Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-62
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Kröfugerð
- Frávísun
- Endurgreiðsla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 26. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 141/2024: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta varðar kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að gagnaðila sé skylt að endurgreiða honum að fullu þann kostnað sem hann hafi borið af fæði starfsmanna gagnaðila við veitingu gagnaðila á stoðþjónustu til sín á grundvelli 8. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Í úrskurði Landsréttar segir að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geti aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína. Af d-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga leiði að kröfugerð í slíkri málsókn verði að taka til viðurkenningar á tilteknum réttindum og þar með að dómsniðurstaða um hana feli í sér að ráðið sé til lykta ágreiningi um þau. Þótt krafa leyfisbeiðanda yrði tekin til greina fæli sú niðurstaða ekki í sér að ráðið hefði verið til lykta ágreiningi um þau réttindi sem leyfisbeiðandi taldi sig njóta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga nr. 38/2018, enda mætti ljóst vera að eftir sem áður yrði deilt um inntak og afmörkun greiðsluskyldu gagnaðila. Með hliðsjón af framangreindu taldi Landsréttur málatilbúnaðinn ekki fullnægja áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur í því tilliti að málatilbúnaður hans fullnægi ekki áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hann telur að af úrskurðinum leiði að ákvæðið standi því í vegi að leitað sé viðurkenningar á skaðabótaskyldu án þess að leyst sé samhliða úr ágreiningi um fjárhæð bóta. Sú forsenda úrskurðarins sé bersýnilega röng og á skjön við fjöldamarga dóma Hæstaréttar. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að úrlausn um kæruefnið hafi fordæmisgildi um 2. mgr. 25. gr. og d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 í ljósi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í því sambandi vísar hann til þess að úrskurður héraðsdóms hafi verið kveðinn upp að kröfu gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 en þrátt fyrir það hafi niðurstaðan ekki byggst á þeim málsástæðum sem gagnaðili tefldi fram heldur atriðum sem hvorugur aðila hafði vísað til þar fyrir rétti. Úrskurður Landsréttar sé háður sömu annmörkum og reistur á málsástæðu um óljósa og óákveðna kröfugerð sem gagnaðili byggði ekki á. Niðurstaða Landsréttar sé því ófyrirsjáanleg og leiði til þess að réttur leyfisbeiðanda til aðgangs að dómstólum hafi ekki orðið raunhæfur og virkur við meðferð málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 3. málslið 3. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.