Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/2008
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Einkahlutafélag
- Prókúra
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2009. |
|
Nr. 202/2008: |
Rektor ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn MP Banka hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) og gagnsök |
Verðbréfaviðskipti. Einkahlutafélög. Prókúra. Skaðabætur.
Framkvæmdastjóri R ehf. gerði fyrir hönd félagsins 14 afleiðusamninga, svokallaða skiptasamninga, við M hf. og afhenti að handveði innstæðu bankareiknings. R ehf. hagnaðist við uppgjör sumra samninganna en tapaði á öðrum og varð tapið mun meira en hagnaðurinn. R ehf. stefndi M hf. og krafðist endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem M hf. hafði skuldfært af viðskiptareikningi félagsins þar sem það taldi skiptasamningana vera ógilda og óskuldbindandi fyrir sig, en undirskrift bæði framkvæmdarstjóra og stjórnarmanns félagsins hafi þurft til að skuldbinda félagið. Talið var að viðskiptamönnum R ehf. hafi verið rétt að líta svo á að afleiðuviðskipti með hlutabréf féllu undir þá almennu skilgreiningu á tilgangi félagsins sem lýst var í tilkynningu til hlutafélagaskrár. Ekki komi fram í samþykktum félagsins að stjórnarmaður og framkvæmdastjóri skuldbindi félagið í sameiningu. Prókúruumboð framkvæmdastjóra R ehf. hafi ekki verið takmörkunum háð og hann hafi því getað skuldbundið félagið. Þá var litið svo á að viðskipti R ehf. og M hf. hafi verið viðvarandi og því hafi borið að gera skriflegan samning um þau, sbr. 1. mgr. 7. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Ekki hafi þó komið að sök að það hafi ekki verið gert enda hafi R ehf. ekki bent á neitt sem leitt hafi til tjóns fyrir það og rekja hafi mátt til þess að samningurinn hafi ekki verið gerður. Var M hf. því sýknað af kröfum R ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2008 og krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 56.816.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 4. maí 2006 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. júní 2008. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var nafni gagnáfrýjanda breytt í MP Banki hf.
I
Bræðurnir Óskar og Guðjón Sverrir Rafnssynir stofnuðu aðaláfrýjanda 16. desember 2005 og áttu félagið að jöfnu. Varð sá fyrrnefndi eini stjórnarmaður félagsins, en sá síðarnefndi framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn. Hlutafé var 500.000 krónur. Í tilkynningu þeirra fyrrnefndan dag til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins kom meðal annars fram að tilgangur þess væri „kaup og sala verðbréfa, rekstur og útleiga fasteigna, svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur.“
Framkvæmdastjórinn undirritaði 20. desember 2005 yfirlýsingu fyrir hönd aðaláfrýjanda, þar sem hann afhenti gagnáfrýjanda að handveði „ ... neðangreind verðbréf eða reiðufé. Inneign, sem myndast vegna viðskipta veðsala hjá eða við MPF og lögð er inn á bankareikning veðsala hjá MPF, afhendir veðsali einnig að handveði.“ Var síðan tiltekið að veðið væri innstæða á bankareikningi nr. 0303-26-53570. Síðar í sömu yfirlýsingu sagði: „Veðsali lýsir því yfir að það, sem sett er að handveði með yfirlýsingu þessari, er að öllu leyti kvaðalaus eign veðsala og á því hvíla engin veðbönd eða fyrirvarar um eignarrétt MPF eða annarra.“ Sama dag gerði framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda hinn fyrsta af samtals fjórtán skiptasamningum við gagnáfrýjanda, en slíkir samningar töldust til svokallaðra afleiðusamninga samkvæmt b. lið 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Þá lagði stjórnarmaður aðaláfrýjanda sama dag og þann næsta samtals 50.000.000 krónur inn á reikning gagnáfrýjanda hjá Kaupþingi hf., en hluti fjárins, 35.000.000 krónur, kom af bankareikningi einkahlutafélags stjórnarmannsins. Í héraðsdómi er nánar greint frá skiptasamningum málsaðila, en hinn síðasti þeirra mun hafa verið gerður 11. maí 2006. Aðaláfrýjandi hagnaðist við uppgjör sumra þeirra, en tapaði á öðrum og varð tapið í heild mun meira en hagnaðurinn. Viðskiptunum lauk endanlega í júní 2006 og hafði gagnáfrýjandi þá fært verulegar fjárhæðir af hinum veðsetta bankareikningi. Með því taldi gagnáfrýjandi að komið væri í skil lántökum aðaláfrýjanda til hlutabréfakaupa, þóknun hins fyrrnefnda vegna viðskiptanna og tapi hins síðarnefnda vegna lækkunar á gengi keyptra hlutabréfa á lánstímanum.
II
Báðir hluthafarnir í aðaláfrýjanda gáfu skýrslu fyrir dómi og greindu meðal annars frá aðdraganda að stofnun félagsins. Guðjón Sverrir Rafnsson kvaðst hafa sinnt hlutabréfaviðskiptum á árinu 2005 og gengið mjög vel. Hagnaður hans í árslok hafi jafnvel numið 100.000.000 krónum. Nánar aðspurður um hlutabréfaviðskipti sín á árinu 2005 svaraði hann játandi þeirri spurningu hvort skiptasamningar hans á því ári geti hafa verið nítján talsins og kvað hann sér hafa verið vel ljóst út á hvað slíkir samningar gengju. Hann hafi skýrt Óskari bróður sínum frá velgengi sinni og þeir síðan ákveðið að stofna fjárfestingafélag, sem Guðjón Sverrir myndi sjá um að stjórna. Þeir bræður hafi rætt um að félagið skyldi aðallega leggja stund á kaup og sölu hlutabréfa. Frumkvæði að gerð einstakra skiptasamninga hafi jafnan komið frá honum sjálfum og gagnáfrýjandi aldrei gert neitt annað en það sem hann var beðinn um. Þá kvaðst hann hafa haft nokkuð frjálsar hendur um reksturinn, en Óskar hafi lítið fylgst með honum. Sá síðarnefndi hafi einungis spurt hvernig reksturinn gengi og fengið það svar að hann gengi vel. Aldrei hafi borið á góma milli þeirra að framkvæmdastjórinn gerði skiptasamninga við gagnáfrýjanda og hann hafi ekki heldur skýrt Óskari frá veðsetningu bankareikningsins, sem áður var getið, en 50.000.000 krónur voru lagðar inn á hann 21. desember 2005.
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað Óskar Rafnsson velgengni bróður hans í viðskiptum á árinu 2005 hafa verið kveikjuna að stofnun aðaláfrýjanda „þannig að ég vildi taka þátt í slagnum og við ákváðum að stofna Rektor um kaup á hlutabréfum.“ Hann hafi á því tímamarki haft samband við starfsmann gagnáfrýjanda og einnig þegar áðurnefnt fé var lagt inn á bankareikning, sem hann hafi talið vera reikning aðaláfrýjanda hjá gagnáfrýjanda, en engin samskipti orðið milli þeirra eftir það fyrr en í júní 2006. Þá kvaðst hann hafa látið framkvæmdastjóranum algerlega eftir að stjórna aðaláfrýjanda, en talið að hann fengist við að kaupa hlutabréf. Ekki hafi verið leitað eftir samþykki hans sem stjórnarmanns til að gera skuldbindandi samninga við gagnáfrýjanda og hann ekki heldur samþykkt né verið kunnugt um að fé á bankareikningi hafi verið sett að veði til tryggingar skuldbindingum aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda. Hann hafi ekkert verið að „pæla í“ hvað framkvæmdastjórinn var að gera og gæti viðurkennt að eftirlit af sinni hálfu hafi ekki verið nógu gott.
Endurskoðandi aðaláfrýjanda, Ómar Davíðsson, gaf skýrslu fyrir dómi, en hann var einnig endurskoðandi áðurnefnds einkahlutafélags Óskars Rafnssonar. Hann kvaðst hafa séð um gerð stofnskjala fyrir aðaláfrýjanda og gert þá tillögu um fyrirkomulag við að rita firmað, sem þar komi fram. Því hafi „báðir stjórnarmenn“ þurft að standa að því. Aðspurður um hvort hann hafi leitt hugann að því að félagið myndi gera afleiðusamninga svaraði hann til að honum hafi flogið í hug „alls konar viðskipti en ég vildi hins vegar ekki að Óskar tæki þátt í þannig viðskiptum. Þess vegna setti ég þá báða inn þannig að Óskar hefði um alla ráðstöfun peninga að segja.“ Ekki hafi þó verið rætt um hvort afleiðuviðskipti yrðu stunduð og ekki heldur hvernig aðaláfrýjandi skyldi endurgreiða lánið frá Óskari og einkahlutafélagi hans.
III
Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á því að allir skiptasamningarnir, sem gerðir voru í hans nafni við gagnáfrýjanda, séu ógildir og óskuldbindandi fyrir sig. Samþykktir aðaláfrýjanda áskilji undirritun bæði stjórnarmanns og framkvæmdastjóra á löggerninga, sem skuldbinda eigi félagið, og í tilkynningu til hlutafélagaskrár komi skýrt fram hverjir hafi heimild til að rita firma þess. Framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda hafi ritað einn undir áðurnefnda skiptasamninga, sem ekki sé fullnægjandi til að skuldbinda félagið. Hann hafi hvorki haft stöðuumboð til þess né getað gert samningana í skjóli prókúruumboðs síns, sem hafi verið takmarkað þannig að undirskrift bæði framkvæmdastjóra og stjórnarmanns hafi þurft til að rita firmað.
Samkvæmt tilkynningu aðaláfrýjanda til hlutafélagaskrár var tilgangur félagsins sem áður segir „kaup og sala verðbréfa ... svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur.“ Afleiðuviðskipti með hlutabréf eru fjármálagerningar, sem falla undir þá almennu skilgreiningu á tilgangi félagsins sem þarna var lýst, en ekki eru efni til að líta svo á að tíðkað sé að hafa lýsingu á tilgangi um verðbréfaviðskipti nákvæmari en var í þessu tilviki. Viðskiptamönnum aðaláfrýjanda var því rétt að líta svo á að afleiðusamningar með hlutabréf rúmuðust innan þess tilgangs, sem starfsemi félagsins tók til.
Í 16. gr. samþykkta fyrir aðaláfrýjanda segir að undirskrift „stjórnarformanns“ og framkvæmdastjóra skuldbindi félagið. Með þessum orðum er ekki sagt að þetta hlutverk sé á hendi stjórnarmannsins og framkvæmdastjórans í sameiningu. Að því er varðar prókúruumboð, sem aðaláfrýjandi hefur veitt, eru stjórnarmaðurinn og framkvæmdastjórinn taldir upp hvor í sínu lagi sem prókúruhafar í tilkynningu til hlutafélagaskrár en tekið fram að þeir skuldbindi báðir félagið. Í svokallaðri stofngerð 16. desember 2005 eru sömu menn taldir upp hvor um sig sem handhafar prókúru. Orðalag þessara skjala ber ekki með sér að þeir fari í sameiningu með prókúruumboð fyrir aðaláfrýjanda, en slíka takmörkun á prókúruumboði hefði þurft að taka fram með ótvíræðum hætti, enda væri þá um að ræða óvenjulega ráðstöfun. Gildir einu þótt stefnt kunni að hafa verið að því af hálfu þess manns, sem bar fyrir dómi að hafa útbúið stofnskjöl fyrir aðaláfrýjanda. Verður samkvæmt því litið svo á að engin takmörkun hafi verið gerð á prókúruumboði hvors um sig. Í 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð kemur fram að sá, sem veitt er prókúruumboð, hafi vald til fyrir umbjóðanda sinn að annast allt það, sem snertir rekstur atvinnu hans og rita firmað, en þó ekki að selja eða veðsetja fasteignir umbjóðanda síns. Samningar framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda höfðu að geyma mikilvægar ráðstafanir. Það eitt takmarkar þó ekki sjálfkrafa prókúruumboð þess fyrstnefnda. Ræður þá úrslitum að umboðið er víðtækt og að löggerningar framkvæmdastjórans rúmuðust innan tilgangsins, sem starfsemi aðaláfrýjanda var mörkuð, og snertu rekstur atvinnu hans í merkingu áðurnefnds lagaákvæðis, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 141/1996 í dómasafni réttarins 1996, bls. 4228. Verður samkvæmt því hafnað málsástæðu aðaláfrýjanda, sem á þessu er reist.
IV
Skiptasamningar málsaðila, sem gerðir voru á stöðluð samningseyðublöð, hafa að geyma svofellt ákvæði í grein 2.4.: „Samningur þessi verður við undirskrift eða gildistöku með öðrum hætti sjálfstæður hluti rammasamnings aðila um skiptasamninga, sem vísað er til í númeri viðskiptamanns.“ Óumdeilt er að tilvitnaður rammasamningur hafi aldrei verið gerður milli aðilanna. Aðaláfrýjandi heldur fram að skírskotun til rammasamnings, sem ekki sé til, geri skiptasamningana ófullburða að efni til og fullnægi þeir því ekki lágmarkskröfum, sem gera verði til slíkra gerninga. Það feli í sér brot á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003, þar sem mælt hafi verið fyrir um gerð skriflegs samnings milli fjármálafyrirtækis og viðskiptavinar ef það tæki að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, sem fæli í sér viðvarandi viðskiptasamband svo sem eignastýringu, en í slíkum samningi skyldi meðal annars kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Brot gagnáfrýjanda á þessum lagafyrirmælum valdi því að hann geti ekki byggt rétt á skiptasamningum við aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi mótmælir því að þetta skipti máli og ennfremur að viðskipti aðila geti talist hafa verið viðvarandi í merkingu þessa lagaákvæðis.
Við gerð fyrsta skiptasamnings aðila hafði samdægurs verið gerður annar samningur um veðsetningu fjármuna á bankareikningi, sem fól í sér skýra ráðagerð um framhald viðskiptanna. Skiptasamningar aðila urðu fjórtán talsins á tæplega fimm mánuðum. Að þessu virtu og jafnframt eðli þessara samninga verður fallist á með aðaláfrýjanda að viðskipti aðila hafi verið viðvarandi í merkingu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003 og því hafi borið að gera skriflegan samning um þau. Kemur þá til úrlausnar hverju það varði að gagnáfrýjandi lét þetta undir höfuð leggjast.
Staðlað eyðublað fyrir slíkan samning gagnáfrýjanda við viðskiptamenn sína er meðal málskjala, en fyrirsögn hans er „Viðskiptaskilmálar og rammasamningur vegna skiptasamninga.“ Telur aðaláfrýjandi að greinar 3.1., 3.3. og 3.7. skipti einkum máli varðandi áðurgreinda málsástæðu hans. Samkvæmt þeirri fyrstnefndu á rammasamningurinn að gilda um alla skiptasamninga gagnáfrýjanda við viðskiptamenn sína, en í grein 3.3. segir að lögaðili, sem ekki hefur áður stofnað til viðskipta hjá gagnáfrýjanda, skuli leggja fram vottorð frá Hagstofu Íslands, dóms- og kirkjumálaráðuneyti eða sýslumanni um nafn (firma), kennitölu, lögheimili og starfsemi og hverjir hafi heimild til að skuldbinda lögaðilann gagnvart gagnáfrýjanda. Prókúruhafar hans skuli sanna á sér deili með framvísun persónuskilríkja. Samkvæmt grein 3.7. er viðskiptamanni heimilt að veita þriðja manni umboð til að gera skiptasamninga fyrir sína hönd, svo fremi umboðið sé skriflegt og fullnægjandi að mati gagnáfrýjanda. Þar segir einnig meðal annars að umboðið skuli hafa að geyma rithandarsýnishorn umboðsmanns og ef viðskiptamaður sé lögaðili skuli umboðið staðfest af stjórn hans.
Síðastnefnt ákvæði samningsskilmála gagnáfrýjanda fjallar um þá aðstöðu þegar viðskiptamaður hefur veitt þriðja manni umboð til að gera skiptasamninga fyrir sína hönd og hvaða kröfur séu þá gerðar til umboðs. Þriðja manni var hér ekki veitt slíkt umboð, heldur gerði framkvæmdastjóri viðskiptamannsins skiptasamninga í krafti prókúruumboðs síns. Ákvæðið á ekki við og skiptir engu að þessu leyti að rammasamningur hafi ekki verið gerður milli aðila málsins. Grein 3.3. gæti að því leyti átt við að aðaláfrýjandi hafði ekki verið í viðskiptum áður hjá gagnáfrýjanda þótt framkvæmdastjóri hins fyrrnefnda hafi verið það. Gagnáfrýjanda var hins vegar fullkunnugt um þau atriði, sem aðaláfrýjanda bar samkvæmt ákvæðinu að greina honum frá. Kom þá ekki að sök þótt rammasamningur væri ekki gerður og upplýsingunum komið til gagnáfrýjanda fyrir tilstuðlan opinberra aðila. Þótt viðskiptahættir gagnáfrýjanda hefðu átt að vera vandaðri hefur aðaláfrýjandi ekki bent á neitt, sem leitt hafi til tjóns fyrir hann og rekja megi til þess að rammasamningur var ekki gerður. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi loks vísað til greinar 10.8. í áðurnefndum samningsskilmálum, en samkvæmt henni skal viðskiptamaður tilkynna gagnáfrýjanda skriflega ef einhverjir fjármunir, sem hann afhendir þeim síðarnefnda, eru ekki í eigu hans sjálfs. Í niðurlagi greinarinnar er tekið fram að þessi skylda sé til komin vegna ákvæða laga og reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti. Að því athuguðu og með því að fé, sem afhent var gagnáfrýjanda, átti rætur að rekja til peningaláns til aðaláfrýjanda og taldist þar með í eigu hans getur þetta ákvæði ekki komið til neinna álita í málinu.
Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. desember sl., var höfðað 9. nóvember 2006 af Rektor ehf., Stigahlíð 50, Reykjavík, gegn MP fjárfestingarbanka hf., Skipholti 50d, Reykjavík.
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi endurgreiði honum 56.816.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 26.453.308 krónum frá 4. maí 2006 til 10. maí s.á., af 38.628.727 krónum frá þeim degi til 12. maí s.á., af 35.985.070 krónum frá þeim degi til 19. júní s.á., af 52.826.387 krónum frá þeim degi til 20. júní 2006 og af 56.816.497 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Stefndi krefst málskostnaðar að mati dómsins.
Í stefnu krafðist stefnandi jafnframt að viðurkennt yrði með dómi að hann væri óskuldbundinn af 14 svonefndum skiptasamningum sem framkvæmdastjóri stefnanda hafi gert í heimildarleysi í nafni stefnanda við stefnda á tímabilinu 20. desember 2005 til 11. maí 2006. Fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi 10. apríl sl.
Með réttargæslustefnu 13. mars sl. var Guðjóni Sverri Rafnssyni stefnt af hálfu stefnda til réttargæslu og skorað á hann að láta málið til sín taka og gæta þar hagsmuna sinna. Réttargæslustefndi lagði fram aðilaskýrslu í málinu 10. apríl sl. Engar kröfur eru að öðru leyti gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir sjálfur engar kröfur í málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Málavextir eru aðallega þeir að bræðurnir Óskar og Guðjón Sverrir Rafnssynir stofnuðu stefnanda 16. desember 2005 og var sá fyrrnefndi stjórnarmaður þar en sá síðarnefndi varamaður í stjórn og framkvæmdastjóri. Hlutafé var 500.000 krónur en Óskar lagði til rekstrarfé í upphafi að fjárhæð 50.000.000 króna sem hann lagði inn á reikning í KB-banka í desember sama ár. Guðjón Sverrir sá um daglegan rekstur, en báðir höfðu prókúru hjá félaginu.
Guðjón Sverrir gerði nokkra skiptasamninga fyrir hönd stefnanda við stefnda á tímabilinu 20. desember 2005 til 11. maí 2006, en dagsetningar koma fram í yfirliti stefnanda hér á eftir. Í skiptasamningunum er kveðið á um kaup stefnanda á tilteknum hlutabréfum á ákveðnu gengi og lokadagur var ákveðinn fyrir fram, uppgjörsdagur skiptasamningsins. Stefndi veitti stefnanda lán til kaupanna, en til tryggingar greiðslu þeirra lagði stefnandi fram innistæðu á bankareikningnum í KB-banka og undirritaði framkvæmdastjóri stefnanda handveðsyfirlýsingu um það 20. desember 2005. Skiptasamningunum var lokað vorið 2006, en óumdeilt er að á þeim tíma hafi það verið mjög óhagstætt vegna þess að hlutabréfaverð hafi verið lágt. Af hálfu stefnda hefur því verið lýst að þróun á hlutabréfamarkaði hafi verið stefnanda óhagstæð þá um vorið og að viðskiptastaða stefnanda hjá stefnda hafi þá verið slæm. Stefndi hafi því kallað eftir frekari tryggingum, en fyrirsvarsmenn stefnanda hafi ekki látið þær í té. Samningunum hafi því verið lokað og viðskiptin gerð upp á óhagstæðum tíma.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að óheimilt hafi verið að gera umrædda skiptasamninga og því væru þeir óskuldbindandi fyrir stefnanda. Undirritun framkvæmdastjórans hafi ekki nægt til að skuldbinda stefnanda heldur þyrfti undirskrift tveggja, stjórnarformanns og varamanns í stjórn, eins og fram komi í samþykktum félagsins. Stefnandi krefst endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem stefndi hafi skuldfært af viðskiptareikningi stefnanda án heimildar stjórnar félagsins. Af hálfu stefnda er því haldið fram að framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft umboð til að gera þessa skiptasamninga, en hann hafi haft stöðuumboð hjá stefnanda og prókúru samkvæmt hlutafélagaskrá. Stefnandi sé því bundinn samkvæmt umræddum skiptasamningum og að stefnda hafi verið heimilt að taka út af reikningnum.
Af hálfu réttargæslustefnda hefur komið fram að hann hafi ekki haft mikla reynslu af viðskiptum eins og þeim sem hér um ræði. Hann hafi því treyst á ráðgjöf þeirra sem hann átti samskipti við hjá stefnda. Þegar gengið var frá samþykktum fyrir stefnanda hafi komið fram að bæði hann og Óskar þyrfti til að „skuldbinda félagið“, en hann hafi skilið það svo að það snerist um að gera meiri háttar formlega samninga. Gengið hafi verið frá hlutbréfakaupum í nafni stefnanda í gegnum síma og mjög óformlega og því hafi ekki hvarflað að honum að hann þyrfti sérstakt umboð til þess. Hann hafi líka talið víst að stefndi gætti þess að formið væri í lagi og að ekki væri verið að stofna til viðskipta sem einhver vafi gæti verið á að væru heimil. Yfirlit frá miðlara, sem hann hafi fengið öðru hvoru, hafi sýnt mikinn hagnað fram yfir miðjan febrúar en eftir það hafi hlutabréf farið að lækka. Þegar þetta hafi ekkert lagast hafi starfsmenn stefnda talað um í maí 2006 að setja þyrfti hærri tryggingar og um mánaðamótin á eftir gert kröfu um það. Þeir hafi beðið hann að koma og undirrita lokaða skiptasamninga en hann hefði ekki undirritað samninga hjá stefnda svo mánuðum skipti. Hann hafi ekki af ásettu ráði farið út fyrir umboð sitt hjá stefnanda. Starfsmenn stefnda hefðu aldrei krafist þess að hann kæmi með umboð frá stjórn stefnanda til að gera skiptasamninga, en hefði það verið gert hefði strax komið í ljós að stjórnarmaður stefnanda samþykkti ekki svona samninga.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að bræðurnir Óskar og Guðjón Sverrir hafi stofnað stefnanda 16. desember 2005. Hlutafé hafi verið 500.000 krónur. Óskar hafi verið kjörinn stjórnarmaður en Guðjón Sverrir varamaður í stjórn og ráðinn framkvæmdastjóri. Tilgangur félagsins hafi samkvæmt samþykktum þess verið „kaup og sala verðbréfa, rekstur og útleiga fasteigna, svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur“. Óskar hafi lagt félaginu til hluthafalán að fjárhæð 50 milljónir króna en Guðjón Sverrir skyldi annast daglegan rekstur félagsins. Félagið hafi verið skráð í hlutafélagaskrá 20. desember 2005 og upplýsingar þar um birtar samtímis á upplýsingavef Lánstrausts hf. þar sem m.a. komi fram að þeir tveir, stjórnarmaðurinn og varastjórnarmaðurinn, rituðu firma félagsins saman.
Formleg rekstraruppgjör hafi ekki verið lögð fram á fyrstu mánuðum starfseminnar, en framkvæmdastjórinn hafi tjáð stjórnarmanninum að reksturinn gengi þá vel. Hann hafi svo upplýst stjórnarmanninn 8. júní 2006 um að mjög hafi snúist á verri veg um rekstur félagsins og fjármunir þess, þ.m.t. fyrrnefnt hluthafalán, væri nærfellt uppurið í viðskiptum hans við stefnda. Stjórnarmaður stefnanda hafi þá þegar óskað eftir fundi með forsvarsmönnum stefnda til að kanna stöðu félagins. Sá fundur hafi verið haldinn 12. júní s.á. Þar hafi komið fram að framkvæmdastjóri stefnanda hafi gert nokkra umfangsmikla viðskiptasamninga við stefnda þar sem hann hafi skuldbundið stefnanda til að kaupa hlutabréf á nánar tilteknum dögum í framtíðinni gegn peningagreiðslu, sem svaraði til verðmætis umræddra hlutabréfa þegar samningurinn var gerður, auk viðskiptaþóknana og vaxta til handa stefnda. Umræddir samningar hafi orðið 14 talsins. Hefðu tíu þeirra þegar verið gerðir upp, en fjórir verið ennþá í gildi. Stefnt hafi í allnokkurt tap á uppgjörsdegi.
Til tryggingar framangreindum viðskiptum hafi framkvæmdastjóri stefnanda veðsett stefnda peningalegar eignir félagsins á reikningi í KB banka en í nafni stefnda. Hafi stefndi greitt hagnað af uppgjöri fimm samninga inn á þennan reikning, samtals 17.100.120 krónur. Tap hafi hins vegar þegar komið fram við uppgjör fimm annarra samninga, samtals 53.348.461 króna, og hafi sú fjárhæð þá þegar verið dregin af viðskiptareikningnum.
Stjórnarmaður stefnanda hafi þegar á þessum fundi upplýst að þessi staða kæmi honum mjög á óvart, því félagið yrði samkvæmt samþykktum sínum ekki skuldbundið nema með samþykki hans sjálfs, svo sem fram komi í samþykktum stefnanda. Hann hafi ekki vitað annað en að viðskipti stefnanda fælust í kaupum og sölu verðbréfa en ekki gerð stórfelldra lánasamninga og skuldbindinga um kaup á hlutabréfum fram í tímann. Þaðan af síður hafi hann samþykkt veðsamning um fjármuni félagsins eða heimild til handa stefnda til að taka út af reikningi félagsins fjármuni til að mæta tapi af gerð slíkra samninga. Hann hafi því hafnað að staðfesta umrædda samninga, enda hefði hann á engu stigi samþykkt gerð þeirra.
Í framhaldi af þessum fundi hafi stefndi gert upp fjóra áðurtalda samninga sem enn hafi verið í gildi. Tap af gerð þeirra hafi reynst vera 20.831.426 krónur sem stefndi hafi skuldfært af viðskiptareikningi stefnanda án nokkurrar heimildar stjórnar félagsins um samtals 56.816.497 krónur, umfram áðurtaldar 17.100.120 krónur, og sé það höfuðstóll stefnukröfunnar.
Með bréfi 22. júní s.á. hafi lögmaður stefnanda óskað eftir upplýsingum stefnda um það hvort hann teldi sig hafa haft tilskilið samþykki stjórnar félagsins fyrir viðskiptunum eða staðfestingu á heimild til handa framkvæmdastjóranum að binda félagið umræddum samningum. Jafnframt hafi verið óskað upplýsinga um það hvort stefndi gerði að jafnaði ekki kröfu um skriflegt samþykki meirihluta stjórnar hlutafélaga við skilmála um markaðsviðskipti, sem heimili svonefnd afleiðuviðskipti, áður en til slíkra viðskipta væri stofnað. Þá hafi verið gerður áskilnaður um endurheimtu þeirra fjármuna sem bankinn hefði skuldfært stefnanda fyrir og dregið af viðskiptareikningi. Lögmaður stefnda hafi svarað erindinu og hafnað því að nokkuð væri athugavert við umrædd viðskipti sem raskað gæti því að stefnandi væri bundinn af þeim.
Við nánari eftirgrennslan hafi hins vegar komið í ljós að enginn formlegur rammasamningur hefði verið gerður um þessi viðskipti, sem verklagsreglur stefnda áskilji þó, hvað þá að aflað væri staðfestingar á umboði framkvæmdastjóra stefnda sem krefjast beri samkvæmt sömu reglum. Þá hafi einnig verið leitt í ljós að form viðskiptanna hefði verið afar losaralegt; þau hefðu verið gerð um síma og fyrst eftir að stjórnarmaður stefnanda óskaði eftir fundi með stefnda, hafi stefndi boðað framkvæmdastjórann á sinn fund og fengið hann þar til að árita samningana eða að minnsta kosti stóran hluta þeirra. Nokkrar viðræður hafi farið fram milli stefnanda og stjórnenda stefnda, þar sem m.a. hafi verið leitað sátta, en þær hafi ekki skilað árangri og hafi stjórnarmaður stefnanda tekið ákvörðun um málssóknina.
Í dómkröfum stefnanda felist að eftirgreindir skiptasamningar, sem framkvæmdastjóri stefnanda hafi gert í heimildarleysi við stefnda, verði taldir óskuldbindandi fyrir stefnanda.
NR. Upphafsd. Fullnustud. tákn hlutabr. Mynt Nafnverð Fullnustuáhrif
1 20.12.05 3.05.06 LAIS ISK 3.200.000 -20.008.154 krónur
2 21.12.05 4.04.06 FL ISK 3.000.000 2.523.681 krónur
3 27.12.05 10.01.06 SNDK USD 9.700 5.863.703 krónur
4 4.01.06 3.04.06 AMD USD 19.000 -871.402 krónur
5 6.01.06 6.04.06 RHAT USD 16.200 -2.768.732 krónur
6 17.01.06 20.01.06 AVION ISK 256.335 1.580.222 krónur
7 24.01.06 3.04.06 VPC CN CAD 23.500 4.497.858 krónur
8 15.02.06 3.05.06 LAIS ISK 1.500.000 -17.270.484 krónur
9 6.04.06 11.05.06 RHAT USD 16.200 2.643.657 krónur
10 15.02.06 9.05.06 LAIS ISK 1.000.000 -12.175.419 krónur
11 9.05.06 19.06.06 VTSS USD 150.000 -3.990.109 krónur
12 8.05.06 16.06.06 SUF USD 23.700 -2.903.461 krónur
13 9.05.06 16.06.06 ANDE USD 2.400 -8.213.641 krónur
14 11.05.06 16.06.06 ADM USD 9.300 -5.724.215 krónur
-56.816.497 krónur.
Samtals áhrif af fullnustu ofangreindra samninga séu þar með -56.816.497 krónur.
Krafa um endurgreiðslu miðist við að stefndi endurgreiði stefnda þá fjármuni sem hann hafi dregið af reikningi stefnanda, sem hafi verið í vörslum stefnda og séu umfram það fé sem hann hafi greitt inn á reikninginn vegna hagnaðar af samningum. Stefnandi leggi þar með til grundvallar kröfu sinni að allir þeir samningar, sem gerðir hafi verið í hans nafni við stefnda, verði taldir honum óviðkomandi, óháð því hvort þeir voru taldir skila hagnaði eða tapi.
Dráttarvaxtakrafan miðist við að stefndi greiði vexti að því marki sem úttektir hans af reikningi stefnanda lækkuðu innistæðu hans niður fyrir 60.127.000 krónur, sem sé samtala þeirra fjármuna sem stefnandi hafi sjálfur haft yfir að ráða og lagði inn á umræddan viðskiptareikning.
Stefnandi byggi á því að hann sé óskuldbundinn af samningum sem um ræði, en hann hafi hvorki gert þá né veitt öðrum umboð til þess. Leiði þetta þegar af því að samþykktir stefnanda áskilji undirritun beggja stjórnarmanna, þ.e. aðal- og varamanns á löggerninga sem binda eigi félagið. Stefnandi hafi verið skráður með lögformlegum hætti hjá hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra 20. desember 2005. Í samræmi við áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga um verslunarskrá, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 komi skýrt fram í tilkynningu til hlutafélagaskrár hverjir hafi heimild til að rita firma félagsins. Samkvæmt 7. gr. laganna teljist það sem skrásett hefur verið samkvæmt lögunum og birt í Lögbirtingablaði, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005, kunnugt almenningi. Þetta gildi því fremur um þá sem atvinnu hafi af viðskiptum og geti stefnandi því ekki borið fyrir sig, að honum hafi verið ókunnugt um að firma stefnanda væri ritað af þeim tveimur, stjórnarmanninum og framkvæmdastjóranum. Þessar upplýsingar komi einnig fram á vef Lánstrausts hf. og því aðgengilegar frá skráningu stefnanda 20. desember 2005. Stefndi geti því ekki borið fyrir sig vankunnáttu um það hverjir máttu skuldbinda stefnanda. Undirritun framkvæmdastjóra stefnanda sé samkvæmt framansögðu ófullnægjandi til að skuldbinda stefnanda og því séu skiptasamningarnir óskuldbindandi.
Stefndi hafi hreyft þeirri málsástæðu að með því að kaup og sala verðbréfa hafi verið hluti af viðfangsefnum stefnanda samkvæmt samþykktum hans, þá sé gerð afleiðusamninga, á borð við þá sem deilt sé um í málinu, hluti af daglegum rekstri sem framkvæmdastjórinn hafi stöðuumboð til að annast. Stefnandi hafni þessari málsástæðu algerlega og segi fjarstæðu að stórfelldar lántökur samhliða skuldbindingu um kaup hlutabréfa á föstu gengi að ákveðnum tíma liðnum geti skoðast sem hluti af venjubundinni starfsemi lítils einkahlutafélags. Ákvæði samþykkta stefnanda um ritun firma félagsins hafi einmitt miðast við að tryggja stjórnarmanninum, sem jafnframt hafi látið stefnanda hafa lungann af rekstrarfénu, að félagið yrði ekki skuldbundið umfram það sem sjóðir þess leyfðu án hans atbeina. Þessi skipan hafi beinlínis miðað að því að takmarka áhættu félagsins og stjórnarmannsins sérstaklega sem lánveitanda þess. Ekkert hafi gefið stefnda ástæðu til að ætla að framkvæmdastjórinn hefði víðtækara umboð til að skuldbinda félagið umfram að „kaupa og selja verðbréf“. Stórfelld afleiðuviðskipti falli þar augljóslega utan við.
Starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér vangæslu og gáleysi þegar þeir stofnuðu til hinna umfangsmiklu viðskipta við framkvæmdastjóra stefnanda. Á yfirliti sjáist að á fyrstu átta dögum eftir skráningu stefnanda í hlutafélagaskrá hafi hann gert þrjá fyrstu af hinum umdeildu samningum, svonefnda skiptasamninga, þar sem framkvæmdastjóri stefnanda hafi skrifað undir skuldbindingu á kaupum hlutabréfa fyrir samtals 165 milljónir króna. Þar sjáist einnig að heildarskuldbindingar samkvæmt umræddum 14 samningum hafi við gerð þeirra numið 494.758.400 krónum. Umfang þessara skuldbindinga, form þeirra og efni, sé slíkt að fjarstæða sé að ætla að framkvæmdastjóri lítils einkahlutafélags, með 500 þúsund króna hlutafé, hefði stöðuumboð til að binda félagið við þessa gerninga.
Í stöðluðum texta hvers og eins hinna 14 skiptasamninga segi í gr. 2.4. að samningurinn verði við undirskrift eða gildistöku með öðrum hætti sjálfstæður hluti rammasamnings aðila um skiptasamninga. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að enginn slíkur rammasamningur hafi verið gerður. Í sýnishorni af slíkum samningi komi fram í gr. 3.3. að áður en lögaðili fái stofnað til viðskipta við stefnda, beri honum að „leggja fram vottorð frá Hagstofu Íslands, dómsmálaráðuneyti eða sýslumanni um nafn (firma), kennitölu, lögheimili og starfsemi og hverjir hafi heimild til að skuldbinda lögaðilann gagnvart MPF“. Í gr. 3.7. segi að viðskiptamanni sé heimilt að veita þriðja aðila umboð til að gera skiptasamninga fyrir sína hönd, svo fremi að umboðið sé skriflegt og fullnægjandi að mati stefnda. Ef viðskiptamaður er lögaðili skuli umboðið staðfest af stjórn lögaðila. Stefndi hafi ekki lagt fram umboð Guðjóns Sverris til að skuldbinda stefnanda um gerð skiptasamninga við stefnda.
Þessi ákvæði væru ótvíræð sönnun þess að stefnda hafi verið ljós skylda sín til að kanna hverjir gætu bundið stefnanda og að formlegt samþykki stjórnar þyrfti til að umboðsmaður á borð við framkvæmdastjóra stefnanda gæti skuldbundið hann með skiptasamningi. Að láta hjá líða að afla slíks samþykkis sé alfarið á ábyrgð stefnda og afleiðingar þess alveg skýrar; samningar við lögaðila án lögformlegs og áskilins samþykkis þeirra sem gætu bundið hann að lögum væru óskuldbindandi.
Skírskotun skiptasamninga til rammasamnings, sem ekki sé fyrir hendi, valdi því að samningarnir verði ófullburða að efni til og fullnægi ekki lágmarkskröfum sem gera verði til slíkra gerninga. Það eitt feli í sér brýnt brot á fyrirmælum 1. mgr. 7. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, þar sem mælt sé fyrir um gerð viðskiptasamninga í viðvarandi samningssamböndum, eins og þeim sem stefndi hafi sýnilega talið sig hafa komið á við stefnanda. Viðtaka stefnda á öllum fjármunum stefnanda sem tryggingarfé fyrir viðskiptin sé skýr sönnun þessa. Framangreint brot stefnda á þessu ákvæði valdi því að stefndi fái ekki byggt rétt á samningum, sem þannig séu til komnir í andstöðu við ákvæði laga og án þess að rammasamningurinn sé til staðar.
Stefnandi vísi til þess að í almennum skilmálum vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. komi skýrt fram að ekki sé stofnað til markaðsviðskipta, svo sem um afleiður eða aðra skiptasamninga, nema viðskiptamaður hafi áður undirgengist skilmálana. Sé um hlutafélag að ræða sé skilyrðislaust gerð krafa um að stjórn félagsins áriti skilmálana um samþykki sitt og gefi tilteknum starfsmönnum viðkomandi félags umboð til að eiga viðskipti fyrir félagsins hönd samkvæmt skilmálunum. Hliðstæð ákvæði væru í viðskiptaskilmálum KB banka en bankinn krefjist jafnan samþykkis stjórnar viðkomandi hlutafélags og umboðs með hliðstæðum hætti og hjá Glitni. Viðskiptaskilmálar Landsbankans væru áþekkir hinum tveimur. Stefndi telji þessi samningsform sönnun viðskiptavenju um að markaðsviðskipti, m.a. með afleiður, falli utan stöðuumboðs framkvæmdastjóra.
Krafa viðskiptabankanna og stefnda sjálfs um gerð rammasamnings um afleiðuviðskipti, eins og þau sem framkvæmdastjóri stefnanda stóð að, endurspegli viðurkennt verklag og mat stærstu fjármálastofnana þjóðarinnar á því hvað til þurfi, svo hlutafélag verði bundið af viðskiptum einstakra starfsmanna. Í þessari framkvæmd felist einnig staðfesting á því að markaðsviðskipti, m.a. um afleiður, falli ekki undir það sem bankarnir telji venjulega starfsemi viðskiptamanna sinna, sem stöðuumboð og almenn prókúra taki til. Skipti þá engu þótt kaup og sala verðbréfa sé hluti af tilgangi félags. Bankarnir áskilji allt að einu samþykki stjórnar hlutafélagsins við slíkum viðskiptum. Því geti stefndi ekki borið því við að hann hafi ætlað að framkvæmdastjórinn gæti í krafti stöðu sinnar, einn og án samþykkis stjórnar, bundið félagið í slíkum viðskiptum. Af þessu sé augljóst að stefndi hafi brotið ákvæði 4. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti um að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum og hafa hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.
Stefnandi telji að gáleysi stefnda við gerð hinna umdeildu samninga hafi verið þeim mun stórfelldara að um var að ræða félag sem skráð var með lágmarks hlutafé sama dag og stefndi hafi gert við það fyrsta afleiðusamninginn sem hafi falið í sér heildarskuldbindingu að fjárhæð rúmlega 84 milljónir króna. Skortur á viðskiptasögu og lítið hlutafé hefði átt að verða stefnda sérstök áminning um að ganga með fullnægjandi hætti frá viðskiptaskilmálum við stefnanda. Auki þetta enn á sök stefnda og sýni að hann hafi ekki gætt að því sem til sé ætlast af fjármálafyrirtæki sem hafi starfsleyfi til verðbréfaviðskipta. Hljóti hann því sjálfur og einn að bera ábyrgð á þeim afglöpum eigin starfsmanna, sem leitt hafi til þess tjóns, sem hann hafi skuldfært stefnanda um og ranglega greitt sér af vörslufé sem honum hafi verið trúað fyrir.
Stefnandi vísi einnig til 1. mgr. 10. gr. samningalaga nr. 7/1936, með gagnályktun, til stuðnings kröfu sinni um að hann skuli óskuldbundinn af áritun framkvæmdastjóra stefnanda á samningana, enda hafi stefnda mátt vera ljóst að hann hafi farið langt umfram umboð sitt með gerð samninganna.
Stórfellt gáleysi starfsmanna stefnda hafi valdið tjóninu, sem birst hafi í fullnustu samninganna, og á því tjóni hljóti stefndi einn að bera ábyrgð samkvæmt grundvallarreglum skaðabótaréttarins. Hefði stefndi fylgt eigin verklagsreglum og gert slíkt samþykki að skilyrði viðskipta, þá hefði stjórnarmanni stefnanda óðar orðið ljóst hvert stefndi og getað hindrað þær geigvænlegu lántökur og áhættutöku sem framkvæmdastjóri hans hafi stefnt að. Á þessum mistökum beri stefndi einn ábyrgð og sú sök leiði til þess að hann fái ekki byggt rétt á samningum sem þannig hafi verið gerðir án tilskilins samþykkis og í andstöðu við viðurkenndar verklagsreglur.
Kröfuna um endurgreiðslu styðji stefnandi enn fremur við það að stefndi hafi enga heimild haft til að draga fé út af viðskipta- og vörslureikningi hans hjá stefnda. Beri honum því að endurgreiða þá fjármuni sem hann hafi fært af reikningnum, eins og hér að framan hafi verið útlistað. Stefndi hafi ekki lagt fram staðfestingu á því að hann hafi haft gilt umboð stefnanda til að taka fé í hans eigu út af vörslureikningi hans hjá stefnda.
Málsástæður stefnanda styðjist við meginreglur kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og umboð framkvæmdastjóra hlutafélaga til að skuldbinda þau með samningum, sbr. einkum ákvæði laga nr. 138/1994, einkum 49. og 52. gr., laga nr. 7/1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 10. gr., firmalaga nr. 42/1903, einkum 19. gr., laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið nr. 15/2005, einkum 2. mgr. 1. gr., svo og laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, einkum 4. og 7. gr. Krafa um vexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., og kröfu um málskostnað byggi stefnandi á 3. mgr. 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til þess að bræðurnir Óskar og Guðjón Sverrir hafi stofnað stefnanda 16. desember 2005 með lágmarks hlutafé, 500.000 krónum. Þeir hafi skipað stjórn félagsins, Óskar sem stjórnarmaður en Guðjón Sverrir sem varamaður. Samkvæmt stofnfundargerð hafi þeir átt félagið að jöfnu. Í gögnum málsins komi fram að þeir hafi jafnframt lagt félaginu til rekstrarfé eða lánsfé, en þó í mismiklum mæli. Óskar hafi lagt félaginu til a.m.k. 50 milljóna króna rekstrarfé til hlutabréfakaupa. Bræðurnir væru báðir vanir viðskiptum, bæði almennum atvinnurekstri og fjárfestingum á hlutabréfamarkaði. Guðjón Sverrir hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og honum veitt prókúruumboð með hefðbundnum hætti. Staðhæfingum í málavaxtalýsingu stefnanda um einhvers konar takmörkun umboðs hans sé mótmælt.
Framkvæmdastjórinn hafi sett sig í samband við stefnda, en þar hefði hann áður stundað hlutabréfaviðskipti, og gert þar svokallaðan skiptasamning 20. desember 2005 um kaup á hlutabréfum. Á tímabilinu 20. desember 2005 til 11. maí 2006 hafi stefnandi gert röð slíkra samninga, hvern með tiltekinn gildistíma, ýmist til þriggja eða sex mánaða, þar sem kveðið sé á um kaup stefnanda á tilteknum hlutabréfum á tilteknu gengi og jafnframt um fyrirframákveðinn lokadag, sem sé uppgjörsdagur skiptasamningsins.
Framkvæmdastjóri stefnanda hafi gert samningana að meginstefnu til í upphafi í gegnum síma, en undirritað þá, oft nokkra í einu, þegar hann hafi átt erindi við stefnda, svo sem venja sé með slíka samninga. Það sé því rangt að samningarnir hafi verið undirritaðir eftir að athugasemdir tóku að berast frá stjórnarmanni stefnanda, eins og stefnandi haldi fram.
Með samningum sínum við stefnda hafi stefnandi ákveðið að kaupa tiltekin verðbréf á tilteknu gengi og að stefndi legði félaginu jafnframt til fé til kaupanna. Til tryggingar legði stefnandi fram innistæðu á bankareikningi stefnda í vörslu KB banka við upphaf kaupanna, sem eyrnamerktur sé stefnanda, sbr. handveðsyfirlýsingu 20. desember 2005. Stjórnarmaður stefnanda, Óskar Rafnsson, hafi lagt inn á reikning stefnda 50 milljónir króna 20. og 21. desember 2005 og hafi öll fjárhæðin verið til tryggingar viðskiptunum. Auk þess hafi stefndi haldið undirliggjandi eign einnig sem handveði á meðan samningur stóð yfir. Lækki trygging stefnanda niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk óski stefndi eftir frekari tryggingum, svo ekki komi til að loka samningi. Þetta sé alþekkt fyrirkomulag.
Samningar sem þessir væru ein tegund verðbréfaviðskipta þar sem fjárfestir búist við að gengi undirliggjandi verðbréfa hækki umfram vexti á markaði á tilteknu tímabili. Gangi það eftir geti fjárfestir selt undirliggjandi verðbréf með hagnaði, ef ekki þá með tapi, og þá jafnvel fyrir lokadag samnings. Uppgjörsákvæði samninganna byggi á þróun hlutabréfagengis og sé allur hagnaður (og tap) af samningnum gerður upp í lok samningstímans. Þannig sé hver samningur stefnanda gerður upp fyrir sig og ýmist sé hagnaður af honum lagður inn á fyrrnefndan bankareikning í eigu stefnda, eða tap skuldfært.
Hreyfingar á reikningnum vegna þeirra 14 samninga sem stefnandi hafi gert við stefnda megi sjá á yfirliti reikningsins hjá KB banka. Þar sjáist að 50 milljónir voru lagðar inn á reikninginn í upphafi viðskiptanna en staðan á reikningnum hækki eða lækki eftir því hvort samningarnir, hlutabréfakaupin, skili hagnaði eða tapi.
Af þessu megi sjá að stefnandi, með atbeina stjórnar og hluthafa félagsins, hafi lagt rekstrarfé félagsins fram sem tryggingu fyrir hlutabréfaviðskiptunum. Umfjöllun í stefnu, þar sem stefnandi leggi saman fjárhæðir samninganna og vísi til þess að „heildarskuldbindingar“ samkvæmt samningunum nemi hundruðum milljóna, séu villandi. Um sé að ræða hlutabréfakaup samkvæmt samningum með hlaupandi gildistíma í skamman tíma í senn og á hverjum tíma komi verðmæti hlutabréfanna til móts við tilvitnaðar „heildarskuldbindingar“. Eins og fram komi á reikningsyfirliti hafi tap vegna samninganna verið skuldfært jafnóðum af rekstrarfé stefnanda, og hagnaðurinn lagður inn, og síðan hafi stefndi fylgst með verðmæti veðsins og kallað eftir frekari tryggingum, miðað við tiltekin viðmiðunarmörk, eða gert stefnanda að loka samningnum. Við mat á stöðu viðskiptamanns sé kannað heildarverðmæti trygginga gagnvart heildarskuldbindingum hans.
Þróun á hlutabréfamarkaði hafi verið stefnanda óhagstæð vorið 2006 og hafi viðskiptastaða félagsins hjá stefnda verið orðin þannig að kallað hafi verið eftir frekari tryggingum svo ekki þyrfti að selja undirliggjandi hlutabréf (loka samningum) til að bæta úr tryggingastöðu. Starfsmenn stefnda hafi rætt bæði við stjórnarmann og framkvæmdastjóra stefnanda og gert þeim grein fyrir stöðunni. Stjórnarmaður stefnanda hafi sérstaklega verið inntur eftir því hvort stefnandi hygðist leggja slíkar tryggingar fram, en hann hafi hafnað því. Samningum hafi verið lokað og viðskipti gerð upp á mjög óhagstæðum tíma, því fljótlega hafi markaðurinn tekið að glæðast. Staða félagsins hefði verið mun betri ef stjórnendurnir hefðu sýnt þolinmæði og ekki látið skammtíma markaðssveiflur hafa svo afdrifarík áhrif á gerðir sínar.
Þegar stjórnarmaðurinn hafi tekið að afla nánari upplýsinga um viðskipti stefnanda hjá stefnda hafi hann fyrst og fremst látið í ljós óánægju með framgöngu framkvæmdastjórans og rakið raunir sínar fyrir starfsmönnum stefnda um skort á réttum upplýsingum frá honum. Aldrei hafi því verið hreyft að framkvæmdastjórinn hefði ekki haft umboð til að annast um fjármuni félagsins eða að nokkuð hefði verið athugavert við framgöngu stefnda í málinu. Málsaðilar hafi leitað sátta án þess að til niðurstöðu leiddi. Stefnandi hafi höfðað málið og beri fyrir sig að framkvæmdastjóri félagsins hafi ekkert umboð haft til að annast einu starfsemi félagsins, og að hluthafinn og stjórnarmaðurinn hafi enga hugmynd haft um eðli þeirrar starfsemi.
Stefndi reisi sýknukröfu sína á því að framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft umboð til að koma fram fyrir hönd stefnanda gagnvart stefnda í þessum verðbréfaviðskiptum og gera umrædda skiptisamninga fyrir hönd stefnanda. Verði umboð hans sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa af einhverjum ástæðum ekki talið taka til þeirra löggerninga, sem um ræði í málinu, þá verði að horfa til eftirlitsskyldna stjórnar félagsins og þeirrar stöðu að framkvæmdastjórinn sé bæði stjórnarmaður og eigandi helmings hlutafjár. Þá sé ýmislegt á huldu um grundvöll málsóknarinnar og hvort tekin hafi verið gild ákvörðun um hana.
Hvað prókúruumboð varði hafi Guðjón Sverrir verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnanda og hafi hann notið stöðuumboðs sem slíkur samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, í samræmi við þær takmarkanir sem starfssviði framkvæmdastjóra séu almennt settar í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Framkvæmdastjórinn hafi þannig haft umboð til að annast allan daglegan rekstur félagsins, en tilgangur þess hafi samkvæmt 3. gr. samþykkta stefnanda verði kaup og sala verðbréfa, rekstur og útleiga fasteigna, svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur.
Stefnandi reisi kröfur sínar í fyrsta lagi á því að samkvæmt 16. gr. samþykkta stefnanda þurfi undirskrift stjórnarformanns og framkvæmdastjóra til að skuldbinda félagið, þeir tveir riti firmað. Þessi skilningur stefnanda á eðli firmaritunar, umboðs framkvæmdastjóra og prókúruhafa, sé alrangur. Guðjón Sverrir hafi verið framkvæmdastjóri stefnanda og sé það enn. Hann hafi ekki eingöngu notið stöðuumboðs sem slíkur, heldur hafi hann einnig haft prókúruumboð samkvæmt 25. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Samkvæmt þessu ákvæði hafi prókúruhafi vald til að annast allt það, er snerti rekstur atvinnu umbjóðandans, og til að rita firmað. Hann hafi þar með haft prókúruumboð þegar hann átti umþrætt viðskipti við stefnda, hvernig sem mælt sé fyrir um ritunarrétt firma í samþykktum. Ráðstöfun framkvæmdastjórans hafi ekki snúið að veðsetningu fasteigna og ákvæði 16. gr. samþykkta félagsins, um ritun firma, skerði ekki umboð prókúruhafans, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 141/1996, sbr. einnig mál nr. 37/1996.
Meginregla laga um einkahlutafélög sé sú að komi framkvæmdastjóri fram fyrir hönd félags og geri löggerning fyrir hönd þess, bindi sá gerningur félagið, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Hafi framkvæmdastjóri einkahlutafélags farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni, t.d. takmarkanir samkvæmt samþykktum félagsins, sé félagið ekki bundið við gerninginn í þeim tilvikum að viðsemjandinn hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að hann haldi fram rétti sínum. Fortakslaust skilyrði fyrir því að félag teljist óbundið af löggerningi sökum umboðsskorts sé því að viðsemjandinn hafi verið grandsamur um þá takmörkun á umboði. Þegar af þessari ástæðu stoði stefnanda ekki að halda fram að 16. gr. samþykkta sinna takmarki umboð Guðjóns Sverris í viðskiptum sínum gagnvart stefnda. Ætlaður umboðsskortur risti stefnanda þó ekki dýpra en svo að Guðjón Sverrir gegni enn stöðu framkvæmdastjóra og prókúruumboð hans hafi ekki verið afturkallað.
Í öðru lagi haldi stefnandi því fram að í tilkynningu stefnanda til hlutafélagaskrár komi fram hverjir hefðu heimild til að rita firma félagsins samkvæmt samþykktum þess. Samkvæmt 7. gr. firmalaga skuli slík skráning og birting hennar í Lögbirtingablaði teljast kunn almenningi. Samsvarandi ákvæði um gildi slíkrar birtingar sé í 125. gr. laga um einkahlutafélög, þar sem fjallað sé um tilkynningar um stofnun nýrra einkahlutafélaga til Hlutafélagaskrár. Hér skipti hins vegar máli að í 2. mgr. 52. gr. laga um einkahlutafélög komi fram frávik frá þessari meginreglu. Birting tilkynningar samkvæmt 125. gr. laganna teljist ein og sér ekki nægileg sönnun þess að viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskort þess sem komi fram fyrir hönd félags samkvæmt ákvæðum 49. og 50. gr. Stefnanda stoði því ekki að halda fram grandsemi stefnda með vísan til birtingar í Lögbirtingablaði og á síðu Lánstrausts. Stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi verið grandsamur um ætlaðan umboðsskort framkvæmdastjóra stefnanda.
Samkvæmt framangreindu hafi engar takmarkanir verið á prókúruumboði framkvæmdastjóra stefnanda gagnvart stefnda. Stefndi hafi verið í góðri trú um að framkvæmdastjóri félags, sem hafi þann tilgang að kaupa og selja verðbréf, hefði umboð til verðbréfaviðskipta. Takmörkun lokamálsliðar 25. gr. firmalaga á prókúruumboði, um veðsetningu fasteigna félagsins, eigi ekki við. Stjórnarmaðurinn Óskar hafi vitað um viðskipti stefnanda við stefnda, enda hafi hann milliliðalaust lagt háar fjárhæðir inn á bankareikninga stefnda, sem hafi líklega verið eini viðskiptamaður stefnanda. Hann hafi ekki séð ástæðu til að tilkynna um nokkra takmörkun á heimildum framkvæmdastjórans sem hann hefði sjálfur ráðið til félagsins.
Um stöðuumboð framkvæmdastjóra vísi stefndi til þess að Guðjón Sverrir hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnanda við stofnun félagsins 16. desember 2005. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög annist framkvæmdastjóri daglegan rekstur félagsins eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Eðli málsins samkvæmt fari það eftir starfsemi félagsins sjálfs hvað teljist falla undir daglegan rekstur í skilningi ákvæðisins, en í því sambandi verði almennt að hafa í huga tilgang félagsins, eðli starfseminnar, umfang hennar og venjur á viðkomandi sviði. Í lagaákvæðinu sé tekið fram að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Samkvæmt samþykktum félagsins sé tilgangur þess meðal annars kaup og sala verðbréfa, sbr. 3. gr. þeirra. Ekki liggi fyrir hvaða stefnu stjórn félagsins hefði mótað um rekstur þess og starfsemi og ekki virtist mótuð fjárfestingastefna fyrir félagið áður en framkvæmdastjórinn hóf umrædd viðskipti við stefnda þessa máls. Hins vegar sé ljóst að viðskipti stefnanda við stefnda hafi verið fyrstu, og í raun einu, viðskipti félagsins, sem stofnað hafi verið til örfáum dögum eftir stofnun félagsins, og megi því ætla að umræddar fjárfestingar stefnanda hafi verið megintilgangur stefnanda. Því verði við mat á því hvort viðskiptin hafi rúmast innan umboðs framkvæmdastjórans að byggja á því hver sé tilgangur félagsins og á venjum í verðbréfaviðskiptum, sbr. dóma Hæstaréttar þar að lútandi, eða hvort ráðstöfunin teljist óvenjuleg eða mikils háttar í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Sú starfsemi sem falist hafi í viðskiptunum við stefnda hafi líklega verið það eina sem félagið gerði, og því geti hún aldrei talist óvenjuleg eða mikilsháttar. Skiptasamningarnir við stefnda hafi verið hin „daglega“ starfsemi félagsins. Eins og tilgangi félagsins sé lýst í samþykktum, hafi viðsemjandi þess enga ástæðu haft til annars en að ætla að treysta mætti að prókúruhafi stefnanda og framkvæmdastjóri hefði stofnað til umræddra viðskipta við stefnda sem þátt í rekstri í atvinnu stefnanda, í samræmi við 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 141/1996.
Þegar framkvæmdastjóri félags, með þann tilgang að kaupa og selja verðbréf og stunda lánastarfsemi og skyldan rekstur, snúi sér til fjárfestingabanka í því skyni að gera skiptasamninga um verðbréfaviðskipti, hafi bankinn enga ástæðu haft til þess að gæta sérstaklega að því hvort ráðstöfun framkvæmdastjórans sé tilhlýðileg gagnvart félaginu. Slíkir samningar, sem hér um ræði, væru mjög algeng tegund samninga við hlutabréfakaup, en hlutfall skiptasamninga af heildarviðskiptum stefnda sé trúlega milli 60 og 70%.
Tilgangslaust sé að líta til hlutafjár félagsins þegar metið er hvort ráðstöfunin sé óvenjuleg eða mikils háttar. Einkahlutafélagið hafi verið stofnað með lágmarks hlutafé, en strax við stofnun þess hafi stjórnarmaður félagsins lagt 50 milljónir króna inn á reikning stefnda. Fénu bæri að verja til tilgangs félagsins, sem sé kaup og sala verðbréf o.fl., sem framkvæmdastjórinn hafi gert, með verðbréfaviðskiptum við stefnda.
Gagnvart stefnda líti þetta út eins og stefnandi hafi einmitt þann tilgang að stunda þessi tilteknu viðskipti, á þennan hátt, enda falli viðskipti stefnanda á allan hátt undir venjuleg viðskipti með skiptasamninga. Hámarksstærð skiptasamninga ráðist síðan af því hver undirliggjandi verðbréf séu, jafnt í tilviki stefnanda sem annarra. Stefndi heimili viðskiptavinum almennt að „gíra“ sig fjórfalt upp, þannig að fyrir eina milljón í tryggingu fái hann fjórar milljónir að láni hjá stefnda, sem hann versli fyrir. Þá gefi innlegg stjórnarmannsins inn á tryggingarreikninginn vísbendingu um samþykki stjórnarinnar fyrir viðskiptunum. Hin umdeildu viðskipti málsaðila hafi að öllu leyti rúmast innan tilgangs félagsins samkvæmt samþykktum þess og stefndi hafi enga ástæðu haft til þess að ganga frekar eftir umboði framkvæmdastjórans að þessu leyti.
Ef umræddir löggerningar teldust falla utan við tilgang félagsins, kæmi til kasta 2. tl. 1. mgr. 52. gr. laga um einkahlutafélög. Í ákvæðinu felist, að falli löggerningur utan við tilgang félagsins og það sýni fram á að viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn, þá bindi hann ekki félagið. Það sé þannig algjört skilyrði, lúti heimildarskortur að öðru en ófrávíkjanlegu lagaákvæði, en í slíkum tilvikum eigi viðsemjandi að geta varast heimildarskortinn, að viðsemjandinn hafi vitað eða mátt vita um hann. Stefnandi verði því að sanna að stefndi hafi verið í vondri trú með hliðsjón af því hvort þeir gerningar sem um er að tefla geti samrýmst tilgangi félagsins. Stefnandi hafi ekki getað sýnt fram á það og teljist því bundinn við þá gerninga sem framkvæmdastjóri félagsins hafi gert við stefnda.
Um ábyrgð stjórnarmannsins vísi stefndi til þess að félagsstjórn og framkvæmdastjóri fari saman með stjórn félagsins samkvæmt IX. kafla laga um einkahlutafélög. Það þýði að báðir þessir aðilar beri ábyrgð á rekstrinum. Í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög sé skýrt tekið fram að félagsstjórn skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.
Stjórnarmaður stefnanda hafi lagt félaginu til allt rekstrarfé þess, 50 milljónir, sem hann hafi ætlast til að framkvæmdastjóri stefnanda notaði til hlutabréfakaupa. Málatilbúnaður stefnanda byggi hins vegar á því að stjórnarmaðurinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að umrædd kaup myndu fara fram með afleiðusamningum. Staðreyndin sé hins vegar sú að stjórnarmaður stefnanda hafi látið undir höfuð leggjast að fylgjast með hlutabréfaviðskiptum framkvæmdastjórans, þrátt fyrir að hann hefði ærna ástæðu til þess að hafa grannt eftirlit með ráðstöfunum hans með rekstrarféð. Stjórnarmanninum hafi ekki einungis borið að hafa eftirlit með ráðstöfunum framkvæmdastjórans heldur jafnframt að tilkynna stefnda um hugsanlegar ráðstafanir hans utan umboðs samkvæmt grunnsjónarmiðum 19. gr. samningalaga nr. 7/1936. Athugunarleysi stjórnarmannsins við eftirlit á meðferð fjármuna stefnanda geti aldrei verið metið honum til hagsbóta, og hann smeygt félaginu undan skuldbindingum sem löglega ráðinn framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi hafi gert við grandlausan viðsemjanda. Vísað sé í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar, sem fallið hafi um skaðabótaskyldu stjórnenda hlutafélags, og jafnvel refsiábyrgð þeirra, þar sem mótuð hafi verið sú meginregla að stjórnendur verði að afla sér vitneskju um öll meginatriði í rekstri viðkomandi félags. Rétturinn hafi margoft dæmt að ekki stoði að bera fyrir sig vanþekkingu eða að hafa ekki tekið þátt í stjórnarstörfum.
Stefndi mótmæli því að stórfellt gáleysi starfsmanna stefnda hafi valdið stefnanda tjóni sem stefnda beri að bæta samkvæmt grundvallarreglum skaðabótaréttarins. Í fyrsta lagi sé algjörlega ósannað í málinu að stefndi hafi brotið gegn vinnureglum sínum í viðskiptum sínum við stefnanda eða háttsemi hans valdið stefnanda tjóni. Í öðru lagi sé ljóst að stefndi hafi upplýst stefnanda reglulega um stöðu sína á öllum stigum málsins með yfirlitum sem stefnanda hafi verið send. Stefndi hafi ávallt fylgst með stöðu mála og gripið í taumana ef þörf krafði og séð um að stefnandi væri ætíð meðvitaður um stöðu samninga sinna. Því sé alfarið mótmælt að stefndi beri ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli skaðbótareglna, auk þess sem eigin sök stefnanda myndi tvímælalaust valda því að bótaréttur félli niður eða bótakröfur lækkuðu, ef svo væri. Engu hefði breytt þótt rammasamningur hefði verið undirritaður. Stefndi mótmæli því að nokkur mistök hafi verið gerð af hans hálfu í viðskiptasambandi málsaðila.
Stefndi vísi til aðildarskorts stefnanda en með öllu sé óljóst hver ætti kröfu um endurgreiðslu stefnufjárhæðarinnar, ef á það yrði fallist að samningar aðila þessa máls væru á einhvern hátt óskuldbindandi fyrir stefnanda. Krafan sé í reynd um endurgreiðslu fjár sem þriðji aðili, Óskar Rafnsson eða Rafkaup hf., hafi lagt inn á reikning stefnda til trygginga hlutabréfaviðskiptum stefnanda. Engin gögn væru um það í málinu að stefnandi hafi verið eigandi fjárins heldur sé um að ræða tryggingu þriðja aðila, sem stefnandi krefjist nú greiðslu á vegna taps hans í hlutabréfaviðskiptum. Stefnandi sé þar með ekki réttur aðili að stefnukröfunni, en aðildarskortur leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varakrafa um lækkun krafna stefnanda sé sett fram með það í huga ef fallist yrði á að framkvæmdastjóri hefði í einhverjum tilvikum farið út fyrir umboð sitt. Allar sömu málsástæður eigi við um aðal- og varakröfu stefnda.
Sérstaklega sé mótmælt fjárhæð dómkrafna, tölulegri framsetningu og öllum vaxtakröfum stefnanda, bæði um upphafsdag vaxta og vaxtafót.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 129.-131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að framkvæmdastjóri stefnanda hafi ekki haft umboð til að skuldbinda stefnanda samkvæmt umræddum skiptasamningum, sem hann gerði við stefnda, og að stefndi hafi mátt vita það.
Samkvæmt 25. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 hefur sá sem gefið er umboð, sem kallað er prókúra, heimild umbjóðandans til að annast allt það er snertir rekstur atvinnu hans og rita firmað. Réttargæslustefndi var framkvæmdastjóri stefnanda á þeim tíma er umræddir samningar voru gerðir og hafði prókúru fyrir stefnanda samkvæmt hlutafélagaskrá. Framkvæmdastjóri og stjórnarmaður höfðu báðir prókúru fyrir stefnanda án þess að fram komi í hlutafélagaskránni að þeir hefðu aðeins sameiginlega prókúru. Engu breytir því í þessu sambandi þó að í samþykktum stefnanda segi að undirskrift stjórnarformanns og framkvæmdastjóra skuldbindi félagið og að í hlutafélagaskránni komi fram að firmað skyldu rita allir stjórnarmenn saman. Þeirri málsástæðu stefnanda er því hafnað að samþykktir stefnanda stæðu í vegi fyrir því að framkvæmdastjóri stefnanda gæti einn skuldbundið stefnanda samkvæmt framangreindu lagaákvæði.
Stjórnarmaður stefnanda tilkynnti stefnda ekki að takmarkanir væru á prókúru framkvæmdastjórans þannig að honum væri óheimilt að gera umrædda skiptasamninga við stefnda. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefnda hafi þrátt fyrir það mátt vera ljóst að stórfelldar lántökur samhliða skuldbindingu um kaup hlutabréfa á föstu gengi að ákveðnum tíma liðnum féllu ekki innan þess sem framkvæmdastjóranum hafi verið heimilt að gera. Fram hefur komið að skiptasamningarnir eru dagsettir á tímabilinu 20. desember 2005 til 8. maí 2006. Handveðsyfirlýsing framkvæmdastjóra stefnanda er dagsett 20. desember 2005, þar sem inneign á reikningnum, sem stjórnarmaður stefnanda lagði 50.000.000 króna inn á 20. og 21. desember s.á., er sett stefnda að handveði fyrir öllum skuldbindingum stefnanda, þar á meðal skiptasamningum. Fyrir liggur einnig að stjórnarmaður stefnanda hreyfði engum athugasemdum vegna þessa við stefnda fyrr en 8. júní 2006. Hér verður að líta svo á að stefnandi verði sjálfur að bera hallann af því að ekki var brugðist við þessum skuldbindingum framkvæmdastjórans sem stjórnarmanninum mátti, vegna stöðu sinnar hjá stefnanda, vera kunnugt um. Verður að telja ósannað að stefnda hafi mátt vita að skuldbindingar stefnanda væru ekki í samræmi við fyrirætlanir stefnanda eða að framkvæmdastjórinn hafi með þeim farið langt út fyrir umboð sitt, eins og stefnandi heldur fram. Í því sambandi þykir ekki skipta máli að til þess var ætlast samkvæmt hinum 14 stöðluðu skiptasamningum að gerður væri rammasamningur sem óumdeilt er að var ekki gerður. Ákvæði í rammasamningi, sem vísað er til af hálfu stefnanda, verða ekki skilin þannig að með þeim hafi stefnda verið ljós skylda sín til að kanna frekar hverjir gætu bundið stefnanda og að formlegt samþykki stjórnar þyrfti til að framkvæmdastjóri stefnanda gæti skuldbundið hann með skiptasamningi. Verður að hafna þeim málsástæðum stefnanda að tilvísun skiptasamninganna til rammasamninga eða 1. mgr. 7. gr. laga um verðbréfaviðskipti, sem vísað er til af hálfu stefnanda í þessu sambandi, valdi því að skiptasamningarnir verði taldir óskuldbindandi fyrir stefnanda, enda verður sú ályktun ekki dregin af þessum ákvæðum. Enn fremur verður að telja ósannaða þá staðhæfingu stefnanda að hið meinta tjón hans verði rakið til mistaka af hálfu starfsmanna stefnda, sem stefndi beri ábyrgð á, en sú sök leiði til þess að stefndi geti ekki byggt rétt á samningum sem gerðir væru án tilskilins samþykkis og í andstöðu við viðurkenndar verklagsreglur. Vísað er í því sambandi til þess af hálfu stefnanda að hefði eigin verklagsreglum stefnda verið fylgt hefði mátt koma í veg fyrir tjónið. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta nægilega þessar ályktanir stefnanda. Þegar haft er í huga það sem að framan segir um heimildir framkvæmdastjóra stefnanda til að skuldbinda stefnanda og aðgerðarleysi stjórnarmanns vegna þeirra skuldbindinga verður að telja orsakasamband, sem þarna er vísað til af hálfu stefnanda, ósannað. Þótt stefnda hefði verið rétt að ganga frá viðskiptaskilmálum og rammasamningi vegna viðskiptanna verða þeir annmarkar ekki taldir slíkir að með því hafi verið brotið gegn góðum viðskiptaháttum samkvæmt 4. gr. laga um verðbréfaviðskipti er valdi því að skiptasamningarnir geti ekki verið skuldbindandi fyrir stefnanda, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Verður með vísan til framangreindra atriða ekki á þá málsástæðu stefnanda fallist að umræddir skiptasamningar teljist óskuldbindandi fyrir stefnanda vegna umboðsskorts framkvæmdastjóra stefnanda til að gera þá eða af öðrum ástæðum sem hér hafa verið raktar og vísað er til af hálfu stefnanda.
Af hálfu stefnanda er loks byggt á því að stefndi hafi enga heimild haft til að taka út af reikningi stefnanda eins og gert hafi verið. Stjórnarmaður stefnanda lagði sjálfur inn á þennan reikning í desember 2005, eins og þegar hefur komið fram, og ósannað er að fyrirmæli eða takmarkanir hafi komið fram af hálfu stefnanda um það hverjar ráðstafanir á innistæðu reikningsins væru heimilar. Fram hefur komið að stefndi hafi ráðstafað innistæðu reikningsins í samræmi við skiptasamningana sem hér um ræðir. Verður með vísan til þessa ekki fallist á framangreinda málsástæðu stefnanda.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður krafa stefnanda um endurgreiðslu úr hendi stefnda ekki tekin til greina og ber því að sýkna stefnda af henni.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, en dómsuppkvaðning hefur dregist vegna annarra embættisanna dómara á undanförnum vikum.
Dómsorð:
Stefndi, MP fjárfestingabanki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Rektors ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.