Hæstiréttur íslands

Mál nr. 630/2010


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 630/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Ómari Svan Ómarssyni

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Ávana- og fíkniefni. Skilorðsrof.

Ó var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi við X haft í vörslum sínum 241,32 g af hassi og 29,73 g af MDMA, sem fundust við leit lögreglu í bifreið þeirra. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Þá voru fíkniefnin gerð upptæk.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst að refsing verði milduð.

Samkvæmt nýju sakavottorði ákærða, sem lagt var fyrir Hæstarétt, gerðist hann 20. febrúar 2011 á ný sekur um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með vörslum lítilsháttar magns af amfetamíni og gekkst hann af því tilefni undir sátt 4. apríl sama ár um greiðslu sektar. Að þessu virtu verður ekki hreyft við ákvörðun refsingar í hinum áfrýjaða dómi, sem verður þannig staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinn ferðakostnað skipaðs verjanda síns og málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ómar Svan Ómarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 241.786 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. október 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. október sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi þann 8. september sl., með ákæru á hendur X, kt. [...], [...], [...] og Ómari Svan Ómarssyni, kt. 180590-3159, Skálatúni 1, Akureyri;

 „fyrir eftirtalin umferðarlaga-, fíkniefnalaga- og þjófnaðarbrot:

I. (Fíkniefnalagabrot)

Gegn ákærðu báðum, fyrir að hafa fimmtudaginn 24. júní 2010, verið með saman í vörslum sínum 241,32 grömm af hassi og 29,73 grömm af ecstasy (MDNA (svo!)), en efni þessi hafði ákærði Ómar Svan keypt og þeir fengið afhent í Reykjavík og síðan flutt með sér áleiðis til Akureyrar, uns lögreglan á Akureyri stöðvaði för þeirra í Hörgárdal og fann efnin við leit í bifreið þeirra [...].

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.

II. (Umferðarlagabrot)

Gegn ákærða X, fyrir að hafa ofangreindan fimmtudag ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í þvaginu mældist tetrahýdrókannabínól­sýra) frá Akureyri til Reykjavíkur og síðan aftur áleiðis til Akureyrar, þangað til lögreglan stöðvaði akstur hans í Hörgárdal við [...].

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A , sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 66,2006.

III. (Þjófnaður)

Gegn X, fyrir að hafa í marsmánuði 2010, stolið einkanúmerinu [...] af bifreið einhvers staðar í Breiðholtinu í Reykjavík.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 18.189, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 og ákærði X til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006.“

Mál nr. S-262/2010 var sameinað þessu. Það höfðaði sami sýslumaður þann 10. september 2010 á hendur ákærða X;

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 6. ágúst 2010, verið með í vörslum sínum 0,10 grömm af amfetamíni, þegar hann var handtekinn af lögreglu, þar sem hann var á gangi á Ólafsfjarðarvegi við Svarfaðardalsbrúna skammt frá Dalvík.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 18.538, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

Ákærðu hafa báðir komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt öllum framangreindum ákæruatriðum.  Með játningum þeirra, sem ekki er ástæða til að efa að séu sannleikanum samkvæmar, er nægilega sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákærum er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.  Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði Ómar Svan Ómarsson, sem er rúmlega tvítugur, sætti 31. júlí 2009 70.000 króna sekt, samkvæmt sátt við sýslumanninn á Akureyri, fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og var sviptur ökurétti í fjóra mánuði.  Hann gekkst á ný undir sátt við sama sýslumann þann 16. september 2009 um greiðslu 34.000 króna í sekt fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974.  Þann 26. apríl 2010 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, skilorðsbundið í tvö ár, til að greiða 200.000 krónur í sekt og sviptur ökurétti í tvö ár frá 5. maí 2010 að telja.  Ákærði hefur rofið skilorð þess dóms og verður skilorðsbundin refsing samkvæmt honum tekin upp og dæmd með í þessu máli eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 60. gr. sömu laga með áorðnum breytingum.  Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði keypti töluvert magn efna, en einnig þess að því er ekki haldið fram að hann hafi ætlað að afhenda þau öðrum.  Þá verður að líta til sakaferils hans, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Refsing hans ákveðst samkvæmt þessu fangelsi í þrjá mánuði.  Með tilliti til þess að ákærði rauf að skömmum tíma liðnum skilorð dómsins frá 26. apríl 2010, eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði X gekkst þann 8. júlí 2010 undir greiðslu 140.000 króna í sekt og ökuréttarsviptingu í 12 mánuði frá þeim degi að telja, fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.  Brot hans samkvæmt ákæru 8. september sl. eru framin fyrir þann tíma og ber hvað þau varðar að gæta reglna 78. gr. almennra hegningarlaga, en að öðru leyti reglna 77. gr. laganna, svo og reglna 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Ákærði er rétt rúmra 18 ára gamall.  Hann tók fram, hvað varðar I. lið ákæru 8. september sl. að sér hefði verið kunnugt um fíkniefni í bifreiðinni, en ekki verið ljóst magn þeirra.  Var þessu ekki mótmælt af hálfu ákæruvalds og verður haft í huga við ákvörðun refsingar.  Að þessu athuguðu ákveðst refsing hans fangelsi í 45 daga og sekt að fjárhæð 70.000 krónur.  Með tilliti til aldurs og sakaferils ákærða er rétt að skilorðsbinda fangelsisrefsinguna eins og greinir í dómsorði.  Svipta ber hann ökurétti eins og krafist er, sbr. 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breyt­ingum.  Ákveðst sviptingartími tveir mánuðir til viðbótar þeirri sviptingu sem ákærði sætti samkvæmt framangreindri sátt.

Gera ber efni upptæk eins og krafist er í ákæru og nánar er rakið í dómsorði.

Dæma ber ákærðu til að greiða sakarkostnað.  Sakarkostnaður á rannsóknarstigi nemur 114.060 krónum samkvæmt yfirliti og varðar hann ákærða X einan. Ákærðu verða dæmdir til að greiða óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hdl., sem ákveðst eins og greinir í dómsorði, að virðisaukaskatti meðtöldum, svo og ferðakostnað hans, sem nemur 76.535 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Ómar Svan Ómarsson sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði, X sæti fangelsi í 45 daga og greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Fresta ber fullnustu fangelsisrefsingar ákærða X og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Fangelsi í fjóra daga komi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði X er sviptur ökurétti í tvo mánuði frá 8. 7. 2011 að telja.

Ákærðu greiði óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hdl., 62.750 krónur og ferðakostnað hans, 76.535 krónur.

Ákærði X greiði 114.060 krónur í annan sakarkostnað.

Gerð eru upptæk 241,32 grömm af hassi, 29,73 grömm af MDMA og 0,1 gramm af amfetamíni, með nr. 18.189 og 18.538 í efnaskrá lögreglu.