Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Málshraði
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2014. |
|
|
Nr. 502/2013.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður) |
|
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Málshraði. Sérálit.
S var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa í sjö skipti frá febrúar eða mars 2009 til sumars 2010 tælt A, sem þá var 15 til 17 ára, til að hafa við sig kynferðismök, með gjöfum, fjárstuðningi, loforðum um peninga og með því að láta hann hafa áfengi og fíkniefni Þótti S hafa notfært sér þá yfirburðarstöðu sem hann hafði gagnvart A. Var háttsemi S talin varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að S hefði brotið gróflega gegn A. Hefðu brot hans verið ítrekuð, brotavilji hans einbeittur og hefði honum mátt vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar það hefði fyrir A. Þá hefði S með háttsemi sinni gerst sekur um ítrekað brot í skilningi 205. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga var refsing S ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en í ljósi atvika breytti það ekki niðurstöðunni að óhæfilegur dráttur hafði orðið á málinu hjá ákæruvaldinu. Þá var S gert að greiða A 1.200.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar sakfellingu ákærða, þó þannig að miðað verði við að ákærði hafi haft kynferðismök við brotaþola í sjö skipti. Þá er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Fyrir Hæstarétti hefur ákærði réttilega gert athugasemd við að í héraðsdómi sé ranghermt að hann hafi greitt fyrir leigubifreið sem brotaþoli og félagar hans hafi tekið úr Hafnarfirði að [...] í Reykjavík, er ákærði og brotaþoli hittust fyrsta sinni. Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi, sem fær stoð í vitnisburði brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu, sótti ákærði brotaþola og félaga hans umrætt sinn á veitingahúsið [...] í Hafnarfirði og ók þeim þaðan í samkvæmið að [...], en þar var einnig staddur einn félagi ákærða. Á hinn bóginn bar ákærði fyrir dómi að hann hefði greitt fyrir far brotaþola með leigubifreið daginn eftir samkvæmið frá [...] að heimili brotaþola í [...].
Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi, sem fær stoð í vitnisburði brotaþola, telst sannað að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem í ákæru greinir í sjö skipti. Fyrst var um samræði og önnur kynferðismök að ræða í tvígang í febrúar eða mars 2009, fyrst um kvöldið í bílageymslu og síðar um nóttina í íbúðarhúsnæði að [...], einu sinni í desember 2009 í íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi, einu sinni í janúar 2010 í bifreið í Laugardal í Reykjavík, einu sinni í febrúar 2010 að [...] í Reykjavík, einu sinni í mars eða apríl 2010 í íbúð [...] ákærða í [...] í Reykjavík og einu sinni á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, að líkindum sumarið 2010.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Eins og greinir í héraðsdómi braut ákærði gróflega gegn brotaþola sem var á viðkvæmu aldurs- og þroskaskeiði þegar brotin voru framin, þau voru ítrekuð og vörðu um nokkurn tíma, brotavilji ákærða var einbeittur og honum mátti vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar háttsemi hans hlyti að hafa fyrir líf og sálarheill brotaþola. Með hliðsjón af þessu og þar sem ákærði hefur eins og í héraðsdómi greinir gerst sekur um ítrekað brot í skilningi 205. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um ákvörðun refsingar. Í ljósi atvika breytir það ekki þessari niðurstöðu að 10 mánuðir liðu frá því málið barst ríkissaksóknara og þar til ákæra var gefin út og 8 mánuðir liðu frá útgáfu áfrýjunarstefnu og þar til málsgögn voru tilbúin til afhendingar hjá embætti hans. Hefur engin haldbær skýring verið gefin á þeim óhæfilega drætti sem varð hjá embættinu við meðferð málsins.
Niðurstaða héraðsdóms um miskabætur og vexti verður staðfest. Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur rétt, með tilliti til eðlis brota ákærða og alvarlegra afleiðinga sem það hefur haft fyrir brotaþola, að ákveða bætur til hans úr hendi ákærða 1.500.000 krónur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Aron Snorri Gunnarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 752.114 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 17. maí 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 25. janúar 2013, á hendur Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot gegn A, kt. [...], með því að hafa á tímabilinu frá febrúar 2009 til janúar 2011 tælt drenginn, sem þá var 15 til 17 ára gamall, með margvíslegum gjöfum, fjárstuðningi og loforðum um peninga, og með því að láta drenginn hafa áfengi og fíkniefni, svo og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart drengnum vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við hann kynferðismök, þ. á m. endaþarmsmök og munnmök, í allt að 15 skipti, m.a. í íbúðarhúsnæði og bílageymslu að [...] Reykjavík, í íbúðarhúsnæði að [...] og [...], Reykjavík, í íbúðarhúsnæði að [...], Kópavogi, og í bifreið sem hann hafði lagt bak við gám í Laugardalnum í Reykjavík.
Telst þetta varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, en til vara við 2. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.800.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2009 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfu, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Föstudagskvöldið 25. mars 2011 mættu fjórir piltar hjá lögreglu og lögðu fram kæru á hendur ákærða, Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni, fyrir kynferðisbrot, en fram kom hjá þeim að ákærði væri sameiginlegur kunningi þeirra. Einn piltanna var A, sem kvaðst hafa kynnst ákærða árið 2009, eftir að hafa fengið vinarbeiðni frá honum á facebook. Hann kvað ákærða hafa haft við sig kynferðismök í um 10 skipti og hefði hann verið svo ölvaður þegar það gerðist fyrst að hann hefði ekki getað spornað við verknaðinum. Ákærði hefði verið í miklu sambandi við hann, gefið honum gjafir, látið hann fá peninga og áfengi og keypt matvöru fyrir fjölskyldu hans. A kvað ákærða hafa sagt vinum hans frá því sem hefði gerst á milli þeirra. Þetta hefði orðið til þess að þeir vinirnir fóru að ræða saman og hefði þá komið í ljós að ákærði hefði brotið gegn fleirum þeirra.
Auk A lögðu B, C og D fram kæru á hendur ákærða. Piltarnir lýstu kynferðislegri áreitni sem þeir hefðu orðið fyrir af hálfu ákærða þegar þeir höfðu verið að skemmta sér með honum og voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að kærumálum piltanna hefði lyktað með niðurfellingu saksóknar.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 6. apríl 2011 og lýsti hann samskiptum þeirra ákærða með svipuðum hætti og fyrr. Þeir hefðu kynnst á facebook, en síðan hefði ákærði viljað hitta hann. Þetta hefði verið sumarið 2009 og kvaðst A hafa farið með vinum sínum til ákærða þar sem hann dvaldi í íbúð ofarlega við [...]. Ákærði hefði boðið þeim áfengi og kvaðst A hafa orðið mjög ölvaður. Ákærði hefði farið að strjúka honum, en hann hefði ekki áttað sig á því að hann væri að láta vel að sér. Síðan hefði ákærði fengið hann með sér niður í bifreiðageymslu og haft við hann munnmök í bifreið þar. Eftir þetta hefðu þeir allir farið niður í bæ að skemmta sér. A kvaðst hafa orðið ofurölvi og fengið „blackout“. Hann kvaðst muna atvik slitrótt, en myndi þó að hafa verið í leigubifreið með ákærða og síðan inni í íbúðinni með honum. Næst kvaðst hann hafa rankað við sér við það að ákærði var að hafa við hann endaþarmsmök. Síðan hefði hann aftur fengið „blackout“.
A kvaðst hafa hitt ákærða aftur í samkvæmi í Kópavogi um hálfu ári síðar og hefði ákærði þar haft við hann endaþarmsmök inni á baðherbergi. A kvaðst hafa verið mjög ölvaður, auk þess sem hann hefði þegið fíkniefni af ákærða og hefði hann ekki haft stjórn á gerðum sínum. Þeir hefðu farið að hittast eftir þetta og hefði ákærði gefið honum peninga. Þá hefði ákærði vingast við vini hans og móður og hefði hann aðstoðað móður hans fjárhagslega. Ákærði hefði mikið spurt hann um kynhneigð hans og hefði hann verið farinn að velta því fyrir sér hvort hann væri samkynhneigður. Hefði ákærði sífellt verið að ýta undir það hjá honum. Þetta hefði leitt til þess að þeir hefðu nokkrum sinnum haft kynferðismök. A kvaðst þó ekki hafa getað tekið þátt í kynferðismökum við ákærða án þess að vera undir áhrifum áfengis. Hann kvaðst síðan hafa gert það upp við sig að hann vildi hætta að hitta ákærða og hefði hann sagt honum það. Þá hefði ákærði boðið honum með sér í ferð til [...] og sagt honum að þeir færu saman út sem vinir. Þegar út var komið hefði ákærði hins vegar ekki viljað sætta sig við að ekkert kynferðislegt yrði á milli þeirra. Þeir hefðu átt orðaskipti vegna þessa sem hefði lyktað með ryskingum og hefði lögregla verið kvödd til til að skakka leikinn. Eftir að þeir komu heim úr ferðinni hefði ákærði verið í sambandi við hann og boðist til að greiða honum 50.000 krónur fyrir að hafa við sig kynferðismök. Kvaðst A hafa látið tilleiðast í eitt skipti, en hann hefði þá verið ofurölvi. Eftir þetta hefði hann neitað að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með ákærða.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 6. apríl 2011. Hann kvaðst hafa kynnst A á facebook í febrúar eða mars 2009. Í kjölfarið hefðu A og B komið til hans í íbúð sem hann hafði á leigu að [...]. Þeir hefðu verið að neyta áfengis þarna ásamt tveimur félögum ákærða. Ákærði kvað þá A hafa farið saman niður í bifreiðageymslu hússins og hefðu þeir kysst þar í bifreið hans. Þeir hefðu síðan farið niður í bæ að skemmta sér og hefði A þá sagt við B að hann langaði að prófa að vera með karlmanni. Þeir A hefðu síðan farið aftur í íbúðina um nóttina og kvaðst ákærði hafa haft endaþarmsmök við A, með fullum vilja hans.
Ákærði kvaðst hafa hitt A aftur í desember 2009 í samkvæmi í húsi við [...] í Kópavogi. Þeir hefðu farið saman inn á baðherbergi og hefði hann haft endaþarmsmök við A þar. Í janúar 2010 hefði A hringt til hans og sagst vilja hafa við hann kynferðismök. Kvaðst ákærði hafa sótt piltinn á bifreið sinni og ekið niður í Laugardal. Hann hefði lagt bifreiðinni á bak við gám þar og þeir haft kynferðismök. Þá hafi þeir hist 6. febrúar 2010 í íbúð sem ákærði hafði á leigu við [...]. Þeir hefðu setið þar saman, drukkið hvítvín og rætt um kynhneigð A. Síðan hefðu þeir haft kynferðismök. Þeir hefðu haft kynferðismök í fleiri skipti eftir þetta, í íbúð [...] ákærða í [...] og á heimili hans að [...]. Ákærði kvað A í einhverjum tilvikum hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta var, en ekki alltaf. Hann kvaðst ekki hafa litið svo á að þeir A væru í sambandi og hafi hann aldrei verið hrifinn af piltinum. Þetta hafi verið vinátta með „benefits“.
Ákærði kvaðst á tímabili hafa veitt A afnot af tveimur bifreiðum sem hann átti. Þá hefði hann lánað móður hans peninga, en hún hefði átt erfitt með að sjá fjölskyldunni farborða. Hann kvaðst hafa boðið A með sér til [...] í ágúst 2010, auk þess sem hann hefði keypt handa honum síma, skó, föt, skartgripi og einhverju sinni áfengi. Hann kvaðst telja að hann hefði varið 2 til 2 ½ milljón króna í þágu A árið 2010. Þá kvaðst hann hafa stofnað bankabók í nafni piltsins og lagt inn á hana 100 til 150.000 krónur í febrúar eða mars 2010.
Tekin var skýrsla af A á ný 12. október 2011 og var framburður ákærða þá borinn undir hann. Þá var tekin skýrsla af ákærða 13. febrúar 2012 þar sem borin voru undir hann gögn sem liggja fyrir í málinu um millifærslur af bankareikningum ákærða yfir á bankareikning A. Kemur þar fram að á tímabilinu 1. febrúar 2010 til 13. janúar 2011 hafi fjárhæð sem nemur samtals 311.500 krónum verið millifærð af tveimur bankareikningum ákærða á bankareikning piltsins. Ákærði kannaðist við þetta og áréttaði að hann teldi að hann hefði varið um 2 til 2 ½ milljón króna í þágu A og fjölskyldu hans árið 2010. Hefði verið um að ræða fjölda gjafa, sem ákærði gerði nánar grein fyrir, auk fjárstuðnings við A og fjölskyldu hans. Ákærði neitaði því að hafa gefið A þessar gjafir í því skyni að fá eitthvað kynferðislegt í staðinn.
Meðal gagna málsins er greinargerð dr. E sálfræðings, dagsett 6. janúar 2012, þar sem kemur fram að A hafi leitað til hans í desember 2010. Hafi það verið að frumkvæði ákærða, sem hafi verið skjólstæðingur sálfræðingsins á árum áður. Hann hafi átt þrjú viðtöl við A í desember 2010 og janúar 2011. Síðast hefðu þeir hist í júní 2011. A hefði viljað leita sér aðstoðar þar sem hann hefði átt erfitt með að hemja reiði sína. Í viðtölum hefði hins vegar komið fram að það sem honum lá mest á hjarta voru kynferðisleg samskipti þeirra ákærða. A hefði verið í vafa um hvort hann ætti að halda þeim samskiptum áfram, en komið hefði fram hjá honum að ákærði þrýsti mjög á hann um það og reyndi að telja honum trú um að hann væri samkynhneigður. Þá hefði ákærði gefið honum gjafir og peninga, boðið honum til [...], greitt fyrir mat handa honum og fjölskyldu hans og gefið honum bifreið. Kemur fram að sálfræðingurinn og A hafi rætt um samskipti ákærða og A, aldursmuninn, kynferðislegan áhuga A sjálfs, gjafir ákærða og þrýstinginn sem hann sagðist verða fyrir af hálfu ákærða til að halda kynferðislegum samskiptum áfram. Hefði A tekið ákvörðun um að binda enda á samskipti sín við ákærða. Í síðasta viðtalinu hefði A sagst líta öðrum augum á þessi samskipti en áður. Nú væri hann þeirrar skoðunar að ákærði hefði misnotað hann og „ruglað“ hann. Kom fram hjá A að honum liði illa yfir því að hafa stundað kynlíf með ákærða.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst hafa kynnst A á facebook, en þeir hefðu einnig verið í msn-samskiptum. Þeir hefðu hist fyrst í mars 2009 í samkvæmi sem ákærði hélt í íbúð sem hann hafði tekið á leigu í nokkra daga að [...] í Reykjavík. Vinir A hefðu verið með honum, en einnig tveir vinir ákærða. Þeir hefðu verið að drekka áfengi, auk þess sem fíkniefni hefðu verið á staðnum. Hann kvað aldur sinn hafa borið á góma í samkvæminu og hefðu piltarnir giskað á að hann væri á bilinu 26 til 28 ára. Hann hefði ekki leiðrétt það. Ákærði kvað þá A hafa farið saman niður í bifreiðageymslu og hefði hann haft munnmök við piltinn þar. Síðan hefðu þeir allir farið út að skemmta sér. Þeir A hefðu farið tveir saman aftur í íbúðina um nóttina og hefði ákærði haft endaþarmsmök við piltinn. Ákærði kvaðst hafa hitt A aftur í samkvæmi í [...] í Kópavogi í desember 2009. Hann hefði hitt þar F og komist að því að hann var vinur A. Þeir hefðu hringt í A, sem hefði komið í samkvæmið. Ákærði kvaðst síðan hafa farið með A inn á baðherbergi og haft endaþarmsmök við hann þar.
Ákærði kvað þá A hafa farið að hittast í byrjun árs 2010 og hefðu þeir haft kynferðismök í fjögur skipti eftir það. Þeir hefðu haft kynferðismök í íbúð sem ákærði tók á leigu að [...], í íbúð [...] ákærða í [...], í bifreið í Laugardal og á heimili ákærða á [...]. Ákærði kvað þetta ávallt hafa gengið þannig fyrir sig að hann hafði munnmök og endaþarmsmök við A. Honum hefði þótt vænt um piltinn, sem hefði sagt honum að hann héldi að hann væri tvíkynhneigður.
Ákærði kvað A hafa sagt sér frá högum sínum og fjölskyldu sinnar og hefði hann aðstoðað þau á margvíslegan hátt. Hann hefði gefið A peninga, tölvuleiki, tvo eða þrjá síma, fatnað og skartgripi og greitt fyrir hann ferð til [...]. Hann hefði keypt handa honum teikniborð til að nota í skólanum og ýmsa muni í herbergið hans, s.s. svefnherbergishurð, borðplötu og vinkla, rúmdýnu og rúmbotn. Þá hefði hann aðstoðað móður A fjárhagslega, lánað henni peninga og keypt mat fyrir heimilið. Hann hefði gefið A afmælis- og jólagjafir. Pilturinn hefði fengið bifreið í jólagjöf, sem ákærði keypti fyrir 250.000 krónur, auk þess sem hann hefði aðstoðað hann við að greiða fyrir bílprófið. Hann hefði rætt um það við A að stofna fyrir hann framtíðarreikning í banka og hefði haft í hyggju að leggja reglulega inn á hann, en til þess hefði ekki komið. Ákærði kvaðst hafa tekið bifreiðina af A eftir að hún varð fyrir tjóni, en gefið honum aðra bifreið í staðinn. Þegar þarna var komið sögu hefði honum fundist sem A héldi sambandi við hann í þeim tilgangi að fá frá honum gjafir. Hann hefði því tekið bifreiðina af honum. Í kjölfarið hefðu A og félagar hans kært hann til lögreglu. Ákærði kvað hæstu fjárhæðina sem hann hefði millifært á bankareikning A hafa verið 50.000 krónur. Hann kannaðist við að hafa millifært alls 311.500 krónur á bankareikning piltsins, en tók fram að hann hefði líka afhent honum peninga. Hann kvaðst hafa gert þetta af væntumþykju og neitaði því alfarið að hafa viljað fá piltinn til að stunda kynlíf í staðinn. Ákærði kannaðist við að hafa einu sinni keypt áfengi fyrir A, en neitaði að hafa gefið honum fíkniefni. Þá kannaðist hann við að hafa greitt fyrir leigubifreiðar fyrir A og félaga hans þegar þeir komu að hitta hann. Ákærði kvað þá A hafa gert ýmislegt saman annað en að stunda kynlíf. Þeir hefðu farið í kvikmyndahús, spilað „pool“ og keilu og farið í „go-cart“. Kvaðst ákærði yfirleitt hafa greitt fyrir þessar skemmtanir.
Ákærði kvað samskiptum þeirra A hafa lokið í febrúar eða mars 2011. Hann kvaðst hafa fundið fyrir breytingu á A. A hefði verið farinn að vera með einhverri stúlku og hefði hætt að hafa samband við ákærða. Hann kvaðst þá hafa hætt fjárhagsstuðningi við piltinn og sótt bifreiðina sem hann hefði gefið honum. Hann kannaðist við að hafa sagt við A að hann hygðist sýna stúlkunni myndbandsupptöku sem hann ætti af þeim saman, en það hefði verið uppspuni að slík upptaka væri til. Hann neitaði því að hafa verið að hóta A með þessu.
Vitnið, A, kvað þá ákærða hafa kynnst á netinu árið 2009, þegar hann var í 10. bekk grunnskóla. Þeir hefðu haft samskipti á facebook og msn og hefði ákærði nokkrum sinnum lagt inn á hann fyrir símainneign svo að þeir gætu haldið áfram að tala saman. Síðan hefði ákærði beðið hann um að hitta sig. A kvaðst hafa farið að hitta ákærða með vinum sínum, B og C. Þeir hefðu verið í íbúð sem ákærði hafði tekið á leigu og hefði ákærði gefið þeim áfengi og amfetamín. A kvaðst hafa verið orðinn mjög ölvaður þegar ákærði bað hann um að koma með sér niður í bifreiðageymslu að sækja eitthvað í bifreið sína. Þegar þeir voru komnir í bifreiðina hefði ákærði byrjað að strjúka á honum lærin og hneppa frá buxum hans. A kvaðst ekki hafa vitað hvað hann átti að gera og hefði hann frosið. Hefði ákærði haft munnmök við hann þarna. Þeir hefðu síðan farið allir saman niður í bæ og kvaðst A hafa beðið strákana um að sleppa sér ekki úr augsýn. Ákærði hefði gefið þeim meira áfengi á skemmtistöðum sem þeir fóru á. Hann hefði verið orðinn mjög ölvaður og fengið „blackout“. A kvaðst muna atvik slitrótt eftir þetta, en hann hefði rankað við sér af og til. Hann kvaðst hafa rankað við sér í íbúðinni og hefði ákærði þá verið ofan á honum og haft við hann endaþarmsmök. Síðan hefði hann dottið út aftur.
Þeir ákærði hefðu hist aftur einhverju seinna í „dópistapartíi“ í [...] í Kópavogi. F, vinur A, hefði verið í þessu samkvæmi og hefðu þeir ákærði hringt til hans og beðið hann um að koma. Ákærði hefði greitt fyrir hann leigubifreið á staðinn. A kvaðst hafa verið að skemmta sér þegar þeir hringdu og hefði hann verið ölvaður. Hann hefði fengið meira áfengi í samkvæminu og ákærði hefði gefið honum amfetamín. Þeir ákærði hefðu síðan farið saman inn á baðherbergi og hefði ákærði byrjað að strjúka honum þar. A kvaðst ekki hafa vitað hvernig hann átti að bregðast við. Hefði þessu lyktað með því að ákærði hafði endaþarmsmök við hann.
Eftir þetta hefðu þeir ákærði farið að eiga frekari samskipti. A kvaðst hafa sagt honum að hann vildi aðeins að þeir væru vinir, en ákærði hefði sagt að „það væri ekki sjéns“. Ákærði hefði talað mikið við hann og „ruglað“ í honum. Hann hefði sagt að það gæti ekki verið að hann væri gagnkynhneigður og að hann yrði að prófa að hafa kynferðismök við sig aftur. A kvaðst hafa fallið fyrir þessu. Hann hefði verið orðinn ringlaður þar sem ákærði hefði alltaf verið að segja honum að hann væri ekki gagnkynhneigður. Hann hefði sagt við ákærða að hann vildi ekki eiga kynferðismök við hann aftur. Ákærði hefði þá stungið upp á því að kaupa áfengi og hefðu þeir haft kynferðismök þegar hann var orðinn ölvaður. Það hefði verið eins og í fyrri skiptin að ákærði hefði haft munnmök og endaþarmsmök við hann. Þeir hefðu haft kynferðismök með sama hætti nokkrum sinnum eftir þetta og hefði alls verið um sex skipti að ræða, í tveimur íbúðum ofarlega við [...], í samkvæminu í [...], á heimili [...] ákærða í [...], á heimili ákærða og einu sinni í bifreið, sem ákærði hafði lagt einhvers staðar. A kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í öll skiptin, nema þegar þeir ákærði höfðu kynferðismök í bifreiðinni. Hann hefði haft frumkvæði að þeim samskiptum, en ákærði hefði þá verið búinn að telja honum trú um að hann væri samkynhneigður. Að lokum hefði hann neitað því að taka þátt í þessu með ákærða. Hann hefði þá verið búinn að átta sig á því að hann vildi þetta ekki. Það hefði verið eftir að hann byrjaði í viðtölum hjá E sálfræðingi.
A kvað ákærða hafa gefið sér áfengi og fíkniefni. Hann hefði líka gefið sér peninga, mat, skó og fatnað í jólagjöf, tvo síma og tvær bifreiðar, sem hann hefði reyndar tekið aftur. Þá hefðu þeir farið í ferð til [...], sem ákærði hefði greitt fyrir. A kvaðst hafa heillast af þessum gjöfum, sem hann hefði tengt kynferðislegum samskiptum þeirra ákærða. Honum hefði fundist hann vera að „halda við“ ákærða vegna þessara gjafa. Ákærði hefði einnig keypt fyrir hann hurð, borðplötu, tölvuleiki og rúmbotn og keypt í matinn fyrir fjölskylduna. Hann hefði millifært peninga inn á reikning A, oftast 5.000 krónur í einu. Í eitt skipti hefði ákærði millifært 50.000 krónur og kvaðst A hafa upplifað það þannig að það væri til þess að hann héldi áfram að hafa kynferðismök við hann, en ákærði hefði haft á orði að hann myndi greiða honum 50.000 krónur fyrir það. A kvaðst upplifa samskipti þeirra þannig að ákærði hefði mútað honum. Honum hefði fundist ákærði vera að gefa honum þessar gjafir til að fá sig til að stunda kynlíf með sér.
A kvaðst hafa orðið ringlaður af samskiptum við ákærða og ekki vitað „hvert hann átti að fara“. Ákærði hafi verið búinn að „rugla“ svo mikið með hann. Hann hefði sagt honum að hann væri samkynhneigður og hefði hann ekki getað rætt þetta við neinn annan. Honum hefði sjálfum fundist hann vera gagnkynhneigður, en ákærði hefði „ruglað“ í honum með kynhneigð hans.
Ákærði hefði orðið reiður þegar hann hefði sagst vilja slíta sambandi við hann. Hefði ákærði boðið honum til [...] og þar hefði komið til ryskinga á milli þeirra. Eftir þetta hefði hann ákveðið að hætta að tala við ákærða, sem hefði viljað halda sambandinu áfram og gengið ákveðið á eftir honum. Hann hefði hins vegar slitið sambandinu við ákærða.
A kvað ákærða hafa sagt sér í upphafi að hann væri 27 ára, en hann hefði síðar komist að því að það var ekki rétt. Hann kvað aldur sinn koma fram á facebook-síðu sinni og hefði hann alltaf tilgreint réttan aldur þar. Hann lýsti högum sínum og kvaðst hafa fundið fyrir því að vinir hans hefðu meira á milli handanna en hann og hefði móðir hans ekki getað veitt honum það sem þeir fengu. Því hefðu peningarnir og gjafirnar sem hann fékk frá ákærða skipt hann máli. Hann hefði farið að líta samband þeirra öðrum augum eftir að hann byrjaði í viðtölum hjá E. Hann kvað samskipti þeirra ákærða hafa haft mikil áhrif á sig. Hann ætti erfitt með að rifja þau upp og greina frá því sem gerðist. Þessi lífsreynsla myndi alltaf fylgja honum.
Vitnið, G, móðir A, kvaðst hafa litið á son sinn og ákærða sem vini. Ákærði hefði sagt ósatt um aldur sinn í upphafi og hefði hún talið að hann væri 27 ára. Hún kvaðst ekki hafa vitað að þeir A hefðu átt í kynferðislegu sambandi fyrr en A lagði fram kæru í málinu. Hún hefði þó vitað um gjafir ákærða til A, auk þess sem hann hefði einhverju sinni keypt mat fyrir heimilið. Vitnið kvað samskipti A við ákærða hafa haft áhrif á líðan hans. Þau hefðu veikt sjálfstraust hans og valdið honum vanlíðan.
Vitnið, B, kvaðst hafa farið með A í samkvæmið að [...], þegar þeir hittu ákærða fyrst. Taldi B að ákærði hefði tekið þessa íbúð á leigu til að halda þetta samkvæmi. Hann hefði millifært fé á bankareikning A svo að þeir kæmust þangað. Ákærði hefði gefið þeim áfengi og amfetamín í samkvæminu og keypt handa þeim áfengi á börum eftir að þeir fóru niður í miðbæ. A hefði verið orðinn svo ölvaður að ekki hefði verið hægt að eiga nein samskipti við hann. Hann hefði varla getað staðið í fæturna og kvaðst vitnið hafa þurft að hálfbera hann. Þá hefði ákærði boðist til að fara með A heim í leigubifreið.
Eftir þetta hefði ákærði farið að mæta í samkvæmi með vinahópnum. Hann hefði sagt þeim að hann væri 25 eða 27 ára og þeir hefðu litið á hann sem félaga sinn um tíma. B kvaðst hafa frétt af því að ákærði væri að gefa A gjafir og að hann hefði mætt heim til hans með fulla poka af mat handa fjölskyldunni. Honum hefði fljótlega farið að þykja eitthvað grunsamlegt við þetta. Síðar hefði komið í ljós hvað hefði gerst á milli ákærða og A og kvaðst B líta svo á að ákærði hefði verið að kaupa þögn vinar síns, sem hann hefði misnotað kynferðislega. B kvað A hafa verið hræddan við ákærða eftir að hann batt enda á samskipti þeirra, en ákærði hefði sagt honum að hann þekkti vel til í undirheimunum. Þá væri A miður sín yfir því sem hefði gerst. Þetta mál hefði haft mikil áhrif á hann, hann hefði dregið sig í hlé og lokað á félagsleg samskipti.
Vitnið, C, kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum A og talið að þeir væru vinir. C kvaðst hafa verið með A og B þegar þeir hittu ákærða fyrst í samkvæminu að [...]. Ákærði hefði lagt inn á bankareikning A til að þeir ættu fyrir farinu þangað. Hann hefði veitt þeim áfengi og fíkniefni allt kvöldið og hefði A verið orðinn svo ölvaður að hann hefði varla getað staðið í fæturna. B hefði þurft að styðja hann og hefði ákærði farið að halda utan um hann líka og síðan boðist til að fara með hann heim. Hefðu A og ákærði farið saman í leigubifreið. C kvaðst muna eftir því að A hefði beðið þá B um að sleppa sér ekki úr augsýn þetta kvöld.
C kvað ákærða hafa sagt þeim að hann væri 27 ára, en þeir hefðu frétt síðar að hann var mun eldri. Ákærði hefði farið að hitta þá vinina og hefði hann nokkrum sinnum gefið þeim áfengi og fíkniefni, yfirleitt landa og amfetamín. C kvaðst ekki hafa þótt þetta óeðlilegt í fyrstu, en síðan hefði hann orðið þess var að A virtist ekki líða vel þegar ákærði barst í tal og hefði hann yfirleitt ekki viljað ræða um hann. Ákærði hefði hins vegar alltaf spurt mikið eftir A. C kvað A ekki hafa liðið vel eftir það sem gerðist. A hefði verið þunglyndur eftir þetta og fyndist honum hann ekki vera sami maður og áður.
Vitnið, F, kvaðst hafa hitt ákærða fyrst í samkvæmi í [...] í Kópavogi. Hefði ákærði spurt hann hvort hann þekkti A. Að beiðni ákærða hefði hann hringt til A og beðið hann um að koma. Eftir að A kom í samkvæmið hefði ákærði beðið hann um að koma með sér inn á baðherbergi. F kvaðst hafa séð A koma út af baðherberginu um 10 mínútum síðar og hefði verið augljóst að eitthvað var að. Hann hefði strax viljað yfirgefa samkvæmið og þeir hefðu farið saman. Hann kvað A síðar hafa sagt sér hvað hefði gerst inni á baðherberginu.
F kvaðst fljótlega hafa orðið þess var að A vildi ekki hitta ákærða einn síns liðs. Hins vegar hefði ákærði sótt mjög í samskipti við A, beðið þá um að hafa hann með þegar þeir komu að hitta hann og viljað að A yrði eftir þegar þeir voru að fara. Þeir hefðu hitt ákærða talsvert um tíma og þá yfirleitt á hótelum þar sem hann dvaldi. Ákærði hefði „mokað“ í þá áfengi og fíkniefnum. Hann hefði sagt þeim að hann væri 27 ára, en þeir hefðu síðar komist að því að það var ekki rétt. Þá hefði hann sagt þeim að hann þekkti vel til í undirheimunum og hefði verið handrukkari og hefðu þeir verið hálfsmeykir við hann vegna þessa. Ákærði hefði hringt mikið í þá til að fá þá til að hitta sig. Hann hefði alltaf verið með fíkniefni sem hann hefði gefið þeim, auk þess sem hann hefði greitt fyrir þá leigubifreiðar svo að þeir gætu komið. Ákærði hefði beitt A miklum þrýstingi og hefði A orðið bældari því meira sem hann var með honum. Þannig hefði ákærði verið í eina eða tvær vikur að þrýsta á A að koma með sér til [...] og hefði hann loks látið undan. Þeir vinirnir hefðu oft rætt það við A að hætta samskiptum við ákærða. A hefði viljað það, en ávallt látið undan ákærða. Ákærði hefði ekki viljað að A hefði samskipti við H, sem hefði verið einn af bestu vinum hans. Hefði komið fram hjá ákærða að hann treysti ekki H, sem hann taldi vera að reyna að fá A til að hætta að tala við sig. Loks hafi A farið að loka sig af. Ákærði hefði brugðist illa við því og sakað A um að loka á sig. Hann hefði farið heim til A til að fá að hitta hann, hringt í hann og ekið fram hjá húsinu hans til að fylgjast með honum. Þá hefði hann sífellt verið að spyrja þá strákana hvernig A hefði það og hvort hann væri að hitta einhverja aðra stráka. F kvað ákærða hafa hringt margoft til sín, jafnvel um nætur, til að spyrja um A.
Vitnið, H, kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum A. A hefði sagt sér að ákærði væri að gefa honum gjafir og hann hefði orðið vitni að því að hann gaf honum áfengi og fíkniefni. Þá hefði honum fundist ákærði beita A miklum þrýstingi, m.a. til að neyta eiturlyfja. Honum hefði fundist ákærði loka A af. H kvaðst hafa sagt A að honum fyndist þetta ekki eðlilegt. Í kjölfarið hefði komið fram að ákærði hefði ekki viljað að þeir A hittust og hefði hann útilokast úr hópnum um tíma vegna þess. H kvaðst telja að A hefði ekki þorað annað en að halda áfram samskiptum við ákærða. Hann hefði verið hræddur við ákærða sem hefði sagt þeim að hann hefði tengsl við undirheimana.
Vitnið, E sálfræðingur, gerði grein fyrir viðtölum sem hann hefði átt við A. Hann kvað það hafa komið fram hjá A að hann hefði fundið fyrir þrýstingi frá ákærða í þá veru að halda kynferðissambandi áfram. Þeir hefðu rætt þessi mál og hefði A komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki áhuga á kynferðislegum samskiptum við ákærða. Vitnið kvað A hafa talað um að ákærði hefði „ruglað sig“. Hann kvaðst hafa skilið það svo að ákærði hefði ruglað hann í því sem hann hélt um kynhneigð sína. Í síðasta viðtalinu sem þeir áttu hefði A talað um að ákærði hefði beitt hann þrýstingi með gjöfum og fjárstuðningi. Hann hefði sérstaklega nefnt bifreið, sem ákærði hefði gefið honum, en tekið aftur.
Vitnið, I rannsóknarlögreglumaður, gerði grein fyrir rannsókn málsins. Meðal annars kom fram hjá vitninu að ákærði hefði framvísað síma, þar sem komið hefðu fram sms-samskipti milli hans og A. Þá hefði verið aflað upplýsinga úr dagbók Metropolitan Police í [...] vegna atviks, sem ákærði og A höfðu borið um er kom til ryskinga á milli þeirra í ferð þeirra þangað í ágúst 2010. Upplýsingarnar eru meðal gagna málsins.
Niðurstaða
Ákærða er gefið að sök að hafa frá febrúar 2009 til janúar 2011 tælt A, sem þá var 15 til 17 ára, til kynferðismaka. Ákærði viðurkennir að hafa haft kynferðismök, þ. á m. endaþarmsmök og munnmök, við A í sex skipti á því tímabili sem um ræðir. Hefur A borið um atvik með sama hætti að þessu leyti. Ákærði hafnar því hins vegar að hafa tælt piltinn til kynferðismaka. Ákærði hefur viðurkennt að hafa gefið A gjafir, veitt honum fjárhagsstuðning og í einhverjum tilvikum áfengi. Hann neitar því hins vegar að hafa veitt piltinum fíkniefni.
Ákærði var á aldrinum 32 til 34 ára á því tímabili sem kynferðislegt samband hans við A stóð og hafði því talsverða yfirburði gagnvart piltinum vegna aldurs- og þroskamunar. Fram er komið að ákærði komst í kynni við A á facebook og bauð honum síðan í samkvæmi í íbúð sem hann hafði tekið á leigu í nokkra daga að [...] í Reykjavík. Ákærði kannast við að hafa greitt fyrir leigubifreið sem A og vinir hans tóku úr Hafnarfirði til að komast í samkvæmið. Þá hefur hann viðurkennt að hafa ekki sagt þeim rétt til um aldur sinn. A og félagar hans, B og C, hafa borið að ákærði hafi veitt þeim áfengi og amfetamín þetta kvöld og að A hafi verið ofurölvi. Hafa ákærði og A borið að ákærði hafi haft kynferðismök við A þetta kvöld og um nóttina. Þá kannast ákærði við að hafa beðið A að koma að hitta sig í samkvæmi að [...] í Kópavogi og að hafa greitt fyrir hann far með leigubifreið þangað. Hefur A borið að hann hafi verið ölvaður er hann kom í samkvæmið og að ákærði hafi gefið honum amfetamín. Hann hafi því verið undir miklum vímuáhrifum þegar ákærði hafði við hann kynferðismök inni á baðherbergi. Rakinn hefur verið framburður A og félaga hans um samskipti við ákærða og bar þeim saman um að ákærði hefði veitt þeim áfengi og fíkniefni að staðaldri. Þykir mega leggja samhljóða frásögn piltanna til grundvallar um atvik að þessu leyti. Ákærða er ekki gefið að sök að hafa notfært sér ölvunar- og vímuástand A til að hafa við hann kynferðismök. Af því sem rakið hefur verið verður hins vegar ráðið að ákærði átti frumkvæði að fyrstu fundum þeirra A og hafði kynferðismök við piltinn eftir að hafa veitt honum áfengi og fíkniefni og sagt rangt til um aldur sinn.
Ákærði hefur gert grein fyrir gjöfum og fjárstuðningi sem hann veitti A á því tímabili sem ákæra tekur til og er ljóst að um veruleg fjárverðmæti var að ræða fyrir piltinn. Ákærði hefur jafnframt borið að A hafi greint sér frá bágum heimilisaðstæðum sínum og gat honum ekki dulist að stuðningur hans við piltinn og fjölskyldu hans skiptu hann miklu máli. Ákærði hefur engar trúverðugar skýringar gefið á örlæti sínu við piltinn, sem aftur hefur borið að hann hafi litið svo á að gjafirnar tengdust kynferðislegum samskiptum þeirra. A hefur borið að ákærði hafi beitt hann þrýstingi til að hafa við sig kynferðismök og hafi ákærði reynt að telja honum trú um að hann væri samkynhneigður. Þá hafa A og félagar hans borið að ákærði hafi brugðist illa við er A vildi binda enda á samskipti þeirra og hefði hann þrýst á hann að halda þeim áfram. Fær frásögn þeirra stoð í framburði ákærða, sem kvaðst hafa hætt fjárstuðningi við A og sótt bifreið sem hann hefði gefið honum þegar hann frétti að hann væri farinn að hitta stúlku. Með því sem rakið hefur verið þykir leitt í ljós að ákærði hafi notfært sér bágar aðstæður A og þá yfirburðaaðstöðu sem hann hafði gagnvart piltinum og gert hann háðan sér með gjöfum, fjárstuðningi, loforðum um peninga og með því að láta hann hafa áfengi og fíkniefni, til að hafa við hann kynferðismök. Telst sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir, þó þannig að með hliðsjón af framburði ákærða og A verður miðað við að ákærði hafi haft kynferðismök við piltinn í sex skipti. Verður ákærði að öðru leyti sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar brot hans við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu telst jafnframt sannað að ákærði hafi veitt piltinum áfengi, svo sem í ákæru greinir, og varðar sú háttsemi hann refsingu samkvæmt 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga.
Ákærði er fæddur í [...] 1976. Samkvæmt sakavottorði hlaut hann á árunum 1995 til 2008 sex refsidóma og gekkst undir viðurlagaákvörðun vegna þjófnaðarbrota, eignaspjalla og umferðarlagabrota. Hann var dæmdur 4. maí 2009 til sektargreiðslu vegna brots gegn 209. gr. og 3. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Hann var dæmdur 19. desember 2011 til þriggja mánaða fangelsisrefsingar vegna þjófnaðar og umferðarlagabrota. Árið 2012 gekkst hann þrívegis undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrota. Loks var ákærði 7. febrúar 2013 dæmdur til 18 mánaða fangelsisrefsingar fyrir rán og fíkniefnalagabrot, en þar var um hegningarauka að ræða. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt reglum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur dómur sem hann hlaut fyrir kynferðisbrot árið 2009 ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 205. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði braut gróflega gegn A, sem var á viðkvæmu aldurs- og þroskastigi þegar brotin voru framin. Hann hafði ítrekað kynferðismök við piltinn og vörðu brot hans um nokkurn tíma. Mátti ákærða vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar háttsemi hans hlyti að hafa fyrir líf og sálarheill piltsins. Þá sýndi ákærði af sér einbeittan brotavilja í samskiptum við piltinn, eins og rakið hefur verið. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 1., 2. og 6. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi ákvörðun refsingar þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 439.250 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Páls Kristjánssonar hdl., 225.900 krónur, þóknun verjanda síns við upphaf dómsmeðferðar, Kristjáns Stefánssonar hrl., 125.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 338.850 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Stefanía Guðrún Sæmundsdóttir, settur saksóknari.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir og Eggert Óskarsson og Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Aron Snorri Gunnarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2009 til 25. mars 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 439.250 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Páls Kristjánssonar hdl., 225.900 krónur, þóknun verjanda síns við upphaf dómsmeðferðar, Kristjáns Stefánssonar hrl., 125.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 338.850 krónur.