Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaskrá
- Lögarfur
|
|
Mánudaginn 4. mars 2002. |
|
Nr. 30/2002. |
Fjóla Aradóttir Sullivan Tryggvi Arason og Þór Hagalín (Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Albert Þorkelssyni Jóhönnu M. Axelsdóttur Nils Helga NilssyniAxel J. Axelssyni Geir Garðarssyni Ester Garðarsdóttur Valdimar Axelssyni Tryggva Axelssyni Ellen Guðrúnu Stefánsdóttur Hjörleifi Stefánssyni Stefáni Stefánssyni Arnari Thor Stefánssyni Magnúsi Þorkeli Hjörleifssyni Yrsu Elenoru Gylfadóttur Brynhildi Gunni Gylfadóttur Jóhönnu Hjörleifsdóttur Þorkeli Hjörleifssyni Eddu Hjörleifsdóttur Guðrúnu Hjörleifsdóttur Kristínu Hjörleifsdóttur Elísabetu Þ. Giorgi Hansínu Þorkelsdóttur Hilmari Þorkelssyni Jóhönnu Þorkelsdóttur Júlíusi Þorkelssyni Kristjáni Þorkelssyni Margréti Þ. Hansen Sigríði Ingu Þorkelsdóttur og Sigurði Þorkelssyni (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Lögarfur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. janúar 2002. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2001, þar sem fallist var á með varnaraðilum að skipta skuli „dánarbúi Sigurpáls Þorkelssonar og Svövu Aradóttur að jöfnu milli erfingja hvors þeirra um sig“. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að „allar eignir sem eru til skipta eftir andlát Svövu Aradóttur gangi til erfingja hennar.“ Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðilar verði í sameiningu dæmdir til að greiða ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Þegar af þeirri ástæðu kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði ekki frekar til álita.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést Svava Aradóttir 24. september 2000, en hún var fædd 7. mars 1913 og síðast til heimilis að Aflagranda 40 í Reykjavík. Eiginmaður hennar var Sigurpáll Marinó Þorkelsson, sem fæddist 27. febrúar 1914 og lést 3. janúar 1996. Þau undirrituðu 10. nóvember 1975 sameiginlega erfðaskrá, sem var svohljóðandi:
„Við undirrituð hjón, Svava Aradóttir ... og Sigurpáll Marinó Þorkelsson ..., bæði til heimilis í Birkimel 10B, Reykjavík, sem ekki eigum lífserfingja, gerum hér með svofellda ráðstöfun um eignir okkar eftir okkar dag.
1. gr.
Það okkar, sem lengur lifir, skal taka allan arf eftir hitt sem fyrr deyr, í föstu og lausu og hverju nafni sem nefnist.
2. gr.
Erfðaskrá þessa undirritum við í viðurvist not. pub. í Reykjavík, sem staðfestir undirskriftir okkar og skal skráin færð inn í notarialbók Reykjavíkur og skal staðfest endurrit af henni vera jafngilt og frumritið, ef það skyldi glatast.“
Lögbókandi í Reykjavík ritaði sama dag á erfðaskrána vottorð með þeim efnisatriðum, sem greinir í 1. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Í málinu hafa varnaraðilar vísað til þess að á þeim tíma, sem ofangreind erfðaskrá var gerð, hafi móðir Sigurpáls, Jóhanna M. Kristjánsdóttir, verið á lífi, en hún hafi látist 11. desember 1986. Eins og 1. mgr. 3. gr. erfðalaga hljóðaði við gerð erfðaskrárinnar og allt til gildistöku 1. gr. laga nr. 48/1989, sem hafi breytt fyrrnefnda ákvæðinu, hafi foreldri átt lögerfðarétt eftir barn sitt, þótt það væri í hjúskap, ef það lét ekki eftir sig niðja. Hefði Sigurpáll þannig látist á undan eiginkonu sinni og móður í gildistíð 1. mgr. 3. gr. erfðalaga í upphaflegri mynd ákvæðisins, hefðu þær báðar tekið arf eftir hann sem lögerfingjar ef erfðaskrá hefði ekki verið gerð til hagsbóta maka.
Einkaskiptum á dánarbúi Sigurpáls var lokið með því að sýslumanninum í Reykjavík var 23. janúar 1996 afhent erfðafjárskýrsla, þar sem Svövu var getið sem eina erfingja hans. Ekki var þar tekið fram hvort hún hafi reist erfðarétt sinn eingöngu á lögerfðareglu 1. mgr. 3. gr. erfðalaga, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingu með áðurnefndri 1. gr. laga nr. 48/1989, eða hvort hún hafi jafnframt skírskotað til erfðaskrárinnar frá 10. nóvember 1975 um arfstilkall sitt.
Eftir lát Svövu reis ágreiningur milli sóknaraðila, sem munu vera lögerfingjar hennar eftir ákvæði 3. mgr. 3. gr. erfðalaga, og varnaraðila, sem eftir sömu reglu myndu að henni frágenginni hafa staðið til lögerfða eftir Sigurpál, um hvort skipta ætti arfi eftir Svövu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Í tengslum við þennan ágreining var „dánarbú Svövu Aradóttur ... og Sigurpáls Þorkelssonar“ tekið til opinberra skipta samkvæmt kröfu eins varnaraðilans með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2001. Skiptastjóri í dánarbúinu leitaði með bréfi 14. júní sama árs úrlausnar dómsins um þetta ágreiningsefni, sem er til úrlausnar í málinu.
II.
Svo sem áður segir lauk Svava Aradóttir 23. janúar 1996 einkaskiptum á dánarbúi Sigurpáls Marinós Þorkelssonar með því að afhenda sýslumanninum í Reykjavík erfðafjárskýrslu, sem var árituð þann dag um samþykki hans. Með þessu var endanlega lokið skiptum á dánarbúi Sigurpáls, sbr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Átti því hvorki við að kveða á um opinber skipti á dánarbúi Svövu og Sigurpáls, eins og hún hefði til dánardags setið í óskiptu búi eftir lát hans, svo sem gert var með áðurnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2001, né að mæla fyrir um erfðaréttindi við skipti á dánarbúi þeirra beggja, svo sem gert var með hinum kærða úrskurði.
Þetta fær því hins vegar ekki breytt að líta má svo á að í reynd sé dánarbú Svövu einnar til opinberra skipta, enda veitir ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, sem varnaraðilar reisa arfstilkall á, skyldmennum látins eiginmanns hennar lögerfðarétt eftir hana ef skilyrðum, sem þar greinir, er fullnægt. Því til samræmis verður að leggja þann skilning í dómkröfu sóknaraðila að þau krefjist þess að verða ein talin lögerfingjar eftir Svövu á þeim grunni að hér sé ekki fullnægt skilyrðum til þess að 1. mgr. 6. gr. erfðalaga verði beitt um erfðarétt eftir hana. Á sama hátt verður að skilja dómkröfu varnaraðila þannig að þau krefjist þess á grundvelli sama ákvæðis að helmingur arfs falli í þeirra hlut við skipti á dánarbúi Svövu, en arfur falli að öðru leyti til sóknaraðila.
III.
Samkvæmt hljóðan 1. mgr. 6. gr. erfðalaga tekur hún til skipta eftir það hjóna, sem lengur lifir, ef það var einkalögerfingi þess skammlífara, það andast án þess að hafa gengið aftur í hjúskap, það lætur ekki eftir sig niðja og hefur ekki með erfðaskrá ráðstafað eignum sínum á annan hátt. Við þær aðstæður standa til lögerfða eftir langlífari makann skyldmenni hans sjálfs og þess skammlífara, en hvor hópur á þá samanlagt tilkall til helmings arfs. Ákvæði þetta er reist á því að almennt megi ætla að hjón, sem láta ekki eftir sig niðja, hafi hug á að það langlífara sitji eitt að eigum þeirra svo lengi, sem það lifi, en eftir lát beggja falli arfur að jöfnu til ættingja hvors um sig. Þegar þannig standi á geti hjón látið hjá líða að gera erfðaskrá, því lögerfðareglur í I. kafla erfðalaga leiði til þessarar niðurstöðu. Vilji hjón á hinn bóginn hafa aðra skipan á, geti þau gert erfðaskrá. Að þessu virtu verður að öðru jöfnu að líta svo á að hjón, sem gera erfðaskrá þótt ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga gæti annars átt við um ráðstöfun arfs eftir þau, séu þannig að hafna því að arfur falli að þeim báðum látnum eftir reglu ákvæðisins.
Sem fyrr segir hafa varnaraðilar bent á að Sigurpáll Marinó Þorkelsson og Svava Aradóttir gerðu erfðaskrána, sem um ræðir í málinu, þegar móðir hans var enn á lífi og hefði eftir þágildandi reglum erfðalaga notið lögerfðaréttar eftir hann ef ekki yrði kveðið á um annað með erfðaskrá. Þótt fallast megi á með varnaraðilum að þetta geti hafa verið ástæðan fyrir því að hjónin gerðu erfðaskrá sína 10. nóvember 1975 með því efni, sem áður greinir, verður ekki horft fram hjá því að þar hefði hæglega mátt taka berum orðum fram að hún væri gerð til þess eins að tryggja Svövu rétt til alls arfs eftir Sigurpál, en að öðru leyti færi um arfstilkall eftir þau samkvæmt lögerfðareglum. Í erfðaskránni hefði eins verið unnt að kveða á um ráðstöfun arfs eftir daga þess langlífara, eftir atvikum með því að vísa beinlínis til ákvæðis 1. mgr. 6. gr. erfðalaga eða setja fyrirmæli, sem leiða myndu til sömu niðurstöðu. Ekkert slíkt var hér gert. Í málinu hafa varnaraðilar ekki fært fram viðhlítandi gögn fyrir því að vilji Sigurpáls og Svövu hafi þrátt fyrir þetta staðið til þess að arfur myndi falla að þeim látnum til skyldmenna beggja. Með vísan til alls þessa er óhjákvæmilegt að líta svo á að með erfðaskránni hafi hjónin hafnað því að um arf eftir daga þeirra beggja færi samkvæmt reglu 1. mgr. 6. gr. erfðalaga.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á með sóknaraðilum að þau standi ein til lögerfða við skipti á dánarbúi Svövu Aradóttur.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Við skipti á dánarbúi Svövu Aradóttur standa varnaraðilar, Fjóla Aradóttir Sullivan, Tryggvi Arason og Þór Hagalín, ein til lögerfða.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2001.
Sóknaraðilar eru Fjóla Aradóttir Sullivan, 1325 E 2nd Str, Brooklyn, New York, Tryggvi Arason, kt. 070629-2089, Fífuseli 14, Reykjavík og Þór Hagalín, kt. 131139-4549, Háeyrarvöllum 54, Eyrarbakka.
Varnaraðilar eru Albert Þorkelsson, kt. 290822-4169, Kveldúlfsgötu 22, Borgarnesi, Jóhanna M. Axelsdóttir, kt. 310745-4489, Lundabrekku 12, Kópavogi, Nils Helgi Nilsson, kt. 090767-3059, Vesturbergi 78, Reykjavík, Axel J. Axelsson, kt. 280648-4779, Einigrund 8, Akranesi, Geir Garðarsson, kt. 110176-4739, Langholtsvegi 182, Reykjavík, Ester Garðarsdóttir, kt. 100573-3509, Bústaðabraut 8, Vestmannaeyjum, Valdimar Axelsson, kt. 301251-2629, Höfðabraut 16, Akranesi, Tryggvi Axelsson, kt. 051057-5899, Móaflöt 59, Garðabæ, Ellen Guðrún Stefánsdóttir, kt. 051060-3509, Frostafold 6, Reykjavík, Hjörleifur Stefánsson, kt. 200862-5549, Freyjuvöllum 18, Keflavík, Stefán Stefánsson, kt. 270763-3919, Hólmatúni 11, Bessastaðahreppi, Arnar Thor Stefánsson, kt. 050471-3579, Spóahólum 10, Reykjavík, Magnús Þorkell Hjörleifsson, kt. 061240-4899, Bandaríkjunum, Yrsa Eleonora Gylfadóttir, kt. 201268-4949, Geislalind 3, Kópavogi, Brynhildur Gunnur Gylfadóttir, kt. 201268-5089, Brekkuhlíð 6, Hafnarfirði, Jóhanna Hjörleifsdóttir, kt. 220344-3479, Hambovägen 8, Staffanstorp, Svíþjóð, Þorkell Hjörleifsson, kt. 030645-2789, Sólheimum 25, Reykjavík, Edda Hjörleifsdóttir, kt. 220450-3339, Jörfabyggð 5, Akureyri, Guðrún Hjörleifsdóttir, kt. 090953-5409, Brattholti 1, Hafnarfirði, Kristín Hjörleifsdóttir, kt. 081055-3869, Bergsjövägen 102, Gautaborg, Svíþjóð, Elísabet Þ. Giorgi, kt. 210732-4549, 105 F Seminary Dr. Mill Valley, Bandaríkjunum, Hansína Þorkelsdóttir, kt. 220427-3749, Sólvangsvegi 1, Hafnarfirði, Hilmar Þorkelsson, kt. 131028-7769, Vogatungu 75, Kópavogi, Jóhanna Þorkelsdóttir, kt. 111133-4339, Lindarsíðu 4, Akureyri, Júlíus Þorkelsson, kt. 010725-4459, Hvanneyrarbraut 36, Siglufirði, Kristján Þorkelsson, kt. 290617-4139, Boðahlein 5, Garðabæ, Margrét Þ. Hansen, kt. 121018-1019, Klokkestöbergade 23, Slagelse, Danmörku, Sigríður Inga Þorkelsdóttir, kt. 080830-6459, Engjavegi 21, Ísafirði og Sigurður Þorkelsson, kt. 280224-4219, Kjarrhólma 22, Kópavogi.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní sl. með bréfi Kristins Bjarnasonar hrl., skipaðs skiptastjóra í dánarbúi Svövu Aradóttur, kt. 070313-5299, sem lést 24. september 2000. Það var tekið til úrskurðar 29. nóvember sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Sóknaraðilar krefjast þess, að allar eignir, sem nú eru til skipta eftir andlát Svövu Aradóttur gangi til erfingja hennar. Þá krefjast sóknaraðilar, að varnaraðilum verði gert að greiða þeim óskipt málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðilar krefjast þess, að eignum óskipts dánarbús hjónanna Sigurpáls Marinós Þorkelssonar, kt. 270214-4959, og Svövu Aradóttur verði skipt að jöfnu milli erfingja hvors þeirra um sig samkvæmt 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962, með síðari breytingum. Þá krefjast varnaraðilar, að sóknaraðilum verði gert að greiða þeim óskipt málskostnað að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Málsatvik eru þessi: Svava Aradóttir andaðist hinn 24. september 2000. Eiginmaður hennar var Sigurpáll Marinó Þorkelsson. Hann lést 3. janúar 1996. Þau gerðu með sér gagnkvæma erfðaskrá, sem þau dagsettu og undirrituð í viðurvist notarius publicus hinn 10. nóvember 1975. Erfðaskráin er að efni til svohljóðandi:
,,Við undirrituð hjón, Svava Aradóttir, fædd 7.3.1913, nnr. 8641-5240 og Sigurpáll Marinó Þorkelsson, fæddur 17.2. 1914, nafnnr. 8038-4785, bæði til heimilis í Birkimel 10B, Reykjavík, sem ekki eigum líferfingja, gerum hér með svofellda ráðstöfun um eignir okkar eftir okkar dag. 1. gr. Það okkar, sem lengur lifir, skal taka allan arf eftir hitt sem fyrr deyr, í föstu og lausu og hverju nafni sem nefnist."
Í 2. gr. erfðaskrárinnar segir, að þau geri erfðaskrána í viðurvist notarius publicus í Reykjavík. Neðan við undirskriftir þeirra hjóna er arfleiðsluvottorð notarius publicus.
Svava heitin tók ein arf eftir Sigurpál við andlát hans. Í erfðafjárskýrslu, sem dagsett er 23. janúar 1996 og Svava undirritar, er erfðaskrár þeirra hjóna í engu getið.
Fyrir liggur í málinu yfirlýsing Svövu Aradóttur, sem ber yfirskriftina ,,Viljayfirlýsing". Hún er svohljóðandi:
,,Ég undirrituð Svava Aradóttir, kt. 070313-5299 til heimilis að Aflagranda 40 í Reykjavík, geri hér með eftirfarandi
viljayfirlýsingu:
Það er mín ósk að við andlát mitt sjái frænka mín Sólrún Helgadóttir, kt. 280633-0039, til heimilis að Sólheimum 40 í Reykjavík, um jarðaför mína, greiði alla reikninga og geri allt það sem þarf að gera vegna eigna minna, eftir minn dag samkvæmt erfðskrá. Jarðaför mína vil ég láta fara fram í kyrrþey. Viljayfirlýsingu þessa undirrita ég í dag 27. 02. 1997 að Aflagranda 40 í Reykjavík, að viðstöddum tveimur vottum."
Vottar að undirritun Svövu heitinnar voru Ragnheiður Sigurðardóttir, kt. 041232-2429 og Magnea Jónína Magnúsdóttir, kt. 150712-4919.
Engar aðrar skjallegar heimildir liggja fyrir um tilurð erfðaskrárinnar eða tilgang hjónanna Svövu og Sigurpáls með gerð erfðaskrárinnar.
Ágreiningur málsaðila felst í því, að sóknaraðilar telja sig vera erfingja allra eigna hjónanna Svövu og Sigurpáls, þar sem Svava hafi með umræddri erfðaskrá eignast allar eignir Sigurpáls, en varnaraðilar krefjast þess, að eignir dánarbús Svövu skiptist að jöfnu milli lögerfingja hvors þeirra um sig.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum og telja jafnframt að 6. gr. erfðalaga eigi ekki við í þessu tilviki. Svava Aradóttir hafi ekki verið einkalögerfingi Sigurpáls í þá veru, að 6. gr. eigi við, þar sem ákveðið sé í gagnkvæmri erfðaskrá þeirra hjóna, að það þeirra, sem lengur lifi, skuli taka allan arf. Sóknaraðilar vísa til túlkunar íslenskra fræðimanna á 6. gr. erfðalaga til stuðnings málstað sínum svo og til danskra fræðimanna á hliðstæðu ákvæði í dönsku erfðalögunum.
Sóknaraðilar vísa til fræðiritsins Erfðaréttur eftir Ármann Snævarr til stuðnings málstað þeirra, en bókinni segi svo í umfjöllun um 6. gr. erfðalaga bls. 124 að ,,reglur 6. gr. eru lögerfðareglur, er víkja fyrir erfðagerningi". Einnig vísa sóknaraðilar til bls. 125 í sama riti, en þar segi svo: ,,Ákvæði 6. gr. á með vissu ekki við ef hið langlífara tekur við arfi í skjóli erfðaskrár, sbr. einkum gagnkvæma erfðaskrá, enda tekur hann þá ekki arf sem lögerfingi til hlítar."
Hliðstætt ákvæði í 2. kafla dönsku erfðalaganna hafi verið túlkað þannig af dönskum fræðimönnum, að því verði aðeins beitt, ef hið langlífara hafi tekið við arfi sem lögerfingi. Á hinn bóginn verði ákvæðinu ekki beitt, þegar eftirlifandi maki taki allan arf eftir hið skammlífara, samkvæmt erfðaskrá. Þá renni allar eigur við lát langlífari maka til erfingja hans að dönskum rétti. Sóknaraðilar vísa til dansks dóms þessu til stuðnings, sem finna megi í U 1967 V bls. 136. Þar hafi sakarefnið verið algjörlega hliðstætt því, sem hér sé til úrlausnar. Dómurinn hafi hafnað kröfu erfingja hins skammlífari um helmingaskipti. Þá vísar sóknaraðili til dönsku fræðimannanna Jörgens Nörgaards , Svends Danielsens og Finns Jensens og tilgreinir rit þeirra og blaðsíður, sem tilvísanir megi finna, sem hann byggi á.
Sóknaraðilar vísa einnig til þess, að Svava Aradóttir muni hafa talið sig taka arf eftir Sigurpál á grundvelli erfðaskrárinnar, sem hún taldi vera enn í fullu gildi, sbr. yfirlýsingu hennar dags. 27. febrúar 1997. Við gerð yfirlýsingarinnar hafi hún enn fremur talið að allar eignir ættu að renna til erfingja hennar á grundvelli erfðaskrárinnar. Hún hafi því falið Sólrúnu frænku sinni, að annast um jarðaför sína, greiðslu reikninga og ráðstafanir vegna eigna. Sóknaraðilar vísa einnig til þess, að erfðaskráin hafi verið skráð hjá Sýslumanninum í Reykjavík, þar sem skipti hafi átt sér stað eftir andlát Sigurpáls og hafi því vafalítið legið frammi við afgreiðslu erfðafjárskýrslu. Ekkert sé skráð í erfðafjárskýrslu um arfsflokk, sem bendi til þess, að sá, sem skýrsluna gerði, hafi talið, að Svava tæki arf á grundvelli erfðaskrárinnar.
Samandregið vísa sóknaraðilar til 3. mgr. 3. gr. erfðalaga, túlkunar fræðimanna á 6. gr. erfðalaga og á hliðstæðu ákvæði í dönsku erfðalögunum. Einnig vísa þeir til danskrar dómvenju. Málskostnaðarkröfu sína styðja sóknaraðilar við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðilar mótmæla kröfum sóknaraðila og styðja þau mótmæli eftirfarandi rökum:
Í fyrsta lagi, að ákvæði 3. gr. erfðalaga hafi verið orðuð með öðrum hætti, þegar erfðaskráin var gerð. Þá gildandi 3. gr. erfðalaga hafi verið orðuð svo: "Ef arfleifandi á enga niðja á lífi, tekur maki 2/3 hluta arfs, en foreldrar hins látna 1/3 hluta að jöfnu. Nú er annað foreldri látið, og hverfur þá hlutur sá, sem því hefði borið, til hins foreldrisins. Ef báðir foreldrar eru látnir tekur maki allan arf."
Jóhanna M. Kristjánsdóttir móðir Sigurpáls hafi verið á lífi, þegar erfðaskráin var gerð. Hún sé fædd árið 1892 og hafi látist 11. desember 1986. Varnaraðilar telja því augljóst, að eini tilgangur með gerð erfðaskrárinnar hafi verið sá að koma í veg fyrir að móðir Sigurpáls tæki arf eftir hann, ef svo færi að hann andaðist á undan móður sinni. Hvorki sóknaraðilar eða aðrir hafi bent á nokkrar ástæður fyrir því að meintur vilji Sigurpáls og Svövu heitinnar hafi verið sá við gerð erfðaskrárinnar að gera lögerfingja annars hvors þeirra arflausa. Sú niðurstaða sé einnig afar ósanngjörn í garð erfingja Sigurpáls.
Með setningu laga nr. 48/1989, sbr. 1. gr. þeirra, hafi erfðalögum verið breytt þannig, að erfðaréttur maka ryddi út erfðarétti foreldra. Þar með hafi verið óþarfi að tryggja rétt langlífari maka gegn skiptum við lát hins skammlífara.
Þá benda varnaraðilar á, að Sigurpáll hafi alla tíð verið fyrirvinna heimilis þeirra Svövu og haldið alla tíð nánu og góðu sambandi við systkini sín og ættmenni öll. Því sé fráleitt að ætla að hann hafi haft í hyggju með gerð erfðaskrárinnar að afsala sér og sínum ættmennum afrakstri ævistarfs síns, sérstaklega án þess að taka neitt fram um það í erfðaskránni.
Varnaraðilar benda einnig á það, að í orðalagi erfðaskrárinnar felist í raun aðeins staðfesting á því lögbundna réttarástandi, sem 3. og 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962, með síðari breytingum, höfðu í för með sér, þ.e. að langlífari maki tæki arf eftir þann skammlífari þar sem þau áttu enga niðja á lífi en að eftir lát hins langlífari bæri að skipta eignum á milli erfingja hvors um sig. Ef breyta hefði átt arfstilkalli og réttarstöðu erfingja hins skammlífara hefði borið að taka það skýrt fram í erfðaskránni. Það hafi þau hjón ekki gert, enda hafi ekki verið tilgangurinn með gerð hennar.
Í þessu sambandi benda varnaraðilar á, að túlka beri 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962 í samræmi við vilja arfleifanda, samkvæmt þeim grunnsjónarmiðum sem búi að baki. Arfleiðsluviljinn ráði úrslitum um þýðingu erfðaskrár. Hafi það verið orðað svo, að viljakenningin ráði ríkjum í erfðarétti með líkum hætti og traustkenningin í fjármunarétti. Þá sé það viðurkennt skýringarviðhorf að túlka orð erfðaskráa til samræmis við það réttarástand, sem ríki, þegar erfðaskrá sé gerð. Jafnframt sé það föst venja við skýringu erfðaskrár að túlka orðalag hennar til samræmis við það réttarástand sem ríki, þegar hún sé samin og undirrituð, hafi réttarástand breyst í kjölfar lagabreytinga.
Í öðru lagi mótmæla varnaraðilar því, að hin svo kallaða viljayfirlýsing Svövu heitinnar frá 27. febrúar 1997 hafi sjálfstæða þýðingu við úrlausn málsins. Viljayfirlýsingin virðist hafa þann tilgang fyrst og fremst að tilgreina þann aðila, sem átt hafi að annast um greiðslu reikninga o.fl. eftir andlát Svövu, auk þess sem látin sé í ljós ósk um, að jarðaför Svövu fari fram í kyrrþey. Í engu sé útskýrt, hver hafi verið raunveruleg þýðing erfðaskrárinnar frá 10. nóvember 1975, eða hafi átt að vera.
Í þriðja lagi benda varnaraðilar á, að Svava sjálf hafi ekki litið svo á við andlát Sigurpáls, að henni bæri arfur eftir hann á grundvelli erfðaskrárinnar. Því sé fullyrðingum sóknaraðila í aðra átt mótmælt. Einnig sé mótmælt útlistun sóknaraðila á erfðafjárskýrslu, dags. 23. janúar 1996. Staðreynd málsins sé sú, að skiptum eftir Sigurpál heitinn hafi ekki verið lokið með gerð erfðafjárskýrslunnar, eins og hún sjálf beri með sér. Í skýrslunni sé þess ekki getið, að skiptagjald hafi verið greitt, eins og átt hefði að gera, væri verið að ljúka skiptum eftir Sigurpál. Þá komi fram á yfirliti Sýslumannsins í Reykjavík um framvindu skipta eftir Svövu heitna, að hún sé sögð sitja í óskiptu búi. Ljóst sé af þessu að æðsti yfirmaður skiptamálefna í Reykjavík hafi ekki álitið, að skiptum eftir Sigurpál hafi verið lokið, hvorki með gerð ofangreindrar erfðafjárskýrslu né á annan hátt.
Varnaraðilar krefjast þess með vísan til framanritaðs, að eignum dánarbúa Sigurpáls og Svövu heitinna verði skipt milli erfingja beggja í samræmi við 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Niðurstaða:
Erfðaskrá hjónanna Svövu og Sigurpáls segir það eitt, að það þeirra sem lengur lifir skuli vera einkaerfingi hins. Erfðaskráin segir ekkert um það, hvert eignir þeirra skuli renna við lát þess langlífara. Ljóst er, að Svava heitin varð eigandi allra eigna þeirra hjóna við fráfall Sigurpáls og hafði heimild til að ráðstafa þeim að vild með gerningi í lifanda lífi, eða með erfðaskrá, ef hún kysi að hafa þann háttinn á.
Við túlkun erfðaskrárinnar verður á hinn bóginn, að mati dómsins, að líta til aðstæðna og gildandi erfðalaga, þegar erfðaskráin var gerð. Hvaða þörf lá til gerðar hennar og hvaða hagsmunum og lagalegu aðstæðum henni var ætlað mæta.
Þegar erfðaskráin var gerð, voru erfðalög með þeim hætti, eins og varnaraðilar benda á, að foreldrar skammlífari maka erfðu þriðjung af búshluta hans á móti eftirlifandi maka í barnlausum hjónaböndum, sbr. 1. mgr. 3. gr. erfðalaga.
Móðir Sigurpáls var á lífi, þegar erfðaskráin var gerð og því verður að ætla, að tilgangur erfðaskrárinnar hafi fyrst og fremst verið sá að tryggja, að Svava heitin sæti ein að öllum sameiginlegum eignum þeirra hjóna, ef Sigurpáll andaðist meðan móðir hans var enn lífs.
Ákvæði 1. mgr. 3. gr. erfðalaga var breytt með lögum nr. 48/1989 og er nú svohljóðandi: ,,Ef arfleifandi á enga niðja á lífi tekur maki allan arf."
Eftir þessa lagabreytingu hafði erfðaskráin engan raunverulegan tilgang. Ósennilegt þykir, að þau hjón, Svava og Sigurpáll, hafi ætlað að láta þá hendingu eina ráða, hvert arfur eftir þau félli, hvort þeirra myndi fyrr deyja. Engar upplýsingar liggja fyrir um það í málinu. Því síður eru heimildir um það, að hugur Sigurpáls hafi staðið til þess að svipta systkini sín eða börn þeirra arfi eftir sig.
Þær systur Hansína og Jóhanna Þorkelsdætur báru það fyrir dóminum, að samband Sigurpáls við systkini sín hafi verið mjög eðlilegt og kært hafi verið með þeim systkinum. Samband hafi verið mismikið frá einu systkini til annars, en þau hafi verið þrettán alls.
Vitnið Sólrún Helgadóttir, sem vísað er til í yfirlýsingu Svövu heitinnar frá 27. febrúar 1997, greindi dóminum frá því, að hún hafi að beiðni Svövu leitað eftir upplýsingum um það hjá skiptaráðanda, hvort Svava hefði heimild til að ráðstafa eignum búsins með erfðaskrá, því að hún hefði í hyggju að arfleiða einhverja góðgerðarstofnun að eignum sínum a.m.k. íbúð sinni. Ekkert hafi þó orðið af þessum fyrirætlunum, því að Svava hefði ekki getað gert upp við sig, til hvaða stofnunar eignir hennar skyldu renna. Sólrún kvað þau Svövu og Sigurpál ekki hafa haft mikið samband við systkini Sigurpáls, helst við þær Hansínu og Jóhönnu. Sama hafi átt við um skyldmenni Svövu.
Í yfirlýsingu Svövu heitinnar er vísað til erfðaskrár, sem Sólrún skyldi sjá um að koma í framkvæmd. Það kann að hafa verið sú erfðaskrá, sem Svava hugðist gera, en kom aldrei í verk.
Af vætti Sólrúnar Helgadóttur má ráða, að Svava heitin var í vafa um rétt sinn til ráðstöfunar á eignum sínum með erfðaská eða með öðrum hætti. Þá ályktun má af þessu draga að ekki hafi komið til tals milli þeirra hjóna Svövu og Sigurpáls, að erfingjar hins skammlífari yrðu sviptir erfðarétti við gerð erfðaskrárinnar og það þeirra, sem lengur lifði hefði óskert forráð sameiginlegra eigna þeirra.
Því þykir rétt, eins og hér stendur á, að skýra umrædda erfðaskrá, þannig að henni hafi ekki verið ætlað að svipta erfingja skammlífari maka, þ.e. varnaraðila öllum arfi. Til þess að svo mætti verða, hefði þurft að taka af öll tvímæli á skýran og ótvíræðan hátt í erfðaskránni sjálfri.
Það er því niðurstaða dómsins, að dánarbúi hjónanna Sigurpáls Þorkelssonar og Svövu Aradóttur skuli skipt að jöfnu milli erfingja hvors þeirra um sig samkvæmt 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum.
Rétt þykir, að hvorir málsaðila um sig beri kostnað af málarekstri þessum, enda er hér um að ræða ágreining, sem ekki hefur fyrr komið til kasta dómstóla og réttaróvissa ríkir um, sbr. 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Skipta skal dánarbúi Sigurpáls Þorkelssonar og Svövu Aradóttur að jöfnu milli erfingja hvor þeirra um sig samkvæmt 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum.
Málskostnaður fellur niður.