Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð


Föstudaginn 23. janúar 2015

Nr. 37/2015.

Snædís Rán Hjartardóttir

(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

gegn

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

íslenska ríkinu og

Reykjavíkurborg

(enginn)

Kærumál. Flýtimeðferð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um að mál sem hún hugðist höfða á hendur SH, Í og R og varðaði greiðslu kostnaðar vegna túlkaþjónustu, sætti flýtimeðferð. Hæstiréttur féllst á með S að málið teldist varða stórfellda hagsmuni hennar auk þess sem það kynni að hafa almenna þýðingu fyrir aðra í sambærilegri stöðu. Þá væri S, með tilliti til heilsufars og þróunar sjúkdóms hennar, brýn þörf á skjótri úrlausn, enda bæru gögn málsins ekki með sér að hún gæti sjálf staðið undir kostnaði við túlkaþjónustu þann tíma sem rekstur dómsmáls eftir almennum reglum tæki. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 12. janúar 2015 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2015, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð máls sem hún hyggst höfða gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hennar um flýtimeðferð málsins.

Varnaraðilar hafa ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms þjáist sóknaraðili, sem stundar nám við framhaldsskóla, af arfgengum taugahrörnunarsjúkdómi sem hefur valdið henni sjónmissi, heyrnarmissi og hreyfihömlun.  Öll þátttaka hennar í daglegu lífi er háð því að hún njóti aðstoðar túlks. Á skólatíma nýtur hún þjónustu túlks á grundvelli 34. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla auk lögbundins réttar til túlkunar við miðlun þeirra upplýsinga sem fram koma í 4. mgr. 5. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Að þessum tilvikum slepptum leitar sóknaraðili til varnaraðilans Samskiptamiðstöðvar heyrnalausra og heyrnaskertra um þjónustu túlks, en sú stofnun starfar á grundvelli laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Með bréfum þess varnaraðila 23. október og 10. nóvember 2014 var synjað beiðnum sóknaraðila um túlkaþjónustu af nánar tilgreindum tilefnum nema greitt væri fyrir hana og á þeirri forsendu að fjármunir varnaraðilans til umræddrar starfsemi væru uppurnir. Með bréfi 9. desember 2014 synjaði varnaraðilinn Reykjavíkurborg kröfu sóknaraðila um greiðslu þess kostnaðar sem þá var tilfalinn á þeirri forsendu að það væri skylda ríkisins að veita slíka þjónustu og væri kröfum þar að lútandi því ranglega beint að Reykjavíkurborg.

Með fyrirhugaðri málsókn hyggst sóknaraðili hafa uppi dómkröfur á hendur varnaraðilanum Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þess efnis aðallega að honum hafi verið óheimilt að synja sóknaraðila um endurgjaldslausa túlkaþjónustu frá 7. október 2014 en til vara að dæmdar verði ólögmætar framangreindar ákvarðanir hans 23. október og 10. nóvember 2014. Í báðum tilvikum er auk þess gerð krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar og miskabóta og beinist hún auk síðastgreinds varnaraðila að íslenska ríkinu. Verði ekki fallist á dómkröfur sóknaraðila á hendur þessum varnaraðilum er þeim til vara beint að varnaraðilanum Reykjavíkurborg og þess þá krafist að framangreind synjun þess varnaraðila á greiðslu útlagðs kostnaðar við túlkaþjónustu 9. desember 2014 verði dæmd ólögmæt auk þess sem gerð er krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar og miskabóta.

Kröfu um flýtimeðferð styður sóknaraðili þeim rökum að um sé að ræða grundvallarhagsmuni sína sem lúti að því að hún geti lifað og starfað í samfélaginu til jafns við aðra. Þörf hennar fyrir flýtimeðferð verði jafnframt að meta með hliðsjón af því að hún ráði ekki við að standa straum af kostnaði við umrædda þjónustu meðan rekið verði dómsmál um réttindi hennar. Hugsanlegur endurkröfuréttur síðar á grundvelli slíks dóms skipti því ekki máli við mat á þörfinni fyrir flýtimeðferð. Enn fremur hefur sóknaraðili vísað til þess að niðurstaða fyrirhugaðs dómsmáls muni hafa almenna þýðingu fyrir aðra heyrnarlausa og heyrnarskerta í sambærilegri stöðu.

Fallist er á með sóknaraðila að málið geti talist varða stórfellda hagsmuni hennar auk þess sem það kunni að hafa almenna þýðingu fyrir aðra í sambærilegri stöðu. Þá er fallist á það með sóknaraðila að henni sé, með tilliti til heilsufars og þróunar sjúkdómsins, brýn þörf á skjótri úrlausn, enda bera gögn málsins ekki með sér að hún geti sjálf staðið undir kostnaði við umrædda túlkaþjónustu þann tíma sem ætla má að rekstur dómsmáls eftir almennum reglum taki. Getur engin áhrif haft á þessa niðurstöðu þótt sóknaraðili hafi ekki tæmt kæruleiðir innan stjórnsýslunnar enda gildir enginn slíkur áskilnaður sem lögbundið skilyrði flýtimeðferðar.

Samkvæmt þessu er skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fullnægt til að heimiluð verði flýtimeðferð í máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í máli því, sem sóknaraðili, Snædís Rán Hjartardóttir, hyggst höfða á hendur varnaraðilum, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg, með þeim dómkröfum sem áður er lýst.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2015.

I

Með bréfi, dagsettu 22. desember 2014, fór Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Snædís Rán Hjartardóttir, Háaleitisbraut 129 í Reykjavík, hyggst höfða á hendur Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnarskertra, Grensásvegi 9 í Reykjavík, íslenska ríkinu, Arnarhvoli í Reykjavík, og Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11 í Reykjavík, sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með bréfi 7. janúar sl. hafnaði dómstjóri erindinu. Með tölvubréfi sama dag krafðist lögmaðurinn úrskurðar um synjun dómstjóra, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

II

Samkvæmt meðfylgjandi stefnu hyggst stefnandi gera þá kröfu á hendur íslenska ríkinu og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að viðurkennt verði að áðurnefndri Samskiptamiðstöð hafi verið óheimilt á grundvelli 4. gr. reglugerðar nr. 884/2004 og 2. gr. gjaldskrár nr. 444/2013 að synja stefnanda um veitingu endurgjaldslausrar túlkaþjónustu frá 7. október 2014. Til vara krefst stefnandi þess að stjórnvaldsákvarðanir Samskiptamiðstöðvarinnar frá 23. október 2014 og 10. nóvember sama ár um að synja stefnanda um túlkaþjónustu verði dæmdar ólögmætar. Þá krefst stefnandi miskabóta og endurgreiðslu kostnaðar.

Verði ekki fallist á þessar dómkröfur gerir stefnandi þær kröfur á hendur stefnda Reykjavíkurborg að dæmt verði að ákvörðun borgarinnar 9. desember 2014 um að synja stefnanda um túlkaþjónustu verði dæmd ólögmæt, auk þess sem borginni verði gert að greiða stefnanda  miskabætur og útlagðan kostnað.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni, verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra það þröngri lögskýringu.

Fyrir liggur að stefnandi þjáist af arfgengum taugahrörnunarsjúkdómi sem hefur valdið sjónmissi, heyrnarmissi og hreyfihömlun. Á grundvelli 19. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996 fær hann túlkaþjónustu þær stundir sem hann er við nám við Menntaskólann í Hamrahlíð, auk þess sem hann fær túlk innan heilbrigðisþjónustunnar á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þar sem þessum tilvikum sleppir annast stefnda Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta túlkunina, en hana þarf að panta með fyrirvara. Með bréfum til stefnanda 23. október og 10. nóvember 2014 synjaði Samskiptamiðstöðin beiðnum stefnanda um túlkaþjónustu án endurgjalds með þeim rökum að fjárveiting vegna endurgjaldslausrar túlkaþjónustu væri uppurin, og því væri Samskiptamiðstöðinni ekki heimilt að veita túlkaþjónustu nema gegn gjaldi, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 884/2004. Í bréfum þessum var stefnanda bent á að heimilt væri að kæra ákvarðanir Samskiptamiðstöðvarinnar til mennta- og menningarmálaráðuneytis innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verður séð að stefnandi hafi nýtt sér kæruheimild stjórnsýslulaga. Fyrir liggur hins vegar að stefnandi greiddi sjálfur kostnað vegna umbeðinnar þjónustu, samtals 50.670 krónur.

Með bréfi 28. nóvember 2014 krafðist stefnandi þess að Reykjavíkurborg, á grundvelli laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, endurgreiddi sér áður útlagðan kostnað. Reykjavíkurborg synjaði erindinu 9. desember sl. með þeim rökum að samkvæmt lögum nr. 129/1990, um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, væri það óskoruð skylda íslenska ríkisins að veita túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa einstaklinga. Því væri Reykjavíkurborg ekki réttur aðili að slíkri kröfugerð.

Í bréfi lögmanns stefnanda til dómsins er krafa hans um flýtimeðferð málsins annars vegar rökstudd með því að málið varði grundvallarhagsmuni umbjóðanda hans, er lúti að nauðsynlegum skilyrðum þess að viðkomandi geti lifað og starfað í samfélaginu til jafns við aðra. Hins vegar telur lögmaðurinn að þörfina fyrir flýtimeðferð beri „að meta með hliðsjón af því að umbjóðandi mínum er ekki fært að greiða sjálf fyrir þá þjónustu túlks og krefjast svo endurgreiðslu með málsókn sem ekki sætir flýtimeðferð“, eins og orðrétt segir í umræddu bréfi. Tekur lögmaðurinn fram að tímagjald fyrir túlkaþjónustu sé yfir 10.000 krónur, en umbjóðandi hans sé menntaskólanemi og þar fyrir utan óvinnufær með öllu vegna líkamlegrar fötlunar.

Eins og fram er komið lýtur fyrirhuguð málsókn stefnanda að ákvörðunum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá 23. október og 10. nóvember 2014. Ekki verður séð að stefnandi hafi nýtt sér heimild stjórnsýslulaga til að kæra þær ákvarðanir til æðra stjórnvalds. Þótt slíkt sé að sönnu almennt ekki skilyrði áður en til höfðunar dómsmáls kemur, og raunar ekki í því máli sem hér er til úrlausnar, er ekki unnt að líta fram hjá því að sú leið var ekki farin þrátt fyrir augljósa kosti hennar, og ekki síður skilvirkni. Samkvæmt því hefur æðra stjórnvald ekki fjallað um kröfu stefnanda í málinu og hefur sú staðreynd áhrif við mat á því hvort brýn þörf sé á flýtimeðferð málsins. Þyngra vegur þó að gangi dómur stefnanda í vil kann hann að eignast endurkröfurétt á stefndu, og er vandséð að fjárhagslegum hagsmunum hans sé teflt í tvísýnu þótt mál þetta verði rekið eftir almennum reglum einkamálalaga. 

Með vísan til ofanritaðs verður ekki séð að hagsmunir stefnanda séu svo brýnir í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, að rétt sé að verða við kröfu hans um að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Snædísar Ránar Hjartardóttur gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg og synjað um útgáfu stefnu í málinu.