hún byggð á samningi milli Íslands og Danmerkur, sem hvorugur aðila hefur lýst yfir að niður sé fallinn að þessu leyti. Hefur og ekki verið sýnt fram á annað en að sjóðurinn hafi starfað að þeim markmiðum, sem honum voru sett í stofnskránni.

Samkvæmt framansögðu var Sáttmálasjóður settur á fót með lögum, er byggðust á gagnkvæmum samningi Íslands og Danmerkur. Um hann hafa gilt sérstakar reglur að því er varðar stjórn, hlutverk, varðveislu fjár og ráðstöfun þess. Hann hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og ber sjálfur ábyrgð á skuldbindingum sínum. Hann nýtur ekki sérstakra framlaga úr ríkissjóði, enda er ekki unnt að líta svo á að hluti skemmtanaskatts, sem til hans rennur vegna rekstrar áfrýjanda, teljist til slíkra framlaga. Þykir að öllu athuguðu verða að telja stöðu sjóðsins með þeim hætti að hann sé sjálfseignarstofnun með sjálfstæðan fjárhag. Með vísan til þess er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að áfrýjandi teljist ekki ríkisstofnun og hafi gagnáfrýjandi því ekki verið í þjónustu ríkisins í skilningi laga nr. 38/1954.

III.

Svo sem fram er komið er óumdeilt í málinu að gagnáfrýjandi tók laun hjá aðaláfrýjanda, sem að ¾ hlutum voru miðuð við kjarasamning Starfsmannafélags ríkisstofnana og ríkisins, sem gilti frá 1. febrúar 1987, en var framlengdur með breytingum á árunum 1989, 1990, 1992, 1993 og 1995  og liggur hann frammi í málinu. Í þeim samningi eru ekki ákvæði um uppsagnarfrest.

Gagnáfrýjandi var ekki ríkisstarfsmaður samkvæmt framansögðu. Viðmiðun kjara hans við ofangreindan kjarasamning getur ekki ein sér leitt til þess að hann njóti þeirra réttinda sem æviráðinn starfsmaður, er kveðið var á um í lögum nr. 38/1954.   Til þess varð að koma sérstakt ákvæði í lögum eða samningum. Hefur ekki verið sýnt fram á að slíku sé hér til að dreifa. Verður að telja að um uppsagnarfrest gagnáfrýjanda hafi þær reglur átt við, sem gilda á almennum vinnumarkaði, sbr. 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Samkvæmt því verður ekki á það fallist að aðaláfrýjandi hafi brotið rétt á gagnáfrýjanda að þessu leyti.

Kröfugerð gagnáfrýjanda á grundvelli ætlaðs brots á jafnræði er á því byggð að honum hafi verið mismunað sem ríkisstarfsmanni. Miðað við framangreinda úrlausn um það atriði þarfnast þessi málsástæða ekki frekari umfjöllunar.

Miskabótakrafa gagnáfrýjanda er á því reist að uppsögn hans hafi falið í sér þungbærar ásakanir um tiltekin atriði. Á það verður fallist með héraðsdómi að ekki hafi verið sýnt fram  á tengsl uppsagnarinnar við hin tilgreindu atriði. Er því ekki grundvöllur til að taka þessa kröfu hans til greina.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Háskólabíó, á að vera sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Sigurbjörns Þorgrímssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun talsmanns hans, samtals 600.000 krónur.

                                

Sératkvæði

Hjartar Torfason

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 266/1998:

Háskólabíó

gegn

Sigurbirni Þorgrímssyni

og gagnsök

Ég er sammála I. og II. kafla atkvæðis annarra dómenda, þar á meðal því, að gagnáfrýjandi hafi ekki verið í þjónustu ríkisins í skilningi laga nr. 38/1954 í starfi sínu hjá aðaláfrýjanda, sem var í eign Sáttmálasjóðs. Þótt Sáttmálasjóður verði talinn sjálfseignarstofnun með sjálfstæðum fjárhag er á hinn bóginn á það að líta, að hann og aðaláfrýjandi hlutu að teljast í hópi stofnana og fyrirtækja Háskóla Íslands, meðal annars samkvæmt beinni skilgreiningu landslaga, sbr. 36. gr. laga nr. 60/1957, nr. 77/1979 og nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Sú skilgreining var í eðlilegu samræmi við ákvæði stofnskrár Sáttmálasjóðs og þá staðreynd, að starfsemi sjóðsins hin síðari ár virðist fyrst og fremst hafa verið á sviði 2. tl. 2. gr. stofnskrárinnar, er laut að háskólanum og kennurum hans öðru fremur.

Þegar gagnáfrýjandi var ráðinn til fastra starfa hjá aðaláfrýjanda hafði fyrirtækið ekki markað þá stefnu að haga kjörum starfsmanna sinna almennt eftir því, sem tíðkaðist hjá öðrum kvikmyndahúsum, er það ætti í samkeppni við. Þegar sú tilhögun var sett í fyrirrúm var hinn munnlegi ráðningarsamningur gagnáfrýjanda ekki tekinn til endurskoðunar, heldur var það vísvitandi látið óraskað, að kjör hans vegna starfa, sem hann hafði áður gegnt, færu eftir kjarasamningi ríkisins og Starfsmannafélags ríkisstofnana, meðan viðbótarstörf voru felld undir kjarasamning Verslunarmanna-félags Reykjavíkur. Ætla verður, að tillit til áunninna starfsréttinda gagnáfrýjanda hafi þar ráðið um, og þá ekki aðeins þess, að hann væri viðurkenndur sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins með þeirri kvöð, sem því fylgdi fyrir aðaláfrýjanda, heldur einnig hins, að hann hafi mátt teljast í fastri stöðu með ótímabundinni ráðningu án uppsagnarfrests.

Álykta verður, þegar hvorttveggja þetta er virt ásamt öðrum atvikum málsins, að gagnáfrýjandi hafi mátt við það miða, að hann nyti ótímabundinna ráðningarkjara með sama hætti og aðrir starfsmenn á vegum háskólans, er byggju við kjör samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi. Aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að þeir starfsmenn hafi verið ráðnir með uppsagnarfresti, og hann verður að bera hallann af því, að ráðningarsamningur við gagnáfrýjanda með ákvæðum í þá átt liggur ekki fyrir. Samkvæmt þessu ber að fallast á það með héraðsdómara, að gagnáfrýjandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna ólögmætrar uppsagnar.

Ekki eru efni til að fjalla hér náið um bótahlið málsins, og á bótaákvörðun héraðsdómara eru ekki bersýnilegir meinbugir. Það er því niðurstaða mín, að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm að öllu leyti um efni málsins og dæma aðaláfrýjanda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð. Ég er sammála öðrum dómendum um gjafsóknarkostnað í málinu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. f.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurbirni Þorgrímssyni, kt. 020731-3979, Hamraborg 22, Kópavogi, á hendur Háskólabíói, kt. 600169-1309, Hagatorgi, Reykjavík, með stefnu sem birt var 21. júní 1997.

Dómkröfur stefnanda eru þær:

Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.638.100 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til greiðsludags.

Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.240.300 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til greiðsludags.

Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðra lægri fjárhæð að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru þær:

Aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega.

Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Málavextir frá sjónarhóli stefnanda

Stefnandi hafi byrjað störf hjá stefnda sem húsvörður og við dyravörslu í október 1968. Starfið hafi í upphafi verið hlutastarf, sem stefnandi hafi sinnt með öðru starfi. Stefnandi hafi verið fastráðinn á kjörum ríkisstarfsmanna í fullt starf á árunum 1979 til 1980. Aldrei hafi verið gengið frá skriflegum ráðningarsamningi við hann en um kaup og kjör hafi farið eftir kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana við ríkið. Stefnandi hafi starfað hjá stefnda þar til honum hafi verið sagt upp störfum með bréfi dags. 24. maí 1995. Engar ástæður hafi verið tilgreindar í uppsögninni heldur einungis tekið fram að stefnanda væri sagt upp með lögbundnum þriggja mánaða fyrirvara og að samningsbundin laun yrðu greidd þar til stefnandi næði 65 ára aldri.

Stefnandi hafi verið annar þeirra starfsmanna sem vorið 1994 hafi verið borinn þeim sökum að hafa verið valdur að peningahvarfi í Háskólabíói. Hinn starfsmaðurinn, sem þá hafi verið sölustjóri hjá stefnda, hafi verið kallaður til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni. Rannsóknin hafi ekki leitt í ljós hver eða hverjir voru valdir að peningahvarfinu. Í kjölfarið hafi sölustjórinn verið sviptur lyklavöldum og forsvari fyrir verslun í fyrirtæki stefnda. Stefnandi telji sig ranglega hafa verið þjófkenndan fyrir aðild að peningahvarfinu og að uppsögn hans megi rekja til þess rógburðar. Ítrekað hafi verið reynt að leita samninga við Háskólabíó um rétt uppgjör launa til handa stefnanda. Allar tilraunir í þá átt hafi reynst árangurslausar og því sé málssókn þessi óhjákvæmileg.

Málavextir frá sjónarhóli stefnda

 Stefndi telur nauðsynlegt að gera eftirfarandi athugasemdir við lýsingu stefnanda á málavöxtum.

Í stefnu segi réttilega að stefnandi hafi á sínum tíma ráðist til starfa hjá stefnda í hlutastarfi. Það sé hins vegar ekki rétt að hann hafi verið fastráðinn á kjörum ríkisstarfsmanna í fullt starf á árunum 1979 til 1980. Hið rétta sé að stefnandi hafi sinnt starfi sínu sem hlutastarfi. Samhliða vinnu sinni hjá stefnda hafi hann ávallt sinnt öðrum störfum í mismunandi mæli. Hann hafi m.a. unnið á bílasölu um tíma auk þess að stunda sjómennsku af og til. Störf þau sem stefnandi hafi sinnt í þágu stefnda hafi lengst af svarað til u.þ.b. 70% af fullu starfi og fyrir þann hluta hafi hann fengið greidd laun sem hafi miðast við kjarasamning Starfsmannafélags ríkisstofnana. Á árinu 1987 hafi stefnandi hins vegar tekið að sér aukin störf í þágu stefnda við dyravörslu og eftirlit og hafi þar verið um að ræða störf sem hafi svarað til u.þ.b. 25% af fullu starfi. Á þessum tíma hafi án undantekninga verið farið að miða laun til nýrra starfsmanna stefnda við kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur og hafi stefnandi því fengið laun fyrir þessa viðbótarvinnu samkvæmt þeim kjarasamningi.

Frá árinu 1987 hafi launagreiðslur til stefnanda fyrir þau störf í þágu stefnda því verið miðuð að 70 til 75% hluta við launatöflu í kjarasamningi Starfsmannafélags ríkis­stofnana og að allt að 25 % hluta við launatöflu kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Með sama hætti hafi hann greitt félagsgjöld til beggja félaganna og iðgjöld bæði til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Stefndi mótmæli eins og áður sagði þeirri lýsingu að stefnandi hafi verið fast­ráðinn eða hann hafi verið í fullu starfi hjá stefnda á umræddu tímabili. Störf stefnanda í þágu stefnda hafi verið við dyravörslu og eftirlitsstörf með húsnæði Háskólabíós. Vegna eðlis þeirrar starfsemi sem rekin sé í húsnæðinu hafi stefnandi sinnt störfum sínum síðdegis og fram á kvöld þá daga sem hann hafi verið við störf og hafi laun fyrir dagvinnu verið miðuð við tíma fram til kl. 23.00 á kvöldin, en eftirvinna greidd fyrir unna tíma þar umfram.

Meðal stjórnanda Háskólabíós hafi lengi ríkt óánægja með störf stefnanda. Þar hafi komið að ákveðið hafi verið af hálfu stefnda í maímánuði 1995 að segja stefnanda upp starfi sínu. Hvarf peninga sem átt hafi sér stað árið 1994 hafi ekkert haft með uppsögnina að gera eins og fram sé haldið í stefnu. Ákvörðun stefnda hafi verið tilkynnt í símskeyti til stefnanda hinn 24. maí 1995 og síðan verið fylgt eftir með bréfi til stefnanda þann sama dag. Þar komi m.a. fram að stefnandi fengi greidd full laun í þrjá mánuði.

Stefnandi hafi átt að baki langan starfsaldur hjá stefnda og hafi stjórn stefnda ákveðið að greiða stefnanda laun þar til hann næði 65 ára aldri og gæti þar með hafið töku eftirlauna. Þessi "launagreiðsla" umfram skyldu hafi stafað af því að af hálfu stjórnarinnar hafi verið litið svo á að rétt væri að taka tillit til aldurs stefnanda og takmarkaðra möguleika hans á að fá vinnu í stað þeirrar sem hann hafði misst hjá stefnda. Stefnandi muni þó í einhverju mæli hafa gengið til nýrra starfa eftir uppsögnina og sé skorað á stefnanda að upplýsa um það og leggja fram gögn í því sambandi.

Skýrslugjöf vitnis

Vitnið Friðbert Pálsson framkvæmdastjóri stefnda Háskólabíós gaf skýrslu fyrir dómi, en ekki þykir ástæða til að rekja hana hér.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt. Stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi 1. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins meðan hann gegndi starfi sínu hjá Háskólabíói og þegar honum barst uppsögnin. Háskólabíó sé í þjóðskrá skráð sem ríkisfyrirtæki/stofnun og hafi verið á B-hluta fjárlaga um árabil.

Stefnandi hafi verið ráðinn á kjörum ríkisstarfsmanns án uppsagnarheimildar. Starf stefnanda hafi ekki verið lagt niður, hvorki sá hluti sem varði húsvörslu né dyravarsla í dyramóttöku kvikmyndahússins. Stefnanda hafi fyrst borist uppsögnin með óstaðfestu skeyti þar sem fram hafi komið vélritað nafn Friðberts Pálssonar, fram­kvæmdastjóra Háskólabíós. Friðbert hafi verið á kvikmyndahátíð erlendis er skeytið var sent 25. maí 1995 og hafi hann neitað að hafa sent það. Samkvæmt upplýsingum varðstjóra á ritsíma Landssímans hafi skeytið verið sent frá skrifstofu Háskólabíós umræddan dag. Í skeytinu hafi skilmálar uppsagnarinnar verið tilgreindir. Uppsagnar­skilmálar hafi verið þeir að stefnanda hafi verið sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara frá 1. júní 1995 og tilgreint að greidd yrðu full laun á uppsagnartíma í 3 mánuði. Eftir það skyldi hann hljóta samningsbundin laun í 11 mánuði eða þar til stefnandi yrði 65 ára.

Stefnanda hafi síðan borist uppsagnarbréf nokkrum dögum síðar, dags. 24. maí 1995, með sömu skilmálum og í tilvísuðu skeyti. Uppsagnarbréfið hafi ekki verið undirritað af Friðberti Pálssyni, en stafirnir S. Hj. settir undir bréfið og tilgreint að það væri ritað fyrir hönd Friðberts Pálssonar. Í 11. gr. laga nr. 38/1954 komi fram að ríkisstarfsmanni sem eigi að víkja úr stöðu skuli veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun um frávikningu hans sé tekin. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um frávikningu sína þrátt fyrir lögbundinn rétt þar um. Stefnandi telji uppsögn sína ekki eiga neina stoð í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skv. lögum nr. 38/1954 og kjarasamningum ríkisstarfsmanna sem séu þau ráðningarkjör sem hann hafi haft.

Almenna reglan sé sú að ríkisstarfsmaður, sem hlotið hafi ráðningu í stöðu án þess að samið hafi verið um uppsagnarrétt, megi gera ráð fyrir því að fá að halda stöðu sinni þar til eitthvert þeirra tilvika sem greinir í 4. gr. laga nr. 38/1954 kemur til, sbr. og gagnályktun frá 3. gr. laga nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Ríkisstarfsmaður hafi það sem nefnt hafi verið æviráðning. Í 4. gr. segi m.a. að ríkisstarfsmaður skuli gegna stöðu sinni þar til hann brýtur af sér í starfinu svo að honum beri að víkja úr því, eða hann fær lausn samkvæmt eigin beiðni eða hann hefur náð hámarksaldri 70 ár eða hann flyst í aðra stöðu hjá ríkinu, eða staða hans er lögð niður. Þar sem engin þau tilvik sem greind eru í 4. gr. starfsmannalaga eigi við í þessu tilviki eigi uppsögn stefnanda sér enga stoð í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 og gildandi kjarasamningi. Því hafi verið um ólögmæta uppsögn að ræða. Þar sem uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt sé gerð krafa um greiðslu launa til 70 ára aldurs.

Verði ekki fallist á að stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður er hann gegndi störfum hjá Háskólabíói byggi stefnandi á því að ráðningarkjör stefnanda hafi farið að kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana (SFR) sem ekki geri ráð fyrri að unnt sé að segja starfsmanni upp og uppsagnarfresti nema hann sé sérstaklega tilgreindur í skriflegum samningi, sbr. einnig 3. gr. laga nr. 97/1974. Eins og komið hafi fram, hafi stefnanda verið sagt upp frá og með 1. júní 1995 með "lögboðnum þriggja mánaða fyrirvara". Honum hafi verið tjáð í uppsagnarbréfi að eftir að uppsagnarfresti lyki yrðu honum greidd "samningsbundin laun" þar til hann hafi náð 65 ára aldri. Þessi orð verði ekki skýrð á annan hátt, en að Háskólabíó hafi talið sig skuldbundið til að greiða stefn­anda laun í samræmi við lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 4. gr. þeirra laga. Uppsagnarbréfið kveði á um laun á uppsagnarfresti til þriggja mán­aða og að auki laun til 65 ára aldurs. Aldrei hafi verið gerður skriflegur ráðningar­samningur við stefnanda og geti Háskólabíó þar af leiðandi ekki borið fyrir sig þriggja mánaða uppsagnarfrest. Af þessu leiði að um stefnanda gildi einungis lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningur ríkisstarfsmanna. Samkvæmt grein 13.2 í umræddum kjarasamningi sé óheimilt að gera samninga sem feli í sér skerðingu á lögbundnum og umsömdum réttindum. Uppsögn stefnanda sé eins og áður segi ólögmæt og eigi stefnandi því rétt til greiðslu launa til 70 ára aldurs.

Þá byggi stefnandi á því að óheimilt sé út frá jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að mismuna ríkisstarfsmönnum eða starfsmönnum stofnana á vegum ríkisins með mismunandi uppsagnarrétti eftir því hvort um kjör þeirra fer að kjarasamningum ríkisins eða kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Stefnandi byggi kröfu sína um miskabætur á því að með brottvikningu sinni felist þungbærar ásakanir í sinn garð um aðild eða ábyrgð hans á hvarfi peninga frá Háskólabíói. Málið hafi ekki verið upplýst, en stefnandi hafi árum saman flutt peninga úr bíóinu yfir í peningamóttöku Landsbankans án nokkurra áfalla. Stefnandi hafi þurft að þola dylgjur um að hann ætti þátt í hvarfi peninganna. Stefnandi telji mannorð sitt hafa beðið hnekki vegna rannsóknar út af peningahvarfinu og vegna uppsagnarinnar sem án efa hafi átt rætur að rekja til rógburðar sem hann hafi mátt þola. Þá sé í uppsagnarbréfi eða skeyti hvergi minnst á forsendur uppsagnarinnar þrátt fyrir skýr ákvæði þar að lútandi í 7. gr. til 13. gr. laga nr. 38/1954. Þyki því ljóst að stefnanda hafi verið sagt upp án nokkurra skýringa á grundvelli slúðurs sem stefnanda hafi aldrei gefist kostur á að svara. Þá byggi stefnandi á því að uppsögnin sé almennt séð meiðandi fyrir hann og krefst stefnandi miskabóta vegna þeirrar ærumeiðingar sem hann hafi mátt þola auk miskabóta fyrir röskun á stöðu og högum.

Sundurliðun aðalkröfu:

Krafa um greiðslu launa:

1. Höfuðstólsverðmæti fastra launa frá júlí 1996 til júní 2001

1.972.400 kr.

2. Höfuðstólsverðmæti vaktaálags fyrir sama tímabil

704.100 kr.

3. Höfuðstólsverðmæti tapaðrar yfirvinnu fyrir sama tímabil

2.642.500 kr.

4. Töpuð lífeyrisréttindi fyrir lið 1-3 fyrir sama tímabil

319.100 kr.

Alls

5.638.100 kr.

Krafa um miskabætur

1.000.000 kr.

Stefnufjárhæð aðalkröfu alls

6.638.100 kr.

Útreikningur á aðalkröfu sé byggður á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 19. júlí 1996. Varakrafa stefnanda sé byggð á breyttum útreikningi á aðalkröfu. Byggt sé á lægri fjárhæð fyrir höfuðstólsverðmæti tapaðrar yfirvinnu en þeirri sem fram komi í framangreindum útreikningi. Stefnufjárhæð varakröfu sé eftirfarandi:

Sundurliðun varakröfu:

Krafa um greiðslu launa:

1.Höfuðstólsverðmæti fastra launa frá júlí 1996 til júní 2001

1.972.400 kr.

2.Höfuðstólsverðmæti vaktaálags fyrir sama tímabil

704.100 kr.

3.Höfuðstólsverðmæti tapaðrar yfirvinnu fyrir sama tímabil

1.333.300 kr.

4.Töpuð lífeyrisréttindi fyrir lið 1-3 fyrir sama tímabil

240.500 kr.

Alls

4.250.300 kr.

Krafa um miskabætur

1.000.000 kr.

Stefnufjárhæð varakröfu alls

5.250.300 kr.

Þrautavarakrafa

Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðra lægri fjárhæð að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 1997 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Krafa um greiðslu launa sé byggð á lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Þá sé einnig byggt á kjarasamningi starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra 1. apríl 1995-31. desember 1996.

Krafa um miskabætur sé byggð á skaðabótalögunum nr. 50/1993, einkum 26. gr. sbr. 16. gr.

Krafa um málskostnað sé byggð á 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé byggð á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefjist sýknu á þeim grundvelli að lög nr. 38/1954 hafi ekki átt við um réttarstöðu stefnanda þar sem hann hafi ekki verið "í þjónustu ríkisins" í skilningi 1. gr. laganna. Um réttarstöðu hans hafi því ekki farið eftir þeim sérstöku reglum sem þar hafi verið. Á því sé byggt af hálfu stefnda að Háskólabíó sé hvorki fyrirtæki né stofnun í eigu ríkisins og starfsmenn þess séu því ekki "í þjónustu ríkisins". Stefnandi hafi því ekki, meðan hann starfaði hjá stefnda, verið "ríkisstarfsmaður" í skilningi laga nr. 38/1954 eða þau lög gilt um störf hans.

Háskólabíó sé í eigu Sáttmálasjóðs Háskólans. Til sjóðsins hafi verið stofnað samkvæmt 14. gr. dansk-íslensku sambandslaganna frá 1918, þ.e. lögum nr. 39/1918, en þar hafi verið mælt fyrir um að ríkissjóður Dana legði fram ákveðna fjárhæð til stofnunar tveggja sjóða í því skyni að efla andlegt samband milli Danmerkur og Íslands, styðja íslenskar vísindarannsóknir og aðra vísindastarfsemi og styrkja íslenska náms­menn. Þá segi orðrétt í 14. gr. laganna: "...Annar þessara sjóða er lagður til háskólans í Reykjavík, en hinn til háskólans í Kaupmannahöfn. Nánari fyrirmæli um stjórn og starfsemi sjóðanna setur konungur eftir tillögu stjórnar hvors lands, að fengnu áliti háskóla þess." Þessi fyrirmæli hafi verið sett með Stofnskrá fyrir Sáttmálasjóð sem staðfest hafi verið og birt með auglýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytis nr. 11/1919 dags. 29. júní 1919.

Sáttmálasjóður Háskólans sé sjálfseignarstofnun. Sjóðurinn einn beri ábyrgð á skuldbindingum sínum og sé algerlega óháður íhlutunarvaldi annarra, þ.á.m. hins opinbera, að öðru leyti en leiða kunni af ákvæðum laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfi samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Sáttmálasjóður sé því hvorki eign ríkisins né heyri hann til almennra eigna Háskóla Íslands, en samkvæmt 3. gr. stofn­skrárinnar fari háskólaráð með stjórn sjóðsins. Háskólabíó sé í eigu Sáttmálasjóðs og sé Háskóli Íslands þar sjálfur leigutaki ásamt Landsbanka Íslands, Sinfóníu­hljóm­sveit Íslands og öðrum aðilum.

Eins og fram hafi komið í stefnu hafi Háskólabíós um tíma verið getið í B-hluta fjárlaga, enda þótt ríkið hafi aldrei lagt því til fé eða tekið ábyrgð á fjárskuldbindingum þess. Þessi aðstaða hafi ekki samræmst raunverulegri stöðu stefnda, sbr. það sem hér að framan greinir, og hafi orðið tilefni til þess að þáverandi stjórnarformaður stefnda hafi með bréfi dags. 17. maí 1994 farið þess á leit við fjármálaráðuneytið að bíósins yrði ekki getið í fjárlögum næsta árs þar á eftir. Að lokinni athugun ráðuneytisins og að fenginni tillögu ríkisreikningsnefndar, sem fjallað hafi um málið, hafi verið ákveðið að bæta úr þeirri villandi mynd sem fjárlög hafi gefið um stöðu stefnda. Síðan hafi ekki verið getið um bíóið á fjárlögum.

Samkvæmt því sem að framan greinir geti stefnandi ekki notið réttinda sem opinber starfsmaður í skilningi 1. gr. laga nr. 38/1954, enda verði ekki talið að hann hafi við störf sín í þágu stefnda verið skipaður, settur eða ráðinn "í þjónustu ríkisins" eins og áskilið sé í ákvæðinu. Þá komi það einnig til að stefnandi verði ekki talinn hafa verið í aðalstarfi hjá stefnda heldur í hlutastarfi og hann hafi þegið laun sem miðuð hafi verið annars vegar við kjarasamning Starfsmannafélags ríkisins og hins vegar við kjarasamning Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Það eitt sé nægjanleg staðfesting á því að stefnandi hafi ekki haft réttarstöðu ríkisstarfsmanns.

Vegna tilvísana stefnanda til einstakra ákvæða í lögum nr. 38/1954 ítreki stefndi að hann telji þau lög ekki hafa átt við um stefnanda og því hafi um uppsögn hans farið eftir almennum reglum á íslenskum vinnumarkaði. En komist dómstóll að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 38/1954, sé því haldið fram af hálfu stefnda, að þó svo að ekki hafi verið gerður við stefnanda skriflegur ráðningarsamningur, þá hafi ráðningarkjör hans engu að síður verið með þeim hætti að stefnda hafi verið heimilt að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Það ráðningarform hafi verið ríkjandi hjá hinu opinbera á starfstíma stefnanda og um sambæri­leg störf, sbr. bókun með kjarasamningi BSRB og BHM 1989. Stefndi telji að þó svo að stefnandi teldist ríkisstarfsmaður hafi ákvæði 11. gr. laga nr. 38/1954 ekki átt við í tilviki hans vegna ráðningarkjara hans.

Í öðru lagi byggi stefnandi á því að um ráðningarkjör hans hafi farið að kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana. Því sé haldið fram að sá kjarasamningur geri ekki ráð fyrir því að unnt sé að segja starfsmanni upp eða að starfsmaður njóti uppsagnarfrests nema sá frestur sé sérstaklega tilgreindur í skriflegum samningi. Einnig sé vísað til 3. gr. laga nr. 97/1994 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisins í því sambandi. Af þessu leiði að um stefnanda gildi einungis lög nr. 38/1954 og kjarasamningur ríkisstarfsmanna.

Það liggi fyrir að stefnandi hafi ekki eingöngu tekið laun samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Starfsmannafélags ríkisstofnana heldur einnig samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Aðalatriðið sé þó, vegna þessarar málsástæðu stefnanda, að í umræddum kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana sé ekki mælt fyrir um uppsagnarfresti eða minnst á uppsagnir yfirleitt. Stefndi mótmælir því að unnt sé að draga þá ályktun sem stefnandi byggi á að þeim sem taki laun sem miðist þó aðeins að hluta við kjarasamning Starfsmannafélags ríkisstofnana, verði ekki sagt upp nema sérstaklega hafi verið samið um uppsagnarfrest í skriflegum ráðningarsamningi, m.ö.o að þeir njóti starfa sinna ævilangt.

Stefndi byggi á því að hvorki umræddur kjarasamningur né lög nr. 38/1954 hafi leitt til þeirrar réttarstöðu stefnanda sem haldið sé fram í stefnu. Þess í stað gildi um starf stefnanda að þessu leyti til lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Í 3. mgr. 1. gr. laganna sé kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda og sé það lengsti frestur sem lögin geri ráð fyrir. Verði því heldur ekki litið svo á að með uppsögn stefnanda hafi verið brotið gegn grein 13.2 í kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana enda lögbundin réttindi hans ekki skert með neinum hætti heldur þvert á móti hafi umfram lagskyldu verið tekið ríkt tillit til stöðu stefnanda og aldurs hans. Þannig hafi verið horft til þess hversu lengi hann hafði starfað fyrir bíóið jafnframt því hversu erfitt honum gæti reynst að afla sér atvinnu í stað þeirrar sem hann hafi haft hjá stefnda og þá til þeirrar staðreyndar að eftirlaunaaldur hafi verið skammt undan.

Í uppsagnarbréfi til stefnanda hafi verið tekið fram að honum væri sagt upp starfi "með lögboðnum 3ja mánaða fyrirvara". Jafnframt að honum yrðu greidd full laun næstu 3 mánuði. Eftir það yrðu honum greidd "samningsbundin laun án yfirvinnu og álagsgreiðslna" þar til hann næði 65 ára aldri. Stefnandi haldi því fram í stefnu að tilvitnuð orð uppsagnarbréfsins verði ekki skýrð á annan hátt en að Háskólabíó hafi talið sig skuldbundið til að greiða stefnanda laun í samræmi við lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sbr. 4. gr. þeirra laga.

Þessu sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Hinn lögboðni uppsagnarfrestur sem vísað sé til í bréfinu eigi sér stoð í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 en þar segi, eins og áður hafi komið fram, að eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda beri verkafólki þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Þar sem ljóst sé að stefnandi njóti ekki réttinda samkvæmt lögum nr. 38/1954 telji stefndi að lög nr. 19/1979 eigi við um réttarstöðu hans. En jafnvel þótt svo væri ekki þá sé á því byggt að þriggja mánaða uppsagnarfrestur sé sanngjarn eftir atvikum máls og að virtum þeim launagreiðslum sem stefnandi hafi fengið til 65 ára aldurs.

Þá sé þess að geta að með hugtakinu "samningsbundin laun" hafi verið átt við, eins og reyndar hafi verið augljóslega ráðið af samhenginu, að á þessu tímabili, þ.e. til 65 ára aldurs, fengi stefnandi einungis greiðslur í samræmi við grunntaxta en ekki fyrir yfirvinnu, vaktaálag eða annars konar aukagreiðslur. Fyrirsvarsmönnum stefnda hafi þótt nauðsynlegt að taka þetta fram sérstaklega þar sem eðli starfa stefnanda og opnunartími bíósins gerðu það að verkum að töluverður hluti launa hans hafi verið tilkomin vegna slíkra greiðslna.

Þá byggi stefnandi á því að í stefnu sé óheimilt, séð út frá jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að mismuna ríkisstarfsmönnum eða starfsmönnum stofnana á vegum ríkisins með mismunandi uppsagnarrétti eftir því hvort um kjör þeirra fer að kjarasamningum ríkisins eða kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Hér verði enn að ítreka að stefnandi hafi ekki verið starfsmaður stofnunar á vegum ríkisins heldur sjálfstæðrar sjálfseignarstofnunar. Þá verði einnig að gæta þess að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga miðist við að gætt sé samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Sé raunin sú að lög eða samningar leiði til mismunandi niðurstöðu um réttarstöðu einstaklinga verði því ekki breytt með tilvísun til jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar. Stefndi telji þessa málsástæðu stefnanda einnig vanreifaða.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi þá mótmæli stefndi fjárhæð og útreikningi bótakröfunnar. Þar sé t.d. ekki tekið tillit til skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Þá geti stefndi ekki fallist á að vaktaálag eða hugsanleg og óviss yfirvinna geti verið grundvöllur bóta. Auk þess sem útreikningurinn miðist við meiri yfirvinnu en stefnandi hafi að jafnaði unnið fyrir stefnda. Þá telji stefndi ekki rétt að leggja starfsaldur til sjötugs til grundvallar útreikningum heldur verði ekki gengið lengra en að miða við meðalaldur ríkisstarfsmanna. Stefnandi geri kröfu um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi og reikni þá kröfu bæði af vaktaálagi og yfirvinnugreiðslum þó svo að laun fyrir slíka vinnu hafi hvorki við uppsögn stefnanda verið grundvöllur iðgjalda né lífeyrisgreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Jafnframt beri að draga eftirlaun þau er stefnandi njóti frá bótagreiðslunni.

Stefndi hafni því alfarið sem í stefnu sé sett fram til stuðnings miskabótakröfu stefnanda. Þau atvik sem vísað sé til hafi ekkert með það að gera að stefnanda hafi verið sagt upp störfum í bíóinu. Að auki séu þau með öllu ósönnuð og ekki studd neinum gögnum. Þá virðist stefnandi ekki ætla að gera frekari tilraunir til að skjóta stoðum undir staðhæfingar sínar þar sem ekki sé óskað eftir því að leidd verði fram vitni sem staðfest geti þær. Verði að einhverju leyti fallist á þennan kröfulið sé honum mótmælt sem of háum.

Þá sé upphafstíma dráttarvaxta í kröfugerð mótmælt.

Niðurstöður

Aðila greinir á um það hvort Háskólabíó sé ríkisfyrirtæki, hvort stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 38/1954 og hvort uppsögn hans hafi verið lögmæt.

Háskólabíó var skráð hjá þjóðskrá sem ríkisfyrirtæki/stofnun þegar stefnanda var sagt upp störfum. Þá hefur Háskólabíó verið á B-hluta fjárlaga um árabil. Friðbert Pálsson, framkvæmdarstjóri stefnda, bar fyrir dómi að Háskólabíó hafi aldrei fengið neina fyrirgreiðslu hjá ríkinu. Hafi orðið halli á rekstri bíósins hafi það sjálft borið hann og eins ef tekjur hafi verið umfram gjöld hafi þær runnið til bíósins en ekki í ríkissjóð. Háskólabíó hafi verið tekið út af fjárlögum og sé ekki lengur skráð sem ríkisfyrirtæki/stofnun í þjóðskrá. Háskólabíó er eign Sáttmálasjóðs Háskóla Íslands og þar sem sá sjóður fellur undir eftirlit dómsmálaráðuneytisins, sætir bíóið endurskoðun af hálfu Ríkisendurskoðunar.

Þegar framanritað er virt þykir stefndi hafa sýnt fram á að Háskólabíó sé ekki ríkisstofnun enda þótt bíóið hafi um árabil verið skráð sem ríkisfyrirtæki/stofnun og verið á B-hluta fjárlaga.

Umdeilt er hvort stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi 1. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, meðan hann gegndi starfi sínu hjá stefnda og þegar uppsögnin barst honum. Til þess að starfsmaðurinn teljist ríkisstarfsmaður í skilningi áðurnefndra laga þarf hann að vera skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins með föstum launum, meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf.

Það kemur fram í málinu að stefnandi var ekki ráðinn hjá stefnda með ráðningar­samningi. Stefnandi fékk hins vegar laun skv. kjarasamningi Starfsmanna­félags ríkisstofnana við ríkið, fyrst eingöngu en síðar, er hann var ráðinn til aukinna starfa á árinu 1987, fékk hann greiðslur fyrir þau störf skv. samningi Verslunarmanna­félags Reykjavíkur.

Í 1. gr. laga nr. 38/1954 er það líka skilyrði að starfsmaður sé í vinnu á föstum launum meðan hann gegnir starfanum enda verði starf hans talið aðalstarf.

Stefnandi vann við dyravörslu og því var vinnutími hans háður opnunartíma bíósins. Af því leiðir að vinna stefnanda var síðdegis og fram á kvöld, en í 7-8 klukkustundir á dag eftir atvikum. Þegar yfirlit yfir vinnu stefnanda eru skoðuð kemur fram hvaða greiðslur hann fær fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Þótt vinnutíminn hafi verið síðdegis og fram á kvöld er ekki hægt að telja það jafngilda því að stefnandi hafi haft starfið að aukastarfi. Því hefur ekki verið mótmælt af stefnanda að hann hafi unnið aðra vinnu með vinnu sinni hjá stefnanda fyrstu árin sem hann starfaði þar. Hins vegar þykir stefnandi hafa sýnt fram, á það m.a. með lífeyrissjóðsyfirlitum sínum, að starf hans í þágu stefnda hin síðari ár hafi verið hans aðalstarf.

Frá árinu 1987 tók stefnandi 70-75% launa sinna samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna, hin 25% tók hann samkvæmt kjarasamningum Versl­unarmannafélags Reykjavíkur. Saman mynduðu þessar launagreiðslur eina heild fyrir starf sem var aðalstarf stefnanda. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/1954 verður starfsmaður að vera á föstum launum á meðan hann gegnir starfanum. Með föstum launum er átt við laun sem ákveðin eru með kjarasamningum samkvæmt lögum nr. 94/1986. Stefnandi byggði launakjör sín ekki á kjarasamningum á grundvelli laga nr. 80/1938. Hins vegar fékk stefnandi laun sín greidd eftir á en ekki fyrirfram svo sem 20. gr. laga nr. 38/1954 gerir ráð fyrir.

Enda þótt stefndi, Háskólabíó, sé ekki ríkisstofnun hefur stefnandi sannanlega tekið hluta launa sinna samkvæmt kjarasamningum ríkisstarfsmanna. Stefnandi fékk launagreiðslur eftir uppsögnina í 3 mánuði, en síðan samningsbundin laun án yfirvinnu og álagsgreiðslna til 65 ára aldurs með vísan til 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979.

Í 1. gr. laga nr. 38/1954 er það eitt af skilyrðunum sem sett eru til þess að lögin taki til manna að þeir hafi verið skipaðir, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins. Ekki er það skilyrði að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur. Með hliðsjón af því sem hér að framan greinir þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi verið í þjónustu ríkisins, svo sem 1. gr. laga nr. 38/1954 gerir ráð fyrir sem skilyrði fyrir að lögin taki til manna.

Stefnda, Háskólabíói var hins vegar í lófa lagið að gera ráðningarsamning við stefnanda þegar algengara varð að gera slíka samninga. Framkvæmdarstjóri stefnda hefur upplýst að það hafi í auknum mæli verið gert innan stofnunarinnar frá því hann tók við framkvæmdarstjórastarfi hjá stefnda. Það hafi verið talið eðlilegra að starfsmenn tækju laun eftir samningum hjá VR eins og starfsmenn hjá samkeppnisaðilum. Í dag væri einungis einn starfsmaður hjá stefnda sem tæki laun skv. samningum opinberra starfsmanna. Ekki kom fram hvort stefndi hafi gert ráðningarsamning við þann starfsmann.

Að framan hefur verið rakið að stefndi sé ekki ríkisstofnun og ekki verður talið að stefnandi uppfylli öll skilyrði þess að geta talist heyra undir ákvæði laga nr. 38/1954 svo sem rakið hefur verið. Stefnandi telst því ekki hafa verið ríkisstarfsmaður, hvorki í víðtækasta né þrengsta skilningi þess orðs. Það er hins vegar óumdeilt að stefnandi tók laun skv. kjarasamningum opinberra stafsmanna, þó ekki verði með hliðsjón af því sem hér að framan er rakið talið að hann njóti réttinda sem slíkur. Hins vegar þykir stefndi verða að bera hallann af hinni óvissu stöðu sem stefnandi var í sem starfsmaður hans. Stefnandi gegndi starfi hjá stefnda hátt í þrjátíu ár án þess að hirt væri um að gera við hann ráðningarsamning sem framkvæmdarstjóri stefnda hefur lýst yfir að hafi þó tíðkast í auknum mæli allt frá því hann tók við starfi framkvæmdarstjóra hjá stefnda fyrir 20 árum. Stefnandi var komin hátt á sjötugsaldur þegar honum var sagt upp störfum og hann var ekki heill heilsu. Eftir að hann hætti störfum vann hann um tíma hjá Myllunni Brauð hf., en varð að hætta störfum þar vegna heilsubrests um síðustu áramót. Vegna bágra kjara stefnanda og heilsuleysis hefur hann notið félagslegrar aðstoðar og verið á atvinnuleysisbótum. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnanda hafi verið greidd laun umfram skyldu, m.a. vegna framangreinds. Stefnda, Háskólabíói var í lófa lagið að kveða á um skýrari stöðu stefnanda, m.a. með því að gera við hann ráðningarsamning eins og hann gerði við flestalla aðra starfsmenn sína. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að hann hafi haft ótímabundna ráðningu hjá stefnda. Það liggur fyrir að ekki var gerður ráðningarsamningur við stefnanda þegar hann réðst til starfa hjá stefnda. Af hálfu stefnda hefur hins vegar ekki verið gefin skýring á því, hvers vegna ekki var gerður ráðningarsamningur við stefnanda síðar, t.d. þegar hann gekk til aukinna starfa fyrir stefnda á árinu 1987 og tók laun vegna þeirra starfa eftir VR-samningum. Þegar framanritað er virt þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að stefnandi hafi haft tímabundna ráðningu með þeim lögfylgjum sem því fylgja. Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður litið svo á að stefnandi hafi haft ótímabundna ráðningu hjá stefnda án uppsagnarfrests. Þar sem stefnanda var sagt upp án sakar ber stefnda að greiða honum bætur sem þykja hæfilega ákveðnar að fjárhæð 2.000.000 kr. með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefnandi krefst miskabóta. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að uppsögn hans megi rekja til peningahvarfs árið áður, sem enn sé ekki upplýst. Stefnandi annaðist peningaflutninga ásamt öðrum starfsmanni um árabil. Hann hafi verið annar þeirra sem borinn hafi verið sökum vegna þessa og mátt þola rógburð af þeim sökum. Hann hafi m.a. verið kvaddur til yfirheyrslu hjá lögreglu. Stefnandi telur að mannorð sitt hafi beðið hnekki vegna þessa og vegna uppsagnarinnar sem hann hafi mátt þola. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að uppsögnin tengist ekki með neinum hætti hinu óupplýsta peningahvarfi.

Forsvarsmaður stefnda greindi frá því að vaxandi óánægju hafi gætt með störf stefnanda án þess að skýra það frekar. Sú óánægja hafi leitt til uppsagnar stefnda. Þess utan verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að störf stefnanda í þágu stefnda hafi verið farsæl í þau tæp þrjátíu ár sem hann starfaði þar. Það getur hvorki talist óeðlilegt eða meiðandi fyrir starfsmann sem annast hefur peningaflutninga að hann sé kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu þegar peningasending hverfur. Að öðru leyti hefur stefnandi ekki greint frá því í hverju mannorð hans hafi beðið hnekki. Af framburði framkvæmdarstjóra stefnda mátti ráða að stefnandi hafi sætt einhverjum umvöndunum vegna starfs síns áður en til uppsagnarinnar kom. Því hefur ekki verið mótmælt af stefnanda. Stefnandi þykir því ekki hafa sýnt fram á að hann hafi ekki fengið neinar skýringar á uppsögninni. Með hliðsjón af því sem hér að framan greinir þykir stefnandi hvorki hafa sýnt fram á tengsl uppsagnarinnar við peningahvarfið, né að uppsögnin hafi verið ærumeiðandi fyrir hann og er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um miskabætur.

Hvor aðili um sig skal bera sinn kostnað af málinu.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 446.110 kr. greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Atla Gíslasonar, hrl., 423.300 kr. og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Halla Bachmann Ólafsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefnda, Háskólabíó, greiði stefnanda, Sigurbirni Þorgrímssyni 2.000.000 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. júní 1997 til greiðsludags.

Hvor aðili um sig skal bera sinn kostnað af málinu.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 446.110 kr., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns stefnanda, Atla Gíslasonar, hrl., 423.300 kr. og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.