Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2002


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. október 2002.

Nr. 202/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Davíð Garðarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Ítrekun.

D játaði að hafa keypt 99,86 g af kókaíni í Amsterdam og afhent þau meðákærðu M sem flutti efnið síðan til Íslands. Ósannað var gegn eindreginni neitun D að hann hafi framið brot sitt í ágóðaskyni og var hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Var talið að sá verknaður D að kaupa efnið og afhenda það M, sem hann vissi að myndi flytja þau til landsins, hafi verið mikilvægur þáttur í innflutningi efnanna. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um tíu mánaða fangelsisvist D staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og komi til fangelsisrefsingar verði hún skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta.

Ákærði tók að sér að kaupa 99,86 g af kókaíni í Amsterdam og afhenda þau meðákærðu, sem hann vissi að myndi flytja þau til landsins. Var þessi verknaður hans mikilvægur þáttur í innflutningi efnanna. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest.

 Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 13. nóvember 2001 á hendur:

,,Tryggva Lárussyni, kt. 150379-4909,

Ásbúð 26, Garðabæ,

Davíð Garðarssyni, kt. 190869-5399,

Ferjubakka 2, Reykjavík,

Moniku Emilsdóttur, kt. 200580-4439,

með lögheimili í Danmörku, og

Páli Magnússyni, kt. 100779-3669,

Kleppsvegi 134, Reykjavík,

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ágóðaskyni staðið sameiginlega að innflutningi á 99,86 g af kókaíni hingað til lands, mánudaginn 20. nóvember 2000, svo sem hér er rakið:

I.  Ákærði Tryggvi

Skipulagt og fjármagnað kaup á kókaíninu í Amsterdam í því skyni að selja það hérlendis, en ákærði fékk meðákærða Davíð til að fara með fé til Amsterdam sem renna skyldi til kaupanna, sbr. II. lið, og að hafa undirbúið flutning kókaínsins hingað til lands, en ákærði lagði á ráðin um för meðákærðu Móniku og Páls til Danmerkur og Hollands, sbr. III. og IV. lið, og skipulagði fund meðákærðu Móniku og Davíðs, sbr. II. lið. 

II.  Ákærði Davíð

Fest kaup á kókaíninu í Amsterdam að ráði meðákærða Tryggva, sbr. I. lið, og laugardaginn 18. nóvember 2000 afhent meðákærðu Móniku kókaínið þar í borginni í þeim tilgangi að flytja það til Íslands, sbr. III. lið.

III.  Ákærða Mónika

Lagt á ráðin um innflutning á kókaíni til landsins, sbr. I. lið, laugardaginn 18. nóvember 2000 tekið við kókaíninu í Amsterdam af meðákærða Davíð, sbr. II. lið, flutt kókaínið til Danmerkur og afhent meðákærða Páli hluta af kókaíninu, sbr. IV. lið, og flutt 53,31 g af kókaíninu hingað til lands frá Kaupmannahöfn, falið í líkama sínum, en ákærða var handtekin við komu til Keflavíkurflugvallar.

IV.  Ákærði Páll

Lagt á ráðin um innflutning á kókaíni til landsins, sbr. I. lið, tekið við kókaíni af meðákærðu Móniku, sbr. III. lið, og flutt 46,55 g af kókaíninu hingað til lands frá Kaupmannahöfn, falið í líkama sínum, en ákærði var handtekinn við komu til Keflavíkurflugvallar.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 490, 2001, sbr. auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefnis nr. 232, 2001, sbr. áður 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986 og auglýsingu nr. 314, 1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar. 

Þess er jafnframt krafist að ofangreind 99,86 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. áður 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.”

Verjandi ákærða Tryggva krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin.  Komi til óskilorðsbundinnar refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar með fullri dagatölu.  Þess er krafist að allur sakarkostnaður þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins verði greidd úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Davíðs krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar dæmdri refsivist ef dæmd verður.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Verjandi ákærðu Moniku krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að hluta eða að öllu leyti.  Krafist er málsvarnar- og réttargæslulauna að mati dómsins.

Verjandi ákærða Páls krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar refsivist ef dæmd verður.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 20. nóvember 2000 bárust lögreglu fyrstu upplýsingar 17. s.m. um fyrirhugaðan fíkniefnainnflutning ákærðu Moniku og Páls. Einnig kom fljótlega fram að ákærði Tryggvi tengdist málinu.  Leiddu þessar upplýsingar og rannsókn málsins til handtöku Moniku og Páls við komu til landsins 18. nóvember 2000 og reyndust þau hafa fíkniefni falin innvortis eins og lýst er í ákærunni.  Öll ákærðu voru úrskurðuð í gæsluvarðhald undir rannsókn málsins og játuðu öll aðild sína að því.

Niðurstaða þessa máls ræðst fyrst og fremst af framburði ákærðu, en þau hafa að mestu leyti játað sök.  Önnur rannsóknargögn en skýrslur ákærðu varpa ekki ljósi á ætlaðan hlut hvers og eins þeirra nema að takmörkuðu leyti, en meðal annars var beitt símhlustun, sem ekki varpaði ljósi á málið.  Af þessum sökum er framburður hvers og eins hinna ákærðu fyrir dómi rakinn ítarlega.

I.  Ákærði Tryggvi játar sök utan að hann neitar að hafa skipulagt og fjármagnað kókaínkaupin í Amsterdam í því skyni að selja hérlendis.  Hann neitaði því einnig að hafa fengið aðra til að taka þátt í innflutningnum eins og ákært er fyrir. 

Ákærði Tryggvi kvað meðákærðu Moniku hafa komið að máli við sig og beðið sig um að taka þátt í fíkniefnainnflutningi með henni.  Tryggvi kvaðst hafa ákveðið að nýta sér fyrirhugaða utanferð hennar og að flytja til landsins fíkniefni til eigin nota.  Ákærði neitaði því að hafa skipulagt innflutninginn og neitaði einnig að hafa fjármagnað annað en sín fíkniefnakaup og að hafa lagt pening í púkkið eins og aðrir.  Hann kvaðst hafa ætlað efnið sem í hans hlut kæmi til eigin nota og ekki hafa haft hug á því að selja það.  Hjá lögreglunni greindi ákærði svo frá að ákveðið hefði verið að kaupa kókaín í stað amfetamíns vegna þess að þá yrði hagnaðurinn meiri.  Fyrir dómi kvað hann þennan framburð sinn rangan. Ákærði neitaði því að hafa fengið meðákærða Davíðs til einhvers.  Hann kvaðst hafa afhent honum 130.000 krónur, sem var hans framlag til fíkniefnakaupanna og hefði Davíð greint ákærða frá því að hann fengi í sinn hlut um 25 g af kókaíni fyrir þetta fé.  Ákærði kvað hafa verið fyrirhugað að skipta fíkniefnunum jafnt á milli ákærðu.  Ákærði kvað Davíð áður hafa komið að máli við sig og fært í tal svipaða hugmynd og Monika gerði og lýst var að framan varðandi innflutning fíkniefna.  Hann kvað meðákærðu Moniku og Pál hafa undirbúið sína utanför sjálf.  Hann hefði ekki komið þar nærri.  Ákærði kvaðst hafa verið tengiliður milli Moniku og Davíðs ytra en ekki hafa skipulagt fund þeirra þar.  Hann kvað Davíð hafa hringt í sig og gefið sér upp símanúmer sitt ytra.  Ákærði kvaðst síðan hafa hringt í Moniku og greint henni frá þessu símanúmeri.  Samkvæmt þessu kvaðst ákærði telja að Monika og Davíð hefðu átt frumkvæðið að fíkniefnainnflutningnum, en ekki ákærði. 

Tekin var skýrsla af ákærða Tryggva fyrir dómi 1. desember 2000 og þá staðfesti hann lögregluskýrslu frá 29. nóvember 2000.  Í þeirri skýrslu og fyrir dóminum lýsti hann því er Monika kom að máli við hann og bað hann um aðstoð við fíkniefnainnflutning.  Ákærði kvaðst þá hafa haft samband við Davíð, sem hefði getað útvegað fíkniefni ytra.

II.  Ákærði Davíð játar að hafa keypt kókaínið í Amsterdam að ráði meðákærða Tryggva og að hafa afhent meðákærðu Moniku efnið þar 18. nóvember 2001.  Efnið kvaðst ákærði hafa keypt, þ.e. 100 g fyrir Tryggva og samkvæmt hans beiðni.  Tryggvi hefði átt frumkvæðið að fíkniefnainnflutningnum.  Ákærði kvaðst hafa tekið þetta að sér eftir að í ljós kom að fólk var farið út sem fyrirhugað var að myndi hitta ákærða ytra.  Hann kvaðst hafa verið á leið í skemmti- og viðskiptaferð til Amsterdam og látið til leiðast að beiðni Tryggva að kaupa efnið og afhenda það ytra.  Hann kvaðst ekki hafa átt neinn hlut í efninu.  Tryggvi hafði milligöngu um að Monika hringdi í ákærða í Amsterdam og þau mæltu sér mót þar og ákærði afhenti henni efnið, sem var innpakkað í tveimur litlum pökkum.  Ákærði kvaðst hvorki þekkja Moniku né Pál. Þar sem ákærði keypti efnið ytra fyrir Tryggva kvaðst hann þar með hafa vitað að efnið var ætlað til flutnings hingað til lands, þótt hann minntist þess ekki að sér hafi verið greint frá því.  Ákærði kvað sér hafa staðið til boða að bæta allt að 100 g af fíkniefnum í pakkann, sem ákærði gerði ekki.  Hann kvaðst ekki hafa fengið neitt í sinn hlut og ekki ætlað sér að taka neitt fyrir sinn hlut. Þetta hefði hann ákveðið áður en hann hélt í ferðina út.  Efnið keypti ákærði fyrir peninga sem hann fékk hjá Tryggva sem afhenti honum um 140.000 krónur og afganginn í erlendum gjaldeyri. Þannig kvaðst ákærði hafa haft um 7.500 hollensk gyllini til ráðstöfunar og greitt 6.500 gyllini fyrir fíkniefnin. Allir peningarnir voru frá  Tryggva. 

Ákærði Davíð gaf skýrslu fyrir dómi 4. desember 2000.  Þá lýsti hann sínum hlut efnislega á sama veg.  Hann kvað Tryggva hafa beðið sig um að kaupa fíkniefnið ytra sem hann kvaðst hafa gert.  Tryggvi hefði greint honum frá því að hann hefði manneskju til að taka við efnunum ytra, sem varð úr, en ákærði keypti 100 g af kókaíni, sem hann afhenti Moniku í Amsterdam.  Efnið keypti ákærði fyrir peninga sem hann fékk hjá Tryggva og lýsti hann fjárhæðum á sama veg og hann gerði fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins og greint var frá hér að framan.

III.  Ákærða Monika játar sök.  Hún kvað meðákærða Tryggva hafa komið að máli við sig og spurt hvort hún vissi um einhvern sem gæti flutt fíkniefni frá Amsterdam hingað til lands.  Hún kvaðst hafa hugleitt þetta, en ekki dottið neinn í hug og kvaðst hún þá hafa tekið þetta að sér ásamt meðákærða Páli.  Þessi undirbúningur átti sér stað um 1 til 1 ½ mánuði fyrir utanför þeirra.  Hún kvaðst hafa greitt sinn farmiða, en um það var samið að þau Páll fengju u.þ.b. tvöfaldan ferðakostnað greiddan tækist innflutningurinn.  Fyrir utanförina kvaðst hún hafa fengið í hendur skipulag frá Tryggva, sem þau Páll áttu að fylgja.  Hún kvað Tryggva hafa skipulagt fund hennar og Davíðs ytra, en hún kvaðst aldrei hafa séð hann áður og ekki hafa vitað nafn hans þá.  Davíð afhenti henni fíkniefnin ytra eins og lýst er í ákærunni, en hún fékk efnið innpakkað í tveimur pakkningum.  Hún kvað þau lítið hafa rætt saman, en hún hafi þó fengið upplýsingar um efnismagnið sem var 100 grömm.  Efnið flutti hún til Danmerkur og afhenti síðar Páli hluta efnisins til flutnings hingað til lands allt eins og í ákærunni greinir.  Hún lýsti fyrirfram ákveðnu skipulagi varðandi afhendingu efnisins hér á landi.  Eins og áður var lýst var ákærða handtekin við komuna til landsins með fíkniefni innvortis.

IV.  Ákærði Páll játar að hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna eins og lýst er í ákærunni, utan að hann neitar því að hafa tekið þátt í þessu með meðákærða Davíð, sem hann kvaðst ekki þekkja.  Ákærði kvaðst hafa farið utan ásamt Moniku til að sækja efnin og flytja hingað til lands, en Tryggvi hefði beðið Moniku um þetta.  Þau fóru saman til Danmerkur. Monika fór síðan til Amsterdam og sótti efnið. Ákærði kvaðst hafa beðið í  Kaupmannahöfn á meðan.  Hann kvaðst hafa rætt lítillega við Tryggva um ferðina, en samið hefði verið um það að þau Monika fengju ferðina greidda og um 100.000 krónur hvort að auki.  Hann kvaðst ekkert hafa átt af efnunum.  Hann kvaðst hafa tekið við þeim hluta efnisins sem lýst er í ákærunni til flutnings hingað til lands, en verið handtekinn við komuna til landsins.

Tekin var skýrsla af Páli fyrir dómi 28. nóvember 2000, þar sem hann staðfesti lögregluskýrslu frá 27. sama mánaðar. Þar greindi hann svo frá, að Tryggvi hefði beðið þau Moniku um að fara í þessa ferð.

Niðurstaða

Lyfjafræðistofnun rannsakaði sýni af efninu sem flutt var til landsins.  Samkvæmt matsgerð dags. 30. nóvember 2000 reyndust sýnin innihalda 38% kókaín, sem samsvarar 43% kókaínflóríði.

Ákærðu er gefið að sök að hafa í ágóðaskyni staðið sameiginlega að innflutningi efnisins.  Ákærðu komu hvert með sínum hætti að málinu. Eins og samráði og verkaskiptingu ákærðu var háttað telur dómurinn sannað að þau hafi staðið sameiginlega að fíkniefnainnflutningnum eins og lýst er í ákærunni.

Ákærðu Monika og Páll lýstu greiðslum sem þau áttu að fá fyrir sinn hlut í málinu.  Er því sannað með skýlausri játningu þeirra beggja að þau frömdu brot sitt í ágóðaskyni. 

Ákærði Tryggvi kvað efnið hafa verið ætlað til eigin nota.  Hann lýsti því í lögregluskýrslu að ákveðið hefði verið að kaupa kókaín í stað amfetamíns vegna þess að þá yrði hagnaðurinn meiri.  Hann féll frá þessum framburði fyrir dómi.  Ákærðu Monika og Páll lýstu því bæði að þau hefðu samið um peningagreiðslu frá Tryggva fyrir sinn hlut í málinu.  Öll ákærðu, fyrir utan ákærða Tryggva, hafa borið að hann hafi verið eigandi efnisins. Þegar allt ofanritað er virt og efnismagnið einnig telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða Tryggva að hann hafi staðið að innflutningnum í ágóðaskyni. 

Ósannað er gegn eindreginni neitun ákærða Davíðs að hann hafi framið brot sitt í ágóðaskyni og er hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

I

Með játningu ákærða Tryggva, sem fær stuðning í öðrum gögnum málsins, er sannað að hann fjármagnaði kaupin á kókaíninu eins og ákært er fyrir.  Ákærði bar fyrir dómi 1. desember 2000, er hann staðfesti lögregluskýrslu eins og rakið var, að hann hefði haft samband við ákærða Davíð, sem hefði getað útvegað fíkniefni ytra.  Þá lýsti ákærði hlut sínum í því að koma á fundi ákærðu Davíðs og Moniku í Amsterdam.  Ákærðu Monika og Páll hafa bæði borið að þau hafi farið ferðina fyrir ákærða Tryggva.

Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða Tryggva, að hann hafi skipulagt og fjármagnað kókaínkaupin í Amsterdam eins og hann er ákærður fyrir.  Á sama hátt er sannað, gegn neitun ákærða Tryggva, að hann hafi lagt á ráðin um för ákærðu Moniku og Páls og skipulagt fund ákærðu Moniku og Davíðs, allt eins og lýst er í þessum ákærulið.

II – IV

Sannað er með skýlausri játningu hvers og eins hinna ákærðu um sig fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hvert og eitt þessara ákærðu hafi gerst sek um þá háttsemi sem lýst er í þeim ákærulið sem að viðkomandi snýr.

Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Hvorki ákærða Monika né ákærði Páll hafa áður sætt refsingu.  Ákærði Tryggvi gekkst undir lögreglustjórasátt fyrir umferðarlagabrot á síðasta ári. 

Ákærði Davíð á að baki langan sakaferil.  Frá árinu 1985 hefur hann hlotið 14 refsidóma, þar af er einn dómur Hæstaréttar og dómur frá Þýskalandi.  Hann hefur hlotið dóma fyrir nytjastuld, umferðarlagabrot, þjófnað, skjalafals og fjársvik og fyrir fíkniefnabrot.  Auk þess hefur ákærði Davíð gengist undir dómsáttir og lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot og líkamsárás.  Tveir síðustu dómarnir eru annars vegar þýskur dómur frá 21. janúar 2000, fangelsi í 2 ár og 10 mánuði fyrir fíkniefnabrot og hegningarlagabrot, og hins vegar sektardómur fyrir umferðarlagabrot 29. maí 2000.  Samkvæmt 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, skulu ítrekuð brot gegn lögunum varða aukinni refsingu, enda sé um að ræða innflutning eða dreifingu efna sem lögin taka til.  Dómurinn sem ákærði hlaut í Þýskalandi 21. janúar hefur ítrekunaráhrif hér á landi, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, þar sem ákærði Davíð á nú þátt í broti sem varðar innflutning fíkniefna til landsins.  Refsing ákærða Davíðs er því ákvörðuð með hliðsjón af 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, auk þess sem höfð er hliðsjón af sakaferli hans að öðru leyti og þeim sjónarmiðum sem síðar verða rakin.

Ákærðu sammæltust um framningu brotsins og er það virt þeim til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærðu, Monika og Páll voru handtekinn með fíkniefnin í fórum sínum og játuðu brot sín. Ákærði Tryggvi hefur að mestu leyti játað brot sitt. Ákærði Davíð játaði brot sitt hreinskinislega. Játnig ákærðu er virt þeim til refsilækkunar.  Nokkur tími er liðinn frá því að ákærðu frömdu brot sín. 

Eins og rakið var stóðu ákærðu í sameiningu að innflutningi fíkniefnisins. Þó verkaskipting hafi verið eins og lýst er í ákærunni ber hvert og eitt þeirra fulla refsiábyrgð. Með vísan til sakaferils ákærða Davíðs og virtum refsilækkunarástæðum sem raktar voru þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði. Refsing ákærðu Tryggva, Moniku og Páls þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði. 

Sakaferill ákærða Davíðs útilokar skilorðsbindingu.  Eins og broti ákærða Tryggva er háttað þykir skilorðsbinding refsingarinnar ekki koma til álita. 

Ákærðu Monika og Páll voru 20 og 21 árs gömul er þau frömdu brot sín, en síðan er liðið tæpt 1 ½ ár og aðstæður þeirra eru nú mjög breyttar.  Ákærða Monika er nú búsett í Danmörku, þar sem hún stundar nám þar sem henni gengur vel.  Ákærði Páll er í sambúð með konu og barn.  Hann stundar nú nám á lokaári í iðnskóla.  Dómurinn telur hvorki almenn né sérstök varnaðaráhrif  refsingar skerðast þótt hluti refsivistar þessara tveggja ákærðu verði skilorðsbundinn, enda hefur hvorugt þeirra sætt refsingu áður.

Þegar tíminn frá brotunum og hinar breyttu aðstæður ákærðu Moniku og Páls eru virtar og með vísan til þeirra sjónarmiða sem að ofan voru rakin, þykir rétt að fresta fullnustu 5 mánaða af refsivist hvors þeirra um sig skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi hvort um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Frá refsivist allra ákærðu skal draga gæsluvarðhald hvers þeirra um sig með fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Upptæk eru dæmd 99,86 g af kókaíni, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

Ákærði Tryggvi greiði 21.000 krónur málsvarnarlauna til Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns og 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Gísla Gíslasonar héraðsdómslögmanns, sem tók við verjandastarfanum eftir að Róbert Árni var leystur frá honum að ósk ákærða Tryggva.

Ákærði Davíð greiði 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Karls G. Sigurbjörnssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Monika greiði 100.000 krónur í málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, en hluti þeirrar fjárhæðar er vegna vinnu verjandans á rannsóknarstigi málsins.

Ákærði Páll greiði 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Sakarkostnað að öðru leyti en sérgreindur hefur verið hér að ofan greiði ákærðu óskipt.

Svavar Pálsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði Davíð Garðarson sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærðu Tryggvi Lárusson, Monika Emilsdóttir og Páll Magnússon, sæti hvert um sig fangelsi í 8 mánuði.

Fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsivist ákærðu Moniku og Páls skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi hvort um sig almennt skilorðs 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Frá refsivist allra ákærðu skal draga gæsluvarðhald hvers um sig.

Upptæk eru dæmd 99,86 g af kókaíni.

Ákærði Tryggvi greiði Róberti Árna Hreiðarssyni héraðsdómslögmanni 21.000 krónur í málsvarnarlaun og Gísla Gíslasyni héraðsdómslögmanni 60.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði Davíð greiði 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Karls G. Sigurbjörnssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Monika greiði 100.000 krónur í málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.

Ákærði Páll greiði 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.