Hæstiréttur íslands

Mál nr. 646/2016

Arion banki hf. (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)
gegn
Hildi Veru Sæmundsdóttur (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Ábyrgð
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Ógilding samnings
  • Gjafsókn

Reifun

A hf. höfðaði mál á hendur H til heimtu skuldar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar H á láni til sonar hennar. Sýknukrafa H var meðal annars reist á því að A hf. hefði ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 við mat á greiðslugetu lántaka. Hefði í fyrsta lagi ekki verið gert ráð fyrir rekstrarkostnaði húsnæðis við mat á mánaðarlegum útgjöldum en lántaki hefði búið í leiguhúsnæði á þeim tíma er hann tók lánið. Í öðru lagi hefði framfærslukostnaður ekki tekið tekið mið af því að lántaki hefði á þessum tíma átt maka og tvö börn og í þriðja lagi hefði greiðslubyrði af skuldabréfinu, sem H hefði gengist í ábyrgð fyrir, verið vanáætluð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í greiðslumatinu, sem H undirritaði, hefði verið tekið fram að hún staðfesti að hafa fengið matið afhent, kynnt sér og skilið það og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sitt leyti. Undir liðnum áætlaður rekstrarkostnaður húsnæðis hefði komið fram að hann væri enginn. Benti ekkert til að A hf. fremur en H hefði mátt vera ljóst að þessi forsenda væri röng og yrði A hf. ekki kennt um hana. Þá hefði komið fram í matinu að lántaki væri metinn sem einstaklingur. Var talið að H hefði einnig mátt vera þetta ljóst og A hf. verið rétt að leggja þetta til grundvallar. Loks var talið að væri greiðslumatið leiðrétt með tilliti til fjárhæðar hæstu afborgunar af skuldabréfinu hefði lántaki samt staðist greiðslumatið og því átt að geta staðið í skilum með skuldir sínar. Voru því ekki talin næg efni til að víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgð H á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá var ekki talið að óheiðarlegt væri af A hf. að bera ábyrgðina fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga, eða að H væri óbundin af henni eftir reglum samningaréttar um brostnar forsendur. Var H því gert að greiða A hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2016. Hann krefst þess að  stefndu verði gert að greiða sér 1.833.262 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

I

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á efndum skuldabréfs að fjárhæð 1.500.000 krónur útgefnu 23. apríl 2008 af syni hennar, Tómasi Höskuldssyni, til Kaupþings banka hf. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október sama ár var tilgreindum eignum og skuldum bankans ráðstafað til áfrýjanda, þar með talið umræddu skuldabréfi. Frá 1. júlí 2014 hefur bréfið verið í vanskilum og höfðaði áfrýjandi málið á hendur stefndu til heimtu skuldar samkvæmt því. Málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi.

II

Stefnda reisir kröfu sína um sýknu af kröfu áfrýjanda á því að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði 4. apríl 2014 að fella úr gildi ábyrgð stefndu gagnvart áfrýjanda. Í kjölfarið hafi áfrýjandi tilkynnt stefndu með bréfi 16. sama mánaðar að hann sætti sig ekki við þá niðurstöðu nema að gengnum dómi á þann veg. Stefnda telur aftur á móti að áfrýjandi sé bundinn af niðurstöðunni eftir þeim samþykktum sem gilda um nefndina. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 75/2010, er áfrýjanda skylt að eiga aðild að nefndinni. Þar er einnig tekið fram að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til stjórnvalda, en aðilum máls sé heimilt að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Er þetta í samræmi við rótgróna réttarfarsreglu í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem varin er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi lögbundni réttur áfrýjanda verður ekki takmarkaður með samþykktum fyrir nefndina, sbr. dóm Hæstaréttar 23. janúar 2014 í máli nr. 563/2013. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna þessari málsástæðu stefndu.

III

Í annan stað byggir stefnda kröfu sína um sýknu á því að víkja beri til hliðar sjálfskuldarábyrgð hennar á grunni 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Auk þess telur hún það sama leiða af því að forsendur fyrir ábyrgðinni hafi brostið og að óheiðarlegt sé af áfrýjanda að bera hana fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga.

Til stuðnings þessum málatilbúnaði vísar stefnda til þess að til skuldar samkvæmt skuldabréfinu, sem hún gekkst í ábyrgð fyrir, hafi verið stofnað vegna lánveitingar til sonar hennar. Við þá ráðstöfun hafi lánveitandi vegna aðildar sinnar að Samtökum banka og fjármálafyrirtækja verið bundinn af ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og borið að meta greiðslugetu lántaka eftir fyrirmælum þess. Telur stefnda að slíkir annmarkar hafi verið á greiðslumati lánveitanda 21. apríl 2008 að hún verði ekki krafin greiðslu á grundvelli ábyrgðarinnar.

Fyrir Hæstarétti heldur stefnda því einnig fram að hún hafi ekki verið upplýst um að sonur hennar hafi verið í vanskilum við bankann áður en hún gekkst í ábyrgðina, en þetta komi fram í skjali bankans 16. apríl 2008 sem ber yfirskriftina „LÁNAÁKVÖRÐUN.“ Þessi nýja málsástæða kemst ekki að hér fyrir dómi, enda standa ekki til þess lagaskilyrði samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnda telur í fyrsta lagi að sá annmarki hafi verið á greiðslumatinu að ekki hafi verið gert ráð fyrir rekstrarkostnaði húsnæðis við mat á mánaðarlegum útgjöldum, en lántaki hafi búið í leiguhúsnæði á þeim tíma er hann tók lánið. Í öðru lagi hefði framfærslukostnaður ekki tekið mið af því að lántaki átti á þessum tíma maka og tvö börn. Loks verði í þriðja lagi að líta til þess að greiðslubyrði af skuldabréfinu, sem stefnda hafi gengist í ábyrgð fyrir, hafi verið vanáætluð.

Í greiðslumatinu, sem stefnda undirritaði, var tekið fram að hún staðfesti að hafa fengið matið afhent, kynnt sér og skilið það og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sitt leyti. Þá sagði þar að upplýsingar í matinu um fjárhagsstöðu lántaka væru að hluta til komnar frá honum. Undir liðnum áætlaður rekstrarkostnaður húsnæðis sagði að hann væri enginn með því að þar var tilgreind talan 0. Þessi forsenda matsins kom því fram og bendir ekkert til að lánveitanda fremur en stefndu, sem er móðir lántaka, hafi mátt vera ljóst að hún hafi verið röng. Var þessi forsenda í greiðslumatinu því ekki þess eðlis að áfrýjanda yrði um hana kennt.

Samkvæmt greiðslumatinu var áætlaður framfærslukostnaður lántaka 94.624 krónur á mánuði. Í því er maka ekki getið í viðeigandi reit og var lántaki þar af leiðandi metinn sem einstaklingur. Þetta mátti stefndu einnig vera ljóst af matinu og var lánveitanda rétt að leggja þetta til grundvallar.

Á hinn bóginn er óumdeilt að í greiðslumatinu var reiknað með að mánaðarlegar afborganir af skuldabréfinu, sem stefnda gekkst í ábyrgð fyrir, næmu 14.314 krónum, en samkvæmt útreikningi lánveitanda í tilefni af lántökunni nam mánaðarleg afborgun í upphafi 35.470 krónum og lækkaði á sjö ára lánstíma þannig að lokaafborgun næmi 18.241 krónu.

Svo sem greinir í héraðsdómi var niðurstaða greiðslumatsins á lántaka sú að greiðslugeta hans, að teknu tilliti til útgjalda og afborgana af skuldum, næmi 61.348 krónum. Ef hún er leiðrétt með tilliti til fjárhæðar hæstu afborgunar af skuldabréfinu stóðst lántaki samt greiðslumatið og átti því að geta staðið í skilum með skuldir sínar. Eins og endranær var þetta þó háð því að hann yrði ekki fyrir fjárhagslegum áföllum eða að hæfni hans til tekjuöflunar yrði skert, en ábyrgðin eftir eðli sínu fól í sér að ábyrgðarmaður tók áhættuna af slíku með því að veita lánveitanda tryggingu fyrir efndum kröfunnar. Hér er þess einnig að gæta að stefnda bar fyrir dómi að neikvæð eignastaða lántaka um tæplega 3.000.000 krónur hefði ekki aftrað henni frá því að gangast í ábyrgðina, enda þyrfti ungt fólk sem væri „að byrja lífið“ á fyrirgreiðslu að halda. Að þessu virtu verða ekki talin næg efni til að víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgð stefndu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Verður heldur ekki talið að óheiðarlegt sé af áfrýjanda að bera ábyrgðina fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga, eða að stefnda sé óbundinn af henni eftir reglum samningaréttar um brostnar forsendur.

Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda á hendur stefndu tekin til greina með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, en ekki er ágreiningur með aðilum um útreikning kröfunnar og upphafsdag vaxta.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum, en um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefnda, Hildur Vera Sæmundsdóttir, greiði áfrýjanda, Arion banka hf., 1.833.262 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2014 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 650.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2016

        Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri þann 7. maí 2015 af Arion banka hf., Borgartúni 19, 105 Reykjavík, á hendur Hildi Veru Sæmundsdóttur, Víðimel 19, Reykjavík.

I.

        Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.833.262 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.833.262 kr. frá 1.7.2014 til greiðsludags 

        Þá krefst stefnandi málskostnaðar skv. málskostnaðarreikningi.

        Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar.

II.

Málsatvik

         Þann 16. apríl 2008 sótti Tómas Höskuldsson um lán að fjárhæð 1.500.000 krónur hjá Kaupþingi banka hf. Hann fékk stefndu, móður sína, til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu þar sem hann væri á förum til útlanda þar eð barnsmóðir hans væri á leið í háskólanám erlendis. Lánveitingin var afgreidd samdægurs og stefnda var tilgreind sjálfskuldarábyrgðarmaður lánsins. Tilgreint var í lánaákvörðun að tilefni lánveitingarinnar væru framkvæmdir og íbúðakaup. Stefnda undirritaði skjalið „Niðurstöður greiðslumats“, sem dagsett var 21. apríl 2008. Tómas Höskuldsson ritaði undir skjalið sem greiðandi, en stefnda ritaði undir skjalið sem ábyrgðarmaður. Skuldabréfið var nr. 0311-74-6274 og útgefið af Tómasi Höskuldssyni þann 23.4.2008. Á skuldabréfinu kom fram að það væri „NÁMSLOKALÁN“. Skuldabréfið var að fjárhæð 1.500.000 kr., vísitölutryggt m.v. vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 286,2. Skuldina skyldi endurgreiða á sjö árum með 84 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 1.6.2008. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins skyldi greiða vexti af höfuðstól skuldarinnar, eins og hann væri á hverjum tíma, þ.e. breytilega kjörvexti eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma að viðbættu föstu vaxtaálagi. Vextir skyldu reiknast frá útgáfudegi skuldabréfsins og greiðast eftir á, á sama tíma og afborganir, í fyrsta skipti þann 1.6.2008.

        Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldabréfsins gekkst stefnda í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar og ábyrgðist persónulega að tryggja efndir skuldabréfsins eins og um hennar eigin skuld væri að ræða.

        Greiðslumat hafði verið framkvæmt á lántaka Tómasi og þar kom fram að ráðstöfunartekjur væru 250.000 krónur á mánuði, ætlaður framfærslukostnaður væri 94.624 krónur, áætlaður rekstarkostnaður húsnæðis væri enginn, áætlaður rekstrarkostnaður bifreiðar væri 37.500 krónur og önnur gjöld væru engin. Áætluð greiðslugeta án skulda var 117.876 krónur. Áætluð greiðslugeta núverandi fasteignalána var tilgreind 0 krónur, áætluð greiðslubyrði annarra núverandi lána var 42.215 krónur og áætluð greiðslubyrði væntanlegra lána var 14.313 krónur. Áætluð greiðslugeta með skuldum var metin 61.348 krónur. Lántaki átti engar eignir. Önnur lán voru 1.335.079 krónur, væntanlegt lán var 1.500.000 krónur, samtals skuldir voru því 2.835.079 krónur og eignastaða hans neikvæð sem því nam. Tiltekið var í greiðslumati að neikvæð eignastaða merkti að greiðandi skuldaði meira en eignum hans næmi. Stefnda staðfesti með undirrtiun sinni á greiðslumatið að hafa fengið afhent, kynnt sér og skilið þetta mat á greiðslugetu greiðanda og samþykkti það sem fullnægjandi fyrir sig. Þá staðfest hún jafnframt með undirritun sinni að hafa kynnt sér fræðslurit Kaupþings fyrir ábyrgðarmenn.

        Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008, hafði ráðstöfðun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til stefnanda Arion banki hf., verið ákveðin, þ.m.t. ákvörðun um kröfu þessa á hendur stefndu.

        Á þeim tíma sem skuldabréfið var gefið út mun Tómas hafa verið orðinn veikur án þess að stefnda vissi af því þá. Stuttu síðar fór Tómas til Danmerkur og var þá orðinn verulega veikur. Hann var á endanum færður til Íslands í fylgd lögreglu og í kjölfarið nauðungarvistaður á geðdeild. Innlögn hans þar varði í sjö mánuði.

        Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dagsett 2. október 2013, þar sem það vottast að Tómas Höskuldsson hafi ekki getað unnið launavinnu undanfarin ár vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Hann hafi fyrst farið í geðrof fyrir um 8 árum og legið nokkrum sinnum á geðdeild frá þeim tíma. Af þessum sökum hafi hann ekki haft neinar atvinnutekjur síðustu ár og fyrirséð að svo yrði ekki í nánustu framtíð. Tómas hefur meira og minna frá þeim tíma legið inni á Kleppsspítala.

        Tómas fékk vegna greiðsluvandræða samþykkta breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins þann 27. nóvember 2008, 2. febrúar 2012, 18. apríl 2012, 27. september 2012 og síðan 17. apríl 2013. Stefnda ritaði samþykki sitt á þessar skilmálabreytingar.

        Gjalddagi skuldabréfsins þann1. júli 2014 var ekki greiddur og gjaldfelldi stefnandi skuldabréfið miðað við þann dag.

        Stefnda sótti um greiðsluaðlögun fyrir hönd sonar síns vegna geðrænna veikinda hans. Í samþykktu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun voru allar skuldir hans felldar niður. Í kjölfarið sendi stefnandi stefndu bréf, dags. 3. júlí 2014, þar sem henni var tilkynnt að hún bæri ábyrgð á þeim eftirstöðvum sem ekki fengjust greiddar hjá skuldara, enda hefði samningur um greiðsluaðlögun mælt fyrir um að hann skyldi standa skil á 0% af samningskröfum, þ.m.t. þeirri kröfu sem hér er til umfjöllunar.

          Hinn 4. desember 2013 sendi stefnda kvörtun vegna innheimtuaðgerða bankans til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nefndin kvað upp úrskurð sinn í máli nr. 104/2013 hinn 4. apríl 2014. Það var niðurstaða nefndarinnar að ábyrgðin skyldi felld úr gildi enda væri greiðslumatið haldið miklum ágöllum. Þrátt fyrir það hélt stefnandi innheimtuaðgerðum sínum áfram og hinn 11. febrúar 2015 var tekin fyrir aðfararbeiðni stefnanda hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og henni hafnað.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir kröfur sínar á verðtryggðu skuldabréfi nr. 0311-74-6274, útgefnu af Tómasi Höskuldssyni þann 23.4.2008. Með útgáfu skuldabréfsins viðurkenndi hann að skulda Kaupþingi banka hf. (nú stefnanda) 1.500.000 kr. Fjárhæðin sé vísitölutryggð m.v. vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 286,2. Skuldina hafi borið að endurgreiða á sjö árum með 84 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 1.6.2008. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins skyldi greiða vexti af höfuðstól skuldarinnar, eins og hann var á hverjum tíma, þ.e. breytilega kjörvexti eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma að viðbættu föstu vaxtaálagi. Vextir skyldu reiknast frá útgáfudegi skuldabréfsins og greiðast eftir á, á sama tíma og afborganir, í fyrsta skipti þann 1.6.2008.

        Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldabréfsins hafi stefnda gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar og ábyrgst persónulega að tryggja efndir skuldabréfsins eins og um hennar eigin skuld væri að ræða. Gjalddagi skuldabréfsins þann 1.7.2014 hafi ekki verið greiddur og skuldabréfið verið gjaldfellt miðað við þann dag. Þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar numið samtals 1.823.764 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins, en þar af hafi samningsvextir numið 9.498 kr. Bankakostnaður og áfallinn innheimtukostnaður hafi verið numið 17.095 kr. Krafa um bankakostnað sé vegna kostnaðar stefnanda við að halda kröfu sinni til haga vegna vanskila stefnda fram að löginnheimtu og byggist fjárhæðin á gjaldskrá stefnanda.

        Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins beri stefndu að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

        Samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefndu að greiða kröfuna. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

        Stefnandi vísar til þess að með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., víkja stjórn bankans frá og skipa skilanefnd yfir hann. Ákvörðun þessi sé dagsett 9. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008, hafi ráðstöfðun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til stefnanda, Arion banka hf., verið ákveðin, þ.m.t. ákvörðun um kröfu á hendur stefndu.

        Með úrskurði úrskurðarnefndar fjármálafyrirtækja nr. 104/2013, dags. 4. apríl. 2014, hafi sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna ofangreinds skuldabréfs verið felld úr gildi. Með bréfi stefnanda, dags. 16.4.2014, var tilkynnt að stefnandi myndi ekki sætta sig við umræddan úrskurð úrskurðarnefndar og yrði sjálfskuldarábyrgð stefndu því ekki felld úr gildi fyrr en að undangengnum dómi. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi synjaði kröfu stefnanda um aðför á stefndu sem gerðarþola þann 11.2.2015. Stefnanda sé því ekki mögulegt að fá gert fjárnám á grundvelli umrædds skuldabréfs og höfði hann því mál þetta til að fá aðfararhæfan dóm um greiðsluskyldu stefndu.

         Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefndu

        Stefnda byggir dómkröfur sínar einkum annars vegar á því að þeirri sjálfskuldarábyrgð sem hún undirgekkst til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldabréfs sonar hennar, nr. 0311-74-6724, skuli vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá byggir hún hins vegar á því að stefnandi sé bundinn af úrskurði úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í máli nr. 104/2013, enda hafi tilkynning stefnanda, sbr. dskj. nr. 8, ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir úrskurðarnefndina.

        Stefnda byggir á því að í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sé kveðið á um að víkja megi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, samningi ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. sé kveðið á um að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefnda byggir á því að öll skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu uppfyllt. Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sé undirritað af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna. Kaupþing hafi verið eitt þessara aðildarfélaga og stefnandi í máli þessu leiði rétt sinn frá því félagi. Kaupþingi hafi borið að fullnægja þeim skyldum sem á því hvíldu samkvæmt samkomulaginu og þær skyldur hafi stefnandi yfirtekið.

        Umrætt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga taki m.a. til þess þegar einstaklingur gengst í sjálfskuldarábyrgð, sbr. 2. gr. samkomulagsins. Samkvæmt 3. gr. þess sé fjármálafyrirtæki skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Fjármálafyrirtæki sé þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en einni milljón króna. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skuli tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skuli hann staðfesta það skriflega.

         Stefnda kveðst aldrei hafa fengið að sjá þau gögn sem lágu til grundvallar greiðslumatinu. Stefnda hafi aðeins verið fengin til þess að undirrita umrædda ábyrgðaryfirlýsingu og hún hafi treyst því að greiðslumatið hafi verið unnið með forsvaranlegum hætti. Stefnda hafi mátt treysta því að bankinn, sem fjármálafyrirtæki, sem átt hafi að vinna samkvæmt umræddu samkomulagi og öðrum lögum og reglum, myndi kynna henni greiðslumat sem væri rétt, byggt á fullnægjandi gögnum og niðurstaða þess væri hafin yfir allan vafa. Þá hafi forveri stefnanda vanrækt skyldur samkvæmt 1. mgr. 4. gr. samkomulagsins um að afhenda upplýsingabækling um ábyrgðir í þágu þriðja aðila. Komið hafi í ljós að svo hafi ekki verið gert og því hafi forsendur ábyrgðarinnar algerlega brostið.

        Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi framkvæmdi greiðslumat af einhverjum toga og kynnti stefndu. Samkvæmt greiðslumatinu hafi áætluð greiðslugeta með skuldum verið 61.348 krónur. Í málinu liggi enn fremur fyrir skjalið „lánaákvörðun“, dags. 16. apríl 2008. Þar kemur fram að tilefni og tilgangur lánveitingarinnar sé „framkvæmdir og íbúðakaup“. Í greiðslumatinu sé þrátt fyrir þetta lagt til grundvallar að áætlaður rekstrarkostnaður húsnæðis sé 0 krónur.

        Sonur stefndu hafi á þeim tíma er skuldabréfið var gefið út átt maka og tvö börn og hafi búið í leiguhúsnæði. Framfærslukostnaður samkvæmt viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna hjóna með tvö börn hafi verið 117.000 krónur á þeim tíma. Stefnandi hafi hins vegar miðað áætlaðan framfærslukostnað við 94.624 krónur. Því sé ljóst að framfærslukostnaður í greiðslumatinu var vantalinn um 22.372 krónur, miðað við lágmarksskilyrði 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir tekjum maka við gerð greiðslumatsins. Samkomulagið hafi falið í sér afdráttarlausa skyldu til að miða ekki við lægri fjárhæð en fyrrnefnda viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

        Við gerð greiðslumatsins hafi einnig verið miðað við að áætluð greiðslubyrði væntanlegra lána væri 14.313 krónur. Þar sem um var að ræða 1.500.000 króna lán með 84 mánaðarlegum afborgunum hafi því verið ljóst að afborgun af höfuðstól einum og sér næmi hærri fjárhæð og að afborganir með vöxtum og kostnaði yrðu til að byrja með meira en tvöfalt hærri en lagt var til grundvallar við gerð greiðslumatsins.

        Að framangreindu sögðu megi vera ljóst að það „greiðslumat“ sem stefnandi kynnti stefndu fól ekki í sér nokkra raunhæfa tilraun til að leggja mat á hvort líklegt væri að lántakinn gæti staðið við skuldbindingar sínar vegna væntanlegs lán. Forsendur matsins hafi verið óvandaðar og beinlínis rangar í einstökum atriðum. Það sé viðurkennt af hálfu stefnanda en í svörum stefnanda við upplýsingabeiðni úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 24. mars 2014 komi fram að hefði greiðslumatið verið réttilega framkvæmt hefði greiðslugeta lántaka verið 16.791 króna án þess að tekið væri tillit til áætlaðs húsnæðis. Hefði verið tekið tillit til þess kostnaðar megi ljóst vera að greiðslugeta lántaka hefði verið neikvæð. Með þessu hafi forveri stefnanda brotið gegn 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Skjalið hafi verið grundvöllur ákvörðunar stefndu um að takast á hendur skuldbindingu þá er fólst í samþykki hennar fyrir ábyrgðinni. Með hliðsjón af veikri fjárhagsstöðu og andlegri heilsu sonar stefndu hafi hættan á því að greiðslufall yrði á láninu verið mun meiri en ætla mætti. Vegna efnis skjalsins hafi ákvörðun stefndu verið reist á rangri og villandi niðurstöðu þess og það hafi forvera stefnanda mátt vera ljóst. Stefnda hefði aldrei gengist í ábyrgð fyrir son sinn hefði raunveruleg mynd af greiðslugetu hans verið sýnd með greiðslumatinu. Stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki efnt skuldbindingar sínar með því að útbúa skjal þetta og kynna stefndu.

        Auðséð hafi verið að fjárhagsstaða lántaka var með öllu samanlögðu þröng þegar fjallað var um lánveitinguna og því enn brýnna en ella að stefnandi stæði fyllilega við skuldbindingar sínar gagnvart stefndu að þessu leyti. Forsendur hafi því verið brostnar þegar í ljós kom að greiðslumatið gaf ekki raunhæfa niðurstöðu um greiðslugetu lántaka.

        Þá bendir stefnda á að meginmarkmið samkomulags um notkun ábyrgða hafi verið að ábyrgðarmenn gætu metið hlutlægt áhættu af því að gangast í ábyrgð á skuldum einstaklinga áður en þeir samþykktu að veita hana. Heiðarleg, nákvæm og vönduð vinnubrögð ásamt upplýsingagjöf lánveitenda til ábyrgðarmanna sé forsenda þess að þetta markmið náist en stefnda telur ljóst að slíku hafi ekki verið fyrir að fara í máli þessu. Stefnda lítur svo á að hin takmarkaða, ranga og villandi upplýsingagjöf um greiðslugetu lántaka af hálfu stefnanda sé í andstöðu við ákvæði 1.-4. gr. samkomulagsins frá 2001, eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. meginreglur 5. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti og 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Því geti stefnandi ekki byggt rétt á ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og beri því að víkja henni til hliðar.

        Þá byggir stefnda á því að verulega hafi verið á hana hallað þegar litið er til stöðu aðila. Ljóst sé að stefnandi og forveri hans var og er stórt fjármálafyrirtæki, sem starfar á grundvelli opinbers leyfis og að til hans megi gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð. Þessar kröfur leiði bæði af óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 5. gr. laga nr. 108/2007. Óumdeilt sé að stefnda búi ekki yfir sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði sem um ræðir. Hún starfi sem jógakennari í hlutastarfi og hafi hvorki sérmenntun né reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga. Því verði að gera enn ríkari kröfur til stefnanda og fyrirrennara hans um að hann starfi í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefndu, sbr. m.a. 19. gr. laga nr. 161/2002. Í því felist m.a. að sjá til þess að öllum reglum og skyldum sem settar séu til hagsbóta og til verndar fyrir almenning sé fylgt í hvívetna. Það samrýmist illa góðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði að fegra niðurstöðu greiðslumats og fjárhæð afborgana af lánum frá stefnanda með þeim hætti sem gert var í máli þessu.

        Í 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, eins og ákvæðið var þegar greiðslumatið var framkvæmt, komi fram að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskipahætti og venjur á fjármálamarkaði. Ákvæðið sé efnislega samhljóma 5. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Í athugasemdum við 19. gr. frumvarps til laganna komi skýrt fram að við skýringu á því hvað felist í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur beri að líta til fyrirmæla sem leiði af settum lögum og almennra siðareglna og viðtekinna venja í fjármálastarfsemi eða einstökum undirgreinum hennar. Þar að auki geti ákvæði reglugerða og reglur og tilmæli Fjármálaeftirlitsins veitt leiðbeiningu. Það sé því sanngjarnt að gera ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja um aðgæslu og vandvirkni í samskiptum sínum við ábyrgðarmenn, einkum þar sem fjármálafyrirtæki búa að jafnaði yfir meiri sérþekkingu en ábyrgðarmenn. Af því leiði að áhættan af óskýrleika og óvandvirkni sé fremur lögð á fjármálafyrirtæki en ábyrgðarmenn.

        Jafnframt bendir stefnda á að heilsa sonar hennar hafi tekið gríðarlegum breytingum frá því ábyrgðaryfirlýsingin var veitt. Hin síðari ár hafi hann meira og minna verið í geðrofi og verið vistaður á viðeigandi sjúkrastofnun án möguleika á að afla sér launatekna. Það hafi jafnframt þýðingu við beitingu á heildstæðu mati á skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936.

        Þá byggir stefnda enn fremur á því að forsendur fyrir ábyrgðaryfirlýsingu hennar séu brostnar. Forsenda og ákvörðunarástæða hennar fyrir útgáfu ábyrgðaryfirlýsingarinnar var niðurstaða úr greiðslumati því er stefnandi kynnti henni. Forsendan hafi verið stefnanda ljós strax við samningsgerðina og af augljósum ástæðum mikilvæg ástæða fyrir ábyrgðaryfirlýsingu stefndu. Stefnda hafi jafnframt haft rangar forsendur, sbr. 38. gr. laga nr. 7/1936, er hún hafi skrifað undir ábyrgðaryfirlýsinguna, en ástæðan hafi verið röng upplýsingagjöf frá stefnanda. Um sé að ræða verulega ákvörðunarástæðu sem stefnanda hafi mátt vera ljós. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda, enda séu skilyrði óskráðrar meginreglu samningaréttarins um brostnar forsendur uppfylltar.

        Þá er á því byggt af hálfu stefndu að óheiðarlegt sé fyrir stefnanda að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og hann mátti vita, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936. Það sé óheiðarlegt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig samning um sjálfskuldarábyrgð stefndu þegar ljóst sé að stefnandi hafi vanrækt skyldur sínar við samningsgerðina um að framkvæma rétt greiðslumat á lántakanda með þeim afleiðingum að öll áhætta vegna vanefnda færðist af stefnanda yfir á stefndu.

        Í 12. gr. samþykktar fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki sé kveðið á um að hvor aðili um sig geti skotið úrskurði í kvörtunarmáli til dómstóla. Í 2. mgr.sé hins vegar kveðið á um að fjármálafyrirtæki geti tilkynnt nefndinni og viðkomandi aðila að það sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki greiða bætur nema að undangengnum dómi. Það geti fjármálafyrirtæki aðeins gert í þeim tilvikum að úrskurður nefndarinnar hafi veruleg útgjöld í för með sér fyrir viðkomandi fjármálafyrirtæki eða fordæmisgildi. Með bréfi, dagsettu hinn 16. apríl 2014, hafi stefnandi tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og stefndu að stefnandi sætti sig ekki við áðurnefndan úrskurð nefndarinnar og að hann muni ekki fella sjálfskuldarábyrgð stefndu niður fyrr en að undangengnum dómi, falli hann á sama veg.

        Stefnda byggir á því að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi ekki fallið að skilyrðum þeim sem kveðið sé á um í 2. mgr. 12. gr. samþykktanna. Ljóst megi vera að sú fjárhæð sem úrskurðurinn fjallar um geti á engan hátt falið í sér veruleg útgjöld fyrir stefnanda. Þá hafi úrskurðurinn ekkert sjálfstætt fordæmisgildi enda fleiri úrskurðir fallið á sama veg. Slíkar niðurstöður hafi enn fremur komið fram í dómum héraðsdómstóla og Hæstaréttar. Með því að samþykkja að stefnandi geti neitað að fara að úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé verið að bjóða fjármálafyrirtækjum að beita geðþótta við ákvörðun um hvort þau lúti niðurstöðu nefndarinnar. Það fordæmisgildi sem sá úrskurður sem hér er til umfjöllunar hefur geti eingöngu falist í því að fjármálafyrirtæki geti ekki komist upp með að beita forkastanlegum vinnubrögðum við útreikninga á greiðslugetu lántakenda. Tilgangurinn með ákvæði 12. gr. samþykktarinnar geti að mati stefndu ekki verið að fela fjármálafyrirtækjum slíkt geðþóttavald. Ákvæðinu sé einfaldlega ekki ætlað að vernda slíka hagsmuni fjármálafyrirtækja. Stefnanda hefði einfaldlega verið í lófa lagið að bera úrskurðinn undir héraðsdóm, teldi stefnandi hann að efni til rangan. Sú undanþága sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. sé þess eðlis að túlka beri hana afar þröngt enda gangi beiting stefnanda á henni gegn öllum markmiðum með þeirri vernd ábyrgðarmanna sem framangreint samkomulag byggir á. Stefnda byggir á því að það eitt og sér dugi til að sýkna hana af kröfum stefnanda, enda hafi stefnanda ekki verið heimilt að hundsa niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar með þeim hætti sem hann gerði með framangreindri yfirlýsingu. Sú yfirlýsing sé ekki í samræmi við heimildir og skilyrði 2. mgr. 12. gr. samþykktanna og því óskuldbindandi fyrir stefndu.

        Stefnda tekur að öllu leyti undir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og gerir forsendur fyrir niðurstöðu hennar að málsástæðum sínum.

       Stefnda vísar til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. einkum 33., 36. og 38 gr. þeirra laga. Stefnda vísar til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 1. gr., 3. gr. og 19. gr. laganna og laga nr. 108/2007, einkum 5. gr. laganna. Þá vísar stefnda til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001, einkum 1.- 4. gr. Enn fremur vísar stefnda til meginreglna kröfu- og samningaréttar um ógilda samninga og forsendubrest. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 19/1991 og 50/1988. Varðandi virðisaukaskatt af málskostnaði vísar stefnda til laga nr. 50/1988 og þess að hún er ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi, því sé nauðsynlegt að fá stefnanda dæmdan til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.

IV.

Niðurstaða

         Í máli þessu greinir aðila á um það hvort ógilda beri sjálfskuldarábyrgð stefndu á verðtryggðu skuldabréfi, útgefnu 23. apríl 2008 af Tómasi Höskuldssyni að fjárhæð 1.500.000 kr. til Kaupþings banka hf. Óumdeilt er að stefnandi hefur tekið við réttindum samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi frá forvera sínum með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008.

        Stefnda gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvað Tómas son sinn hafa komið heim til sín 21. apríl 2008. Hann hafi verið að fara til útlanda með þáverandi tengdadóttur stefndu og tvö börn, hún væri að fara í nám, en hann hafi verið að ljúka námi og verið að vinna mikið. Hann hafi sýnt sér greiðslumatið en hún ekki kynnt sér það sérstaklega eða hann útskýrt það fyrir sér. Hún hafi treyst útreikningum bankans. Þá hafi hún áður ábyrgst lán fyrir Tómas og hann ávallt staðið í skilum. Hún kvaðst hins vegar ekkert hafa þekkt til fjármála hans. Hún kvaðst ekki hafa séð neitt fræðslurit varðandi ábyrgðir í umrætt sinn. Þá hafi hún ekki vitað af veikindum Tómasar á þessum tíma. Hún kvaðst ekki myndu hafa skrifað undir sjálfskuldarábyrgðina ef niðurstaða matsins hefði ekki verið jákvæð, hún hafi verið treg til en þar sem Tómas og fjölskyldan hafi verið að fara til útlanda vegna náms konu hans hafi hún fallist á þetta. Hann hafi síðan komið í vinnuna til sín með veðskuldabréfið og hún skrifað undir það þar. Hún hafi hins vegar aldrei átt samskipti við bankann í tengslum við lántöku Tómasar eða ábyrgðarskuldbindingu sína.

        Varðandi þá málsástæðu stefndu að stefnandi sé bundinn af úrlausn úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir úrskurðarnefndin, þá var með lögum nr. 75/2010 réttur stefnanda tryggður til að leggja fyrir dóm þau ágreiningsefni sem nefndin hefur leyst úr í samræmi við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sem varin er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu leyti fer 1. mgr. 12. gr. samþykktarinnar í bága við lög og getur því ekki haft þau réttaráhrif að stefnandi geti ekki tekið til varna gegn kröfum stefndu. Þessari málsástæður stefndu er því hafnað, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 563/2013.

        Krafa stefndu byggir einkum á því að Kaupþing banki hf., sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, hafi við umrædda lánveitingu ekki staðið við skyldur sínar skv. samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem undirritað var af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinn. Kaupþing banki hf. var eitt þessara aðildarfélaga. Af þessu leiði að ógilda eigi ábyrgðaryfirlýsingu stefndu með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Greiðslumat á lántaka sem kynnt var stefndu hafi verið haldið verulegum ágöllum.

        Í málinu liggur fyrir greiðslumat, undirritað af lántaka og stefndu og ber það heitið „Niðurstöður greiðslumats“. Greiðslumatið var unnið af starfsmönnum forvera stefnanda, Kaupþingi banka hf. Í umræddu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem tekur m.a. til þess þegar einskalingar gangast í sjálfskuldarábyrgð, sbr. 2. gr. þess, segir   í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann gengur í ábyrgð, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Þessi skylda hvílir á fjármálafyrirtæki ef ábyrgð á skuldum lántaka nemur hærri fjárhæð en 1.000.000 króna.

        Samkvæmt greiðslumatinu var áætluð greiðslugeta lántaka með skuldum 61.348 kr. Samkvæmt því sem fram kemur í lánaákvörðun, dags. 16. apríl 2008, segir að tilefni og tilgangur lánsbeiðnar sé framkvæmdir og íbúðakaup. Þá er tekið fram að í boði sem trygging fyrir nýju láni sé sjálfskuldarábyrgð stefndu. Þá kemur fram að lántaki hafi verið í skilum með allt sitt „héðan af“ sem væntanlega átti að verða hingað til. Þrátt fyrir það sem tekið er fram um tilgang lántöku, framkvæmdir og íbúðakaup, er í greiðslumatinu lagt til grundvallar að enginn rekstrarkostnaður sé áætlaður vegna húsnæðis. Á þeim tíma þegar skuldabréfið var gefið út átti lántaki maka og tvö börn. Forveri stefnanda miðaði framfærslukostnað í greiðslumatinu við 94.624 kr., en framfærslukostnaður samkvæmt viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna hjóna með tvö börn var 117.000 kr. á þessum tíma. Framfærslukostnaður í matinu var varðandi þennan þátt matsins vantalinn um 22.372 kr. miðað við lágmarksskilyrði 3. gr. framangreinds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þá virðist ekki hafa verið gert ráð fyrir tekjum maka við gerð greiðslumatsins. Líta verður svo á að framangreint samkomulag hafi falið í sér fortakslausa skyldu fyrir forvera stefnanda að miða ekki við lægri fjárhæð en fyrrnefnda viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

        Þá var jafnframt í greiðslumatinu miðað við að áætluð greiðslubyrði væntanlegra lána væri 14.314 kr. þrátt fyrir að um væri að ræða lán að fjárhæð 1.500.000 kr. með 84 mánaðarlegum afborgunum. Í bréfi lögfræðings stefnanda til úrskurðarnefndarinna, dags. 24. mars 2014, í framhaldi af ósk nefndarinnar um upplýsingar um forsendur fyrir framfærslukostnaði og greiðslubyrði umrædd láns, kemur fram að á neytendalánsútreikningi, sem fylgdi láninu, komi fram að mánaðarleg afborgun þess sé hæst um 35.470 kr. en fari svo lækkandi á tímabilinu og afborgun á síðasta gjalddaga þess sé 18.241 kr. Ætlast hefði mátt til að forvera stefnanda mætti vera ljóst hverjar mánaðarlegar afborganir af láninu væru og hann hefði átt að koma því til skila í greiðslumatinu. Þá segir í bréfinu um framfærslukostnað að sú fjárhæð virðist byggð á upplýsingum frá lántaka sjálfum. Þó að stefnandi byggi á því að fjárhæð ætlaðs framfærslukostnaðar sé væntanlega frá lántaka kominn, þá hafði forveri stefnanda sem fjármálafyrirtæki sjálfstæðar skyldur gagnvart þeim sem gengst í ábyrgð til tryggingar láninu til að afla upplýsinga og gagna til þess að tilgreina réttar upplýsingar í matinu svo að greiðslumatið gefi sem besta mynd af greiðslugetu lántaka. Þá segir jafnframt, að hefði matið verið leiðrétt miðað við afborgun skv. framangreindu og áætluð framfærsla hefði verið 118.000 kr., hefði greiðslumatið samt verið jákvætt um 16.791 kr., en þá var ekki tekið tillit til rekstrarkostnaðar húsnæðis.

        Gera verður ríkar kröfur til forvera stefnanda um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð, sem leiða bæði af óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, en óumdeilt er að stefnda bjó ekki yfir sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði sem hér um ræðir. Stefnda treysti því að útreikningar forvera stefnanda væru réttir og kveðst ekki myndi hafa samþykkt að gangast í ábyrgð fyrir láninu hefði henni verið ljóst að greiðslumat lántaka væri neikvætt. Greiðslumat það sem framkvæmt var á lánsumsókn lántaka, sem stefnda undirritaði, var, eins og rakið hefur verið, haldið mörgum annmörkum. Ekki verður séð hver niðurstaða þess hefði orðið ef réttar upplýsingar hefðu verið lagðar til grundvallar. Í því sambandi er vísað til þess að engar upplýsingar liggja fyrir um kostnað vegna reksturs húsnæðis til viðbótar þeim röngu upplýsingum sem byggt var á í greiðslumatinu. Af hálfu stefndu er byggt á því að hefði greiðslumat verið réttilega framkvæmt og tillit tekið til áætlaðs rekstrarkostnaðar húsnæðis hefði greiðslugeta lántaka verið neikvæð. Telja verður að stefnandi verði að bera hallann af þeirri óvissu sem um þetta ríkir, og svo á því hvort stefnda hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á umræddri lántöku ef réttilega hefði verið staðið að gerð greislumatsins.

       Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnanda, sem kom fyrst fram við aðalmeðferð, að stefnda hafi sýnt af sér tómlæti vegna undirritunar sinnar á skilmálabreytingar á umræddu skuldabréfi.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður fallist á með stefndu að víkja beri til hliðar loforði stefndu um sjálfskuldarábyrgð á framangreindu láni og að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda að bera fyrir sig loforðið með hliðsjón af 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Því ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

         Að fenginni þessar niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefndu málskostnað með vísan til 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991, sem telst hæfilega ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.

        Þórður  Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Stefnda, Hildur Vera Sæmundsdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Arion banka hf.

        Stefnandi greiði stefndu 800.000 krónur í málskostnað.