Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
Þriðjudaginn 7. júní 2011. |
|
|
Nr. 363/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi „meðan á áfrýjunarfresti stendur“, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. júlí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Hinn 3. júní 2011 var varnaraðili dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fimm mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir auðgunarbrot. Varnaraðili var viðstaddur uppkvaðningu dómsins ásamt verjanda sínum. Bókað var þá eftir honum að hann yndi dóminum. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 til að framlengja gæsluvarðhald hans. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. júlí nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl sl. hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 218/2011 frá 12. apríl sl. Þann 6. maí sl. hafi dómfellda svo verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag á sömu forsendum.
Þann 4. maí sl. hafi verið gefin út ákæra af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna 5 auðgunarbrota. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í dag í máli nr. S-698/2011 hafi dómfelldi verið dæmdur í fangelsi fyrir nokkur auðgunarbrot. Dómfelldi hafi ákveðið að una dómi.
Auk þessa sé mál lögreglu nr. 007-2010-76818 enn til meðferðar hjá ákæruvaldi, en þar sé dómfelldi grunaður um líkamsárás frá 21. nóvember 2010. Dómfelldi sé grunaður um að hafa veitt A áverka með því að ráðast á hann og að hafa ásamt tveim öðrum gerendum sparkað í höfðu A ítrekað eftir að A féll í jörðina. Dómfelldi beri við að kærandi og fleiri hafi ráðist á sig. Hann kveði A hafa ætlað að slá sig en ekki náð því og hefði hann þá slegið A. Hann neiti að hafa sparkað í A liggjandi. Tveir lögreglumenn hafi verið vitni að því þegar dómfelldi sparkaði í höfuð A. Brotið sé talið varða við 218. gr. almennra hegningarlaga og sé það nú til ákærumeðferðar.
Dómfelldi neiti að gefa upp dvalarstað sinn. Dómfelldi segist framfleyta sér með því að vinna svarta vinnu og hafi hann gert það meira og minna í dvöl sinni hér á landi eða frá því á árinu 2009.
Dómfelldi hafi hlotið tvo dóma hér á landi, auk þess sem féll fyrr í dag. Annars vegar sé það dómur héraðsdóms í máli nr. S-1169/2009, þar sem hann hafi verið sakfelldur fyrir sex þjófnaðarbrot og hins vegar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-512/2010, þar sem dómfelldi hafi hlotið 30 daga fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot, en dómurinn hafi verið skilorðsbundinn til tveggja ára. Í júní s.l. hafi verið gerð sátt við dómfellda vegna fleiri brota gegn 244. gr. alm.hgl.
Með vísan til brotaferils dómfellda á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Þetta mat lögreglustjóra hafi verið staðfest með ofangreindum dómi Hæstaréttar og liggi ekkert fyrir sem breytt geti því mati.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Niðurstaða:
Dómfelldi sem er litháískur ríkisborgari hefur dvalið hér á landi frá árinu 2008. Hann hefur þó neitað að gefa upp heimilisfang sitt og gefur ekki upp hvort eða hvar hann er með atvinnu. Er það mat lögreglu að dómfelldi hafi framfærslu sína af afbrotum. Fyrir liggur að með ákvörðun Útlendingastofnunar sem birt hefur verið dómfellda, hefur honum verið vísað brott frá Íslandi með skírskotun til almannaöryggis skv. 42. gr. útlendingalaga nr. 96/2002.
Til meðferðar er hjá ákæruvaldi líkamsárásarmál þar sem dómfelldi er grunaður um líkamsárás í nóvember 2010.
Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins að öðru leyti er fallist á það að líkur séu til þess að dómfelldi haldi áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því er fallist á að skilyrðum til c liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. júlí nk. kl. 16.00.
.