Hæstiréttur íslands

Mál nr. 823/2016

Ákæruvaldið (Marín Ólafsdóttir saksóknari)
gegn
X (Erling Daði Emilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðuneytisins um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2016 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 23. september sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

                                                         Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.    

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila,  Erlings Daða Emilssonar héraðsdómslögmanns, 248.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2016.

I

Málið barst dóminum 1. nóvember sl. og var þingfest 17. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 5. desember sl.

      Af hálfu sóknaraðila er krafist úrskurðar um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi, vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 23. september 2016, um að fallast á framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda.

      Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að framselja varnaraðila til Póllands verði felld úr gildi. Þá er krafist þóknunar réttargæslumanns, sem greiðist úr ríkissjóði.

II

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að upphaf málsins hafi verið að lýst var eftir varnaraðila í Schengen-upplýsingakerfinu og hafi hann því verið boðaður til skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 25. janúar sl. Þar hafi honum verið kynnt eftirlýsingin og handtökuskipun og hafi hann staðfest að gögnin ættu við hann. Í framhaldi af skýrslutökunni hafi varnaraðili verið úrskurðaður í farbann.

                Framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda hafi borist innanríkisráðuneytinu 22. apríl sl., með vísan til samnings Evrópuráðsins um framsal sakamanna frá 1957. Beiðnin haf verið gefin út af héraðsdómstól í [...] í Póllandi 26. febrúar sl. og með henni hafi verið óskað eftir framsali varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt dómi dómstólsins frá 8. október 2013 í máli nr. II K [...]/13. Með dóminum hafi varnaraðili verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til fimm ára, fyrir að hafa framið rán í félagi við aðra þann 5. október 2012. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 280. gr. og 2. mgr. 157. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningarlaga.  Með úrskurði sama dómstóls 20. október 2014 hafi varnaraðila verið gert að afplána fangelsisrefsinguna vegna skilorðsrofa. Í fylgigögnum með beiðninni komi fram að varnaraðili hafi ekki mætt til afplánunar dómsins. Evrópsk handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur varnaraðila þann 9. október 2015 og komið hafi í ljós að hann væri búsettur á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins eigi varnaraðili eftir að afplána eitt ár, ellefu mánuði og 29 daga af tveggja ára fangelsisrefsingu sem hann hlaut með dóminum frá 8. október 2013.   

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi kynnt varnaraðila framsalsbeiðnina þann 24. maí 2016 að beiðni ríkissaksóknara. Hafi hann kannast við að framsalsbeiðnin og fylgigögn hennar ættu við hann, en mótmælt framsali. Þá hafi hann kannast við að hafa hlotið dóminn sem er grundvöllur beiðninnar. Honum hafi við skýrslutökuna verið kynnt ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Ríkissaksóknari hafi sent innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals með bréfi, dagsettu 16. ágúst 2016. Hafi skilyrði framsalslaga verið talin uppfyllt, sbr. einkum 1. mgr. og 3. mgr. 3. gr. um tvöfalt refsinæmi og lágmarksrefsingu, 5. mgr. 3. gr. varðandi grunnreglur íslenskra laga og 8. til 10. gr. um bann við endurtekinni málsmeðferð, fyrningu og meðferð annarra mála hérlendis, sem og 12. gr. laganna sem fjallar um formskilyrði.

Innanríkisráðuneytið hafi ákveðið að verða við framsalsbeiðninni með framangreindri ákvörðun. Fram komi í forsendum ráðuneytisins að ráðuneytið endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals. Ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga og metið þær svo að ekki þættu nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Einnig hafi ráðuneytið vísað til þess að varnaraðili hefði hlotið refsidóm fyrir hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það sem svo að þau hefðu hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Þá hefði varnaraðili viðurkennt að kannast við umrædd mál og væri það mat ráðuneytisins að varnaraðila hefði mátt vera fyllilega ljóst að pólsk dómsmálayfirvöld myndu krefjast afplánunar hans.

Enn fremur hafi ráðuneytið tekið fram í forsendum sínum að engin gögn hafi komið fram í málinu sem leiði til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda og meðfylgjandi gögn þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. framsalslaga. Loks hafi ráðuneytið tekið fram í forsendum sínum að samkvæmt athugasemdum við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 væru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð framsalsmáls.

III

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að fella skuli ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi þar sem framsalsbeiðnin og önnur mikilvæg gögn frá pólskum dómsmálayfirvöldum hafi ekki verið þýdd yfir á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda. Samkvæmt 1. og 3. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þingmálið íslenska og skuli skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt sé á efni þess í máli, nema dómari telji sér fært að þýða það. Þá skuli þýðing skjals að jafnaði gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Mál til úrlausnar kröfu um framsal sakamanns sæti meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Varnaraðili telji mikilvægt að íslensk stjórnvöld láti þýða frumgögn framsalsmáls yfir á íslensku, enda sé ákvörðun um framsal íþyngjandi. Að mati varnaraðila felist einnig í rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sú skylda stjórnvalda að láta þýða yfir á íslensku, af löggiltum skjalaþýðanda, mikilvæg skjöl áður en íþyngjandi ákvörðun er tekin. Varnaraðili áréttar að í framsali felist alvarleg íhlutun í frelsi einstaklings og því um afar íþyngjandi ákvörðun að ræða.

                Varnaraðili byggir einnig á því að fella skuli ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi þar sem formskilyrði 12. gr. framsalslaga séu ekki uppfyllt í málinu. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. framsalslaga skuli, með beiðni um framsal manns til fullnustu á dómi, dómurinn fylgja eða staðfest endurrit hans. Í gögnum málsins sé hins vegar aðeins að finna endurrit dómsorðs, en ekki dómurinn sem um ræðir, með tilheyrandi forsendum og röksemdum. Dómurinn í heild verði að fylgja framsalskröfu til að íslensk stjórnvöld og dómstólar geti gætt skyldu sinnar samkvæmt lögum við könnun á skilyrðum framsals. Þar sem svo sé ekki verði að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi.

                Þá byggir varnaraðili á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 3. gr. framsalslaga, sem kveður á um að aðeins sé heimilt að framselja mann ef refsiverður verknaður getur varðað fangelsi í meira en eitt ár. Eins og brotum varnaraðila sé lýst í framsalsbeiðni sé fullljóst að áverkar af völdum þeirra hafi verið minni háttar. Varnaraðili telji að um minniháttar líkamsárás hafi verið að ræða, sem falli undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og varði einungis fangelsi allt að einu ári. Þá telur varnaraðili að meint auðgunarbrot hans hafi verið smávægilegt, en hann hafi einungis tekið mikið notaðan og verðlausan farsíma í umrætt sinn. Verði framsal því ekki grundvallað á brotum hans.

                Loks byggir varnaraðili á því að hagsmunir hans af því að vera ekki framseldur hljóti að vega þyngra en hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan. Vísar varnaraðili að þessu leyti til meðalhófsreglu samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga, 7. gr. framsalslaga og athugasemda í frumvarpi til þeirra laga. Hann hafi komið hingað til lands árið 2013 í atvinnuleit og til að vera nær fjölskyldu sinni. Hann hafi síðan starfað við ýmis störf hér á landi og starfi í dag hjá fyrirtækinu [...] ehf. Hann eigi kærustu hér á landi og séu móðir hans, systir og bróðir einnig búsett á Íslandi. Þá sé hann ungur að árum og hafi ekki gerst brotlegur við lög hér á landi. Hann kveðst hafa látið yfirvöld í Póllandi vita um fyrirhugaðan flutning til Íslands á sínum tíma og ekki fengið nein sérstök fyrirmæli frá þeim í tengslum við þær fyrirætlanir. Hann hafi því komið hingað til lands í góðri trú. Telur varnaraðili að framsal hans til Póllands sé í ósamræmi við mannúðarsjónarmið og eðlilega hagsmuni framsalsbeiðanda. Því beri að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins um framsal hans til Póllands.

                Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, einkum 3., 7., 9., 12., 13. og 14. gr. laganna. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Þá vísar varnaraðili til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum 1. mgr. 2. gr. og 12. gr. laganna, og Evrópusamnings um framsal sakamanna frá árinu 1957.   

Niðurstaða

Varnaraðili krefst þess fyrir dóminum að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 23. september 2016 um að fallast á kröfu pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja hann til Póllands. Hann byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að fella skuli ákvörðunina úr gildi þar sem framsalsbeiðnin og önnur mikilvæg gögn hafi ekki verið þýdd á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda. Er í því sambandi vísað til 1. og 3. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 er ekki þörf á því að skjali sem aðili máls byggir á fylgi þýðing á íslensku ef dómari telur sér fært að þýða það. Að mati dómsins voru ekki efni til þess að láta þýða enskan texta sem fylgdi framsalsgögnum í málinu yfir á íslensku. Er þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.        

Krafa varnaraðila er að öðru leyti á því reist að ekki sé fullnægt skilyrðum laga nr. 13/1984 til að framselja hann til heimalands síns. Varnaraðili er pólskur ríkisborgar og er krafist framsals hans til fullnustu 23 mánaða og 29 daga eftirstöðva refsidóms vegna brots sem myndi varða við 252. gr. almennra hegningarlaga, sem getur varðað allt að 10 ára fangelsi, en allt að16 ára fangelsi hafi mikil hætta verið samfara ráninu. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum 1. gr. og 1. mgr. og 1. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Þá er hin dæmda refsing ófyrnd, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningalaga og 9. gr. laga nr. 13/1984.

Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskildum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum, sbr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Beiðninni fylgdi staðfest endurrit refsidómsins sem um ræðir og er með því fullnægt formskilyrðum 4. mgr. þeirrar lagagreinar. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur ástæðu til að ætla að málsmeðferð og dómsniðurstaða í framangreindu refsimáli hafi ekki fullnægt grunnreglum íslenskra sakamálalaga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagaskilyrði séu fyrir hendi.

                Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Jafnframt hefur ráðuneytið metið annars vegar hagsmuni pólskra dómsmálayfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan og hins vegar hagsmuni varnaraðila af því að synjað verði um framsal, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður ekki annað séð en að mat ráðuneytisins hafi farið fram með réttum og málefnalegum hætti. Eru ekki efni til að því mati verði hnekkt í málinu.   

                Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því staðfest ákvörðun um framsal hans til Póllands.

                Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og er hún ákveðin 797.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 23. september 2016 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Erlings Daða Emilssonar hdl., 797.940 krónur, greiðist úr ríkissjóði.