Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2001
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Galli
- Áfrýjunarleyfi
|
|
Fimmtudaginn 18. apríl 2002. |
|
Nr. 385/2001. |
Kjartan Ingimarsson(Bjarni Þór Óskarsson hrl.) gegn Hrafnhildi Oddsdóttur (Guðmundur Kristjánsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Galli. Áfrýjunarleyfi.
Bifreið sem H keypti af K bilaði skömmu eftir afhendingu. Krafðist H skaðabóta eða afsláttar úr hendi K vegna galla sem hún taldi að bifreiðin hefði verið haldin við kaupin eða að rekja mætti bilunina til viðgerðar, sem gerð var að tilhlutan K skömmu fyrir kaupin. Að gögnum málsins virtum var ekki talin komin fram sönnun fyrir staðhæfingum H og var K því sýknaður af kröfu hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 9. október 2001. Hann krefst aðallega sýknu, en til vara að málinu verði vísað að nýju til meðferðar fyrir héraðsdómi, sem skipaður verði sérfróðum meðdómsmönnum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna kaupa stefndu á bifreiðinni OV 799 af áfrýjanda 26. apríl 2000. Bifreiðin er af gerðinni Volkswagen Transporter árgerð 1991 og hafði henni verið ekið rúmlega 185.000 km. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að um væri að ræða sex manna bifreið með stuttum palli. Tók stefnda við bifreiðinni með sérstökum leigusamningi fjórum dögum áður en kaupin voru gerð. Ágúst Ragnarsson, sonur stefndu, bar fyrir dómi að hann hafi notað bifreiðina í rúmlega tvær vikur áður en vélin bilaði. Reyndust sprungur vera í strokkloki og hafði kælivatn þess vegna blandast smurolíu. Telur stefnda að bifreiðin hafi verið haldin þessum galla við kaupin eða að rekja megi bilunina til viðgerðar á smurolíudælu, sem gerð var að tilhlutan áfrýjanda skömmu fyrir kaupin. Er sérstaklega tilgreint að þá hafi þurft að taka af vélinni svokallað tímahjól og það síðan ekki fest á aftur nógu traustlega. Þá hafi áfrýjandi beinlínis tekið fram við kaupin að vél bifreiðarinnar hafi verið nýlega uppgerð þegar hann keypti hana sjálfur af Vegagerðinni, sem hafi ekki reynst rétt. Aflaði stefnda matsgerðar dómkvadds manns fyrir héraðsdómi, svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu áfrýjanda er mótmælt að bilunina megi rekja til atvika, sem hann beri ábyrgð á, og hafi bifreiðin verið í lagi þegar stefnda tók við umráðum hennar. Hann mótmælir einnig að hafa gefið þær upplýsingar um vélina, sem stefnda heldur fram, og að framan er getið. Málavextir og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í héraðsdómi.
II.
Í matsgerð dómkvadds manns og viðauka við hana kemur ekki fram skýring á því hver hafi verið líkleg orsök þess að vél bifreiðarinnar bilaði. Fær sú staðhæfing heldur ekki stoð í matsgerðinni að bilunin hafi þegar verið orðin er bifreiðin var afhent stefndu.
Fyrir liggur í málinu að áðurnefnt tímahjól var eftir viðgerð á smurolíudælu límt aftur á sveifarás vélarinnar með sérstöku járnlími. Reisir stefnda kröfu sína meðal annars á því að slík viðgerð sé óforsvaranleg og hafi þurft að festa tímahjólið með öðrum og tryggari hætti. Sé líklegt að ástæðu bilunarinnar megi rekja til þessa. Er í viðbót við matsgerð vikið að þessu þannig að auk viðgerðarkostnaðar, sem áður var metinn, falli til kostnaður við að fá nýtt tímahjól og líma það á sveifarásinn. Fyrir dómi tók matsmaðurinn fram að hjólið hafi ekki setið nákvæmlega eins og það átti að gera, sem hafi raskað vinnslu vélarinnar og getað komið fram í gangtruflunum. Það hafi hins vegar ekki tengst því að vatn komst í smurolíu í vélinni. Skúli Guðmundsson bifvélavirki gaf einnig skýrslu fyrir dómi, en hann kannaði vélina eftir að hún bilaði. Kom fram hjá honum að ekki hafi verið að sjá merki þess að festing tímahjólsins hafi leitt til vandræða. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, er ekki fram komin sönnun fyrir því að sprungur í strokkloki vélarinnar megi rekja til þeirrar viðgerðar á smurolíudælu, sem áður var getið um
Stefnda styður staðhæfingu sína um að áfrýjandi hafi gefið þær upplýsingar um vélina, sem að framan er lýst, við skýrslu Benedikts Heiðdal Þorbjörnssonar fyrir dómi. Framburður vitnisins um þetta atriði er óljós og er þessi staðhæfing stefndu ósönnuð gegn mótmælum áfrýjanda.
Niðurstaða málsins verður samkvæmt þessu sú að áfrýjandi er sýknaður af kröfu stefndu. Verður stefnda dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Kjartan Ingimarsson, er sýkn af kröfu stefndu, Hrafnhildar Oddsdóttur.
Stefnda greiði áfrýjanda samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. desember s.l.
Stefnandi er Hrafnhildur Oddsdóttir, kt. 220736-2379, Neshaga 7, Reykjavík.
Stefndi er Kjartan Ingimarsson, kt. 020119-2849, Kirkjuteigi 9, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar að fjárhæð kr. 496.176 eða aðra lægri fjárhæð eftir álitum dómsins auk dráttarvaxta frá 5. júní 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að 26. apríl 2000 keypti stefnandi bifreiðina OV-799, sem er af gerðinni Volkswagen Transport árgerð 1991 af stefnda. Hafði sonur stefnanda, Ágúst Ragnarsson, skoðað bifreiðina áður, en hann ætlaði að nota hana við atvinnustarfsemi sína. Stefnandi heldur því fram að Ágústi hafi verið tjáð að vél bifreiðarinnar væri nýupptekin, ekin 18000 km og í góðu lagi. Umsamið staðgreiðsluverð var kr. 600.000. Rúmum þremur vikum eftir kaupin mun hafa komið fram alvarleg bilun í vél bifreiðarinnar og kom í ljós við skoðun hjá vélaverkstæðinu Kistufelli að vélin var mikið skemmd, en sprunga mun hafa komið í „hedd“ hennar. Með bréfi til stefnda dagsettu 24. maí 2000 krafðist stefnandi þess að kaupin gengju til baka og jafnframt yrði kaupverðið endurgreitt og stefnanda bættur allur kostnaður sem hann sagðist hafa haft vegna galla á bifreiðinni. Í svarbréfi stefnda kemur fram að stefnanda hafi verið boðið að rifta kaupunum og greiða leigu fyrir bifreiðina frá því hann tók hana á leigu þar til hún bilaði. Sé leiga fyrir bifreiðina kr. 4.200 á dag að viðbættum virðisaukaskatti, eða samtals kr. 120.267. Stefnandi hafnaði leigukröfu stefnda að frátöldum örfáum dögum. Með bréfi dagsettu 13. júní 2000 bauðst stefndi til að bera helming af viðgerðarkostnaði án þess að viðurkenna gallann og með þeirri forsendu að viðgerðarkostnaður væru á bilinu 150 til 200 þúsund krónur. Samkomulag náðist ekki með aðilum á þessum nótum.
Með matsbeiðni dagsettri 19. júní 2000 fór stefnandi þess á leit við dóminn að skipaður yrði hæfur og óvilhallur maður til þess að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
|
1. |
Er bílvélin úrbrædd og/eða skemmd að öðru leyti? |
|
2. |
Svarar kostnaði að gera við hana og ef svo er, hver er þá sá kostnaður? (Efni og vinna óskast sundurliðað). Hvað kostar ný vél sams konar þeirri, sem hér er um að ræða? |
|
3. |
Hver er sundurliðaður kostnaður Vélaverkstæðisins Kistufells ehf. v/vélarinnar sbr. framanritað? |
|
4. |
Er ástand vélarinnar lakara en gengur og gerist með sams konar vél eftir sömu eða svipaða notkun og hér er um að ræða? |
|
5. |
Hvert er daglegt afnotatap notanda bifreiðarinnar miðað við þá notkun, sem henni var ætlað?
|
Á dómþingi 30. júní s.l. var Valgarður Zóphaníasson bifvélavirkjameistari, dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat og er matsgerð hans dagsett 30. júní s.l. Í mati hans kemur fram að við skoðun á vélinni hafi komið í ljós að búið hafi verið að taka strokklok (hedd) af vélinni og hafi heddpakkning verið ónýt, hefði hún blásið út í vatn áður en vélin var tekin í sundur og þá hafi verið sprungur í heddi sem ekki hafi verið unnt að gera við. Matsmaður taldi ekki unnt að skoða hvort vélin væri úrbrædd þar sem ekki hafi verið búið að taka neðri hluta hennar í sundur. Matsmaður taldi ekki svara kostnaði að kaupa nýja vél en unnt væri að gera við hana og taldi hann kostnað vegna þess nema kr. 172.531. Matsmaður taldi ástand vélarinnar mjög eðlilegt miðað við akstur, en samkvæmt mæli mun hafa verið búið að aka henni um 187000 km. Þá taldi matsmaður eðlilegt að telja afnotamissi nema kr. 2.000 á dag.
Með bréfi til matsmanns dagsettu 1. ágúst s.l. skýrði matsbeiðandi matsmanni frá því að hann teldi matið ófullnægjandi og óskaði ítarlegri svara matsmanns í samræmi við matsbeiðni. Í viðbótarmatsgerð dagsettri 9. ágúst s.l. taldi matsmaður vélina ekki vera úrbrædda. Þá kvað hann kostnað við viðgerð hjá Kistufelli vera þann sama og greint var frá í matsgerð að því viðbættu að fá þyrfti nýtt tímahjól á sveifarás og líma það á sveifarásinn. Taldi hann viðbótarkostnað vegna þessa nema kr. 23.645. Þá taldi matsmaður ástand slitflata vélarinnar mjög eðlilegt miðað við akstur. Ekki sé óalgengt að heddpakkning verði ónýt eða sprungur komi í álhedd.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að vél bifreiðarinnar hafi við kaupin verið haldin alvarlegum leyndum göllum og hafi stefndi vitað af því. Hafi bifreiðin því alls ekki verið í samræmi við væntingar stefnanda og forsendur fyrir bifreiðakaupunum. Hafi stefndi upphaflega samþykkt riftun og síðar að taka þátt í viðgerðarkostnaði.
Stefnandi krafðist þess upphaflega að kaupum á bifreiðinni yrði rift, stefndi endurgreiddi kaupverð hennar og greiddi að auki skaðabætur að fjárhæð kr. 300.000. Frá þessari kröfu var fallið við aðalmeðferð málsins og krefst stefnandi nú skaðabóta og/eða afsláttar að fjárhæð kr. 496.176. Er sú krafa byggð á niðurstöðu matsmanns um viðgerðarkostnað og fyrrgreindri skaðabóta- eða afsláttarkröfu, sem stefnandi segir vera til komna vegna útlagðs viðgerðarkostnaðar, afnotamissis bifreiðarinnar og allrar þeirrar fyrirhafnar, óþæginda og miska sem hún hafi haft af máli þessu.
Stefnandi vísar til 42. gr. laga nr. 39/1922 og 30. gr. laga nr. 7/1936, sem og meginreglna kröfu- og samningaréttar kröfum sínum til stuðnings. Stefnandi styður vaxtakröfu við III. kafla vaxtalaga og krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að bifreiðin hafi ekki verið haldin neinum göllum við afhendingu hennar til stefnanda. Hafi engin sönnunargögn verið lögð fram um hið gagnstæða. Telji dómurinn að sprunga hafi verið komin í strokklok bifreiðarinnar við sölu hennar, byggir stefndi á því að það sé ekki óeðlilegt miðað við að búið hafi verið að aka bifreiðinni 187000 km.
Þá byggir stefndi á því að rangt sé og ósannað að stefnandi hafi lagt út fyrir viðgerðarkostnaði og þá byggir stefndi á því að reglur íslensks réttar tryggi stefnanda ekki bætur vegna fyrirhafnar, óþæginda og annars miska. Verði ráðist í þær viðgerðir, sem matsmaður hafi reiknað kostnað af, byggir stefndi á því að stefnandi þurfi að bera nokkurn kostnað af þeim sjálf, þar sem verðmæti bifreiðarinnar aukist við viðgerðina. Þá byggir stefndi á því að stefnandi, eða sá sem hafði afnot bifreiðarinnar, hafi með notkun sinni valdið því að vatn fór af vél bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún skemmdist.
Stefndi byggir á lögum um lausafjárkaup, sérstaklega 44. og 57. gr. Stefndi reisir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Ágúst Ragnarsson, kt. 190158-2339, sonur stefnanda, skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að við afhendingu bifreiðarinnar hafi logað viðvörunarljós sem tengdist olíu og hafi stefndi sagt honum að pakkning í dælu hefði bilað. Hafi stefndi tekið að sér að lagfæra þetta atriði. Ágúst sagði stefnda hafa sagt að vélin hefði verið tekin upp og hefði bifreiðinni verið ekið 18000 km á vél. Kvað Ágúst að eftir tveggja vikna notkun hefði vél bifreiðarinnar farið að hökta og hitamælir að stíga. Kvaðst hann hafa bætt vatni á bifreiðina og látið kanna olíuna, en hún hafi verið næg. Skömmu síðar hafi hið sama gerst og hafi bifreiðin þá verið dregin á vélaverkstæðið Kistufell og þar hafi komið í ljós að heddið væri farið.
Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi aldrei tjáð stefnanda að vélin væri upptekin. Hann kvaðst hafa sagt að Vegagerðarmenn hefðu yfirfarið bifreiðina og hefði hann ekið henni 18000 km eftir að hann keypti hana. Hann kvað á þeim tíma aldrei hafa borið á vatns- eða olíuleka, en smárafmagnstruflun hafi verið í henni sem hafi verið komist fyrir með því að kaupa nýja tölvu í bifreiðina.
Valgarður Zophaníasson, kt. 140150-7899, bifvélavirkjameistari, staðfesti matsgerðir sínar. Hann kvað ástand vélarinnar eðlilegt miðað við akstur. Hann kvaðst ekki hafa séð hvort vélin hefði verið upptekin en hann útilokaði það þó ekki. Hann kvað um álhedd að ræða sem hefði sprungið, en slík hedd þola hita misvel. Hann kvað ekkert hægt að segja til um það hvenær sprungan hefði komið.
Anna Skarphéðinsdóttir, kt. 050160-3359, tengdadóttir stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi skoðað bifreiðina ásamt Ágústi og kvað hún þeim hafa verið tjáð að henni hafi verið ekið 18000 á vél. Hún kvaðst ekkert hafa ekið bifreiðinni en hún hafi verið með í för þegar hún bilaði.
Benedikt Heiðdal Þorbjörnsson, kt. 200659-4579, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi skoðað bifreiðina og litist vel á hana. Kvað hann Ágúst hafa aflað sér upplýsinga um að vélin væri nýuppgerð, en síðar hafi komið í ljós að henni hafði verið ekið 18000 km. Eftir að bifreiðin bilaði kvaðst hann hafa skoðað inn í vélina og séð skemmdir á henni. Kvað hann starfsmann stefnda hafa verið viðstaddan og hafi komið í ljós að hann hafði áður gert við bifreiðina með því að líma tímareimarhjól upp á sveifarás, en hjólið hafði losnað. Kvað Benedikt manninn, sem hann gat ekki nafngreint, hafa sagt að hann myndi ábyrgjast þessa viðgerð. Kvaðst Benedikt hafa aflað sér upplýsinga um það að ekki væri forsvaranlegt að líma hjólið með þeim hætti sem gert var, nota þyrfti svokallaðan herslubolta eða teygjubolta sem þurfi að henda eftir að hann hafi verið losaður einu sinni og setja nýjan.
Ingimar Kjartansson, kt. 110548-7619, sonur stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi að gaumljós hafi logað þegar Ágúst skoðaði bifreiðina. Hafi komið í ljós að pakkning á smurolíudælu var biluð og var skipt um pakkningu og taldi hann að einnig hefði verið skipt um dælu, en fullyrti það þó ekki. Ingimar kannaðist ekki við að stefnanda hafi verið tjáð að vélin væri upptekin eða uppgerð, en skýrt hafi verið frá því að farið hefði verið yfir bifreiðina áður en hún var keypt af Vegagerðinni. Hann kannaðist ekki við að sprunga hefði verið í heddinu en hann kvað tímahjól hafa verið tekið af þegar smurolíudælan var tekin og sett aftur á. Sagði hann suma halda því fram að líma eigi hjólið með járnlími eða vélalími. Kvað hann hafa verið ákveðið að líma hjólið ekki heldur herða það fast.
Skúli Guðmundsson, kt. 221142-3019, bifvélavirki, starfsmaður Kistufells, skýrði svo frá fyrir dómi að eðlilegt væri að hedd færu með tímanum. Hann kvað heddið hafa verið sprungið og hefði þurft að kaupa nýtt. Þá hafi komið í ljós að hjól í sveifarás var laust og kvaðst hann þá ekki hafa viljað halda viðgerð áfram, enda um alvarlega bilun að ræða. Skúli kvað hjólið hafa verið límt á, en slíkt sé ekki varanleg viðgerð. Kvað hann hjólið hafa getað orðið vandræðalaust, en taka þyrfti það af. Hann kvað vélina ekki hafa verið nýupptekna og þá kvað hann greinilegt að nýbúið hafi verið að eiga við olíudæluna.
Forsendur og niðurstaða.
Telja verður nægilega sannað að stefnandi hafi verið upplýst um það við kaup bifreiðarinnar að hún hefði verið sérstaklega yfirfarin og henni ekið 18000 km eftir það, áður en hún var seld stefnanda, en ósannað er að stefnanda hafi verið tjáð að vélin væri nýupptekin. Hins vegar mátti stefnandi af þessum yfirlýsingum stefnda ráða að fagmenn hefðu yfirfarið vél bifreiðarinnar.
Upplýst er að gaumljós logaði er sonur stefnanda skoðaði bifreiðina. Tóku starfsmenn stefnda að sér að kanna hverju þetta sætti og í framhaldi af því var skipt um pakkningu á smurolíudælu og jafnframt benda líkur til þess að einnig hafi verið skipt um dælu. Telja verður nægilega upplýst að tímahjól hafi verið límt á sveifarás þegar skipt var um olíudælu en ágreiningur er um hvort slík vinnubrögð séu eðlileg.
Í máli þessu hefur ekki verið aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns um það hver sé líklegasta orsök vélarbilunarinnar, en líkur benda til þess að rekja megi bilunina til áðurgreindrar viðgerðar starfsmanna stefnda. Ber því af þessum sökum að leggja á stefnda sönnunarbyrði fyrir því að vélarbilunin stafi af atvikum sem hann ber ekki ábyrgð á. Þar sem stefnda hefur ekki lánast sönnun að þessu leyti er hann því bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna gallans, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922.
Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns um viðgerðarkostnað hefur ekki verið hrakin og raunar ekki sætt sérstökum andælum. Verður því fallist á að bætur til stefnanda vegna viðgerðar á vélinni séu hæfilega ákveðnar kr. 196.176. Ekki er fallist á að bæturnar eigi að sæta lækkun vegna verðmætisaukningar bifreiðarinnar.
Krafa stefnanda um bætur vegna afnotamissis bifreiðarinnar og fyrirhafnar, óþæginda og miska er vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 100.000 í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og kostnaðar stefnanda af matsgerð.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Kjartan Ingimarsson, greiði stefnanda, Hrafnhildi Oddsdóttur, kr. 196.176 ásamt dráttarvöxtum frá 5. júní 2000 til greiðsludags og kr. 100.000 í málskostnað.