Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Frestur
  • Gagnaöflun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 158/2010.

Steelers FinCo ehf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Sigurður Gísli Gíslason hrl.)

Kærumál. Aðfarargerð. Frestur. Gagnaöflun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

S ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þess gegn T vegna aðfaragerðar var vísað frá dómi. Talið var að ekki hafi verið sannað með óyggjandi hætti að málið hafi borist héraðsdómi innan 8 vikna frá því að aðfarargerðinni hafi verið lokið, eins og áskilið væri í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Var staðfesti niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallist er á með sóknaraðila að lög hafi ekki staðið til þess að héraðsdómari aflaði gagna til framlagningar í málinu og varð niðurstaða héraðsdóms ekki á þeim reist. Að þessu athuguðu en að öðru leyti  með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Steelers FinCo ehf., greiði varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2010

Mál þetta barst dóminum með bréfi dags. 26. júní 2009, en árituðu um móttöku 30. júní 2009, var þingfest 27. júlí 2009 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila þann 1. febrúar 2010, að loknum vitnaleiðslum og málflutningi. Áður hafði því verið hafnað með úrskurði að leidd yrðu vitni við málflutning um frávísunarkröfuna fyrir héraðsdómi, en Hæstiréttur breytti þeirri niðurstöðu með dómi sínum í máli nr. 668/2009.

Sóknaraðili er Steelers FinCo ehf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík. Hann krefst þess í kæru til héraðsdóms dags. 26. júní 2009, en móttekinni 30. júní 2009, að aðfarargerð nr. 011-2009-04744, er fór fram hjá Sýslumanninum í Reykjavík 4. maí 2009, verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 19, Reykjavík. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að varnaraðili verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og ofangreind aðfarargerð verði staðfest. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins í þessum hluta málsins.

I.

Helstu málavextir að baki ágreiningsefni málsins eru að með úrskurði skattstjórans í Reykjavík frá 8. september 2009 var hafnað beiðni Steelers Holding ehf. um samsköttun með dótturfélögum sínum, þ.á.m. sóknaraðila. Í framhaldi af því var lagður tekjuskattur á sóknaraðila og þegar hann var ekki greiddur fór varnaraðili fram á að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila og lauk því án árangurs hjá sýslumanninum í Reykjavík 4. maí 2009, þrátt fyrir að sóknaraðili, benti á kröfu í sinni eigu til fjárnáms.

II.

Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun málsins á því að krafa sóknaraðila um úrlausn héraðsdóms hafi borist of seint. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989 megi krefjast úrlausnar um aðfarargerð ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan 8 vikna frá því að gerðinni var lokið. Í 2. mgr. 92. gr. laganna komi fram að víkja megi frá þessu ef héraðsdómari telji afsakanlegt að málið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð. Ekkert slíkt liggi fyrir hér og engar röksemdir verið færðar fyrir því að drátturinn hafi verið afsakanlegur, enda ekkert að honum vikið í kærunni. Skilyrði fyrir því að krefjast megi úrslausnar héraðsdómara um viðkomandi aðfarargerð séu því ekki uppfyllt og þess krafist að málinu verði vísað frá dómi.

III.

Sóknaraðili fullyrðir að kæra hans á aðfarargerð sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík 4. maí 2009, hafi borist dómstólnum 26. júní 2009 og hafi því borist innan þess frests sem tilgreindur er í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni leiddi hann fram vitni við flutning málsins um frávísun, tvo starfsmenn lögmannsþjónustunnar Logos og starfsmann hraðsendingaþjónustunnar Dxpress.

Árni J. Sigurðsson sendill hjá fyrirtækinu Dxpress sagðist þjónusta m.a. Logos. Hann bar um að hann hefði komið á skrifstofu Logos síðdegis föstudaginn 26. júní til að taka þar sendingu og fara með í Héraðsdóm Reykjavíkur. Aðspurður segist hann muna það vegna þess að hann hafi kvittanir fyrir sendingunni. Hann segist hafa úrskrift úr GPS tæki sem sýni að hann hafi verið staddur í Austurstræti, við Héraðsdóm Reykjavíkur þennan dag, einhvern tíman á tímabilinu frá 10 til 16. Hann segir útilokið að hann hafi ekki skilað af sér bréfi samdægurs, en ef til slíks kæmi myndi hann hafa farið með bréf strax til sendandans aftur. Hann kveðst ekki muna skýrt sjálfstætt eftir ferðinni, en styðjast við gögnin varðandi þetta. Hann upplýsir að bréf séu almennt í umslögum og hann sjái ekki hvaða gögn það eru sem hann er að sendast með.

Ólafur Kristjánsson, lögmaður, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá Logos sumarið 2009. Hann kveðst muna eftir að hafa gengið frá kærunni í málinu sem hér er um að ræða. Hann kvaðst muna eftir að legið hefði á að koma málinu af stað og telur að hann hafi komið bréfinu í afgreiðsluna hjá Logos, þar hafi Guðrún móttökustjóri tekið við bréfinu. Hann telur að þetta muni hafa verið á bilinu 14 til 14.30  þennan dag. Hann kvaðst ekki hafa upplýsingar um hvað varð um bréfið eftir að hann skildi það eftir í afgreiðslunni.

Guðrún Jóhannesdóttir, móttökustjóri hjá Logos kom fyrir dóminn. Hún upplýsir að hluti starfs hennar sé að koma sendingum af stað frá lögmannsstofunni. Hún lýsir verklaginu við að senda erindi frá stofunni og m.a. skjölum sem skráðar eru á boðsendingar hvers dags. Hún kannast við skjalið sem lagt hefur verið fram í málinu sem sýni boðsendingar 26. júní 2009 og kveðst muna eftir að mikið hafi verið að gera þennan dag, hún hafi verið lengur en venjulega, en hún hætti yfirleitt kl. 14 á föstudögum. Að jafnaði fari boðsendingar um kl. 13, en þennan dag hafi verið farin aukaferð seinna. Hún tekur fram að málanúmer sem skráð sé við áritunina um sendingu til Héraðsdóms Reykjavíkur, sé málanúmer sóknaraðila í máli þessu. Hún staðfestir að hún hafi móttekið bréf frá Ólafi tengt sóknaraðila, gengið frá því til sendingar og telur að það hafi verið farið af stað fyrir kl. 15. Hún kveðst aðspurð ekki vita af eigin raun hvað varð um bréfið eftir að það fór úr húsinu, en tekur fram að ekki hafi verið gert ráð fyrir að kvittun kæmi til baka frá Héraðsdómi Reykjavíkur.

IV.

Í máli þessu liggur fyrir að mánudaginn 29. júní 2009 voru liðnar 8 vikur frá því að hin umdeilda aðfarargerð fór fram. Jafnframt liggur fyrir að krafa um að aðfarargerðin yrði felld úr gildi er árituð um móttöku og greiðslu dómsmálagjalda þriðjudaginn 30. júní 2009.

Telja verður að fara verði eftir áritun héraðsdóms um móttöku skjals, nema óyggjandi sönnum komi fram um annað og má þar hafa hliðsjón af 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um opinber skjöl og sönnunarstöðu þeirra við úrlausn ágreinings fyrir dómi.

Sóknaraðili heldur því fram, að nefnd krafa um að aðfarargerð yrði felld úr gildi hafi verið afhent héraðsdómi föstudaginn 26. júní 2009. Til stuðnings þessu hefur hann leitt þrjú vitni, lögmann sem á þessum tíma starfaði á lögmannsstofu lögmanns sóknaraðila, móttökustjóra stofunnar og starfsmann fyrirtækis sem veitir lögmanns­stofunni þjónustu varðandi boðsendingar. Þessir aðilar báru um sína aðkomu að málinu eins og rakið er að framan, lögmaðurinn um að hann hefði gengið frá erindinu og komið í hendur móttökustjórans, hún staðfesti að áritun á skjal um boðsendingar 26. júní 2009 væri vegna þess máls sem hér um ræðir og að sendill frá boð­sendinga-þjónustu hefði tekið við því og farið með og sendillinn upplýsti um hvernig verklagið væri varðandi slíkar sendingar og studdist við útprentanir úr GPS tæki til að staðfesta að hann hefði þennan dag farið að húsi Héraðsdóms Reykjavíkur með sendingu. Tvö síðarnefndu vitnin kváðust aðspurð ekki vera viss um að muna sérstaklega eftir þessu atviki, ef ekki væru gögnin að styðjast við, en móttökustjórinn var þó nokkuð viss um að um föstudag hefði verið að ræða. Þá kom fram að hvorugt þeirra gat staðfest að um þetta erindi hefði verið að ræða. Að því er varðar hvenær dagsins þessi sending hefði farið til héraðsdóms, virðast vitni sammála um að hún hafi farið af stað eftir 14.30, en ekkert þeirra gat borið um hvenær nákvæmlega hún hefði farið úr húsnæði Logos í Efstaleiti.

Með hliðsjón af því sem fram kom í skýrslutöku af Guðrúnu móttökustjóra um að ekki hefði átt að koma með kvittun til baka úr héraðsdómi í þessu tilviki, var aflað upplýsinga úr bókhaldi dómstólsins. Kom fram að engin greiðsla barst frá viðkomandi lögmannsstofu 26. júní 2009 með millifærslu, en greiðslur sem greiddar eru í afgreiðslu eru ekki sundurgreindar eftir greiðendum. Þá liggja fyrir upplýsingar um það að frá og með 22. júní 2009 til 1. september var opnunartími afgreiðslu dómsins frá 8.45 til 12.00 og frá 13.00 til 15.00.

Þó að ekki sé efast um framburði vitnanna í málinu verður við sönnunarmat að líta til þess að þau hafa meiri eða minni hagsmunatengsl við lögmannsstofu sóknaraðila. Það skiptir þó meira máli að hvorki vitnisburðir né gögn sem lögð hafa verið fram í málinu geta talist sanna með óyggjandi hætti að áritun á erindi sóknaraðila sem dagsett er 26. júní 2009, hafi borist dóminum/dómara þann dag og þar með innan 8 vikna frá gerðinni var lokið, eins og skýrt er áskilið í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Verður því með vísan til nefnds lagaákvæðis og alls þess sem að framan er rakið, ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.