Hæstiréttur íslands
Mál nr. 360/2003
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 2004. |
|
Nr. 360/2003. |
Jón Helgi Egilsson (Gunnar Sturluson hrl.) gegn Cell Objects á Íslandi ehf. (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Einkahlutafélög. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
J krafðist þess aðallega í málinu að aðalfundur C ehf. 29. ágúst 2002 yrði ógiltur með dómi en til vara að ógilt yrði stjórnarkjör sem fram fór á fundinum ásamt þeirri ákvörðun að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra. Talið var að í 71. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 fælist heimild til að fá hnekkt tilteknum ákvörðunum hluthafafundar en ekki fundinum í heild og var aðalkröfu hans því vísað frá héraðsdómi. Varakröfu J var einnig vísað frá héraðsdómi þar sem hann taldist ekki hafa sýnt fram á að hann hefði lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. september 2003. Hann krefst þess aðallega, að ógiltur verði aðalfundur stefnda, sem haldinn var 29. ágúst 2002. Til vara krefst hann þess, að ógilt verði kosning nýrrar stjórnar og varamanns, sem fram fór á hluthafafundi í stefnda 29. ágúst 2002 svo og ákvörðun fundarins um að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara að niðurstaða héraðsdóms verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi hluthafi og stjórnarmaður í stefnda, sem stofnað var á árinu 2000. Samkvæmt hluthafasamkomulagi 4. febrúar 2002 átti áfrýjandi 43% af hlutafé í félaginu, bróðir hans, Ágúst Sverrir Egilsson, átti 45% og Íslenskir aðalverktakar hf. 12%. Var áfrýjandi framkvæmdastjóri félagsins og fór með prókúruumboð fyrir það.
Aðalfundur félagsins var haldinn 29. ágúst 2002. Áfrýjandi mætti ekki á fundinn og ekki heldur Ágúst Sverrir, en hann var í símasambandi við fundinn. Mætt var fyrir Íslenska aðalverktaka hf. Áfrýjandi telur fundinn hafa verið ólögmætan sökum þess, að til hans var boðað andstætt 1. mgr. 62. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 12. gr. samþykkta félagsins, fundarstjóri var ekki úr röðum hluthafa andstætt 1. mgr. 65. gr. laganna og 12. gr. samþykktanna, fundarstaður var ekki heimili félagsins andstætt 58. gr. laganna og ekki var mætt af hálfu hluthafa, sem áttu meiri hluta hlutafjárins, sbr. 12. gr. samþykktanna.
Á aðalfundinum 29. ágúst 2002 var ákveðið að fresta samþykkt ársreiknings, þar sem hann var ekki undirritaður, til framhaldsaðalfundar. Í stjórn félagsins voru kosnir Ágúst Sverrir, Hákon Guðbjartsson, áfrýjandi og varamaður Skeggi G. Þormar. Á fundinum var einnig samþykkt, að ekki skyldi ráðið í stöðu framkvæmdastjóra fyrr en búið væri að finna fé til reksturs félagsins og ekki ráða framkvæmdastjóra í fullt starf fyrr en umsvif félagsins krefðust slíks og eigendur ekki fáanlegir til að sinna þeim verkefnum sem þyrfti. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár var eftir það enginn framkvæmdastjóri hjá félaginu og prókúruhafi var Ágúst Sverrir.
Stjórnarfundur var haldinn 18. október 2002, og voru allir stjórnarmenn mættir. Skýrði áfrýjandi meðal annars frá málshöfðun sinni á hendur félaginu, en stefna í málinu var birt 10. október 2002. Framhaldsaðalfundur var síðan haldinn 7. nóvember 2002. Áfrýjandi mætti þar ekki og boðaði ekki forföll, en mætt var fyrir Ágúst Sverri og Íslenska aðalverktaka hf. Áritaðir reikningar félagsins fyrir árið 2001 lágu frammi og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum, það er 57% hlutafjár.
Hákon Guðbjartsson, stjórnarmaður í félaginu, sagði sig úr stjórninni 24. október 2002, og sama gerði Skeggi G. Þormar, varamaður í stjórn, 5. desember 2002.
Ágúst Sverrir fór þess á leit við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 20. febrúar 2003, að það hlutaðist til um að haldinn yrði hluthafafundur og kosin stjórn í félaginu. Var hluthafafundur haldinn 20. september 2003. Mættir voru áfrýjandi og Ágúst Sverrir, en ekki var mætt af hálfu Íslenskra aðalverktaka hf. Samkvæmt tillögu Ágústar Sverris var hann kosinn í stjórn ásamt áfrýjanda og Hilmari Magnússyni og varamaður Ólafur Thors. Var Ágúst Sverrir kosinn formaður stjórnar á stjórnarfundi 6. október 2003, en áfrýjandi mætti ekki á þann fund.
Aðalfundur ársins 2003 var haldinn 21. nóvember 2003. Áfrýjandi mætti ekki og boðaði ekki forföll, en aðrir stjórnarmenn mættu. Ársreikningur 2002 var samþykktur, og stjórnin, sem kosin var á hluthafafundinum 20. september 2003, var endurkjörin.
II.
Aðalkrafa áfrýjanda lýtur að því að ógiltur verði aðalfundur stefnda, sem haldinn var 29. ágúst 2002, og vísar hann um það til 71. gr. laga nr. 138/1994. Í 1. mgr. 71. gr. segir, að hluthafi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri geti höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar, sem hefur verið tekin með ólögmætum hætti eða brýtur í bága við lögin eða samþykktir félagsins. Ákvæði þetta veitir ekki heimild til að ógilda fundinn í heild heldur einungis tilgreindar ákvarðanir, sem teknar eru á fundinum. Verður því aðalkröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi.
Varakrafa áfrýjanda beinist að ákveðnum ákvörðunum, sem teknar voru á aðalfundinum 29. ágúst 2002, annars vegar að kosningu nýrrar stjórnar og hins vegar að þeirri ákvörðun að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra, og krefst hann þess að þessar ákvarðanir verði ógiltar. Stefndi krefst frávísunar þessara krafna. Hann telur, að áfrýjandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um fyrri varakröfuna þar sem ný stjórn hafi verið kosin á hluthafafundi 20. september 2003 og svo á aðalfundi 21. nóvember 2003. Síðari varakröfunni beri einnig að vísa frá dómi, þar sem ákvörðun þess efnis, sem áfrýjandi haldi fram, hafi ekki verið tekin og sé krafan því ódómtæk.
Áfrýjandi telur ótvírætt, að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá kosningu stjórnar ógilta. Bendir hann á því til stuðnings, að svo kunni að fara að skuldbindingar, sem hann hafi gert fyrir hönd stefnda, hvíli á honum persónulega. Vísar hann þar til lánssamnings, sem hann gerði fyrir hönd stefnda við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins 27. nóvember 2002 þar sem sjóðurinn samþykkti að lána stefnda 5.000.000 krónur. Helmingur fjárins var greiddur áfrýjanda 2. desember 2002, en samkvæmt gögnum málsins lítur stjórnarformaður stefnda svo á, að sjóðurinn hafi verið að veita áfrýjanda persónulegt lán og að félagið sé ekki að neinu leiti skuldbundið af þessari lánafyrirgreiðslu. Í fundargerð stjórnarfundar stefnda 6. ágúst 2002 kemur fram, að stjórnarformaðurinn var samþykkur því, að framangreint lán yrði tekið og fól áfrýjanda að ganga frá því. Ekki verður séð, að sú ákvörðun hafi verið dregin til baka, en þegar áfrýjandi skrifaði undir lánssamninginn var hann ekki lengur framkvæmdastjóri félagsins og hafði ekki prókúruumboð fyrir það.
Stjórn stefnda, sem kosin var á aðalfundinum 29. ágúst 2002, sat þar til ný stjórn var löglega kjörin á hluthafafundi 20. september 2003. Beinist varakrafa áfrýjanda þannig að því að fá nú viðurkennt eftir lok starfa fyrrnefndu stjórnarinnar að hana hafi með réttu skort umboð til að ráða málefnum félagsins á því tímabili, svo og að fá hrundið ákvörðun um að framkvæmdastjóri yrði þar ekki við störf eftir 29. ágúst 2002. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um það hvaða ákvörðunum, sem varða aðra en áfrýjanda, kann að hafa verið hrundið í framkvæmd af þessari stjórn. Verður sérstaklega að gæta að þessu þegar metið er hvort áfrýjandi geti enn talist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um varakröfu sína, svo og að því að hann átti sæti í þessari stjórn stefnda og gat þannig látið málefni félagsins til sín taka eins og hann var kjörinn til. Áfrýjandi hefur ekki bent á gerðir stjórnarinnar á umræddu tímabili, sem varðað geta hagsmuni hans sérstaklega, aðrar en þær, sem snúa að áðurnefndri lánveitingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins síðla árs 2002. Hann hefur þó ekki haldið því sérstaklega fram í málinu að staða sín gæti orðið önnur varðandi þau lögskipti með því að varakrafa hans yrði tekin til greina. Þegar þetta er virt verður ekki litið svo á að áfrýjandi geti nú haft lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um varakröfu sína og verður henni því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Samkvæmt framangreindu verður máli þessu vísað í heild frá héraðsdómi. Eftir öllum atvikum er þó rétt að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 12. þ.m. er höfðað með stefnu útgefinni 10. október 2002 og var málið þingfest þann 15. október 2002.
Stefnandi er Jón Helgi Egilsson, kt. 210667-3189, Haukanesi 11, Garðabæ.
Stefndi er Cell Objects á Íslandi ehf., kt. 511000-2620, Haukanesi 11, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær, aðallega, að ógiltur verði aðalfundur stefnda, Cell Objects á Íslandi ehf., sem haldinn var þann 29. ágúst 2002.
Til vara gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur:
1. Að ógilt verði með dómi kosning nýrrar stjórnar og varamanns, sem fram fór á hluthafafundi í Cell Objects á Íslandi ehf., sem haldinn var þann 29. ágúst 2002.
2. Að ógilt verði með dómi ákvörðun hluthafafundar Cell Objects á Íslandi ehf., sem haldinn var þann 29. ágúst 2002, að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra.
Þá er gerð sú krafa, að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins og taki tildæmdur málskostnaðarreikningur mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu eftir mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir:
Eftir því sem segir í stefnu var hið stefnda félag, Cell Objects á Íslandi ehf., stofnað á árinu 2000 af stefnanda, Jóni Helga Egilssyni og Ágústi Sverri Egilssyni.
Með hluthafasamkomulagi, sem dagsett er 4. febrúar 2002, hafi eignarhlutföllum í félaginu verið breytt þannig, að stefnandi átti 43% af hlutafé félagsins, Ágúst Sverrir Egilsson átti 45% og Íslenskir aðalverktakar 12%.
Á hluthafafundi þann 4. febrúar 2002 voru kosnir þeir Ágúst Sverrir Egilsson, stjórnarformaður, stefnandi, Jón Helgi Sverrisson, og Viktor Jens Vigfússon, en í varastjórn Ólafur Thors. Stefnandi var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.
Þann 16. júlí 2002 var haldinn stjórnarfundur í félaginu , þar sem bókað var m.a.:
4. aðalfundur.
Rætt var um boðun aðalfundar. ÁSE spurði um ársskýrslu fyrir 2001. JHE mun senda hana til stjórnar. Samþykkt að boða stjórnarfund eftir viku þar sem ásskýrslan verður tekin fyrir. Á þeim fundi verði jafnframt tekin ákvörðun um aðalfund.
Þann 16. til 17. júlí sendi stjórnarformaður, Ágúst Sverrir Egilsson, út boð um aðalfund félagsins, sem halda skyldi þann 31. júlí 2002 kl. 17.
Í svari stefnanda þann 17. júlí 2002 við þessu fundarboði segir:
„Þykir rétt að Patrick Thomas sé einnig boðaður þar sem hann er hluthafi samkvæmt samþykkt stjórnar þó svo að ekki sé búið að afgreiða þetta með nauðsynlegum breytingum í samþykktum. Einnig þykir mér rétt að VJV sé boðaður á fundinn enda ljóst að hann er hluthafi í ljósi þess vinnuframlags sem hann hefur innt af hendi og loforða sem ÁSE hefur gefið og drögum að samningi sem er nú til meðferðar vegna hans.”
Þann 16. júlí 2002 sendi stjórnarformaður, Ágúst, fundarboð um að aðalfundur
yrði haldinn 31. júlí 2002, kl. 17.00. Í fundarboðinu kom jafnframt fram dagskrá aðalfundar og ráðagerðir um að ná samkomulagi um stjórnarkjör. Í fundarboðinu var því beint til stefnanda og Ólafs Thors, að þeir staðfestu að hafa fengið boðunina. Einnig var stefnandi beðinn að staðfesta, að ekki séu fleiri sem þurfi að boða en þeir þrír. Boðunin var undirrituð:„Kveðja Ágúst”.
Ólafur Thors staðfesti boðun og gerði ekki athugasemdir við hana.
Stefnandi staðfesti móttöku boðunar og gerði grein fyrir því, að hann teldi, að boða ætti einnig þá Patrick Thomas og VJV. Þá minnti hann á, að allar tillögur vegna dagskrár á aðalfundi skuli leggja fram að minnsta kosti viku fyrir fund.
Þann 23. júlí 2002 var haldinn stjórnarfundur þar sem bókað var m.a.:
„4. Aðalfundur
Staðfest að fundurinn verður 31. júlí og væntanlega að Hlíðarsmára 19.
Þetta verður listað nánar til stjórnarmanna og eigenda fljótlega.”
Ólafur Thors kom fyrir dóm og skýrði m.a. svo frá, að hann hafi komið til fundarins að Hlíðarsmára 19 á hinum tiltekna fundartíma, og hafi hann farið inn í það fundarherbergi, sem vaninn var að nota til fundahalda í félaginu, og þar hafi hann beðið. Stefnandi hafi komið þangað um stundarfjórðungi síðar. Vitnið kvaðst hafa stungið upp á því, að hringt yrði í Ágúst Sverri í sérstakan fundasíma, sem þarna sé til staðar. Stefnandi hefði þá sagt honum að hann hefði ekki heimild til að vera þarna og að hann mætti ekki nota símann og þegar vitnið ætlaði að hringja í símann, hafi stefnandi fyrst fært símann frá og síðan tekið hann úr sambandi. Hafi svo farið, að vitnið hringdi úr eigin farsíma í Ágúst og síðan hafi stefnandi talað við Ágúst í síma vitnisins. Að loknu því samtali hafi fundur þessi leyst upp og stefnandi farið.
Stefnandi greindi frá sama atburði þannig, að hann hafi verið staddur í starfsstöð félagsins að Hlíðarsmára 19. Enginn hafi mætt á fundinn nema Ólafur Thors. Stefnandi sagði, að til þess að hægt hefði verið að halda fund, hefði þurft að taka frá fundarherbergi og fá lánuð áhöld til að halda símafund eða fjarfund, en þessi áhöld hefðu ekki verið tengd. Ólafur hefði viljað fá að hringja í Ágúst, en stefnandi hefði bent honum á, að hringja í hann sjálfur úr eigin síma, sem hann hefði gert. Stefnandi hefði sjálfur talað við Ágúst í síma Ólafs og gert honum þá grein fyrir því, að ekki gæti orðið af þessum fundi og hvers vegna.
Þann 6. ágúst 2002 er enn haldinn stjórnarfundur í félaginu, þar sem eftirfarandi er bókað:
„2. aðalfundur.
ÁSE sagði að brýnt sé að boða aðalfund. JHE sagði, að óljóst sé hver núverandi hluthafalisti félagsins er og að hann telji mikilvægt að koma þeim málum á hreint fyrir aðalfund. Meðal annars væri óljóst um sölu Íslenskra aðalverktaka á hlut sínum til ÓT. ÁSE leggur til að JHE boði alla hluthafa og hagsmunaaðila og fundur verði haldinn eftir 2 vikur þ.e. eins fljótt og kostur er. JHE taldi ekki unnt að ganga frá öllum nauðsynlegum málum fyrir þann tíma. Meðal annars þurfi réttur hluthafalisti að liggja fyrir. JHE lagði fram eftirfarandi tillögu: "Stjórn félagsins gefi ÓT kost á því að leggja fram í samræmi við lög um einkahlutafélög meint tilboð frá Íslenskum aðalverktökum." ÁSE lýsti sig andsnúinn tillögunni. VJV sat hjá en tók undir að allar breytingar í hluthafahópi þurfi að liggja fyrir þegar aðalfundur er boðaður. ÁSE lét bóka eftirfarandi: "þetta upphlaup snýst eingöngu um að reyna að koma í veg fyrir að aðalfundur sé haldinn og er þar með ólögmætt athæfi. Stjórn félagsins hefur ekki lengur umboð eigenda til að stjórna félaginu". VJV hvatti til þess að málum varðandi hluthafa yrði komið á hreint og aðalfundur haldinn við fyrsta tækifæri.”
Með símskeyti og tölvupósti, sem sendur var þann 14. ágúst 2002, var boðað til aðalfundar hjá Cell Objects á Íslandi ehf. þann 29. ágúst kl. 13.00, fundarstaður Verkfræðistofan Ferli, Mörkinni 1 (2. hæð til vinstri), Reykjavík. Undir fundarboðið er skráð: f.h. Cell Objects á Íslandi, Ágúst Sverrir Egilsson. Fundarboð þetta ber með sér að hafa verið sent stefnanda, Ólafi Thors, Viktor Vigfússyni og Patrick Thomas.
Eftir að stefnandi fékk fundarboðun þessa, tilkynnti hann Ágústi Sverri, að þar sem fundurinn væri ekki löglega boðaður myndi hann ekki mæta á fundinn.
Aðalfundurinn var haldinn á boðuðum stað og tíma og segir í fundargerðinni, að mættir hafi verið Ágúst Sverrir Egilsson (ÁSE) í gegnum síma, Ólafur Thors (ÓT) ásamt Hilmari Magnússyni hdl. (HM) samkvæmt beiðni ÓT. Þá segir: „Framkvæmdastjórinn Jón Helgi Egilsson (JHE) mætti ekki og boðaði ekki formleg forföll á fundinn. Einnig mættu ekki Viktor Jens Viktorsson (VJV) og Patrick Thomas (PT).”
Síðan segir í fundargerðinni: „ÁSE hringir inn og setur fundinn kl. 13.15. ÁSE tilnefnir HM sem fundarstjóra, sem var samþykkt samhljóða. ÁSE gerði grein fyrir framkvæmd fundarboðunar, sem send var bæði með rafpósti og skeyti til JHE, VJV, PT og ÓT.” Er síðan fundarboðið birt í heild. Er ekki ástæða til að rekja það frekar, enda ekki byggt á því í málinu, að neitt hafi verið við það að athuga.
Þá segir: HM tekur við fundarstjórn, skipar ÓT fundarritara og biður hann að halda fundargerð til undirritunar í lok fundar (send ÁSE með rafbréfi, sem sendir hana síðan til baka undirritaða).
Verður eftir þetta aðeins farið yfir þau atriði í fundargerðinni, sem ágreiningur er um.
Liður 3: Kjör stjórnar, varamanns og endurskoðanda.
Lagður fram listi borinn upp af ÁSE sem samanstendur af eftirfarandi mönnum:
Stjórn.
1. Ágúst Sverrir Egilsson
2. Hákon Guðbjartsson
3. Jón Helgi Egilsson
Varamaður
Skeggi Þormar
Þar sem enginn annar listi er lagður fram, er ofangreindur listi borinn undir atkvæði af fundarstjóra. Listinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum, þ.e. 57%. Þá er Guðlaugur R. Jóhannsson kjörinn endurskoðandi félagsins með öllum greiddum atkvæðum.
Liður 4: Umræður og önnur málefni löglega upp borin.
Eftirfarandi tillaga er borin upp af Ágústi Egilssyni:
Tillaga 4.1: Aðalfundur felur stjórn framkvæmd og nánari útfærslu eftirfarandi stefnumörkunar. Tillaga þessi skal útfærð þannig að allar reglur um rekstur félagsins séu virtar og mótuð áfram með tilliti til íslensks lagaumhverfis. Tillagan er eftirfarandi og er í nokkrum liðum.
a) Framkvæmdastjórn. Ekki skal ráðið í stöðu framkvæmdastjóra fyrr en búið er að finna fjármagn til reksturs félagsins. Þó svo að fjármagn fáist bráðlega skal taka mið af þeim upphæðum sem koma inn og ekki ráða framkvæmdastjóra í fullt starf fyrr en umsvif félagsins krefjast slíks og eigandur eru ekki fáanlegir til að sinna þeim verkefnum sem þarf. Áfram skal leitað að áhugasömum framkvæmdastjóra fyrir félagið.
b) og c) fjalla um stefnumótun félagsins í fjárfestingum og annarri starfsemi þess og verða ekki rakin frekar, enda enginn ágreiningur í málinu um þessi atriði.
Fundarstjóri ber tillögur ÁSE undir atkvæði og þær samþykktar einróma.
Að öðru leyti fjallar fundargerðin um önnur mál en hér eru til umfjöllunar og engar frekari ákvarðanir voru teknar, með eða án atkvæðagreiðslu.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi krefst ógildingar á aðalfundi félagsins sem haldinn var þann 29. ágúst 2002 og til vara ógildingar á því stjórnarkjöri sem fram fór á aðalfundi stefnda svo og þeirri samþykkt fundarins að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra. Byggjast allar þessar kröfur á því að umræddar ákvarðanir hafi verið teknar á ólögmætan hátt, enda brjóti þær í bága við lög, samþykktir félagsins og stjórnarreglur þess.
Eins og fram komi í fundargerð aðalfundarins, hafi Ágúst Sverrir Egilsson staðið einn að boðun hans, en hann ritar einn undir hana og þá í nafni félagsins, en ekki stjórnarinnar.
Fram komi í fundargerð stjórnarfundar þann 6. ágúst 2002, að þá var ágreiningur innan stjórnarinnar um hvenær skyldi halda hluthafafund. Þannig hafi stefnandi og Viktor Jens Vigfússon, sem saman hafi myndað meirihluta stjórnar félagsins, talið að nauðsynlegt væri að fá á hreint, hvernig hlutaskrá félagsins væri fyrir fundinn. Við boðun fundarins hafi Ágúst því farið gegn vilja meirihluta stjórnar félagsins.
Fundarboðun þessi sé í andstöðu við samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar og í andstöðu við 1. mgr. 62. gr. laga um einkahlutafélög, en samkvæmt þessari tilvitnuðu grein skuli félagsstjórn annast boðun til hluthafafunda.
Þar sem þessara reglna hafi ekki verið gætt við boðun aðalfundarins þann 29. ágúst 2002, séu þær ákvarðanir, sem þar voru teknar, ólögmætar og ógildanlegar með dómi.
Lokamálsliður 12. gr. samþykkta félagsins er svohljóðandi: Hluthafafundur kýs fundarstjóra og fundarritara úr hópi hluthafa.
Þrátt fyrir þetta hafi aðalfundurinn kosið Hilmar Magnússon, hdl., sem mættur hafi verið á fundinum sem ráðgjafi Ólafs Thors, sem fundarstjóra. Samkvæmt 56. gr. laga um einkahlutafélög hafi ráðgjafi hvorki málfrelsi, tillögurétt né atkvæðisrétt á hluthafafundum.
Ljóst sé af fundargerð aðalfundarins, að Hilmar Magnússon, hdl., hafi notið þar málfrelsis og að vera hans á fundinum og fundarstjórn hafi haft veruleg áhrif á fundinn og þær ákvarðanir, sem þar hafi verið teknar.
Vegna þessa galla á formi aðalfundarins séu ákvarðanir, sem teknar hafi verið á fundinum, ólögmætar og beri að ógilda þær með dómi.
Samkvæmt 58. gr. laga um einkahlutafélög, skuli halda hluthafafundi á heimili félgs nema félagssamþykktir kveði svo á um, að fund skuli eða megi halda á öðrum stað. Heimilt sé þó að halda aðalfund annars staðar ef slíkt er nauðsynlegt af sérstökum ástæðum.
Þrátt fyrir, að ekki væri heimild fyrir því í samþykktum félagsins að halda hluthafafund annars staðar en á heimili þess, hafi verið boðað til fundarins að Mörkinni 1, Reykjavík og hafi fundurinn þann 29. ágúst 2002 verið haldinn þar, en ekki á skráðu heimili félagsins, eins og lög geri ráð fyrir.
Þá telur stefnandi, að þar sem hluthafafundurinn hafi ekki verið sóttur af meirihluta hlutafjáreigenda í félaginu eða umboðsmönnum þeirra, hafi hann ekki verið lögmætur til að taka þær ákvarðanir, sem þar voru teknar. Í 12. gr. samþykkta félagsins segir, að hluthafafundur sé lögmætur ef hann er löglega boðaður og mættir séu hluthafar, sem ráða helmingi hlutafjár í félaginu að minnsta kosti eða umboðsmenn þeirra.
Ljóst sé, að hvorki stefnandi né Ágúst hafi mætt á fundinum. Hafði stefnandi tilkynnt um fjarveru sína vegna efasemda um lögmæti hans eins og áður hefur komið fram, en Ágúst hafi á fundartíma verið staddur í Bandaríkjunum og hringt inn á fundinn.
Hluthafafundurinn hafi þannig ekki verið sóttur af hluthöfum eða umboðsmönnum nema 12% hlutafjár. Séu ákvarðanir, sem teknar hafi verið á fundinum, ekki lögmætar og beri að ógilda þær með dómi.
Það að hringja inn á hluthafafund geti ekki talist vera mæting á fundinn í skilningi laga um einkahlutafélög. Ef hluthafar geti ekki af einhverjum ástæðum mætt sjálfir á hluthafafund, hafi þeir það lögbundna úrræði að láta umboðsmann sækja hluthafafund fyrir sína hönd., sbr. 56. gr. laga um einkahlutafélög.
Af ákvæðum laganna, 56. og 58. gr., leiði, að fundarmenn verði að vera viðstaddir á fundinum í eigin persónu til þess að geta tekið þátt í fundarstörfum. Rökin séu þau, að með því móti einu sé hægt að fullvissa sig um, að réttir aðilar séu viðstaddir fundinn og einnig, að aðrir aðila séu ekki viðstaddir fundinn en þar eiga rétt á að vera. Þegar hluthafi taki þátt í hluthafafundi í gegnum síma eða með hjálp annars rafræns miðils, geti aðrir hluthafar ekki vitað hver sé á línunni hinum megin og hvort þar séu hugsanlega fleiri aðilar en eingöngu hluthafinn sjálfur, sem fylgist með því sem fram fer. Sé því talið, að fjarfundir félaga sem haldnir séu á internetinu eða í gegnum síma, séu ekki löglegir nema sérstök heimild sé um slíkt í samþykktum félagsins, eða að gerð sé um það sérstök samþykkt allra hluthafa.
Vegna þessa formgalla á hluthafafundinum geri stefnandi þá kröfu, að hluthafafundurinn verði dæmdur ógildur og til vara, að þær ákvarðanir sem þar hafi verið teknar verði dæmdar ógildar.
Málsástæður stefnda:
Stefndi mótmælir því, að stjórn félagsins hafi ekki staðið að boðun aðalfundar þann 29. ágúst 2002, enda beri gögn málsins með sér, að stjórnarformaður hafi unnið í fullu samræmi við ákvörðun stjórnar, um að boða og skipuleggja aðalfundinn. Undirritun stjórnarformanns undir tilkynningu fyrir hönd félagsins valdi fráleitt ógildi aðalfundar, sem stjórn hefur áður fjallað um og samþykkt að halda.
Stefndi bendir á, að aðalfundarboð stjórnarformanns frá 16. júlí 2002 hafi ekki sætt neinum mótmælum frá stefnanda eða öðrum. Fundarboðunin, fundartími og fundarstaður hafi verið staðfestur á stjórnarfundi 23. júlí 2002.
Það hafi ekki verið fyrr en með tölvupósti þann 30. júlí 2002 sem stefnandi frestar stjórnarfundi, sem halda hafi átt þann dag, þar sem Ólafur Thors hafi ekki verið tilbúinn að fallast á erindi stefnanda um óbreytta stjórn á aðalfundi, sem halda skyldi daginn eftir.
Jafnframt telji stefnandi, að eftir stjórnarfund þann 6. ágúst, hafi stjórnarformaður boðað aðalfund í andstöðu við vilja meirihluta stjórnar.Stefndi telur, að á þessum fundi hafi ekkert það gerst til að breyta eða svipta stjórnarformann umboði stjórnar til að boða aðalfund, sem hafði verið frestað 31. júlí að kröfu stefnanda.
Stefndi telur, að sá vafi, sem kunni að leika á um hlutaskrá félagsins hafi ekkert með hald aðalfundar að gera, enda beri að styðjast við þá hlutaskrá, sem lýst er í 19. gr. laga um einkahlutafélög.
Telur stefndi því, að stjórnin hafi tekið ákvörðun um aðalfund og falið stjórnarformanni að sjá um boðun og skipulagningu, allt í samræmi við lög og reglur félagsins.
Þá hafi stjórnarformanni verið nauðugur einn kostur að boða til fundarins til að uppfylla lögákveðnar skyldur skv. 59. gr. laga um einkahlutafélög.
Í öðru lagi byggi stefnandi á því, að fundarstjóri hafi ekki verið úr röðum hluthafa. Stefndi telur þetta formsatriði ekki geta ráðið úrslitum um lögmæti fundarins, en beinlínis sé gert ráð fyrir því að fundarstjóri geti verið annar en hluthafi, nema samþykktir kveði á um annað, skv. 65. gr. laganna.
Í þriðja lagi byggi stefnandi á því, að fundur hafi ekki verið haldinn á heimili félagsins né mætt hafi verið fyrir hluthafa, sem ráði helmingi hlutafjár í félaginu hið minnsta.
Skráð lögheimili stefnda er Haukanes 11, Garðabæ, en þar hafi aldrei verið haldnir fundir í félaginu og fundaraðstaða aldrei staðið til boða þar.
Þá kom í ljós, þegar halda skyldi aðalfund þann 31. júlí 2002, að starfsstöð stefnda að Hlíðarsmára 19, Kópavogi, stóð ekki til boða til fundahaldsins. Voru því uppi sérstakar aðstæður í skilningi 58. gr. ehfl. til að halda fundinn annars staðar.
Stefndi telur, að fullnægt hafi verið ákvæði 12. gr. samþykkta félagsins, en þar segir, að hluthafafundur sé lögmætur ef mættir eru hluthafar sem ráða helmingi hlutafjár í félaginu að minnsta kosti eða umboðsmenn þeirra.
Stjórnarformaður hafi tekið þátt í fundarstörfum í síma, eins og tíðkast í félaginu varðandi stjórnarfundi, en hann er búsettur erlendis. Hafi öllum hluthöfum verið ljóst hvernig þátttöku hans á fundi yrði háttað. Mótmælum hafi hvorki verið hreyft við þessa aðferð þegar aðalfund skyldi halda 31. júlí né á aðalfundi 29. ágúst. Sé þessi aðferð viðhöfð og viðurkennd í einkahlutafélögum, þegar um er að ræða dreifða eignaraðild og fundarmenn eru oft og tíðum erlendis.
Stefndi telur rétt að geta þess, að stjórnarformaður hafði veitt Ólafi Thors umboð á umræddum fundi, hefði komið fram athugasemdir um þetta atriði, en ekki hafi reynst þörf á að nota það þegar til kom, þar sem engar athugasemdir komu fram á fundinum.
Í lögum sé ekki kveðið á um bann við því að taka þátt í fundi gegnum síma, svo framarlega sem viðkomandi eigi þess kost að taka þátt í fundarstörfum með raunverulegum hætti eins og hér hafi háttað til. Þyrftu lögin að kveða á um það með skýrum og afdráttarlausum hætti ef banna ætti þátttöku í fundum með þeim hætti sem viðhafður var.
Þá hafi fundargerð að loknum fundi verið send stjórnarformanni til undirritunar og samþykktar á því sem fram fór á fundi, en með því hafi verið tryggt að ekkert hefði farið fram á fundinum sem fundarmenn teldu sig ekki hafa tekið þátt í.
Þá bendir stefndi á að skv. 2. gr. í starfsreglum stjórnar sé beinlínis gert ráð fyrir að stjórnarfundi sé hægt að halda, halda atkvæðagreiðslu og taka stjórnarákvarðanir með símafundi eða í rafpósti milli aðila meðal stjórnarmanna svo sem alvanalegt hafi verið hjá stefnda. Var þessi aðferð við fundi því viðtekin venja hjá stefnda vegna búsetu stjórnarformanns erlendis.
Þá bendir stefndi á það, að Hlutafélagaskrá hafi enga athugasemd gert við framkvæmd aðalfundar og framkvæmt skráningu í samræmi við þær ákvarðanir, sem þar voru teknar.
Varðandi varakröfur stefnanda, telur stefndi, með sömu rökum og færð eru hér að framan, að sýkna beri stefnda. 2. töluliður varakröfunnar eigi ekki við rök að styðjast, en á aðalfundi hefði engin ákvörðun verið tekin um að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra. Skv. dagskrárlið 4 hafi verið um að ræða tillögu stjórnarformanns til stjórnar um að ráða ekki framkvæmdastjóra, en slíkt sé á valdi stjórnar. Samþykkt tillögunnar hafi þannig ekki falið í sér sjálfstæða ákvörðun um að ráða ekki framkvæmdastjóra. Þá beri að geta þess, að starfssamningur stefnanda við stefnda sem framkvæmdastjóra sé útrunninn.
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 138/1994 skal halda aðalfund í einkahlutafélagi eftir því sem félagssamþykktir ákveða, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári og aldrei síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs. Í 11. gr. samþykkta stefnda segir, að aðalfundur skuli haldinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Í 12. gr. samþykktanna segir, að félagsstjórn skuli boða til hluthafafunda. Í 1. mgr. 62. gr. laganna segir, að hafi félag ekki stjórn, eða félagsstjórn láti hjá líða að boða til hluthafafundar, sem halda skal samkvæmt lögum, félagssamþykktum skal ráðherra láta boða til fundarins .
Ekki hefur verið gerð nein athugasemd, í málinu eða annars, við boðun aðalfundar félagsins þann 31. júlí 2002, en af þeim fundi varð ekki, að því er virðist vegna andstöðu stefnanda við fundahaldið.
Dagsetning þess fundar var á
síðasta degi, sem fundurinn hefði getað haldist innan þeirra tímamarka, sem
getið er í 59. gr ehfl. og 11. gr. samþykkta félagsins.
Að fundahaldið dróst fram yfir þetta tímamark, leysti stjórn félagsins ekki
undan þeirri skyldu að halda fundinn. Til þess að boða fundinn að nýju þurfti
stjórnarformaður ekki nýtt umboð stjórnarinnar, heldur bar honum að fullnægja
þeirri skyldu stjórnarinnar að boða til aðalfundarins.
Eins og málum var komið gat stjórnin ekki leyst sig undan þeirri skyldu að halda aðalfundinn með stjórnarsamþykkt.
Ekki hafa verið hafðar uppi aðrar málsástæður varðandi boðun aðalfundarins 29. ágúst 2002 en þær, að formanni hafi verið óheimilt vegna skorts á umboði stjórnar að boða fundinn.
Verður að hafna þeirri kröfu stefnanda, að aðalfundurinn verði ógiltur af þessari ástæðu.
Þá hefur þess verið krafist, að fundurinn verði ógiltur vegna þess, að ekki hafi verið mættur á fundinn tilskilinn meirihluti hluthafa.
Í raun snýst deilan aðeins um það, hvort teljist löglegt, að hluthafar mæti á fundinum í síma. Á fundinum voru, eftir því sem fram kemur í fundargerð, þeir Ólafur Thors og Ásgeir Sverrir Egilsson, formaður stjórnar. Óumdeilt er, að Ólafur var mættur á auglýstum fundarstað með umboð frá eigendum 12% hlutafjár. Ásgeir Sverrir var mættur í síma sem hluthafi, en hann er skráður fyrir 45% hlutafjár.
Ekki er að finna, hvorki í lögum né samþykktum félagsins, neitt um það, hvort heimilt sé að halda hluthafafundi þannig, að hluti fundarmanna sé viðstaddur í gegnum síma. Í starfsreglum stjórnar félagsins segir: „Hægt er að halda stjórnarfundi, halda atkvæðagreiðslu og taka stjórnarákvarðanir með símafundi eða rafpósti milli aðila meðal stjórnarmanna. Ákvarðanir sem þannig eru teknar skulu lagðar fyrir næsta stjórnarfund til staðfestingar sem fundargerð til undirritunar.”
Fram hefur komið, að fjöldi stjórnarfunda hafa verið haldnir með þessu móti í félaginu.
Eins og fram kemur í stefnu eru helstu rök stefnanda fyrir þessari mótbáru gegn gildi þess að taka þátt í hluthafafundinum í síma, þau, að með því einu, að fundarmenn séu viðstaddir sjálfir á fundarstað, sé hægt að fullvissa sig um að réttir aðilar séu viðstaddir fundinn og einnig að ekki séu aðrir aðilar viðstaddir fundinn en þar hafa rétt til að vera.
Hið stefnda félag, Cell Objects á Íslandi ehf., er einkahlutafélag og hluthafar einungis þrír. Á hluthafafundi er þess ekki að vænta, að fleiri séu mættir en á stjórnarfundi og þá einnig sömu menn og á stjórnarfundi. Þarf ekki að leika á því minnsti grunur, að fundarmönnum á boðuðum fundarstað 29. ágúst 2002, hafi ekki verið kunnugt um það, að Ásgeir Sverrir Egilsson, stjórnarformaður félagsins, var í símasambandi við fundinn.
Eftir fundinn var Ásgeiri Sverri Egilssyni send fundargerð hins umdeilda fundar og staðfesti hann hana með undirskrift sinni.
Við upphaf fundarins var lagt fram boðsbréf til fundarins. Eftir að fundarstjóri hafði verið tilnefndur, kannaði hann þá einu hluthafaskrá, sem þekkt er í félaginu, enda var framkvæmdastjóri félagsins, stefnandi, ekki mættur og hluthafaskrá, sem var í hans vörslu lá ekki fyrir á fundinum. Fram kom í þessari könnun, að Ágúst Sverrir Egilsson er skráður fyrir 45% hlut, Jón Helgi Egilsson 43% hlut og Íslenskir aðalverktakar hf. 12% hlut. Jafnframt var lagt fram umboð ÍAV til handa Ólafi Thors.
Eftirfarandi bókun er að finna í fundargerðinni: „HM gengur úr skugga um að fundurinn sé löglegur og bókar að mættir séu ÁSE, 45% og ÓT vegna ÍAV 12%. Samanlagt fulltrúar fyrir 57% hlut. Með vísun í 12. gr. samþykkta félagsins þar sem fulltrúar yfir helmings hluta eru mættir ásamt löglegri fundarboðun lýsir fundarstjórinn þennan aðalfund CO löglegan.”
Engin andmæli komu fram á fundinum við þessari bókun.
Með vísan til þess, að ekki er að finna í lögum eða samþykktum félagsins bann við því, að hluthafafundir séu haldnir með þeim hættti sem gert var, og hins, að sérstök heimild er til þess í samþykktum stefnda, að halda stjórnarfundi í síma, og þessi heimild hefur almennt verið notuð, þar sem einn stjórnarmanna er búsettur erlendis, og þess, að á aðalfundinum 29. ágúst 2002, var sérstaklega tekin afstaða til þess, án andmæla, að Ágúst Sverrir Egilsson væri mættur á fundinum í síma, verður ekki fallist á kröfu stefnanda um að fundurinn í heild verði ógiltur af þeim sökum.
Stefnandi hefur byggt kröfu sína um ógildingu fundarins á því, að hinn umdeildi fundur hafi ekki verið haldinn á heimili stefnda, sem í hlutafélagaskrá er talið vera Haukanes 11, Garðabæ.
Í 58. gr. laga nr. 138/1994 segir, að hluthafafundi skuli halda á heimili félags nema félagssamþykktir kveði svo á að fund skuli eða megi halda á öðrum stað. Heimilt sé að halda hluthafafund annars staðar ef slíkt sé nauðsynlegt af sérstökum ástæðum.
Í ljósi þess, að skráð lögheimili stefnda er hið sama og lögheimili stefnanda og hins, hvernig til tókst með að halda aðalfund þann, sem boðaður hafði verið í félaginu þann 31. júlí 2002 á starfsstöð félagsins að Hlíðarsmára 19, Kópavogi, verður að fallast á það með stefnda, að þær sérstöku ástæður hafi gert nauðsynlegt að halda fundinn annars staðar.
Loks hefur stefnandi byggt kröfu um ógildingu fundarins á því, að fundarstjóri á hinum umdeilda fundi hafi ekki komið úr röðum hluthafa í félaginu.
Í fundargerð segir: „ÁSE hringir inn og setur fundinn kl. 13:15. ÁSE tilnefndi HM sem fundarstjóra, sem var samþykkt samhljóða.”
Í 65. gr. laga nr. 138/1994 segir: „Hluthafafundi stýrir fundarstjóri. Fundurinn kýs fundarstjóra úr hópi hluthafa eða annarra nema félagssamþykktir kveði á um annað.”
Í niðurlagsákvæði 12. gr. samþykkta fyrir Cell Objects ehf. segir „Hluthafafundur kýs fundarstjóra og fundarritara úr hópi hluthafa.”
Á umræddum fundi voru aðstæður þær, að aðeins tveir hluthafar voru mættir, annar þeirra var fundarritari en hinn var mættur á fundinum í síma. Þó að umdeilanlegt kunni að vera, hvort ákvæðið í samþykktum félagsins kveði á um annað en það, sem boðið er í 65. gr. ehfl. verður að telja, að það frávik, sé ekki svo alvarlegt, að varði ógildingu fundarins í heild.
Stefnandi hefur gert þær varakröfur, 1. að ógilt verði með dómi kosning nýrrar stjórnar og varamanns sem fram fór á hluthafafundi í Cell Objects á Íslandi ehf., sem haldinn var þann 29. ágúst 2002, og 2. að ógilt verði með dómi ákvörðun sama hluthafafundar Cell Objects á Íslandi ehf. að ráða ekki í stöðu framkvæmdastjóra.
Varakröfur sínar hefur stefnandi rökstutt með því, að ákvarðanir þessar hafi verið teknar á ólögmætan hátt, enda brjóti þær í bága við bæði lög og samþykktir félagsins og stjórnarreglur þess. Stefnandi rökstyður varakröfurnar að öðru leyti ekki með öðrum hætt en því, sem lýtur að lögmæti fundarins í heild.
Þar sem niðurstaða dómsins er, að ekki beri að ógilda aðalfundinn í heild sinni, leiðir af því, að stjórnarkjör, sem fram fór á fundinum, verður ekki ógilt af þeim sökum.
Eins og að ofan greinir var á hinum umdeilda aðalafundi borin upp og samþykkt tillaga Ágústar Egilssonar, þar sem „aðalfundur felur stjórn framkvæmd og nánari útfærslu eftirfarandi stefnumörkunar”. Ekki verður af þessari samþykktu tillögu ráðið, hvort tekin hafi verið ákvörðun þess efnis, sem fram kemur í varakröfu stefnanda.
Stefnandi hefur ekki fært önnur rök fyrir kröfu sinni um ógildingu ákvörðunar þessarar en að aðalfundurinn í heild sé ógildur. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að svo hafi verið verður þessari varakröfu hafnað.
Með vísan til ofanskráðs verður því að sýkna stefnda, Cell Objects á Íslandi ehf. af öllum kröfum stefnda, Jóns Helga Egilssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.
Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefnda, Cell Objects á Íslandi ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jóns Helga Egilssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.