Hæstiréttur íslands
Mál nr. 124/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræðissvipting
|
|
Föstudaginn 7. mars 2008 |
|
Nr. 124/2008. |
A(Oddgeir Einarsson hdl.) gegn B (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræðissvipting.
A var sviptur sjálfræði í 18 mánuði vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. febrúar 2008, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 18 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissvipting verði einungis í 6 mánuði. Þá er þess krafist að skipuðum verjanda sóknaraðila verði dæmd þóknun.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði, sem er hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, A, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. febrúar 2008.
Sóknaraðili er B, [kt. og heimilisfang]. Varnaraðili er bróðir hans, A, [kt. og heimilisfang], nú vistmaður á geðdeild 32C Landspítala LSH.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í 2 ár á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna langvarandi og alvarlegs geðsjúkdóms.
Varnaraðili krefst þess aðallega að synjað verði um kröfuna, enda séu skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga ekki fyrir hendi, en ellegar verði sjálfræðissviptingu markaður mun skemmri tími eða til 6 mánaða.
I.
Hinn 12. janúar 2008 var varnaraðili nauðungarvistaður á geðdeild LSH í allt að 21 sólarhring. Til grundvallar þeirri ákvörðun lá vottorð Kristófers Þorleifssonar geðlæknis, þar sem fram kemur að varnaraðili hafi strítt við alvarlegan geðklofasjúkdóm í tæpan áratug, jafnframt því sem hann hafi misnotað áfengi og neytt fíkniefna. Hann hafi margoft legið á geðdeild og verið í reglubundnu göngudeildareftirliti, en ekki tekið lyf sín að undanförnu, verið í óreglu og því fjarað hratt undan heilsu hans. Við komu á geðdeild 11. janúar hafi ástand varnaraðila verið mjög alvarlegt, hann verið í vaxandi og versnandi geðrofsástandi, haft miklar ranghugmyndir og aðsóknarkennd, hótað sjálfsvígi og í raun stefnt andlegri og líkamlegri heilsu sinni í voða.
Varnaraðili kærði umrædda vistun til héraðsdóms 22. janúar (mál nr. L-2/2008), en féll frá kærunni 1. febrúar, eftir að krafan um tímabundna sjálfræðissviptingu barst héraðsdómi 29. janúar. Á þingfestingardegi 8. febrúar var lagt fram vottorð Guðrúnar Geirsdóttur geðlæknis, dagsett 31. janúar, en Guðrún hefur annast meðferð varnaraðila á deild 32C LSH. Hún bar og vitni á aðalmeðferðardegi 27. febrúar, en auk hennar tjáði varnaraðili sig þá stuttlega um málefnið.
II.
Í vottorði Guðrúnar kemur fram að varnaraðili hafi glímt við áfengis- og fíkniefnavanda um árabil og farið í fjölda meðferða, sem ekki hafi skilað varanlegum árangri. Hann hafi verið greindur með geðklofa við innlögn á geðdeild 2001. Lyfjameðferð hafi aðeins skilað tímabundnum árangri, enda varnaraðili tvíátta um nauðsyn hennar og hafi oftar en ekki hætt lyfjatöku, sokkið í neyslu, farið í geðrofsástand og þurft innlögn á geðdeild. Árið 2002 hafi hann til að mynda stungið sig í brjóst í slíku ástandi. Varnaraðili hafi lítið sjúkdómsinnsæi og afneiti ranghugmyndum, þótt hann sé klárlega í sturlunarástandi og með greinilegar heyrnarofskynjanir. Þá sé hann innsæislaus á nauðsyn meðferðar. Guðrún staðfesti ofangreint álit fyrir dómi og bar að fremur litlar breytingar hefðu orðið á sjúkdómsástandi varnaraðila. Lyfjameðferð hefði þó skilað árangri og varnaraðili fengi nú forðasprautur, sem tryggja eigi stöðuga og betri meðferð. Dregið hefði úr ranghugmyndum og ofskynjunum, en varnaraðili væri enn tortrygginn og vildi stjórna lyfjatöku og lyfjameðferð. Vandinn felist meðal annars í þessu atriði, en sjúkdómssaga hans sýni að hann hafi einatt sótt mjög í áfengi og fíkniefni eftir útskrift af geðdeild, samhliða hætt lyfjatöku og í kjölfarið farið í alvarlegt geðrofsástand. Guðrún bar að til stæði að flytja varnaraðila yfir á endurhæfingardeild, þar sem hann færi í atferlismótandi meðferð og að ef vel gengi myndi hann losna út af geðdeild eftir 6-7 mánuði og halda áfram í göngudeildarmeðferð. Hún kvað útilokað að varnaraðili næði raunverulegum bata á svo skömmum tíma og taldi nauðsynlegt að hann yrði sviptur sjálfræði í 18 mánuði hið minnsta, svo að tryggja mætti honum samfellda læknismeðferð og þannig stuðla að varanlegum árangri.
Varnaraðili hlýddi á vitnisburð Guðrúnar, kvaðst sammála lýsingu hennar á högum hans og sjúkrasögu, en kannaðist þó ekki við hafa verið með ranghugmyndir við eða eftir núverandi innlögn. Þá kom fram að hann vildi stjórna eigin lyfjameðferð, að hann teldi enga nauðsyn á sjálfræðissviptingu og gæti séð um persónulega hagi sína, en myndi taka lyf samkvæmt læknisráði án þvingunarúrræða.
III.
Sóknaraðili styður kröfu um sjálfræðissviptingu við a. lið 4. gr. lögræðislaga og vísar í því sambandi til vottorða geðlæknanna tveggja og vitnisburðar Guðrúnar fyrir dómi, sem taki af öll tvímæli um brýna nauðsyn tímabundinnar sjálfræðissviptingar, svo að tryggja megi örugga og samfellda læknismeðferð í þágu varnaraðila, enda einsætt að hann hafi óverulegt innsæi í eigið sjúkdómsástand. Er í þessu sambandi lögð áhersla á að ekki standi til að vista varnaraðila lengur á geðdeild en nauðsyn krefur og að stefnt sé að því að koma honum út í samfélagið eins fljótt og kostur er.
Varnaraðili bendir á að það sé grundvallarregla stjórnarskrár að einstaklingar haldi óskertu frelsi og ráði eigin högum, nema ríkar ástæður séu til annars og að brýna nauðsyn beri til að skerða slík mannréttindi. Þau skilyrði séu ekki fyrir hendi í málinu, þrátt fyrir geðræn vandamál varnaraðila, sem hann viðurkenni og sé reiðubúinn að takast á við í fullri samvinnu við lækna og hlíta fyrirmælum þeirra varðandi lyfjameðferð. Allan vafa í þessu sambandi beri að meta varnaraðila í hag, enda hvíli sönnunarbyrði á sóknaraðila um að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga, sem skýra verði þröngri lögskýringu. Slík sönnun hafi ekki tekist og því beri að synja um kröfu hans. Verði ekki fallist á greind sjónarmið telur varnaraðili að sjálfræðissvipting eigi ekki að standa lengur en í 6 mánuði og vísar í því sambandi til vættis Guðrúnar og viðurkenndrar meðalhófsreglu íslensks réttar.
IV.
Samkvæmt 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 má svipta fulltíða einstakling sjálfræði ótímabundið, ef þörf krefur, sé hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum, s.s. vegna geðsjúkdóms, sbr. a. liður. Er hér um að ræða afar afdrifaríka skerðingu grundvallarréttinda og ber því eðli máls samkvæmt að beita téðum lagaheimildum af mikilli varfærni.
Í máli þessu er krafist sjálfræðissviptingar í tvö ár á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga. Meðal gagna málsins eru vottorð Kristófers Þorleifssonar og Guðrúnar Geirsdóttur sérfræðinga á sviði geðlækninga og vitnisburður Guðrúnar fyrir dómi. Þeim ber saman um að varnaraðili sé haldinn alvarlegum og langvarandi geðsjúkdómi, sem hafi reynst illviðráðanlegur, ekki síst sökum þess að varnaraðili hafi lítið sem ekkert sjúkdómsinnsæi og hafi því ekki verið til samráðs um nauðsynlega lyfjameðferð. Þess í stað hafi hann iðulega hætt lyfjatöku, hallað sér að áfengis- og fíkniefnaneyslu, farið í alvarlegt geðrofsástand og ítrekað endað með innlögn á geðdeild. Það er og mat Guðrúnar, að varnaraðili þurfi nú á samfelldri læknismeðferð að halda og að meðferðarhagsmunum hans sé best borgið með því að hann verði sviptur sjálfræði eigi skemur en í 18 mánuði, svo að tryggja megi honum nauðsynlega læknishjálp.
Með hliðsjón af framansögðu telur dómurinn engin áhöld um að varnaraðili stríðir við mjög alvarlegan geðsjúkdóm og er einsætt að sjúkdómsinnsæi er óverulegt og að sama skapi afar ólíklegt að hann muni hlíta nauðsynlegri lyfjameðferð fái hann nú frelsi að nýju. Meðan á því verður ekki breyting er augljós hætta á að slík meðferð fari úr skorðum eða falli niður og að einkenni geðklofasýkinnar magnist að nýju með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heilsu og jafnvel líf varnaraðila. Sökum þessa er hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi a. liðar 4. gr. lögræðislaga. Er því fallist á með sóknaraðila að brýna nauðsyn beri til að svipta varnaraðila sjálfræði, í hans eigin þágu.
Fyrir liggur rökstutt álit geðlæknis um að slík svipting megi vart vera til skemmri tíma en 18 mánuði. Í ljósi þessa og með skírskotun til réttaröryggis og grundvallarréttinda varnaraðila er það álit dómsins að ákvarða beri sviptinguna því til samræmis, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga og kveða á um 18 mánaða sjálfræðissviptingu frá og með uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaganna ber að greiða allan málskostnað úr ríkissjóði, þar með talda þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til fjölda þinghalda þykir þóknun þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin 183.200 krónur, sem að meðtöldum virðisaukaskatti nemur 228.084 krónum.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, [kt.], er sviptur sjálfræði í 18 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 228.084 króna þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, talsmanns sóknaraðila, B og 228.084 króna þóknun Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, verjanda varnaraðila.