Hæstiréttur íslands
Mál nr. 344/2012
Lykilorð
- Skuldamál
- Gagnaöflun
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 344/2012.
|
Íslandsbanki hf. (Ólafur Garðarsson hrl.) gegn þrotabúi Sturlaugs og Co ehf. (Magnús Pálmi Skúlason skiptastjóri) |
Skuldamál. Gagnaöflun.
Aðilar deildu um það hvort Í hf. bæri að greiða þb. S ehf. reikning vegna beltagröfu og malarvagna, sem komið höfðu í stað liðskipts malartrukks í fjármögnunarleigusamningi milli E ehf. og forvera Í hf. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að skilyrði þess að aflétt yrði tryggingu Í hf. fyrir efndum á fjármögnunarleigusamningnum hefði verið að önnur fullnægjandi trygging væri sett, en í afléttingunni hefði falist að Í hf. afsalaði sér trukknum til E ehf. Hefði starfsmaður S ehf. og E ehf. borið að ekki hafi staðið til að Í hf. myndi greiða fyrir tækin þar sem þau hefðu átt að koma sem trygging í stað malartrukksins. Taldi Hæstiréttur að þb. S ehf. hefði ekki sýnt fram á að það ætti kröfu á hendur Í hf. vegna þeirra viðskipta sem um ræddi og var Í hf. því sýknað af kröfu þb. S ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 21. mars 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. maí sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 21. maí 2012 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Emir ehf. og fjármögnunarfyrirtæki á vegnum áfrýjanda, sem áður hét Glitnir banki hf., gerðu 3. ágúst 2007 með sér samning um fjármögnunarleigu á liðskiptum malartrukk, einnig nefndur „búkolla“ í málsgögnum, af tegundinni Astra, sem stefndi hafði flutt til landsins. Samkvæmt samningnum var stefndi seljandi trukksins. Kaupverð trukksins án virðisaukaskatts var 18.300.000 krónur, fyrirframgreidd leiga var 4.500.000 krónur, en eftirstöðvarnar, 13.800.000 krónur, skyldi Emir ehf. greiða með 72 mánaðarlegum leigugreiðslum. Samningurinn fékk númerið 612753-001. Emir ehf. sótti 10. nóvember 2008 um fjármögnunarleigu hjá áfrýjanda undir sama samningsnúmeri og áður greinir. Umsóknin var samþykkt 22. sama mánaðar af hálfu áfrýjanda „til uppgreiðslu á samningi 612753-1 ...“. Meðal þess sem fram kom í umsókninni var eftirfarandi: „Emir ehf. óskar eftir ... tækjaskipta samningi nr. 612753-001. Út fer Astra trukkur sem IAV ehf. er að kaupa á kr. 17.233.000“ auk virðisaukaskatts og að í staðinn fyrir trukkinn kæmu tveir nánar tilgreindir malarvagnar og þrjár beltagröfur. Við svo búið var gerður samningur 24. nóvember 2008 um fjármögnunarleigu milli áfrýjanda og Emirs ehf. með sama sniði og áður greinir og voru umrædd tæki, sem komu inn í samninginn í stað malartrukksins, þar tilgreind sem „hið leigða“. Kaupverð án virðisaukaskatts var sagt 24.797.000 krónur sem skyldi greiðast með 71 afborgun á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 15. febrúar 2009. Samningnum fylgdi reikningur stefnda til áfrýjanda að fjárhæð 24.797.000 krónur án virðisaukaskatts, en 30.872.265 krónur að þeim skatti meðtöldum. Í héraði krafði stefndi áfrýjanda um greiðslu síðarnefndu fjárhæðarinnar og var fallist á þá kröfu í hinum áfrýjaða dómi, en jafnframt tekin til greina varakrafa áfrýjanda um skuldajöfnuð vegna kröfu að fjárhæð 17.766.329 krónur, sem hann hafði lýst í þrotabú stefnda. Kom sú fjárhæð til frádráttar kröfu stefnda og því til samræmis var áfrýjandi dæmdur til að greiða hinum fyrrnefnda 13.105.936 krónur ásamt dráttarvöxtum.
Eftir að lokið var fresti til gagnaöflunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 óskaði áfrýjandi eftir að koma að frekari gögnum. Með því að ekki eru uppfyllt skilyrði ákvæðisins til að Hæstiréttur megi heimila áfrýjanda að leggja þessi gögn fram koma þau ekki til álita við úrslausn málsins.
II
Bú Sturlaugs & Co ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 2010. Vegna skiptanna tók skiptastjóri þrotabúsins, með heimild í 1. mgr. 82. gr., sbr. 2. mgr. 81. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., skýrslu 24. febrúar sama ár af Ólafi Arnfjörð Guðmundssyni, fyrrverandi starfsmanni stefnda. Í skýrslunni kom meðal annars fram að Ólafur hafi á þeim tíma, er atvik máls þessa taka til, komið fram fyrir hönd stefnda sem framkvæmdastjóri með samþykki stjórnar þess, án þess þó að hann bæri formlega þann titil. Þá bera gögn málsins með sér að Ólafur hafi einnig verið starfsmaður Emirs ehf. á sama tíma og farið með prókúruumboð fyrir það félag. Ritaði hann samkvæmt því umboði undir fjármögnunarleigusamninginn frá 24. nóvember 2008.
Að tilhlutan áfrýjanda var Ólafur við skýrslutökuna spurður út í viðskipti þau er mál þetta snýst um. Um tilgang þess að Emir ehf. óskaði um miðjan október 2008 eftir „að gerð yrðu tækjaskipti á samningi Emirs ehf. nr. 612753-001 við bankann vegna Astra liðstýrðs malartrukks sem S&Co ehf. flutti inn og seldi Emir ehf.“ og lagði til að áfrýjandi „afsalaði/losaði“ um veð í trukknum, en í staðinn kæmu til tryggingar samningnum áðurnefndir malarvagnar og beltagröfur. Svaraði Ólafur því til að tilgangurinn hafi verið sá að „aflétta áhvílandi fjármögnunarleigusamningum af Astra búkollu yfir á ofangreind tæki.“ Kvaðst Ólafur hafa óskað eftir þessari breytingu á fjármögnunarleigusamningnum sem starfsmaður beggja félaganna. Í staðinn fyrir að afsala sér malartrukknum hafi áfrýjandi átt að fá umrædd tæki frá Sturlaugi & Co ehf. og ekki hafi staðið til að áfrýjandi myndi greiða fyrir tækin.
III
Ástæða þess að Emir ehf. óskaði eftir að leysa fyrrnefndan Astra malartrukk undan fjármögnunarleigusamningi félagsins og áfrýjanda var sú að félagið hugðist selja hann Íslenskum aðalverktökum hf. Ljóst er að skilyrði þess að áfrýjandi aflétti þeirri tryggingu fyrir efndum Emirs ehf. á fjármögnunarleigusamningnum frá 3. ágúst 2007, sem hinn fyrrnefndi hafði samkvæmt samningnum í trukknum, var að önnur fullnægjandi trygging yrði sett, þar sem í afléttingunni fólst að áfrýjandi afsalaði sér trukknum til Emirs ehf. Með því að áfrýjandi taldi sig fá nægilega tryggingu fyrir efndum umrædds fjármögnunarleigusamnings með þeim tækjum, sem komu í stað malartrukksins, féllst hann á að gera nýjan samning við Emir ehf.
Ágreiningslaust er með aðilum að þeir hafi átt í viðskiptasambandi frá árinu 2005, sem var þannig háttað að stefndi flutti til landsins ýmis tæki, svo sem vinnuvélar, lyftara og landbúnaðartæki, sem áfrýjandi fjármagnað kaup þriðja manns á. Þá verður ráðið af gögnum málsins að stefndi hafi verið að jöfnu í eigu tveggja nafngreindra manna og Emir ehf. að öllu leyti í eigu annars þeirra. Voru þannig náin eignatengsl milli félaganna og viðskipti þeirra við áfrýjanda samtvinnuð. Jafnframt er fram komið í málinu að fyrrgreindur Ólafur Arnfjörð Guðmundsson var starfsmaður beggja félaganna og kom þannig fram fyrir hönd þeirra í umræddum viðskiptum við áfrýjanda. Kvaðst Ólafur hafa óskað eftir umræddri breytingu á fjármögnunarleigusamningnum og hafi áfrýjandi átt að fá malarvagnana og beltagröfurnar frá stefnda í staðinn fyrir að afsala sér malartrukknum. Hafi því ekki staðið til að áfrýjandi myndi greiða fyrir tækin. Þá kom fram hjá skiptastjóra við skýrslutökuna að Ósafl sf., dótturfélag Íslenskra aðalverktaka hf., hafi 28. nóvember 2008 greitt 21.455.085 krónur inn á tilgreindan bankareikning stefnda vegna sölu tveggja „búkolla“ og kvað Ólafur að önnur þeirra hafi verið fjármögnuð með láni frá forvera áfrýjanda. Er þessi framburður hans í samræmi við það sem fram kom í umsókn Emirs ehf. um breytingu á fjármögnunarleigusamningnum, en þar sagði efnislega að félagið óskaði eftir „tækjaskiptasamningi“ og að út færi „Astra trukkur“ sem Íslenskir aðalverktakar hf. væru að kaupa á 17.233.000 krónur auk virðisaukaskatts og í staðinn kæmu tilgreind tæki.
Að virtu öllu framangreindu hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur áfrýjanda vegna þeirra viðskipta sem hér um ræðir. Af því leiðir að áfrýjandi verður sýknaður af kröfu stefnda.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnda, þrotabús Sturlaugs & Co ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 27. október, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Sturlaugi og Co ehf., Fiskislóð 14, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., vegna Íslandsbanka fjármögnunar, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 30. desember 2009. Stefnandi var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2010, og tók þrotabúið þá við rekstri dómsmálsins.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 30.872.265 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. nóvember 2008 til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti og að nýir vextir verði reiknaðir af samanlagðri fjárhæð samkvæmt 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að viðurkenndur verði réttur stefnda til að skuldajafna kröfu að fjárhæð 17.766.329 krónur við kröfu stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 24. nóvember 2008 seldi stefnandi stefnda beltagröfur og malarvagn og var gefinn út reikningur vegna þess nr. 9170, að fjárhæð 30.872.265 krónur. Hinn 16. september 2009 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem óskað var eftir greiðslu reikningsins eða samið um greiðsluna. Stefnandi kveður að hann hafi fengið munnleg svör frá starfsmanni stefnda þar sem fram hafi komið að stefndu hygðist ekki greiða kröfuna þar sem stefndi hafi talið sig hafa greitt kröfuna með skuldajöfnuði við annað félag, sem verið hafi í eigu eins af hluthöfum stefnanda.
Stefndi hefur lýst málavöxtum svo, að stefndi, sem reki fjármögnunarfyrirtæki undir merkjum Íslandsbanka fjármögnunar, og forsvarsmaður stefnanda, hafi átt í viðskiptum frá árinu 2005, en þá hafi stefnandi verið stofnaður. Viðskiptin hafi m.a. átt sér stað með þeim hætti að Sturlaugur og Co hafi flutt inn ýmis tæki, svo sem vinnuvélar, lyftara og landbúnaðartæki. Stefndi hafi síðan fjármagnað kaup þriðja aðila á tækjunum með fjármögnunarleigu. Á meðan stefnandi hafi verið í fullum rekstri hafi samningssamband þetta verið stöðugt.
Eins og áður greinir var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2010. Frestdagur við skiptin var 8. október 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 28. mars 2010.
Eigendur Sturlaugs og Co ehf. voru þeir sömu og átt hafi félagið Emir ehf., Fiskislóð 14, Reykjavík, og hafi stjórnendur verið þeir sömu. Fyrirtækin Sturlaugur og Co ehf. og Emir ehf. hafi því verið systurfyrirtæki. Samkvæmt atvinnugreinaflokkun Ríkisskattstjóra hafi starfsemi Emir ehf. verið blönduð heildverslun. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 10. mars 2009, hafi Emir ehf. verið úrskurðað gjaldþrota.
Stefndi kveður að hinn 3. ágúst 2007 hafi stefndi samþykkt erindi Emir ehf. um 75% fjármögnun vegna fjármögnunarleigu á nýjum Astra, liðstýrðum malartrukki, sem Sturlaugur og Co hafi flutt inn og selt Emir ehf. Emir ehf. hafi svo leigt trukkinn áfram til félagsins Háfells ehf. Í framhaldinu hafi síðan verið gerður fjármögnunarleigusamningur nr. 612753-001, að fjárhæð 13.800.000 krónur.
Um haustið 2007 hafi því staðan verið sú að stefndi hafi gert samning við Emir ehf. um að fjármagna Astra „búkollu“ og hafi allir samningsaðilar staðið við sínar skuldbindingar.
Rúmu ári síðar eða um miðjan október 2008 hafi Ólafur Arnfjörð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Emirs ehf., tilkynnt að Emir ehf. væri að líkindum að selja „búkolluna“ og leitaði eftir samþykki stefnda og heimild til að greiða upp uppsöfnuð vanskil. Stefndi kveðst hafa samþykkt sölu á Astra „búkollunni“ gegn því að til tryggingar á fjármögnunarleigusamningnum kæmu ný tæki.
Emir ehf. hafi þá stungið upp á að eftirtalin fimm tæki kæmu til tryggingar:
Heiti:Verðmæti:
Malarvagn Langedorf EK-6983.300.000 kr. án vsk.
Malarvagn Langedorf SA-2123.300.000 kr. án vsk.
Beltagrafa, JCB 8080 EB-10437.297.000 kr. án vsk.
Beltagrafa JCB 260 LC EB-03833.000.000 kr. án vsk.
Beltagrafa Komatsu EB-07947.900.000 kr. án vsk.
Samtals 24.797.000 kr. án vsk.
Þar sem metið verðmæti ofangreindra tækja hafi verið hærra en virði Astra trukksins á þeim hafi erindi Emirs ehf. verið samþykkt gegn því að vanskil vegna ógreiddra gjalddaga yrðu greidd, en vanskil hafi numið 2.500.000 krónum.
ÍAV hafi greitt Emir ehf. fyrir „búkolluna“ og jafnframt hafi fjármögnunarleigusamningi verið breytt og hafi samningurinn fengið númerið 612753-002. Hafi þetta verið gert til hagræðis fyrir Emir ehf., þannig að félagið þyrfti ekki að greiða upp skuld sína heldur hafi það sett ný tæki til tryggingar henni.
Með bréfi, dagsettu 16. september 2009, krafðist lögmaður Sturlaugs & co greiðslu reikninga að fjárhæð 30.872.265 krónur, sem dagsettur er 24. nóvember 2008. Þennan reikning kveðst stefndi aldrei hafa séð áður og hafnaði greiðsluskyldu.
Stefndi lýsti kröfu í þrotabú stefnanda, sem var hafnað af skiptastjóra, og var málinu skotið til héraðsdóms. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að krafa stefnda að fjárhæð 17.766.329 krónur, skyldi viðurkennd sem almenn krafa við gjaldþrotaskipti á þrotabúi stefnanda.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á reikningi útgefnum 24. nóvember 2008, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 30.872.265 krónur, en þann dag hafi stefnandi selt stefnda beltagröfu og malarvagn.
Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi ekki keypt beltagröfu og/eða malarvagn. Stefndi mótmælir því og að hafa móttekið reikning vegna þeirra viðskipta, en kveðst hafa fengið innheimtubréf vegna reikningsins, dagsett 16. september 2009.
Stefndi kveðst hafa fjármagnað kaup Emirs ehf. á Astra „búkollu“ af stefnanda. Samningur um fjármögnunarleigu hafi verið undirritaður í framhaldinu.
Um miðjan nóvember 2008 hafi stefndi samþykkt sölu fyrrgreinds tækis, gegn því að Emir ehf. setti nýjar tryggingar og vanskil yrðu greidd upp.
Að frumkvæði Emirs ehf. hafi verið lagt til að fimm tilgreind tæki yrðu sett til tryggingar, og hafi verðmæti þeirra tækja verið hærra en „búkollunnar“ Stefndi hafi því samþykkt annan samning við Emir ehf. Samningurinn hafi verið undirritaður 24. nóvember 2008 af hálfu Emirs ehf. og stefnda, en stefnandi hafi enga aðkomu haft að þeim samningi. Hafi það verið stefnda með öllu óviðkomandi hvernig Emir ehf. aflaði nýju tækjanna sem tryggingar fyrir skuld sinni.
Stefndi kveður að í þessum samskiptum hafi ekki staðið til að Emir ehf. greiddi upp skuld sína við stefnda með sölu Astra „búkollunnar“, heldur hafi verið um tækjaskipti að ræða til hagræðis fyrir Emir. Þegar tækjaskipti eigi sér stað sé það jafnan þannig að þau séu gerð með nýjum samningi til einföldunar. Með gátlista „nýja“ fjármögnunarleigusamningsins, komi skýrt fram að greiða eigi inn á fyrri samning og að leigutaki sé Emir ehf.
Áður en komið hafi að skýrslutöku skiptastjóra stefnanda yfir Ólafi Arnfjörð Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda, hafi stefndi óskað eftir því að skiptastjóri spyrði hann út í nánar tilgreind atriði, en skýrslutakan hafi farið fram 24. febrúar 2010. Svör Ólafs við spurningum skiptastjóra sýni að stefnandi eigi enga kröfu á hendur stefnda. Í skýrslutökunni hafi Ólafur sagt að tilgangur tækjaskiptanna hafi verið sá að aflétta áhvílandi fjármögnunarleigusamningi af Astra „búkollu“ yfir á önnur tæki. Þá hafi jafnframt komið fram hjá Ólafi að hann sem starfsmaður Sturlaugs % co og Emirs ehf. hafi óskað eftir því að tæki Sturlaugs & co yrðu notuð til að koma sem trygging fyrir Astra „búkollunni“. Aðspurður hvað stefndi hafi átt að fá í staðinn fyrir að afsala Astra „búkollu“ hafi Ólafur svarað að félagið hafi átt að fá tæki frá Sturlaugi &co. Ólafur hafi síðan verið spurður hvort til hafi staðið að Íslandsbanki greiddi Sturlaugi & co fyrir tækin og þá hvað skyldi greiða. Hafi Ólafur svarað því til að svo hafi ekki átt að vera og ef að tækin yrðu seld yrði að standa skil á því sem hvílt hafi á tækjunum.
Þessi framburður Ólafs hjá skiptastjóra sýni svo ekki verði um villst að aldrei hafi staðið til að stefndi greiddi stefnanda vegna þessara tækjaskipta. Telji stefnandi sig eiga kröfu vegna þessara tækjaskipta verði hann að beina kröfum sínum á hendur öðrum en stefnda.
Beri því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að með dómi Hæstaréttar Íslands hafi verið viðurkennd sem almenn krafa við skipti á búi stefnanda 17.766.329 krónur. Krefst stefndi þess að sú krafa verði viðurkennd til skuldajafnaðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og komi hún til frádráttar kröfum stefnanda fari svo að fallist verði á kröfu stefnanda að öllu leyti eða að hluta.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, auk laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri að greiða stefnanda reikning vegna beltagröfu og malarvagna, sem stefnandi kveðst hafa selt stefnda í nóvember 2008.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að systurfyrirtæki stefnanda, Emir ehf., hafi gert samning við stefnda um að Emir ehf. setti umrædd tæki sem tryggingu vegna uppgjörs á öðrum samningi milli stefnda og Emir ehf. Hafi það verið stefnda óviðkomandi hvernig Emir ehf. aflaði þessara tækja.
Samkvæmt gögnum málsins var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 2010, eftir að mál þetta var höfðað, og tók þrotabúið við rekstri þess. Frestdagur við skiptin var 8. október 2009.
Fyrir liggur að stefnandi flutti inn og seldi margs konar vinnuvélar. Í gögnum málsins liggur ekki frammi samningur aðila um umdeild viðskipti. Hins vegar er óumdeilt að stefnandi var eigandi þeirra tækja sem hann krefur stefnda um greiðslu á. Þá liggur fyrir að stefndi og Emir ehf. gerðu með sér fjármögnunarleigusamning vegna þessara tækja, en samningurinn er hins vegar ekki undirritaður af stefnanda, sem seljanda. Fullyrðingar stefnda um að umrædd tæki hafi verið notuð sem einhvers konar tækjaskipti eða uppgjör á fyrri samningi stefnda og fyrirtækisins Emirs ehf., er með öllu ósönnuð og ekkert komið fram um það að stefnandi hafi samþykkt þessi viðskipti með þeim hætti sem stefndi heldur fram. Með því verður að fallast á að stefnda hafi borið að greiða stefnanda andvirði tækjanna. Þar sem ekki liggur fyrir að stefndi hafi greitt stefnanda umstefndan reikning verður fallist á kröfu stefnanda, með dráttarvöxtum frá útgáfudegi reikningsins, en stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi fengið greiðslufrest.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 24/2011, frá 14. mars 2011, var fallist á að stefndi ætti almenna kröfu í þrotabú stefnanda, að fjárhæð 17.766.329 krónur. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991, getur stefndi notað þá kröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda, sem fallist er á með dómi þessum að stefndi eigi að greiða stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda, þrotabúi Sturlaugs og co ehf., 13.105.936 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 30.872.265 krónum frá 29. nóvember 2008 til 14. mars 2011, en frá þeim degi af 13.105.936 krónum til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.