Hæstiréttur íslands
Mál nr. 679/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Miðvikudaginn 29. október 2014. |
|
Nr. 679/2014.
|
Elías Georgsson (Garðar Valdimarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Gizur Bergsteinsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E um að héraðsdómari viki sæti í máli hans gegn Í.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í héraði hafði sóknaraðili ekki uppi kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins og getur krafa hans um málskostnað þar því ekki komið til úrlausnar fyrir Hæstarétti.
Í málinu er um það deilt hvort sóknaraðila hafi á grundvelli 2. mgr. 4. töluliðar A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt borið að færa sér til tekna í skattframtali lán sem hann fékk hjá Miðlandi ehf. til kaupa á hlutafé í því félagi. Krafa sóknaraðila um að héraðsdómari víki sæti í málinu er á því reist að hún hafi á sínum tíma í starfi sínu á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins átt þátt í undirbúningi að lögfestingu þeirra lagaákvæða sem um er deilt og sé því í skilningi b. og g. liða 5. gr. laga nr. 91/1991 vanhæf til að fara með málið.
Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir frumvarpi því til breytinga á lögum nr. 75/1981, sem lagt var fram á Alþingi af þáverandi fjármálaráðherra 4. október 2001 og samþykkt 12. desember sama ár sem lög frá Alþingi, en frumvarpið var undirbúið í fjármálaráðuneytinu. Eins og nánar er rakið í úrskurðinum lagði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til við meðferð framangreinds frumvarps að bætt yrði við 7. og 9. gr. laga nr. 75/1981 ákvæðum um hvernig fara bæri með í skattalegu tilliti ólögmætar lánveitingar til hluthafa og stjórnenda í hlutafélögum og voru tillögur nefndarinnar samþykktar. Ekki er fram komið í málinu að héraðsdómari hafi sem starfsmaður fjármálaráðuneytisins átt aðkomu að undirbúningi framangreindra breytingartillagna efnahags- og viðskiptanefndar og telst hún þegar af þeirri ástæðu ekki vanhæf samkvæmt b. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 til að fara með málið. Þá hefur sóknaraðili heldur ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu önnur atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. g. lið sama lagaákvæðis. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Elías Georgsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014.
I.
Stefnandi, Elías Georgsson, Vatnsholti 7d, Reykjanesbæ, höfðaði mál þetta með stefnu birtri 26. júní 2013 á hendur íslenska ríkinu. Hann krefst þess aðallega að ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 2012, í máli hans. Til vara er þess krafist að tekjuskatts- og útsvarsstofni stefnanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 2012, verði breytt og hann lækkaður um samtals 28.125.000 krónur, en til þrautavara að fellt verði niður álag samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 2012, að fjárhæð 28.933.877 krónur og stofn til tekjuskatts og útsvars lækkaður samsvarandi. Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu, auk málskostnaðar, úr hendi stefnanda.
Í þinghaldi 19. september 2014, krafðist stefnandi að dómari viki sæti í málinu með vísan til b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í þinghaldinu var lögmönnum aðila gefinn kostur á reifa sjónarmið sín varðandi vanhæfi dómarans.
Í máli þessu er deilt um túlkun skattyfirvalda á 2. mgr. 4. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákvæðið var lögfest með c-lið 2. gr. laga nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.
Stefnandi byggir málsókn sína m.a. á því að greind ákvæði laga nr. 90/2003, eigi ekki við í málinu, en auk þess feli skattlagningin í sér eignaupptöku sem fari í bága við meginreglur um skattlagningu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. hennar. Þá kveður stefnandi að við athugun á þskj. 461 114. mál á 127. löggjafarþingi 20012002, þar sem greint sé frá aðdragandanum að þeim lagabreytingum sem deilt sé um í málinu, hafi komið í ljós að dómari máls þessa hafi fyrir hönd fjármálaráðuneytisins mætt á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem fjallað var um frumvarp að lögum nr. 133/2001. Dómari hafi samkvæmt því gætt réttar stefnda þegar málið var þar til meðferðar og sé því vanhæfur til að fara með það nú, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi rakti starfsferil dómarans og vísaði í því sambandi m.a. til umsagnar dómnefndar skv. 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla, frá 21. janúar 2013. Þar komi m.a. fram að á þeim tíma sem hin umdeildu lög hafi verið til meðferðar í þinginu, hafi dómarinn verið staðgengill skrifstofustjóra tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og veitt forstöðu lögfræðilegum úrlausnarefnum á skrifstofunni. Helstu verkefni hennar í fjármálaráðuneytinu hafi verið samning lagafrumvarpa og reglugerða á sviði tekju- og eignarskatta auk annarra skatta og gjalda. Þá hafi dómari starfað samfleytt í 17 ár hjá skattyfirvöldum. Stefnandi telur, með vísan til framangreinds, sérstaka hættu á því að dómari geti ekki nálgast sakarefnið af hlutleysi. Þá telur stefnandi að verði ekki fallist á að b-liður 5. gr. laga nr. 91/1991 eigi við, þá komi til kasta g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Telur stefnandi að dómari verði að setja sig í spor utanaðkomandi trúnaðarmanns og spyrja sig hvort réttmætt sé að efast um hlutlægni hans. Verði svar dómara að ráðast með tilliti til þess að reglan eigi að stuðla að trausti málsaðila og almennings til hlutleysis dómstóla og því sé í vafatilviki æskilegra að dómari víki sæti. Um lagarök vísar stefnandi sem fyrr segir til b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991, 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndum mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefndi hafnar því að dómari víki sæti og telur að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður að valdi vanhæfi dómara. Aðkoma dómara að lagasetningu valdi ekki vanhæfi. Bendir stefndi á að dómarar hér á landi hafi komið að samningu fjölda lagafrumvarpa, án þess að það hafi valdið vanhæfi þeirra. Þá bendir stefndi á að lagaákvæði þau sem um er deilt í málinu hafi komið inn við þinglega meðferð málsins hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Aðkoma dómara að lagasetningunni hafi því verið enn takmarkaðri. Þá hafi dómari ekki tjáð sig um sakarefnið.
Niðurstaða.
Dómari í máli þessu var skipuð héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 1. febrúar 2013. Á árunum 19931994, starfaði hún hjá skattstjóranum í Reykjavík. Á árunum 1994−2007 starfaði hún á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þar af sem staðgengill skrifstofustjóra á árunum 1998−2007. Helstu verkefni hennar voru afgreiðsla ýmissa lögfræðilegra álitaefna sem féllu undir verkefnasvið ráðuneytisins, þar með talinn undirbúningur lagafrumvarpa og reglugerða á sviði tekju- og eignarskatta. Þá var hún nefndarmaður í yfirskattanefnd í fullu starfi á árunum 2007-2010 en starfaði sem héraðsdómslögmaður á árunum 2010−2013.
Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt o.fl. var lagt fram á alþingi þann 4. október 2001 og samþykkt 12. desember sama ár. Frumvarpið var undirbúið í fjármálaráðuneytinu af starfsmönnum ráðuneytisins og lagt fram sem stjórnarfrumvarp af þáverandi fjármálaráðherra. Frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðferð þingsins. Af hálfu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var þar á meðal lagt til að bætt yrði við 7. og 9. gr. laga nr. 75/1981, ákvæðum þess efnis hvernig fara bæri með ólögmætar lánveitingar til hluthafa og stjórnenda í skattalegu tilliti, sbr. þskj. 461, 127. löggjafarþing, 114. mál, en um þetta atriði er einmitt deilt í máli þessu.
Þegar af þessum ástæðum er ljóst að dómari máls þessa átti enga aðkomu að undirbúningi þeirra lagaákvæða sem um er deilt í máli þessu. Af því leiðir að dómari máls þessa getur ekki talist vanhæf til að fara með mál stefnanda samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Hvað sem þessu líður er ekki óvenjulegt að dómarar komi að samningu lagafrumvarpa á hinum ýmsu réttarsviðum. Hvorki hefur verið litið svo að slíkt leiði til vanhæfis þeirra samkvæmt b- og g-liðum 5. gr. laga nr. 91/1991, né að sú regla verði leidd af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þó að það álitaefni sem tengist þeim lögum komi síðar til meðferðar dómarans.
Þá verður ekki fallist á með stefnanda að störf dómara hjá skattyfirvöldum á árunum 1993−2010, leiði til vanhæfis hennar til að dæma í skattamálum, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Staðhæfingar um óhlutdrægni dómara leiða aðeins til vanhæfis hans, ef vafinn er nægjanlega rökstuddur. Órökstuddar staðhæfingar aðila máls nægja því ekki til þess að dómari teljist vanhæfur til að fara með mál. Sama gildir um almennar staðhæfingar án tengsla við tiltekið mál.
Samkvæmt framangreindu þykir ekki hafa verið sýnt fram á að dómari hafi gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá þykir ekki hafa verið sýnt fram á að önnur þau atvik eða aðstæður séu fyrir hendi sem valdi því að dómari sé vanhæfur til meðferðar þessa máls samkvæmt g-lið 5. gr. sömu laga og verður því kröfu stefnanda um að dómari víki sæti í málinu hafnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnanda um að dómari víki sæti í málinu.